Hæstiréttur íslands

Mál nr. 111/2004


Lykilorð

  • Fjárdráttur
  • Fjársvik
  • Dráttur á máli
  • Skilorð


Fimmtudaginn 30

 

Fimmtudaginn 30. september 2004.

Nr. 111/2004.

Ákæruvaldið

(Sigríður Jósefsdóttir saksóknari)

gegn

Viktori Heiðdal Sveinssyni

(Sveinn Andri Sveinsson hrl.)

 

Fjárdráttur. Fjársvik. Dráttur á máli. Skilorð.

V var ákærður fyrir fjárdrátt, með því að hafa dregið sér hlutabréf í fyrirtækinu D með því að setja það að handveði, eftir að hafa áður selt umrætt hlutabréf með rafrænum hætti. Þá var hann einnig ákærður fyrir fjársvik með því að hafa síðan blekkt fyrirtækið D til þess að ógilda hlutabréfið og ganga með því í fjárhagslega ábyrgð vegna þess og til þess að gefa út nýtt hlutabréf þess í stað. Hélt V því m.a. fram að ekki hefði verið um auðgunarásetning að ræða af hans hálfu. Talið var, að með handveðsetningu á hlut, sem V hafði áður selt og var því ekki í hans eigu, hafi V fengið lán sem bætti fjárhagsstöðu hans á þeim tíma. Hann hafi skapað sér lánstraust með veðsetningunni og því hafi verið um auðgun að ræða. Þá var talið sannað að V hefði með refsiverðum hætti blekkt fyrirtækið D til að ógilda umrætt hlutabréf og gefa út nýtt á grundvelli rangra upplýsinga frá V. Var hann dæmdur til að sæta fangelsi í níu mánuði. Sex mánuðir af refsingunni voru skilorðsbundnir og var við þá ákvörðun litið til dráttar á rannsókn málsins. Þá var V gert að greiða D skaðabætur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Garðar Gíslason og Hrafn Bragason.

Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 27. febrúar 2004 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en einnig af hálfu ákæruvaldsins, sem krefst staðfestingar héraðsdóms um sakfellingu ákærða og refsingu, sem verði þó að engu leyti skilorðsbundin. Jafnframt er krafist staðfestingar á greiðslu skaðabóta til Íslenskrar erfðagreiningar ehf. að fjárhæð 2.236.635 krónur, en dráttarvextir samkvæmt lögum nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu verði dæmdir frá 6. desember 2001 til greiðsludags.

Ákærði krefst aðallega sýknu en til vara að refsing verði milduð.

Í málsvörn fyrir Hæstarétti hefur ákærði meðal annars bent á að ranghermt sé í niðurstöðu héraðsdóms um 1. lið ákæru að ekki hafi komið fram í umsókn hans 18. febrúar 2000 um erlent lán hjá Íslandsbanka hf. að það yrði tímabundið. Þótt rétt sé hjá ákærða að umsóknin beri með sér að hann hafi leitað eftir láni til 18 mánaða, fær það ekki breytt því að héraðsdómur verður staðfestur með vísan til forsendna hans að öðru leyti.

Áfrýjandi greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, svo sem nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Ákærði, Viktor Heiðdal Sveinsson, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Sveins Andra Sveinssonar hæstaréttarlögmanns, 200.000 krónur.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 10. febrúar 2004.

 

                Mál þetta var höfðað með ákæru Ríkislögreglustjórans dagsettri 16. september 2003 á hendur Viktori Heiðdal Sveinssyni, kt. 070565-3589, Búðum Snæfellsnesi,

„1.

fyrir fjárdrátt,

með því að hafa fimmtudaginn 17. febrúar 2000 í Reykjavík dregið sér hlutabréf í fyrirtækinu deCODE genetics Inc. númer B-4190, fyrir 2.300 hlutum, að verðmæti kr. 8.323.700, með því að setja það Íslandsbanka hf. að handveði, en ákærði hafði miðvikudaginn 12. janúar 2000 selt framangreint hlutabréf með rafrænum hætti til Verðbréfastofunnar hf., Suðurlandsbraut 18, Reykjavík, fyrir kr. 7.729,150.

 

2.

fyrir fjársvik,

með því að hafa mánudaginn 17. apríl 2000 blekkt fyrirtækið deCODE genetics Inc. til þess að ógilda framangreint hlutabréf númer B-4190, sem þann dag var að verðmæti um kr. 6.497.799 og ganga með því í fjárhagslega ábyrgð vegna þess og til þess að gefa út nýtt hlutabréf í þess stað með því að framvísa í símbréfi við hlutaskrá fyrirtækisins skjali sem ákærði hafði undirritað þar sem hann lýsti því yfir að hann væri eigandi hlutabréfsins og það væri glatað og fór fram á að fyrirtækið gæfi út nýtt hlutabréf í þess stað.

 

Framangreint brot í lið 1 telst varða við 247. gr. almennra hegningarlaga nr. 19,1940, en brotið í lið 2 við 248. gr. sömu laga.

 

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.

 

Í málinu gerir Íslensk erfðagreining ehf., kt. 691295-3549, kröfu um skaðabætur að fjárhæð kr 2.236.635, með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr. sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38,2001 um vexti og verðtryggingu, frá 6. desember 2001 til greiðsludags.”

               

                Við þingfestingu málsins leiðrétti sækjandi krónutölu í 1. lið ákæru í 8.323.700 krónur án athugasemda.

               

Af hálfu ákærða er krafist sýknu en til vara að honum verði ákveðin vægasta refsing sem lög leyfa. Skaðbótakröfu er mótmælt og krafist frávísunar hennar. Þá er krafist hæfilegra málsvarnarlauna úr ríkissjóði til handa skipuðum verjanda.

 

Í kæru Íslenskrar erfðagreiningar ehf. vegna deCODE genetics Inc. dags. 6. desember 2001 er málsatvikum lýst á þann veg að ákærði hafi keypt 3.800 hluti í deCODE genetics Inc. þann 25. júní 1999 af Verðbréfastofunni og selt þann 8. október sama ár 1.300 hluti til Verðbréfastofunnar hf. Þann 12. janúar 2000 hafi ákærði selt þá 2.300 hluti sem eftir stóðu til Verðbréfastofunnar hf. Þann 26. janúar 2000 hefði hlutaskrá deCODE genetics Inc. sent hlutabréf nr. B-4190 fyrir 2.300 hlutum til ákærða. Á þessum tíma hefðu hlutabréf deCODE genetics Inc. ekki verið skráð í kauphöll, viðskipti með bréfin hefðu verið umfangsmikil á íslenskum verðbréfamarkaði og misjafnt var hve skjótt verðbréfafyrirtæki tilkynntu hlutaskrá deCODE genetics Inc. um viðskipti með bréfin. Útsending skírteinisins hefði því byggst á stöðu ákærða í hlutaskrá félagsins á þeim tíma, þar sem sala hans þann 12. janúar hafði þá ekki verið tilkynnt hlutaskrá. Hefði því hlutaskrá verið í góðri trú um að ákærði væri á þeim tíma réttur eigandi hlutanna enda hefði þá ekki annað verið tilkynnt.

Ákærði setti framangreint hlutabréf að veði hjá Íslandsbanka hf. þann 17. febrúar 2000 til tryggingar á öllum skuldum  og skuldbindingum hans við bankann. Eftir að hafa móttekið tilkynningu um framsal til Verðbréfastofunnar gekk hlutaskrá deCODE eftir því við ákærða að hann skilaði hlutabréfinu en ákærði tjáði hlutaskrá að hann hefði glatað því. Sendi hann hlutaskrá deCODE genetics Inc. yfirlýsingu þann 17. apríl 2000 þess efnis að hann ætti bréfin kvaðalaus, hann hefði glatað þeim og óskaði eftir því að bréfin yrðu ógilt og ný bréf gefin út í þeirra stað. Hlutabréfið, sem Íslandsbanki hf. hafði þá að veði, var því ógilt og tilsvarandi fjöldi hluta færður til eignar hjá Verðbréfastofunni hf.

Í gögnum málsins kemur fram að Íslandsbanki hf. krafði þann 5. desember 2001 Íslenska erfðagreiningu ehf. um greiðslu á andvirði 2.300 hluta. Þann 6.desember 2001 greiddi Íslensk erfðagreining ehf. Íslandsbanka hf. tjón hans að fjárhæð 2.236.635.

 

Verður nú rakinn framburður ákærða og vitnis fyrir dóminum.

Ákærði hefur neitað sök. Kvaðst ákærði kannast við undirritun sína undir  framlagt skjal dags. 12. janúar 2000 þar sem fram kemur að 2.300 hlutir séu framseldir frá ákærða til Verðbréfastofunnar. Hins vegar kvaðst hann ekki muna eftir þessum viðskiptum enda væri langt síðan þetta var. Ákærði kvaðst ekki efast um skjölin, sem lægju frammi, en kvað þetta mál vera sér gleymt. Aðspurður um handveðsyfirlýsingu dags. 17. febrúar 2000 kvaðst ákærði kannast við undirritun sína undir skjalið en að hann myndi ekki eftir þessu sérstaklega enda hefði hann staðið í miklum viðskiptum á þessum tíma og verið með mörg hlutabréf og lán í gangi. Aðspurður kvaðst hann muna eftir að hafa tekið lán hjá Íslandsbanka á þessum tíma en mundi ekki hversu mörg þau hefðu verið. Aðspurður kannaðist hann við undirritun sína á framlagða umsókn um erlent lán hjá Íslandsbanka frá 18. febrúar 2000 þar sem fram kemur að trygging fyrir láninu er tilgreint handveð í hlutabréfi deCODE genetics Inc. Ákærði kvaðst muna eftir framlagðri yfirlýsingu sinni frá 17. apríl 2000 þar sem hann tilkynnir glataða 2.300 hluti í deCODE skv. skírteini nr. 4190. Kvaðst hann muna sérstaklega eftir þessu þar sem hann hefði ekki staðið í slíku á hverjum degi og að undanfari að útgáfu þessa skjals hefði verið töluverður. Aðspurður um skýringu á því hvers vegna hann tilkynnti sömu hluti glataða 17. apríl 2000 sem hann hafði sett að handveði 17. febrúar sama ár, kvaðst ákærði á þeim tíma hafa talið sig hafa glatað bréfunum. Hann hefði ekki haft bréfin í höndunum þegar hann seldi þau til Verðbréfastofunnar. Hann kvaðst ekki muna vel eftir atvikum þessa máls og ekki geta rifjað þau upp. Hann hefði verið í góðri trú þegar hann tilkynnti bréfin glötuð þar sem hann hefði ekki munað betur. Ákærði hefði farið að leita að bréfunum þegar deCODE innti hann eftir þeim og ekki fundið þau og því talið að þau væru glötuð.

Ákærði kvaðst ekki hafa heyrt um að tjón hefði orðið vegna þessa máls fyrr en síðastliðið haust þegar hann var kallaður í yfirheyrslu til lögreglu þremur og hálfu ári eftir að þessir atburðir áttu sér stað. Kannaðist hann ekki við framlagðar kvittanir dags. 10. desember 2001 vegna fullnaðargreiðslu á yfirdrætti annars vegar og innborgunargreiðslu hins vegar. Kvaðst hann ekki á þessum tíma hafa munað hvaða veðsetningar stóðu að baki einstakra skuldbindinga. Þessar veðsetningar hefðu ekki borið á góma í viðræðum hans við Íslandsbanka á þessum tíma. Þá kannaðist ákærði ekki við að hafa verið í sambandi við deCODE vegna þessa. Taldi hann af og frá að verið gæti að hann hefði ekki svarað skilaboðum félagsins frá Tómasi Sigurðssyni lögfræðingi enda kvaðst ákærði hafa verið í sambandi við hann á árinu 2002 þegar hann sinnti erindum vegna hlutabréfa í eigu félaga síns. Aðspurður kvaðst ákærði ekkert hafa gert til bæta deCODE tjón það sem fyrirtækið hefði orðið fyrir. Hefði lögreglan útskýrt fyrir ákærða að þótt hann bætti fyrirtækinu tjónið hefði það ekki áhrif á sakamálið sjálft.

Ákærði kvaðst á þessum tíma hafa verið í viðskiptum við Íslandsbanka sem og aðra banka. Kvað hann aðdraganda að handveðsyfirlýsingunni til Íslandsbanka hafa verið þann að á árinu 1999 hefði verið gott gengi hjá ákærða eins og yfirleitt í viðskiptalífinu. Í byrjun árs 2000 hefðu hins vegar verið komnar blikur á loft í íslensku efnahagslífi og bankinn farið að krefjast aukinna trygginga og minnkað útlán. Ákærði hefði sett hlutinn að handveði þar sem hann hefði þurft að bæta tryggingastöðuna hjá bankanum. Handveðsetningin hefði ekki átt að vera til að auka útlánin heldur til skuldbreytingar. Hann kvað lántökuna, sem hann sótti um 18. febrúar 2000, hafa verið hugsaða til að greiða upp vanskil en ekki til að auka ráðstöfunarfé hans. Hefði fjárhagur hans á þessum tíma verið ágætur og hefði verið hagnaður af þeim verðbréfaviðskiptum sem hann stóð í. Ákærði kvaðst á þeim tíma hafa stefnt að því að aflétta veðsetningunni. Hins vegar hefði farið að halla undan fæti hjá honum eftir þetta og versnandi efnahagsástand, lán sem brugðust og tap í öðrum rekstri ákærða hefði m.a. leitt til gjaldþrots hans um áramótin 2002-2003.

Framburður ákærða var í meginatriðum á sama veg og í skýrslu hans hjá lögreglu. 

Tómas Sigurðsson, nú lögmaður hjá Íslandsbanka hf. en áður starfsmaður Íslenskrar erfðagreiningar ehf., kom fyrir dóminn sem vitni.  Lýsti vitnið viðskiptum með hlutabréf í deCODE genetics Inc. Sagði hann að á árinu 1999 hefðu viðskipti með hlutabréf í deCODE verið mikil. Gefin hefðu verið út skilríki fyrir hlutunum en mikil brögð hefðu verið að því að bréfin skiluðu sér seint til hlutaskrár deCODE. Þá hefðu tilkynningar frá verðbréfafyrirtækjunum um sölu bréfanna skilað sér seint. Komið gat fyrir að þegar deCODE fékk tilkynningu um sölu hefði verið búið að selja bréfið aftur.

Aðspurður um ógildingu á hlutabréfi ákærða í upphafi ársins 2000 kvað vitnið ákærða hafa haft samband við hlutaskrá deCODE og tilkynnt bréfið týnt í yfirlýsingu til félagsins. Hefði deCODE ekki orðið vart við þetta fyrr en B-deildarskírteinum var breytt í almenn hlutabréf í febrúar-mars 2001 í framhaldi af því að félagið var skráð á markað á árinu 2000.  Kvaðst vitnið hafa sett skilaboð í tvígang í talhólf ákærða vegna þessa. Íslandsbanki hafði óskað eftir því að fá frumrit B-deildarskírteinis síns ógilt og þegar deCODE var krafið um andvirði bréfsins hefði félagið greitt Íslandsbanka og málið síðan verið kært til Ríkislögreglustjórans. Kannaðist vitnið við að ákærði hefði haft samband við hann vegna hlutabréfs vinar hans en það hefði verið eftir að mál ákærða var kært og þessu máli óviðkomandi. Með vísan til yfirlýsingar ákærða á framlögðu skjali nr. 9 þar sem ákærði ábyrgðist að halda deCODE skaðlausu vegna ógildingar bréfsins, var vitnið spurt að því hvort farið hefði verið fram á það við ákærða að hann bætti félaginu tjónið. Vitnið kvað það ekki hafa verið gert enda hefði komið í ljós að gert hefði verið árangurslaust fjárnám hjá ákærða. Kvaðst vitnið ekki hafa náð sambandi við ákærða til að leita skýringa. Aðspurt kvað vitnið ekki vera gengið út frá íslenskum ógildingarreglum í yfirlýsingunni á skjali nr. 9.

Skýrsla vitnisins var í öllum meginatriðum í samræmi við skýrslu hans hjá lögreglu.

 

Niðurstaða.

Um 1. ákærulið.

Ákærði hefur viðurkennt að hafa þann 17. febrúar 2000 sett Íslandsbanka hf. að handveði hlutabréf sitt í fyrirtækinu deCODE genetics Inc. nr. B-4190 fyrir 2.300 hlutum að verðmæti 8.323.700 eftir að hafa 12. janúar 2000 selt sama hlutabréf til Verðbréfastofunnar hf. með rafrænum hætti fyrir 7.729,150 krónur. Ákærði hefur borið fyrir sig gáleysi þar sem hann hafi ekki munað eftir að hafa selt hlutinn til Verðbréfastofunnar þegar hann setti hann að handveði til Íslandsbanka. Dómurinn telur þessa skýringu ákærða ekki trúverðuga enda ekkert fram komið í málinu sem rennir stoðum undir hana. 

Þá byggir ákærði sýknukröfu sína á því að handveðsetningin hafi ekki verið gerð í hagnaðarskyni heldur einvörðungu til þess að fá lán til skuldbreytinga en skuldbreyting sé ekki auðgun í skilningi 247. gr. almennra hegningarlaga. Þá hefði það frá upphafi verið ætlun ákærða að greiða erlenda lánið upp árið 2001 og létta veðsetningunni af hlutnum. Gögn málsins sýna að ákærði sótti um erlent lán til Íslandsbanka 18. febrúar 2000, þ.e. daginn eftir að hann setti hlutinn að handveði til bankans. Í lánsumsókninni kemur fram að til tryggingar láninu standi handveð í hlutabréfi deCODE genetics Inc. en hins vegar kemur ekki fram í umsókninni að lánið verði tímabundið. Með handveðsetningu á hlut, sem ákærði hafði áður selt og var því ekki í hans eigu, fékk ákærði lán sem bætti fjárhagsstöðu hans á þeim tíma. Ákærði aflaði sér lánstrausts með veðsetningunni og því var um auðgun að ræða. Með vísan til framanritaðs þykir hafið yfir vafa að ákærði hafi með handveðsetningunni gerst sekur um fjárdrátt skv. 247. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 eins og honum er gefið að sök í ákæru. Verður hann því sakfelldur eins og krafist er.

 

Um 2. ákærulið.

Ákærði hefur játað að hafa mánudaginn 17. apríl 2000 óskað eftir því við fyrirtækið deCODE genetics Inc. að það ógilti framangreint hlutabréf nr. B-4190, sem þann dag var að verðmæti um 6.497.799 krónur, og til þess að gefa út nýtt hlutabréf í þess stað með því að framvísa skjali sem ákærði hafði undirritað þar sem hann lýsti því yfir að hann væri eigandi hlutabréfsins og að það væri glatað og farið fram á að fyrirtækið gæfi út nýtt hlutabréf í þess stað.

Ákærði hefur borið fyrir sig gáleysi en hann hafi ekki munað eftir sölu hlutarins til Verðbréfastofunnar þegar hann óskaði eftir ógildingu hlutabréfsins og því verið í góðri trú. Hann hafi því ekki vísvitandi blekkt deCODE til að ógilda bréfið. Í yfirlýsingu sinni 17. apríl 2000 upplýsti ákærði deCODE um að hann ætti umrætt hlutabréf og að hann hefði glatað því en hvort tveggja var rangt. Með hinum röngu fullyrðingum fékk ákærði fyrirtækið til þess að ógilda bréfið og gefa út nýtt í staðinn. Framburður ákærða um gleymsku sína varðandi sölu á hlutnum til Verbréfastofunnar þykir ekki trúlegur enda um að ræða viðskipti með mikil verðmæti sem höndlað var með á stuttu tímabili. Með vísan til gagna málsins verður að telja sannað að ákærði hafi með refsiverðum hætti blekkt fyrirtækið deCODE til að ógilda hlutabréfið og gefa út nýtt bréf á grundvelli rangra upplýsinga frá ákærða. Þegar litið er til framanritaðs þykir hafið yfir vafa að ákærði hafi gerst sekur um fjársvik skv. 248. gr. almennra hegningarlaga eins og honum er gefið að sök í ákæru. Verður hann því sakfelldur eins og krafist er.

 

Bótakrafa.

Íslensk erfðagreining ehf. gerir kröfu um greiðslu skaðabóta úr hendi ákærða að fjárhæð 2.236.635 krónur með dráttarvöxtum skv. 9. gr. sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 6. desember 2001 til greiðsludags. Skaðabótakröfu sína byggir fyrirtækið á því að það hafi greitt Íslandsbanka hf. framangreinda fjárhæð 6. desember 2001 vegna fjársvika ákærða og vísar til gagna málsins því til sönnunar.

                Ljóst er af gögnum málsins að Íslensk erfðagreining ehf. hefur orðið fyrir tjóni vegna fjársvikabrots ákærði sem hann er nú sakfelldur fyrir. Nemur tjón fyrirtækisins þeirri fjárhæð sem krafa er gerð um. Ber ákærða að bæta fyrirtækinu tjónið og greiða því 2.236.635 krónur í skaðabætur með dráttarvöxtum eins og nánar er tilgreint í dómsorði.

               

                Refsing.

                Ákærði hefur nokkrum sinnum hlotið dóma vegna umferðarlagabrota sem koma ekki til nánari skoðunar í þessu máli.

                Við ákvörðun refsingar er litið til þess að ákærði sýndi af sér einbeittan brotavilja þegar hann framdi brot sín enda var töluvert fyrir þeim haft og hvergi hvikað við framningu þeirra, sbr. 6. tl. 70. gr. almennra hegningarlaga. Þá hefur ákærði ekki endurgreitt Íslenskri erfðagreiningu ehf. tjón félagsins vegna hins refsiverða verknaðar. Að þessu virtu þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 9 mánuði. Þegar litið er til þess óútskýrða dráttar sem varð á rannsókn málsins frá því málið var kært þann 6. desember 2001 þar til öflun gagna hófst í apríl 2003 og skýrsla tekin af ákærða í september 2003, þykir rétt að fresta framkvæmd sex mánaða af refsingunni og ákveða að hún falli niður að liðnum 2 árum, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

                Ákærði greiði allan sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Sveins Andra Sveinssonar hrl., 225.000 krónur.

                Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Hjalti Pálmason fulltrúi ríkislögreglustjóra.

                Arnfríður Einarsdóttir, settur héraðsdómari, kveður upp dóminn.

 

D ó m s o r ð :

                Ákærði, Viktor Heiðdal Sveinsson, sæti fangelsi í 9 mánuði. Frestað er framkvæmd sex mánaða af refsingunni og fellur hún niður að liðnum 2 árum, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

                Ákærði greiði Íslenskri erfðagreiningu ehf., kt. 691295-3549, 2.236.635 krónur í skaðabætur með dráttarvöxtum skv. 9. gr. sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 11. desember 2003 til greiðsludags.

                Ákærði greiði allan sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Sveins Andra Sveinssonar hrl., 225.000 krónur.

                                                                                Arnfríður Einarsdóttir.