Hæstiréttur íslands

Mál nr. 483/2013


Lykilorð

  • Kærumál
  • Farbann


Fimmtudaginn 18. júlí 2013.

Nr. 483/2013.

Sýslumaðurinn á Akranesi

(Halla Bergþóra Björnsdóttir settur sýslumaður)

gegn

X

(Ingi Tryggvason hdl.)

Kærumál. Farbann.

X var gert að sæta farbanni á grundvelli b. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, sbr. 1. mgr. 100. gr. sömu laga.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Greta Baldursdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 15. júlí 2013 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 16. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Vesturlands 15. júlí 2013, þar sem varnaraðila var gert að sæta farbanni á meðan mál hans er til meðferðar hjá lögreglu og eftir atvikum fyrir héraðsdómi, en þó eigi lengur en til mánudagsins 9. september 2013. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að farbanni verði markaður skemmri tími.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

                                                                  

Úrskurður Héraðsdóms Vesturlands 15. júlí 2013.

Sýslumaðurinn á Akranesi hefur gert þá kröfu að X, kt. [...], [...], [...], verði gert að sæta áframhaldandi farbanni þar til rannsókn og niðurstaða málanna liggur fyrir eða í 8 vikur frá úrskurðardegi.

Af hálfu varnaraðila er kröfunni andmælt.

Fram kemur í farbannsbeiðni að til rannsóknar hjá lögreglunni á [...] séu Til rannsóknar hjá lögreglunni á [...] tvær kærur á hendur X, er varða meint kynferðisbrot hans gegn tveimur stúlkum annarsvegar A, kt.[...] og B, kt. [...].

Annað málið varði kynferðisbrot X gegn A.  Lögreglunni á [...] hafi borist kæra frá barnavernd [...] vegna meintra kynferðisbrota X gegn A. Við skýrslutöku í Barnahúsi hafi komið fram að brotin hafi hafist í lok árs 2007 eða í upphafi árs 2008 og staðið allt fram á mitt sumar 2012 að síðasta fullframda brotið hafi farið fram en hinn 22. desember 2012 hafi sakborningurinn tilraun til að hafa mök við brotaþola án þess að það tækist. Samkvæmt lýsingu brotaþola sé um að ræða a.m.k. 25 skipti af kynmökum í leggöng og tvö tilvik þar sem um kynmök í endaþarm hafi verið að ræða. Lýsi brotaþoli því að sakborningur hafi ávallt fengið sáðlát þegar hann hafi átt við hana kynmök um leggöng en hafi alltaf fengið sáðlát í handklæði eða annað slíkt og þrifið vel eftir sig, utan tveggja skipta þar sem hann hafi fengið sáðlát á kvið hennar. Teknar hafi verið skýrslur af vitnum og við skýrslutökur af systur brotaþola, sem fædd sé í [...] hafi komið fram að sakborningur hafi einnig brotið gegn vitninu á tímabilinu frá miðju ári 2008 til loka árs 2010.

Hitt málið varði kynferðisbrot X gegn B.  Við skýrslutökur í máli 013-2013-[...] hafi verið tekin skýrsla af B, sem sé systir brotaþola í máli 013-2013-[...]. Við þá skýrslutöku hafi komið fram að sakborningur hafi brotið gegn B á árunum 2008 til loka árs 2010. Hafi faðir B lagt fram kæru í málinu og í framhaldi af því verið tekin önnur skýrsla af B. Þar komi fram að brot X gegn henni hafi hafist um mitt sumar 2008, en í fyrsta skipti hafi verið um káf utanklæða á kynfærum að ræða, en eftir það káf innanklæða á brjóstum hennar og kynfærum. Þegar líða hafin tekið að hausti 2008 hafi X, sem verið hafi heimilisvinur og dvalið langdvölum á heimilinu, flutt svefnstað sinn úr setustofu inn í svefnherbergi til B þar sem hann hafi deilt með henni rúmi með vitund móður B. Þá hafi brot X breyst úr káfi yfir í káf og samræði við barnið B og staðið það með reglulegum hætti, a.m.k. tvisvar í mánuði, allt til loka árs 2010 þegar B hafi flutt af heimilinu.

Að öðru leyti er vísað til málavaxta í dómi hæstaréttar frá 6. febrúar sl. en þar séu þeir raktir ítarlega.

Tekin hafi verið skýrsla af kærða hinn 23. janúar sl. í báðum málunum þar sem hann neiti alfarið ásökunum um kynferðisbrot gegn þeim systrum. 

Með dómi Hæstaréttar þann 6. febrúar sl. hafi kærði verið úrskurðaður í farbann allt til fimmtudagsins 28. febrúar 2013 og síðan var hann úrskurðaður í farbann með úrskurði héraðsdóms Vesturlands 27. mars sl. í 8 vikur og 21. maí sl. í átta vikur eða til 16. júlí n.k.

Lögreglustjórinn á [...] hafi sent embætti ríkissaksóknara málin hinn 26. apríl sl. og 10. júní sl.   Þann 8. júlí sl. hafi ríkissaksóknari óskað eftir frekari rannsókn lögreglu um nokkur almenn atriði í málinu og horfi þau líka til atriða sem varði málsástæður sakbornings.  Þegar hafi verið hafist handa við að afla gagna og málinu verði hraðað eftir föngum.  Til rannsóknar sé ætlað brot gegn 1. og 2. mgr. 202 og 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940

Krafan um úrskurð um farbanns sé gerð í þeim tilgangi að tryggja nærveru kærða á landinu þar sem hann liggi undir rökstuddum grun um að hafa brotið gegn XXII. kafla almennra hegningarlaga sem geti varðað hann fangelsisrefsingu.  Talin sé veruleg hætta á að kærði, sem er [...] ríkisborgari og skráður til heimilis á [...], [...], sem skráð er atvinnuhúsnæði, og ekki sé vitað til þess að hann eigi fjölskyldu hér á landi, muni reyna að yfirgefa Ísland í þeim tilgangi að koma sér með einum eða öðrum hætti undan, rannsókn, málsókn, eða fullnustu refsingar.  Þyki því nauðsynlegt að kærði sæti áframhaldandi farbanni til að tryggja nærveru við rannsókn málsins svo og til að ljúka megi meðferð málsins eftir atvikum með dómi og fullnustu dóms. Þá er vísað til niðurstöðu Hæstaréttar í ofangreindu máli þessu til stuðnings.

Sýslumaður vísar til þess að verið sé að rannsaka ætluð brot kærða gegn XXII. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en brotin geti varðað fangelsisrefsingu ef sök sannist. Sé því nauðsynlegt að kærði sæti farbanni meðan á meðferð máls þessa standi þar sem veruleg hætta sé talin á að kærði reyni að yfirgefa Ísland gangi hann laus í þeim tilgangi að koma sér með einum eða öðrum hætti undan málsókn eða fullnustu refsingar.

Varnaraðili, sem er erlendur ríkisborgari og hefur takmörkuð tengsl við landið, er undir rökstuddum grun um háttsemi sem fangelsisrefsing er lögð við. Samkvæmt því og með vísan til b. liðar 1. mgr. 95. gr. og 1. mgr. 100. gr. laga nr. 88/2008 verður varnaraðila bönnuð brottför af landinu eins og greinir í úrskurðarorði.

Allan V. Magnússon dómstjóri kveður upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Varnaraðila, X, er bönnuð för frá Íslandi, á meðan mál hans er til meðferðar hjá lögreglu og eftir atvikum fyrir Héraðsdómi, þó eigi lengur en til mánudagsins 9. september nk.