Hæstiréttur íslands

Mál nr. 261/2006


Lykilorð

  • Kærumál
  • Málskostnaðartrygging


Þriðjudaginn 30

 

Þriðjudaginn 30. maí 2006.

Nr. 261/2006.

Gulf Crown Seafood Company Inc.

(Sigmundur Hannesson hrl.)

gegn

Rekstrarfélaginu hf. og

(Kristinn Bjarnason hrl.)

Optimar Ísland ehf.

(Elvar Örn Unnsteinsson hrl.)

 

Kærumál. Málskostnaðartrygging.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að G, sem átti heimilisfesti í Lúisíanafylki í Bandaríkjum Norður Ameríku, yrði gert að setja málskostnaðartryggingu í máli gegn R og O, en fjárhæð tryggingarinnar var lækkuð. 

 

Dómur Hæstaréttar.

          Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Hrafn Bragason og Jón Steinar Gunnlaugsson.

          Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 9. maí 2006, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 16. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 3. maí 2006, þar sem sóknaraðila var gert að setja tryggingu að fjárhæð 2.500.000 krónur gagnvart hvorum varnaraðila, eða samtals 5.000.000 krónur, fyrir greiðslu málskostnaðar í máli, sem hann hefur höfðað gegn þeim. Kæruheimild er í o. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst aðallega að hafnað verði kröfu varnaraðila um málskostnaðartryggingu, en til vara að fjárhæð tryggingar verði lækkuð. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

          Varnaraðilar krefjast staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

          Sóknaraðili byggir á því að honum verði ekki gert að setja málskostnaðartryggingu á grundvelli a. liðar 1. mgr. 133. gr. laga nr. 91/1991, þrátt fyrir að hann sé búsettur erlendis, þar sem hérlendir menn þurfi ekki að setja slíka tryggingu í heimaríki hans Luisiana í Bandaríkjum Norður Ameríku. Samkvæmt 2. mgr. 44. gr. laga nr. 91/1991 ber sóknaraðili sönnunarbyrði fyrir þessari fullyrðingu sinni og þarf að sýna fram á tilvist og efni þeirra réttarreglna heimaríkis síns sem um ræðir. Sóknaraðili hefur aflað lögfræðilegrar álitsgerðar með fylgigögnum frá  lögmannsstofu í Bandaríkjunum til stuðnings fullyrðingum sínum. Nægir hún ekki til að sýna fram á að erlendum manni, í stöðu varnaraðila, yrði ekki gert að setja tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar gagnaðila síns fyrir dómstól í heimaríki sóknaraðila, standi lögskipti aðila til þess að heimilt sé að dæma slíkan kostnað. Með þessum athugasemdum, en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður staðfest sú niðurstaða hans að sóknaraðila verði gert að setja tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar. Er sú trygging hæfilega ákveðin eins og greinir í dómsorði.

          Ekki verður séð að sóknaraðili hafi gert kröfu um málskostnað í héraði og kemur krafa hans þar að lútandi því ekki til álita fyrir Hæstarétti. Rétt er að aðilar beri hver sinn kostnað af kærumáli þessu.

                                                    Dómsorð:

Sóknaraðila, Gulf Crown Seafood Company Inc., ber að setja innan þriggja vikna frá uppsögu þessa dóms tryggingu í formi bankabókar eða bankaábyrgðar að fjárhæð 700.000 krónur til hvors varnaraðila fyrir sig, Rekstrarfélagsins hf. og Optimar Ísland ehf., eða samtals 1.400.000 krónur, fyrir greiðslu málskostnaðar í máli sínu gegn varnaraðilum, sem rekið er fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur.

Kærumálskostnaður fellur niður.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 3. maí 2006.

Stefnandi er Gulf Crown Seafood Company Inc.

Stefndu eru Rekstrarfélagið hf. og Optimar Ísland ehf.

Stefnandi gerir aðallega þær dómkröfur í máli þessu að viðurkennd verði riftun stefnanda frá 14. júlí 2005 á kaupsamningi um Liquid Ice kælikerfi, dags. 7. nóvember 2002 og samningi um kaup á viðbótar 1400 lítra vatnstanki, dags. 9. desember 2002. Jafnframt að stefnda verði gert að greiða stefnanda skaðabætur sem nemur fjárhæð $1.890.886,47 með dráttarvöxtum.

Við þingfestingu málsins 16. mars sl. var af hálfu beggja stefndu gerð krafa um að stefnanda yrði gert að setja málskostnaðartryggingu með vísan til 133. gr. laga nr. 91/1991 að fjárhæð kr. 6.057.459 fyrir hvorn stefnda fyrir sig. Stefnandi mótmælti kröfu um málskostnaðartryggingu.

Þann 29. mars sl. var málið tekið til úrskurðar um ágreining aðila. 

Stefndu byggja kröfu sína á því að stefnandi sé aðili utan hins Evrópska efnahagssvæðis og ekkert sé vitað um fjárhagsstöðu hans, auk þess sem augljóst sé að miklum erfiðleikum yrði bundið og jafnvel ómögulegt að innheimta hjá honum tildæmdan málskostnað. Í öllu falli sé alveg ljóst að það myndi ekki svara kostnaði. Sé þannig ljóst að a.m.k. skilyrðum a. liðar 1. mgr. 133. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála sé fullnægt til að krefjast megi málskostnaðartryggingar. Miðað við að hagsmunir þeir sem stefnt sé fyrir í málinu nemi kr. 134.007.091 auk vaxta þá megi gera ráð fyrir að málskostnaður sá sem stefndu verði gert að greiða hvorum fyrir sig nemi kr. 6.057.459 og sé þá aðeins miðað við meðferð málsins fyrir héraðsdómi.

Stefnandi byggir á að þar sem löggjöf fylkja Bandaríkjanna sé jafn mismunandi og fylkin eru mörg sé rétt að miða við réttarfarslöggjöf í fylki því sem stefnandi er búsettur í, þ.e. Louisiana, þegar skera eigi úr um hvort maður búsettur hér á landi sé undanþeginn því að setja málskostnaðartryggingu í heimalandi stefnanda. Fyrir liggi að Louisiana, geri ekki kröfu um og samþykki ekki að stefnanda máls sé gert að setja tryggingu fyrir málskostnaði. Þar af leiði að einstaklingi sem búsettur er hér á landi yrði ekki gert að setja slíka tryggingu í Louisiana kæmi slík krafa fram. Samkvæmt því sé skilyrði a. liðar 1. mgr. 133. gr. laga nr. 91/1991 ekki uppfyllt.

Verði fallist á kröfuna þá krefst stefnandi þess að fjárhæð tryggingar til handa beggja stefndu verði ákvörðuð með eðlilegum hætti. Rúmar kr. 6.000.000 til handa hverjum stefnda sé svimandi fjárhæð og algerlega úr takt við þá fyrirsjáanlegu vinnu sem muni falla í skaut lögmanna stefndu. Sá raunkostnaður muni ekki fara yfir kr. 400.000 hjá hvorum aðila. Gerir stefnandi þá kröfu að málskostnaðartrygging verði ákvörðuð kr. 300.000 til kr. 400.000 í hæsta lagi til stefndu sameiginlega, enda sé fyrirsjáanlegt að stefndu muni vinna saman að vörn málsins, og tryggingin verði í formi bankaábyrgðar frá bandarískum viðskiptabanka.

Gögn þau sem stefnandi hefur lagt fyrir dóminn til stuðnings því að menn sem búsettir eru hér á landi séu undanþegnir því að setja tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar við málshöfðun í heimalandi stefnanda Bandaríkjunum, sem miða þykir verða við samkvæmt skýru ákvæði laganna, þykja ekki veita fullnægjandi sönnun fyrir þeirri staðhæfingu hans. Samkvæmt því og þar sem stefnandi er búsettur utan Evrópska efnahagssvæðisins, verður stefnanda gert að setja 2.500.000 króna í tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar í reiðufé eða formi bankatryggingar, fyrir hvorn stefnda fyrir sig eða samtals 5.000.000 króna í síðasta lagi 10. maí n.k.

Þorgerður Erlendsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.

Úrskurðarorð:

Stefnanda, Gulf Crown Seafood Company Inc., er gert að setja tryggingu, sam­tals að fjárhæð 5.000.000 króna, fyrir greiðslu málskostnaðar í málinu nr. E-1551/2006:  Gulf Crown Seafood Company Inc. gegn Rekstrarfélaginu hf. og Optimar Íslandi ehf., þ.e. 2.500.000 krónur fyrir hvorn, í reiðufé eða í formi bankatryggingar, fyrir 10. maí 2006.