Hæstiréttur íslands

Mál nr. 240/2005


Lykilorð

  • Bifreið
  • Skaðabætur
  • Líkamstjón
  • Örorka
  • Sakarskipting


Fimmtudaginn 17

 

Fimmtudaginn 17. nóvember 2005.

Nr. 240/2005.

Hallgrímur Þorsteinn Tómasson

(Benedikt Ólafsson hdl.)

gegn

Lýsingu hf.

Laufeyju Hallfríði Svavarsdóttur og

Sjóvá-Almennum tryggingum hf.

(Kristín Edwald hrl.)

 

Bifreiðir. Skaðabætur. Líkamstjón. Örorka. Sakarskipting.

H slasaðist á ökkla þegar hann varð fyrir fólksbifreið og krafði LS, L hf. og S hf. um bætur af þeim sökum á grundvelli álitsgerðar tveggja lækna um tjón hans. Voru læknarnir ekki á einu máli um varanlegan miska og örorku H og miðaði hann kröfugerð sína við þá niðurstöðu sem honum var hagfelldari. Enn fremur lá fyrir örorkumat örorkunefndar og lagði héraðsdómur það mat til grundvallar niðurstöðu sinni. Við meðferð málsins fyrir Hæstarétti var lagt fram nýtt mat dómkvaddra sérfræðinga á afleiðingum slyssins. Talið var að H hefði sýnt af sér stórkostlegt gáleysi þegar slysið varð, en áfengismagn í blóði hans mældist 2,44‰, og að LS hefði ekki getað komið í veg fyrir það. Voru bætur H því lækkaðar, sbr. 2. mgr. 88. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, og hann látinn bera 2/3 hluta tjónsins. Var talið að H hefði fengið þann hluta tjónsins, sem hann gat krafið úr hendi LS og félaganna, að fullu bætt og breytti hið nýja mat engu þar um. LS og félögin voru því sýknuð af kröfu H. 

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Garðar Gíslason og Hrafn Bragason.

Áfrýjandi skaut máli þessu til Hæstaréttar 8. júní 2005. Hann krefst þess, að stefndu verði in solidum dæmd til að greiða sér 6.911.240 krónur með 2% ársvöxtum frá 3. júní 1998 til 8. júlí 2000, með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá þeim degi til 1. júlí 2001 en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádregnum 2.000.000 krónum, sem stefndu greiddu 24. september 2001. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndu krefjast aðallega staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti en til vara að krafa áfrýjanda verði lækkuð og málskostnaður felldur niður.

Eftir uppkvaðningu héraðsdóms fór áfrýjandi fram á dómkvaðningu matsmanna til að meta örorku þá, sem hann hlaut í slysinu 3. júní 1998. Hefur matsgerð Atla Þórs Ólasonar sérfræðings í bæklunarskurðlækningum og Magnúsar Thoroddsen hæstaréttarlögmanns, dagsett 25. október 2005, verið lögð fyrir Hæstarétt. Þeir meta þjáningabætur samkvæmt 3. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 í þrjá mánuði, þar af einn dag rúmliggjandi, varanlegan miska samkvæmt 4. gr. 8% og varanlega örorku samkvæmt 5. gr. 15%. Hefur áfrýjandi breytt kröfugerð sinni til samræmis við matsgerð þessa, en kröfugerð hans í héraði byggði á mati Björns Önundarsonar læknis 8. júní 2000, sem mat varanlegan miska 10% og varanlega örorku 15%.

Í máli þessu liggur fyrir matsgerð læknanna Björns Önundarsonar og Guðmundar Björnssonar, sem ekki komust að sameiginlegri niðurstöðu, en Guðmundur mat varanlegan miska áfrýjanda 7% og varanlega örorku minna en 5%. Þá liggur einnig fyrir álit örorkunefndar, sem í sátu tveir læknar og einn hæstaréttarlögmaður, þar sem varanlegur miski og varanleg örorka voru metin 8%.

Ekki er deilt um það, að stefndu bera fébótaábyrgð á því tjóni, sem áfrýjandi varð fyrir í slysinu 3. júní 1998 samkvæmt 1. mgr. 90. gr., sbr. 1. mgr. 95 gr. umferðarlaga nr. 50/1987. Í ljós er leitt, að áfrýjandi var mjög ölvaður er slysið varð, en áfengismagn í blóði hans mældist 2,44‰. Áfrýjandi sýndi af sér svo stórkostlegt gáleysi, er hann var á ferð um Strandgötu á Akureyri umrætt sinn, að stefnda Laufey gat ekki komið í veg fyrir slysið, en ekkert bendir til þess, að hún hafi ekið óvarlega. Verður því að lækka bætur til áfrýjanda, sbr. 2. mgr. 88. gr. umferðarlaga. Fallist er á með héraðsdómi, að áfrýjandi hafi fengið að fullu greiddan þann hluta tjónsins, sem hann gat krafið úr hendi stefndu, og breytir hið nýja mat engu þar um.

Samkvæmt framansögðu, og að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms, ber að staðfesta hann.

Eftir atvikum er rétt að hver aðili beri sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

 

 

Dómur Héraðsdóms Norðurlands eystra 15. mars 2005.

Mál þetta, sem dómtekið var þann 27. janúar s.l., hefur Hallgrímur Þorsteinn Tómasson, kt. 251261-5639, Smárahlíð 24 h, Akureyri, höfðað gegn Lýsingu hf., kt. 621101-2420 Laufeyju Hallfríði Svavarsdóttur, kt. 140274-5939, og Sjóvá-Almennum tryggingum hf., kt. 701288-1739, með stefnu birtri 18. desember 2003.

Endanlegar dómkröfur stefnanda eru að stefndu verði dæmd in solidum til að greiða stefnanda kr. 8.780.604, með 2% ársvöxtum frá 18. desember 1999, en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 25, 1987 frá 8. júlí 2000 til 1. júlí 2001, en samkvæmt III. kafla laga um vexti og verðtryggingu nr. 38, 2001 frá þeim degi til 25. nóvember 2001, en af kr. 6.780.604 frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádregnum kr. 2.000.000, sem stefndu greiddu inn á kröfuna þann 25. nóvember 2001.

Dómkröfur stefndu eru þær aðallega að þeir verði sýknaðir af kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefndu málskostnað samkvæmt málskostnaðarreikningi, en til vara að dómkröfur stefnanda verði lækkaðar verulega og málskostnaður verði felldur niður.

I.

Málavextir.

Samkvæmt skýrslu lögreglunnar á Akureyri var tilkynnt kl. 00:07 miðvikudaginn 3. júní 1998 að stefnandi hefði orðið fyrir fólksbifreiðinni VP-777, Ford KA á móts við verslunina Nætursöluna á Strandgötu í miðbæ Akureyrar.  Tilkynnandi var ökumaður bifreiðarinnar, stefnda Laufey Hallfríður Svavarsdóttir.  Er lögregla kom á vettvang lá stefnandi á akbrautinni og kvartaði undan eymslum í fæti og var hann færður á slysadeild Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri (FSA) til aðhlynningar.  Samkvæmt lögregluskýrslunni var stefnandi greinilega undir áhrifum áfengis og er þess getið að hann hafi ekkert getað tjáð sig um atburðarásina á vettvangi.  Að tilhlutan lögreglu var tekið blóðsýni úr stefnanda til alkóhólrannsóknar og reyndist alkóhólmagn í blóðsýninu 2,44‰.  Samkvæmt skýrslunni greindi stefnda Laufey Hallfríður frá því á vettvangi að hún hefði ekið bifreið sinni austur Strandgötu er hún veitti stefnanda athygli þar sem hann var að banka í bifreiðar er voru fyrir framan hana.  Hafi hún ekið áfram á lítilli ferð, en gat að öðru leyti ekki gert nákvæma grein fyrir því hvernig stefnandi varð fyrir bifreiðinni fyrir utan að hann hafi lent utan í hægri hlið hennar, en síðan fallið á akbrautina og hún þá stöðvað aksturinn til að gæta að honum.

Samkvæmt lögregluskýrslunni var dagsbirta en skýjað.  Yfirborð akbrautar var slétt bundið slitlag.

Er atvik máls gerðust var stefnandi 36 ára, háseti á frystitogara

Samkvæmt vottorði Júlíusar Gestssonar yfirlæknis á bæklunardeild FSA kom í ljós við komu stefnanda á FSA að hann hafði töluverð óþægindi í kringum hægri ökklalið og hafi röntgenmynd staðfest brot á ökklasvæðinu með lítillega tilfærðum brotum frá neðri enda sköflungs innanvert, auk þess frá fremri kanti sköflungs aðlægt ökklaliðnum og frá neðri enda sperrileggs.  Vegna þessa hafi stefnandi dvalið á sjúkrahúsinu í eina nótt til eftirlits en síðan verið í framhaldseftirliti á göngudeild.  Við eftirlit þann 21. júlí 1998 hafi stefnandi lýst stirðleika í ökklanum og eymslum í kringum ökklaliðinn, en við síðasta eftirlit þann 6. janúar 1999 hafi hann greint frá óþægindum frá hægri ökkla við álag, dofa framan á ökklanum og almennri þreytu í ökklanum með leiðni upp legginn við álag.  Við skoðunina hafi hann gengið óhaltur og haft nánast sama hreyfiferil í hægri ökkla og þeim vinstri.  Enginn marktækur munur hafi verið á mesta ummáli fótleggjavöðva.  Var það álit sérfræðingsins að hugsanlega væri slaki á liðböndum utanvert á ökklanum.  Röntgenrannsókn nefndan dag hafi sýnt að brotið hafi verið vel gróið, en sýnt rúnnaðri kölkun neðan við framkant sköflungsins aðlægt ökklanum, sem eftirstöðvum eftir afrifubrot.  Vegna þessa hafi stefnanda verið vísað til sjúkraþjálfunarmeðferðar.  Við lokamat sitt taldi sérfræðingurinn að þar sem langur tími væri liðin frá áverkunum væri líklegt að óþægindin yrðu viðvarandi þannig að þreytuónot yrðu frá ökklasvæðinu við meiri háttar álag, en að litlar líkur væru á að óþægindin versnuðu marktækt frá því sem þá var.  Sérfræðingurin lét það álit í ljós að  skurðaðgerð myndi ekki bæta ástandið en að endurtekin meðferðar hjá sjúkraþjálfara í framtíðinni yrðu til bóta.

Að kröfu lögmanns stefnanda, þann 3. janúar 2000, voru læknarnir Guðmundur Björnsson og Björn Önundarson dómkvaddir til að meta örorku stefnanda af völdum slyssins samkvæmt skaðabótalögum nr. 50, 1993, þ.e. varanlega örorku og varanlegan miska, svo og tímalengd veikinda hans.

Matsgerð læknanna er dagsett 8. júní 2000.  Kemur þar m.a. fram að stefnandi hafi verið talinn óvinnufær um þriggja mánaða skeið eftir slysið.  Í matsgerðinni er greint frá því að í tengslum við skoðun á stefnanda hafi matsmennirnir látið framkvæma nýja röntgenrannsókn á hægri ökkla hans þann 30. maí 2000.  Í ljós hafi komið að beinagerð hafi verið eðlileg og liðfletir sléttir, þ.e. ástand eftir afrifu á frambrún tibia þar sem hafi verið kölkun í mjúkpörtum.  Að öðru leyti hafi ekki verið að sjá að beinið væri úr lagi gengið, en vægar skerpingar verið á milli talus og lateral malleoulus.  Við skoðun hafi hreyfingar í hægri ökklalið verið eðlilegar og engin skekkja eða bólga hafi verið í kringum liðinn.  Væg slökun hafi verið á ytra hliðarliðbandi á hægri ökkla, en ekki eymsli yfir liðbilum.  Við taugaskoðun hafi stefnandi lýst yfir vægum doða framan á ökkla og rist hægra megin.  Var það álit matsmannanna að stefnandi myndi búi við varanleg mein vegna afleiðinga umferðarslyssins og það ástand hafi verið orðið varanlegt við skoðun þann 8 júní 2000.

Við mat á þjáningum var af hálfu matsmannanna lagt til grundvallar læknisvottorð og frásögn stefnanda að hann hefði vegna áverkans verið rúmliggjandi í einn sólarhring á sjúkrahúsi, en síðan verið veikur án þess að vera rúmliggjandi batnandi í samtals 90 daga eftir slysið.

Við mat á varanlegum miska leggja matsmennirnir til grundvallar að um hafi verið að ræða afleiðingar alvarlegs ökklabrots.  Brotið hafi verið lítið úr lagi fært og að ekki hafi verið grunur um alvarlegan liðbandsskaða.  Hafi því ekki þótt ástæða til að framkvæma aðgerð.  Við skoðun hafi ekki verið um að ræða hreyfiskerðingu en væg slökun verið á liðböndum.  Afleiðingar ökklabrotsins valdi stefnanda almennri líkamlegri færniskerðingu vegna álagsverkja.  Þá bendi nýjar röntgenmyndir til byrjandi slitbreytinga í ökklaliðnum sem líklega megi rekja til slyssins.  Stefnandi hafi lýst dofa framan á hægri rist.

Í matsgjörðinni er greint frá því að matsmennirnar hafi ekki verið sammála um miskamat vegna slyssins.  Hafi Björn Önundarson talið að búast mætti við ótímabærum slitbreytingum og að þær myndu með tímanum valda umtalsvert meiri óþægindum.  Guðmundur Björnsson hafi hins vegar talið að með viðhaldsþjálfun og heppilegum stoðbúnaði mætti að mestu koma í veg fyrir slíkt.

Við mat á varanlegri örorku hafi matsmennirnir einnig verið ósammála.  Hafi Björn Önundarson talið að stefnandi myndi hafi umtalsverð óþægindi við áreynslu um hægri ökklann og framan á hægri rist og að verkir stefnanda myndu ágerast við áreynslu.  Vegna þessa myndi hann eiga erfitt með að stunda starf sitt sem togarasjómaður.  Af hálfu Björns var vísað til þess að röntgenmyndir sýndu slitbreytingar er hugsanlega mætti rekja til slyssins og myndu þær með tíð og tíma valda umtalsvert meiri óþægindum.  Var það álit hans að stefnandi yrði með öllu ófær um að stunda sjómennsku er frá líði, og hafa í för með sér verulegt tekjutap þar sem hann væri ekki menntaður til neinna annarra sérhæfðra starfa.  Varanleg örorka yrði því nokkru meiri en miskatala gæfi til kynna.

Af hálfu Guðmundar Björnssonar var það álit látið í ljós að við mat á varanlegri örorku væri óvíst að stefnandi yrði fyrir nokkurri tekjuskerðingu þegar til lengri tíma væri litið.  Tekjur hans hafi aukist eftir slysið, en tekið er fram að að öllu jöfnu væri starfsævi sjómanna á frystitogurum skemmri en annarra.  Varanleg örorka stefnanda yrði því minni en miskatala gefi til kynna, sérstaklega með tilliti til þess að óþægindi hans gætu lagast með tímanum, ekki síst í ljósi þess að flestir næðu að aðlaga líf sitt og starf að vægum óþægindum af þessu tagi.  Var það mat hans að ólíklegt væri að ökklabrotið leiddi til slitgigtar umfram það sem orðið væri, sérstaklega með tilliti til þess að lítil sem engin hliðrun hefði verið í brotinu og það hefði gróið vel.

Samandregin niðurstaða matsmannanna var samkvæmt framansögðu eftirfarandi:  Við matsskoðun 8. júní 2000 hafi verið tímabært að leggja mat á varanlegar afleiðingar umferðarslyssins, að tímabundið atvinnutjón stefnanda hafi verið 90 dagar, að stefnandi hafi verið veikur 90 daga þar af rúmliggjandi í 1 dag.  Að áliti Björns Önundarsonar var varanlegur miski stefnanda 10% en að áliti Guðmundur Björnssonar 7%.  Að áliti Björns var varanleg örorka stefnanda 15% en að áliti Guðmundur minni en 5%.  Matsmenn voru sammála um að önnur slys eða sjúkdómar hefðu ekki átt þátt í ofangreindri örorku stefnanda.

Að beiðni lögmanns stefnanda lagði örorkunefnd mat á varanlega örorku og miska stefnanda vegna umrædds slyss.  Álitsgerð nefndarinnar er dagsett 31. júlí 2001.  Í upphafi hennar er greint frá því að stefnandi hafi upplýst að hann hefði við störf sín sem sjómaður fótbrotnað á vinstri ganglim í byrjun aprílmánaðar 2001.

Í álitsgerð örokunefndarinnar kemur m.a. fram að við skoðun á stefnanda hafi ekki fundist  bólga í hægri ökklalið og hafi ökklaliðir verið jafnir að ummáli, en að það hafi vantað 5 - 10° upp á fulla beygju í hægri ökkla, rétta hafi nánast verið jöfn en ívið minni hægra en vinstra megin.  Eymsli hafi komið fram við hámakrsréttu í hægri ökklalið og einnig við innsnúning í hægri ökkla, er hafi verið eilítið aukin.  Nokkur eymsli hafi verið yfir hægri ökklaliðnum, mest neðan við miðlægan ökkla og niður á hælbeinið.  Greint er frá því að lítið ör sé framanvert yfir hægri ökklaliðnum, er mælist 1,5 x 0,5 sm og sé dofi yfir örinu og þar framan við og yfir allri ristinni miðlægt fram að II. til IV. tá.  Dofinn hafi verið mestur yfir örinu og sé snertiskyn aukið á sama svæði.  Taugaskoðun hafi að öðru leyti verið eðlileg og hafi stefnandi stigið upp á tær og hæl á hægra fæti.

Í niðurstöðukafla álitsgerðarinnar er meðferðarsaga stefnanda rakin eftir umferðarslysið 3. júní 1998, í samræmi við það sem áður var rakið, en nánar svofelldum orð:

„Greri brotið án skekkju og hafa enn sem komið er ekki komið fram merki um slit í hægri ökklalið.  Nokkrar litlar mjúkpartakalkanir sjást þó við fremri jaðar sköflungs við ökklaliðinn, sem líklega eru vegna minni háttar brotflaska, sem þar hafa orðið.  Skoðun leiðir í ljós lítils háttar hreyfiskerðingu í hægri ökklalið, en einnig ör og dofa og nokkra viðkvæmni í húð framan við liðinn.  Lítils háttar slaki virðist vera á liðböndum utanvert í ökklanum og eymsli neðan við miðlægan ökkla hægra megin.

Örorkunefnd telur, að eftir 1. júní 1999 hafi tjónþoli (stefnandi) ekki getað vænst frekari bata, af afleiðingum umferðarslyssins þann 3. júní 1998, en þá var orðið.  Að öllum gögnum virtum telur nefndin varanlegan miska tjónþola vegna afleiðinga slyssins þann 3. júní 1998, hæfilega metinn 8% - átta af hundraði-.

Tjónþoli hefur haft viðvarandi óþægindi í hægri ökklanum í kjölfar slyssins, en er einkennalaus í hvíld.  Einkenni aukast við álag, m.a. við stöður og göngu til sjós og sérstaklega í veltingi, en tjónþoli hefur verið togarasjómaður.  Hann er þannig með minnkaða göngu- og stöðugetu vegna afleiðinga slyssins.  Af samanburði skattframtala tjónþola fyrir og eftir slys má ráða að hann hafi ekki enn sem komið er orðið fyrir tekjuskerðingu vegna afleiðinga slyssins.  Örorkunefnd telur engu að síður að geta hans til öflunar vinnutekna í framtíðinni hafi nokkuð skerst vegna afleiðinga slyssins, einkum þegar lengra mun líða á starfsævina.  Nefndin telur varanlega örorku hans vegna afleiðinga slyssins hæfilega metna sem 8% - átta af hundraði –“.

 

Samkvæmt gögnum málsins óskaði stefnandi með bréfi dagsettu 29. október 1999 eftir afstöðu stefndu til bótaskyldu á tjóni hans.  Liggur fyrir að stefndi, Sjóvá-Almennar tryggingar h.f., lét í kjölfar þess, í símbréfi dagsettu 9. nóvember, þá skoðun í ljós, að stefnandi hefði sýnt af sér stórkostlegt gáleysi og af þeim sökum ætti að lækka bætur hans um helming (50%), vegna eigin sakar.

Samkvæmt gögnum málsins sendi stefndi, Sjóvá-Almennar tryggingar hf., þann 11. september 2001, eftir að álitsgerð örorkunefndar lá fyrir, til stefnanda tillögu sína að fullnaðaruppgjöri, en með öllum fyrirvara næðist ekki samkomulag um bætur.  Var af hálfu félagsins miðað við niðurstöðu örorkunefndar um 8% varanlegan miska og 8% varanlega örorku og að laun stefnanda með vísitöluhækkun væru 5.264.100.  Uppgjörið sundurliðaðist nánar þannig:

 

1)       Varanleg örorka skv. 5. og 6. gr.                                                                         kr.           4.211.280

2)       Frádráttur vegna aldurs skv. 9. gr. - 11% -                                                           -            463.241

3)       Varanlegur miski … 5.171.000 (miðað við 100%)                                                              413.680

4)       Þjáningabætur pr. dag … 1.680/900                                                                                      81.780

                                                                                                                                                 kr.           4.243.499

Auk framannefndrar uppgjörsgreiðslu var kveðið á um vexti frá slysdegi til uppgjörsdags kr. 286.005 og lögmannskostnað ásamt virðisaukaskatti kr. 248.334 eða samtals kr. 4.777.888.

Af hálfu stefnanda var ekki fallist á ofangreinda tillögu um bótauppgjör, en fyrir liggur, sbr. dskj. nr. 15, að stefndi Sjóvá-Almennar tryggingar h.f. greiddi stefnanda þann 24. september 2001 ótilgreinda innborgun kr. 2.000.000, en hafði áður greitt til lögmanns stefnanda útlagðan kostnað vegna starfa örorkunefndar og vegna gerðar örorkumats kr. 152.900 og greiddi einnig þann 14. mars 2003 til lögmanns stefnanda kr. 26.550 vegna útlagðs kostnaðar eða samtals kr. 2.179.450.

Stefnandi gat ekki fallist á bótatilboð meðstefnda Sjóvár-Almennra trygginga hf. og höfðaði því mál þetta.

                                                                                        II.

Stefnandi byggir kröfu sína um skaðabætur á reglum umferðarlaga nr. 50, 1987 og almennum reglum skaðabótaréttar.

Af hálfu stefnanda er á því byggt að ekkert liggi fyrir um að slys það er hann varð fyrir þann 3. júní 1998 megi rekja til ásetnings eða stórkostlegs gáleysis hans.  Höfnun stefndu á greiðslu skaðabóta hafi því verið ólögmæt og ekki í samræmi við viðurkenndar reglur skaðabóta- og vátryggingaréttar.

Er á því byggt að slysið megi rekja til ásetnings og stórkostlegs gáleysis stefndu, Laufeyjar Hallfríðar, sem grandvars ökumanns, er hafi farið með stjórn á vélknúnu ökutæki með mikla hættueiginleika fyrir umhverfi sitt, ef ekki væri gætt ýtrustu varkárni.

Á því er byggt að stefnda, Laufey Hallfríður, hafi borið að gæta aukinnar varúðar við þær aðstæður sem voru á slysstað í umrætt sinn, en hún hafi verið að aka seint að kveldi í nágreinni fjölda veitinga- og skemmtistaða, auk kvikmyndahúss og leigubílastöðvar og hafi henni borið sem ábyrgum ökumanni að gæta ýtrustu varkárni.  Vísað er til þess að hún hafi gert sér grein fyrir því að allt í kringum bifreið hennar var gangandi fólk í mismunandi líkamlegu og andlegu ástandi, líkt og alltaf megi búast við á slíkum svæðum á háannatíma um miðja nótt.

Er á því byggt að Laufeyju Hallfríði hafi, sem ökumanni bifreiðar átt að reikna með þessum aðstæðum, sbr. ákvæði 2. mgr. 36. gr. umferðarlaga nr. 50, 1987.  Jafnframt er byggt á þeim líkindum að stefnda Laufey hafi sérstaklega gert sér ferð til að sjá mannlífið í miðbænum um miðnætti á bjartri sumarnóttu.  Hafi henni því borið að stöðva alfarið bifreið sína er hún varð þess vör að fólk var á ferli yfir götuna og í kringum bifreið hennar.  Sem grandvörum og góðum ökumanni hafi henni og átt að vera ljós sú hætta, sem stafað gat af umhverfinu og þeim hættueiginleikum sem af bifreið getur stafað, sbr. til hliðsjónar ákvæði 26. og 31. gr. umferðarlaga.

Bótakrafa stefnanda í málinu sundurliðast þannig:

1)       Varanleg örorka 15% 5. gr. skbl.                                                                kr.           9.153.993

2)       Varanlegur miski 10% 4. gr. skbl.                                                                              546.330.

3)       Þjáningabætur 3. gr. skbl.                                                                                             87.220

4)       Frádráttur vegna aldurs                                                                                         (1.006.989)

Samtals                                                                                                                                       8.780.604

 

Innborgun til stefnanda 25.11.2001                                                                           kr.           2.000.000

                                                                                                                                                     6.780.604

 

Fjárhæð skaðabótakröfunnar styður stefnandi við áður greint örorkumat læknanna Guðmundar Björnssonar og Björns Önundarsonar frá 8. júní 2000, en gerir nánari grein fyrir kröfunni og einstökum liðum með eftirfarandi hætti:

Í umræddu mati Guðmundar Björnssonar og Björns Önundarsonar komi fram að þeir hafi ekki komist að sameiginlegri niðurstöðu varðandi miska og örorku.  Er af hálfu stefnanda byggt á mati Björns Önundarsonar við útreikning bótakröfunnar, þ.e. að varanlegur miski hafi verið 10% en varanleg örorka 15%, en þessu til stuðnings er vísað til fordæma Hæstaréttar.

Varðandi kröfu um þjáningabætur er vísað til 3. gr. skaðabótalaga nr. 50, 1993, en skv. umræddu mati hafi ekki verið að vænta frekari bata hjá stefnanda eftir júnímánuð 2000.  Stefnandi hafi verið rúmfastur í 1 dag, en veikur án þess að vera rúmfastur í 89 daga.  Í samræmi við það sé gerð krafa um bætur að fjárhæð kr. 87.220 (1x960 og 89x1.780).

Miskabótakröfu styður stefnandi við 4. gr. skaðabótalaga nr. 50, 1993 og það álit Björns Önundarsonar að miski stefnanda hafi verið 10% vegna afleiðinga slyssins.  Í samræmi við það sé gerð krafa um miskabætur að fjárhæð kr. 546.330.

Varðandi örorku er gerð krafa um fullar bætur miðað við 15% örorku og tímabundið örorkutap, en við munnlegan flutning var vísað til framlagðra skattframtala vegna launa fyrir árin 1996 til 1998.  Til frádráttar kæmu þær greiðslur er þegar hefðu verið inntar af hendi af stefndu Sjóvá-Almennum tryggingum hf. í septembermánuði 2001.

Af hálfu stefnanda er krafist 2% vaxta sbr. 16. gr. skaðabótalaga og laga nr. 25, 1987 og laga nr. 38, 2001, allt í samræmi við endanlega kröfugerð hér að framan.

Um bótagrundvöll er af hálfu stefnanda vísað til ákvæða umferðarlaga nr. 50, 1987, sérstaklega XIII. kafla og almennra reglna skaðabótaréttar, en um útreikning skaðabóta og bótafjárhæðar er vísað til ákvæða skaðabótalaga nr. 50, 1993.  Um nánari útlistun á kröfufjárhæð var við munnlegan málflutning vísað til þess að tilgreindar upphæðir hefðu verið útreiknaðar í tilteknu forriti.

Varðandi aðild er vísað til XIII. kafla umferðarlaga nr. 50, 1987 og ákvæða laga nr. 19, 1991 og um varnarþing er jafnframt vísað til síðast greindu laganna.  Um málskostnað er vísað til ákvæða laga nr. 91, 1991 og um virðisaukaskatt af málskostnaði er vísað til laga nr. 50, 1998, en stefnandi sé ekki virðisaukaskattskyldur og beri honum því nauðsyn á að fá dóm fyrir skatti þessum úr hendi stefnda.

Varðandi aðalkröfu byggja stefndu um sýknu á því, að með þegar greiddum bótum hafi stefnandi fengið tjón sitt bætt að fullu og eigi ekki að lögum tilkall til frekari bóta úr þeirra hendi.

Af hálfu stefndu er vísað til eigin sakar stefnanda og er því mótmælt sem röngu og ósönnuðu að bifreið meðstefndu Laufeyjar Hallfríðar hafi ekið á stefnanda með þeim hætti sem hann hafi haldið fram við skýrslugjöf hjá lögreglu.  Af gögnum málsins verði ekki annað ráðið en að stefnandi hafi fallið á bifreiðina með fyrrgreindum afleiðingum.  Megi leiða líkum að því að stefnandi hafi verið að reyna að banka í bifreið stefndu er hún ók framhjá, en misst jafnvægið og fallið á bifreiðina.  Samkvæmt gögnum málsins megi og ráða að stefnandi hafi verið mjög ölvaður, en alkóhólmagn í blóði hans hafi mælst 2,44‰.  Hafi hann við í því ástandi staðið við Strandgötuna og bankað eða „danglað“ í bíla er óku framhjá honum, en jafnframt slangrað til og átt erfitt með gang sökum ölvunar sinnar.  Bein orsakatengsl hafi því verið milli ölvunar stefnanda og óhappssins og verði tjón hans alfarið eða a.m.k. að stærstum hluta rakið til óaðgæslu stefnanda sjálfs.

Stefndu byggja á því að stefnandi hafi mátt gera sér ljósa grein fyrir hættunni sem framangreint athæfi hans olli, bæði sér og öðrum.  Hafi stefnandi með athæfi sínu lagt bæði sjálfan sig og aðra í hættu.  Þá hafi stefnandi með hegðan sinni m.a. brotið gegn ákvæðum III. kafla umferðarlaga nr. 50, 1987 og sýnt af sér stórkostlegt gáleysi og því beri skv. 2. mgr. 88. gr. umferðarlaga nr. 50, 1987 að lækka eða fella niður bætur til hans.

Af hálfu stefndu er vísað til þess að gögn málsins bendi ekki til þess að stefnda Laufey Hallfríður hafi ekið gáleysislega í umrætt sinn og er því mótmælt sem röngu að slysið verði rakið til ásetnings eða stórkostlegs gáleysis hennar.  Verði af gögnunum ekki annað ráðið en að hún hafi gætt ýtrustu varkárni við aksturinn og hagað akstri sínum í samræmi við aðstæður, og ekið á lítilli ferð austur Strandgötu er stefnandi féll á bifreið hennar.  Verði ekki séð með hvaða hætti stefnda hafi getað afstýrt eða forðað slysinu.

Af hálfu stefndu er því mótmælt að byggt verði á mati Björns Önundarsonar læknis við útreikning á bótum til handa stefnanda fyrir varanlega orku og miska.  Er til þess vísað að Björn og Guðmundur Björnsson hafa ekki komist að sameiginlegri niðurstöðu í matsgerð sinni og hafi því verið leitað eftir áliti örorkunefndar.  Nefndin hafi skilað álitsgerð þann 31. júlí 2001, en þar hafi varanleg örorka stefnanda verið metin 8% og varanlegur miski 8%

Er á því byggt af hálfu stefndu að leggja beri ofangreint mat örorkunefndar til grundvallar við ákvörðun bóta til handa stefnanda og til þess vísað að í athugasemdum með frumvarpi er varð að skaðabótalögum nr. 50, 1993 komi fram að eitt af markmiðum með því að koma nefndinni á fót hafi verið að tryggja festu og samræmi í mati á varanlegum afleiðingum slysa.  Þar komi einnig fram að sá aðili sem ekki unir niðurstöðu nefndarinnar verði að fá henni hnekkt fyrir dómstólum.  Gangi því matsgerðir annarra ekki framar mati örorkunefndar er ekki hafi verið hnekkt fyrir dómstólum.  Ber því af þessum sökum að leggja niðurstöðu örorkunefndar til grundvallar við ákvörðun bóta.

Varakröfu sína um að lækka beri dómkröfur stefnanda verulega byggja stefndu á því að tjón stefnanda verði að verulegu leyti rakin til óaðgæslu hans sjálfs.

Af hálfu stefndu er tölulegum útreikningum stefnanda í stefnu mótmælt þar sem ekki verði séð að útreikningar á bótum fyrir varanlega örorku sé í samræmi við ákvæði skaðabótalaganna nr. 50, 1993.

Að öðru leyti vísa stefndu um rök fyrir varakröfu til málsástæðna til stuðnings aðalkröfu þeirra.

Við munnlegan málflutning var af hálfu stefndu fallið frá mótmælum að því er varðaði fyrningu vaxta og upphafstíma þeirra með vísan til endanlegrar kröfugerðar stefnanda við aðalmeðferð málsins.

                                                                            III.

Fyrir dómi gáfu skýrslur, auk stefnanda og stefndu Laufeyjar Hallfríðar, vitnin Mikael Jóhannesson og Erla Björg Guðmundsdóttir svo og læknarnir Guðmundur Björnsson og Björn Önundarson, en samkvæmt yfirlýsingu stefnanda var eigi krafist staðfestingar nefndarmanna í örorkunefnd.

Dómendur ásamt lögmönnum aðila skoðuðu vettvang fyrir aðalmeðferð málsins.

                                                                            IV.

Niðurstaða.

Samkvæmt 1. mgr. 90. gr., sbr. 1. mgr. 95. gr. umferðarlaga nr. 50, 1987, bera stefndu fébótaábyrgð á tjóni því, sem stefnandi varð fyrir í umræddu umferðarslysi á Strandgötu um miðnættið þann 3. júní 1998.

Er í máli þessu deilt um sakarskiptingu og þ.á.m. hvort lækka beri bætur til stefnanda þar sem hann hafi verið meðvaldur að tjóni sínu, sbr. 2. mgr. 88. gr. umferðarlaganna.  Þá er deilt um hvaða gögn eigi að leggja til grundvallar bótum og um útreikning þeirra.

Fyrir liggur að stefnandi var undir verulegum áfengisáhrifum við Strandgötu er stefnda, Laufey Hallfríður, ók fólksbifreiðinni Ford KA, VP-777, um „rúntinn“ í miðbæ Akureyrar, þ.e. um Ráðhústorg og síðan austur Strandgötu.

Við skýrslugjöf hjá lögreglu þann 9. júní 1998 greindi stefnandi frá því að hann hefði verið á leið suður yfir Strandgötuna er hann varð var við bifreiðina, en fallið á akbrautina er hann varð fyrir henni.  Er haft eftir stefnanda í skýrslunni að ökumaður bifreiðarinnar hafi eftir fall hans stöðvað aksturinn en síðan ekið af stað að nýju og hafi þá hægra framhjól bifreiðarinnar farið yfir hægri fót hans.  Fyrir dómi bar stefnandi við minnisleysi um tildrög slyssins vegna áðurnefnds ölvunarástands.  Treysti hann sér ekki til að segja til gjörðir sínar, þ.á m. hvaðan hann var að koma í greint sinn og ekki heldur hvernig eða hvar á akbrautinn hann varð fyrir bifreiðinni.  Hann lýsti hins vegar áverkum sínum með svipuðum hætti og hér að framan var rakið, en staðhæfði hins vegar að ör á hægri rist væri slysinu óviðkomandi, um væri að ræða gamlan brunaáverka.  Hann kvaðst hafa haldið áfram sjómannsstörfum sínum eftir slysið, en hætt sem háseti og tekið við stöðu matsveins.

Ofangreind frásögn stefnanda hjá lögreglu er í verulegum atriðum í andstöðu við framburð stefndu, Laufeyjar Hallfríðar, við alla meðferð málsins.  Hún kvaðst hafa ekið bifreiðinni VP-777 austur Strandgötu er hún veitti stefnanda fyrst athygli þar sem hann var við hægri (syðri) brún akbrautarinar, nánar tiltekið aðeins vestan við verslunina Nætursöluna.  Hafi stefnandi greinilega verið undir áhrifum áfengis og m.a. dangla í bifreiðar er óku fram hjá.  Hún kvaðst hafa ekið við greindar aðstæður með mjög litlum ökuhraða, „nánast ómælanlegum“, í röð annarra ökutækja, áleiðis framhjá stefnanda.  Er bifreið hennar hafi verið til hliðar við stefnanda hafi hann skyndilega snúið sér að bifreiðinni, baðað út höndum, virst missa jafnvægið, en í framhaldi af því fallið á hægri hlið bifreiðarinnar, á hurðina eða spegilinn.  Kvaðst hún strax hafa sveigt bifreiðinni til vinstri, en er hún hafi séð stefnanda liggja á akbrautinni hafi hún strax stöðvað aksturinn til þess að gæta að honum.  Staðhæfði stefnda að er hún hafi komið stefnanda hafi hann legið á akbrautinni við hægri hlið bifreiðarinnar.

Fyrir dómi andmælti stefnda frásögn stefnanda að öðru leyti og kannaðist m.a. ekki við að hjól bifreiðarinnar hefði farið yfir fót hans í umrætt sinn.

Framangreind lýsing stefndu Laufeyjar Hallfríðar hefur að áliti dómsins stoð í gögnum málsins, ekki síst í frásögn vitnanna Mikaels Jóhannessonar og Erlu Bjargar Guðmundsdóttur, þ.á.m. um athæfi stefnanda fyrir slysið og aksturshraða, en fyrir liggur að vitnin voru í bifreið við gatnamót Strandgötu og Ráðhústorgs og því á sömu akstursleið og bifreiðin VP-777.  Vitnin kváðust ekki hafa séð hjólbarða bifreiðarinnar VP-777 aka yfir hægri fót stefnanda.

Að framangreindu virtu verður lagt til grundvallar að stefnda Laufey Hallfríður hafi í umrætt sinn ekið bifreiðinni VP-777 með mjög litlum ökuhraða, á bjartri sumarnóttu, um Ráðhústorg og austur Strandgötu í röð annarra ökutækja og að stefnandi hafi þá verið ölvaður við hægri brún akbrautarinnar, nokkrum metrum vestan við gangbraut á Strandgötunni. 

Það er áliti dómsins að stefndu, Laufeyju Hallfríði, hafi við nefndar aðstæður borið að sýna sérstaka varúð við aksturinn.  Af gögnum málsins verður ráðið að bifreið stefndu, VP-777, hafi verið til hliðar við stefnanda er hann skyndilega féll að henni og í framhaldi af því á akbrautina.  Er það niðurstaða dómsins að aðalorsök þessa hafi verið ölæði stefnanda, en um nánari tilkomu brotáverka stefnanda verður ekki staðhæft, en fyrir liggur að ör á hægri rist hans er óskylt áverkanum.

Að öllu ofangreindu virtu þykir rétt samkvæmt 2. mgr. 88. gr. umferðarlaga nr. 50, 1987 að lækka fébætur til stefnanda, þar sem hann telst samkvæmt framansögðu meðvaldur að slysinu með stórkostlegu gáleysi sínu, þannig að hann sjálfur beri 2/3 hluta tjónsins, en stefndu bæti honum það að 1/3 hluta.

Eins og áður er lýst byggir stefnandi bótakröfu sínu á matsgjörð Björns Önundarsonar læknis, um varanlegan miska og varanlega örorku.  Matsgerð læknisins er dagsett 8. júní 2000, en þann dag skoðaði hann stefnanda ásamt meðmatsmanni sínum, Guðmundi Björnssyni lækni.  Niðurstaða þeirra var ekki samhljóða.

Af hálfu stefndu er byggt á álitsgerð örorkunefndar þar sem varanlegum miski, líkt og varanleg örorka var metin 8%.  Álitsgerðin er unnin af hæstaréttarlögmanni og tveimur læknum.  Fyrir liggur að skoðun af hálfu nefndarinnar fór fram á stefnanda 26. júní 2001 og að nefndin hlutaðist til um að tekin var ný röntgenmynd af hægri ökkla hans þann 27. júní sama ár.  Við myndgreiningu sáust engin merki um slit.

Að mati dómsins er álitsgerð örorkunefndar vel rökstudd og eru ekki á henni neinir þeir gallar er rýra sönnunargildi hennar, en til þess er þó að líta að ör framan á rist stefnanda er óskylt ökklabrotinu.

Áliti örorkunefndar hefur ekki verið hnekkt af hálfu stefnanda.  Að þessu athuguðu og að öllu framangreindu töldu er það niðurstaða dómsins að leggja beri einróma álitsgerð örorkunefndar að fullu til grundvallar við úrlausn málsins.

Samkvæmt framansögðu greiddi stefndi, Sjóvá-Almennar tryggingar hf., þann 24. september 2001 stefnanda 2.000.000 kr. og var þá miðað við framangreinda niðurstöðu örorkunefndar.  Auk þess var stefnanda greiddur útlagður kostnaður.

Með vísan til kröfugerðar stefndu, og þrátt fyrir að málatilbúnaður stefnanda sé að nokkru vanreifaður, þ.á.m. útreikningar hans, þykir ljóst þegar litið er til lagasjónarmiða um ákvörðun bóta og áðurnefndrar niðurstöðu, þ.á m. sakarskiptingar, að stefnandi hafi fengið að fullu goldinn þann hluta tjónsins sem hann gat krafið úr hendi stefndu.  Verða stefndu því sýknaðir af kröfum stefnanda.

Rétt þykir, eins og mál þetta er vaxið að málsaðilar beri sinn kostnað af málinu.

Gætt var ákvæða 115. gr. laga nr. 19, 1991 áður en dómur var kveðinn upp í málinu.

Dóm þennan kveða upp Ólafur Ólafsson héraðsdómari, Þorvaldur Ingvarsson og Guðni Arinbjarnar, bæklunarlæknar.

 

D Ó M S O R Ð:

Stefndu, Lýsing hf., Laufey Hallfríður Svavarsdóttir og Sjóvá-Almennar tryggingar hf., eiga að vera sýkn af kröfum stefnanda Hallgríms Þorsteins Tómassonar.

Málskostnaður fellur niður.