Hæstiréttur íslands
Mál nr. 522/2002
Lykilorð
- Kærumál
- Upplýsingaskylda
- Fjarskipti
|
|
Mánudaginn 2. desember 2002. |
|
Nr. 522/2002. |
Lögreglustjórinn í Reykjavík(Egill Stephensen saksóknari) gegn Tali hf. (Ragnar Aðalsteinsson hrl.) |
Kærumál. Upplýsingaskylda. Fjarskipti.
Lögreglu var heimilað að hlusta á og hljóðrita samtöl úr og í símtæki, sem nánar tilgreind símanúmer hafa verið og verða notuð í á nánar tilgreindu tímabili, en jafnframt önnur símanúmer, sem hafa verið og verða notuð í símtækjunum á sama tímabili, sem og að nema og afrita svonefndar SMS-sendingar, sem eru sendar og mótteknar með þessum númerum og símtækjum á sama tímabili.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Gunnlaugur Claessen og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 19. nóvember 2002, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 22. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 8. nóvember 2002, þar sem sóknaraðila var heimilað að hlusta og hljóðrita samtöl úr og í símtæki, sem [...] nánar tilgreind símanúmer hafa verið og verða notuð í á tímabilinu frá 1. september 2002 til og með 8. desember sama árs, en jafnframt önnur símanúmer, sem hafa verið og verða notuð í símtækjunum á sama tímabili, sem og að nema og afrita svonefndar SMS-sendingar, sem eru sendar og mótteknar með þessum númerum og símtækjum á sama tímabili. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og sér dæmdur kærumálskostnaður.
Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur
Eins og nánar greinir í hinum kærða úrskurði rannsakar sóknaraðili nú ætlaðan innflutning á miklu magni af fíkniefnum hingað til lands. Telji hann að sá, sem standi að innflutningi efnanna, sé notandi þeirra símanúmera, sem eru tilgreind í kröfu hans. Í málatilbúnaði sóknaraðila er meðal annars vísað til þess að ætluð brot hafi lengi verið í undirbúningi. Að því virtu má fallast á að rétt sé að verða við kröfu hans að því er varðar lengd þess tímabils, sem hann krefst upplýsinga um. Með þessari athugasemd verður hinn kærði úrskurður staðfestur með vísan til forsendna hans.
Kærumálskostnaður dæmist ekki.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 8. nóvember 2002.
Lögreglustjórinn í Reykjavík hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði, að ávana- og fíkniefnadeild lögreglunnar í Reykjavík (áfd) sé heimilt að hlusta og hljóðrita samtöl úr og í símtæki sem símanúmerin [...], hafa verið og verða notuð í frá og með 1.september 2002 til og með 8. desember 2002, en jafnframt önnur símanúmer sem hafa verið notuð í þeim símtækjum á sama tímabili sem og að nema og afrita sms-sendingar sem sendar eru og mótteknar með téðum númerum og símtækjum á sama tímabili.
[...].
Verið er að rannsaka ætluð brot gegn fíkniefnalöggjöfinni og má ætla að ef þau sönnuðust, þá myndu þau geta varðað allt að 12 ára fangelsi sbr. 173.gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Á grundvelli framlagðra gagna þykir vera rökstuddur grunur um stóran þátt X í stórfelldum innflutningi fíkniefna til Íslands. Samkvæmt því og með vísun í 87. gr. sbr. a-lið 86. gr. laga nr. 19/1991 er fallist á kröfu lögreglustjórans í Reykjavík.
Sigurður H. Stefánsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð:
Ávana- og fíkniefnadeild lögreglunnar í Reykjavík (áfd) er heimilt að hlusta og hljóðrita samtöl úr og í símtæki sem símanúmerin [...], hafa verið og verða notuð í frá og með 1. september 2002 til og með 8. desember 2002, en jafnframt önnur símanúmer sem hafa verið notuð í þeim símtækjum á sama tímabili sem og að nema og afrita sms-sendingar sem sendar eru og mótteknar með téðum númerum og símtækjum á sama tímabili.