Hæstiréttur íslands

Mál nr. 290/2005


Lykilorð

  • Landskipti
  • Sameign


Fimmtudaginn 19

 

Fimmtudaginn 19. janúar 2006.

Nr. 290/2005.

Guðmunda Lilja Grétarsdóttir og

Grétar Jónsson

(Hilmar Ingimundarson hrl.)

gegn

Ásgeiri Erni Kristinssyni og

Önnu Leif Elídóttur

(Björn Jónsson hrl.)

 

Landskipti. Sameign.

Aðilar deildu um það í hvaða hlutföllum skyldi skipta landi, sem enn var óskipt milli jarðanna Leirár og Hávarsstaða í Leirársveit. Töldu eigendur Hávarsstaða rétt að byggja á hlutföllunum 60 á móti 40, sem lögð höfðu verið til grundvallar við skipti á 200 hektara spildu milli jarðanna árið 1965. Eigendur Leirár vísuðu aftur á móti til hlutfalla samkvæmt jarðamati 1861, sem gerði ráð fyrir að 80,9623% landsins skyldu falla til Leirár. Niðurstaða Hæstaréttar varð sú að ekki væri ástæða til að víkja frá þeim skiptahlutföllum, sem mælt er fyrir um í 1. mgr. 2. gr. laga 46/1941 um landskipti. Því bæri að fylgja jarðamati 1861 og skipta landinu þannig að 80,9623% þess félli til Leirár.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen og Guðrún Erlendsdóttir og Haraldur Henrysson fyrrverandi hæstaréttardómari.

Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 29. júní 2005 og krefjast aðallega sýknu af þeirri kröfu stefndu að við skipti á óskiptu landi jarðanna Leirár og Hávarsstaða í Borgarbyggð komi 80,9623% í hlut Leirár, en til vara að í hlut Leirár komi 60%. Þau krefjast einnig málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndu krefjast staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Aðilar málsins deila um það í hvaða hlutföllum skuli skipta landi, sem enn er óskipt milli jarðanna Leirár og Hávarsstaða. Stefndu reisa málatilbúnað sinn á því að samkvæmt 2. gr. landskiptalaga nr. 46/1941 skuli skipti fara eftir jarðamati frá árinu 1861. Er óumdeilt að skipti á þeim grundvelli leiddu til þeirrar niðurstöðu að 80,9623% landsins féllu til Leirár, en að öðru leyti kæmi það í hlut Hávarsstaða. Áfrýjendur telja hins vegar að við skipti eigi 60 hundraðshlutar að koma í hlut Leirár á móti 40 hundraðshlutum Hávarsstaða. Því til stuðnings vísa þau til 4. mgr. 2. gr. landskiptalaga.

Í héraðsdómi er greint frá því að 2. júlí 1965 hafi komið til skipta milli jarðanna um 200 hektara landspilda og að þá hafi orðið samkomulag um skipti í þeim hlutföllum, sem áfrýjendur reisa varakröfu sína á. Við flutning málsins fyrir Hæstarétti kom fram að þá hafi einungis verið skipt litlum hluta hins óskipta lands jarðanna. Er fallist á með héraðsdómi að þótt vikið hafi verið frá skiptahlutföllum samkvæmt jarðamati 1861 með sérstöku samkomulagi í umrætt sinn verði ekki talið að með því hafi verið breytt eignahlutföllum þess lands, sem enn var óskipt.

Áfrýjendur byggja á því að munnlegt samkomulag hafi orðið milli fyrri eigenda jarðanna um að sömu hlutfallstölur og samið var um 1965 skyldu gilda um eignarrétt á landi, sem enn var óskipt, og séu stefndu bundin af því. Hin síðastnefndu mótmæla því að slíkt samkomulag hafi verið gert. Þessi staðhæfing áfrýjenda er ósönnuð og gegn mótmælum stefndu kemur hún ekki til álita. Þá hafa áfrýjendur lagt fyrir Hæstarétt ný gögn, en meðal þeirra eru forðagæsluskýrslur, sem aflað hefur verið frá Bændasamtökum Íslands, og sá hluti ritsins Byggðir Borgarfjarðar II, sem fjallar um Leirá og Hávarsstaði. Þessi gögn skipta ekki máli við úrlausn ágreinings aðilanna. Í héraði og fyrir Hæstarétti lögðu áfrýjendur einnig fram óstaðfesta arðskrá fyrir Veiðifélag Leirár í Leirársveit, sem mun hafa verið samþykkt á stofnfundi veiðifélagsins 2. mars 2004. Er óumdeilt að stefndi Ásgeir ritaði samþykki sitt við þeirri skiptingu arðs, sem skráin gerir ráð fyrir, en samkvæmt henni skyldi arðshlutdeild sameignarlandsins vera samtals 11%, þar sem Leirá taki 6,6% arðs en Hávarsstaðir 4,4%. Sú skýring var gefin við flutning málsins fyrir Hæstarétti að annar sameigenda Leirár hafi „í fljótræði“ ritað samþykki sitt við þessari skiptingu, en það samþykki verið dregið til baka. Án tillits til þess hvernig fari um arðskrárhlut jarðanna vegna hins óskipta lands getur þetta atriði eitt og sér ekki nægt til þess að sönnun teljist fram komin fyrir því að víkja beri reglu 1. mgr. 2. gr. landskiptalaga til hliðar við skipti á óskiptu landi jarðanna, en láta þess í stað önnur eignarhlutföll ráða. Að þessu virtu en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur um annað en málskostnað.

Áfrýjendur verða dæmd til að greiða stefndu málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem verður ákveðinn í einu lagi eins og nánar segir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður um annað en málskostnað.

Áfrýjendur, Guðmunda Lilja Grétarsdóttir og Grétar Jónsson, greiði óskipt stefndu, Ásgeiri Erni Kristinssyni og Önnu Leif Elídóttur, samtals 350.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

 

 

Dómur Héraðsdóms Vesturlands 29. mars 2005.

             Mál þetta var höfðað 25. október 2004 og dómtekið 22. mars 2005. Stefnendur eru Anna Leif Elídóttir og Ásgeir Kristinsson, bæði til heimilis að Leirá í Leirár- og Melahreppi, en stefndu eru Guðmunda Lilja Grétarsdóttir og Grétar Jónsson, bæði til heimilis að Hávarsstöðum í sama sveitarfélagi.

             Stefnendur gera þá kröfu að viðurkennt verði með dómi að leggja skuli til grundvallar jarðamat frá árinu 1861 við skipti á óskiptu landi jarðanna Leirár og Hávarsstaða þannig að í hlut Leirár komi 80,9623% hins óskipta lands. Jafnframt er gerð sú krafa að felldur verði úr gildi úrskurður landskiptanefndar frá 22. apríl 2004 um skiptahlutföll við fyrirhuguð landskipti. Þá krefjast stefnendur málskostnaðar úr hendi stefndu.

             Stefndu krefjast þess að þau verði sýknuð af kröfu stefnenda um ofangreind skiptahlutföll við landskiptin, auk þess sem stefnendum verði gert að greiða þeim málskostnað.

I.

             Stefnendur eru þinglýstir eigendur jarðarinnar Leirár sem er fornt höfuðból í Borgarfirði. Fyrr á tímum fylgdu jörðinni hjáleigurnar Melkot, Hávarsstaðir og Hrauntún. Stefndu eru hins vegar þinglýstir eigendur Hávarsstaða ásamt Hrauntúni. Jarðirnar eru samliggjandi en hluti af landinu er óskipt. Landamerkjabréf fyrir Leirá er frá 14. desember 1928 en landamerkjabréf fyrir Hávarsstaði er frá 21. maí 1929. Voru landamerkjabréf þessi þinglesin á manntalsþingi að Leirá 2. júlí 1929. Upphaflegt landamerkjabréf fyrir Leirártorfuna er frá 3. maí 1886 en það var þinglesið 20. mars 1923.

             Samkvæmt jarðamatinu frá árinu 1861 var jörðin Leirá metin að dýrleika 61,75 hundruð en jörðin Hávarsstaðir ásamt Hrauntúni var metin 14,52 hundruð. Í hundraðshlutum var matið á Leirá því 80,9623% en Hávarsstaðir ásamt Hrauntúni 19.0377%.

             Hinn 2. júlí 1965 fóru fram landskipti á 200 hektara spildu af óskiptu landi jarðanna en mörk spildunnar eru nánar afmörkuð í skiptagerðinni. Þar segir síðan svo um skiptahlutföllin: „Það skal fram tekið, að aðilar komu sér saman um, að við skipti þessi skuli skiptagrundvöllur vera: Að hlutur Leirár sé 60% og hlutdeild Hávarðsstaða 40% að jöfnu verðmætamati þessa lands, er til skipta er tekið nú, og að öll hlunnindi í þessu úrskipta landi haldist óskipt og að arður þeirra skiptist eftir sömu hlutföllum.“ Í niðurlagi skiptagerðarinnar segir svo: „Landskipti þessi breyta ekki hlutföllum gagnvart leiguliðaafnotum Leirár né hlutdeild í leiguliðaafnotum Hávarsstaða.“

             Með bréfi 16. desember 1998 fól sýslumaðurinn í Borgarnesi landskiptanefnd að skipta öllu óskiptu landi jarðanna. Við skiptin kom upp ágreiningur um eignahlutföll óskipta landsins. Töldu stefnendur að miða ætti við jarðamatið frá árinu 1861 en stefndu töldu að miða ætti við hlutföll í skiptagerðinni frá árinu 1965. Með úrskurði landskiptanefndar 22. apríl 2004 var ákveðið að skiptin færu þannig fram að í hlut Leirár kæmi 60% af óskipta landinu en í hlut Hávarsstaða með Hrauntúni 40% af landinu.

             Með bréfi lögmanns stefnenda 2. maí 2004 var þess farið á leit við sýslumanninn í Borgarnesi að hann tilnefndi matsmenn í yfirmat til að endurskoða úrskurð landskiptanefndar um skiptagrundvöllinn. Þessu erindi svaraði sýslumaður með bréfi 14. sama mánaðar þar sem stefnendum var bent á að ágreiningur um skiptahlutföll ætti undir dómstóla, sbr. 3. mgr. 3. gr. laga um landskipti, nr. 46/1941.

II.

             Stefnendur vísa til þess að ágreiningur um eignahlutföll óskipts lands eigi eingöngu undir dómstóla, sbr. 3. mgr. 3. gr. landskiptalaga, nr. 46/1941. Landskiptanefnd hafi því ekki verið bær til að úrskurða um eignahlutföllin. Því verði ekki hjá því komist að ómerkja úrskurð nefndarinnar frá 22. apríl 2004.

             Stefnendur benda á að skipta skuli óskiptu landi eftir jarðamati frá árinu 1861 þar sem því verði við komið, sbr. 1. mgr. 2. gr. landskiptalaga. Telja stefnendur að jarðamatið eigi við um þessi skipti, enda hafi annað ekki verið ákveðið, hvorki með samningi né öðru. Mótmæla stefnendur því afdráttarlaust að önnur eignahlutföll en jarðamatið hafi gilt manna á meðal í 20 ár eða lengur og verið samþykkt af  öllum eigendum, sbr. 3. mgr. 2. gr. landskiptalaga. Í því sambandi benda stefnendur á að hlutföll í landskiptagerð 2. júlí 1965 hafi eingöngu varðað skipti á því landi sem þá var skipt og í engu raskað eignahlutföllum óskipts lands að öðru leyti. Verði hvorki ráðið af landskiptagerðinni né öðrum gögnum að eigendur Leirár hafi fallist á að breyta eignahlutföllunum varanlega þannig að stefnendur sem núverandi eigendur jarðarinnar séu af því bundnir við frekari landskipti.

III.

             Stefndu telja að jarðamatið frá árinu 1861 geti ekki átt við um skiptin. Þegar það mat hafi farið fram hafi jörðin Leirá verið vel húsuð með stór tún og miklar engjar, auk hlunninda af ýmsu tagi meðan Hávarsstaðir og Hrauntún hafi á þeim tíma verið í umsjá bláfátækra leiguliða, sem önnuðust viðhald húsa og jarða.

             Í stað jarðamatsins frá 1861 telja stefndu að leggja eigi til grundvallar skiptahlutföll sem ákveðin hafi verið við landskiptin 2. júlí 1965. Þar hafi verðmætasta hluta landsins verið skipt og því eigi sömu hlutföll enn frekar við um verðminna land. Þá benda stefndu á að beitarafnot óskipta landsins hafi verið svipuð frá jörðunum.

IV.

             Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. landskiptalaga, nr. 46/1941, verður eigi nema fyrir dómi skorið úr ágreiningi um eignahlutföll óskipts lands. Átti því ekki undir landskiptanefnd að leysa úr slíkum ágreining málsaðila, svo sem gert var með úrskurði nefndarinnar 22. apríl 2004. Verður því krafa stefnenda um að úrskurðurinn verði ógiltur tekin til greina.

             Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. landskiptalaga skal skipta eftir jarðamati frá árinu 1861, þar sem því verður við komið. Heimilt er þó að skipta eftir öðrum eignahlutföllum en jarðamatsbækur gefa upp ef þau hafa gilt manna á meðal í 20 ár eða lengur og allir eigendur samþykkja að eignahlutföllin skuli haldast, sbr. 2. mgr. sömu greinar.

             Í skiptagerðinni frá 2. júlí 1965 er beinlínis tekið fram að við þau skipti hafi aðilar komið sér saman um að í hlut Leirár kæmi 60% en í hlut Hávarsstaða 40% af því landi sem þá kom til skipta. Um var að ræða 200 hektara landspildu en mörk hennar eru nánar afmörkuð í landskiptagerðinni. Þótt önnur skiptahlutföll en jarðamatið frá 1861 hafi verið lögð til grundvallar við þessi tilteknu skipti verður ekki talið að með því hafi verið breytt eignahlutföllum þess lands sem enn var óskipt. Verður heldur ekki ráðið af öðrum gögnum að stefnendur eða þeir sem þau leiða rétt sinn af hafi með bindandi hætti samþykkt breytt eignahlutföll óskipta landsins. Verður því fallist á kröfu stefnenda og viðurkennt að við skipti á óskiptu landi jarðanna Leirá og Hávarsstaða með Hrauntúni skuli koma 80,9623% landsins í hlut Leirár í samræmi við jarðamatið frá árinu 1861.

             Eftir þessum málsúrslitum verður stefndu gert að greiða stefnendum málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn, svo sem í dómsorði greinir.

             Benedikt Bogason, héraðsdómari, kveður upp dóm þennan.

D Ó M S O R Ð:

             Úrskurður landskiptanefndar frá 22. apríl 2004 um eignahlutföll við skipti á óskiptu landi jarðanna Leirár og Hávarsstaða með Hrauntúni er ógiltur.

             Fallist er á kröfu stefnenda, Önnu Leif Elídóttur og Ásgeirs Kristinssonar, um að við skipti á óskiptu landi jarðanna komi 80,9623% í hlut Leirár.

             Stefndu, Guðmunda Lilja Grétarsdóttir og Grétar Jónsson, greiði stefndu 200.000 krónur í málskostnað.