Hæstiréttur íslands
Mál nr. 442/2015
Lykilorð
- Kærumál
- Lögræði
- Sjálfræði
|
Föstudaginn 17. júlí 2015. |
|
|
Nr. 442/2015.
|
A (Oddgeir Einarsson hrl.) gegn Velferðarsviði Reykjavíkurborgar (Kristbjörg Stephensen hrl.) |
Kærumál. Lögræði. Sjálfræði.
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem A var sviptur sjálfræði í tvö ár.
Dómur Hæstaréttar
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Benedikt Bogason og Eiríkur Tómasson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 29. júní 2015 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 3. júlí sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 26. júní 2015 þar sem sóknaraðili var sviptur sjálfræði í tvö ár. Kæruheimild er í 1. mgr. 16. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Sóknaraðili krefst þess að sjálfræðissviptingu verði ekki markaður lengri tími en eitt ár. Þá krefst hann kærumálskostnaðar úr ríkissjóði.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga greiðist þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila vegna flutnings málsins fyrir Hæstarétti úr ríkissjóði og ákveðst hún að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila, Oddgeirs Einarssonar hæstaréttarlögmanns, 124.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 26. júní 2015.
Með beiðni, sem barst dóminum 15. júní sl. hefur sóknaraðili, Velferðarsvið Reykjavíkurborgar, Borgartúni 12-14, Reykjavík, krafist þess að varnaraðili, A, [...], [...], verði með vísan til a- og b-liða 4. gr. og 1. mgr. 5. gr. lögræðislaga nr. 71/1997, sviptur sjálfræði í tvö ár. Um aðild sóknaraðila vísast til d-liðar 2. mgr. 7. gr. sömu laga.
Af hálfu varnaraðila er þess krafist að sjálfræðissviptingunni verði markaður skemmri tími, hámark 12 mánuðir.
Í kröfu sóknaraðila kemur m.a. fram að varnaraðili, sem er fertugur að aldri og einhleypur, þjáist af alvarlegum geðrofssjúkdómi, geðhvarfaklofa og eigi við langstæðan fíknivanda að stríða. Hann hafi ítrekað legið inni á geðdeild en hafi síðastliðið eitt og hálft ár ekki þegið læknismeðferð. Þá hafi hann verið sviptur sjálfræði í 12 mánuði með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur [...] 2011. Eftir að hafa ráðist á lögreglumenn á Englandi í apríl sl. hafi hann verið fluttur á geðdeild Landspítalans þar sem hann dvelji nú. Nauðsynlegt sé að svipta hann sjálfræði í tvö ár til að tryggja honum nauðsynlega meðferð. Að öðrum kosti sé hætta á ofbeldi af hálfu varnaraðila eða sjálfsvígi hans.
Beiðni sóknaraðila fylgdi læknisvottorð B geðlæknis á bráðageðdeild 32C á Landspítalanum, 5. júní sl. þar sem sjúkrasaga varnaraðila er rakin. Fram kemur að hann hafi glímt við geðræn vandamál í langan tíma og sé öryrki vegna þess. Varnaraðili hafi fyrst fengið meðferð við geðrofseinkennum árið 2002 og hafi frá þeim tíma til dagsins í dag lagst í 21 skipti inn á geðdeild spítalans. Hann sé nú greindur með geðrofssjúkdóm og geðhvarfaklofa. Þegar varnaraðili hafi verið sviptur sjálfræði 2011-2012 hafi hann stóran hluta þess tíma verið vistaður á öryggisgeðdeild, en þar dveljist þeir sem metnir eru hættulegir öðrum. Í kjölfar þeirrar innlagnar hafi varnaraðili verið í eftirfylgni hjá geðlækni, C, sem varð fljótlega stopul, en síðastliðið eitt og hálft ár hafi eftirfylgnin ekki verið nein. Hafi C ítrekað frétt af honum í neyslu og öðrum vanda. Í lok apríl hafi varnaraðili verið lagður sjálfviljugur inn á geðdeild 33A á Landspítala í kjölfar þess að hafa ráðist á lögreglumenn í London og verið lagður inn ytra. Sólarhring síðar hafi varnaraðili ekki viljað þiggja áframhaldandi meðferð og verið útskrifaður gegn læknisráði. Hinn 26. maí sl. hafi varnaraðili komið sjálfviljugur til innlagnar á deild 32A í fylgd lögreglu. Vakthafandi deildarlæknir hafi metið ástand varnaraðila með þeim hætti að hann væri í geðrofi og líklega undir áhrifum vímuefna. Hafi varnaraðili þá verið nauðungarvistaður á geðdeild í 48 klst. og í kjölfarið hafi innanríkisráðuneytið samþykkt áframhaldandi nauðungarvistun hans á geðdeild í allt að 21 dag. Varnaraðili hafi þegið meðferð fyrstu dagana en hafnað henni 31. maí sl. Fyrir liggi að þegar varnaraðili hafi verið sviptur sjálfræði 2011 hafi meðferð við veikindum hans skilað árangri en að sá árangur hafi tapast fljótlega eftir að sjálfræðissviptingunni lauk. Varnaraðili hafi einnig staðfesta sögu um ofbeldisverk og tíðar alvarlegar hótanir. Varnaraðili hafi skert innsæi í sjúkdóm sinn og hefur ekki sinnt meðferð og ráðleggingum undanfarin ár. Telur B að engar líkur séu á því að hægt sé að tryggja nauðsynlegan meðferðarramma utan um varnaraðila án þess að til sjálfræðissviptingar komi. Án meðferðar og við áframhaldandi vímuefnanotkun sé mikil hætta á ofbeldi og sjálfsvígi varnaraðila. Tekur geðlæknirinn fram að sjálfræðissvipting sé óhjákvæmileg og styður og mælir með henni til tveggja ára, með hliðsjón af reynslu af fyrri sjálfræðissviptingu og þess takmarkaða árangurs sem af henni varð. B staðfesti vottorð sitt fyrir dóminum. Hann kvað ljóst að varnaraðili þjáist af alvarlegum geðsjúkdómi og eigi við fíkniefnavanda að stríða. Fyrirséð sé að langan tíma þurfi til að sinna meðferð hans. Í ljósi fyrri reynslu myndi styttri tími en tvö ár ekki duga til að meðhöndla varnaraðila. Aðspurður kvað læknirinn upplýsingar sem hann greindi frá, um ofbeldi sem varnaraðili á að hafa beitt aðra, koma úr sjúkraskýrslum.
Þá liggur fyrir vottorð D, dagsett 28. maí sl., sem var gert í tengslum við kröfu um nauðungarvistun. Í því kemur fram að varnaraðili sé með einkenni um alvarlegan geðsjúkdóm. Sjúkdómsinnsæi sé ekkert og sé hann ofbeldisfullur og hættulegur í þessu ástandi.
Þá gaf skýrslu fyrir dóminum E sem hefur varnaraðila til meðhöndlunar í dag á öryggisgeðdeild Landspítalans. Hann kvað varnaraðila ennþá í veikindaástandi og að full þörf væri á sjálfræðissviptingu. Að öðrum kosti væri hætta á að varnaraðili félli aftur. Nauðsynlegt væri að sviptingin stæði í tvö ár til þess að meðferðin skilaði árangri.
Varnaraðili talaði máli sínu fyrir dóminum. Hann kvaðst eiga við alvarlegan geðsjúkdóm og vímuefnavanda að stríða. Hann mótmælti því að hafa beitt annað fólk ofbeldi og vísaði til þess að hann hefði ekki verið dæmdur fyrir ofbeldi. Hann þyrfti hjálp við veikindum sínum en telur að tveggja ára svipting sé of löng. Ár eigi að duga.
Niðurstaða:
Eins og að framan er rakið liggur fyrir vottorð B geðlæknis, sem hann staðfesti fyrir dóminum, um að varnaraðili sé haldinn alvarlegum geðsjúkdómi og eigi við fíkniefnavandamál að stríða. Var framburður læknisins afdráttarlaus um að þörf væri á tímabundinni sjálfræðissviptingu varnaraðila til þess að unnt væri að veita honum fullnægjandi meðferð. Fyrir liggur að varnaraðili hefur áður verið sviptur sjálfræði um eins árs skeið en meðferð í tengslum við þá sviptingu skilaði ekki árangri til lengri tíma litið. Væri því nauðsynlegt að svipta hann sjálfræði í tvö ár. Sama sinnis er E meðhöndlandi geðlæknir varnaraðila.
Með hliðsjón af framangreindu telur dómurinn því að sýnt hafi verið fram á að uppfyllt séu skilyrði a- og b-liðar 4. gr. lögræðislaga nr. 71/1997 hvað varðar getu varnaraðila til að ráðstafa persónulegum hagsmunum sínum. Er því óhjákvæmilegt að svipta varnaraðila sjálfræði tímabundið svo að tryggja megi honum viðeigandi læknismeðferð. Verður því fallist á kröfu sóknaraðila um að varnaraðili verði sviptur sjálfræði í tvö ár en vegna alvarleika veikinda varnaraðila eru ekki efni til að marka sviptingunni skemmri tíma. Í því samhengi er enn fremur til þess að líta að varnaraðili á þess kost, skv. 15. gr. sömu laga, að krefjast niðurfellingar sjálfræðissviptingarinnar að sex mánuðum liðnum frá uppkvaðningu úrskurðar þessa telji hann að ástæður sviptingar séu ekki lengur fyrir hendi.
Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. laga nr. 71/1971 ber að greiða úr ríkissjóði allan kostnað málsins, þar með talda þóknun skipaðs verjanda varnaraðila, eins og nánar er kveðið á um í úrskurðarorði. Við ákvörðun þóknunar hefur verið tekið tillit til virðisaukaskatts.
Kolbrún Sævarsdóttir héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð.
ÚRSKURÐARORÐ:
Varnaraðili, A, er sviptur sjálfræði í tvö ár.
Kostnaður af málinu, þ.m.t. þóknun skipaðs verjanda varnaraðila, Oddgeirs Einarssonar hrl., 124.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.