Hæstiréttur íslands
Mál nr. 687/2013
Lykilorð
- Börn
- Forsjá
- Umgengni
- Gjafsókn
|
|
Fimmtudaginn 13. febrúar 2014. |
|
Nr. 687/2013.
|
M (Lára V. Júlíusdóttir hrl.) gegn K (Valborg Þ. Snævarr hrl.) |
Börn. Forsjá. Umgengni. Gjafsókn.
M og K deildu um forsjá dóttur þeirra, A. Talið var að það samræmdist best högum stúlkunnar að K færi með forsjá hennar og byggði sú niðurstaða á heilstæðu mati. Hefði A búið alla ævi hjá móður sinni á sama heimilinu og þar byggi einnig bróðir hennar sem hún væri í góðum tengslum við. Einnig gengi A í skóla í hverfinu og ætti leikfélaga þar. Þá var talið að M væri líklegri en K til að hindra eða takmarka umgengni stúlkunnar við það foreldri sem ekki fengi forsjá hennar auk þess sem ólíklegt væri að hann myndi stuðla að því að A kynntist erlendum uppruna sínum. Loks var talið að K væri á ýmsa lund hæfari uppalandi þótt báðir foreldrar teldust hæfir til að ala A upp og hún væri í góðum tengslum við þau bæði.
Dómur Hæstaréttar
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 29. október 2013. Hann krefst þess að sér verði falin forsjá dóttur aðila, A, og að kveðið verði á um umgengi stefndu við stúlkuna. Hann krefst þess einnig að stefndu verði gert að greiða einfalt meðlag með stúlkunni frá dómsuppkvaðningu til 18 ára aldurs hennar. Loks krefst hann þess að málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti verði felldur niður.
Stefnda krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti án tillits til gjafasóknar sem henni hefur verið veitt.
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.
Áfrýjandi greiði málskostnað fyrir Hæstarétti sem renni í ríkissjóð eins og í dómsorði greinir.
Allur gjafsóknarkostnaður stefndu fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, M, greiði 400.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti, er renni í ríkissjóð.
Allur gjafsóknarkostnaður stefndu, K, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar 400.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 16. október 2013.
Mál þetta, sem var dómtekið 18. september sl., er höfðað af M, [...] í [...] á hendur K, [...] í [...], með stefnu birtri 8. nóvember 2012
Dómkröfur stefnanda eru eftirfarandi: Að stefnanda verði einum falin forsjá barnsins A kt. [...] til 18 ára aldurs, að stefndu verði með dómi gert að greiða stefnanda einfalt meðlag með barninu frá dómsuppkvaðningu til 18 ára aldurs og að kveðið verði á um inntak umgengnisréttar stefndu. Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefndu samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi eða til vara að henni verði gert að greiða helming kostnaðar af öflun matsgerðar.
Stefnda krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda. Þá krefst hún þess að samningur aðila frá 27. febrúar 2009 verði úr gildi felldur og stefndu falin forsjá barnsins. Auk þessa gerir stefnda kröfu um að stefnanda verði áfram gert að greiða einfalt meðlag, eins og það ákvarðast af Tryggingastofnun ríkisins hverju sinni, frá dómsuppsögu til 18 ára aldurs hennar.
Helstu málsatvik
Stefnandi og stefnda kynntust sumarið 2000 þegar stefnandi var á ferðalagi í heimabæ stefndu í [...]. Aðilar hófu sambúð sama haust þegar stefnda flutti til Íslands. Þau giftu sig í [...] árið 2001 og eignuðustu dótturina A [...] 2004. Fyrir átti stefnda einn son, B, sem er fæddur árið 1997 og býr hjá móður sinni. Hjónabandi aðila lauk með skilnaði að borði og sæng samkvæmt leyfi útgefnu [...] 2009. Í leyfisbréfinu kemur fram að aðilar hafi orðið ásáttir um fara áfram sameiginlega með forsjá A, hún eigi lögheimili hjá stefndu og stefnandi greiði einfalt meðlag með henni til 18 ára aldurs.
Fljótlega eftir skilnað kom upp ágreiningur um umgengni stefnanda. Að beiðni hans tók sýslumaður ákvörðun um umgengnina með úrskurði kveðnum upp 6. maí 2009. Krafa stefnanda var sú að barnið dveldi jafn mikið hjá báðum foreldrum, viku og viku í senn á hvorum stað, en stefnda vildi umgengni stefnda aðra hverja helgi frá föstudegi til mánudagsmorguns. Niðurstaða sýslumanns var sú að barnið skyldi njóta reglulegrar umgengni við stefnanda aðra hverja helgi frá fimmtudegi til þriðjudagsmorguns auk sumarleyfa og á stórhátíðum sem nánar er lýst í úrskurði sýslumanns. Regluleg umgengni hefur verið í samræmi við framangreindan úrskurð frá því hann var kveðinn upp.
Ágreiningur reis milli aðila um tilhögun sumarleyfis árið 2010 þegar stefnda vildi fara með barnið til [...] í sumarfrí. Lauk þeim ágreiningi með samningi aðila dags. 23. apríl 2010 en með honum veitti stefnandi samþykki sitt fyrir því að stefnda færi með barnið í sumarleyfi til [...] frá 15. júní til 8. júlí það ár enda skuldbindi hún sig til að koma til baka þann 8. júlí. Þá er samþykki stefnanda fyrir því að stefnda fari með barnið til útlanda í sumarleyfum framvegis enda skuldbindi stefnda sig til að koma alltaf til baka. Tekið er fram að samkomulagið feli ekki í sér samþykki fyrir því að barnið flytji úr landi. Stefnda fór með barnið til [...] sumarið 2010 á grundvelli ofangreinds samkomulags. Hún sneri til baka nokkrum dögum seinna en framangreint samkomulag aðila kvað á um. Af þessum sökum álítur stefnandi forsendur samkomulagsins brostnar og hefur ekki fallist á frekari ferðalög dóttur sinnar til útlanda. Vegabréf barnsins er í höndum stefnanda og hefur hann ekki viljað afhenda stefndu það.
Stefnandi kveður barnið hafa kvartað mikið yfir atlæti heima hjá móður sinni veturinn 2011-2012 og meðal annars lýst atvikum í samskiptum við móður sína og kærasta hennar. Stefnandi taldi þau tilvik sem A greindi honum frá vera þess eðlis að rétt væri að tilkynna þau til barnaverndaryfirvalda. Er þar annars vegar um að ræða frásögn stúlkunnar af því að móðir hennar hafi rassskellt hana með inniskó og hins vegar að kærasti mömmu hennar hafi verið með ógnandi framkomu gagnvart henni. Stefnandi óskaði eftir því að rætt yrði við barnið í skólanum vegna þessara atvika. Var það gert. Að mati skólastjóra var ekki talin þörf á að aðhafast frekar í málinu.
A dvaldi hjá föður sínum í sumarleyfi í júní í fyrra. Þegar leyfinu átti að ljúka þann 12. júní kveður stefnandi að barnið hafi ekki viljað fara til móður sinnar vegna ótta. Stefnandi hafði þá samband við starfsfólk Barnaverndar Reykjavíkur og óskaði eftir því að rætt yrði við barnið og reynt að finna út hvers eðlis hræðsla þess væri. Stefnandi ákvað jafnframt að barnið yrði áfram hjá honum þar til viðbrögð Barnaverndar lægju fyrir. Í kjölfar þessa krafðist stefnda þess fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur að barnið yrði afhent sér með aðför og var beiðni þar að lútandi send dóminum 26. júní 2012. Við rekstur þess máls ákvað dómari að fela Þorgeiri Magnússyni sálfræðingi að kanna viðhorf og líðan barnsins og gefa dóminum skýrslu þar að lútandi sbr. 42. og 43. gr. laga nr. 76/2003. Skýrsla hans er dagsett 9. júlí og er meðal gagna máslins. Aðfararmáli þessu lauk með samkomulagi aðila og fór barnið aftur til móður sinnar. Í greinargerð stefndu segir að barnið hafi dvalið hjá föður sínum í um tvo mánuði. Eftir að barnið fór á ný til móður sinnar hefur umgengni stefnanda verið í samræmi við framangreindan úrskurð og gengið að mestu hnökralaust fyrir sig.
Stefnandi sendi beiðni um staðfestingu á breyttri forsjárskipan til Sýslumannsins í Reykjavík 18. júní 2012. Stefnda hafnaði þeirri beiðni og var málinu vísað frá embættinu með vísan til 32. gr. barnalaga nr. 76/2003 og stefnanda beint á að bera kröfu sína undir dómstóla.
Ragna Ólafsdóttir sálfræðingur var dómkvödd til að vinna matsgerð um forsjárhæfni foreldra, tengsl þeirra við barnið og fleiri atriði er lúta að uppeldisaðstæðum barnsins. Í matsgerð hennar, sem hún staðfesti fyrir dómi, kemur fram að aðstæður beggja foreldra til að annast barnið séu góðar. Þau búi bæði í eigin húsnæði, hafi fasta vinnu og séu ekki í fjárhagsvandræðum og engin merki séu um óreglu eða vanbúnað af neinu tagi á heimilum þeirra. Stefnandi býr einn en stefnda býr með börnum sínum tveimur.
Fjölskipaður dómur ræddi sérstaklega við barnið fyrir upphaf aðalmeðferðar til að kanna stöðu þess og líðan. Aðilar gáfu skýrslu í upphafi aðalmeðferðar. Þá voru sættir milli aðila reyndar eftir að skýrslutökum lauk, en án árangurs.
Málsástæður og lagarök stefnanda
Stefnandi byggir kröfu sínar í málinu á meginreglu barnalaganna um það hvað barni sé fyrir bestu. Stefnandi telur að það sé barninu fyrir bestu að forsjá þess og heimili verði hjá stefnanda. Barnið sé mjög ósátt hjá móður sinni og óttist um hag sinn þar. Þeim ótta hafi barnið lýst fyrir föður sínum, sem hafi gert þær ráðstafanir sem hann hefur talið eiga við til að leiða hið rétta í ljós. Það sé einnig vilji barnsins að búa hjá föður. Sá vilji komi m.a. fram í skýrslu Þorgeirs Magnússonar sálfræðings frá 9. júlí 2012. Þar segir m.a. að telpan lýsi álagi af átökum sem hún greini milli foreldranna og segist vilja eiga heima hjá pabba sínum. Hún beri því við að kærasti móður hennar hafi komið illa fram við hana, segist hrædd við hann, og sé einnig ósátt við að móðir hennar skuli eignast nýjan og nýjan sambýlismann. Hún sé í fleiri greinum ásakandi í garð móður sinnar, finnist hún gera upp á milli þeirra systkinanna, vera of skaprík og bera meginsök í átökum foreldranna. Viðhorfin til föður og hans fólks hafi á sér miklu jákvæðari blæ í framsetningu telpunnar. Þar sem stefnandi telur nauðsynlegt að tryggja velferð barns síns telur hann óhjákvæmilegt að fylgja máli þessu eftir með málshöfðun fyrir héraðsdómi, enda hafi allar aðrar leiðir verið þrautreyndar.
Stefnandi telur sér ekki annað fært en fylgja eftir staðföstum vilja dóttur sinnar um að flytja til sín og búa hjá sér og telur hann eðlilegt ástand ekki geta skapast fyrr en hann sé búinn að fá fulla forsjá barnsins. Það sé ekki tilgangur stefnanda að koma í veg fyrir umgengni stefndu við dóttur sína, heldur hafi hann talið sér skylt að hlusta á sjónarmið barnsins og taka á þeim mark. Hann sé einungis að gera það sem hann telji barninu fyrir bestu, enda hafi hann í einu og öllu fylgt þeim leiðbeiningum sem hann hafi fengið frá sálfræðingnum sem komið hefur að málinu.
Aðilar fara saman með forsjá barnsins. Barnið hefur alltaf dvalið mikið hjá föður sínum og föðurfólki. Barnið á [...] móður, en talar sjálft ekki [...] þótt það skilji móður sína. Aðstæður barnsins kunna að markast af óöryggi, sérstaklega þegar á heimili móður dvelst [...] karlmaður.
Stefnandi telur ekki forsendur fyrir því lengur að aðilar séu með sameiginlega forsjá barnsins. Barninu líði illa í samskiptum við móður sína og tali stöðugt um að það að vilja flytja til föður síns. Allar tilraunir hans til að eiga eðlileg samskipti við móður um barnið, svo sem tilhögun umgengni, tilhögun sumarleyfa og annað því tengt, enda með ósköpum, afskiptum lögmanna, sýslumanns, dómstóla og barnaverndaryfirvalda.
Að öllu framangreindu virtu telur stefnandi að það sé dóttur sinni fyrir bestu að forsjá hennar sé hjá sér. Í þessu sambandi vísar stefnandi til 2. mgr. 34. gr. barnalaga nr. 76/2003.
Stefnandi byggir kröfu sína um einfalt meðlag úr hendi stefndu á ákvæðum barnalaga nr. 76/2003, sérstaklega á ákvæðum 55.-57. gr. laganna og 34. gr. þeirra. Um varnarþing er vísað til 37. gr. barnalaga nr. 76/2003.
Kröfu sína um málskostnað byggir stefnandi á XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, einkum 130. gr. Stefnandi er ekki virðisaukaskattsskyldur aðili og því nauðsyn á að tekið verði tillit til greiðslu virðisaukaskatts af lögmannsþóknun við ákvörðun málskostnaðar.
Málsástæður og lagarök stefndu
Stefnda byggir kröfur sínar fyrst og fremst á 34. gr. laga nr. 76/2003 enda telji hún að hagsmunum barnsins sé best borgið með því að búseta þess verði óbreytt, þ.e. að stelpan búi hjá stefndu og njóti umgengni við stefnanda.
Stefnda telji stefnanda ófæran um að skilja þarfir barnsins og sýni atburðir sumarið 2012 vel þann skort á innsæi í þarfir þess. Sterkustu tilfinningatengsl og ummönnunartengsl stelpunnar séu við stefndu og aðbúnaður hennar á heimili stefndu sé betri en hjá stefnanda auk þess sem það hafi verið heimili hennar frá fæðingu. Þá búi bróðir hennar einnig á því heimili og samband systkinanna sé náið og gott.
Vilji barnsins standi til þess að halda óbreyttri skipan á málum og hafi hún tjáð stefnanda annað hljóti það að hafa verið gert undir pressu um að taka afstöðu í deilu foreldranna. Samband þeirra mæðgna sé sterkt og gott og fullyrðingum stefnanda um annað sé harðlega mótmælt.
Niðurstaða
Mál þetta er höfðað með stefnu birtri 8. nóvember 2012, þ.e. áður en lög nr. 61/2012 um breytingar á barnalögum nr. 76/2003, með síðari breytingum, gengu í gildi. Fer málsmeðferð því eftir lögunum eins og þau voru við málshöfðun sbr. 4. mgr. 37. gr. laga nr. 61/2012. Ljóst er því að ágreiningur sá sem hér er til úrlausnar bindur enda á sameiginlega forsjá foreldra A, sem er á 9. ári, og verður öðru þeirra falin forsjá hennar að fullu í samræmi við kröfur aðila.
Stefnandi kveðst hafa ákveðið að höfða þetta mál þar sem hann óttaðist um velferð dóttur sinnar á heimili móður. Kveður hann sig hafa rökstuddan grun um að dóttir sín sé beitt ofbeldi á heimilinu. Vísar hann í því efni til tveggja atvika sem hann kveður dóttir sína hafa sagt sér frá. Annars vegar er um að ræða að vorið 2012 hafi þáverandi kærasti mömmu hennar lyft henni upp og haldið henni upp að vegg á meðan hann hafi skammað hana. Móðir hennar hafi horft á og ekki aðhafst neitt. Móðirin kannast við umrætt atvik en lýsir því með talsvert öðrum hætti og telur alvarleika þess ekki mikinn. Hitt tilvikið lýtur að því að móðir stelpunnar hafi rassskellt hana með inniskó. Stefnda neitar því staðfastlega að hún hafi gert það en viðurkennir að hafa einu sinni rassskellt bróður hennar með þessum hætti. Stefnda kvaðst fyrir dómi sjá eftir því að hafa gert það og kvaðst hafa einsett sér að láta það ekki gerast aftur. Stefnandi taldi þessi tilvik gefa tilefni til þess að málið yrði skoðað nánar. Hann sneri sér fyrst til skólastjórnenda í grunnskóla dóttur sinnar og óskaði eftir að þeir rannsökuðu málið. Af því tilefni ræddi námsráðgjafi við stelpuna. Stjórnendur skólans töldu ekki ástæðu til frekar aðgerða. Þá tilkynnti stefnandi tilvikið til Barnaverndar Reykjavíkur. Könnun á aðstæðum barnsins fór fram af hálfu barnaverndar. Í niðurstöðu þeirrar könnunar, dags. 17. apríl 2012, kemur fram að barnavernd hafi alls borist fimm tilkynningar vegna barna stefndu; sú fyrsta í nóvember 2008, vegna átaka milli foreldra á heimilinu, en fjórar eftir skilnað þeirra, þar af ein frá föður, ein frá Landspítala Háskólasjúkrahúsi og tvær undir nafnleynd. Efni nafnlausu tilkynninganna er það að tilkynnandi hafi áhyggjur af aðbúnaði barnsins hjá móður, á heimili búi karlmaður sem drekki töluvert og hætta sé á að móðir falli í sama far og einnig að eldra barnið á heimilinu sé lengi eitt heima. Tilefni tilkynningar frá Landspítala Háskólasjúkrahúsi var innlögn stefndu á bráðadeild eftir inntöku lyfja.
Niðurstaða könnunar Barnaverndar Reykjavíkur, sem fór fram í tilefni framangreindra tilkynninga, var sú að ekki væri ástæða til frekari aðkomu að málefnum stefndu og barna hennar miðað við fyrirliggjandi gögn og var málinu lokað með þeim rökstuðningi. Stefnandi hefur ekki lagt fram nein gögn sem veita vísbendingu um að ástæða hafi verið til afskipta af barninu á heimili sínu eftir að könnun barnaverndar lauk.
Ofangreind tvö tilvik sem stefnandi hefur sérstaklega vísað til að valdi honum áhyggjum af aðbúnaði A hjá móður sinni, fela að mati dómsins ekki í sér ofbeldi og hafa ein og sér ekki áhrif á niðurstöðu forsjárdeilu aðila. Ekkert í gögnum málsins bendir til þess að barnið sé eða hafi verið beitt ofbeldi svo sem stefnandi byggir á og fram kemur í skýrslu matsmanns að sé ástæða þess að hann hafi ákveðið að höfða mál þetta. Þá fær sú fullyrðing stefnanda að barninu líði illa hjá móður sinni ekki stoð í gögnum málsins. Fyrir liggja tvær skýrslur sérfræðinga í málinu. Annars vegar skýrsla sem Þorgeir Magnússon sálfræðingur vann að beiðni héraðsdóms vegna deilu sem upp kom milli foreldra þegar stefnandi neitaði að skila stelpunni að loknu sumarleyfi árið 2012 og hins vegar matsgerð dómkvadds matsmanns í þessu máli, Rögnu Ólafsdóttur. Í viðtali hjá Þorgeiri, sem tekið var þegar stelpan hafði ekki hitt mömmu sína í nokkurn tíma, segist hún frekar vilja búa hjá pabba sínum en mömmu. Í viðtölum við Rögnu eru svörin blendnari og má skilja hana svo að hún vilji vera jafnt hjá báðum foreldrum. Í viðtali við dómara gerir stúlkan ekki upp á milli foreldra sinna með þessum hætti. Hvorki í matsgerð Rögnu, skýrslu Þorgeirs né öðrum gögnum málsins er því lýst að stúlkunni líði illa hjá móður sinni. Fram kemur í matsgerð Rögnu og skýrslugjöf hennar fyrir dómi að það sé eindregin niðurstaða hennar að barninu líði vel hjá báðum foreldrum sínum og hún sýni engin merki þess að hafa verið beitt ofbeldi.
Í matsgerð dómkvadds matsmanns er ítarlega fjallað um forsjárhæfni foreldra, uppeldisaðstæðum hjá hvoru þeirra um sig og tengslum barnsins við foreldra sína. Í niðurstöðu matsgerðar segir að forsjárhæfni beggja forelda teljist mjög góð. Grunnþörfum A sé vel sinnt hjá þeim báðum og hún búi við öryggi og festu á báðum heimilum. Þá segir að aðilar séu ólíkir einstaklingar. Stefnandi sé hægur og rólegur, alinn upp við festu og öryggi og hafi lengi búið í foreldrahúsum áður en hann stofnaði eigið heimili. Á persónuleikaprófum komi fram að stefnandi sé opinn og hreinskilinn um sjálfan sig, hann mælist hins vegar dapur, leiður og neikvæður út í lífið. Þessi atriði virðist þó ekki lita samskipti hans við dóttur sína sem matsmaður telur vera ljósið í lífi hans. Sjálfsmat stefnanda sé lágt en mögulega megi rekja framangreinda vanlíðan hans til þess álags sem forsjárdeilan hafi á hann. Um stefndu segir í niðurstöðum matsgerðar að hún sé röggsöm og kraftmikil kona, fædd og uppalin í [...] en hafi aðlagast vel íslenskum aðstæðum. Stefnda sé sjálfstæð kona sem hafi komið sér vel fyrir hér á landi og náð góðum tökum á tungumálinu. Á persónuleikaprófum komi fram að hún leitist við að draga upp fegraða mynd af sjálfri sér, sem ekki sé óalgengt í forsjárdeilum. Prófin leiði í ljós að stefnda sé í góðu andlegu jafnvægi, hún takist á við vinnu og ábyrgð án óþarfa áhyggna, sé virk, vakandi og orkumikil. Sjálfstraust hennar sé gott og hún hafi jákvæða lífssýn.
Matsmaður kannaði tengsl stelpunnar við foreldra sína með tengslaprófi og viðtölum. Í niðurstöðu matsgerðar segir um tengsl hennar við stefnanda að þau séu örugg, ástrík og náin auk þess sem stelpan umgangist mikið föðurfjölskyldu sína þegar hún er í umgengni hjá honum. Fram kemur í matsgerð að faðir fer með stúlkuna í útivistarferðir, hjóla- og skíðaferðir. Matsmaður telur stefnanda vilja dóttur sinni allt það besta en virðist ekki hafa skilning á mikilvægi þess að hún kynnist [...] uppruna sínum. Þá telur matsmaður það hafa verið vanhugsað af hálfu stefnanda að halda stelpunni frá stefndu sumarið 2012. Það hafa sett barnið í erfiða aðstöðu og knúið hana til að taka afstöðu með öðru foreldrinu gegn hinu. Tengsl barnsins við stefndu séu blendnari. Stelpan upplifi ástríki frá stefndu en einnig hörku, s.s. að vera skömmuð með öskrum eða rassskellt í eitt skipti. Í matsgerðinni segir að ekki sé hægt að sjá að það hafi sett mark sitt á stelpuna sem er sjálfsörugg og í góðu jafnvægi. Barnið sé líkt stefndu í skapgerð sem geti leitt til árekstra þeirra í milli. Fram kemur í matsgerð að þær mæðgur séu nánar og geri „stelpulega“ hluti saman eins og að fara í búðir og tvær saman á kaffihús eða horfi á myndir en stúlkan sé líka íþróttastelpa og á veturna fari móðir með börn sín á skauta. Stefnda sjái mikilvægi þess að barnið sé í góðum tengslum við föðurfjölskyldu og við móðurfólk sitt líka.
Svo sem að framan er rakið er deilan í þessu máli á milli foreldra sem bæði eru hæf til að fara með forsjá dóttur sinnar. Barnið er í góðum tengslum við þau bæði. Þrátt fyrir það sem að framan er rakið úr niðurstöðu matsgerðar um að tengsl barnsins við stefndu séu blendnari en við stefnda er það mat dómsins að ekki sé um slíkan mun að ræða að skipti sköpum í málinu. Hvoru foreldra verði falin forsjá veltur á því hvað telja verður að henti best þörfum barnsins svo sem meginregla barnalaga gerir ráð fyrir og kemur m.a. fram í 2. mgr. 34. gr. barnalaga. Niðurstaða dómsins er sú að það henti best þörfum A að forsjá hennar sé í höndum stefndu, móður hennar. Sú niðurstaða byggir á heildstæðu mati á aðstæðum, uppeldisskilyrðum og forsjárhæfni beggja foreldra. Þau atriði sem dómurinn telur vega þyngst í þessu efni eru eftirfarandi:
Í fyrsta lagi hefur A búið alla ævi hjá móður sinni á sama heimilinu. Þar býr einnig bróðir hennar sem hún er í góðum tengslum við. Heimili móður er sá staður sem hún þekkir sem sitt heimili, hún gengur í skóla í því hverfi og á leikfélaga þar. Í matsgerð kemur fram að skólaganga A í [...]skóla hafi gengið vel og haft er eftir kennara hennar að hún sé félagslega sterk og vinsæl meðal skólafélaga. Þá er frammistaða hennar í námi einnig góð. Það er mat dómsins að ef heimili A færðist til stefnanda myndu tengsl systkinanna óhjákvæmilega minnka sem ekki er æskilegt út frá þörfum hennar. Þá er afar ólíklegt að það yrði barninu til góðs að flytja í nýtt hverfi og hefja skólagöngu í nýjum skóla eins og stefnandi kveður að myndi verða fengi hann forsjána.
Í öðru lagi er það mat dómsins að stefnandi sé líklegri en stefnda til að hindra eða takmarka umgengni barnsins við það foreldri sem ekki fer með forsjá fái hann forsjána. Stefnda hefur lýst því bæði hjá matsmanni og fyrir dómi að hún sé jákvæð fyrir því að auka umgengni stefnanda við barnið. Þá hefur hún ekki hindrað það að stefnandi og stelpan njóti þeirrar umgengni sem kveðið er á um í gildandi úrskurði sýslumanns. Aftur á móti hefur stefnandi sett fram hugmyndir um umgengni stefndu sem er mun takmarkaðri en sú umgengni sem hann sjálfur nýtur nú. Engin rök standa til þess að hafa umgengni svo takmarkaða og það er áreiðanlega ekki í þágu barnsins. Í matsgerð dómkvadds matsmanns, og í skýrslu hans fyrir dómi, er því lýst að barnið sé nátengt báðum foreldum sínum og það sé mikilvægt að það umgangist þau bæði. Þá verður einnig að telja ólíklegt að stefnandi myndi stuðla að því að barnið kynntist [...] uppruna sínum sem að mati dómsins er henni mikilvægt. Fyrir dómi lýsti stefnandi því að hann teldi það ekki skipta miklu máli að stelpan heimsækti ættingja í [...] eða kynntist því landi og tungumáli nánar. Lagði hann áherslu á að faðir bróður hennar, sem byggi í [...], væri glæpamaður og taldi það af þeim sökum síður heppilegt að hún færi þangað. Ekki er því líklegt að hann muni virða rétt barnsins til að þekkja uppruna sinn.
Í þriðja lagi verður að telja að stefnda sé á ýmsa lund hæfari uppalandi þótt báðir foreldrar teljist hæfir til að ala A upp og hún sé í góðum tengslum við þau bæði. Persónulegir eiginleikar stefndu eru öflugri og uppbyggilegri en stefnanda, hún er jákvæð og glaðlynd manneskja, hefur sterka sjálfsmynd og hefur tekist á við erfiðleika án þess að láta þá buga sig. Hún getur því verið sterkari fyrirmynd fyrir stúlkuna. Að mati dómsins virðist stefnandi bera takmarkað skynbragð á mikilvægi þess fyrir barnið að halda góðum tengslum við báða foreldra sína. Kemur þetta bæði fram í hugmyndum hans um takmarkaða umgengni þess við móður sína fái hann forsjána og áðurnefndrar afstöðu hans til þess að barnið þekki uppruna sinn. Þá stöðvaði stefnandi umgengni barnsins við móður á veikum forsendum að mati dómsins mestallt sumarið 2012. Auk þessa hefur stefnandi lýst því yfir, bæði á fundi hjá dómkvöddum matsmanni og í skýrslutöku fyrir dómi, að fái hann ekki forsjá dóttur sinnar muni hann slíta öll tengsl við hana. Aðspurður fyrir dómi kveðst hann ekki hafa hugmynd um hvaða áhrif slík ákvörðun hefði á barnið. Hann gaf þá skýringu á þessari fyrirætlan sinni að ágreiningur hans og stefndu væri honum svo erfiður að hann gæti ekki haldið þeim áfram færi stefnda með forsjána. Hvort sem litið er á þessa yfirlýsingu sem hótun, sem stefnandi ætli sér í reynd ekki að standa við, eða sem raunverulegan ásetning á þeim tíma þegar yfirlýsingin er gefin, verður að telja að í henni felist alvarlegur skortur á innsæi í þarfir barnsins sem dómurinn álítur að dragi verulega úr færni stefnanda sem uppalanda. Svo sem sérfróður matsmaður lýsti fyrir dómi gæti það valdið barninu verulegum og varanlegu tjóni ef stefnandi gerði alvöru úr því að slíta fyrirvaralaust tengslin við það.
Með vísan til alls þess sem að framan er rakið er það niðurstaða dómsins að stefndu verði falin forsjá stúlkunnar A.
Stefnandi krefst þess að kveðið verði á um inntak umgengnisréttar þess foreldris sem ekki fer með forsjána. Í gildi er úrskurður sýslumannsins í Reykjavík, frá 6. maí 2009 þar sem kveðið er á um umgengni stefnanda við barnið. Ekkert er því til fyrirstöðu, út frá hagsmunum barnsins, að auka þá umgengni takist foreldrunum að semja um það. Hins vegar er ekki tilefni til að breyta fyrirkomulagi umgengninnar nú með dómi, einkum þegar hafðar eru í huga yfirlýsingar stefnanda varðandi fyrirætlanir um samskipti við barnið í framtíðinni. Með þessum rökstuðningi er í niðurstöðu dómsins kveðið á um óbreytta umgengni.
Stefnandi skal áfram greiða einfalt meðlag með barninu svo sem stefnda gerir kröfu um og nánar er greint í dómsorði sbr. 55. gr. laga nr. 76/2003.
Samkvæmt niðurstöðu dómsins og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 ber stefnanda að greiða stefndu málskostnað eins og mál þetta væri ekki gjafsóknarmál. Ekki er fallist á að lagarök séu til að dæma stefndu til greiðslu hluta málskostnaðar svo sem stefnandi gerir kröfu um. Málskostnaður ákveðst 450.000 kr. að teknu tilliti til virðisaukaskatts og rennur hann í ríkissjóð.
Stefnda hefur gjafsókn í málinu samkvæmt gjafsóknarleyfi dags. 14. janúar 2013. Allur málskostnaður hennar greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hennar, Valborgar Snævarr hrl., sem ákveðst 450.000 kr. og hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts.
Dóminn kveður upp Ingibjörg Þorsteinsdóttir héraðsdómari ásamt meðdómsmönnunum Álfheiði Steinþórsdóttur og Gunnari Hrafni Birgissyni, sálfræðingum.
Dómsorð
Forsjá barnsins A skal vera í höndum stefndu, K.
Regluleg umgengni stefnanda, M, við barnið skal vera aðra hverja helgi frá fimmtudegi til þriðjudagsmorguns. Í sumarleyfum og um stórhátíðir skal umgengnin vera með eftirfarandi hætti, nema aðilar komi sér saman um annað: Barnið skal dvelja hjá stefnanda í fjórar vikur árlega á sumarleyfistíma. Ákveða skal sumarleyfi barnsins með hæfilegum fyrirvara, í síðasta lagi 15. maí ár hvert. Stangist óskir foreldra á skulu aðilar skiptast á að eiga forgang að sumarleyfistíma þannig að stefnandi hafi val um tíma sumarið 2014 en stefnda árið eftir og svo koll af kolli. Um stórhátíðir skal barnið dvelja hjá stefnanda önnur hver jól frá kl. 12 á aðfangadag til sama tíma á jóladag en hitt árið frá kl. 12. á jóladag til kl. 18 annan dag jóla. Jólin 2013 skal umgengni stefnanda við barnið vera frá kl. 12. á jóladag. Um áramót dvelur barnið önnur hver áramót hjá stefnanda, frá kl. 12 á gamlársdag og til sama tíma á nýársdag en hitt árið frá kl. 12 á nýársdag til sama tíma 2. janúar. Áramótin 2013 til 2014 skal umgengni við stefnanda hefjast kl. 12 á gamlársdag. Umgengni um páska fer eftir umgengnishelgum stefnanda við barnið.
Stefnandi skal greiða stefndu einfalt meðlag, eins og það er ákveðið af Tryggingastofnun ríkisins á hverjum tíma, frá dómsuppsögu til 18 ára aldurs barnsins.
Stefnandi greiði stefndu 450.000 kr. í málskostnað sem rennur í ríkissjóð. Allur málskostnaður stefndu greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hennar, Valborgar Snævarr hrl., 450.000 kr.