Hæstiréttur íslands
Mál nr. 389/2006
Lykilorð
- Ávana- og fíkniefni
- Ákæra
|
|
Fimmtudaginn 8. febrúar 2007. |
|
Nr. 389/2006. |
Ákæruvaldið(Sigríður Elsa Kjartansdóttir saksóknari) gegn Tryggva Lárussyni (Sveinn Andri Sveinsson hrl.) |
Ávana- og fíkniefni. Ákæra.
T var ákærður, ásamt fjórum öðrum einstaklingum, fyrir stórfellt brot á lögum um ávana- og fíkniefni með því að hafa staðið að innflutningi á 7.694,86 g af amfetamíni í júní og júlí 2004. T var nánar tiltekið gefið að sök að hafa í samvinnu við annan mann lagt á ráðin um innflutning á amfetamíni til Íslands frá Hollandi, annast kaup á efninu með óþekktum vitorðsmanni og ætlað að taka á móti því á Íslandi og loks falið meðákærða X að taka við efninu frá seljendum þeirra, pakka þeim og annast sendingu þeirra til Íslands. Í dómi Hæstaréttar var ekki talið að ákæruvaldinu hefði tekist að færa nægar sönnur fyrir því að T hefði sjálfur keypt efnin á greindum tíma, en talið var sannað að hann hefði að öðru leyti staðið að kaupunum með þeim hætti sem í ákæru greindi. Með vísan til forsendna héraðsdóms að öðru leyti var T dæmdur til að sæta fangelsi í sex ár.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Garðar Gíslason, Hjördís Hákonardóttir, Hrafn Bragason og Markús Sigurbjörnsson.
Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 14. júlí 2006 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds sem krefst staðfestingar á sakfellingu ákærða, en þyngingar á refsingu.
Ákærði krefst að hann verði sýknaður af 1. lið ákæru og að refsing verði milduð.
Í máli þessu er ákærða gefið að sök að hafa á tímabilinu 21. til 24. júní 2004 í samvinnu við annan mann lagt á ráðin um innflutning á amfetamíni til landsins frá Hollandi. Þá hafi hann með óþekktum vitorðsmanni annast kaup á amfetamíninu af óþekktum seljendum í byrjun júlí í Roosendaal í Hollandi og ætlað að taka á móti því á Íslandi. Hann hafi loks falið meðákærða X að taka við fíkniefnunum frá seljendum þeirra, pakka þeim og annast sendingu þeirra til Íslands. Meðákærði X var með dómi Hæstaréttar 8. desember 2005 sakfelldur fyrir sinn þátt í málinu, en þætti ákærða Tryggva var með sama dómi vísað aftur heim í hérað til dómsálagningar að nýju þar sem mótsagnir þóttu vera í héraðsdómi um hlut hans að kaupum á fíkniefnunum og væri ekki tekin nægilega skýr afstaða til þess á hvaða grunni hann væri sakfelldur fyrir kaupin. Tekið var fram að héraðsdómur þætti að öðru leyti skilmerkilega saminn. Málsatvik eru rakin í héraðsdómi og var ákærði sakfelldur fyrir alla þrjá hluta framangreinds sakarefnis. Talið var meðal annars sannað gegn neitun ákærða að hann hafi í fylgd með óþekktum vitorðsmanni annast kaup á um 8 kílóum af amfetamíni af óþekktum seljendum í lok júní 2004 í Roosendaal í Hollandi. Í dóminum var talið sannað með yfirlýsingum og vitnaskýrslum, sem þar eru raktar, að ákærði hafi dvalið á Hróarskelduhátíðinni í Danmörku 1. til 4. júlí 2004, en það útiloki þó ekki dvöl hans í Hollandi fyrir þann tíma. Þar sem í sakfellingu héraðsdóms er vikið frá tímasetningum ákæru varðandi þennan þátt sakarefnisins vitnar dómurinn til 1. mgr. 117. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Samkvæmt því ákvæði er heimilt að dæma áfall á hendur ákærða þótt aukaatriði brots, svo sem staður og stund þess, séu ekki rétt tilgreind í ákæru, enda telji dómari vörn ekki áfátt þess vegna.
Þegar virt eru atvik málsins verður ekki talið að tímasetning kaupa á fíkniefnunum sé slíkt aukaatriði brots ákærða að 1. mgr. 117. gr. laga nr. 19/1991 geti átt við. Yfirlýsingar sem ákærði hefur aflað hjá kunningjum sínum um dvöl sína á Hróarskelduhátíðinni eru óglöggar og framburður þeirra fyrir dómi nokkuð óskýr. Hins vegar þegar litið er til sönnunaraðstöðu málsins og þess hvernig það liggur fyrir Hæstarétti verður ekki talið að ákæruvaldinu hafi tekist að færa nægar sönnur fyrir því að ákærði hafi sjálfur keypt efnin á greindum tíma þótt hann hafi annars staðið að kaupunum eins og í ákæru greinir. Með vísun til forsendna héraðsdóms að öðru leyti verður hann staðfestur.
Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti, eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Ákærði, Tryggvi Lárusson, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 326.821 krónu, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Sveins Andra Sveinssonar hæstaréttarlögmanns, 311.250 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 9. júní 2006.
Málið er höfðað með ákæru útgefinni 9. maí 2005 á hendur:
„ X [...]
Tryggva Lárussyni, kennitala 150379-4909, Ásbúð 26, Garðabæ,
Y [...]
[...] og
Z [...]
fyrir eftirtalin brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni, brot gegn umferðarlögum og brot gegn vopnalögum framin árið 2004:
1. Ákærðu X, Tryggva, Z og Y er gefið að sök stórfellt brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni í ágóðaskyni með því að hafa í júní og júlí staðið að innflutningi á 7.694,86 g af amfetamíni, eins og hér greinir:
Á tímabilinu 21. til 24. júní lögðu ákærði Tryggvi og A, sem nú er látinn, á ráðin um innflutning á amfetamíni til Íslands frá Hollandi. A hafði milligöngu um samskipti við ákærða X sem hann hitti í Amsterdam þann 25. júní og fékk hann til að taka þátt í innflutningi fíkniefnanna. Ákærði X tók að sér að annast sendingu fíkniefnanna til Íslands eftir flutningsleið sem hann skipulagði með ákærða Z, framkvæmdastjóra B ehf. í Reykjavík, en ákærði X hafði í júní fengið hann til að taka þátt í innflutningnum. Átti ákærði Z jafnframt að taka við sendingunni og sjá til þess að hún fengi tollafgreiðslu. Þegar hann hvikaði frá verkefninu, eftir að fíkniefnin höfðu verið send áleiðis til Íslands, reyndi ákærða Y að afla gagna til að unnt yrði að leysa sendinguna úr tolli. Þáttur hvers hinna ákærðu er nánar sem hér greinir:
Ákærði Tryggvi, í fylgd með óþekktum vitorðsmanni, annaðist kaup á amfetamíninu af óþekktum seljendum í byrjun júlí í Roosendaal í Hollandi og hugðist taka við þeim á Íslandi. Fól hann meðákærða X að taka við fíkniefnunum frá seljendum þeirra, pakka þeim og annast sendingu þeirra til Íslands.
Ákærði X tók við amfetamíninu í byrjun júlí í Roosendaal frá hinum óþekktu seljendum, pakkaði efninu og kom því fyrir í loftpressu, sem hann útvegaði í Roosendaal skömmu áður, og flutti loftpressuna með fíkniefnunum til Osnabrück í Þýskalandi. Á tímabilinu 7. til 9. júlí flutti ákærði X með liðsinni A og meðákærðu Y loftpressuna með fíkniefnunum frá Osnabrück til Hamborgar. Þann 9. júlí afhenti meðákærði X loftpressuna með fíkniefnunum til flutnings til Íslands í vöruafgreiðslu C hf. merkta B ehf. sem viðtakanda í samræmi við ákvörðun hans og meðákærða Z um innflutningsleið fíkniefnanna.
Ákærði Z notaði aðstöðu sína hjá B ehf. og samþykkti að fíkniefnin yrðu send til landsins falin í vörusendingu merktri B ehf. eins og áður er lýst og átti hann að veita sendingunni viðtöku og sjá til þess að hún fengi tollafgreiðslu.
Vörusendingin til B ehf. fór frá Hamborg þann 14. júlí með flutningaskipinu D og kom til landsins þann 19. júlí, en fíkniefnin fundust við leit tollvarða í Sundahöfn í Reykjavík, þann 21. júlí.
Ákærða Y, sem liðsinnti meðákærða X þegar loftpressan með fíkniefnunum var flutt frá Osnabrück til Hamborgar, reyndi á tímabilinu frá 19. júlí og fram í ágúst að afla nauðsynlegra gagna um vörusendinguna til B ehf. í því skyni að fá sendinguna afhenta frá C hf., fjarlægja fíkniefnin og afhenda þau meðákærða Tryggva, eftir að meðákærði Z hafði hvikað frá því verkefni.
Þykir háttsemi allra ákærðu varða við 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. lög nr. 64/1974 og lög nr. 32/2001. Til vara þykir háttsemi ákærða X varða við sömu lagagrein almennra hegningarlaga, sbr. 1. mgr. 22. sömu laga og háttsemi ákærðu Y við 1. mgr., sbr. 2. mgr., 264. gr., sbr. 1. mgr. 20. gr., almennra hegningarlaga, sbr. 4. gr. laga nr. 10/1997 og 2. gr. laga nr. 32/2001.
[...]
6. Ákærða Tryggva er gefið að sök umferðarlagabrot með því að hafa miðvikudaginn 27. október, ekið bifreiðinni [...], frá þáverandi heimili sínu að [...], Álftanesi, um Álftanesveg, að Reykjavíkurvegi í Hafnarfirði, sviptur ökurétti.
Þykir þetta varða við 1. mgr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.
7. Ákærða Tryggva er gefið að sök brot gegn vopnalögum með því að hafa sama dag og greinir í 6. tölulið, haft í vörslum sínum á þáverandi heimili sínu, [...], Álftanesi, útdraganlega járnkylfu sem lögregla fann við húsleit.
Þykir þetta varða við c-lið 2. mgr. 30. gr., sbr. 1. mgr. 36. gr. vopnalaga nr. 16/1998.
Dómkröfur:
Þess er krafist að ákærðu verði dæmd til refsingar og jafnframt að 7797,75 g af amfetamíni, 6000 skammtar af lysergide (LSD), 1,51 g af kókaíni, 5,06 g af hassi og tvær tölvuvogir, sem lögregla lagði hald á við rannsókn málsins verði gert upptækt til ríkissjóðs samkvæmt 6. og 7. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001.“
Dómur var kveðinn upp yfir ákærða og þeim einstaklingum sem upphaflega voru ákærðir 24. júní 2005. Máli ákærða var áfrýjað. Hinn 8. desember sl. vísaði Hæstiréttur málinu heim í hérað til dómsálagningar að nýju varðandi ákærða Tryggva til þeirrar meðferðar sem þörf þætti á. Dómarinn fékk málið til meðferðar að nýju 17. apríl sl. Fyrir liggja sömu gögn og fyrir lágu við fyrri meðferð málsins. Það sem nýtt er í málinu er vitnisburður fimm vitna sem gáfu skýrslu undir aðalmeðferð 29. f.m. en dómari og málflytjendur voru sammála um að ekki væri þörf frekari meðferðar málsins en þeirrar sem þá fór fram. Þessi vitnisburður er reifaður en að öðru leyti er í flestu sama reifun varðandi ákærulið 1 og í fyrri dómi í málinu.
Verjandi ákærða Tryggva krefst aðallega sýknu af 1. lið ákæru en til vara vægustu refsingar sem lög leyfa vegna allra sakargifta á hendur ákærða. Þess er krafist að gæsluvarðhald ákærða komi til frádráttar refsivist ef dæmd verður. Málsvarnarlauna er krafist að mati dómsins og að þeim verði skipt verði aðalkrafan tekin til greina.
Ákæruliður 1.
Samkvæmt skýrslu tollgæslunnar, dagsettri 21. júlí 2004, var 19. s.m. óskað eftir skoðun vörusendingar sem kom með ms. D hingað til lands frá Hamborg en skipið kom til landsins 19. júlí. Í skýrslunni er því lýst að viðbrögð leitarhunds hafi leitt til nánari skoðunar á loftpressu þar sem skráður móttakandi var B ehf. Er því lýst í gögnum málsins er fíkniefnin sem í þessu ákærulið greinir, fundust í loftpressunni 21. júlí 2004.
Sum ákærðu og vitni hafa breytt nokkuð framburði sínum frá því sem var á rannsóknarstigi málsins. Er því óhjákvæmilegt að reifa nokkuð lögregluskýrslur jafnhliða því sem reifaður er framburður ákærðu og vitnisburður fyrir dómi. Er sá háttur hafður á að fyrst er reifaður framburður og vitnisburður viðkomandi fyrir dómi og rannsóknargögn reifuð á eftir eins og ástæða þykir. Þó er reifun samhliða á stöku stað.
X var handtekinn í Hollandi 17. september 2004. Óskað var eftir framsali hans hingað til lands vegna málsins. Hann samþykkti framsal og var fluttur til landsins 5. október sl. og úrskurðaður í gæsluvarðhald daginn eftir, 6. október.
X játar sök. Undir aðalmeðferð málsins greindi hann svo frá að hann gæti ekki borið um ætlaðan þátt meðákærðu í málinu því hann vissi ekki hver hann væri.
Ákærði lýsti því er þeir A hittust á Schiphol-flugvelli í Amsterdam í Hollandi á þeim tíma sem í inngangskafla ákæru greinir. En upphaflega hafi þeir hist fyrir tilviljun hér á landi þar sem A bar upp við hann hvort hann gæti tekið flutning fíkniefnanna að sér, sem X kvaðst hafa gert, en hann hafi verið í mikilli neyslu auk þess sem peningavandræði steðjuðu að honum. Þá lýsti X því að vandamál hafi steðjað að aðstandendum hans vegna ábyrgða sem viðkomandi höfðu tekist á hendur fyrir hann. Hann hafi því látið til leiðast.
A hefði greint sér svo frá að hann hefði peninga frá aðilum sem hefðu hug á því að senda hingað til lands fíkniefni sem X tók að sér að senda heim eins og lýst er í ákærunni. Kvaðst hann hafa skipulagt innflutningsleiðina ásamt Z sem hafi gefið X leyfi til að nota nafn fyrirtækis hans eins og lýst er í ákærunni. Z hefði aldrei rætt efnistegund eða magn.
X kvað ranga lýsingu ákærunnar um það að Z hafi átt að taka við sendingunni úr tollafgreiðslu en þann þátt málsins kvað X sér óviðkomandi. Hann kvaðst hafa fengið leyfi frá Z fyrir utanför sína til að nota nafn fyrirtækis hans, B ehf., til að senda hingað til lands pakka sem innihéldi fíkniefni. Hafi Z fallist á þetta en ekki viljað vita meira af málinu að sögn X. Hafi þeir Z rætt sín á milli um að Z fengi kókaín sem greiðslu fyrir greiðann.
X lýsti því að Z hefði gefið sér upplýsingar um flutningafyrirtækið V í Rotterdam en ekki hafi orðið úr því að sendingin bærist með því fyrirtæki. Kveðst hann síðan hafa hringt í Z erlendis frá. Hann mundi ekki til þess að hafa nefnt að sendingin bærist frá Hamborg, en X kvaðst hafa fallið frá upphaflegu sendingunni sem hann hugðist senda til B ehf. Z hafi ekki vitað af sendingunni sem hér um ræðir og ekkert haft með hana að gera utan að hann hefði áður samþykkt að X sendi eitthvað til hans.
X kvaðst í raun ekki geta borið um það sem gerðist hér á landi eftir að fíkniefnasendingin barst til landsins, sökum þess að hann hafi dvalið erlendis á þeim tíma og vitneskja sín um atburði sé ýmist komin frá Y eða A.
X kvað A hafa fengið sig til þessa verks, eins og lýst er í ákærunni, en þetta hafi verið fyrir menn sem hann hafi ekki vitað hverjir voru. A hafi verið milliliður milli sín og þessara manna. Eftir fund þeirra A í Roosendaal, eins og vikið er að í ákæru, hafi A haldið til Danmerkur. X kvaðst hafa orðið eftir í Roosendaal þar sem fíkniefnin hafi ekki verið tilbúin til afhendingar. Hann kvað þá A hafa afhent seljanda fíkniefnanna peninga en það hafi verið sami maðurinn og afhenti honum efnin síðar. X lýsti bið sinni eftir fíkniefnunum og því að hann hafi ákveðið að senda fíkniefnin á einhvern hátt hingað til lands, en skilja mátti á X að hann hafi ákveðið að senda efnin á annan hátt en hann hafði hug á í upphafi og orðið úr að hann sendi pakkann merktan B ehf. í ,,lausagámi“ eins og hann lýsti.
X kvað rétta lýsingu í ákæru um efnismagn og pökkun efnanna og því er efninu var komið fyrir í loftpressunni.
Í skýrslutöku hjá lögreglu greindi X frá fundi sínum í Roosendaal með Tryggva og fleirum. Sá framburður verður rakinn síðar. X greindi nú frá því fyrir dóminum að Tryggvi, sem nefndur var varðandi fundinn ytra, væri ekki sami maður og ákærði Tryggvi en maðurinn hafði verið nefndur Tryggvi og hafi svarað því nafni. Kvaðst X hafa áttað sig á þessu er hann sá ákærða Tryggva í lausagæslu á Litla-Hrauni. X kvað A hafa kynnt sig fyrir tveimur mönnum ytra en ákærði Tryggvi, sem hann kvaðst kannast við andlitið á, en ekki þekkja með nafni eða verið málkunnugur, hafi ekki verið annar þessara manna. X var spurður um símtöl þar sem hann ræðir um Tryggva. Kvað hann allt sem hann sagði um Tryggva vera samkvæmt upplýsingum sem hann hefði fengið frá Y og A.
X kvað hugsanlegt að Y hafi vitað frá A af fyrirhuguðum fíkniefnainnflutningi sem hér um ræðir. Hún hafi hins vegar ekki tekið neinn þátt í innflutningnum og ekki átt að fá neitt í sinn hlut frá ákærða.
X kvaðst lítillega hafa rætt við manninn í Roosendaal sem hann nefndi Tryggva við skýrslutökur hjá lögreglunni. Hann kvaðst standa við það sem hann sagði við skýrslutökurnar um fundinn í Roosendaal og fleira, en honum sé nú ljóst að maðurinn sem hann ræddi þá um sem Tryggva sé ekki ákærði Tryggvi Lárusson.
X staðfesti vitneskju sína um fund E, sem fór á fund í stað A, og manns hér á landi sem hann greindi frá hjá lögreglu að héti Tryggvi. Þessi fundur varðaði reiði manna hér á landi út í sig og A. Síðar í skýrslutökunni greindi hann frá því að hann hefði sagt E frá Tryggva og hann hafi beðið E um að athuga hvaða vandræði væru í gangi, en hann hefði frétt frá A af vandræðunum sem tengdust þessum aðilum.
X kvað A og Y hafa greint sér frá því símleiðis er hann dvaldi ytra að maður, sem þau nefndu Tryggva, væri að rukka þau vegna þessa máls. Kvaðst hann af þessum sökum hafa beðið F um að ræða við Tryggva.
X hafði í apríl og maí 2004 til umráða símanúmer en samkvæmt gögnum málsins var 4 sinnum haft samband úr þeim síma og í síma sem talið er að ákærði Tryggvi hafi notað. Kannaðist X ekki við að hafa verið í sambandi við hann. X var gerð grein fyrir því að samkvæmt endurritum margra símtala komi fram að bæði hann og fleiri ræði símleiðis um Tryggva eða Tryggva túrbó. Kvað X ávallt hafa verið um sama manninn að ræða.
Við skýrslutöku hjá lögreglunni 11. október 2004 lýsti X ferð sinni til Hollands 21. júní sama ár. Hann lýsti því er A hafði samband við hann, en þeir hafi mælt sér mót og farið saman til Rotterdam. Hann lýsti því að fyrir utanförina hafi hann rætt um að kaupa vatnsdælu ytra og nota við málningarvinnu hér á landi. Hann kvað A hafa spurt sig að því hvort enn stæði til að kaupa dæluna og senda hingað til lands. Kvaðst hann hafa sagst vera hættur við. Komið hafi fram hjá A að hann leitaði eftir því fyrir einhverja aðila að senda eitthvað hingað til lands í vatnsdælunni og fengi hann vel greitt fyrir. Kvaðst X hafa hugsað sig um en lokum samþykkt, en hann kvaðst hafa greint A frá því að hann vildi ekki vita hvað flytja ætti með dælunni hingað til lands. Hann kvað nú hafa tekið við 4-5 daga bið sem sér hafi skilist að væri bið eftir peningum. Að því hafi komið að maður að nafni G hafi komið frá Danmörku og kvaðst X hafa gert ráð fyrir því að hann hafi afhent A peninga þar sem A hafi afhent sér peninga eftir þetta. Tveimur dögum síðar hafi þeir A farið til Roosendaal þar sem þeir hittu fólk sem A þekkti. Um það bil tveimur dögum síðar hafi tveir menn komið að máli við X. Annar hafi verið G, sem áður hafði hitt A í Roosendaal og lýst var, en hinn heiti Tryggvi og kvaðst hann ekki vita eftirnafn hans en hann væri oft kallaður Tryggvi túrbó. Komið hafi í ljós að þeir G og Tryggvi hafi verið ósáttir við A og kvað hann sér hafa skilist að það hafi verið sökum þess að A hefði tekið meira af peningunum sem hann hefði fengið afhenta en hann átti að gera. X kvað þá G og Tryggva hafa gist í sama hótelherbergi og þeir A.
Daginn eftir hafi dælan verið keypt og lýsti hann því að Tryggvi hafi sagt sér að bíða á ákveðnum stað uns hringt yrði í hann og honum sagt að sækja dæluna. Kvað hann Tryggva hafa látið sig hafa síma í þessu skyni. Einhverjum dögum síðar hafi Tryggvi hringt í samræmi við það sem rakið var.
Í skýrslutöku hjá lögreglunni 18. október 2004 óskaði X eftir því að breyta framburði sínum og gefa nákvæmari skýrslu um vitneskju og aðild sína að málinu. Fram kom í þessari skýrslutöku að hann hugðist senda hingað til lands fíkniefni sem ekki er fjallað um í ákæru þessa máls og verður ekki vikið frekar að því. Hins vegar kvað hann A hafa óskað eftir því að fá að koma fyrir fíkniefnum í þessari sendingu sem fyrirhuguð var og hafi A þá sagt aðspurður að Tryggvi túrbó ætti viðbótina sem setja ætti í pakkann. Fram kom hjá X að A hefði eytt 2000 evrum sem hann hafi átt að nota til fíkniefnakaupa en eins og rakið var kvað A Tryggva túrbó hafa átt þessa peninga. X lýsti síðan ráðstöfunum og ferðum sínum og A uns þeir fóru til Roosendaal. Ákveðið hefði verið að bíða eftir Tryggva á stað þar sem A þekkti til og hafi komið í ljós að viðmælendur A þar vissu af fyrirhuguðum fíkniefnaviðskiptum.
X lýsti því síðar er Tryggvi og G komu og spurðust fyrir um A. X kvaðst hafa sótt A til fundar við þá Tryggva og G. Hinir tveir síðastnefndu hafi verið A mjög reiðir sökum þess að hann hefði eytt peningunum eins og rakið var. Hafi Tryggvi verið mjög æstur og ,,sagðist jafnvel vilja berja A“. Kvaðst X hafa dregið sig út úr þessari umræðu. Hann kvað niðurstöðu þessa hafa verið þá að A hafi verið settur frá verkefninu og hafi hann átt að fara með Tryggva og G til Danmerkur. Skyldi X halda áfram og flytja efnið fyrir þessa menn og fannst honum sér hafa staðið ógn af mönnunum. Kvað X þá Tryggva og G hafa annast kaup efnisins og átti hann að sjá um að koma efnunum hingað til lands. Hann kvað tafir hafa orðið á afhendingu efnisins og hafi hann verið skilinn eftir með 100 evrur til þess að nota í því skyni að koma efninu til landsins. Hafi hann beiðið eftir efninu á gistiheimili skammt fyrir utan Roosendaal.
Eftir þetta kvaðst hann hafa fest kaup á vatnsdælunni. Einhverjum dögum síðar hafi verið hringt í hann og honum greint frá því að efnin væru komin. Hafi hann þá farið í ákveðna íbúð þar sem efnin hafi verið fyrir. Lýsti hann því að hann hafi orðið hissa á frágangi efnanna sem einungis hafi verið í plastpoka. Hann lýsti síðan pökkun efnanna og sendingu hingað til lands, eins og lýst er í ákærunni, og að A og Y hafi komið frá Danmörku og verið með honum í för. Vegna peningaleysisins hafi hann hringt í Z og beðið hann um að lána sér peninga, sem Z hafi gert og hafi hann lagt peninga inn á reikning Y.
Síðar í sömu skýrslu greindi X frá því að hann hafi hitt Tryggva á billjardstofu hér á landi. Tryggvi hafi þá sagt að hann ætti að sækja sendinguna sem þá var ekki komin til landsins. Kvaðst X hafa fengið á tilfinninguna að hann ætti að koma efninu til Tryggva. Kvaðst hann ekki vilja sækja pakkann og hafi hann farið aftur til Hollands áður en sendingin kom til landsins.
X bar um atburði fyrir dómi sama dag, þ.e. 18. október. Þá bar honum efnislega saman við lögregluskýrsluna sem rakin var. Hann greindi þá meðal annars frá hlut Tryggva í málinu á sama veg. Kvað hann Tryggva eða Tryggva túrbó hafa átt efnin og maður á hans vegum hafi afhent sér fíkniefnin.
Í skýrslutöku hjá lögreglunni 20. október 2004 greindi X enn frá málavöxtum og ætluðum þætti Tryggva eða Tryggva túrbó. Hann var spurður um deili á Tryggva og kvaðst hann þá hafa heyrt sögur af honum og hitt hann eitthvað áður. Hann viti ekki deili á honum önnur en þau að hann heiti Tryggvi og hafi viðurnefnið túrbó. Kvað hann Tryggva eiganda eða forsvarsmann þeirra sem áttu fíkniefnin sem hér um ræðir. Þá lýsti X því að Tryggvi hafi sagt að óþarfi væri að borga undir tvo menn vegna þessa ef einn dygði og hafi hann þá átt við að ekki væri þörf á A. Þá greindi X frá því að hann telji sig hafa afhent manni sem hann lýsti, peninga sem efnið var keypt með. Tryggvi og G hafi síðan komið og annast allt varðandi kaupin. Tryggvi hafi í nokkur skipti farið einn afsíðis með manninum sem tók við peningunum og lýsti X því nánar.
Allar skýrslurnar sem raktar voru hér að ofan gaf X er hann sætti einangrun í gæsluvarðhaldi.
X kom fyrir dóm 8. desember 2004 vegna fyrirtöku kröfu um áframhaldandi gæsluvarðhald. Þá lýsti hann því að hann gæti ekki fullyrt um aðild ákærða Tryggva Lárussonar að málinu. Einu upplýsingarnar sem hann hafi um aðild Tryggva séu frá A og Y en Tryggvi hafi aldrei sjálfur sagt sér að hann ætti fíkniefnin.
X kom enn fyrir dóm vegna framlengingar gæsluvarðhalds 19. janúar 2005. Þá greindi hann svo frá að upplýsingar um aðra sem kunni að tengjast máli þessu hafi hann fengið hjá A og Y. Hafi þau sagt honum að einhver Tryggvi tengdist málinu og að það hafi verið sami Tryggvi og hann hitti í Roosendaal ásamt öðrum manni. Nú hafi hann þær upplýsingar frá A að hann hafi logið til um þetta og að hann hafi verið að vinna fyrir einhverja útlendinga. Kvaðst X nú ekki þekkja ákærða Tryggva og ekki koma honum fyrir sig sem manninum sem hann hitti í Roosendaal. Hann viti engin deili á manninum sem hann hitti þar.
Ákærði Tryggvi neitar sök. Hann kvaðst ekki þekkja hin upphaflega meðákærðu utan hann kannist lítillega við H. Þá kannist hann lítillega við A án þess að þekkja hann. Ákærði kvaðst hafa haldið til Danmerkur 26. júní 2004 og verið þar um mánaðamótin júní/júlí á Hróarskelduhátíð dagana 31. júní til 5. júlí. Hann hafi á þessum tíma hvorki farið til Hollands né Þýskalands. Kvaðst ákærði ekki kannast við að hafa viðurnefnið túrbó þegar hann var um það spurður. Það kemur fram á fjölmörgum stöðum í gögnum málsins að maður er nefndur þessu nafni. Kvað ákærði lögregluna hafa kallað sig þessu nafni.
Frammi liggur æviferilsskýrsla ákærða þar sem fram kemur að hann hafi viðurnefnið túrbó. Ákærði kannaðist við að hafa fyllt skýrsluna út en lögreglan hafi hreinritað skýrsluna. Upplýsingarnar sem ákærði hafi ritað þar hafi hann að mestu fengið hjá lögreglunni en þó verður framburður ákærða ekki skilinn öðruvísi en svo að hann hafi bent sjálfur á viðurnefnið. Ákærði Tryggvi bar við yfirheyrslur hjá lögreglunni 17. nóvember sl. að hann væri stundum kallaður þessu gælunafni, túrbó.
Fram kemur í gögnum málsins að símanúmer, sem rannsóknaraðilar töldu ákærða Tryggva hafa haft til umráða, hafi á tímabilinu frá 18. apríl 2004 til 23. júlí sama ár, haft fjórum sinnum samband við síma í eigu Y og jafn oft í síma í eigu X og 74 sinnum í síma sem var í eigu A. Kvaðst ákærði ekki hafa haft símanúmerið sem um ræðir til afnota, ekki þekkja þetta fólk og ekki muna eftir samskiptum við það. Aðspurður hvers vegna hann teldi ýmsa hafa nefnt nafn hans varðandi innheimtu ætlaðrar fíkniefnaskuldar, kvaðst ákærði telja að fólk tengt þessu máli A með þessu að koma sér undan líkamsárásarkæru og fleiri hlutum og fjármögnun.
Ákærði Tryggvi kvaðst ekki hafa reynt að innheimta fíkniefnaskuld hjá A og Y eftir að lagt var hald á fíkniefnin sem hér um ræðir. Ákærði kannaðist ekki við að hafa átt fund með E eins og rakið var í framburði X og fram kemur og rakið verður síðar, meðal annars þegar rakinn verður vitnisburður E.
Við skýrslutöku af ákærða fyrir dóminum 29. f.m. kvaðst hann ekki hafa neinu við sinn fyrri framburð að bæta en hann hlýddi á vitnisburð þeirra sem þá komu fyrir dóminn.
Y kvað mann, sem hún kaus að nafngreina ekki, hafa komið að máli við sig og greint sér svo frá að allt væri brjálað hér á landi vegna vandamála sem tengdust A ytra. Kvaðst hún ekki vilja nafngreina þann mann til að vernda sig og fjölskyldu sína. Var hún spurð hvort þessi maður væri ákærði Tryggvi en kvað hún svo ekki vera. Hún hafi aldrei nefnt Tryggva og viti ekki hver hann sé. Aðspurð um tilvik er hún nefndi nafnið Tryggvi á nafn, eins og sjá má af mörgum hljóðrituðum símtölum, kvaðst hún hafa heyrt þetta nafn og sögusagnir hermdu að einhver Tryggvi stæði á bak við innflutning fíkniefnanna. Kvað hún hann ekki vera sama mann og ákærða Tryggva sem hún þekki ekkert og hún viti ekki hvort hann eigi hlut að máli. Svör Y og skýringar voru mjög óljósar við spurningum um það hvers vegna hún nefndi aðeins nafn Tryggva í símtölum er innheimta skuldar var rædd en ekki önnur nöfn, þar sem hún kvaðst hafa heyrt mörg nöfn nefnd.
Y kvað A hafa farið til sjós í 40 daga eftir heimkomu en X hafi verið ytra. Á þessu tímabili hafi eigendur efnanna reynt að nálgast þau og gengið hart fram í innheimtu skuldar sem skilja verður af samhenginu að hafi verið talin hafa stofnast er fíkniefnin sem hér um ræðir voru haldlögð. Hún kvaðst ekkert vita um hlutverk meðákærðu og ekkert geta borið um inngangskafla þessa ákæruliðar. Hún viti ekkert um málið til að bera þar um. Hún kvaðst hafa óljósar hugmyndir um ráðagerðir X og A varðandi fíkniefnin og hana hafi grunað að utanferð þeirra tengdist fíkniefnum en hún hafi ekki vitað það nákvæmlega. Hún kvaðst hafa verið með A og X í bifreiðinni, leiðina sem lýst er í ákærunni. Hún hafi engan þátt átt í málinu og ekki liðsinnt X eins og vikið er að í ákærunni. Hún staðfesti að Z, sem hún kvaðst ekki þekkja, hafi að beiðni X lagt 45.000 krónur inn á reikning hennar en þetta hafi verið gert sökum þess að X hafi ekki haft reikning til afnota í þessu skyni. Þau hafi verið peningalaus og strandaglópar er þetta var gert. Hún kvaðst hafa eftir A að Z hafi átt að fá 100 200 g af kókaíni. Framburður Y um það eftir hverjum hún hafði þetta, er mjög á reiki.
Eftir heimkomu kvaðst Y hafa reynt, að beiðni A, að nálgast farmskjöl vegna sendingarinnar fyrir hann. Hún hafi vegna þessa haft samband við systur sína, sem var starfsmaður C, til að athuga hvað kostaði að leysa pressuna út. Henni hafi þá verið sagt að til þess þyrfti aðflutningsgögn. Í því skyni að finna þau hafi þær I, unnusta X, farið og athugað bifreið hans við Leifsstöð auk þess að fara á tvo aðra staði þar sem enginn reyndist heima. Þær hafi ekki fundið skjalið.
Y var spurð um hljóðrituð símtöl, til að mynda símtal frá 26. júní 2004, þar sem hún staðfesti að hafa rætt við X og A. Í þessu símtali ber nafn Tryggva á góma. Kvaðst hún ekki hafa hugmynd um hvaða Tryggva þau voru að tala um. Þá kemur fram að rætt hafi verið um það að Tryggvi væri í Danmörku og kvaðst hún ekki vilja segja hver greindi henni frá því.
Þá var Y spurð út í símtal 16. júlí 2004 þar sem viðmælandi hennar kveðst heita Tryggvi. Kvaðst hún ekkert vita hvaða maður það væri. Hún þekki hann ekki.
Y var innt eftir framburði sínum hjá lögreglunni þess efnis að hún þyrði ekki að tjá sig um það hvort Tryggvi, sem margnefndur er í símtölum þar sem ákærða átti hlut að máli, væri ákærði Tryggvi. Kvaðst hún ekki vilja tjá sig um eitthvað sem hún sé ekki hundrað prósent viss um. Hún þekki ákærða Tryggva ekki.
Y lýsti vitneskju sinni um fund sem einhver átti á vegum X og A. Hún kvað fundarefnið hafa verið innheimtu peningaskuldarinnar sem hafi verið reynt að innheimta hjá þeim A.
Y lýsti því við skýrslutöku hjá lögreglunni 20. september 2004 er þau A, unnusti hennar, héldu til Þýskalands til móts við X sem ferðaðist með vatnsdæluna. Þá greindi hún frá því að á leið þeirra þriggja til Danmerkur, eftir að X hafi skilað vatnsdælunni af sér, hafi hann hringt í mann sem hún kveðst nú vita að heiti Z og hafi sá lagt 45.000 krónur inn á reikning hennar en þau þrjú hafi verið peningalaus á ferðalaginu.
Í þessari skýrslu lýsti hún því hvernig menn, sem hún vildi ekki nafngreina, reyndu að innheimta hjá þeim A eina til tvær milljónir króna sem áttu að vera vegna þess að lagt var hald á efnið sem hér um ræðir. Hún lýsti því að þau A hafi verið á flótta og falið sig en mennirnir hafi gengið illilega í skrokk á A, rifbeinsbrotið hann báðum megin og andlit hans hafi verið stokkbólgið auk fleiri áverka.
Við skýrslutöku 28. september 2004 lýsti Y því að hana hafi frá upphafi grunað að fíkniefni væru í pakkanum sem X flutti með sér. Hún kvað þá A hafa verið skilda að í Hollandi og eftir það hafi X einn átt að flytja pakkann. Hún kvaðst ekkert hafa lagt til vegna þessarar sendingar, hvorki fjármuni né annað og X og A hafi hlíft henni við vitneskju um málið. Hún kvaðst einnig vita að hvorki X né A hafi lagt peninga til þessarar fíkniefnasendingar. Þá lýsti hún því að mennirnir sem hún kvað hafa átt fíkniefnin hafi stöðugt spurt þau A um sendinguna. Kvaðst hún þá hafa sett sig í samband við systur sína, starfsmann C, og þá komist að því að sendingin var stopp vegna þess að smygl væri í henni.
Við skýrslutöku 4. október 2004 lýsti Y vitneskju sinni um tilgang utanfarar X og meðhöndlun annarrar fíkniefnasendingar en hér um ræðir. Er framburður hennar um þetta mjög á sama veg og framburður X. Hún lýsti því er einn mannanna sem A vann fyrir mælti sér mót við A í Hollandi 2. júlí 2004. Þessi maður hafi orðið mjög reið út í þá A og X, meðal annars vegna þess að X skyldi koma með A á fund þeirra. Ekki hefði verið ákveðið að þessi maður og X hittust. Hún lýsti því er maðurinn ákvað að skilja þá X og A að og hafi A farið með þessum manni og einum til, til Danmerkur en X hafi orðið eftir. Kvað hún X hafa greint sér frá því að hann hefði pakkað fíkniefnunum í loftpressuna sem send var hingað til lands. Hún lýsti því að þau A hafi komið til móts við X. Þau hafi orðið peningalaus á leið sinni til Danmerkur. X hafi þá fengið lán hjá Z eins og rakið var.
Í yfirheyrslunni 4. október 2004 var borið undir Y hljóðritað símtal frá 26. júní 2004. Þar ræðir hún við A og spyr hann hvort hann viti að Tryggvi sé í Danmörku. Fram kom hjá A að hann vissi það. Þá greindi Y svo frá að henni skyldist sem Tryggvi ætlaði ,,að drepa þig líka út af þessu“. Y var spurð um það hvaða Tryggva hún ræddi við og hvort það væri Tryggvi túrbó eða Tryggvi Lárusson. Kvaðst hún ekki þora að tjá sig neitt um það. Aðspurð kvað hún A hafa hitt Tryggva bæði í Danmörku og í Hollandi.
Við skýrslutöku 8. október 2004 var Y spurð nánar um Tryggva en hún vildi ekki tjá sig um það.
Y kom fyrir dóm 8. október 2004 og staðfesti lögregluskýrslur sem teknar höfðu verið af henni og raktar voru að ofan. Fyrir dóminum kvaðst hún vita hverjir eigendur fíkniefnanna væru en hún kvaðst hrædd við að gefa upp nöfn þeirra.
Við skýrslutöku 4. nóvember 2004 var Y spurð hver væri Tryggvi túrbó, en nafn hans og símanúmer var vistað í síma hennar. Kvaðst hún ekki vilja tjá sig um það.
Við skýrslutöku 16. desember var leikið hljóðritað símtal þar sem Y ræðir við mann sem kynnir sig sem Tryggva. Símanúmer hans er hið sama og það sem vistað var í síma Y undir nafninu Tryggvi túrbó. Hún var spurð hvaða Tryggvi þetta væri. Kvaðst hún ekki vilja tjá sig um það og sama svar gaf hún við fleiri spurningum sem fyrir hana voru lagðar um Tryggva. Við sömu skýrslutöku var leikið hljóðritað símtal sem Y kvað milli sín og X. Þar kemur fram hjá henni að hana vanti eina og hálfa fyrir fimmtudaginn. X spyr hana þá hvort það sé fyrir Tryggva og svarar hún því játandi. Er hún var spurð um hvað þau ræddu og um hvaða Tryggva þau ræddu, kvaðst hún ekki þora að tjá sig þar um. Henni var greint frá því að fram komi í hljóðrituðum símtölum sem liggja frammi að hún ræði við að minnsta kosti fjóra menn um Tryggva eða Tryggva túrbó. Kvaðst hún ekki þora að tjá sig um þetta og heldur ekki hvort hún hafi verið að ræða um Tryggva Lárusson.
Z lýsti kynnum sínum og X á þessum tíma, en til hafi staðið að X hæfi störf hjá sér. Hann kvaðst vita í hverju X stóð á þessum tíma en hann kvaðst hafa talið að það sem X nefndi væri hugarburður hans. Hann hefði margsinnis fært í tal við sig að fá leyfi til að senda fíkniefni á fyrirtæki hans B ehf. X hafi meðal annars boðið sér nokkurt magn af kókaíni ef hann heimilaði þetta sem hann kvaðst aldrei hafa gert. Z kvað sér hafa virst eitthvað gruggugt á ferðinni er starfsmenn C hringdu og sögðu að fyrirtækið ætti pakka sem hefði borist hingað til lands frá Hamborg. Hann kvaðst hafa ætlað að athuga málið, sem hann gerði. Hann hafi síðan hringt í C og greint frá því að hann ætti ekki þessa sendingu og að eitthvað væri bogið við þetta. Hann hafi átt von á sendingu frá Munchen.
Z kvaðst ekkert vita um það hvort Y reyndi að nálgast sendinguna eins og lýst er í ákærunni.
Z lýsti því er I, sambýliskona X, kom að máli við hann, að því er hann taldi um viku eftir að hann fékk símhringinguna frá C. Hún hafi greint honum frá því að málið væri hættulegt og að hann skyldi ekki leysa sendinguna út. Hann kvaðst hafa greint henni frá því að hann hefði þegar sagt stafsmanni C að hann ætti ekki sendinguna.
Hljóðritað símtal var borið undir Z. Ekki þykir ástæða til að rekja efni þess enda varpar það ekki, að mati dómsins, frekara ljósi á málavexti.
Z gaf meðal annars skýrslu fyrir dómi 20. október 2004 er hann var leystur úr gæsluvarðhaldi. Ekki verður annað ráðið af þeirri skýrslu en að hann hafi aldrei heimilað X að senda fíkniefni stíluð á fyrirtæki hans B ehf. Kom fram hjá honum að hann hafi talið málaleitan X hugarburð og honum hafi ekki orðið ljóst að hann hefði sent fíkniefnin fyrr en hann fékk símhringingu frá C um sendinguna.
Eins og fram kemur í ákærunni er A nú látinn. Nýtur því aðeins framburðar hans hjá lögreglu og að hluta fyrir dómi en sumar skýrslurnar staðfesti hann fyrir dómi eins og rakið verður. Við úrlausn málsins verður lagt mat á sönnunargildi framburðar A á grundvelli 3. mgr. 48. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála og er því nauðsynlegt að reifa framburð hans ítarlega. Verður það gert hér á eftir.
A gaf skýrslu hjá lögreglunni 30. september 2004. Við þá skýrslutöku var borið undir hann símtal sem hann átti við Y. Ráða má af þessu símtali að hann vissi af því að senda átti 8 kíló af amfetamíni til landsins. Í skýrslunni lýsti A fíkniefnakaupum X ytra og því að þau efni hafi annar maður tekið og fjallar ákæra máls þessa ekki um það. A kvaðst hafa farið til Hollands og hitt X. Þar hafi hann afhent honum 10.000 evrur sem nota átti til að kaupa 8 kíló af amfetamíni. A kvað X hafa hitt eiganda peninganna eftir að A fór til Danmerkur þar sem hann kvaðst hafa hitt Y. A kvaðst ekki vilja nafngreina þennan mann sökum þess að hann óttaðist um líf sitt. A lýsti því síðan er X hringdi og þau Y fóru til fundar við hann og fylgdu honum uns hann kom sendingunni fyrir til flutnings hingað til lands. A kvað Y hafa vitað hvað fram fór. Hann hefði greint henni frá því en hún hafi ekki átt neinn hlut að máli.
Í skýrslutöku af A hjá lögreglunni 7. október 2004 lýsti hann ferð sinni til Hollands þar sem hann hitti X. Lýsti A því að hann hefði eytt öllum sínum peningum í tveggja daga óreglu. Eftir það hafi komið til þeirra maður frá Danmörku. Hafi hann afhent A 10.000 evrur sem A kvaðst hafa afhent X til að kaupa 8 kíló af amfetamíni. Allt hafi þetta átt sér stað í Rotterdam. A kvað manninn sem áður afhenti honum peningana hafa viljað að hann færi með sér til Danmerkur, sem úr varð, en ástæðuna kvað A þá að maðurinn hafi ekki viljað að hann kæmi meira nálægt málinu. Á þessari stundu hafi ekki verið búið að kaupa fíkniefnin. Í þessari skýrslu lýsti hann kynnum sínum af Tryggva sem hefði viðurnefnið túrbó.
Við skýrslutökuna 7. október 2004 var borið undir A innihald hljóðritaðs símtals frá 12. september sama ár. sem hann staðfesti að væri milli sín og X. Þar kom greinilega fram að gengið hefði verið í skrokk á A og staðfesti hann það. Einnig er Tryggvi iðulega nefndur á nafn í símtalinu þannig að greinilega tengist máli þessu. Aðspurður við hvaða Tryggva þeir hafi átt, kvað A það líklega vera Tryggva túrbó. Í þessari skýrslutöku greindi A frá því að X hefði farið til Hollands upphaflega til að kaupa önnur fíkniefni en þau sem hér um ræðir og flytja hingað til lands. A kvaðst sjálfur hafa haft hug á því að nota þessa ferð og flytja inn fíkniefni en þá hafi hann boðið manni hér á landi að taka þátt í þessu. Hafi sá sagst ætla að afhenda peninga ytra til fíkniefnakaupa. A lýsti því að maðurinn sem X ætlaði upphaflega að flytja inn fíkniefni fyrir hefði orðið reið er hann frétti af A og hafi því ekkert orðið úr því að X stæði að innflutningi fyrir þennan mann. Eftir þetta hafi maðurinn sem A hafi boðið að taka þátt í þessu komið út og afhent 12.000 evrur til kaupa á fíkniefnum. Lýsti A því sem áður er fram komið hvernig þeir X eyddu 2000 evrum. Er þeir hafi hitt manninn skömmu síðar og greint honum frá eyðslunni hafi hann orðið mjög reið og ákveðið að A skyldi ekki koma nærri þessu meira, heldur fara með manninum til Danmerkur, sem úr hafi orðið. Eftir þetta hafi það verið X að sjá um að koma fíkniefnunum hingað til lands. Þá lýsti A því er X hringdi í hann og þau Y hafi farið á bílaleigubíl til Þýskalands þar sem þau hafi hitt X eins og rakið var að ofan. A lýsti síðan símtali sem hann átti við manninn sem afhenti peningana og greindi honum frá því að þau Y væru komin til landsins.
Þá lýsti A því er eigandi fíkniefnanna tók að þrýsta á hann um að nálgast pakkann með fíkniefnunum. Kvaðst A ekki hafa haft undir höndum gögn til þess og lýsti hann því er Y og I, fyrrverandi sambýliskona X, reyndu að útvega gögnin árangurslaust.
Í skýrslutöku 14. október 2004 greindi A enn frá fundum þeirra X og mannsins sem afhenti peningana. Nú lýsti hann því að þeir hafi hitt tvo menn, en annar mannanna hafi ekki gegnt neinu hlutverki í málinu og vildi A ekki nafngreina hann. Þessir menn hafi báðir gist hjá þeim X á hóteli í Roosendaal. A kvað fundinn hafa átt sér stað í Roosendaal þar sem eigandi peninganna hafi hringt og sagt A frá því að hægt væri að fá fíkniefni á lægra verði þar en í Rotterdam, þar sem upphaflega hafi staðið til að kaupa efnið. A lýsti því að annar mannanna sem þeir hittu í Roosendaal hafi lagt inn pöntun fyrir 8 kílóum af amfetamíni. Efnið hafi ekki verið tilbúið til afhendingar er A hélt til Danmerkur en X hafi átt að bíða eftir efnunum, sem hann hafi gert á sveitahóteli.
A lýsti því aftur fyrir dómi að maðurinn sem afhenti peningana hefði orðið reið, bæði vegna þess að eytt hefði verið 2000 evrum og vegna þess að þeir hafi átt að hittast tveir, en ekki með X. A lýsti því efnislega á sama veg og áður er hann var tekinn frá þessu verkefni og það falið X.
A var í þessari skýrslu ítrekað spurður um nafn mannsins sem átti peningana og honum greint frá því að X hefði greint svo frá að mennirnir sem þeir hittu í Roosendaal hétu Tryggvi og G. Kvaðst A ekki vilja tjá sig um þetta þar sem hann óttaðist að mennirnir myndu hefna sín.
A bar enn um málavexti við skýrslutöku 21. október 2004. Þá lýsti hann atburðum á sama veg og rakið hefur verið í öllum aðalatriðum. Hann staðfesti þar að framburður X væri réttur um að tveir menn hefðu staðið að baki fíkniefnasendingunni sem hér um ræðir en hann kvaðst ekki þora að nafngreina þá. Síðar í þessari skýrslu lýsti A því að hann hafi verið að redda sendingunni sem hér um ræðir fyrir einn mann sem hann þori ekki að nafngreina. Í þessari skýrslu lýsti A því að hann hafi fengið peningana afhenta í Rotterdam 28. eða 29. júní 2004. A kvað mennina tvo sem þeir X hittu í Roosendaal ekki hafa þekkt X fyrir. A hafi kynnt þá þarna.
Í þessari skýrslu var A kynntur framburður Y og X sem þau gáfu hvort um sig í einangrun. Þau báru bæði um fund A og Tryggva, bæði í Danmörku og í Hollandi. Þá var A kynntur framburður X þess efnis að A hafi sagt honum að hann væri að redda þessum fíkniefnum fyrir Tryggva túrbó og að G hafi komið með Tryggva frá Danmörku. Svar A við þessari spurningu og fleirum þar sem nafnið Tryggvi ber á góma er ávallt hið sama, ,,ég vil ekki tjá mig um það“. Þá lýsir A í samfelldu máli ferð sinni út til fundar við X og því sem gerðist í framhaldinu í Rotterdam, afhendingu peninganna, eyðslu að hluta til, fundi allra fjögurra í Roosendaal og reiði mannanna tveggja í hans garð af ástæðu sem áður hefur verið nefnd og því hvernig hann var rekinn frá verkefninu, kaupum fíkniefnanna, bið eftir þeim og því að X hafi einn orðið eftir er A og mennirnir tveir héldu saman til Danmerkur.
Eins og rakið var, var borið undir A símtal hans við X frá 12. september 2004 þar sem þeir ræða um Tryggva. A staðfesti í þessari skýrslu að þarna væri átt við Tryggva túrbó en hann kvaðst ekki vilja tjá sig frekar þar um.
Er A kom fyrir dóm 22. október 2004 var tekin fyrir fyrri krafa um gæsluvarðhald. Staðfesti hann þá efnislega réttar skýrslur sem hann gaf hjá lögreglunni 14. og 21. sama mánaðar og raktar voru hér að ofan.
Við skýrslutöku 30. nóvember 2004 var borið undir A hljóðritað símtal frá 19. júlí 2004 og honum gerð grein fyrir því að talið væri að hann hafi þarna verið að ræða við Tryggva Lárusson. Kvaðst A ekki muna eftir símtalinu og ekki vita hvort viðmælandinn hafi verið Tryggvi Lárusson.
Hinn 21. janúar 2005 barst þáverandi verjanda ákærða Tryggva bréf í faxi frá Litla-Hrauni. A undirritar skjalið sem vottað er af tveimur vottum, öðrum fangaverði og hinum refsifanga. Bréfið er svohljóðandi: “Ég verð að láta verjanda Tryggva Lárussonar vita það og dómstóla að lögreglan er með rangan mann í gæsluvarðhaldi sem er Tryggvi Lárusson, hann er ekki maðurinn sem ég vann með, ég hef aldrei viljað tjá mig um nöfn í þessu máli en ég get ekki verið með það á samviskunni að saklaus maður verður dæmdur. Með virðingu A kt. [...].“
Vitnið J kvað ákærða Tryggva Lárusson ekki vera manninn sem kom að innheimtu skuldar sem mikið bar á góma undir rannsókn málsins. Vitnið kvaðst ekki þekkja ákærða Tryggva. J lýsti því að E hafi hringt í vitnið er hún hafi verið stödd í Amsterdam. Hún hafi þá talið að rukkunin sem um ræðir hafi verið af hálfu Tryggva Lárussonar.
Tekin var lögregluskýrsla af E 23. nóvember 2004 þar sem hann var spurður hvort hann þekkti Tryggva Lárusson. J svararði: ,,Já það er Tryggvi túrbó, ég veit hver hann er“.
Þessa skýrslu staðfesti J fyrir dómi samdægurs.
Í skýrslutöku hjá lögreglunni 15. desember 2004 greindi J svo frá að K hafi hringt í Tryggva og vitnið hafi þá frétt af skuld A við ákærða Tryggva. Fyrir dóminum kvaðst hann hafa frétt að eitthvað væri í gangi milli ákærða Tryggva og A. Skilja mátti á J að framburður hans hjá lögreglunni væri eins og rakið var sökum þess að lögreglan hafi orðað skýrsluna eins og raun ber vitni og hann hafi ekki fengið henni breytt. Í framangreindri skýrslutöku 15. desember voru borin undir J hljóðrituð símtöl og hann spurður um efni þeirra. Þar greindi hann meðal annars frá því að ákærði Tryggvi hefði reynt að innheimta skuld hjá A vegna amfetamíns sem hafi farið forgörðum. Þá lýsti hann því að frændi hans væri æskuvinur ákærða Tryggva og sá hafi sagt að rukkun ákærða Tryggva væri réttmæt. Þá má ráða af símtali að gengið hafi verið í skrokk á A á heimili J. J greindi frá því að K hafi hringt í ákærða Tryggva og sagt honum að A væri á heimili J. Kvaðst J þarna hafa frétt af því að A skuldaði ákærða Tryggva peninga. J lýsti eftir þetta nákvæmlega hvaða tveir menn komu á heimili hans á þessum tíma og þá hafi ákærði Tryggvi hlaupið út á bílaplan og sagt þessum mönnum að gera A ekkert.
J lýsti fleiru sem þarna gerðist, meðal annars því að hann hafi komið á fundi milli E og ákærða Tryggva og gefið hvoru um sig upp símanúmer hins. J lýsti síðan ýmsum samskiptum A og Y annars vegar og ákærða Tryggva hins vegar en ekki er ástæða til að rekja það allt hér.
J staðfesti þessa skýrslu fyrir dómi samdægurs.
Undir fyrri aðalmeðferð málsins kvaðst J ekki vita hvers vegna hann nefndi ákærða Tryggva jafn oft og raun ber vitni undir rannsókn málsins. Hann kvaðst hafa átt við K er hann nefndi ákærða Tryggva. Breyttur vitnisburður J eins og rakinn hefur verið er mjög ótrúverðugur og er ekki ástæða til að rekja vitnisburð hans undir aðalmeðferð málsins frekar.
Vitnið E lýsti því er hún frétti af því að A hafi óttast um líf sitt, en hann hefði verið laminn og kvaðst hún hafa séð hann þannig útleikinn. Hafi A greint svo frá að hann hafi verið laminn vegna fíkniefnasendingarinnar sem fór forgörðum. E kvaðst hafa rætt við þá ákærða Tryggva, K og J vegna þessa. Kvaðst E hafa átt fund með Tryggva af þessum sökum en hún kvaðst ekki vita málavexti og hver gekk í skrokk á hverjum. Hún kvað sig minna að ákærði Tryggvi hafi hvorki játað ofbeldið né neitað.
E gaf skýrslu hjá lögreglunni 8. desember 2004. Þar greindi hún svo frá að X hefði verið mjög reið út í mann sem hann nefndi Tryggva vegna ofbeldis sem A hafi orðið fyrir. E kvaðst hafa boðið sig fram til fundar við manninn vegna þessa og kvaðst hún hafa hitt Tryggva í Mjóddinni hér í borg. Hún hafi rætt við hann vegna þessa en komið hafi í ljós að A hafi skuldað Tryggva peninga. Tryggvi hafi ekki kannast við að hafa ráðist á A en E lýsti því að Tryggvi hafi ekki átt von á henni til þessa fundar. Hún kvað manninn sem hún hitti þarna vera Tryggva Lárusson sem kallaður væri Tryggvi túrbó. Þá staðfesti E að fram komi í hljóðrituðu símtali milli hennar og X að hann hafi gefið henni upp símanúmer Tryggva túrbó svo hún gæti haft samband við hann.
E staðfesti þennan framburð fyrir dómi samdægurs.
Vitnið F staðfesti að hafa vitað að Tryggvi túrbó væri að rukka Y og A vegna fíkniefnanna sem hér um ræðir og lagt var hald á.
Tekin var skýrsla af F hjá lögreglunni 8. desember sl. Þar lýsir hann því sem að ofan greinir. Í annarri lögregluskýrslu sama dag lýsti F enn þessari vitneskju sinni og rukkun Tryggva túrbó og hræðslu Y við hann af þessum sökum. Þá kom fram í hljóðrituðum símtölum að F ræðir við Tryggva túrbó um sama efni.
F kom fyrir dóm 8. desember sl. og lýsti vitneskju sinni um að Tryggvi túrbó væri að rukka Y og A vegna efnisins sem lagt var hald á. Hann lýsti því að Y hafi verið hrædd af þessum sökum.
Vitnið I, fyrrverandi sambýliskona X, kvaðst hafa fengið vitneskju um málið þegar hún hafði símasamband við Y, eftir að hún hafði ekki heyrt í X nokkurn tíma. Hafi Y þá greint henni frá því að X og A hefðu flutt fíkniefni til landsins. Ekki hafi komið fram hver hafi verið hlutur Y í þessu. I lýsti því er þær Y héldu saman að Leifsstöð til að leita í bifreið X að reikningi vegna sendingarinnar sem hér um ræðir. I lýsti því er hún að beiðni X fór á fund Z í því skyni að greina honum frá því að X hefði flutt til landsins fíkniefni á fyrirtæki Z. Er hún ræddi við Z um þetta hafi komið í ljós að hann vissi þetta. Vitnisburður I er mjög óljós um það hvernig Z hefði fengið upplýsingarnar um að eitthvað væri að sendingunni.
I var spurð hvort hún vissi hvort ákærði Tryggvi ætti hlut að máli. Kvaðst hún ekki vita það en vissi aðeins af frásögn X og Y að þau þekktu Tryggva. Fram hafi komið hjá Y að hún hafi rætt málin við Tryggva sem hafi verið í sambandi við A vegna þessa.
Vitnið L, starfsmaður C, kvað Y, systur sína, hafa haft samband og beðið sig um að afgreiða vörusendingu. L kvaðst hafa greint henni frá því að það vantaði reikning vegna vörunnar. Þá kvaðst L hafa greint Y frá því að sendingin sem spurt var um væri í tollskoðun. L kvaðst á þessum tíma ekki hafa vitað um innihald sendingarinnar og Y hafi ekki gefið neitt í skyn þar að lútandi.
Vitnið M, starfsmaður C, lýsti því er hún hafði símasamband við B ehf. Hún greindi frá því að sending hefði borist fyrirtækinu frá Hamborg. Hafi starfsmaðurinn sem hún ræddi við sagst ætla að útvega reikninginn vegna sendingarinnar. Hann hafi síðan hringt aftur og greint henni frá því að hann ætti ekki þessa sendingu. Hafi hún af þeim sökum bent manninum á að tala við viðskiptaþjónustuna.
Vitnið N kvaðst hafa hitt ákærða Tryggva Lárusson á Hróarskelduhátíðinni sem stóð yfir 1. til 5. júlí 2004 og Tryggvi hafi gist á heimili hennar miðvikudaginn á þessu tímabili, en N kvaðst einnig hafa hitt Tryggva á laugardeginum.
Vitnið O kvað Tryggva Lárusson hafa verið á Hróarskelduhátíðinni dagana 1. til 4. júlí 2004 og þar hafi hann hitt ákærða Tryggva á föstudegi og laugardegi.
Vitnið P kvaðst hafa hitt ákærða Tryggva eitthvað alla dagana sem Hróarskelduhátíðin stóð yfir, en það hafi verið dagarnir 1. til 4. júlí síðastliðnir að sögn hennar.
Vitnið Q staðfesti yfirlýsingu sína frá 22. september 2005. Þar kemur fram að ákærði hafi komið í heimsókn til vitnisins í Kaupmannahöfn að því er Q taldi laugardaginn sem Hróarskelduhátíðin var haldin á árinu 2004. Fyrir dóminum kvaðst Q telja að hann hafi hitt ákærða á laugardeginum þótt hann sé ekki alveg viss um það.
Vitnið R staðfesti yfirlýsingu sína frá 19. september 2005. Þar kemur fram að hún hafi hitt ákærða á Hróarskelduhátíðinni sem fram fór dagana 1. til 4. júlí 2004. Hún taldi sig hafa hitt ákærða alla daga hátíðarinnar utan síðasta daginn.
Vitnið S staðfesti yfirlýsingu sína frá 27. september 2005 þar sem fram kemur að ákærði hafi tvisvar sinnum komið í heimsókn til hans á þeim tíma sem Hróarskelduhátíðin var haldin, 1. til 4. júlí 2004 en þá bjó S í Kaupmannahöfn. Þá hafi hann hitt ákærða í Kaupmannhöfn 3. júlí auk þess að hafa hitt ákærða á heimili T þar sem ákærði gisti þrjár nætur á þessum tíma.
Vitnið T staðfesti yfirlýsingu sína frá 28. september 2005 en þar kemur fram að ákærði hafi komið í heimsókn dagana sem Hróarskelduhátíðin var haldin dagana 1. til 4. júlí 2004 en þá var T búsettur í Kaupmannahöfn. Ákærði hafi gist á heimili T dagana sem hátíðin stóð yfir. T lýsti samskiptunum við ákærða þessa daga. Hann vissi ekki hvar ákærði dvaldi áður en hann kom til Kaupmannahafnar.
Vitnið U staðfesti yfirlýsingu sína frá 22. september 2005 þar sem fram kemur að hann hitti ákærða daglega dagana sem Hróarskelduhátíðin fór fram 1.til 4. júlí 2004.
Vitnið Ragnar Ragnarsson rannsóknarlögreglumaður lýsti því hvernig staðið er að gerð æviferilsskýrslna, en ein slík var gerð um ákærða Tryggva. Kvaðst Ragnar hafa heyrt að ákærði hafi sjálfur ritað í skýrsluna upplýsingar um sig en það blað hafi síðan verið hreinritað. Vitnið tók skýrslur af A undir rannsókn málsins og skýrði gang þeirra.
Vitnið Steindór Elíasson rannsóknarlögreglumaður lýsti því að ákærði Tryggvi hefði sjálfur fyllt út æviferilsskýrslu þar sem fram kom hjá honum að hann hefði viðurnefnið túrbó. Hafi vitnið þessar upplýsingar eftir Jens Hilmarssyni rannsóknarlögreglumanni. Steindór lýsti því að rannsóknaraðilum hafi verið ljóst að A hafi verið undir miklum þrýstingi frá ákærða Tryggva um að breyta framburði sínum. Hafi A margsagt lögreglu frá þessu. A hafi hins vegar aldrei óskað eftir því að breyta framburði sínum.
Vitnið Ingólfur Arnarson rannsóknarlögreglumaður skýrði hvernig nafn Tryggva túrbó kom fram við yfirheyrslu á K vegna líkamsárásar, en þá hafi nafn Tryggva túrbó borið á góma. Þá hafi komið fram að A skuldaði Tryggva peninga.
Jakob Kristinsson dósent staðfesti og skýrði niðurstöðu rannsóknar efnisins sem hér um ræðir. Við rannsókn kom í ljós að efnið innihélt 78% koffein og magn amfetamínbasa í efninu hafi verið 16%.
Niðurstaða ákæruliðar 1.
Ákærði neitar sök samkvæmt þessum ákærulið. Mjög víða í gögnum málsins er vikið að ,,Tryggva túrbó“. Eins og rakið var telur dómurinn framburð ákærða Tryggva ekki verða skilinn öðruvísi en svo að hann hafi sjálfur ritað viðurnefnið ,,túrbó“ í æviferilsskýrslu sína þótt hann hafi borið að hafa fengið flestar upplýsingarnar sem þar koma fram hjá lögreglunni. Sá framburður ákærða er út í hött að mati dómsins. Þá greindi ákærði Tryggvi svo frá við yfirheyrslu hjá lögreglunni 17. nóvember 2004 að hann væri stundum nefndur gælunafninu ,,túrbó“. Með því sem nú hefur verið rakið og með framburði X og Y og með framburði A undir rannsókn málsins og svo sem ráða má af fjölmörgum hljóðrituðum símtölum og af öðrum gögnum málsins, er sannað að ákærði Tryggvi hafði á þeim tíma sem hér um ræðir viðurnefnið ,,túrbó“.
Í málinu liggja fyrir fjölmörg hljóðrituð símtöl þar sem ýmist er rætt um ,,Tryggva túrbó“ eða þeir sem ræða í símann hafa borið um að verið sé að ræða um ,,Tryggva túrbó“. Er í þessu sambandi vísað til þess sem áður er rakið um þessi símtöl auk þess að vísa til framburðar ákærða og vitna um þetta. Má í þessu sambandi nefna símtal Y og manns sem í símtali við hana 11. nóvember 2004 nefnir sig Tryggva, símtal Y og A frá 26. júní 2004, þar sem rætt er um að Tryggvi ætli að drepa A vegna málsins og símtal X og E frá 14. september 2004 þar sem X gefur E upp símanúmer ,,Tryggva túrbó“. Númerið sem þar var gefið upp er hið sama og hljóðritað var tveimur dögum síðar eða 16. september 2004, þar sem Tryggvi Lárusson athugar hvenær hann átti pantaðan tíma hjá lækni. Fleiri símtöl má nefna en látið er nægja að vísa til reifunar málavaxta hér að framan um þetta.
Ráða má af framburði X og Y og af framburði A að þau þekktu ákærða Tryggva á þessum tíma. Þetta er einnig ljóst af símtölum sem nefnd voru. Breyttur framburður X um það að ákærði Tryggvi sé ekki maðurinn sem hann hitti ytra og var eigandi og/eða kaupandi fíkniefnanna er ótrúverðugur. Er hann í fullkomnu ósamræmi við flest það sem áður er fram komið í málinu og sem einstaklingar, þ.á m. X sjálfur, báru um í einangrun í gæsluvarðhaldi. Það álit dómsins helgast meðal annars af því að X þekkti Tryggva fyrir. Þá bar hann um fund þeirra á billjardstofu eftir heimkomu. Af þessu og mörgu öðru má ráða að maðurinn er ákærði Tryggvi.
Þótt Y hafi ekki viljað, á rannsóknarstigi málsins, svara spurningum beint um það hvort Tryggvi, sem hún ræddi við símleiðis, væri ákærði Tryggvi, telur dómurinn það ljóst af öllu samhengi málsins að svo er. Breyttur framburður Y kann að eiga sér eðlilegar skýringar eins og þær að hún hafi verið og sé ef til vill enn hrædd við að greina frá, enda kemur fram í gögnum málsins að gengið hafi verið hart fram í innheimtu skuldar hjá þeim A og jafnvel gengið í skrokk á honum. Þá hafa bæði X og vitni borið um hræðslu Y og um innheimtu Tryggva á þessari skuld. Auk þess sem nú hefur verið rakið er það mat dómsins, þótt ákærði Tryggvi neiti að eiga hlut að máli, að hann sé maðurinn sem kemur fram í hljóðrituðum símtölum undir nafninu Tryggvi. Þetta álit dómsins helgast af samanburði á þessum símtölum og hljóðrituðum þinghöldum og eftir að hafa hlýtt á ákærða Tryggva fyrir dómi, auk þess sem niðurstaðan fær stoð í öllu því sem rakið var að ofan.
Auk þess sem nú hefur verið rakið má vísa í heild til þess sem rakið var að framan um framburð A um hlut ónafngreinds manns sem af samhenginu má ráða að var ,,Tryggvi túrbó“ þótt A vildi ekki tjá sig um það beint eins og rakið var. Þetta kann að eiga sér eðlilegar skýringar í ljósi þess að gengið var í skrokk á honum og má vitna til lögreglumannanna sem komu fyrir dóminn og báru um það frá A að hann væri undir miklum þrýstingi frá ákærða Tryggva um að breyta framburði sínum. Þá má vísa til þess sem áður sagði um vitni sem báru um hræðslu Y vegna innheimtu skuldarinnar sem hér um ræðir.
A staðfesti margar af skýrslunum sem hann gaf fyrir dómi og óskaði aldrei eftir að breyta framburði sínum. Bréfið sem þáverandi verjanda ákærða Tryggva barst og rakið var að framan er að mati dómsins ekki til þess fallið að vikið verði frá margítrekuðum framburði A hjá lögreglu og að stórum hluta staðfestum fyrir dómi til hliðar varðandi þátttöku hins ónafngreinda manns sem dómurinn telur einsýnt að sé ákærði Tryggvi. Til frekari stuðnings þessu má nefna frásögn A af málavöxtum og framburði X og Y sem þau gáfu hvert um sig þegar þau sættu einangrun í gæsluvarðhaldi, en þau báru á sama veg um flest og X og A báru á sama veg um hlut ákærða Tryggva. Með öllu því sem nú hefur verið rakið og með öðrum gögnum málsins er sannað að í öllum tilvikum þegar nafnið Tryggvi eða Tryggvi ,,túrbó“ ber á góma í tengslum við sakarefni málsins, hvort sem um er að ræða í lögregluskýrslum, fyrir dómi eða í hljóðrituðum símtölum, sé átt við ákærða Tryggva.
A kvaðst hafa fengið peningana afhenta ytra dagana 28. eða 29. júní 2004 og eftir það hafi hann haldið til Danmerkur. Ekki er upplýst í málinu með vissu hvenær þessi ferð var farin en ekki þarf að taka afstöðu til þess eins og sakargiftum á hendur ákærða er lýst í ákærunni. Hins vegar er sannað er með vitnisburði sem rakinn var um dvöl ákærða á Hróarskelduhátíðinni 1.til 4. júlí 2004 og með framburði ákærða sjálfs þar um, að hann dvaldi þar þessa daga. Það útilokar ekki veru hans í Hollandi og Þýskalandi áður. Samkvæmt ákærunni er ákærða gefið að sök að hafa í fylgd með óþekktum vitorðsmanni annast kaup á amfetamíninu af óþekktum seljendum í byrjun júlí í Roosendaal í Hollandi og hugðist taka við þeim hér á landi. Þá er honum gefið að sök að hafa falið X að taka við efnunum, pakka þeim og annast sendingu hingað til lands eins og rakið er í ákæru. Í niðurstöðu fyrri dóms yfir ákærða þar sem hann var sakfelldur fyrir brot þau sem í ákæru greinir var á því byggt að hann hefði ásamt óþekktum manni annast kaup fíkniefnanna í Hollandi í byrjun júlí 2004. Það er enn mat dómsins að ekki sé loku fyrir það skotið að ákærði hafi annast kaupin á þessum tíma þótt hann hafi jafnframt þessa daga verið staddur í Danmörku. Hins vegar er líklegra, að öllu ofanrituðu virtu, að ákærði hafi annast fíkniefnakaupin í lok júní 2004 en ekki í byrjun júlí s.á. Er niðurstaðan á því byggð. Samkvæmt 117. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála má dæma áfall á hendur ákærða þótt aukaatriði brots, svo sem staður og stund þess, séu ekki rétt tilgreind í ákæru, enda telji dómari vörn ekki áfátt þess vegna. Alkunna er að oft er annmörkum háð að greina nákvæmlega í ákæru stað og stund ætlaðra brota. Má í þessu sambandi nefna brot gegn XXII. kafla almennra hegningarlaga þar sem mikil óvissa er iðulega um tímamark einstakra brota. Sams konar óvissa er oft til staðar í fíkniefnamálum um nákvæma tímasetningu atburðarásar í heild eða að hluta eins og í máli þessu. Þá er iðulega fyrir hendi annars konar óvissa í þessum málaflokki eins og í þessu máli þar sem seljendur eru óþekktir og vitorðsmaður óþekktur eins og lýst er í ákærunni. Þetta kemur ekki að sök enda aukaatriði brots hverjir óþekktir seljendur voru og hver hinn óþekkti vitorðsmaður er. Það er álit dómsins að vörn ákærða hafi ekki verið áfátt þrátt fyrir þessa breytingu á tímasetningu brota hans. Að ósk dómarans voru við munnlegan flutning málsins sérstaklega reifuð sjónarmið sóknar og varnar með hliðsjón af 117. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.
Af öllu ofanrituðu virtu og að virtum öllum öðrum gögnum málsins er það niðurstaða dómsins að leggja beri til grundvallar niðurstöðunni ítrekaðan framburð X og A hjá lögreglu og að hluta staðfestan fyrir dómi um þátt ákærða í málinu. Er í þessu sambandi einkum átt við framburð X hjá lögreglu 11., 18. og 20. október 2004 og fyrir dómi 18. s.m. og framburð A hjá lögreglu 30. september, 7., 14. og 21. október og 30. nóvember 2004 og fyrir dómi 22. október s.á er hann staðfesti skýrslur sínar frá 14. og 21. s.m. Er ofangreindur framburður þessara tveggja manna er lagður til grundvallar um sekt ákærða ásamt öðru sem rakið hefur verið. Framburðinn gáfu báðir meðan þeir sættu einangrun í gæsluvarðhaldi en áður var vikið að því að breyttur framburður þeirra er að mati dómsins ómarktækur, enda í algjöru ósamræmi við flest annað sem fram er komið í málinu. Eins og rakið hefur verið fær þessi niðurstaða stoð í framburði Y og vitnisburði margra sem rakinn hefur verið um háttsemi ákærða Tryggva í málinu beint og að því leyti sem varðar innheimtu skuldar sem talin var hafa stofnast eftir að lögreglan lagði hald á fíkniefnin. Þessi niðurstaða fær einnig stoð í nánast öllum öðrum gögnum málsins og er vísað til þeirra í heild en sum gögnin hafa verið rakin að framan, önnur ekki. Niðurstaða fæst því, auk þess sem rakið hefur verið, af heildarmati á öllum sakargögnum.
Samkvæmt öllu ofanrituðu er sannað, gegn neitun ákærða Tryggva, að hann hafi í fylgd með óþekktum vitorðsmanni annast kaup á amfetamíninu af óþekktum seljendum í lok júní 2004 í Roosendaal í Hollandi og áformað að taka við þeim hér á landi eins og framburður X ber með sér er hann hitti ákærða á billjardstofu þar sem ákærði gaf X fyrirmæli um að nálgast fíkniefnasendinguna sem þá var ekki komin til landsins. Fól ákærði X að taka við fíkniefnunum frá seljendum þeirra, pakka þeim og annast sendingu til Íslands.
Efnið sem í þessum ákærulið greinir var amfetamín. Ljóst er af því sem rakið hefur verið að til stóð að kaupa og flytja til landsins 8 kg af amfetamíni og stóð ásetningur ákærða til þess að flytja til landsins það efnismagn sem í þessum ákærulið greinir.
Brot ákærða er rétt fært til refsiákvæða í ákærunni.
Ákæruliðir 6-7.
Sannað er með skýlausri játningu ákærða fyrir dómi og með öðrum gögnum málsins að hann hafi gerst sekur um þá háttsemi sem í báðum þessum ákæruliðum greinir. Skírskotað er til ákærunnar um lýsingu málavaxta.
Brot ákærða eru rétt færð til refsiákvæða í ákærunni.
Ákærði hefur frá árinu 2001 gengist undir fjórar lögreglustjórasáttir fyrir umferðarlagabrot. Hann hlaut 8 mánaða fangelsisdóm í mars 2002 fyrir fíkniefnabrot. Brot hans samkvæmt 1. lið ákæru er stórfellt. Refsing hans er ákvörðuð með hliðsjón af 77. gr. almennra hegningarlaga. Brot hans nú er ítrekað en ofangreindur dómur hefur ítrekunaráhrif. Þá sammæltist ákærði við aðra um framningu brotsins og er það virt til refsihækkunar, sbr. 2. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga. Verjandi ákærða vék að niðurstöðu máls X og refsingu sem honum var gerð með tilliti til refsingar ákærða yrði hann sakfelldur. Mat dómsins nú er hið sama og áður um saknæmi brota ákærða. Með dómi Hæstaréttar í máli ákærða og X var fallist á þau sjónarmið héraðsdóms í máli X að virða honum til mildunar við refsiákvörðun þátt hans í að upplýsa sakarefni 1. ákæruliðar. Aðstoð hans á fyrst og fremst við um að upplýsa hlut ákærða Tryggva, enda voru aðrir en þessir tveir menn sýknaðir af þessum ákærulið. Refsilækkunarsjónarmið sem stuðst var við í máli X eiga ekki við um ákærða. Eru mál þeirra ósambærileg að því leyti. Þykir refsing ákærða Tryggva samkvæmt öllu ofanrituðu hæfilega ákvörðuð fangelsi í sex ár.
Frá refsivist ákærða og með vísan til 76. gr. almennra hegningarlaga skal draga með fullri dagatölu gæsluvarðhald sem ákærði sæti vegna málsins.
Fjallað var um upptökukröfur í fyrri dómi yfir ákærða og sætti sú niðurstaða ekki endurskoðun í Hæstarétti og stendur því óhögguð og verður ekki fjallað um þá kröfu hér.
Ákærði greiði 838.919 krónur í sakarkostnað sem til féll fyrir dómsmeðferð málsins nú.
Ákærði greiði 498.000 króna málsvarnarlaun til Sveins Andra Sveinssonar hæstaréttarlögmanns. Við ákvörðun þóknunar hefur verið tekið tillit til virðisaukaskatts.
Sigríður Elsa Kjartansdóttir saksóknari flutti málið fyrir ákæruvaldið.
Guðjón St. Marteinsson héraðsdómari kveður upp dóminn.
Dómsorð:
Ákærði, Tryggvi Lárusson, sæti fangelsi í sex ár en til frádráttar refsingunni komi með fullri dagatölu gæsluvarðhald sem hann sætti vegna málsins.
Ákærði greiði 838.919 krónur í sakarkostnað.
Ákærði greiði 498.000 króna málsvarnarlaun til Sveins Andra Sveinssonar hæstaréttarlögmanns.