Hæstiréttur íslands

Mál nr. 412/2005


Lykilorð

  • Ráðningarsamningur
  • Skaðabætur
  • Framlagning skjals
  • Málsástæða
  • Sératkvæði


Fimmtudaginn 2

 

Fimmtudaginn 2. mars 2006.

Nr. 412/2005.

Kaupás hf.

(Hákon Árnason hrl.)

gegn

Teiti Lárussyni

(Guðmundur B. Ólafsson hrl.)

 

Ráðningarsamningur. Skaðabætur. Framlagning skjala. Málsástæður. Sératkvæði.

T réði sig til starfa sem starfsmannastjóri K með ráðningarsamningi 13. ágúst 1999, en hann hafði starfað sem atvinnuráðgjafi félagsins framan af árinu. Samkvæmt 7. gr. samningsins átti T kost á að kaupa hlutafé í K og var tilgreint að gera skyldi sérstakan samning um þau kaup fyrir 1. maí 1999. Talið var að báðir samningsaðilar hefðu gert ráð fyrir að T nyti sérstaks frests til að skýra K frá því hvort hann hygðist nýta kauprétt sinn, þó að tilgreining frestsins hefði misfarist við samningsgerð. Með hliðsjón af sex ráðningarsamningum við yfirmenn K frá árinu 1999, sem lágu fyrir Hæstarétti og T kvaðst hafa gengið frá, var miðað við að T hafi orðið að segja til um það fyrir árslok 1999 ef hann vildi neyta kaupréttarins. Þar sem T hafði starfað sem sérfræðilegur ráðgjafi við gerð annarra ráðningarsamninga K við yfirmenn sína gat honum ekki dulist nauðsyn þess að hann segði til með sannanlegum hætti innan frestsins ef hann óskaði eftir að nýta sér kaupréttinn. Ósannað var að hann hefði gert það og var K því sýknað af kröfu hans.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 13. september 2005. Hann krefst aðallega sýknu af kröfu stefnda, en til vara að hún verði lækkuð. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I.

Áfrýjandi hefur lagt fyrir Hæstarétt sex ráðningarsamninga sem hann gerði við nafngreinda yfirmenn fyrirtækisins, aðra en stefnda, á árinu 1999. Þessir samningar voru allir gerðir eftir sama samningsformi og samningur málsaðila og voru þeir nær orðrétt eins í flestum megingreinum. Í þeim öllum var að finna sambærilegt ákvæði um kauprétt hlutabréfa að öðru leyti en því að fjárhæð kaupréttarins var mismunandi og frestur fyrir starfsmenn til að neyta réttarins var ekki sá sami í öllum samningunum. Fjórir samninganna voru gerðir 31. mars 1999 og var fresturinn í þeim tilgreindur til 1. maí það ár, eins og raunin var í samningi málsaðila, þó að hann væri ekki gerður fyrr en 13. ágúst 1999. Einn samninganna var undirritaður 27. apríl 1999 og var fresturinn þar til 1. júní sama ár. Loks var einn samningur dagsettur 30. september 1999. Í honum var umræddur frestur ákveðinn þar til fjórum mánuðum eftir að starfsmaðurinn hóf störf. Á forsíðu samninganna fimm, sem gerðir voru á undan samningi stefnda, var skráð: „Samningur þessi var saminn af Teiti Lárussyni atvinnuráðgjafa.“ Á samninginn frá september 1999 var sama áritun, nema starfsheiti stefnda var þar sleppt, greinilega vegna þess að hann hafði þá hafið föst störf hjá áfrýjanda.

Stefndi hefur mótmælt framlagningu þessara skjala, þar sem þau hafi verið lögð fram of seint í málinu, og talið að ekki mætti líta til þeirra við úrlausn þess. Ljóst er að áfrýjandi lagði skjölin fram til stuðnings þeirri málsástæðu að samning málsaðila beri að túlka svo að stefnda hafi borið að segja til þess innan ákveðins stutts frests frá samningsgerð ef hann vildi neyta réttar síns til að kaupa hlutabréf í áfrýjanda. Áfrýjandi hefur byggt á þessari málsástæðu frá upphafi. Hann lagði skjölin fyrir Hæstarétt innan þess frests, sem til þess var gefinn samkvæmt 1. mgr. 160. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og átti stefndi kost á úrræðum til að bregðast við þeim með gagnaöflun af sinni hálfu hafi hann talið ástæðu til. Verður andmælum stefnda við skjölum þessum því hafnað.

II.

Í málinu er óumdeilt að stefndi starfaði sem atvinnuráðgjafi fyrir áfrýjanda framan af ári 1999 áður en hann réðst til starfa hjá honum með ráðningarsamningnum 13. ágúst það ár. Í aðilaskýrslu sinni fyrir héraðsdómi kvaðst stefndi hafa gengið frá öllum ráðningarsamningum fyrir alla yfirmenn áfrýjanda, „og þegar ég hef störf þá er útbúinn sams konar samningur þannig að hann er bara copy paste nánast, ef ég má nota það orð, inni í þessum samningi. Þannig að það var náttúrulega ekkert hægt að styðjast við dagsetningar; þær áttu bara að breytast þá þegar það var gengið frá þessu.“ Samkvæmt þessu er ljóst að báðir aðilar samningsins gerðu ráð fyrir að stefndi skyldi njóta sérstaks frests til að skýra áfrýjanda frá hvort hann hygðist nýta sér kauprétt sinn, þó að tilgreining frestsins hafi misfarist við samningsgerðina. Er það augljóslega vegna þess að einn eldri samninganna hefur verið notaður í ritvinnslu í tölvu til að skrá samningstextann og gleymst hefur að setja þar inn nýja dagsetningu. Er þá haft í huga að við samningsgerð af þessu tagi, þar sem starfsmanni er við ráðningu í starf heimilað að kaupa hlutafé á nafnverði, er eðlilegt að samið sé um afmarkaðan frest honum til handa til að segja til um hvort hann hyggist nýta slíkan rétt, þar sem verðmæti hlutafjárins er breytingum háð eftir því hvernig til tekst í rekstrinum. Með því að meta vafa um lengd frestsins stefnda í hag þykir með hliðsjón af hinum samningunum sex, sem stefndi kveðst hafa gengið frá, mega miða við að hann hafi orðið að segja til um það fyrir árslok 1999 ef hann vildi neyta hins umsamda réttar til kaupa á hlutafé. 

Stefndi hafði starfað sem sérfræðilegur ráðgjafi við gerð annarra ráðningarsamninga áfrýjanda við yfirmenn sína. Gat honum ekki dulist nauðsyn þess að hann segði til með sannanlegum hætti innan frestsins, ef hann óskaði eftir að nýta sér kaupréttinn. Það gerði hann ekki og er ósannað í málinu að hann hafi á því tímabili komið slíkri tilkynningu á framfæri við áfrýjanda.

Með vísan til þess sem að framan greinir verður áfrýjandi sýknaður af kröfu stefnda, en rétt þykir með vísan til 3. mgr. 130. gr. laga nr 91/1991 að fella niður málskostnað á báðum dómstigum.

Dómsorð:

Áfrýjandi, Kaupás hf., er sýkn af kröfu stefnda, Teits Lárussonar.

Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.

 

                                                                           


Sératkvæði

Ólafs Barkar Þorvaldssonar

Ég er sammála meirihluta dómenda um að stefndi, sem áður hafði starfað fyrir áfrýjanda sem atvinnuráðgjafi, hefði við gerð ráðningarsamnings 13. ágúst 1999 mátt túlka umþrætt ákvæði 7. gr. samningsins á þann veg að hann yrði innan eðlilegs tíma að tilkynna áfrýjanda hvort hann ætlaði að nýta sér kauprétt sinn. Við munnlegan flutning málsins fyrir Hæstarétti kom fram að aðilar eru sammála um að rétt sé að túlka ákvæðið á þann veg að einföld tilkynning stefnda myndi duga til í þessu sambandi. Heldur stefndi því fram að hann hafi margítrekað óskað eftir því að nýta kauprétt sinn, bæði við Þorstein Pálsson þáverandi forstjóra áfrýjanda og Bjarka Júlíusson þáverandi framkvæmdastjóra fjármálasviðs áfrýjanda áður en hann sendi Þorsteini þau tölvubréf sem rakin eru í héraðsdómi og rituð voru rúmum tveimur árum áður en Norvik hf. gerði tilboð í hlutabréf áfrýjanda. Bera þau bréf enda með sér að hann hafi áður sett fram slíkar óskir munnlega. Framburður Þorsteins Pálssonar fyrir dómi er afar óljós. Þó staðfestir hann að stefndi hafi munnlega borið fram óskir í þessa veru, annað hvort í eigin persónu eða að Bjarki hafi komið þessum óskum stefnda á framfæri við sig. Af framburði Þorsteins verður ekki ráðið hvenær honum bárust þessi erindi, en Bjarki staðfesti að stefndi hafi tvisvar til þrisvar sinnum borið upp slíkt erindi við sig. Nefna hvorugir tímasetningar í þessu sambandi. Samkvæmt 12. gr. ráðningarsamningsins var Bjarki næsti yfirmaður stefnda og var hann því í stakk búinn til að sinna slíku erindi stefnda. Hins vegar kvaðst Bjarki hafa vísað stefnda á Þorstein, sem stefndi hafi haft „mjög góðan aðgang að“ og kvaðst Bjarki telja þetta málefni þannig hafa verið „í mjög eðlilegum farvegi í rauninni.“

Samkvæmt framanrituðu létu yfirmenn stefnda hjá líða að svara ósk hans um nýtingu kaupréttar samkvæmt ráðningarsamningnum og hvergi kom fram hjá þeim að þeir hefðu talið hana vera of seint fram borna. Verður að telja að með þessu athafnaleysi þeirra hafi í raun verið staðfestur sá skilningur stefnda á samningnum að frestur til að nýta kauprétt hafi þá ekki verið liðinn. Að þessu virtu, en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms, vil ég staðfesta þá niðurstöðu hans að stefndi hafi ekki sýnt af sér slíkt tómlæti við að halda fram rétti sínum að varði hann réttarspjöllum.

Þá er þess að geta að sú málsástæða áfrýjanda fyrir Hæstarétti að lækka beri kröfu stefnda á þeim grundvelli að vextir skuli reiknast frá síðara tímamarki en því sem stefndi miðar við var ekki höfð uppi í héraði og kemst hún ekki að fyrir Hæstarétti.

Með þessum athugasemdum en að öðru leyti með skírskotun til forsendna hins áfrýjaða dóms tel ég að staðfesta eigi hann, þó þannig að vegna vafaatriða sem uppi eru í málinu tel ég eins og meirihluti dómenda rétt að fella niður málskostnað á báðum dómstigum.

 

                                     

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 1. júlí 2005.

I

Mál þetta var höfðað 11. mars 2005 og dómtekið 23. júní 2005.

Stefnandi er Teitur Lárusson, kt. 060648-2399, Grenimel 35, Reykjavík en stefndi er Kaupás hf., kt. 711298-2239, Reykjavík.

Dómkröfur stefnanda eru að stefndi verði dæmdur til greiðslu 3.395.198 króna ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 frá 1. janúar 2004 til greiðsludags.  Þá krefst stefnandi málskostnaðar að viðbættum virðisaukaskatti.

Dómkröfur stefnda eru  að hann verði sýknaður af kröfum stefnanda.  Til vara krefst stefndi verulegrar lækkunar á dómkröfum stefnanda.  Þá krefst stefndi málskostnaðar.

II

Stefnandi hóf störf hjá stefnda 20. ágúst 1999 sem starfsmannastjóri.  Var gerður ráðningarsamningur um kjör hans og er hann dagsettur 13. ágúst 1999.  Af hálfu stefnda rituðu undir ráðningarsamninginn, Þorsteinn Pálsson forstjóri og Bjarki Júlíusson, framkvæmdastjóri fjármálasviðs, sem jafnframt var næsti yfirmaður stefnanda.

Í 7. gr. ráðningarsamningsins er fjallað um launakjör stefnanda.  Þar er tilgreint hver skuli vera mánaðarlaun stefnanda, fjárhæð ökutækjastyrks, að vinnuveitandi slysa- og líftryggi starfsmanninn, leggi honum til GSM síma og greiði rekstur hans, leggi starfsmanni til tölvu og prentara sem starfsmaður hafi til afnota heima hjá sér.   Þá er þar einnig tilgreint að starfsmaður hafi ákveðinn afslátt af vörukaupum hjá stefnda og hafi réttindi til að sækja námskeið til að viðhalda þekkingu sinni á málefnum sem tengist starfi hans.  Þá segir þar að laun hækki að öðru leyti í samræmi við almennar hækkanir kjarasamninga eða eftir sérstökum ákvörðunum vinnuveitanda. 

Þá er í 7. gr. samningsins einnig kveðið á um að starfsmaður skuli eiga kost á kaupum á hlutafé í stefnda að nafnverði 1.120.000 krónur.  Um þau kaup skuli gerður sérstakur kaupsamningur fyrir 1. maí 1999 þar sem kaupin verði nánar útfærð og gert ráð fyrir að félagið haldi bréfunum í 3 ár þannig að starfsmaður hafi ekki ráðstöfunarrétt yfir þeim fyrr en að loknum þriggja ára starfstíma.  Ljúki starfi hans innan þess tíma öðlist hann hlutfallslegan ráðstöfunarrétt til bréfa en þó ekki fyrr en starfsmaður hafi starfað hjá vinnuveitanda í 18 mánuði.

Óumdeilt er að slíkur kaupsamningur var aldrei gerður milli aðila máls þessa og eignaðist stefnandi því aldrei hlutabréf í stefnda.  Stefnandi kveðst hins vegar margoft hafa óskað eftir því við þáverandi forstjóra stefnda, Þorstein Pálsson, að gengið yrði frá þessum hluta ráðningarsamningsins en það hafi ekki borið árangur.   Þá kveðst stefnandi ekki hafa fengið umræddan ráðningarsamning í hendur eftir að hann var undirritaður af hálfu stefndu, fyrr en um það leyti sem umræddur Þorsteinn hafi verið að hætta störfum hjá stefnda í október 2001. 

Nýr forstjóri, Ingimar Jónsson, tók við starfi hjá stefnda eftir að Þorsteinn Pálsson hætti og gegndi því starfi fram í nóvember 2003.  Er óumdeilt að í kjölfar þess að nýir stjórnendur tóku við stefnda var farið í miklar aðhaldsaðgerðir hjá fyrirtækinu.  Fólust þær meðal annars í uppsögnum fjölda starfsmanna auk þess sem lykilmenn í fyrirtækinu tóku á sig launaskerðingu.  Stefnandi var einn þeirra sem þurfti að sæta því að í ársbyrjun 2003 var ökutækjastyrk hans sagt upp auk þess sem ekkert varð af því að 3,4% launahækkun, sem fyrirhuguð var þann 1. janúar 2003, kæmi til framkvæmda.

Stefnandi kveðst hafa látið þessa kjaraskerðingu yfir sig ganga þar sem hann hafi óttast að annars gæti hann átt von á því að verða sagt upp.  Hafi hann af sömu ástæðum ákveðið að bíða með að þrýsta á um að stefndi efndi ákvæði ráðningarsamningsins um kauprétt hans á hlutafé í stefnda.

Stefnanda var svo sagt upp störfum hjá stefnda í júlí 2003 sem tók gildi 1. ágúst 2003 og kveðst hann hafa áréttað kauprétt sinn við Bjarka Júlíusson þegar gengið var frá starfslokasamningi við hann.

Þann 27. október 2003 var undirritað kauptilboð um kaup Norvikur hf., núverandi eiganda stefnda, á 72,51% hlutafjár í stefnda.  Seljandi hlutafjárins var Landsbanki Íslands hf. en aðaleigandi Norvikur hf. er Jón Helgi Guðmundsson, stjórnarformaður stefnda.  Í kjölfar þeirra kaupa hafði Norvik hf. hug á því að eignast stefnda að fullu og gerði öðrum hluthöfum tilboð í hlutabréf þeirra í félaginu og var tilboðsverðið 4,419548 krónur fyrir hverja krónu nafnverðs hlutafjár í stefnda.  Kemur fram í tilboðsyfirliti frá Landsbankanum sem sá um framkvæmd yfirtökutilboðsins að samkvæmt 24. og 25. gr. laga nr. 2/1995 um hlutafélög geti hluthafi sem eigi meira en 9/10 hlutafjár í félagi og stjórn viðkomandi félags ákveðið að aðrir hluthafar sæti innlausn á hlutum sínum í félaginu.

Stefnandi sendi stefnda bréf 10. janúar 2004 þar sem hann fór fram á uppgjör vegna starfsloka hans hjá stefnda þar sem meðal annars var gerð krafa um að gengið yrði til uppgjörs vegna umdeilds kaupréttar.  Með bréfi 12. janúar 2004 svaraði stefndi og hafnaði kröfum stefnanda að hluta meðal annars kröfu hans um uppgjör vegna kaupréttarins.  Munu aðilar hafa gengið frá uppgjöri vegna starfsloka stefnanda  31. mars 2004 og hafnaði stefndi því alfarið að stefnandi ætti einhverjar kröfur vegna fyrrgreinds kaupréttarákvæðis í ráðningarsamningi. Lögmaður stefnanda sendi stefnda bréf 15. júlí 2004 þar sem krafist var að gengið yrði til samninga um uppgjör á kauprétti stefnanda samkvæmt framanskráðu og með bréfi lögmanns stefnda 3. september 2004 var þeirri kröfu hafnað.

Snýst ágreiningur aðila um framangreint ákvæði í ráðningarsamningi milli aðila um kauprétt að hlutafé í stefnda.  Stefnandi telur sig hafa orðið fyrir tjóni þar sem stefndi hafi ekki efnt það ákvæði ráðningarsamningsins en stefndi hins vegar telur að ákvæðið þýði aðeins að stefnandi hafi átt þess kost að kaupa hlutafé innan ákveðins tíma sem sé löngu liðinn og þannig hafi stefnandi fyrirgert rétti sínum samkvæmt ákvæðinu.

III

Stefnandi byggir kröfur sínar á ákvæði 7. gr. ráðningarsamningsins þar sem komi fram að starfsmaður skuli eiga þess kost að kaupa á nafnverði hlutafé sem nemi allt að 0,16% af heildarhlutafé sem áætlað hafi verið 700 milljónir króna eða hlutafé að fjárhæð 1.120.000 krónur.  Í samningnum hafi einnig verið kveðið á um að stefnandi fengi ekki fullan ráðstöfunarrétt fyrr en að þremur árum liðnum en þá gæti hann ráðstafað bréfunum að vild.  Gert hafi verið ráð fyrir að gerður yrði sérstakur kaupsamningur þar sem kaupin yrðu nánar útfærð.  Hafi stefnandi ítrekað reynt að fá efndir á umræddu ákvæði starfssamningsins í samtölum og áminningum í tölvupósti við þáverandi forstjóra stefnda, Þorstein Pálsson, og ávallt fengið þau svör að verið væri að vinna í málinu.

Þann 11. nóvember 2003 hafi Norvik ehf. gert öllum hluthöfum í stefnda kauptilboð í bréfin á genginu 4,419548 fyrir hverja krónu nafnverðs.  Hafi allir starfsmenn sem áttu hlutabréf á grundvelli starfssamnings selt sína hluti enda í raun um innlausnarskyldu að ræða.  Við uppgjör hafi verið miðað við uppreiknað verð að frádregnu kaupverði en til útreiknings á kaupverði hafi verið miðað við vísitölutryggt skuldabréf með lægstu vöxtum Seðlabanka Íslands, þó ekki hafi, eftir því sem stefnandi komist næst, verið gefin út slík skuldabréf.

Stefndi hafi ekki staðið við starfssamning sinn gagnvart stefnanda og hafi því valdið honum tjóni sem nemi þeim mismun á nafnverði bréfa og söluandvirði í lok árs 2003 að frádregnu kaupverði.

Skuldabréf í samræmi við kjör annarra starfsmanna reiknist miðað við vísitölu Hagstofu Íslands í ágúst 1999, er stefnandi hafi hafið störf, sem hafi verið 189,5 stig og í desember 2003 hafi hún verið 230 stig.  Verðmæti skuldabréfs sé því 1.359.366 auk vaxta samkvæmt Seðlabanka Íslands að fjárhæð 195.329 krónur.  Mismunurinn sé því 4.949.893 – 1.554.695 eða samtals 3.395.198 krónur.

Stefnandi kveðst byggja kröfur sínar á ráðningarsamningi aðila, samningalögum nr. 7/1936, meginreglum kröfuréttar og skaðabótalögum.  Kröfur um málskostnað styður stefnandi við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 4. tl. 129. gr.

IV

Stefndi kveðst einkum byggja sýknukröfu sína á því að orðalag ráðningarsamnings stefn­anda beri með sér að ekki hafi verið um að ræða beinan kauprétt honum til handa, heldur að hann skyldi eiga þess kost að kaupa hlutafé í stefnda bæri hann sig eftir því fyrir tilskilinn tíma.  Þrátt fyrir að tímamark það sem til­greint hafi verið í ráðningarsamningi aðila beri með sér að ómögulegt hafi verið að upp­fylla það eitt og sér samkvæmt orðanna hljóðan verði samningurinn ekki túlk­aður með öðrum hætti en svo, í ljósi þess tímamarks, að stefnandi hefði átt að bera sig eftir gerð kaupsamnings um hlutafé í stefnda í beinu framhaldi af gerð ráðningar­samningsins, eða að minnsta kosti mjög fljótlega eftir gerð hans, hygðist stefn­andi nýta sér þennan kost.  Stefnandi hafi ekki sýnt fram á að svo hafi verið.

Að mati stefnda sýni tölvupóstur stefnanda til Þorsteins Pálssonar, þáverandi forstjóra stefnda, í ágúst, september og október 2001, fátt annað en að stefnandi hafi talið tiltekin atriði í tengslum við starf sitt ófrágengin án þess þó að sýnt sé fram á viðbrögð þáverandi forstjóra stefnda við umleitunum stefnanda.  Þá sé í tölvu­bréfunum vísað til þess að ekki sé búið að undirrita ráðningarsamning stefnanda, en það virðist benda til að tölvupóstarnir hafi verið hluti af viðræðum um endurskoðun á kjörum stefnanda hjá stefnda, enda liggi ótvírætt fyrir í málinu ráðningarsamningur stefnanda dagsettur 13. ágúst 1999 tveimur árum áður en stefnandi riti tölvubréfin til þáverandi forstjóra.  Að mati stefnda sé óljóst hvort umrædd krafa um að gengið yrði frá kaupréttar­málum hans tengdust mögulega hugmyndum um nýjan og breyttan ráðningar­samning milli aðila sem þó hafi ekki verið gengið frá.  Því hafi stefnandi ekki sýnt fram á með fram­lagningu tölvubréfanna að hann hafi ítrekað gengið á eftir því við þáverandi stjórnendur stefnda að gerður yrði kaup­réttarsamningur við hann í samræmi við ákvæði 7. gr. ráðningarsamn­ingsins frá 13. ágúst 1999.

Verði framangreind tölvubréf talin vísa til ákvæðis 7. gr. ráðningarsamningsins frá 13. ágúst 1999 telur stefndi að með því að setja fram kröfu um gerð kaupréttar­samnings svo löngu eftir að stefnandi hóf störf og svo löngu eftir að hið tiltekna tímamark í ráðningarsamningnum hafi verið liðið hafi stefn­andi firrt sig öllum rétti til að setja fram kröfu þessa efnis.  Hið sama gildi um þá kröfu stefnanda sem hann hafi sett fram í bréfi til stjórnarformanns stefnda 10. janúar 2004, um að honum hafi aldrei verið boðið að ganga formlega frá þessum kaupum og þannig séu þau ófrágengin gangvart stefnanda.  Þessari kröfu hafi stjórnarformaður stefnda hafn­að í bréfi sínu til stefnanda 12. janúar 2004.  Að mati stefnda gæti ástæða þess að stefnanda hafi aldrei verið boðið að ganga formlega frá kaupunum falist í því að stefnandi hefði aldrei, eftir að gengið hafi verið frá ráðningarsamningi, borið sig eftir því innan hæfilegs tíma að gerður yrði kaupréttarsamningur við hann.

Þá veki það enn fremur athygli að stefnandi virðist ekki hafa viðrað óskir sínar um gerð kaupréttarsamnings við Ingimar Jónsson, sem tekið hafi við starfi forstjóra stefnda  af Þorsteini Pálssyni í október 2001 og gegnt því fram í nóvember 2003.  Þetta staðfesti Ingimar í yfirlýsingu sinni 27. apríl 2005.  Auk þess staðfesti Ingimar að á starfstíma hans hafi með ýmsum hætti verið gengið frá kaupréttarmálum fjölda starfsmanna stefnda og hefði stefnanda, sem verið hafi for­stöðumaður starfsmannasviðs stefnda, verið í lófa lagið að setja fram kröfur sínar í tengslum við slík uppgjör.  Stefnandi hafi hins vegar kosið að krefjast gerðar kaupréttarsamnings fyrst þegar verðmæti hluta í stefnda hafði aukist umtals­vert með kaupum Norvikur hf. á stefnda.  Og jafnvel þá hafi stefnandi beðið í rúma tvo mánuði með að koma kröfu sinni um kauprétt á hlutum á framfæri við hina nýju eigendur stefnda.  Byggir stefndi þannig á því að jafnvel þótt stefnandi verði ekki talinn hafa misst rétt sinn vegna tómlætis um haustið 2001, þegar umræddir tölvupóstar voru sendir, þá hafi hann misst þennan rétt með því að fylgja honum ekki  frekar eftir fyrr en í ársbyrjun 2004.

Að teknu tilliti til framangreinds telur stefndi að stefnandi verði að bera hallann af því tómlæti sem hann hafi sýnt varðandi þann kaupréttarsamning sem honum hafi staðið til boða að óska eftir að gera á árinu 1999.  Hið meinta tjón stefnanda sé þannig til komið af hans eigin aðgerðarleysis, og geti ekki verið á ábyrgð stefnda eða nýrra eigenda hans.

Varðandi varakröfu sína um lækkun á dómkröfum stefnanda bendi stefndi á að í stefnu sinni vísi stefnandi til kauptilboðs Norvikur hf. til hluthafa sem átt hafi hlutabréf í stefnda, 11. nóvem­ber 2003 og að allir starfsmenn sem átt hafi hlutabréf á grundvelli starfssamnings hafi selt sína hluti.  Samkvæmt upplýsingum núverandi stjórnenda stefnda hafi reyndar aðeins verið einn starfsmaður í þessum hluthafahópi, en búið hafi verið að ganga frá uppgjöri við aðra starfsmenn í hlut­­hafahópnum áður en að eigendaskiptum hafi komið.  Hinum nýju eigendum stefnda hafi enn fremur á þeim tímapunkti ekki verið kunnugt um að starfs­menn stefnda væru í hópi hluthafa, en Landsbanki Íslands hf. hafi alfarið séð um kaup á hlutabréfunum.  Því sé á engan hátt öruggt hvaða verð stefnandi hefði fengið fyrir þann hlut sem samningur um kauprétt hefði mögulega getað fært honum, og mótmæli stefndi því verði sem stefnandi leggi til í stefnu.  Rétt sé að benda sérstaklega á að með öllu sé óvíst hvernig samningur um kauprétt hefði hljóðað, hefði hann verið gerður, sem og hvaða réttindi stefnanda hefðu verið tryggð með honum. Einungis sé hægt að hafa til viðmiðunar þau atriði sem fram komi í ráðningarsamningi stefnanda, þ.e. ákvæði um sennilegt nafnverð og ráðstöfunar­rétt að þrem árum liðnum.

Stefndi telji því útreikning stefnanda á meintu tjóni sínu byggða á forsendum sem ekki standist og sé því ekki hægt að hafa til viðmiðunar.  Sé það mat stefnda að með útreikningi í stefnu og þeim fylgiskjölum sem stefnandi hafi lagt fram sé fjarri því að stefnandi hafi sannað tjón sitt.

Um lagarök vísar stefndi til meginreglna samninga- og kröfuréttar, meðal annars um skuldbindingargildi samninga, tómlæti, svo og um samningsfrelsi.  Þá sé vísað til meginreglna kröfu­réttar og réttarfars, meðal annars um sönnun fyrir tjóni.  Kröfu sína um málskostnað styður stefndi við 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991.

V

Stefnandi byggir kröfur sínar á ákvæði í 7. gr. ráðningarsamnings aðila þar sem segir: „Starfsmaður skal eiga kost á að kaupa á nafnverði hlutafé í Kaupás hf. sem nemur 0,16% af heildarhlutafé þess, sem áætlað er kr. 700 milljónir og nafnverð þess sem starfsmaður gæti keypt því kr. 1.120.000.-.  Um þessi kaup skal gerður sérstakur kaupsamningur fyrir 1. maí 1999 þar sem kaupin verða nánar útfærð, en gert er ráð fyrir að félagið haldi bréfunum í 3 ár þannig að starfsmaður hafi ekki ráðstöfunarrétt yfir þeim fyrr en að loknum þriggja ára starfstíma.   Ljúki starfi hans innan þess tíma öðlast hann hlutfallslegan ráðstöfunarrétt til bréfa en þó ekki fyrr en starfsmaður hefur starfað hjá vinnuveitanda í 18 mánuði.” 

Óumdeilt er að ekki var gengið frá kaupum stefnanda á hlutafé í stefnda samkvæmt framangreindu ákvæði ráðningarsamningsins og greinir aðila á um þýðingu þessa ákvæðis.  Er ekki ágreiningur um að í ákvæði þessu felist réttur stefnanda til að kaupa tilgreint hlutafé en stefndi telur að þar sem stefnandi hafi ekki gengið eftir því í beinu framhaldi eða mjög fljótlega eftir gerð samningsins hafi hann fyrirgert rétti sínum til þessara kaupa og hafi hann beðið af því tjón beri hann sjálfur ábyrgð á því.

Eins og greinir í ákvæðinu skyldu aðilar gera sérstakan kaupsamning um hlutafjárkaup fyrir 1. maí 1999.  Eru aðilar sammála því að sú dagsetning sé röng enda ljóst að þegar ráðningarsamningurinn var undirritaður og stefnandi ráðinn til stefnda var sá tími liðinn.  Var því ekki unnt að fullnægja því skilyrði í ráðningarsamningi stefnanda að gera kaupsamning um kaup hans á hlutafé í stefnda fyrir 1. maí 1999.  Er því ljóst að umrædd dagsetning er röng og stendur í samningnum fyrir mistök.  Hefur hún því ekkert gildi og hefur stefndi ekki sýnt fram á það með haldbærum gögnum að umdeilt ákvæði 7. gr. ráðningarsamningsins um kauprétt beri að túlka þannig að stefnandi hefði þurft innan ákveðins tíma að óska eftir því að gerður væri við hann kaupsamningur um hlutafé, vildi hann nýta sér þennan rétt sinn og allsendis óljóst hver sá tímafrestur átti að vera.  Verður stefndi að bera hallann af þeim sönnunarskorti.

Stefnandi hefur haldið því fram að hann hafi margsinnis óskað eftir því við yfirmenn sína að gengið yrði formlega frá kaupum hans á hlutabréfum í stefnda í samræmi við 7. gr. ráðningarsamningsins.  Fyrst hafi hann óskað eftir því við Þorstein Pálsson í ágúst, september og október 2001 og síðar við Bjarka Júlíusson í tengslum við starfslok hans í júlí 2003. 

Þótt ekki liggi fyrir svo óyggjandi sé að stefnandi hafi margsinnis óskað eftir þessu þá fá fullyrðingar hans, um að hann hafi í einhver skipti sett fram óskir af þessu tagi, stuðning í framlögðum útskriftum af tölvupóstsamskiptum stefnanda við Þorstein Pálsson.  Í þeim fyrsta sem dagsettur er 22. ágúst 2001 kemur fram að stefnandi óskar eftir að fá að spjalla við Þorstein varðandi frágang og undirritun á ráðningarsamningi sem hafi verið hjá Þorsteini síðan í fyrrasumar.  Upplýsti stefnandi það fyrir dómi að þarna hafi hann verið að vísa til þess að ráðningarsamningurinn hefði verið hjá Þorsteini frá því í ágúst 1999.  Í tölvupósti stefnanda til Þorsteins 21. september 2001 minnir stefnandi á sig varðandi það sem þeir hafi rætt um nokkrum dögum áður varðandi undirritun Þorsteins á ráðningarsamninginn og kaupréttarmálin.  Í tölvupósti 1. október 2001 minnir stefnandi Þorstein á undirritun hans á ráðningarsamninginn og kaupréttarmálin, þar sem styttist í að Þorsteinn hætti hjá fyrirtækinu.

Tilvísun í tölvupósti þessum um undirritun á ráðningarsamningi styður það sem stefnandi heldur fram að hann hafi ekki fengið umræddan ráðningarsamning í hendur fyrr en haustið 2001 og er ekkert fyrirliggjandi um að hér sé verið að vísa til þess að til umfjöllunar hafi verið að gera nýjan ráðningarsamning. 

Þá styður framburður þeirra Þorsteins og Bjarka fyrir dómi að stefnandi hafi sett fram óskir um viðræður vegna kaupréttarákvæðis ráðningarsamningsins, en Þorsteinn bar fyrir dómi að hann rámaði í að annað hvort stefnandi eða Bjarki hefði nefnt þetta við sig, líklega á þeim tíma sem hann var að hætta hjá fyrirtækinu og Bjarki bar að stefnandi hefði nefnt þetta við sig og hann vísað honum á að ræða þessi mál við Þorstein.  Bjarki kvaðst hins vegar ekki muna hvenær þetta hafi verið. 

Að því virtu sem nú hefur verið rakið er ljóst að stefnandi óskaði eftir því, ekki síðar en í tölvupósti til Þorsteins Pálssonar 21. september 2001, að umdeild kaupréttarmál yrðu rædd.  Ber stefnandi ekki ábyrgð á því að þeirri ósk hans var ekki sinnt og er vandséð að stefnandi hafi haft einhver önnur úrræði til að fá stefnda til að efna umrætt ákvæði ráðningarsamningsins en að óska eftir því að fá yfirmenn sína til viðræðna um málið eins og hann sannanlega reyndi.  Verður stefndi því ekki sýknaður á þeim forsendum að stefnandi hafi ekki borið sig eftir því að frá þessum málum væri gengið formlega. 

Þar sem slegið hefur verið föstu að í kaupréttarákvæði ráðningarsamningsins voru engin tímamörk á því hvenær stefnandi gat sett fram kröfu sína var krafa stefnanda ekki of seint fram komin þegar hún var sett fram í september 2001 og ekki verður fallist á að hún hafi þá verið niður fallin fyrir tómlæti.

Eins og rakið hefur verið stóðu nýir stjórnendur, sem tóku við rekstri stefnda í lok árs 2001, fyrir miklum aðhaldsaðgerðum sem bitnuðu á stefnanda á þann hátt að hann þurfti að sæta því að taka á sig kjaraskerðingu.  Er því trúverðug sú skýring stefnanda á því hvers vegna hann hafi ekki gert þær kröfur til nýs forstjóra, Ingimars Jónssonar, að gengið væri formlega frá kaupum hans á hlutafé í stefnda í samræmi við ákvæði 7. gr. ráðningarsamningsins.  Stefnandi kveðst hafa rætt þessi mál næst við Bjarka í tengslum við starfslok hans í júlí 2003 en formlega setti hann svo fram kröfu byggða á margnefndu kaupréttarákvæði ráðningarsamningsins um fimm mánuðum eftir að hann lét af störfum hjá stefnda.  Þegar allt framangreint er virt þykir stefnandi ekki hafa sýnt af sér tómlæti við að halda umdeildum kröfum sínum til haga og hefur hann því ekki fyrirgert rétti sínum samkvæmt hinu umdeilda ákvæði ráðningarsamningsins á þeim forsendum.

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum í málinu voru flestir lykilstarfsmenn stefnda ráðnir þegar í upphafi rekstrar fyrirtækisins á tímabilinu febrúar til apríl 1999.  Virðist sem gengið hafi verið frá kaupsamningum um hlutafé strax gagnvart flestum þeim starfsmönnum sem áttu kauprétt þótt skrifleg gögn þess efnis liggi ekki fyrir í málinu.  Þá bera gögn málsins með sér að mismunandi háttur hafi verið á því hvernig starfsmenn sem nýttu sér kaupréttinn greiddu fyrir hann en Bjarki Júlíusson fullyrti það fyrir dómi að kaupendur hlutafjár hafi greitt fyrir það með skuldabréfum.  Ingimar Jónsson taldi hins vegar að það hefði verið gert með skuldaviðurkenningu þótt ekki gæti hann fullyrt um það.  Þorsteinn Pálsson kvaðst ekki muna hvernig þetta hafi verið varðandi einstaka starfsmann en hvað hann sjálfan varðaði hafi ekki verið gefið út skuldabréf og hafi verið gengið frá þessum málum gagnvart honum þegar hann hætti störfum hjá stefnda.

Í málinu liggja ekki fyrir gögn um hvernig uppgjöri var háttað varðandi sölu þeirra starfsmanna sem höfðu nýtt sér kauprétt á hlutafé sínu en fram kom hjá Bjarka Júlíussyni að það hafi verið með ýmsum hætti og samkvæmt því ekki endilega eins hjá öllum.

Í málinu liggur fyrir tilboð frá Norvik hf. í hlutafé eins starfsmanns stefnda, Helga Haraldssonar, sem hafði á þeim tíma ekki ráðstafað sínu hlutafé.  Sá aðili átti samkvæmt gögnum málsins hlutafé að nafnvirði 1.120.000 krónur eða jafn mikið og stefnandi hafði átt kost á að kaupa samkvæmt ráðningarsamningnum og hljóðaði tilboðið upp á kaup hverrar krónu nafnverðs á 4,419548 krónur.  Þá liggur fyrir í málinu útreikningur á skuld nefnds Helga samkvæmt skuldabréfi sem ráða má að hann hafi gefið út í tilefni kaupa hans á hlutafénu í maí 1999.

Stefnandi byggir á sömu forsendum, þannig að miðað við að hann hefði keypt á skuldabréfi í ágúst 1999, hlutafé að nafnvirði 1.120.000 krónur væri staða skuldar hans samkvæmt skuldabréfinu í desember 2003 1.554.695 krónur eða 1.120.000x230(vísitala des.2003)/189,5(vísitala ágúst 1999) + lægstu vextir Seðlabanka Íslands samtals að fjárhæð 195.325.  Kaupverð samkvæmt tilboði Norvikur hf. í nóvember 2003 hefði verið 4.949.893 krónur (1.120.000x4,419548) og mismunur á söluverði og kaupverði því 3.395.198 krónur (4.949.893-1.554695).  Þessum útreikningum hefur ekki verið hnekkt.

Þykir ljóst vera að hefði verið gengið frá kaupum stefnanda á hlutafé í stefnda í samræmi við ákvæði þess efnis í ráðningarsamningi hefði hann eins og aðrir eigendur hlutafjár átt þess kost að selja hlutabréfin á árinu 2003 á tilboðsverði Norvikur hf.  Hefur stefndi ekki lagt fram haldbær gögn um að aðrir starfsmenn hafi fengið lakari kjör en nefndur Helgi vegna kaupanna á hlutafénu og þar með ekki gert sennilegt að stefnandi hefði fengið lakari kjör en hann, hefði honum verið gefinn kostur á að nýta sér rétt sinn samkvæmt kaupréttarákvæði ráðningarsamningsins og verður stefndi að bera hallann af þeim sönnunarskorti.

Að öllu því virtu sem nú hefur verið rakið hefur stefnandi sýnt fram á það að hann hafi orðið af hagnaði sem nemur stefnukröfum hans og þar með hafi hann orðið fyrir tjóni sem rakið verður til þess að stefndi efndi ekki ráðningarsamninginn varðandi kauprétt stefnanda.  Verða kröfur stefnanda því teknar til greina eins og þær eru fram settar.

Verður stefndi því dæmdur til að greiða stefnanda 3.395.198 krónur með dráttarvöxtum eins og greinir í dómsorði en dráttarvaxtakröfu stefnanda hefur ekki verið mótmælt.

Eftir þessum úrslitum verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 500.000 krónur og hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts.

Af hálfu stefnanda flutti málið Guðmundur B. Ólafsson hrl. en af hálfu stefnda flutti málið Ragnar T. Árnason hdl.

Greta Baldursdóttir héraðsdómari kveður upp dóminn.

D Ó M S O R Ð

Stefndi, Kaupás hf., greiði stefnanda, Teiti Lárussyni, 3.395.198 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 frá 1. janúar 2004 til greiðsludags.

Stefndi greiði stefnanda 500.000 krónur í málskostnað þar með talinn virðisaukaskattur.