Hæstiréttur íslands
Mál nr. 454/2011
Lykilorð
- Kærumál
- Fjármálafyrirtæki
- Slitameðferð
- Skaðabætur
- Vanreifun
|
|
Föstudaginn 2. september 2011. |
|
Nr. 454/2011. |
Guðmundur Andri Skúlason og Sigrún Hafsteinsdóttir (Björn Þorri Viktorsson hrl.) gegn Frjálsa fjárfestingarbankanum hf. (Hlynur Jónsson hrl.) |
Kærumál. Fjármálafyrirtæki. Slitameðferð. Skaðabætur. Vanreifun.
G og S kærðu úrskurð héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu sem þau lýstu við slit F hf. G og S höfðu eignast félagið S ehf. 7. desember 2007 en það hafði áður tekið lán hjá F hf. til fasteignakaupa. G og S seldu allt hlutafé sitt í félaginu með samningi 16. maí 2008. Í dómi Hæstaréttar sagði m.a. að málatilbúnaður G og S yrði ekki skilinn á annan veg en að þau byggðu kröfur sínar á hendur F hf. á því að hann hafi gefið rangar upplýsingar um stöðu veðskuldar í aðdraganda þess að þau seldu allt hlutafé sitt í félaginu sem leitt hafi til þess að söluverð hlutafjárins hafi orðið lægra en ella. Þar sem G og S byggðu á því að þau hefðu orðið fyrir tjóni vegna athafna F ehf. væru þau réttir aðilar að málinu og yrði kröfu þeirra því ekki hafnað á grundvelli aðildarskorts. Þau hefðu á hinn bóginn engin viðhlítandi rök fært fyrir því að söluverð hlutafjár þeirra í S ehf. hefði orðið hærra sem tiltekinni fjárhæð næmi með því einu að upplýsingar F hf. hefðu orðið á þann veg sem þau teldu réttan eða lagt fram önnur gögn um ætlað tjón sitt af upplýsingagjöf F hf. Þegar af þessum ástæðum staðfesti Hæstiréttur niðurstöðu hins kærða úrskurðar.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Greta Baldursdóttir.
Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 19. júlí 2011, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 26. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 7. júlí 2011, þar sem hafnað var kröfu sem sóknaraðilar lýstu við slit varnaraðila. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðilar krefjast þess að viðurkennd verði almenn krafa þeirra aðallega að fjárhæð 39.240.062 krónur, en til vara 32.765.268 krónur. Að því frágengnu krefjast þau að viðurkennd verði almenn krafa með annarri lægri fjárhæð. Þá krefjast þau málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst aðallega staðfestingar hins kærða úrskurðar en til vara að krafa sóknaraðila verði lækkuð. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Sóknaraðilar eignuðust félagið Sandhól ehf. 7. desember 2007 en áður hafði félagið tekið lán hjá varnaraðila til kaupa á fasteign að Laugavegi 51 í Reykjavík með skuldabréfi að upphaflegri fjárhæð 80.000.000 krónur. Sóknaraðilar seldu allt hlutafé sitt í félaginu með samningi, sem mun hafa verið gerður 16. maí 2008, en í kauptilboði sem samningurinn var reistur á var skuldin talin nema um 113.000.000 krónum 29. apríl sama ár.
Málatilbúnaður sóknaraðila fyrir héraðsdómi verður ekki skilinn á annan veg en að þau byggi kröfu sína á hendur varnaraðila á því að hann hafi gefið rangar upplýsingar um stöðu umræddrar veðskuldar í aðdraganda þess að þau seldu allt hlutafé sitt í Sandhóli ehf. Þetta hafi leitt til þess að söluverð hlutafjárins hafi orðið lægra en ella hefði orðið og þar með hafi þau orðið fyrir tjóni sem varnaraðili beri ábyrgð á. Með því að sóknaraðilar byggja kröfu sína á því að þau hafi orðið fyrir tjóni vegna athafna varnaraðila eru þau réttir aðilar að málinu og verður kröfu þeirra því ekki hafnað á grundvelli aðildarskorts.
Í málinu hafa sóknaraðilar lagt fram útreikning á aðalkröfu sinni og varakröfu, en í þeirri fyrrnefndu er miðað við að varnaraðili hafi ofreiknað fjárhæð skuldar Sandhóls ehf. við sig um 32.636.592 krónur og í varakröfu um 27.251.401 krónu. Sóknaraðilar hafa á hinn bóginn engin viðhlítandi rök fært fyrir því að söluverð hlutafjár þeirra í Sandhóli ehf. hefði orðið hærra sem þessu nemur með því einu að upplýsingar varnaraðila hefðu orðið á þann veg sem þau telja réttan. Sóknaraðilar hafa heldur ekki lagt fram önnur gögn um ætlað tjón sitt af upplýsingagjöf varnaraðila. Að því verður einnig að gæta að í tilboði um kaup á hlutafénu sem lá til grundvallar áðurnefndum samningi 16. maí 2008 var sérstaklega tekið fram að breytingar á stöðu skuldarinnar við varnaraðila til hækkunar eða lækkunar frá viðmiðunarfjárhæð hefðu engin áhrif á verð það sem kaupandi myndi greiða fyrir hlutaféð í Sandhóli ehf. Þegar af þessum ástæðum verður niðurstaða hins kærða úrskurðar staðfest.
Sóknaraðilum verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðilar, Guðmundur Andri Skúlason og Sigrún Hafsteinsdóttir, greiði í sameiningu varnaraðila, Frjálsa fjárfestingarbankanum hf., 250.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 7. júlí 2011.
Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar 21. júní sl., var þingfest 3. febrúar 2010.
Sóknaraðilar eru Guðmundur Andri Skúlason og Sigrún Hafsteinsdóttir, Ásakór 12, Kópavogi.
Varnaraðili er Frjálsi fjárfestingarbankinn hf., Reykjavík.
Endanleg kröfugerð sóknaraðila er að héraðsdómur staðfesti lögmæti kröfu þeirra á hendur varnaraðila, bæði um efni og rétthæð sem almennrar kröfu og leggi fyrir slitastjórn að samþykkja hana að fjárhæð 32.636.592 krónur. Þá er krafist vaxta að fjárhæð 6.603.470 krónur, miðað við aðalkröfu í málinu. Sóknaraðilar krefjast þess til vara að krafan verði samþykkt að höfuðstól 27.251.401 króna. Þá krefjast þeir vaxta að fjárhæð 5.513.867 krónur.
Sóknaraðilar krefjast málskostnaðar að mati dómsins.
Varnaraðili krefst þess aðallega að öllum kröfum sóknaraðila verði hafnað, en til vara er þess krafist að kröfur sóknaraðila verði lækkaðar.
Í báðum tilvikum er þess krafist að sóknaraðilum verði gert að greiða varnaraðila málskostnað að mati dómsins.
Málsatvik
Félagið Sandhóll ehf. tók lán hjá varnaraðila 1. nóvember 2007. Um var að ræða lán vegna kaupa félagsins á fasteign að Laugavegi 51, Reykjavík. Lánið var í erlendri mynt, 40% lánsfjárhæðar var í svissneskum frönkum og 60% lánsins í japönskum jenum, samsvarandi 80.000.000 íslenskra króna. Undir veðskuldabréfið ritar Skúli Hákonarson fyrir hönd skuldara, Sandhóls ehf.
Hinn 7. nóvember 2007 var lánið greitt út í erlendri mynt, þ.e. 60.636, 15 svissneskum frönkum og 93.133,482 japönskum jenum að frádregnum gjöldum og kostnaði. Sama dag var hin erlenda mynt seld fyrir Sandhól ehf. og voru félaginu greiddar út íslenskar krónur, þ.e. jafnvirði hinnar erlendu myntar þann dag, þ.e. 7. nóvember 2007.
Sóknaraðilar eignuðust félagið Sandhól ehf., 7. desember 2007, en með kaupsamningi, dagsettum 16. maí 2008 seldu þeir Sverri Einari Eiríkssyni allt hlutafé í Sandhóli ehf. Í kaupsamningnum voru eignir félagsins, þrír matshlutar í Laugavegi 51, tilgreindir. Í samþykktu kauptilboði um fasteign félagsins voru áhvílandi veðskuldir í nafni félagsins yfirteknar af kaupanda, Sverri Einari.
Þar segir eftirfarandi: ,,Breytingar á stöðu láns til lækkunar eða hækkunar frá viðmiðunarfjárhæð sbr. greiðslutilhögun A, hefur engin áhrif á verð það sem kaupandi greiðir fyrir allt hlutafé Sandhóls ehf.“ Í greiðslutilhögun A er staða erlends láns félagsins tilgreind 113.000.000 króna, miðað við 29. apríl 2008, en það er lánið sem mál þetta lýtur að. Kaupverð skyldi að öðru leyti greiðast með 2.000.000 króna greiðslu, þar af skyldi 1.000.000 króna greiðast við undirritun kaupsamnings.
Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur frá 23. júní 2009 var varnaraðila skipuð slitastjórn samkvæmt 101. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Innköllun vegna slitanna birtist fyrra sinni í Lögbirtingablaðinu 22. júlí 2009 og rann kröfulýsingarfrestur út 22. október 2009. Sóknaraðilar þessa máls lýstu almennri kröfu samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 að fjárhæð 41.808.084 krónur. Slitastjórn hafnaði kröfunni og mótmæltu sóknaraðilar þeirri afstöðu. Var ágreiningi um viðurkenningu kröfunnar vísað til dómsins með bréfi 18. desember 2009.
Ágreiningur málsins snýst um aðild sóknaraðila að máli þessu, en ekki er lengur ágreiningur um ólögmæti gengistryggingar lánsins og hefur varnaraðili fallið frá málsástæðum er fram koma í köflum III D, III E og III F í greinargerð hans að því leyti sem málsástæður þær varða að umrætt lán hafi verið í erlendri mynt og að gengistrygging láns í íslenskum krónum sé lögmæt. Þá er ágreiningur um bótagrundvöll skaðabótakröfu sóknaraðila, hvort meint tjón sé sannað og um skýrleika kröfugerðar sóknaraðila.
Sóknaraðilar halda enn fast við þær málsástæður sem fram koma í greinargerð þeirra um að lánið sé í erlendri mynt.
Málsástæður og lagarök sóknaraðila
Sóknaraðilar kveða að krafa þeirra sé byggð á veðskuldabréfi nr. 716012 sem einkahlutafélag ,,í eigu kröfueigenda gerði við varnaraðila, Frjálsa Fjárfestingarbankann“, hinn 1. nóvember 2007. Komið hafi í ljós að varnaraðili hafi reiknað höfuðstól skuldarinnar ranglega og ekki í samræmi við skilmála téðs veðskuldabréfs, þegar beðið hafi verið um uppreiknaða stöðu lánsins í tengslum við sölu kröfueigenda á hlutafélaginu Sandhóli ehf. Sandhóll ehf. sé útgefandi téðs veðskuldabréfs.
Þannig telji kröfueigendur varnaraðila hafa ranglega gefið upp eftirstöðvar téðs veðskuldabréfs sem nemi jafnvirði höfuðstóls kröfunnar og því hafi verðmæti Sandhóls ehf. verið lægra sem því nemi við sölu á félaginu, enda hafi verðmat byggt á samspili eigna og skulda félagsins eins og það hafi verið lagt fram við undirritun kaupsamnings. Telji kröfueigendur að bankanum hafi verið óheimilt að hækka höfuðstól lánsins í íslenskum krónum talið, enda sé skýrt tilgreint í samningnum sjálfum að útgefandi/skuldari skuldi bankanum jafnvirði tilgreindrar íslenskra króna. Hið erlenda gengisviðmið hljóti því að verða til þess að útgefandi/skuldari bréfsins skuldi bankanum lægri fjárhæð hinna erlendu mynta, enda sé í lánasamningi og greiðsluáætlun sem undirrituð hafi verið samfara lántökunni, ekki gert ráð fyrir að íslenska jafnvirðisfjárhæðin tæki breytingum á lánstíma. Leiði þessi skilningur til þess að kröfueigandi eigi kröfu á endurgreiðslu sem að ofan sé rakið.
Í skilmálum veðskuldabréfsins sé skýrt hver höfuðstóll lánsins sé og hvernig beri að endurgreiða lánveitanda höfuðstólinn. Hann sé skilgreindur sem erlend mynt og skýrt sé að sú erlenda mynt sé að jafnvirði 80.000.000 íslenskra króna. Í 2. gr. skuldabréfsins sé síðan skýrt kveðið á um hvernig bankinn reikni höfuðstól lánsins á hverjum gjalddaga. Höfuðstóllinn taki breytingum í samræmi við sölugengi hverrar myntar. Lánið sé þannig bundið sölugengi Seðlabanka Íslands, þ.e. bundið dagsgengi íslensku krónunnar. Þar sem höfuðstóllinn sé tilgreindur að jafnvirði tiltekinnar íslenskrar krónutölu en ekki sem tiltekin fjárhæð erlendra mynta, beri bankanum að haga endurkröfum sínum í samræmi við það og krefjast endurgreiðslu á jafnvirði hinnar íslensku tilteknu krónutölu, en ekki jafnvirði upphaflegrar fjárhæðar í erlendum myntum.
Sóknaraðilar telja að bankanum hafi verið óheimilt að hækka höfuðstól lánsins í íslenskum krónum talið, enda sé skýrt tilgreint í samningnum sjálfum að kröfueigandi skuldi bankanum ,,jafnvirði“ ofangreindrar fjárhæðar í íslenskum krónum.
Jafnvel þótt umræddur lánasamningur teljist ekki erlent lán að jafnvirði tilgreindrar fjárhæðar í íslenskum krónum í skilningi ofangreindrar túlkunar, telur sóknaraðili að lánasamningurinn sé lán í íslenskum krónum samkvæmt ákvæðum laga nr. 38/2001 og því hafi verið óheimilt að gengistryggja hann, sbr. 13. og 14. gr. laganna. Umrædd ákvæði séu ófrávíkjanleg samkvæmt 2. gr. laganna. Lánasamningurinn sé því í raun óverðtryggður og því hafi allar greiðslur til varnaraðila sem byggðust á óheimilum uppreikningi lánsins á grundvelli ólögmætrar gengistryggingar verið ranglega af honum hafðar, sbr. ákvæði 18. gr. laganna. Samkvæmt ákvæðinu beri að endurgreiða kröfueiganda, þ.e. sóknaraðilum þá upphæð sem bankinn hafi ranglega haft af þeim, ásamt vöxtum samkvæmt 4. gr. laganna.
Með setningu laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu hafi eldri vaxtalög verið leyst af hólmi. Í VI. kafla laganna segi í 13. gr. að ákvæði laganna varði sparifé og lánsfé í íslenskum krónum. Í 1. mgr. 14. gr. laganna segi að heimilt sé að verðtryggja sparifé og lánsfé samkvæmt 13. gr. sé grundvöllur slíkrar verðtryggingar vísitala neysluverðs sem Hagstofa Íslands reikni samkvæmt lögum sem um vísitöluna gildi. Þá komi fram í 2. mgr. 14. gr. laganna að heimilt sé að miða við hlutabréfavísitölu, innlenda sem erlenda, eða safn slíkra vísitala. Heimilt sé samkvæmt lögunum að verðtryggja sparifé og lánsfé með vísitölu neysluverðs, hlutabréfavísitölu eða safni slíkra vísitalna. Sé um tæmandi talningu að ræða og aðrir möguleikar til verðtryggingar séu ekki heimilir.
Um viðskipti aðila gildi ákvæði laga nr. 121/1994 um neytendalán. Samkvæmt þeim lögum skuli lánssamningur vera skriflegur og fela í sér ákveðnar upplýsingar samkvæmt 5. og 6. gr. laganna. Þannig skuli koma fram höfuðstóll fjárhæðarinnar, vextir, heildarupphæð sem greiða skal, fjöldi einstakra greiðslna, fjárhæð þeirra og gjalddagi. Í framangreindum lánssamningi komi einungis fram höfuðstólsfjárhæð samningsins, tilgreind í íslenskum krónum. Þá séu mánaðarlegar greiðslur einnig tilteknar í íslenskum krónum í greiðsluáætlun lánsins. Þannig séu allar upphæðir sem samningurinn grundvallist af, tilteknar í íslenskum krónum. Lánið sé greitt út til sóknaraðila í íslenskum krónum. Ljóst sé að lánssamningurinn sé gerður í íslenskum krónum og hann sé verðtryggður með ólögmætum hætti, með vísan til dagsgengis erlendra gjaldmiðla.
Sóknaraðilar vísa einnig til ákvæða laga nr. 7/1936, einkum 36. gr. laganna og telji þau að þau ákvæði eigi við um ágreining aðila. Allan vafa um það hvort samningurinn sé gerður í erlendri mynt sem endurspegla skuli jafnvirði tiltekinnar íslenskrar myntar, sem jafnvirði tilgreindrar erlendrar myntar, verði að túlka neytanda í hag.
Þá hafna sóknaraðilar því að um aðildarskort þeirra sé að ræða, enda sé kröfunni lýst sem skaðabótakröfu, eins og ráða megi af kröfulýsingu. Sóknaraðilar eigi lögvarða kröfu á hendur varnaraðila, enda liggi allt tjón sem hlotist hafi af hinum ranga og ólögmæta útreikningi varnaraðila á eftirstöðvum veðskuldabréfsins hjá þeim. Verðmæti Sandhóls ehf. sem einungis hafi átt þá eign, sem fram komi í kaupsamningi, hafi ráðist af því eigin fé sem félagið átti í umræddri fasteign. Samningurinn hafi verið gerður á þeirri forsendu að útreikningar varnaraðila væru réttir og hafi þeir verið ákvarðandi um verðmæti félagsins. Vegna framangreinds séu sóknaraðilar réttir aðilar að kröfunni, enda sé það ekki lengur í þeirra valdi að bera fram kröfur f.h. Sandhóls ehf. Núverandi eigandi þess félags hafi ekki orðið fyrir neinu tjóni vegna þessa útreiknings, enda hafi verðmat félagsins byggst á þeim útreikningi.
Málsástæður og lagarök varnaraðila
Varnaraðili mótmælir því að sóknaraðilar eigi persónulega skaðabótakröfu eða annars konar kröfu á hendur varnaraðila og beri því að hafna kröfum þeirra vegna aðildarskorts, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Í málatilbúnaði sóknaraðila sé þess ekki getið hvort byggt sé á skaðabótareglum innan eða utan samninga, sem geri varnaraðila erfitt um vik að átta sig á málsgrundvellinum. Það liggi þó fyrir að sóknaraðilar hafi selt Sandhól ehf., á árinu 2008 og hafi afskiptum þeirra af því félagi lokið á árinu 2008. Umrætt félag sé skuldari að veðskuldabréfi nr. 716012, sem mál þetta lýtur að, og hafi engin skuldskeyting farið fram.
Í kauptilboði Sverris Einars Sverrissonar til sóknaraðila frá 8. maí 2008, segi um lánið: ,,Kaupandi yfirtekur áhvílandi veðskuldir í nafni félagsins á téðri eign. Breytingar á stöðu lánsins til lækkunar eða hækkunar frá viðmiðunarupphæð [ ] hefur engin áhrif á verð það sem kaupandi greiði fyrir allt hlutafé Sandhóls“.
Í kaupsamningi sóknaraðila og framangreinds Sverris Einars segi í grein 3.1.1. að ,,Kaupandi [hafi] kynnt sér ársreikning félagsins, skuldir og vanskil og eru þær hér eftir seljendum óviðkomandi þar með [talin] veðskuld og vanskil við Frjálsa Fjárfestingarbankann“.
Því telji varnaraðili einsýnt að allar kröfur sem tengist tilvísuðu veðskuldabréfi með einhverjum hætti séu á forræði félagsins Sandhóls ehf., en ekki sóknaraðila persónulega. Því sé uppi aðildarskortur sem leiði til þess að hafna beri kröfum þeirra.
Verði kröfum sóknaraðila ekki hafnað vegna aðildarskorts, byggir varnaraðili á því að bótagrundvöllur sé ósannaður. Alla umfjöllun um meinta skaðabótakröfu skorti í málatilbúnaði sóknaraðila, s.s. um meintan bótagrundvöll, hina meintu bótaskyldu háttsemi, meintan ásetning eða gáleysi, orsakatengsl, sönnun tjóns og önnur þau atriði sem nauðsynlegt sé að fjalla um þegar skaðabótakrafa sé sett fram. Í samræmi við almennar reglur í skaðabótamálum verði að geta þess í hverju hin meinta bótaskylda háttsemi sé fólgin og hvernig hún leiði til þess að bótakrefjendur eigi annars vegar rétt á bótum og hins vegar hverrar fjárhæðar. Eins og málið sé sett fram telji varnaraðili að sóknaraðilar hafi þurft að fjalla sérstaklega um orsakatengsl og sennilega afleiðingu í málatilbúnaði sínum. Þar sem alla umfjöllun um framangreind atriði skorti beri að hafna kröfum sóknaraðila.
Þá telur varnaraðili meint tjón vera ósannað. Þannig virðist sem sóknaraðilar telji sig persónulega hafa orðið fyrir tjóni sem nemi mismun á ,,upphaflegum höfuðstól“ veðskuldabréfsins og ,,útreiknuðum“ höfuðstól þess á ótilgreindum tímapunkti. Alla umfjöllun skorti í málatilbúnaði sóknaraðila fyrir því hvernig þau telji sig persónulega hafa orðið fyrir meintu tjóni sem nemi þeirri fjárhæð sem þau krefjist. Þá geri þau sameiginlega og óskipta skaðabótakröfu án allrar sundurliðunar eða umfjöllunar um hvert meint tjón hvors þeirra fyrir sig sé. Ekkert liggi fyrir um eignarhald á félaginu Sandhóli ehf., eignarhlut hvors sóknaraðila fyrir sig, fjárhagslega stöðu þess eða stöðu að öðru leyti. Þá sé með öllu ósannað í málinu að staða lána félagsins hjá varnaraðila hafi ráðið kaupverði félagsins. Varnaraðili mótmæli því sérstaklega staðhæfingu sóknaraðila þess efnis að verðmat félagsins Sandhóls ehf. hafi byggt ,,á samspili eigna og skulda félagsins eins og þar var lagt fram við undirritun kaupsamnings“ sem ósönnuðum og málinu óviðkomandi, enda geti lögskipti sóknaraðila og Sverris Einars, kaupanda Sandhóls ehf., í engu tilviki orðið grundvöllur fyrir skaðabótakröfu á hendur varnaraðila sem ekki hafi verið aðili að samningunum.
Þá bendir varnaraðili á að kröfufjárhæð eigi sér ekki stoð í þeim gögnum sem lögð hafi verið fram í málinu af hálfu sóknaraðila. Höfuðstóll kröfu sóknaraðila sé byggður á mismun annars vegar á því sem nefnt sé ,,upphaflegur höfuðstóll“ og hins vegar ,,útreiknaðs höfuðstóls F.fb. við uppgjör“. Ljóst sé að sú fjárhæð sem nefnd er ,,upphaflegur höfuðstóll“ hafi ekki verið að fullu greidd til félagsins Sandhóls ehf., enda hafi stimpilgjöld og lántökugjald komið til frádráttar. Sú fjárhæð sem nefnd er ,,útreiknaður höfuðstóll F.fb. við uppgjör“ eigi sér ekki stoð í gögnum málsins og sé varnaraðila ómögulegt að átta sig á því hvernig fjárhæðin sé til fundin. Varnaraðila sé ekki kunnugt um hvaða ,,uppgjörs“ sé vísað til. Svonefnd vaxtakrafa sóknaraðila sé ósundurliðuð og hvorki studd lagatilvísunum né við vaxtafót. Upphafsdags vaxtaútreiknings sé ekki getið eða hvort um samnings- skaðabóta- eða dráttarvaxtakröfu sé að ræða. Kröfu sóknaraðila vegna kostnaðar við lögmannsaðstoð við gerð kröfulýsingar sé einnig mótmælt, enda sé krafan ósönnuð, auk þess sem hún falli ekki í flokk almennra krafna, sbr. 113. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 1. tl. 114. gr. sömu laga.
Varnaraðili hafnar því sem röngu og ósönnuðu í málinu að varnaraðili hafi veitt ,,rangar upplýsingar“ um eftirstöðvar veðskuldabréfs ,,í tengslum“ við sölu á einkahlutafélaginu Sandhól ehf. á árinu 2008. Varnaraðili telji þvert á móti að staða lánsins á hverjum tíma hafi verið reiknuð í samræmi við skilmála veðskuldabréfsins. Vísað er til þess að sönnunarbyrðin hvíli alfarið á sóknaraðilum í málinu um þetta atriði. Þar sem sóknaraðilar hafi ekki fært sönnur á kröfur sínar, bótagrundvöll eða önnur skilyrði skaðabótaskyldu, beri að hafna kröfum þeirra.
Varnaraðili féll frá málsástæðum er fram koma í köflum III D, III E og III F í greinargerð hans að því leyti sem málsástæður þær varða að umrætt lán hafi verið í erlendri mynt og að gengistrygging láns í íslenskum krónum sé lögmæt.
Varnaraðili byggir varakröfu sína um lækkun kröfu sóknaraðila á því að kröfufjárhæð sé ósundurliðuð og óljós. Útreikningur höfuðstóls kröfunnar fái vart staðist og fái ekki stoð í framlögðum gögnum. Vaxtakrafa sé með öllu óljós um flest atriði, þ.m.t vaxtafót, upphafsdag vaxta, útreikning og önnur atriði. Kröfum varnaraðila vegna kostnaðar lögmanns er hafnað sem almennri kröfu, þar sem lagaskilyrði samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/ 1991 séu ekki fyrir hendi.
Fallist dómurinn á sjónarmið sóknaraðila, muni þeir auðgast með ólögmætum og ósanngjörnum hætti, enda hafi lán með þeim vaxtakjörum sem umrætt skuldabréf beri, án verð- og gengistryggingar, ekki verið í boði á þeim tíma er lánið var tekið.
Þá bendir varnaraðili á að hinn raunverulegi kröfuhafi sé skuldari lánsins, þ.e. Sandhóll ehf., en ekki sóknaraðilar. Því gæti dómsniðurstaða sóknaraðilum í vil, leitt til þess að varnaraðila væri gert að tvíbæta tjónið. Slík niðurstaða fari í bága við meginreglur skaðabótaréttar og ætti því að leiða til lækkunar á kröfu sóknaraðila.
Niðurstaða
Sóknaraðilar kveða kröfu sína á hendur varnaraðila vera skaðabótakröfu, grundvallaða á því að varnaraðili hafi ranglega reiknað út eftirstöðvar veðskuldabréfs nr. 716012, sem dagsett er 1. nóvember 2007, við sölu sóknaraðila á einkahlutafélaginu Sandhóli ehf. í maí 2008. Því hafi fengist lægra verð fyrir félagið sem nam fjárhæð hins ranga útreiknings eftirstöðva skuldabréfsins. Málatilbúnaður sóknaraðila er reistur á því að þau eigi persónulega skaðabótakröfu á hendur varnaraðila vegna þessa.
Sóknaraðilar eignuðust einkahlutafélagið Sandhól ehf., 7. desember 2007, en með kaupsamningi dagsettum 16. maí 2008 seldu þau Sverri Einari Eiríkssyni allt hlutafé í Sandhóli ehf. Óumdeilt er að einkahlutafélagið Sandhóll ehf. er skuldari veðskuldabréfsins nr. 716012, sem sóknaraðilar byggja kröfu sína á. Í kaupsamningi um einkahlutafélagið kemur fram í grein 3.1.1 að veðskuld og vanskil við Frjálsa Fjárfestingarbankann hf. séu ,,hér eftir seljendum óviðkomandi“. Kröfuframsal hefur ekki farið fram og hafa því sóknaraðilar ekkert forræði fyrir meintum kröfum Sandhóls ehf., á grundvelli framangreinds skuldabréfs og ætlaðs rangs útreiknings varnaraðila á eftirstöðvum skuldabréfsins. Verður því kröfum sóknaraðila þegar af þessari ástæðu hafnað vegna aðildarskorts, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 verða sóknaraðilar dæmdir til að greiða varnaraðila málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn 250.000 krónur.
Af hálfu sóknaraðila flutti málið Björn Þorri Viktorsson hæstaréttarlögmaður.
Af hálfu varnaraðila flutti málið Bjarki Már Baxter héraðsdómslögmaður.
Ingveldur Einarsdóttir héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð.
Ú r s k u r ð a r o r ð:
Kröfu sóknaraðila, Guðmundar Andra Skúlasonar og Sigrúnar Hafsteinsdóttur á hendur varnaraðila, Frjálsa fjárfestingarbankanum hf., er hafnað.
Sóknaraðilar greiði varnaraðila óskipt 250.000 krónur í málskostnað.