Hæstiréttur íslands

Mál nr. 26/2004


Lykilorð

  • Dómari
  • Kærumál
  • Vanhæfi


Miðvikudaginn 4

 

Miðvikudaginn 4. febrúar 2004.

Nr. 26/2004.

Ákæruvaldið

(Egill Stephensen saksóknari)

gegn

X

(Reimar Pétursson hrl.)

 

Kærumál. Dómarar. Vanhæfi.

Fallist var á með X að héraðsdómari viki sæti í málinu þar sem tiltekin ummæli dómarans í úrskurði um frávísunarkröfu X þóttu hafa lotið að efnishlið þess og verið til þess fallin að draga mætti óhlutdrægni hans með réttu í efa.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 15. janúar 2004, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 20. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 15. janúar 2004, þar sem hafnað var kröfu varnaraðila um að Valtýr Sigurðsson héraðsdómari viki sæti í máli ákæruvaldsins á hendur varnaraðila. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að fyrrnefndur dómari víki sæti í málinu. Þá krefst varnaraðili kærumálskostnaðar.

Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur.

I.

Eins og greinir í hinum kærða úrskurði höfðaði lögreglustjórinn í Reykjavík mál á hendur varnaraðila með ákæru útgefinni 24. júní 2003. Í ákærunni var varnaraðila meðal annars gefið að sök að hafa í starfi sem skólastjóri Y-skólans í [...] dregið sér umtalsvert fé „af svonefndu [...]gjaldi, sem ganga átti til reksturs skólans frá [...]“. Í ákærunni var fjárhæð sú, sem ákærði var sakaður um að hafa dregið sér, sundurliðuð milli ára á tímabilinu frá 1994 til 2001. Í þinghaldi 19. nóvember 2003 krafðist varnaraðili að málinu yrði vísað frá dómi þar eð verknaðarlýsing í ákæru uppfyllti ekki kröfur 1. mgr. 116. gr. laga nr. 19/1991. Var málið flutt um þessa kröfu varnaraðila 1. desember 2003 og var henni hafnað með úrskurði 19. sama mánaðar. Í úrskurðinum kemur fram að frávísunarkrafa varnaraðila hafi meðal annars verið byggð á því að ófullnægjandi væri í ákæru tilgreining bankareikninga, sem fé var greitt inn á af [...]. Hafnaði héraðsdómari þessari málsástæðu varnaraðila á þeim forsendum að Z hafi átt umræddan bankareikning en varnaraðili hafi óumdeilanlega haft umráð reikningsins í skjóli stöðu sinnar sem skólastjóri Y-skólans. Með vísan til þessara forsendna fyrir niðurstöðu héraðsdóms krafðist varnaraðili með bréfi 19. desember 2003 að héraðsdómari viki sæti í málinu á grundvelli 6. gr. laga nr. 19/1991, sbr. g. lið 5. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Var málið flutt um þá kröfu varnaraðila 13. janúar 2004 og henni hafnað 15. sama mánaðar með hinum kærða úrskurði.

II.

Krafa varnaraðila í máli þessu er reist á því að sú fullyrðing héraðsdómara í úrskurði hans frá 19. desember 2003 að varnaraðili hafi „óumdeilanlega“ haft „umráð“ fyrrnefnds reiknings „í skjóli stöðu sinnar sem skólastjóri [Y-]skólans“ hafi falið í sér efnislega afstöðu til málsins sem valdi vanhæfi hans.

 Heldur varnaraðili því fram að aðgangur hans að umræddum reikningi hafi helgast af því að hann hafi verið ráðinn framkvæmdastjóri Z, sem sé sjálfsstæður lögaðili með sjálfsstæða stjórn. Sé ágreiningur hans við Z einkaréttarlegs eðlis. Hafi hann mótmælt staðfastlega að hann hafi haft aðgang að umræddum bankareikningi vegna stöðu sinnar sem skólastjóri Y-skólans og muni varnir hans í máli því, sem sóknaraðili hafi höfðað á hendur honum, meðal annars byggjast á því. Með vísan til þessa gefi framangreind fullyrðing héraðsdómara honum réttmæta ástæðu til að draga í efa að dómarinn geti fjallað af óhlutdrægni og með óvilhöllum hætti um það í skjóli hvers varnaraðili átti aðgang að reikningnum, sem málið snýst um.

Í ljósi framanritaðs og að öðru leyti með vísan til atvika þess máls sem sóknaraðili hefur höfðað á hendur varnaraðila þykir mega fallast á með honum að ummæli héraðsdómara í úrskurði hans frá 19. desember 2003 hafi lotið að efnishlið málsins og verið til þess fallin að draga megi óhlutdrægni hans með réttu í efa. Verður því fallist á að dómarinn víki sæti í málinu með vísan til  6. gr. laga nr. 19/1991, sbr. g. lið 5. gr. laga nr. 91/1991.

Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.

Dómsorð:

Valtýr Sigurðsson héraðsdómari víkur sæti í málinu.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 15. janúar 2004.

          Mál þetta er höfðað af lögreglustjóranum í Reykjavík með ákæru útgefinni 24. júní 2003, á hendur X, fyrir eftirgreind brot:

I.

„Fjárdrátt með því að hafa í starfi sem skólastjóri [Y]-skólans í Reykjavík, [...] dregið sér samtals [...] af svonefndu [...]gjaldi, sem ganga átti til reksturs skólans frá [...].

[...]

Telst þetta varða við 247. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.

[...]”

 

I.

Málavextir eru þessir helstir.

      [...]

II

Af hálfu ákærða var í þinghaldi 19. nóvember sl. gerð sú krafa að málinu yrði vísað frá dómi þar sem ákæra fullnægði ekki ákvæðum 1. mgr. 116. gr. laga nr. 19/1991.  Ákæruvaldið krafðist þess að frávísunarkröfunni yrði hrundið.  Munnlegur mál­flutningur fór fram um ágreininginn og var kröfu ákærða hafnað með úrskurði upp­kveðnum 19. desember 2003.

Í forsendum úrskurðarins segir svo: „Í ákæruskjali er ákærða gefið að sök að hafa sem skólastjóri Y-skólans [...] dregið sér samtals [...] krónur af svonefndu [...]gjaldi sem ganga átti til reksturs skólans frá [...].  Í ákærunni eru síðan sundurliðaðar einstakar greiðslur milli ára.  Í tengslum við rannsókn málsins var útbúið heild­­aryfirlit yfir útborganir af tékka­reikningi nr. [...] fyrir það tímabil sem ákæran lýtur að þar sem fram koma skýr­ingar ákærða á hverri færslu fyrir sig, [...].  Þá er í rannsóknargögnum að finna aðra sam­antekt yfir þær greiðslur þar sem ekki hefur verið fallist á skýr­ingar ákærða um ráð­stöfun.  Þær greiðslur eru flokk­aðar eftir árum og nema [...], þ.e. þeirri fjárhæð sem ákært er fyrir.  Er því ekki fallist á með ákærða að sund­urliðun fjár, sem ákærði á að hafa dregið sér, sé ófullnægjandi svo sem hann heldur fram. 

Eins og áður hefur verið rakið átti Z um­rædd­an banka­reikning en ákærði hafði óumdeilanlega umráð reikningsins í skjóli stöðu sinnar sem skóla­stjóri Y-skólans.  Ber því að hafna þeirri málsástæðu ákærða að ófull­nægjandi sé í ákæru tilgreining bankareikninga sem fé var greitt inn á af [...]. 

Atriði eins og að ekki sé í ákæru tilgreint hver beri ábyrgð á bók­haldi umrædds reikn­ings eða að ekki hafi verið skilgreindar heimildir ákærða til um­ráða yfir þeim fjár­munum sem ákært er fyrir geta ekki valdið frávísun ákæru í málinu.  Ákærða er gefið að sök í ákæru fjárdráttur í starfi skólastjóra Y-skólans í [...] og telst því ágreiningur aðila ekki einvörðungu einkaréttarlegs eðlis eins og ákærði heldur fram.  Verður ákærunni ekki vísað frá af þeim sökum.

      Af c-lið 1. mgr. 116. gr. laga nr. 19/1991 er ljóst að í ákæru verður að greina ná­­kvæmlega það brot, sem talið er hafa verið framið, og stað þess og stund eins skýrt og kostur er. 

Verður ekki á það fallist með ákærða að ákæran sé þannig úr garði gerð að hún full­­nægi ekki ákvæðum c-liðar 116. gr. áðurnefndra laga þannig að málsvörn ákærða geti orðið áfátt af þeim sökum.  Er því hafnað kröfu ákærða um að vísa eigi málinu frá dómi.“

III

Með bréfi verjanda til dómara, dagsettu 19. desember 2003, var vakin athygli á því að í forsendum úrskurðarins komi fram að ákærði hafi óumdeilanlega haft umráð tékka­reikningsins í skjóli stöðu sinnar sem skólastjóri Y-skólans.  Í þessu felist efnislega afstaða dómara til sakarefnis málsins en ákærði mótmæli því stað­fast­lega að hann hafi haft aðgang að reikningum Z vegna stöðu sinnar sem skólastjóri Y-skólans.  Þessi afstaða dómara geri það að verk­um „að draga megi í efa óvilhallni og óhlutdrægi yðar til að dæma í máli hans“, eins og segir í bréfinu.  Er þess því krafist að dómari víki sæti í málinu með vísan til 6. gr. laga nr. 19/1991, sbr. g- lið 5. gr. laga nr. 91/1991 og 6. gr. mann­rétt­inda­sátt­mála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. 

Málið var tekið fyrir þann 13. þ. m. þar sem af hálfu ákæruvaldsins kom fram krafa um að hafnað yrði kröfu ákærða.  Fór fram munnlegur málflutningur um ágrein­ings­efnið og málið tekið til úrskurðar.

 

Niðurstaða. 

Eins og rakið hefur verið var kveðinn upp úrskurður í málinu þar sem hafnað var kröfu ákærða um að málinu yrði vísað frá dómi þar sem ákæra uppfyllti ekki skilyrði 116. gr. laga nr. 91/1991.  Í úrskurðinum eru raktir málavextir eins og þeir komu fram í frumgögnum málsins, einkum kæru Z og stjórnar Y-skólans til lögreglustjórans í Reykjavík frá 29. janúar 2002.  Þær for­sendur sem greinir í úrskurðinum leiddu til þeirrar niðurstöðu að ákæra í málinu full­nægi skilyrðum c-liðar 1. mgr. 116. gr. laga nr. 19/1991 um tilgreiningu brotsins, stað þess og stund eins skýrt og unnt var, þannig að málsvörn ákærða væri ekki áfátt af þeim sökum. Það ágreiningsefni sem verið var að leysa úr með úrskurði þessum varðaði þannig fyrst og fremst form ákæru en ekki efnisatriði málsins.  Því voru þær for­sendur sem þar er byggt á ekki í beinum tengslum við úrlit málsins varðandi sekt eða sýknu ákærða. 

Sú málsástæða ákærða, sem lýtur að því að hann hafi ekki haft aðgang að tékka­reikningi Z [...] í skjóli stöðu sinnar sem skólastjóri Y-skólans, kemur hins vegar til skoðunar og úr­lausnar við efnismeðferð málsins.  Því er að mati dómsins ekki ástæða til að draga í efa óhlutdrægni dómara í málinu.  Engin efni eru því til að verða við kröfu ákærða um að dómari víki sæti í málinu eins og hann fer fram á.  Er kröfunni hafnað.  

Valtýr Sigurðsson héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kröfu ákærða, X, um að dómari málsins víki sæti, er hafnað.