Hæstiréttur íslands

Mál nr. 30/2008

Ákæruvaldið (Sigríður Elsa Kjartansdóttir saksóknari)
gegn
Pawel Janas (Hilmar Gunnarsson lögmaður)

Lykilorð

  • Skjalafals
  • Kröfugerð
  • Frávísun frá héraðsdómi að hluta


Fimmtudaginn 13

Skjalafals. Kröfugerð. Frávísun að hluta frá héraðsdómi.

P var sakfelldur fyrir skjalafals og skjalabrot með því að hafa framvísað pólsku vegabréfi á nafni H í blekkingarskyni og fengið þannig afhent dvalarleyfi frá útlendingastofnun á nafni H, sem P hafði áður sótt um og fyrir að hafa í sama skipti falsað undirskrift G á móttökukvittun til lögreglu. Var háttsemi hans heimfærð til 1. mgr. 155. gr. og 1. mgr. 157. gr. almennra hegningarlaga. Þá var P einnig ákærður fyrir að hafa falsað nafn H undir umsókn um dvalarleyfi til útlendingastofnunar, undir umsókn um ökuskírteini, undir ráðningarsamning og undir vottorð um verklegt próf á vinnuvél frá vinnueftirlitinu. Héraðsdómur sýknaði P af tveimur síðastnefndum liðum. Fyrir Hæstarétti krafðist ákæruvaldið staðfestingar á sakfellingu samkvæmt I. ákærulið en frávísunar á öðrum liðum ákærunnar. P krafðist einnig frávísunar á ákæruliðum II og IV. Í dómi Hæstaréttar sagði að ekki yrði talið að ákæruvaldið gæti nú, eftir að P hefði verið sýknaður í héraði, krafist þess að ákæruliðum III og V yrði vísað frá héraðsdómi, sbr. að sínu leyti 2. mgr. 118. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Yrði litið svo á að ákæruvaldið sætti sig við niðurstöðu héraðsdóms um þessa liði og kæmi héraðsdómur því ekki til endurskoðunar að því þá varðar. Af þessum ástæðum væri fallist á kröfu P um að ákæruliðum II og IV yrði vísað frá héraðsdómi og staðfest niðurstaða hins áfrýjaða dóms um ákæruliði III og V. Refsing P fyrir skjalafalsið og skjalabrotið samkvæmt ákærulið I,

þótti hæfilega ákveðin fangelsi í tvo mánuði.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 17. desember 2007 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst staðfestingar á sakfellingu samkvæmt I. ákærulið, að ákæruliðum II til V verði vísað frá héraðsdómi og að refsing ákærða verði milduð.

Ákærði krefst þess aðallega að ákæruliðum I, II og IV verði vísað frá héraðsdómi. Til vara að niðurstaða héraðsdóms um sömu ákæruliði verði ómerkt og meðferð málsins hvað þá varðar verði vísað heim í hérað. Til þrautavara að hann verði sýknaður af ákæruliðum I, II og IV en að því frágengnu að refsing verði milduð. Við munnlegan flutning málsins fyrir Hæstarétti var af hálfu ákærða tekið fram að hann teldi kröfugerðina fela í sér kröfu um staðfestingu á sýknu héraðsdóms að því er varðar ákæruliði III og V.

I.

Ákæra er í fimm liðum. Í hinum áfrýjaða dómi var ákærði sakfelldur samkvæmt ákæruliðum I, II og IV, en sýknaður af ákæruliðum III og V. Krafa ákæruvalds um frávísun ákæruliða II til V frá héraðsdómi verður ekki skilin öðru vísi en svo að tekið sé undir frávísunarkröfu ákærða að því er tekur til ákæruliða II og IV. Ekki verður talið að ákæruvaldið geti nú, eftir að ákærði hefur verið sýknaður í héraði, krafist þess að ákæruliðum III og V verði vísað frá héraðsdómi, sbr. að sínu leyti 2. mgr. 118. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Verður litið svo á að ákæruvaldið sætti sig við niðurstöðu héraðsdóms um þessa liði og kemur héraðsdómur því ekki til endurskoðunar að því þá varðar. Af þessum ástæðum er fallist á kröfu ákærða um að ákæruliðum II og IV verði vísað frá héraðsdómi og staðfest niðurstaða hins áfrýjaða dóms um ákæruliði III og V.

II.

Krafa ákærða um frávísun I. ákæruliðar frá héraðsdómi kom hvorki fram í yfirlýsingu um áfrýjun 13. desember 2007, né í áfrýjunarstefnu 17. sama mánaðar. Með vísan til 2. mgr. 151. gr. laga nr. 19/1991 verður frávísunarkrafa ákærða varðandi I. ákærulið því aðeins tekin til skoðunar að því marki sem dóminum ber sjálfkrafa að gæta þeirra atriða sem leiða kunna til frávísunar. Er ekki um slíkt að ræða.

III.

Varakrafa ákærða um ómerkingu hins áfrýjaða dóms og heimvísun til efnismeðferðar að nýju er nú aðeins til athugunar að því er varðar ákærulið I. Í fyrsta lagi byggir ákærði kröfuna á því, að héraðsdómari hafi tekið efnislega afstöðu til sakarefnisins áður en málið var tekið til dóms og telur ákærði þetta leiða af bókun dómarans í þingbók þegar ákærði kom fyrir dóminn til skýrslugjafar. Bókunin er svohljóðandi: „Kl. 10.15 gefur ákærði Pawel Janas, sem kveðst vera Henryk Stanislaw Szelag, skýrslu í réttinum.“ Mál ákæruvaldsins er höfðað gegn ákærða Pawel Janas og er framangreind bókun eðlileg í ljósi þess. Skiptir þar ekki máli þó að ákærði haldi því fram að hann sé annar maður. Er ekki fallist á með ákærða að dómari taki efnislega afstöðu til sakarefnisins með bókuninni.

Í öðru lagi telur ákærði að sú afstaða ákæruvalds og héraðsdóms, að gera ráð fyrir að hann væri Pawel Janas, hafi leitt til þess að rannsókn málsins sé ábótavant og að auki að sönnunarbyrði hafi í raun verið snúið við. Ákæruvaldinu hafi borið að sýna fram á að hann væri ekki Henryk Stanislaw Szelag með því að leiða þann mann fyrir dóminn eða sanna tilvist hans með öðrum hætti. Þess í stað hafi verið lagt á ákærða að sýna fram á að hann væri Henryk Stanislaw Szelag. Ákæruvaldið höfðar mál þetta á þeirri forsendu að ákærði sé grunaður um að vera Pawel Janas og þar af leiðandi hafi hann gerst brotlegur með því að framvísa skilríkjum, sækja um réttindi og undirrita skjöl sem annar maður. Ekki er fallist á að það sé galli á málsmeðferð ákæruvalds að byggja á því að sannað sé að ákærði sé Pawel Janas og geti því ekki verið Henryk Stanislaw Szelag, en niðurstaða málsins veltur síðan á því hvort ákæruvaldinu hafi tekist þessi sönnun.

Loks byggir ákærði kröfu um ómerkingu á því að verulegir annmarkar hafi verið á sönnunarfærslu ákæruvalds og málsmeðferð, með því að nefndur Henryk hafi ekki verið leiddur fyrir dóm, heimilað hafi verið að leggja fram skjal eftir að ákærði hafði gefið skýrslu sína við aðalmeðferð málsins þrátt fyrir mótmæli hans og túlkun hjá lögreglu hafi verið ábótavant. Ekki er fallist á með ákærða að greind atriði eigi að varða ómerkingu niðurstöðu dómsins um ákærulið I. Um fyrsta atriðið eiga við sömu rök og hér áður komu fram og hin tvö atriðin verða ekki talin hafa þýðingu fyrir úrlausn málsins.

IV.

Kröfu sína um sýknu af I. ákærulið byggir ákærði á því að ekki hafi verið sýnt fram á að hann sé ekki umræddur Henryk. Vegabréfið sé ekki falsað og því ósannað að hann hafi framvísað því í blekkingarskyni eða að hann hafi falsað undirskrift annars manns. Ákæruvaldinu beri að sýna fram á að hann sé ekki Henryk, sem sé ómögulegt, þar sem hann sé Henryk, að minnsta kosti leiki slíkur vafi á því hver Henryk sé að sönnun hafi ekki tekist um hið gagnstæða. Þess vegna leiði ákvæði 45. gr. laga nr. 19/1991 til þess að það beri að sýkna hann. Jafnvel þó að talið yrði sannað að hann væri Pawel Janas hafi ekki verið sannað að hann sé ekki Henryk Stanislaw Szelag.

Upphaf máls þessa er að lögreglunni á Fáskrúðsfirði höfðu borist ábendingar um að ákærði villti á sér heimildir. Þegar hann sótti dvalarleyfi á lögreglustöðina fannst lögreglu mynd í vegabréfi sem hann framvísaði ekki eiga við manninn og var í framhaldi farið að rannsaka málið. Ákærði var þrisvar yfirheyrður hjá lögreglu, 20. ágúst og 2. og 8. nóvember 2007. Í fyrstnefnd tvö skipti, 20. ágúst og 2. nóvember 2007, var honum kynnt að tilefni skýrslutöku væri rannsókn á því hvort hann væri sá sem hann segðist vera, en honum var ekki kynnt að hann gæti neitað að svara spurningum og ætti rétt á að hafa lögmann viðstaddan. Hinn 8. nóvember var verjandi viðstaddur og var ákærða þá kynnt réttarstaða. Í tveimur fyrri yfirheyrslunum var L túlkur en í síðasta skiptið M, sem einnig túlkaði fyrir dómi. Hefur ákærði vefengt að túlkun hafi verið fullnægjandi í fyrri tvö skiptin. Þegar af þeirri ástæðu að honum var ekki kynnt réttarstaða sín, sbr. 32. gr. laga nr. 19/1991, verður ekki byggt á lögregluskýrslum frá 20. ágúst og 2. nóvember 2007.

Ákærði neitar sök og kveðst vera Henryk Stanislaw Szelag. Hann hefur framvísað vegabréfi nr. AM 0191009 með því nafni og undirritað sem slíkur umsókn um dvalarleyfi og móttöku þess. Staðfesti hann þetta hjá lögreglu 8. nóvember 2007, en neitaði að svara spurningu um þetta fyrir dómi. Vitnið H, lögreglufulltrúi, bar fyrir dómi að ákærði hefði komið á lögreglustöðina á Fáskrúðsfirði, fengið þar afhent dvalarleyfi og kvittað fyrir móttöku þess. Kvað vitnið það vera verklagsreglu að taka afrit af vegabréfi. Á þessum tíma hafi dvalarleyfi verið límd inn í vegabréf. Ákærði staðfesti einnig hjá lögreglu að hafa undirritað afrit af fingraförum sínum með nafninu Henryk og gefið rithandarsýnishorn. Kvaðst hann hafa framvísað greindu vegabréfi þegar hann kom til landsins, en fyrir dómi neitaði hann að svara spurningu um þetta. Þá neitaði hann fyrir dómi að svara því hvort hann staðfesti skýrslu sem vitnað er til og hann gaf hjá lögreglu 8. nóvember 2007. Ákærði bar fyrir dómi að hann hefði verið skírður og kallaður Pawel, en Henryk væri í raun hans rétta nafn því það hefði hann átt að heita.

Lögreglan á Eskifirði sendi mynd úr vegabréfi Henryk Stanislaw Szelag og myndir af ákærða til vegabréfarannsóknarstofu landamæradeildar lögreglunnar á Suðurnesjum til greiningar. Skýrsla um samanburðarskoðun á þessum gögnum er gerð af A aðalvarðstjóra 15. nóvember 2007. Niðurstaða hennar er að ekki sé um sama mann að ræða. A gaf símaskýrslu fyrir dóminum og útskýrði og staðfesti niðurstöður sínar.

Með þeim gögnum sem hér hefur verið gerð grein fyrir þykir fram komin nægileg sönnun, sem ekki verði vefengd með skynsamlegum rökum, að ákærði sé sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök samkvæmt I. ákærulið og þarf þá ekki að taka afstöðu til andmæla hans við fingrafararannsókn sem fram fór fyrir milligöngu alþjóðadeildar ríkislögreglustjóra hjá Interpol í Varsjá. Er háttsemi hans rétt heimfærð til refsiákvæða Ekki eru í málinu gögn sem byggt verður á um að ákærði hafi áður gerst sekur um refsiverða háttsemi. Er refsing ákærða ákveðin fangelsi í tvo mánuði.

Ákvæði hins áfrýjaða dóms um upptöku og sakarkostnað verða staðfest. Áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans fyrir Hæstarétti sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Ákæruliðum II og IV er vísað frá héraðsdómi.

Ákærði, Pawel Janas, sæti fangelsi í tvo mánuði.

Hinn áfrýjaði dómur er óraskaður um upptöku og sakarkostnað.

Allur áfrýjunarkostnaður málsins 434.987 krónur greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða fyrir Hæstarétti, Hilmars Gunnlaugssonar hæstaréttarlögmanns, 373.500 krónur.

                                                                           

                       Dómur Héraðsdóms Austurlands 11. desember 2007.

I.

Mál þetta, sem dómtekið var 21. nóvember 2007, er höfðað með ákæru lögreglustjórans á Eskifirði, útgefinni 13. nóvember 2007 á hendur Pawel Janas, fæddum 6. nóvember 1960, Heiðmörk 17, Stöðvarfirði “fyrir að hafa í nálægt því tvö ár villt á sér heimildir hér á landi með því að þykjast vera annar maður og með því gerst sekur um eftirfarandi brot á 17. kafla almennra hegningarlaga:

I.

Fyrir skjalafals og skjalabrot, með því að hafa þriðjudaginn 12. desember 2006, á lögreglustöðinni, Skólavegi 53, Fáskrúðsfirði, framvísað pólsku vegabréfi nr. AM 0191009, á nafni Henryk Stanislaw Szelag, í blekkingarskyni og fengið þannig afhent dvalarleyfi nr. IS0020007, frá útlendingastofnun á nafni nefnds Henryks, sem ákærði hafði áður sótt um og fyrir að hafa í sama skipti, falsað undirskrift Henryk Szelag á móttökukvittun til lögreglu, vegna afhendingar á dvalarleyfinu, í blekkingarskyni.

II.

Fyrir skjalafals, með því að hafa, í blekkingarskyni, falsað nafn Henryk Szelag, undir umsókn um dvalarleyfi til útlendingastofnunar dagsetta 4. maí 2006, á nafni Henryk Stanislaw Szelag kt. 020553-2439 og síðar fengið útgefið dvalarleyfi.

III.

Fyrir skjalafals, með því að hafa, í blekkingarskyni, falsað nafnið Henryk Szelag, undir ráðningarsamning dagsettan 5. maí 2006, milli Loðnuvinnslunnar hf. sem atvinnurekanda og Henryk Stanislaw Szelag sem starfsmanns og í framhaldinu stundað vinnu hjá fyrirtækinu sem Henryk Stanislaw Szelag.

IV.

Fyrir skjalafals, með því að hafa, í blekkingarskyni, falsað nafnið Henryk Szelag, undir umsókn um ökuskírteini dagsetta 13. mars 2007 og kennispjald ökuskírteinis á nafni Henryk Stanislaw Szelag kt. 020553-2439, og síðar fengið ökuskírteini nr. 028002518, á nafni hans.

V.

Fyrir skjalafals með því að hafa, í blekkingarskyni, falsað nafnið Henryk Szelag, undir vottorð um verklegt próf á vinnuvél frá vinnueftirlitinu dagsett 14. júní 2007, á nafni Henryk Szelag kt. 020553-2439, og síðar fengið útgefið vinnuvélaskírteini nr. V30888 á nafni hans.

Telst ákæruliður I varða við 1. mgr. 155. gr. og 1. mgr. 157. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, ákæruliður II telst varða við 1. mgr. 157. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, en ákæruliðir III til VI teljast varða við 1. mgr. 155. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.

Þá er einnig krafist að ofangreint vegabréfi (svo) nr. AM 0191009, ökuskírteini nr. 028002518, og vinnuvélaskírteini nr. V30888, öll á nafni Henryk Stanislaw Szelag, verði gert upptækt.

Af hálfu ákærða er þess aðallega krafist að ákæruliðum II-V verði vísað frá dómi, en til vara að ákærði verði sýknaður af þeim ákæruliðum og til þrautavara að hann verði dæmdur til vægustu refsingar sem lög leyfa vegna þeirrar háttsemi, sem þar greinir. Þá er þess krafist að ákærði verði sýknaður af ákærulið I, en til vara að hann verði dæmdur til vægustu refsingar sem lög leyfa. Þá er þess aðallega krafist að allur sakarkostnaður, þ.m.t. málsvarnarlaun, greiðist úr ríkissjóði, en til vara að sakarkostnaður greiðist að hluta til úr ríkissjóði.”

II.

                                                              Málavextir

Í yfirlitsskýrslu lögreglu, dagsettri 6. nóvember 2007, kemur fram að rannsókn málsins hafi hafist hinn 20. ágúst sl. er ákærði í máli þessu, sem gengið hafi undir nafninu Henryk Stanislaw Szelag, hafi mætt til skýrslutöku hjá lögreglu. Áður hafi lögreglu borist ábendingar frá nokkrum óskyldum aðilum um að ákærði væri sennilega ekki sá sem hann segðist vera. Hafi hann verið grunaður um að hafa komið til landsins á vegabréfi annars manns. Þá hafi lögregla haft undir höndum ljósrit af vegabréfi Henryks og undirritun ákærða frá því að hann hafði komið á lögreglustöðina og fengið afhent dvalar- og atvinnuleyfi útgefið af Útlendingastofnun. Undirritunin hafi ekki verið sú sama og í vegabréfi Henryks. Í skýrslu sem ákærði hafi gefið þennan dag hafi hann neitað staðfastlega að þessar upplýsingar væru á rökum reistar. Hafi hann sagst vera áðurnefndur Henryk og ástæða þess að hann kallaði sig stundum Pawel væri sú að faðir hans hefði í ölvímu látið skrá á hann nafnið Henryk, en staðið hefði til að hann héti Pawel. Í skýrslu lögreglu segir að teknar hafi verið ljósmyndir af ákærða, sem og fingraför, auk þess sem fengin hafi verið hjá honum rithandarsýnishorn. Þá hafi verið gerð leit í íbúð hans án þess að nokkuð fyndist sem að gagni gæti komið við rannsókn málsins.

Í yfirlitsskýrslunni segir að tveimur dögum síðar eða hinn 22. ágúst hafi verið tekin ný fingraför af ákærða þar sem í ljós hafi komið að fyrri fingraförin hafi ekki verið nógu góð til samanburðar. Þá hafi myndir og undirritun verið send til greiningar hjá A hjá lögreglunni á Suðurnesjum. Athugun hans hafi leitt í ljós að líklega væri myndin í vegabréfinu af öðrum manni en myndirnar, sem teknar hafi verið af ákærða. Einnig hafi hann staðfest að rithandarsýnishornin væru ólík undirritun í vegabréfinu. Þá segir í skýrslunni að tveimur dögum síðar eða hinn 24. ágúst hafi afrit af fingraförum verið sent til alþjóðadeildar Ríkislögreglustjóra með beiðni um að haft yrði samband við pólsk yfirvöld og kannað hvort ákærði væri sá sem hann segðist vera.

Í skýrslu lögreglu segir að hinn 1. október sl. hafi alþjóðadeild Ríkislögreglustjóra sent lögreglu upplýsingaskýrslu þar sem fram hafi komið að ákærði væri í raun og veru Pawel Janas. Hinn 18. október hafi og svar borist frá Póllandi þess efnis að umrætt vegabréf hefði verið gefið út á Henryk Stanislaw Szelag og að það væri ekki á lista yfir stolin vegabréf. Hins vegar væri Pawel Janas, f. 6. nóvember 1960, eftirlýstur í Póllandi og að hans bíði fangelsisvist fyrir eignaspjöll. Hinn 2. nóvember hafi borist skeyti frá alþjóðadeild Ríkislögreglustjóra þar sem tilkynnt hafi verið að búið væri að samkenna fingraför, sem tekin hafi verið af ákærða við Pawel Janas, f. 6. nóvember 1960.

Lögregla hafi haft samband við ákærða í síma og boðað hann til skýrslutöku. Þar hafi hann neitað staðfastlega öllum ásökunum um að hann væri einhver annar en Henryk Stanislaw Szelag. Hafi hann haldið fast við þann framburð sinn að hann hefði týnt vegabréfinu en væri búinn sækja um nýtt vegabréf í sendiráði Póllands í Osló. Hafi ákærða verið birt tilkynning lögreglu samkvæmt 29. gr. laga nr. 96/2002 þess efnis að hann yrði að halda sig innan Fjarðabyggðar auk þess sem lagt hafi verið fyrir ákærða að mæta klukkan 16.30 hvern dag og tilkynna sig á lögreglustöðinni á Fáskrúðsfirði. Þá hafi ökuréttindi hans verið afturkölluð þar sem allt hafi bent til þess að þeirra hafi verið aflað á ólögmætan hátt. Í framhaldinu hafi verið gerð húsleit á heimili ákærða að Heiðmörk 17 á Stöðvarfirði og þar hafi fundist skilríki hans, þ.e. vegabréf og ökuskírteini, falin í sófa í stofu íbúðarinnar.

Hinn 6. nóvember hafi ákærði verið úrskurðaður í farbann í Héraðsdómi Austurlands. Daginn eftir hafi skýrsla verið tekin af fyrrverandi unnustu og barnsmóður ákærða, B. Hún hafi sagst hafa þekkt ákærða í 10 ár og hann getið með henni barn skömmu eftir að þau kynntust. Hún hafi sagt að ákærði hafi verið kallaður Pawel og að hún hafi ekki heyrt hann nefndan Henryk fyrr en á Íslandi. Daginn eftir eða 8. nóvember hafi verið tekin skýrsla af ákærða þar sem lögð hafi verið fyrir hann ýmis gögn sem varði ætluð skjalabrot hans. Hafi hann viðurkennt að hafa undirritað öll þau gögn, sem fyrir hann hafi verið lögð. Hann hafi engar skýringar haft á því hvers vegna pólska lögreglan hafi samkennt fingraför hans við fingraför Pawel Janas eða af hverju skoðun lögreglu hafi leitt í ljós misræmi á rithönd hans og rithönd Henyrks í vegabréfinu. Einnig hafi hann ekki getað skýrt hvers vegna athugun lögreglu á ljósmyndinni í vegabréfinu og ljósmyndum af honum hafi leitt í ljós að ekki væri um sama mann að ræða. Hafi ákærði haldið sig fast við að hann væri Henryk Stanislaw Szelag.

Meðal gagna málsins er upplýsingaskýrsla lögreglu dagsett hinn 1. október 2007. Þar segir að C hafi haft samband við lögreglu og sagst vilja leggja fram kæru á hendur manni, sem segðist heita Henryk Stanislaw Szelag, fyrir þjófnað og líkamsárás. Hafi hún sagst vita að umræddur maður héti réttu nafni Pawel Janas og hefði komið til Íslands á vegabréfi annars manns.

Í skýrslunni segir að C hafi tjáð lögreglu að fyrrnefndur maður hefði komist yfir greiðslukortanúmer sitt og verslað út á það. Hann hefði síðan ráðist á sig þegar hún hefði borið þetta upp á hann. Þá hefði hann hótað henni eftir að hún hefði komist að því hver hann var í raun í veru og sagt honum að hún myndi upplýsa lögreglu um það.

Aðspurð um ákærða hafi hún sagst hafa kynnst ákærða fyrir rúmum tveimur árum úti í Póllandi þegar hún hafi verið þar í heimsókn hjá ættingjum og hafi hann kynnt sig sem Henryk. Hann hafi síðan haft samband við hann eftir hún hafi komið aftur til Íslands og spurt hana út í land og þjóð og hvort hér væri atvinnu að fá. Hún hafi aðstoðað ákærða við að komast til landsins og fá hér vinnu og þau hafi síðan verið saman í stuttan tíma eftir það. Ákærði hafi dvalið hjá sér um tíma eftir að hann kom til landsins en síðan flutt í annað húsnæði á Stöðvarfirði. Hún sagði að fólk, sem hafi haft samband við hann og hún talið ættingja hans, hafi ávallt kallað hann Pawel en hann hafi sagt henni að þetta væri bara gælunafn sitt. Sagðist hún nú vita að rétt nafn ákærða væri Pawel Janas, fæddur 6. nóvember 1963 og heimilisfang hans Rolnicza 4/57, 33-100 Tarnov, Matopolskie, Póllandi. Sagðist hún vera í sambandi við fyrrverandi eiginkonu og barnsmóður ákærða í Póllandi og hún hefði hún frætt hana um ákærða. Hafi C tjáð lögreglu að ákærði hafi keypt vegabréfið af Henryk, sem væri áfengissjúklingur. Þá hafi hann fengið Henryk  til að sækja um pólskt sakavottorð og fengið hjá honum afrit af skólaskírteini. Ákærði hafi sent sér þessi gögn til Íslands áður en hann kom. Þá hafi hún sagt að ákærði hefði komist í kast við lögin í Póllandi og því ekki fengið útgefið vegabréf eða það verið haldlagt í Póllandi. Þá hafi C sagt að ákærði hefði farið í ökunám á Íslandi snemma á þessu ári sem Henryk Stanislaw Szelag og fengið útgefið ökuskírteini á því nafni með ljósmynd af sér. Þá hafi ákærði tjáð henni að hann væri búinn að henda gamla vegabréfinu og sækja um nýtt vegabréf hjá sendiráði Póllands í Noregi. Hefði hann sent nýja ljósmynd með þeirri umsókn. Loks hafi C tjáð lögreglu að ákærði ætti son að nafni D Janas, sem hefði komið til landsins í fyrrasumar og unnið á Reyðarfirði.

Meðal gagna málsins er ljósrit af forsíðu vegabréfs á nafni Henryks Stanislaws Szelag, útgefið 30. nóvember 2005, prófskírteini á nafni sama manns úr tækniskóla, útgefið 5. mars 1973, sakavottorð á nafni sama manns útgefið í Póllandi 4. apríl 2005, umsókn um dvalarleyfi á Íslandi á nafni Henryks Stanislaws Szelag dags. 4. maí 2006, kvittun um móttöku á dvalarleyfi á nafni Henryks Stanislaws Szelag, dags. 12. desember 2006, ráðningarsamningur á nafni Henryks Stanislaws Szelag við Loðnuvinnsluna hf. á Fáskrúðsfirði, dags. 5. maí 2006, ljósrit af umsókn um ökuskírteini, dags. 13. mars 2007 á nafni Henryk Stanislaws Szelag og loks ljósrit af kennispjaldi sama ökuskírteinis og ljósrit af vottorði Vinnueftirlitsins um verklegt próf Henryks Szelag á lyftara, dags. 14. júní 2007.

Þá liggur frammi tölvupóstur frá Interpol í Varsjá til alþjóðadeildar Ríkislögreglustjóra þar sem fram kemur að vegabréf nr. AM0191009, sem útgefið hafi verið til Henryks Stanislaws Szelag, f. 2. maí 1953, sé ekki á lista yfir stolin vegabréf. Réttur fæðingardagur Pawel Janas, íbúa í Tarnów, sé 6. nóvember 1960. Jafnframt að hann sé eftirlýstur í Póllandi vegna refsiverðs brots og hans bíði afplánun í fangelsi. Þá liggur frammi annar tölvupóstur frá Interpol í Varsjá dags. 2. nóvember 2007 til alþjóðadeildar Ríkislögreglustjóra þar sem tilkynnt er að fingraför, sem tekin hafi verið af ákærða, séu þau sömu og skráð séu undir nafninu Pawel Janas, f. 6. nóvember 1960 í skrám lögreglunnar í Póllandi.

Meðal gagna málsins er skýrsla A, aðalvarðstjóra í landamæradeild lögreglunnar á Suðurnesjum, vegabréfarannsóknarstofu, dagsett 15. nóvember 2007, um samanburð á ljósmynd í vegabréfi á nafni Henryks Stanislaws Szelag (mynd 2) og ljósmynd, sem lögregla hafi tekið af ákærða (mynd 3). Niðurstaða skýrslunnar er sú að miðað við þau gögn, sem skýrsluhöfundi hafi borist, sé ekki um sama aðila að ræða á ljósmyndunum. Það sem helst greini þessa menn að sé í fyrsta lagi ólík lögun á eyra, í öðru lagi að maður á mynd 3 sé með mjórra nef en maðurinn á mynd 2, í þriðja lagi að maður á mynd 2 sé með stærri og sverari munn en maður á mynd 3, í fjórða lagi að mennirnir séu ekki með sama höfuðlag, í fimmta lagi að hársvörður þeirra sé ólíkur, þ.e. maður á mynd 3 sé með minni hárvöxt en maður á mynd 2 og loks í sjötta lagi að áberandi fæðingarblettur sé rétt neðan við vinstra auga manns á mynd 3, en ekki á manni á mynd 2.

Loks er meðal gagna málsins tölvupóstur frá Interpol í Varsjá til alþjóðadeildar Ríkislögreglustjóra dags. 21. nóvember 2007. Þar er áréttað að rannsókn og samanburður á fingraförum ákærða og fingraförum í skrám lögregluyfirvalda í Póllandi hafi leitt í ljós að þau væru fingraför Pawels Janas, sem væri eftirlýstur í Póllandi. Einnig er þar staðfest að E Janas hafi borið kennsl á son sinn á ljósmynd, sem lögreglan hafi sent út til Póllands af ákærða. Er þar haft eftir honum að sonur hans, Pawel Janas, hafi farið frá heimili sínu í Póllandi til að leita að vinnu og hafi ekki haft samband við fjölskyldu sína síðan. Í skeytinu segir einnig að Henryk Stanislaw Szelag sé lögreglu ókunnur og því hafi lögregla ekki fingraför hans.

Verður nú rakinn framburður ákærða og vitna fyrir dóminum.

Ákærði neitaði sök. Hann sagðist hafa komið til Íslands 9. desember 2005, en vildi ekki svara því á hvaða skilríkjum hann hefði komið til landsins. Þá vildi hann ekki tjá sig frekar um sakarefnið og svaraði ekki spurningum ákæruvaldsins um efni ákærunnar. Hann sagðist ekki geta skýrt það hvers vegna lögregluyfirvöld í Póllandi hefðu samkennt fingraför hans með fingraförum manns að nafni Pawel Janas. Sagðist ákærði ekkert kunna í þessum fræðum og því ekki geta skýrt þetta. Þegar ákærði var inntur eftir skýringum á því hvers vegna samburðarrannsókn á ljósmynd í vegabréfi og ljósmynd af ákærða hefði leitt í ljós að ekki væri um sama mann að ræða sagði ákærði að myndin í vegabréfinu væri tekin fyrir 5 til 6 árum. Þá sagðist ákærði ekki hafa vit á slíkum rannsóknum og ekki geta tjáð sig um niðurstöðu hennar.

Ákærði sagðist ekki geta staðfest skýrslur sínar hjá lögreglu. Hann sagði að í eitt skiptið hefði túlkurinn verið frá Litháen og sagðist hann draga í efa að hann gæti túlkað á pólsku. Hann sagðist þó kannast við undirskrift sína undir skýrslurnar, en sagðist ekkert hafa vitað undir hvað hann var að skrifa.

Þegar ákærði var spurður út í framburð vitnisins C hjá lögreglu um að hún hefði heyrt að ákærði héti í raun Pawel Janas sagði hann að þau hefðu búið sama í um eitt og hálft ár, en upp úr sambandinu hefði slitnað. C væri því aðeins að gera honum þetta til bölvunar vegna sambandsslitanna. Hann sagði að ekki væri rétt að hann hefði keypt vegabréfið af Henryk Stanislaw Szelag, sem væri áfengissjúklingur. Hann sagði að hann hefði verið skírður og kallaður Pawel, en samkvæmt opinberri skráningu héti hann Henryk.

Ákærði var spurður um þann framburð B að hún hafi ekki heyrt ákærða kallaðan Henryk fyrr en á Íslandi og að ákærði hafi alltaf verið kallaður Pawel. Sagði hann að um mjög stutt samband hjá honum og B hefði verið að ræða og að hún hefði aðeins þekkt skírnarnafn hans, Pawel. Þá var ákærði spurður að því hvers vegna synir hans, D og F, bæru eftirnafnið Janos og sagði ákærði að það hlyti að vera eftirnafn móður þeirra. Hann sagðist ekki muna hvað móðir þeirra héti. Sagðist ákærði eiga þrjú börn og þar af eitt með vitninu B.

Aðspurður sagðist ákærði ekki muna eftir hvort hann skrifaði undir skjal merkt IV, 4-4. Þá sagðist hann ekki muna hvort hann skrifaði undir móttökukvittun dvalarleyfi á skjali merktu IV, 5-1, en sagði þó að undirskriftin liti út fyrir að vera sín skrift. Þá sagðist hann ekki muna eftir hvort hann skrifaði undir ráðningarsamning á skjali merktu IV, 6-1. Hann vildi ekki tjá sig um það hvort hann hefði starfað hjá Loðnuvinnslunni á Fáskrúðsfirði. Hann sagðist ekki muna eftir því hvort hann skrifaði undir umsókn um ökuskírteini á skjali merktu IV, 7-1, kennispjald ökuskírteinis á skjali merktu IV, 7-3 eða vottorð Vinnueftirlits á skjali merktu IV, 8-1. Hann vildi ekki tjá sig um það hvort hann hefði sótt vinnuvélanámskeið hjá Vinnueftirlitinu.

G, lögreglufulltrúi í alþjóðadeild Ríkislögreglustjóra, sagði að móðurtölva Interpol væri í Lyon í Frakklandi og væru öll aðildarríkin tengd við þá móðurtölvu. Interpol í Reykjavík væri því tengt þessari móðurtölvu í Lyon og allt sem færi frá þeim færi til þeirra landa, sem þeir vildu hafa samskipti við hverju sinni. Um væri að ræða svokallaða VPN-tengingu, sem væri dulkóðuð og því kæmist enginn annar inn á þessa tengingu. Hann sagði að þeir hefðu sent fyrirspurn úr kerfinu hér heima til Interpol í Varsjá og beðið þá um að bera saman ljósmyndir og fingraför. Slíkar upplýsingar væru sendar rafrænt í gegnum umrætt kerfi með ákveðnum hætti. Til að taka af allan vafa hefði hann sent skeyti til Varsjár seint í gærkvöldi og beðið þá um að staðfesta að fingraförin væru af Pawel Janas en ekki Henryk Szelag. Interpol hefði sent skeyti af þessu tilefni, sbr. dskj. nr. 5. Hefðu þeir tekið fram að þeir hefðu ekki fingraför Henryks Szelag undir höndum. Hann sagði að fingrafararannsóknir væru öruggar og fingraför manns segðu til um hver hann væri. Hann staðfesti og að tölvupóstur merktur NCB í Varsjá stafaði frá Interpol í Varsjá og hefði verið sendur um kerfi Interpol til Interpol í Reykjavík.

A, aðalvarðstjóri lögreglunnar á Suðurnesjum, landamæradeild, vegabréfarannsóknarstofu, staðfesti að skýrsla á dskj. 3 og 4 stafaði frá honum. Hann lýsti rannsókn sinni á ljósmyndunum og greindi frá því hvaða atriði greindu mennina á myndunum að, sbr. atriði á blaðsíðu 4 í skýrslunni. Hann lýsti og þeim aðferðum, sem notaðar hefðu verið við greininguna, sérstaklega að því er varðar lögun á eyra. Hann nefndi og að bilið frá augnlínu yfir á eyrnablöðkuna væri ekki eins á mönnunum og gleraugnaspöngin sæti ekki eins á þeim. Hann sagðist hafa gert mælingu á myndunum og í ljós hefði komið að augnlínan á manni á mynd nr. 3 væri lægri en á manni á mynd nr. 2, þ.e. eyrun á manni á mynd nr. 2 væru hærra á höfðinu en á manni á mynd nr. 3.

H lögreglufulltrúi sagðist hafa afhent ákærða dvalarleyfi og látið hann kvitta fyrir móttöku á því, sbr. skjal merkt nr. IV, 5-1. Sagðist hann muna eftir því er ákærði kom á lögreglustöðina á Fáskrúðsfirði og fékk afhent dvalarleyfi með því að framvísa vegabréfi. Hann sagði að það væri verklagsregla hjá lögreglunni að viðkomandi framvísaði vegabréfi við móttöku á dvalarleyfi og á þeim tíma, sem um ræddi, hefði dvalarleyfið verið límt inn í vegabréfið og svo hefði augljóslega verið gert í tilviki ákærða, sbr. áðurgreint skjal.

J lögreglumaður staðfesti að hafa tekið þátt í leit að skilríkjum ákærða á heimili hans á Stöðvarfirði hinn 2. nóvember sl. Sagðist hann hafa fundið vegabréf ákærða og seðlaveski undir miðri sessu í sófa í stofunni. Í seðlaveskinu hefði verið debetkort, ökuskírteini og vinnuvélaskírteini. Hann sagði að ákærði hefði reynt að afvegaleiða lögreglu við húsleitina og virst mjög órólegur og óstyrkur.

K lögreglumaður sagði að upphaf rannsóknarinnar væri að rekja til þess að þeim hefði fundist myndin í vegabréfinu ekki líkjast ákærða þegar hann hefði komið að sækja dvalarleyfið á lögreglustöðina. Í framhaldi af því hefðu lögreglu borist ábendingar og upplýsingar um að ákærði væri kallaður öðru nafni en greindi í vegabréfinu. Þeir hefðu síðan farið með mynd úr vegabréfinu og spurt samstarfsfólk hans hvort að það þekkti manninn á myndinni og hefði svo ekki verið. Að svo búnu hefðu þeir kallað á ákærða til skýrslutöku og kallað eftir upplýsingum frá Póllandi. Þá hefði ákærði tjáð þeim að hann væri búinn að týna vegabréfinu, nánar tiltekið hefði ákærði sagt þeim að hann hefði misst það einhvers staðar á milli Breiðdalsvíkur og Djúpavogs. Vitnið staðfesti að hafa tvívegis tekið þátt í húsleit á heimili ákærða og að í síðara tilvikinu hefðu skilríkin fundist í sófa í stofu. Hann sagði að í nótt hefðu borist upplýsingar frá Interpol í Varsjá um að lögreglan í Póllandi hefði farið með ljósmynd, sem lögreglan á Fáskrúðsfirði hafði tekið af ákærða og sent út, til föður Pawel Janas, sem þekkt hefði son sinn á myndinni. Aðspurður sagði hann að túlkurinn L, sem hefði túlkað fyrir ákærða við skýrslutöku hjá lögreglu hinn 20. ágúst og 2. nóvember sl. væri Lithái, en talaði bæði pólsku og rússnesku. Hann sagði að þessi túlkur hefði túlkað mjög lengi fyrir lögregluna og án nokkurra vandkvæða.

C sagðist hafa kynnst ákærða á netinu í ágúst 2005. Ákærði hefði þá verið í Póllandi, en hún á Íslandi. Hún sagðist síðar hafa hitt ákærða úti í Póllandi. Ákærði hefði á þessum tíma notað nafnið Pawel. Sagðist hún fyrst hafa heyrt nafnið Henryk eftir að ákærði kom til Íslands. Hún sagði að fólk væri oft kallað öðru nafni en það héti í raun og veru og því hefði hún ekki spurt ákærða út í þetta. Hún sagðist hins vegar hafa spurt ákærða hvers vegna sonur hans bæri eftirnafnið Janas í stað Szelag og hefði ákærði sagt að það væri eftirnafn móður hans. Hún sagði að kærasta ákærða, B, hefði sagt sér að ákærði héti í raun Pawel Janas. Hún sagðist einnig hafa rætt við fyrrverandi eiginkonu ákærða í Póllandi, sem einnig hefði tjáð sér að ákærði héti í raun Pawel Janas. Þá sagði hún að ákærði hefði sagt sér sjálfur að hann hefði keypt vegabréf, sakavottorð og prófskírteini af áfengissjúklingi úti í Póllandi. Vitnið sagðist hafa fyllt út umsóknir á skjölum merktum IV, 4-1 og IV, 7-1, að beiðni ákærða, sem ekki hefði kunnað íslensku. Hún sagðist ekki hafa vitað með vissu á þessum tíma að ákærði héti ekki í raun Henryk Szelag. Hún staðfesti að hafa séð ákærða rita undir þessi skjöl sem Henryk Szelag. Aðspurð sagði hún að ákærði hefði búið heima hjá henni í um eitt og hálft ár. Hún sagði að ákærði væri mjög þægilegur maður en ekkert hefði þó verið á milli þeirra. Þegar hún hefði komist að því að ákærði sigldi undir fölsku flaggi hefði hún beðið hann um að fara af heimilinu.

B sagðist hafa kynnst ákærða fyrst fyrir um 10 árum í Póllandi og að hann hefði þá kynnt sig sem Pawel. Sagðist hún eiga barn með ákærða, sem nú væri 10 ára, en þau ákærði hefðu mjög lítið samband í dag. Hún sagði að ákærði héti Henryk Szelag á opinberum skjölum og sagðist hún hafa séð þetta nafn á pappírum hjá ákærða. Hún sagðist fyrst hafa heyrt það hjá lögreglunni að ákærði sigldi undir fölsku flaggi. Sagðist hún ekki þekkja ættingja ákærða í Póllandi. Hún sagði að barn þeirra ákærða bæri eftirnafn fyrrverandi eiginmanns síns, en hún hefði verið gift öðrum manni þegar hún varð ófrísk eftir ákærða. Aðspurð sagðist hún ekki kannast við að hafa sagt C að ákærði væri í raun og veru Pawel Janas.

III.

      Niðurstaða

Eins og fram hefur komið tók lögregla afrit af fingraförum ákærða og sendi lögregluyfirvöldum í Póllandi til rannsóknar og samanburðar á fingraförum í fingrafarasafni þeirra. Í framlagðri útprentun af tölvupósti Interpol í Varsjá til alþjóðadeildar Ríkislögreglustjóra hinn 2. nóvember 2007, kemur fram að lögregluyfirvöld í Póllandi hafi samkennt fingraför ákærða við fingraför Pawels Janas, fædds 6. nóvember 1960, sem eftirlýstur sé í Póllandi. Voru þessar upplýsingar staðfestar á ný af Interpol í Varsjá með tölvupósti hinn 21. nóvember 2007. Þar kemur og fram að E Janas, faðir Pawel Janas, hafi borið kennsl á son sinn á ljósmynd af ákærða, sem alþjóðadeild Ríkislögreglustjóra hafði sent Interpol í Varsjá vegna rannsóknar málsins. Hefur G, lögreglufulltrúi í alþjóðadeild Ríkislögreglustjóra, staðfest að framangreindar upplýsingar stafi frá Interpol í Varsjá.

Með vísan til framangreinds þykir sannað að ákærði sé Pawel Janas, pólskur ríkisborgari, fæddur 6. nóvember 1960, en ekki Henryk Stanislaw Szelag, fæddur 2. maí 1953, eins og ákærði hefur haldið fram. Þessu til stuðnings er skýrsla A aðalvarðstjóra, sem hann hefur staðfest hér fyrir dómi, um samanburðarskoðun á ljósmynd úr vegabréfi á nafni Henryks Stanislaws Szelag og ljósmynd af ákærða, en niðurstaða rannsóknarinnar er sú að ekki sé um sama manninn að ræða. Ennfremur er þessu til stuðnings framburður vitnanna C og B, sem báðar hafa borið um það að hafa þekkt ákærða undir nafninu Pawel áður en hann kom til Íslands. Þá þykja skýringar ákærða á því hvers vegna hann sé kallaður Pawel, en skráður undir nafninu Henryk í opinberum gögnum, óskýrar og ótrúverðugar og á þeim er einnig nokkurt misræmi. Með vísan til upplýsinga Interpol í Varsjá um að ákærði sé eftirlýstur í Póllandi og eigi eftir að afplána þar refsidóm þykir og í ljós leitt að ákærði hafði ástæðu til að villa á sér heimildir hér á landi.

Ákæruliður I.

Með vísan til alls ofangreinds, móttökukvittunar dags. 12. desember 2006 á skjali merktu IV, 5-1 og framburðar H lögreglufulltrúa, sem fær stuðning í framburði K lögreglumanns, þykir komin fram lögfull sönnun um að ákærði hafi gerst sekur um háttsemi þá sem greinir í ákærulið I. Er þetta brot ákærða rétt heimfært til refsiákvæða í ákærunni.

Ákæruliðir II. og IV.

Með vísan til alls ofangreinds, framlagðrar umsóknar um dvalarleyfi, dags. 4. maí 2006, á skjali merktu IV, 4-1 til 4-4, umsóknar um ökuskírteini, dags. 13. mars 2007, á skjali merktu IV, 7-1, og framburðar vitnisins C um að ákærði hafi skrifað undir umsóknirnar í hennar viðurvist, svo og með vísan til kennispjalds ökuskírteinis á skjali merktu IV, 7-3, þykir sannað að ákærði hafi ritað nafn Henryks Stanislaws Szelag undir þessi skjöl. Ljóst er og með vísan til framlagðra skjala, sem merkt hafa verið IV, 5-1 og IV, 7-5, að Útlendingastofnun gaf út dvalarleyfi til ákærða hinn 1. júní 2006 og að sýslumaðurinn á Eskifirði gaf út ökuskírteini til ákærða hinn 21. mars 2007, hvort tveggja á nafni Henryks Stanislaws Szelag og hvort tveggja á grundvelli umsókna, sem ákærði hafði falsað. Þykir ljóst að í þessari háttsemi ákærða fólst refsiverður verknaður, þ.e. notkun falsaðra skjala í þeim tilgangi að blekkja með þeim í lögskiptum við opinberar stofnanir og fá útgefin leyfi á nafni annars manns. Þykir rétt að heimfæra þessa háttsemi ákærða undir 1. mgr. 155. gr. almennra hegningarlaga.

Ákæruliðir III. og V.

Samkvæmt þessum ákæruliðum er ákærða gefið að sök að hafa í blekkingarskyni falsað nafn Henryks Stanislaws Szelag undir ráðningarsamning við Loðnuvinnsluna hf. og í framhaldinu stundað vinnu hjá fyrirtækinu sem áðurnefndur Henryk. Þá er ákærða gefið að sök að hafa í blekkingarskyni falsað undirritun áðurgreinds Henryks undir vottorð um verklegt próf á vinnuvél frá Vinnueftirlitinu og síðar fengið útgefið vinnuvélaskírteini á nafni hans. Ákærði hefur ekki viljað tjá sig um þessa ákæruliði. Engin vitni hafa verið leidd fyrir dóminn til staðfestingar á því að ákærði hafi ritað nafn Henryks undir ráðningarsamning við Loðnuvinnsluna og stundað síðan vinnu þar undir nafni og kennitölu Henryks og með því beitt fyrirtækið blekkingum. Sömu sögu er að segja um ákærulið V, en engin vitni hafa verið leidd fyrir dóminn til staðfestingar á því að ákærði hafi ritað nafn Henryks undir vottorð um verklegt próf á vinnuvél hjá Vinnueftirlitinu og á grundvelli þess falsaða skjals fengið útgefið nánar tilgreint vinnuvélaskírteini. Með vísan til framangreinds þykja ekki hafa verið færðar fullnægjandi sönnur fyrir því að ákærði hafi gerst sekur um þessa háttsemi og ber því að sýkna hann af refsikröfu ákæruvalds að því er þessa ákæruliði varðar.

Niðurstaða málsins er því sú að sannað þykir að ákærði hafi gerst sekur um háttsemi þá, sem greinir í ákærulið I, sem þykir varða við 1. mgr. 155. gr. og 1. mgr. 157. gr. almennra hegningarlaga og háttsemi þá, sem greinir í ákæruliðum II og IV, sem þykir varða við 1. mgr. 155. gr. almennra hegningarlaga. Ákærði er hins vegar sýknaður af refsikröfu ákæruvalds vegna háttsemi þeirrar sem greinir í ákæruliðum III og V.

Ákærði hefur ekki svo kunnugt sé gerst sekur um refsiverða hegðun hér á landi. Samkvæmt upplýsingum Interpol í Varsjá hefur hann hins vegar gerst sekur um einhvers konar eignaspjöll þar í landi.

Við ákvörðun refsingar er litið til þess að ákærði hefur um langa hríð villt á sér heimildir hér á landi og beitt opinberar stofnanir og lögregluyfirvöld alvarlegum blekkingum. Þykir ákærði ekki eiga sér neinar málsbætur. Þykir refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í 6 mánuði. Þegar eðli brotsins er virt, hversu alvarlegt það er og þegar litið er til almennra varnaðaráhrifa refsinga þykja ekki efni til að skilorðsbinda refsingu ákærða.

Með vísan til 69. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 er fallist á kröfu ákæruvalds um að vegabréf nr. AM 019009, ökuskírteini nr. 028002518 og vinnuvélaskírteini nr. V30888, allt á nafni Henryks Stanislaws Szelag, verði gerð upptæk.

Ákærði greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Evu Dísar Pálmadóttur hdl., og þykja þau hæfilega ákveðin 309.536 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti. Er þar bæði um að ræða vinnu verjandans á rannsóknarstigi og við meðferð málsins fyrir dómi. Ekki hefur verið lagt fram yfirlit um annan sakarkostnað í málinu.

Ragnheiður Bragadóttir dómstjóri kveður upp dóminn.

Dómsorð:

Ákærði, Pawel Janas, sæti fangelsi í 6 mánuði.

Upptæk eru gerð vegabréf nr. AM 019009, ökuskírteini nr. 028002518 og vinnuvélaskírteini nr. V30888, allt á nafni Henryks Stanislaws Szelag.

Ákærði greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Evu Dísar Pálmadóttur hdl., að fjárhæð 309.536 krónur.