Hæstiréttur íslands

Mál nr. 453/1999


Lykilorð

  • Kærumál
  • Nauðungarsala
  • Vanreifun
  • Frávísun frá héraðsdómi


Þriðjudaginn 23

 

Þriðjudaginn 23. nóvember 1999.

Nr. 453/1999.

Baldur Snorrason

Björn Snorrason

Sergejs Kuznecovs

Snorri Snorrason

Valur Smári Þórðarson og

Jurijs Semjonovs

(Einar Gautur Steingrímsson hdl.)

gegn

Kælismiðjunni Frosti hf. og

(Guðjón Ármann Jónsson hrl.)

Héðni-Smiðju hf.

(Lárus L. Blöndal hrl.)

                                              

Kærumál. Nauðungarsala. Vanreifun. Frávísun máls frá héraðsdómi.

B, BS, S, SS, V og J voru skipverjar á skipinu A þegar það var selt nauðungarsölu. Lýstu þeir kröfum í söluverð A um ógreidd laun, en gögn um þær kröfur voru ekki lögð fram í málinu. Mótmæltu þeir frumvarpi sýslumanns um úthlutun og gerðu sömu kröfur og þeir höfðu uppi í málinu. Ákveðið var að frumvarpið skyldi standa óbreytt varðandi skipverjana og lögðu þeir kröfur sínar fyrir héraðsdóm og tóku K og H til varna.  Staðfesti héraðsdómur úthlutun á uppboðsandvirði A. Talið var að H hefði ekki lögvarða hagsmuni af ágreiningi málsins og var kröfu hans hafnað. Talið var að viðhlítandi greinargerð um fjárhæð dómkrafna B, BS, S, SS, V og J skorti og var málinu vísað sjálfkrafa frá héraðsdómi.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.

Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 8. nóvember 1999, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 16. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 28. október 1999, þar sem staðfest var ákvörðun sýslumannsins á Akureyri 2. febrúar 1999 um úthlutun söluverðs Arnarborgar EA 316 til sóknaraðila. Kæruheimild er í 79. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu. Sóknaraðilar krefjast þess að ákvörðun sýslumanns um úthlutun á söluverðinu verði breytt þannig að Baldri Snorrasyni verði úthlutað 1.166.059 krónum, Birni Snorrasyni 801.944 krónum, Sergejs Kuznecovs 1.126.838 krónum, Snorra Snorrasyni 1.359.267 krónum, Vali Smára Þórðarsyni 959.921 krónu og Jurijs Semjonovs 1.467.973 krónum. Þá krefjast þeir málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðilinn Kælismiðjan Frost hf. krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði staðfestur, en til vara að kröfur sóknaraðila verði lækkaðar. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðilinn Héðinn-Smiðja hf. krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur með þeirri breytingu að sóknaraðilar verði dæmdir til að greiða sér málskostnað í héraði. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

I.

Samkvæmt gögnum málsins var skipið Arnarborg EA 316, eign Útgerðarfélagsins Áss ehf., seld nauðungarsölu af sýslumanninum á Akureyri 30. september 1998. Var skipið í Færeyjum þegar uppboð fór fram, en var siglt til Íslands í lok október 1998. Þegar skipið var selt munu sóknaraðilar hafa lýst kröfum í söluverð þess um ógreidd laun, en í málinu liggja ekki fyrir gögn um þær kröfur. Í frumvarpi sýslumanns frá 3. desember 1998 var gert ráð fyrir að sóknaraðilar fengju úthlutun af söluverðinu sem hér segir: Baldur Snorrason 811.711 krónur, Björn Snorrason 547.973 krónur, Sergejs Kuznecovs 753.834 krónur, Snorri Snorrason 623.030 krónur, Valur Smári Þórðarson 887.843 krónur og Jurijs Semjonovs 957.886 krónur. Mótmæltu sóknaraðilar frumvarpinu með bréfum 10. desember 1998 og gerðu þá sömu kröfur og þeir gera nú í málinu. Á fundi sýslumanns um mótmæli við frumvarpið 2. febrúar 1999 var ákveðið að það skyldi óbreytt standa hvað sóknaraðila varðaði. Í framhaldi af því lögðu sóknaraðilar kröfur sínar um breytingar á frumvarpinu fyrir héraðsdóm og tóku varnaraðilar þar til varna gegn kröfunum.

II.

Samkvæmt frumvarpi sýslumanns skipuðu sóknaraðilar 9. til 14. sæti í veðröð við úthlutun á söluverði skipsins. Að baki þeim átti varnaraðilinn Héðinn-Smiðja hf. að vera 18. í röð rétthafa og fá úthlutað 3.713.020 krónum, en varnaraðilinn Kælismiðjan Frost hf. átti að fá eftirstöðvar söluverðs, samtals 17.981.288 krónur, greiddar upp í tvær veðkröfur og skipaði 20. og 21. sæti í veðröð. Á fyrrnefndum fundi sýslumanns 2. febrúar 1999 voru ákveðnar breytingar á frumvarpinu, sem urðu til þess að úthlutun til Kælismiðjunnar Frosts hf. lækkaði í 17.807.960 krónur. Þótt kröfur sóknaraðila yrðu teknar til greina að fullu geta þær samkvæmt þessu í engu breytt úthlutun, sem varnaraðilanum Héðni-Smiðju hf. var ætluð í frumvarpi sýslumanns. Verður því ekki séð að sá varnaraðili hafi lögvarða hagsmuni af ágreiningsefni málsins. Þegar af þeirri ástæðu verður hafnað kröfu hans í málinu. Fellur málskostnaður milli hans og sóknaraðila niður í héraði og fyrir Hæstarétti.

III.

Sem fyrr segir liggja ekki fyrir í málinu gögn um kröfur, sem sóknaraðilar lýstu þegar uppboð var haldið á Arnarborg EA 316. Þegar sóknaraðilar mótmæltu frumvarpi sýslumanns gerðu þeir kröfu um að því yrði breytt í það horf, sem í dómkröfum þeirra er getið. Í bréfum sóknaraðila 10. desember 1998 um þetta efni voru kröfur þeirra sundurliðaðar þannig að fram kom heildarfjárhæð launa fyrir einstaka mánuði á tímabilinu frá júlí 1998 til loka þess tíma, sem einstakir sóknaraðilar töldu sig eiga rétt til launa. Jafnframt var þar greint frá fjárhæð dráttarvaxta, málskostnaðar og kostnaðar af gerð kröfulýsingar og móti við uppboð. Í málinu liggja einnig fyrir sundurliðaðir útreikningar á mánaðarlaunum hvers sóknaraðila fyrir sig, en þeir voru sendir sýslumanninum á Akureyri með bréfi 1. febrúar 1999 í tengslum við fund um mótmæli gegn frumvarpi til úthlutunar á söluverði skipsins. Þeir útreikningar eru ekki í samræmi við dómkröfur sóknaraðila, eins og þær voru skýrðar í fyrrgreindum bréfum þeirra 10. desember 1998. Skortir af þessum sökum viðhlítandi greinargerð um fjárhæð dómkrafna sóknaraðila. Vegna þessarar vanreifunar á málinu verður ekki komist hjá að vísa því sjálfkrafa frá héraðsdómi.

Varnaraðilinn Kælismiðjan Frost hf. hefur ekki kært úrskurð héraðsdómara fyrir sitt leyti. Verður því ekki hreyft við niðurstöðu úrskurðarins um málskostnað. Sóknaraðilum verður gert í sameiningu að greiða þessum varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Máli þessu er vísað frá héraðsdómi.

Málskostnaður í héraði fellur niður.

Sóknaraðilar, Baldur Snorrason, Björn Snorrason, Sergejs Kuznecovs, Snorri Snorrason, Valur Smári Þórðarson og Jurijs Semjonovs greiði í sameiningu varnaraðilanum Kælismiðjunni Frosti hf. 100.000 krónur í kærumálskostnað.

Kærumálskostnaður fellur niður á milli sóknaraðila og varnaraðilans Héðins-Smiðju hf.