Hæstiréttur íslands

Mál nr. 743/2013


Lykilorð

  • Kærumál
  • Frestur


Miðvikudaginn 4. desember 2013.

Nr. 743/2013.

Frjálsi hf.

(Bjarki Már Baxter hdl.)

gegn

Miðstöðinni ehf., eignarhaldsfélagi

(Kristinn Brynjólfsson, fyrirsvarsmaður)

Kristni Brynjólfssyni og

(sjálfur)

Guðmundu Guðjónsdóttur

(Björgvin Þorteinsson hrl.)

Kærumál. Frestur.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem aðalmeðferð í máli F hf. gegn M ehf., K og og G var frestað með vísan til lögmætra forfalla K, sbr. a. lið 1. mgr. 97. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Eiríkur Tómasson og Helgi I. Jónsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 20. nóvember 2013 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 26. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 15. nóvember 2013, þar sem aðalmeðferð í máli sóknaraðila gegn varnaraðilum var frestað til 9. desember 2013. Kæruheimild er í h. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess aðallega að lagt verði fyrir héraðsdóm að taka málið til úrskurðar, en til vara til munnlegs málflutnings „tafarlaust og eigi síðar en 6. desember 2013.“ Í báðum tilvikum krefst hann kærumálskostnaðar.

Varnaraðilarnir Kristinn Brynjólfsson og Miðstöðin ehf., eignarhaldsfélag krefjast staðfestingar hins kærða úrskurðar, en varnaraðilinn Guðmunda Guðjónsdóttir  krefst þess að málinu verði vísað frá Hæstarétti. Þá krefjast varnaraðilar kærumálskostnaðar.

Þar sem varnaraðilinn Guðmunda kærði ekki úrskurð héraðsdóms fyrir sitt leyti kemur krafa hennar um vísun málsins frá Hæstarétti ekki til álita.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Kærumálskostnaður fellur niður.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 15. nóvember 2013.

                Mál þetta var þingfest 10. maí 2013.

                Sóknaraðili er Frjálsi hf., Lágmúla 6, Reykjavík.

                Varnaraðilar eru Miðstöðin ehf., eignarhaldsfélag, Kristinn Brynjólfsson og Guðmunda Guðjónsdóttir, öll til heimilis að Lágabergi 1, Reykjavík.

                Sóknaraðili krefst í máli þessu dómsúrskurðar um að varnaraðilar verði, ásamt öllu því er þeim tilheyri, bornir út úr íbúðarhúsnæði að Lágabergi 1, fastanúmer 205-1329, með beinni aðfarargerð og sóknaraðila úrskurðuð umráð eignarinnar. Þá krefst hann málskostnaðar úr hendi varnaraðila.

                Varnaraðilar krefjast þess aðallega að öllum kröfum sóknaraðila verði hafnað. Til vara var gerð sú krafa að málinu yrði frestað á grundvelli 3. mgr. 102. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála þar til rannsókn sérstaks saksóknara á kæru á hendur stjórnarformanni og framkvæmdastjóra sóknaraðila um auðgunarbrot er lokið. Þá krefjast varnaraðilar málskostnaðar úr hendi sóknaraðila að viðbættum virðisaukaskatti. Varnaraðilinn Guðmunda Guðjónsdóttir gerir einnig þá þrautavarakröfu að verði fallist á kröfu sóknaraðila verði kveðið á um það að málskot úrskurðarins fresti framkvæmd hans þar til dómur æðra dóms liggi fyrir, sbr. 84. gr. laga nr. 90/1989 um aðför.

                Málið var tekið til úrskurðar að kröfu sóknaraðila vegna frestunar aðalmeðferðar málsins í kjölfar forfalla varnaraðila, Kristins Brynjólfssonar.

                Með úrskurði dómsins 3. október sl. var þeirri kröfu varnaraðila hafnað að málinu yrði frestað þar til til rannsókn sérstaks saksóknara á kæru á hendur stjórnarformanni og framkvæmdastjóra sóknaraðila um auðgunarbrot væri lokið. Var ekki sótt þing af hálfu varnaraðila við uppkvaðningu úrskurðarins. Þar sem forföll voru boðuð af hálfu varnaraðila, Guðmundu, en móttaka á boðun til þinghaldsins hafði ekki verið staðfest af hálfu annarra varnaraðila var boðað til nýs þinghalds 9. október sl. Var þar ákveðið að aðalmeðferð málsins skyldi fara fram 29. október sl. Þann dag boðaði varnaraðili, Kristinn, forföll vegna veikinda og var aðalmeðferðinni þá frestað til 8. nóvember sl. Þann 4. nóvember barst dóminum tilkynning frá varnaraðilanum um að hann hafi verið frá vinnu vegna veikinda og væri enn. Meðfylgjandi var læknisvottorð, dags., 1. nóvember sl., en samkvæmt því á varnaraðilinn við veikindi að stríða sem stendur. Líklegt sé að hann nái heilsu á næstu fjórum til fimm vikum. Hann geti því ekki mætt í héraðsdóm næstu fjórar til fimm vikurnar.

                Á grundvelli framangreindrar tilkynningar varnaraðila, Kristins, frestaði dómari málinu og hefur boðað til nýrrar aðalmeðferðar í málinu 9. desember nk., sbr. 3. mgr. 97. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 1. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989 um aðför.

                Sóknaraðili hefur andmælt því að aðalmeðferð málsins verði frestað á þeim grundvelli að læknisvottorð varnaraðila, Kristins, sé ófullnægjandi og óstaðfest, og hefur hann krafist úrskurðar.

                Með vísan til framlagðs læknisvottorðs varnaraðila, Kristins, verður talið að hann hafi lögmæt forföll, sbr. a-lið 1. mgr. 97. gr. laga nr. 91/1991. Verður aðalmeðferð málsins frestað til mánudagsins 9. desember nk. kl. 9:15 í dómsal 401.

                Úrskurð þennan kveður upp Barbara Björnsdóttir héraðsdómari.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

                Aðalmeðferð máls þessa er frestað til 9. desember nk.