Hæstiréttur íslands

Mál nr. 223/2004


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991


Þriðjudaginn 1

 

Þriðjudaginn 1. júní 2004.

Nr. 223/2004.

Lögreglustjórinn í Reykjavík

(Egill Stephensen saksóknari)

gegn

X

(Sveinn Andri Sveinsson hrl.)

 

Kærumál. Gæsluvarðhald. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 26. maí 2004, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 28. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 26. maí 2004, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 7. júlí 2004 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.

Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur.

Eins og fram kemur í hinum kærða úrskurði hefur varnaraðili játað að hafa framið vopnað rán í útibúi [...] að morgni 21. maí síðastliðinn í félagi við tvo aðra menn. Samkvæmt framburði hans, sem er í samræmi við vætti vitna og gögn málsins, kom hann inn í bankann með hulið andlit og öxi í hendi, gekk rakleiðis að gjaldkera, mölvaði skilrúm úr gleri milli gjaldkera og viðskiptavina og hafði á brott með sér um [...] krónur úr peningaskúffu. Henti varnaraðili ránsfengnum inn í bifreið, sem tveir félagar hans biðu í á meðan hann fór inn í bankann, en sjálfur hljóp hann á brott og var handtekinn nokkrum mínútum síðar. Við yfirheyrslur kvaðst hann hafa framið ránið til að greiða fíkniefnaskuld, en hann hafi verið í mikilli fíkniefnaneyslu að undanförnu. Hann hafi ákveðið að hafa öxina með sér inn í bankann „til þess að leggja áherslu á ránið og hrista upp í fólkinu.“ Öxi með blóðkámi fannst skammt frá þeim stað, sem hann var handtekinn. Ránsfengurinn hefur ekki komið í leitirnar, en annar mannanna, sem þátt tók í ráninu með varnaraðila, kveðst hafa eytt hluta hans í þágu sína og varnaraðila.

Varnaraðili var úrskurðaður í gæsluvarðhald 21. maí 2004 á grundvelli a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 og rann það gæsluvarðhald út 26. sama mánaðar.

Varnaraðili og tveir aðrir menn hafa játað að hafa framið brot gegn 252. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og styðja gögn málsins þá játningu. Brot á því ákvæði getur varðað fangelsisrefsingu allt að 10 árum og allt að 16 árum ef mikil hætta hefur verið samfara brotinu. Varnaraðili notaði hættulegt vopn við ránið í því skyni að ógna starfsmönnum. Var sú háttsemi til þess fallin að vekja með þeim mikinn ótta. Þegar allt framangreint er virt verður að telja að eðli brotsins, sem varnaraðili er grunaður um að hafa framið, sé slíkt að almannahagsmunir standi til þess að hann verði látinn sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991. Verður hinn kærði úrskurður því staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 26. maí 2004.

Lögreglustjórinn í Reykjavík hefur krafist þess að héraðsdómur úrskurði að X verði úrskurðaður til að sæta áfram gæsluvarðhaldi til miðvikudagsins 7. júlí 2004 kl. 16.00 eða þar til dómur gengur í máli hans.

Í greinargerð lögreglustjóra segir að X hafi verið handtekinn föstudaginn 21. maí sl. vegna ráns í [...] þann sama dag og hafi þá verið úrskurðaður í gæsluvarðhald til miðvikudagsins 26. maí 2004, kl. 16.00.

X hafi komið grímuklæddur með exi inn í bankann, gengið rakleiðis að gjaldkera, mölvað með exinni niður skilrúm úr gleri sem skilur að starfsfólk og viðskiptavini, stokkið upp á afgreiðsluborðið með exina og ógnað gjaldkeranum, konu sem verið hafi við afgreiðsluna.

Gjaldkerinn hafi sagt að glerbrotum hafi ringt yfir sig og hafi hún talið lífi sínu ógnað þar sem ræninginn hafi beint exinni í átt að hálsi hennar.  Hún kvaðst hafa átt allt eins von á því að ræninginn kastaði öxinni í sig og hafi hún hörfað undan inni í herbergi þar hjá.

X hafi látið síðan greipar sópa í peningaskúffunni og hafi náð um [...] kr. í seðlum sem hann hafi haft með sér á braut og hent inn um opinn glugga á bifreið sem notuð hafi verið við ránið og beðið hafi fyrir utan bankann.  Hann hafi síðan hlaupið á braut frá bifreiðinni.

Í bifreiðinni hafi verið tveir menn sem hafi ekki inn farið í bankann en beðið í bifreiðinni fyrir utan bankann.  Þeir hafi báðir verið úrskurðaðir í gæsluvarðhald.

Ein af starfskonum bankans hafi veitt X eftirför ásamt einum viðskiptavini bankans þar til lögreglan hafi komið á vettvang og handtekið hann þar í nágrenninu og hafi hann þá verið blóðugur á höndum og haldið á exi í hægri hendi.

X hafi við yfirheyrslu lögreglu játað ránið.

Rannsókn hafi ekki leitt í ljós hvar ránsfengurinn sé niður kominn.

             Samkvæmt hjálögðu sakavottorði hafi sakborningur hlotið þrjá skilorðsbundna dóma fyrir þjófnað og fleiri brot á árinu 2002, síðast þann 16. desember 2002, 9 mánaða fangelsi skilorðsbundið í 3 ár.

Um sé að ræða vopnað rán, brot á 252. gr. almennra hegningarlaga nr. 19,1940.

Brotið hafi verið framið með mjög hættulegu vopni og á mjög ruddafenginn og ógnandi hátt sem hafi verið til þess fallinn að vekja mikinn ótta hjá þeim sem fyrir hafi orðið. Þegar þetta sé virt verði að telja að eðli brots þessa, sem sakborningur hafi játað að hafa framið, sé slíkt að almannahagsmunir standi til þess að hann verði látinn sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19,1991.

Verður að telja að ef sakborningur, sem orðið hafi uppvís að jafn alvarlegu broti og kærði, gangi laus strax að rannsókn lokinni valdi það hneykslun í samfélaginu og særi réttarvitund almennings en um þetta sjónarmið megi vísa til rits Evu Smith, Straffeprocess, 1999. 

Einnig sé vísað til hjálagðs Hæstaréttardóms nr. 494/2003 varðandi gæsluvarðhald á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19,1991 fyrir vopnað rán.

             Benda megi á dómaframkvæmd síðustu ára þar sem sakborningum hafi margsinnis verið gert að sæta gæsluvarðhaldi uns dómur er upp kveðinn þegar legið hafi fyrir sterkur grunur um að þeir hafi staðið að innflutningi á miklu magni fíkniefna í ágóðaskyni.  Megi um það nefna í dæmaskyni dóma Hæstaréttar í málum nr. 452/1999, 417/2000, 471/1999, 352/1997, 158/2001, 294/1997, 283/1997 og 284/1997.

Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og 2. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19,1991 sé þess farið á leit að krafa þessi nái fram að ganga.

Dómarinn álítur að skilyrði 2. mgr. 103. gr. oml. fyrir því að láta kærða sæta gæsluvarðhaldi áfram séu uppfyllt, enda liggi fyrir að hann beitti stórhættulegu vopni á ófyrirleitinn og hættulegan hátt, og vakti mikinn ótta hjá fólki í bankaafgreiðslunni.  Ber því að verða við kröfu lögreglustjórans í Reykjavík og ákveða að ákærði sæti gæsluvarðhaldi eins og krafist er.

Pétur Guðgeirsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Úrskurðarorð:

             Kærði, X, sæti gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 7. júlí 2004  kl. 16.00.