Hæstiréttur íslands

Mál nr. 422/2008


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991


Miðvikudaginn 6

 

Miðvikudaginn 6. ágúst 2008.

Nr. 422/2008.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu

(Stefán Eiríksson lögreglustjóri)

gegn

X

(Hilmar Ingimundarson hrl.)

 

Kærumál. Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 103. gr. og 106. gr. laga nr. 19/1991.

 

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli c. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, sbr. 106. gr. sömu laga. var staðfestur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Páll Hreinsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 31. júlí 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 1. ágúst sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 30. júlí 2008, þar sem varnaraðila var gert að sæta  áfram gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 27. ágúst 2008 kl. 15. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

Úrskurður héraðsdóms Reykjavíkur 30. júlí 2008.

Lögreglustjórinn í Reykjavík hefur gert kröfu um að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði X, [kt. og heimilisfang], til að sæta áfram gæsluvarðhaldi, á meðan áfrýjunarfrestur stendur, þó eigi lengur en til miðvikudagsins 27. ágúst 2008 kl. 15:00.

Í greinargerð lögreglustjóra kemur fram að með dómi héraðsdóms Reykjavíkur í dag í máli nr. S-969/2008 var dómfelldi dæmdur í  15 mánaða fangelsi fyrir fjölmörg afbrot.  Frá refsingunni dregst óslitið gæsluvarðhald frá 24. júní 2008.

Dómurinn sé ekki fullnustuhæfur þar sem dómfelldi tók sér frest til ákvörðunar um áfrýjun til Hæstaréttar Íslands.

Brotaferill dómfellda hafi verið samfelldur frá janúar þessa árs til 23. júní sl. er hann hafi síðast verið handtekinn. Við rannsókn mála dómfellda hafi komið í ljós að hann hafi verið í mikilli neyslu vímuefna. Við yfirheyrslu yfir honum hafi hann skýrt frá því að hann væri húsnæðislaus, án atvinnu og án nokkurra bóta frá félagsmálayfirvöldum.  Þá hafi hann sagst fjármagna fíkn sína með afbrotum.

Það sé mat lögreglustjóra að dómfelldi muni halda áfram afbrotum verði hann látinn laus.  Nauðsynlegt sé því að dómfelldi sæti áfram gæsluvarðhaldi, á meðan fresti til áfrýjunar stendur.

Fyrir liggi í máli þessu mat Hæstaréttar Íslands, sbr. dóm réttarins nr. 350/2008, að lagaskilyrðum síbrotagæslu sé fullnægt.  Ekkert sé fram komið í málinu sem breytt geti því mati. 

Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og c.-liðar 1. mgr. 103. gr. og 106. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála sé þess krafist að að krafa þessi nái fram að ganga.

Samkvæmt framlögðum gögnum er ljóst að afbrotferill dómfellda er nær samfelldur frá janúar þessa árs til 23. júní sl., er hann var síðast handtekinn. Fram er einnig komið að dómfelldi eigi við vanda að stríða vegna fíkniefnaneyslu og fjármagni neyslu sína að hluta til með afbrotum.

Samkvæmt dómi í máli nr. S-969/2008, uppkveðnum nú í dag, hlaut dómfelldi 15 mánaða fangelsisdóm  fyrir fjölmörg afbrot, einkum auðgunarbrot.

Í ljósi alls framanritaðs fellst dómurinn á að telja megi verulega hættu á að dómfelldi muni halda áfram afbrotum fari hann frjáls ferða sinna meðan áfrýjunarfrestur stendur.

Á grundvelli c. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 er því fallist á kröfu lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu eins og nánar greinir í úrskurðarorði.

Ingimundur Einarsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Úrskurðarorð

Dómfelldi, X, [kt.] , sæti áfram gæsluvarðhaldi, á meðan áfrýjunarfrestur stendur, þó eigi lengur en til miðvikudagsins 27. ágúst 2008 kl. 15:00.