Hæstiréttur íslands

Mál nr. 36/2020

Þrotabú WOW air hf. (Þorsteinn Einarsson lögmaður)
gegn
Stefáni Eysteini Sigurðssyni (Guðmundur B. Ólafsson lögmaður)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Gjaldþrotaskipti
  • Réttindaröð
  • Forgangskrafa
  • Laun

Reifun

Kærður var úrskurður Landsréttar þar sem krafa S að fjárhæð 14.345.323 krónur var viðurkennd með stöðu í réttindaröð samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. við gjaldþrotaskipti á þb. W hf. S hafði verið framkvæmdastjóri fjármálasviðs W hf. frá júlí 2015 og þar til bú félagsins var tekið til gjaldþrotaskipa í mars 2019. Ágreiningur aðila laut að því hvort S hefði verið nákominn W hf. í skilningi 4. töluliðar 3. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 3. mgr. 112. gr. laganna. Taldi Hæstiréttur með vísan til gagna málsins að S hefði talist til lykilstjórnenda W hf. og hefði sem framkvæmdastjóri fjármálasviðs haft yfirsýn yfir fjármál þess á hverjum tíma. Þá taldi rétturinn meðal annars í ljósi stöðu S í skipuriti félagsins, stærðar þess og eðlis rekstrarins, heimilda S til að skuldbinda félagið, yfirsýnar hans yfir fjárhagsstöð þess auk stjórnunarheimilda yfir starfsfólki að S hefði stýrt daglegum rekstri félagsins og teldist nákominn í skilningi fyrrnefndra ákvæða. Jafnframt taldi rétturinn engu breyta um þá niðurstöðu þótt eigandi félagsins og á tímabili aðstoðarforstjóri hefði jafnframt stýrt daglegum rekstri þess né að launakröfur annarra framkvæmdastjóra hefðu verið viðurkenndar sem forgangskröfur við gjaldþrotaskiptin. Var því kröfu S um viðurkenningu á að krafa hans nyti stöðu í réttindaröð samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991 við gjaldþrotaskipti á þb. W hf. hafnað.

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ása Ólafsdóttir, Ingveldur Einarsdóttir, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Sigurður Tómas Magnússon.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 19. október 2020 en kærumálsgögn bárust réttinum 26. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Landsréttar 7. október 2020 þar sem krafa varnaraðila að fjárhæð 14.345.323 krónur var viðurkennd með stöðu í réttindaröð samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili krefst þess að hafnað verði að skipa kröfunni á þennan hátt í réttindaröð. Þá krefst hann málskostnaðar á öllum dómstigum.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Samkvæmt ákvörðun Hæstaréttar var mál þetta munnlega flutt 11. janúar 2021.

I

Samkvæmt gögnum málsins var varnaraðili ráðinn ,,framkvæmdastjóri fjármálasviðs/fjármálastjóri“ WOW air, sem þá var einkahlutafélag, með ráðningarsamningi 21. júlí 2015. Í samningnum kom fram að varnaraðili sæti einnig í framkvæmdastjórn félagsins. Hann hóf störf 14. ágúst 2015 og starfaði hjá félaginu þar til bú þess var tekið til gjaldþrotaskipta 28. mars 2019. Með bréfi til skiptastjóra 7. apríl 2019 lýsti varnaraðili kröfu við gjaldþrotaskiptin og krafðist þess að henni yrði skipað í réttindaröð samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991. Skiptastjóri hafnaði því 8. ágúst 2019 að krafan fengi notið slíks forgangsréttar. Afstaða skiptastjóra var reist á því að varnaraðili hefði haft stöðu nákomins í skilningi 4. töluliðar 3. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 3. mgr. 112. gr. laganna. Ekki tókst að jafna ágreining aðila og með bréfi 10. september 2019 krafðist skiptastjóri úrlausnar Héraðsdóms Reykjavíkur um ágreininginn samkvæmt 2. mgr. 120. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 171. gr. laganna. Í úrskurði héraðsdóms 19. júní 2020 var fallist á að krafa varnaraðila nyti forgangs við gjaldþrotaskiptin. Með hinum kærða úrskurði Landsréttar var niðurstaða héraðsdóms staðfest.

Kæruleyfi til Hæstaréttar var veitt 11. nóvember 2020 á grundvelli 2. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, þar sem úrlausn málsins um skýringu á hugtakinu nákomnir í skilningi 4. töluliðar 3. gr. laga nr. 21/1991 var talin hafa fordæmisgildi.

Upphafleg krafa varnaraðila var 39.901.424 krónur en varnaraðili féll frá hluta hennar fyrir héraðsdómi. Í héraðsdómi var fallist á kröfu varnaraðila að fjárhæð 15.594.304 krónur en frá henni var dregin 1.248.981 króna vegna atvinnuleysisbóta sem varnaraðili þáði á uppsagnarfresti. Samtals var krafa varnaraðila samþykkt að fjárhæð 14.345.323 krónur. Ekki er tölulegur ágreiningur milli aðila.

II

Mál þetta lýtur samkvæmt framansögðu að kröfu varnaraðila um að viðurkennt verði að krafa sem hann lýsti við gjaldþrotaskipti WOW air hf. njóti stöðu í réttindaröð samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991. Sóknaraðili hafnar því að krafan njóti slíks forgangs þar sem varnaraðili sé nákominn WOW air hf. í skilningi 4. töluliðar 3. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 3. mgr. 112. gr. laganna. Hann hafi verið framkvæmdastjóri fjármálasviðs og átt sæti í framkvæmdastjórn félagsins frá 14. ágúst 2015 til 28. mars 2019 þar sem næsti yfirmaður hans hafi verið forstjóri. Hann hafi jafnframt þegið laun í samræmi við ábyrgð sína sem einn æðsti yfirmaður félagsins og stýrt daglegum rekstri þess.

Sóknaraðili bendir á að varnaraðili hafi meðal annars stýrt fjármálum, fjárhagsáætlanagerð og samþykkt reikninga auk þess sem hann hafi skuldbundið félagið á grundvelli prókúruumboðs sem og á grundvelli reglna stjórnar. Hann hafi stýrt bókhaldsdeild félagsins, hagdeild, lögfræðisviði og innkaupasviði auk þess að vera yfirmaður sjóðsstýringar. Hafi hann sem æðsti yfirmaður fjármálasviðs haft bestu yfirsýnina yfir fjármál og fjárhagsstöðu félagsins. Auk þess mótmælir sóknaraðili því sem röngu og ósönnuðu að varnaraðili hafi einungis notið umboðs til skuldbindingar félagsins í fjarveru forstjóra þess og að hann hafi einungis skrifað undir skuldbindingar eftir samþykki forstjóra. Varnaraðili hafi þvert á móti nýtt prókúruumboðið við daglegan rekstur félagsins.

Af hálfu varnaraðila er byggt á því að við mat á hvort hann telst nákominn í skilningi 4. töluliðar 3. gr. laga nr. 21/1991 verði að líta til eðlis rekstrar flugfélaga. Hjá WOW air hf. hafi verið tvö meginsvið, flugrekstrarsvið og þjónustusvið. Á flugrekstrarsviði hafi verið teknar ákvarðanir um flugflota en stjórn ákveðið flugleiðir og flugáætlun. Varnaraðili hafi enga aðkomu átt að þeim ákvörðunum sem hafi tekið til um 90% af öllum rekstrarkostnaði. Þjónustusvið hafi tekið allar ákvarðanir um tekjur félagsins, svo sem um verð á flugmiðum og annarri þjónustu og hafi varnaraðili ekki heldur komið að þeim.

Varnaraðili vísar til þess að forstjóri félagsins, sem jafnframt var eigandi þess, hafi stýrt daglegum rekstri auk þess að stýra þjónustusviði. Þann tíma sem aðstoðarforstjóri starfaði hjá félaginu hafi daglegur rekstur jafnframt fallið undir starfssvið hans. Starf varnaraðila hafi einkum falist í ráðgjöf, uppbyggingu innviða í rekstri og eftirliti með ákvörðunum. Hann hafi ekki tekið ákvarðanir um daglegan rekstur, hvorki um tekjur né útgjöld. Auk þess hafi varnaraðili enga heimild haft til að draga úr útgjöldum eða auka tekjur með eigin ákvörðunum. Heimildir varnaraðila til að skuldbinda félagið hafi einungis verið formlegs eðlis og til komnar vegna tíðra fjarvista forstjóra. Varnaraðili hafi því ekki haft raunverulegar heimildir til að taka ákvarðanir um daglegan rekstur félagsins.

Þá hafi varnaraðili verið einn fimm framkvæmdastjóra stoðdeilda sem heyrðu undir forstjóra og aðstoðarforstjóra. Kjör þeirra hafi verið sambærileg og allir nema varnaraðili fengið kröfur sínar viðurkenndar sem forgangskröfur. Með því væri viðurkennt að framkvæmdastjórar stoðdeilda hafi ekki tekið ákvarðanir sem vörðuðu daglegan rekstur félagsins.

III

1

Í 112. gr. laga nr. 21/1991 er kveðið á um forgangsrétt fyrir tilteknum kröfum við gjaldþrotaskipti að frágengnum kröfum samkvæmt 109. til 111. gr. laganna. Þar á meðal eru kröfur um laun og annað endurgjald fyrir vinnu í þjónustu þrotamanns sem hafa fallið í gjalddaga á síðustu átján mánuðum fyrir frestdag og bætur vegna slita á vinnusamningi á sama tímabili eða eftir frestdag, sbr. 1. og 2. tölulið ákvæðisins. Hinu sama gegnir um kröfu um orlofsfé eða orlofslaun sem réttur hefur unnist til á fyrrgreindu tímabili, sbr. 3. tölulið ákvæðisins. Ákvæðið skipar vissum kröfum framar öðrum í réttindaröð og víkur frá grundvallarreglu laga nr. 21/1991 um jafnræði kröfuhafa við gjaldþrotaskipti.

Samkvæmt 3. mgr. 112. gr. laganna njóta þeir sem eru nákomnir þrotamanni eða félagi eða stofnun sem er til gjaldþrotaskipta ekki réttar eftir 1. til 3. tölulið 1. mgr. fyrir kröfum sínum. Hefur löggjafinn ekki talið ástæðu til að víkja frá meginreglunni um jafnræði kröfuhafa þegar svo háttar til. Því geta einstaklingar sem eru í slíkri stöðu ekki haldið áfram daglegum rekstri félags eða stofnunar í trausti þess að launakröfur þeirra njóti forgangs umfram almennar kröfur við gjaldþrotaskipti.

2

Ákvæði sambærilegt 112. gr. laga nr. 21/1991 var áður að finna í 84. gr. laga nr. 3/1878 um skipti á dánarbúum og félagsbúum, eins og þeim var breytt með lögum nr. 32/1974. Þar var ekki að finna takmörkun á forgangsrétti krafna, en í athugasemdum með frumvarpi til laganna kom fram að á hinum Norðurlöndunum væri forgangur miðaður við að launakröfur manna ,,sem hafa stjórnað fyrirtækjum, er verða gjaldþrota“ væru ekki forgangskröfur. Hið sama gilti um ,,launakröfur þeirra, sem eru í nánum fjölskyldutengslum við stjórnendur fyrirtækjanna eða eru sjálfir eigendur.“ Ekki hefðu verið ákvæði af þessu tagi í íslenskum rétti og ekki lagt til að þau yrðu tekin upp.

Við setningu laga nr. 21/1991 var lagt til að í 3. mgr. 112. gr. væri tekin upp regla að danskri fyrirmynd til að ,,fyrirbyggja að forráðamenn gjaldþrota félaga og menn nákomnir þrotamanni geti notið forgangsréttar fyrir kröfum sínum um vinnulaun, laun í uppsagnarfresti og orlofsfé.“ Í greinargerð með frumvarpi til laganna kom fram að sambærilegrar takmörkunar gætti ekki í þágildandi 84. gr. laga nr. 3/1878 og hefði það ,,stundum leitt til mjög óeðlilegra niðurstaðna í framkvæmd.“ Forgangsréttur krafna samkvæmt 1., 2., og 3. tölulið 1. mgr. 112. gr. var takmarkaður við þá sem ekki töldust nákomnir þrotamanni eða höfðu átt sæti í stjórn félags eða haft með höndum framkvæmdastjórn.

Ákvæði 3. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991 var breytt með lögum nr. 95/2010. Með þeim var rýmkuð skilgreining hugtaksins nákomnir í 3. gr. laganna þannig að hún tók jafnframt til stjórnarmanna og þeirra sem stýrðu daglegum rekstri. Var þar af leiðandi talið óþarft að hafa fyrrgreinda upptalningu í 3. mgr. 112. gr. laganna en í staðinn lagt til að nákomnir nytu ekki forgangsréttar fyrir kröfum sínum. Eftir fyrrgreinda breytingu þarf því að meta hvort einstaklingur hefur stýrt daglegum rekstri félags eða stofnunar sem tekin er til gjaldþrotaskipta og fellur þar með undir nákomna í skilningi 4. töluliðar 3. gr. laga nr. 21/1991.

3

Í dómaframkvæmd Hæstaréttar um 3. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991, eins og ákvæðið var orðað fram til gildistöku laga nr. 95/2010, var litið til ýmissa þátta við mat þess hvort einstaklingur hefði haft með höndum framkvæmdastjórn félags, svo sem möguleika til áhrifa innan þess, stjórnunarheimilda, verksviðs og launakjara. Matið miðaði að því að leiða í ljós hvort viðkomandi færi með raunverulega yfirmannsstöðu, sbr. dóma Hæstaréttar 13. ágúst 2010 í máli nr. 440/2010 og 15. apríl 2011 í máli nr. 177/2011. Ekki væri eingöngu átt við þann sem að forminu til væri titlaður framkvæmdastjóri í samræmi við 68. gr. hlutafélagalaga nr. 2/1995 og tilkynntur sem slíkur til hlutafélagaskrár, sbr. dóm Hæstaréttar 21. mars 2011 í máli nr. 114/2011. Þar var talið að ákvæði 3. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991 bæri ekki að skýra á þann veg að hlutverk viðkomandi þyrfti að verulegu leyti að samræmast heimildum, skyldum og ábyrgð framkvæmdastjóra í skilningi hlutafélagalaga. Í dómi Hæstaréttar 1. febrúar 2011 í máli nr. 709/2010 var ekki fallist á forgangsrétt launakröfu framkvæmdastjóra fjármálasviðs og til þess litið að starfsmaðurinn hefði haft upplýsingar um rekstrarafkomu félags og setið í framkvæmdastjórn. Þóttu launakjör hans styðja þá niðurstöðu.

4

Sóknaraðili hafnaði forgangsrétti kröfu varnaraðila við gjaldþrotaskipti sóknaraðila á þeim grundvelli að hann væri nákominn í skilningi 4. töluliðar 3. gr., sbr. 3. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991. Samkvæmt framansögðu verður að leysa úr því hvort varnaraðili hafi stýrt daglegum rekstri WOW air hf.

Samkvæmt samþykktum WOW air hf. var tilgangur þess flugrekstur og annar tengdur rekstur, ferðaþjónusta, lánastarfsemi tengd rekstrinum og annar skyldur rekstur. Árið 2018 var velta félagsins 620 milljónir bandaríkjadala og var það með um 1.200 starfsmenn. Tvö meginsvið voru í félaginu, flugrekstrarsvið og þjónustusvið auk fimm stoðsviða, þar á meðal fjármálasvið undir stjórn varnaraðila.

Samkvæmt 1. mgr. 18. gr. samþykkta félagsins gat stjórn ráðið framkvæmdastjóra og ákveðið starfskjör hans. Nýtti stjórnin sér þá heimild og réð eiganda félagsins til starfa sem forstjóra. Var hann einn skráður sem framkvæmdastjóri í hlutafélagaskrá. Í 2. mgr. 18. gr. samþykktanna sagði að framkvæmdastjóri hefði með höndum stjórn á daglegum rekstri og kæmi fram fyrir hönd félagsins í öllum málum, sæi um reikningshald og ráðningu starfsliðs. Ekki var gefin út lýsing fyrir starf forstjóra þótt gert væri ráð fyrir því í 6. gr. starfsreglna stjórnar 2. nóvember 2017.

Varnaraðili var ráðinn til starfa sem framkvæmdastjóri fjármálasviðs/fjármálastjóri með ráðningarsamningi 21. júlí 2015 með gagnkvæmum sex mánaða uppsagnarfresti og hóf störf 14. ágúst sama ár. Voru laun hans við úrskurð um gjaldþrotaskipti 2.400.000 krónur á mánuði auk 100.000 króna bifreiðastyrks og farmiðahlunninda. Í ráðningarsamningnum kom fram að gefin yrði út starfslýsing auk þess sem stöðunni fylgdi sæti í framkvæmdastjórn. Óumdeilt er að starfslýsing var aldrei gefin út og þá voru engar skráðar reglur um samsetningu og hlutverk framkvæmdastjórnar félagsins. Af skjölum málsins og framburði varnaraðila fyrir héraðsdómi má ráða að framkvæmdastjórn hafi ekki farið með formlegt ákvörðunarvald innan félagsins heldur fyrst og fremst verið til ráðgjafar fyrir stjórn þess og forstjóra.

Samkvæmt skipuriti félagsins fór varnaraðili með forstöðu fjármálasviðs, sem var eitt fimm stoðsviða félagsins. Undir það féll sjóðsstýring, innkaupadeild, bókhaldsdeild, hagdeild og lögfræðideild. Staða hans heyrði undir forstjóra félagsins og aðstoðarforstjóra á þeim tíma sem hann starfaði í félaginu.

Fyrir héraðsdómi bar varnaraðili að 22 starfsmenn hefðu starfað á fjármálasviði. Á fyrri hluta starfstíma hans hefði forstjóri samþykkt allar mannaráðningar. Þegar félagið var komið í hefðbundnara áætlanakerfi hefði varnaraðili haft tiltekinn ramma sem hann gat unnið eftir og gengið frá ráðningum þótt hann hefði alltaf þurft að upplýsa um allar breytingar. Starf hans hefði einkum falist í að stýra mánaðarlegu uppgjöri og bókun reikninga sem hefðu verið um þrjú til fjögur þúsund í hverjum mánuði. Hann hefði séð til að stofnuð væri hagdeild til að sjá um uppbyggingu á innra skipulagi félagsins, gert áætlanir, komið á kostnaðaraðhaldi og unnið að hagræðingu, einkum í innkaupum. Allar veigameiri ákvarðanir um útgjöld og tekjur hefðu þó ekki verið í höndum hans, heldur flugrekstrarsviðs og þjónustusviðs.

Með bréfi 1. september 2015 til ríkisskattstjóra var tilkynnt um prókúru varnaraðila fyrir félagið, sbr. 25. gr. laga nr. 42/1903 um verslanaskrár, firmu og prókúruumboð, en á þeim tíma voru prókúruhafar félagsins tveir, varnaraðili og forstjóri. Aðstoðarforstjóri fór einnig með prókúruumboð frá ágúst 2017 til ársbyrjunar 2019 þegar hann starfaði hjá félaginu. Í ódagsettum reglum stjórnar félagsins, ,,Agreement Approval Policy WOW air ehf.“, var jafnframt fjallað um heimildir starfsmanna til að skuldbinda það. Samkvæmt þeim hafði forstjóri félagsins einn svokallaða A-heimild til að skuldbinda það. Varnaraðili naut B-heimildar samkvæmt sömu reglum og gat gert skuldbindandi samninga fyrir allt að 500.000 bandaríkjadali án aðkomu forstjóra eða annarra starfsmanna. Féllu þar undir viðskiptasamningar, lántökur, samningar um ábyrgðir og aðrir samningar. Sömu heimild hafði einungis aðstoðarforstjóri félagsins. Auk þess veittu reglurnar varnaraðila heimild til að skuldbinda félagið ásamt aðstoðarforstjóra fyrir allt að 1.000.000 bandaríkjadala.

Meðal gagna málsins eru skjöl undirrituð af varnaraðila í skjóli umboðs hans, en aðila greinir á um hvort hann hafi haft raunverulega heimild til að taka sjálfstæðar ákvarðanir fyrir hönd félagsins. Hefur varnaraðili haldið því fram að hann hafi einungis nýtt heimildina að undangengnu samþykki forstjóra en ástæða þess að honum var veitt umboð til að skuldbinda félagið hafi einkum verið tíð fjarvera forstjórans.

Þótt varnaraðili hafi haft samráð við forstjóra félagsins um einstakar ákvarðanir og jafnvel þótt honum hafi verið falin samningsgerð á grundvelli ákvarðana annarra innan þess verður ekki fram hjá því litið að varnaraðili fór með ríkar heimildir til að skuldbinda félagið sem voru án annarra takmarkana en þeirra sem leiddu af lögum nr. 42/1903 og reglum stjórnar, en félagið hafði á þeim tíma með höndum umfangsmikinn alþjóðlegan rekstur. Hefur ekki verið sýnt fram á það af hálfu varnaraðila að heimild hans til að skuldbinda félagið hafi í öllum tilvikum verið háð samþykki forstjóra félagsins. Þvert á móti var varnaraðili í stöðu til að hafa áhrif á stefnumótun félagsins og hafði raunverulegt vald til mikilsverðra ákvarðana á grundvelli fyrrgreindra heimilda.

Af gögnum málsins verður ráðið að varnaraðili hafi sem framkvæmdastjóri fjármálasviðs setið fundi stjórnar og veitt henni upplýsingar um fjárhagslega stöðu félagsins. Í skýrslu formanns stjórnar hjá skiptastjóra kom fram að stjórnarformaður hafi haft aukna viðveru tímabundið í janúar 2019, eftir að aðstoðarforstjóri hafi hætt hjá félaginu, til að ,,aðstoða við að halda öllu á floti og til að ... tryggja tengslin á milli félagsins og stjórnar eftir brotthvarf hennar“ en aðstoðarforstjórinn hefði verið mikilvægur tengiliður á milli félagsins og stjórnarinnar ,,ásamt Stefáni og oft Bjarka líka.“ Stjórnin hefði verið í góðum tengslum við ,,lykilstjórnendur félagsins, s.s. aðstoðarforstjóra, fjármálastjóra og yfirlögfræðing, en þessir starfsmenn undirbjuggu og sátu flesta stjórnarfundi.“ Jafnframt hefðu fjármálastjóri og aðstoðarforstjóri verið með sjóðsstreymisskjal sem stjórnin hefði farið vel yfir.

Viðbót við ráðningarsamning varnaraðila var gerð 1. október 2018 þar sem uppsagnarfrestur var lengdur í 12 mánuði og tekið fram að laun sem unnið væri til hjá öðrum vinnuveitanda kæmu ekki til frádráttar uppgjöri launa á uppsagnarfresti. Fyrir héraðsdómi kom fram að um hefði verið að ræða hóp starfsmanna sem hefði verið í ströngum viðræðum við hugsanlegan kaupanda félagsins. Hugsunin hefði verið sú að tryggja þyrfti gagnvart nýjum eiganda að stjórnendateymið myndi ekki allt hverfa frá við sölu félagsins.

Af öllu framansögðu verður ráðið að varnaraðili hafi talist til lykilstjórnenda félagsins og hafi sem framkvæmdastjóri fjármálasviðs haft yfirsýn yfir fjármál þess á hverjum tíma. Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið, meðal annars í ljósi stöðu varnaraðila í skipuriti félagsins, stærðar þess og eðlis rekstrarins, heimilda varnaraðila til að skuldbinda það, yfirsýnar hans yfir fjárhagsstöðuna auk stjórnunarheimilda yfir starfsfólki er fallist á með sóknaraðila að varnaraðili hafi stýrt daglegum rekstri félagsins og teljist nákominn í skilningi 4. töluliðar 3. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 3. mgr. 112. gr. laganna. Breytir engu um þá niðurstöðu þótt eigandi félagsins og á tímabili aðstoðarforstjóri hafi jafnframt stýrt daglegum rekstri þess eða hvort launakröfur framkvæmdastjóra annarra stoðsviða hafi verið viðurkenndar sem forgangskröfur við gjaldþrotaskiptin. Samkvæmt öllu framangreindu verður ekki fallist á að krafa varnaraðila njóti forgangsréttar við skipti á sóknaraðila.

Rétt er að hvor aðili beri sinn málskostnað vegna reksturs málsins á öllum dómstigum.

Dómsorð:

Kröfu varnaraðila, Stefáns Eysteins Sigurðssonar, um viðurkenningu á að krafa hans að fjárhæð 14.345.323 krónur njóti stöðu í réttindaröð samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. við gjaldþrotaskipti á sóknaraðila, þrotabúi WOW air hf., er hafnað.

Málskostnaður í héraði, fyrir Landsrétti og Hæstarétti fellur niður.

 

 

 

Úrskurður Landsréttar 7. október 2020.

Landsréttardómararnir Jón Höskuldsson, Kristbjörg Stephensen og Ragnheiður Harðardóttir kveða upp úrskurð í máli þessu.

Málsmeðferð og dómkröfur aðila

  1. Sóknaraðili skaut málinu til Landsréttar með kæru 2. júlí 2020. Greinargerð varnaraðila barst réttinum 22. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 19. júní 2020 í málinu nr. X-4676/2019 þar sem krafa, er varnaraðili lýsti við gjaldþrotaskipti sóknaraðila að fjárhæð 14.345.323 krónur, var viðurkennd með stöðu í réttindaröð samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.

  2. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og kröfur hans fyrir héraðsdómi verði teknar til greina, sem eru þær að kröfum varnaraðila verði hafnað og að staðfest verði sú ákvörðun sóknaraðila að synja því að krafa varnaraðila njóti forgangs samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991 við gjaldþrotaskipti sóknaraðila. Til vara krefst sóknaraðili þess að kröfur varnaraðila verði lækkaðar verulega. Loks krefst sóknaraðili málskostnaðar í héraði auk kærumálskostnaðar.

  3. Varnaraðili kærði úrskurð héraðsdóms fyrir sitt leyti til Landsréttar 3. júlí 2020. Hann krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur að undanskyldri ákvörðun um málskostnað. Varnaraðili krefst málskostnaðar í héraði auk kærumálskostnaðar.

Niðurstaða

4. Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður staðfest sú niðurstaða að varnaraðili, þrátt fyrir að hafa gegnt starfi framkvæmdastjóra fjármálasviðs WOW air hf. og átt sæti í framkvæmdastjórn félagsins, falli ekki undir hugtakið nákomnir í skilningi 3. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991, enda hafi hann ekki stýrt daglegum rekstri félagsins og þannig haft raunverulegar valdheimildir til að hafa áhrif á ákvarðanir sem teknar voru innan félagsins. Eins og fram kemur í úrskurði Landsréttar 27. febrúar 2019 í máli númer 78/2019 getur ekki ráðið úrslitum við mat á því hvort varnaraðili í máli þessu teljist nákominn í skilningi fyrrnefnds ákvæðis, sbr. 3. gr. laga nr. 21/1991, hvort varnaraðili hafi borið starfsheitið framkvæmdastjóri eða fjármálastjóri og hafi setið í framkvæmdastjórn félagsins heldur beri að líta til þess hvaða stjórnunarheimildir varnaraðili hafði og hvort hann hafi haft vald til að hafa áhrif á ákvarðanir sem teknar voru innan félagsins og skuldbundu það. Verður hinn kærði úrskurður staðfestur um annað en málskostnað.

5. Málskostnaður milli aðila var felldur niður með hinum kærða úrskurði með skírskotun til þess að fjárhæð kröfu varnaraðila hafi í upphafi verið tvöfalt hærri en verið lækkuð verulega við munnlegan flutning málsins.

6. Í hinum kærða úrskurði kemur fram að varnaraðili hafi við upphaf málflutnings lækkað upphaflega kröfu sína þar sem hann hafi fallið frá kröfu um bifreiðastyrk og laun á uppsagnarfresti frá ágúst 2019 til mars 2020, auk orlofs á laun fyrir sama tímabil. Eftir þessa breytingu fékk varnaraðili kröfu sína viðurkennda með hinum kærða úrskurði að fráteknum greiðslum frá Atvinnuleysistryggingasjóði fyrir þrjá mánuði, samtals 1.248.981 krónu. Samkvæmt þessu verður sóknaraðila gert að greiða varnaraðila málskostnað í héraði og kærumálskostnað sem ákveðinn verður í einu lagi eins og greinir í úrskurðarorði.

Úrskurðarorð:

        Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

        Sóknaraðili, þrotabú WOW air hf., greiði varnaraðila, Stefáni Eysteini Sigurðssyni, samtals 1.000.000 króna í málskostnað í héraði og fyrir Landsrétti.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 18. júní 2020

 

Mál þetta sem barst Héraðsdómi Reykjavíkur með bréfi mótteknu 16. september 2019 var tekið til úrskurðar þann 25. maí sl. Sóknaraðili er Stefán Eysteinn Sigurðsson, Laugarásvegi 47, Reykjavík, og varnaraðili þb. Wow air hf., Grjótagötu 7, Reykjavík.

 

Sóknaraðili krefst þess að krafa hans á hendur varnaraðila að fjárhæð 15.594.304 krónur, auk dráttarvaxta, frá 1. apríl 2019 af 2.400.000 krónum til 1. maí 2019 og frá þeim degi af 4.800.000 krónum til 1. júní 2019 og frá þeim degi af 7.200.000 krónum til 1. júlí 2019 og frá þeim degi af 15.594.304 krónum til greiðsludags auk málskostnaðar, verði viðurkennd sem forgangskrafa við skiptin, sbr. 112. gr. laga nr. 21/1991.

 

Varnaraðili krefst þess að öllum kröfum sóknaraðila verði hafnað og að staðfest verði sú ákvörðun varnaraðila að synja því að krafa sóknaraðila njóti forgangs skv. 112. gr. laga 21/1991 um gjaldþrotaskipti við skipti á þrotabúi WOW air hf. Þá er þess krafist að kröfur sóknaraðila verði lækkaðar verulega. Varnaraðili krefst einnig málskostnaðar.

 

Við upphaf málflutnings var sérstaklega bókað að sóknaraðili félli frá kröfu sinni um bifreiðastyrk, laun í uppsagnarfresti frá ágúst 2019 til mars 2020 auk orlofs á laun í uppsagnarfresti fyrir það tímabil.   

II

Sóknaraðili hóf störf hjá Wow air hf. þann 14. ágúst 2015 samkvæmt ráðningarsamningi dagsettum 21. júlí 2015 sem framkvæmdastjóri fjármálasviðs eða fjármálastjóri og átti sæti í framkvæmdastjórn félagsins. Gagnkvæmur uppsagnarfrestur samkvæmt samningnum var sex mánuðir. Umsamin mánaðarlaun samkvæmt útgefnum launaseðlum voru 2.400.000 krónur á mánuði. Þann 1. október 2018 var gerður viðauki við ráðningarsamninginn þar sem uppsögn skyldi miðast við tólf mánuði í stað sex mánaða. Jafnframt var ákvæði um að sóknaraðili yrði ekki krafinn um vinnuframlag umfram tvo mánuði í uppsagnarfresti og laun sem hann ynni sér inn hjá öðrum en varnaraðila í uppsagnarfresti kæmu ekki til frádráttar.

 

Þann 28. mars 2019 var bú Wow air. hf. tekið til gjaldþrotaskipta. Fyrri innköllun var birt í Lögbirtingablaði 3. apríl 2019 og veittur fjögurra mánaða kröfulýsingarfrestur. Sóknaraðili sendi kröfulýsingu í þrotabúið sem var móttekin 17. apríl 2019 og fór fram á að þrotabúið viðurkenndi forgangskröfu hans um laun í marsmánuði, tólf mánaða laun í uppsagnarfresti, bifreiðastyrk, orlof og desemberuppbót, samtals að fjárhæð 39.901.424 krónur, með vísan til 112. gr. laga nr. 21/1991. Með bréfi 8. ágúst 2019 hafnaði skiptastjóri varnaraðila því að viðurkenna kröfu sóknaraðila sem forgangskröfu samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991 með vísan til þess að sóknaraðili væri framkvæmdastjóri fjármálasviðs WOW air hf. og því nyti krafa hans ekki forgangs, sbr. 3. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 3. mgr. sömu laga. Þá var því alfarið hafnað að taka mið af viðauka við ráðningarsamning WOW air hf. og sóknaraðila frá 1. október 2019 þar sem uppsagnarfrestur sóknaraðila var lengdur úr 6 mánuðum í 12 mánuði og að laun í uppsagnarfresti drægjust ekki frá við uppgjör launa í uppsagnarfresti.

 

Ekki tókst að jafna ágreining sem uppi var um afstöðu skiptastjóra til viðurkenningar kröfu sóknaraðila á fundi sem haldinn var þann 9. september 2019 og var ágreiningi aðila því vísað til úrlausnar héraðsdóms í samræmi við 2. mgr. 120. gr. laga nr. 21/1991.

 

III

Sóknaraðili vísar til þess að ábyrgð á daglegum rekstri Wow air var í höndum forstjóra og aðstoðarforstjóra sem tóku nær allar ákvarðanir um daglegan rekstur, hvort sem það voru útgjöld eða tekjur. Varnaraðili hafi verið með mjög stóran efnahag miðað við íslensk félög og hafi rekstrartekjur numið um 618 milljónum bandaríkjadala eða 77 milljörðum íslenskra króna.

 

Sóknaraðili vísar til sérstöðu flugrekstrar miðað við önnur félög. Allur rekstur flugfélaga gangi út á flugáætlun sem leggi grunninn að tekju- og kostnaðarhlið rekstursins. Slíkar ákvarðanir séu teknar í rekstrardeild og komi fjármálastjóri ekki beint að slíkum ákvörðunum. Það sé flókið verkefni að raða saman flugáætlun og leiðakerfi, ákveða áfangastaði og tryggja sem besta nýtingu á flugvélum og áhöfnum í samræmi við þá flugafgreiðslutíma (slot) sem viðkomandi félag hefur til umráða. Þessar áætlanir hafi verið unnar í sérstakri deild í nánu samstarfi við forstjóra félagsins og samþykktar af stjórn WOW, án þess að sóknaraðili kæmi að þeim ákvörðunum. Með því að samþykkja flugáætlun hafi um leið allur fastur kostnaður sem fólst í því að fljúga á viðkomandi flugvöll verið ákveðinn.

 

Sóknaraðili vísar jafnframt til þess að við gerð flugáætlana séu ákvarðanir teknar um hversu margar flugvélar séu nýttar. Sérstakur starfsmaður hafi séð um gerð leigu- og kaupsamninga um flugvélar, sem endanlega hafi verið samþykktar af stjórn félagsins, samkvæmt verklagsreglum þess. Þessum ákvörðunum hafi fylgt ýmis kostnaður, eins og viðhaldskostnaður, leigugreiðslur, tryggingar, greiðslur til áhafna o.fl. sem hafi ekkert haft með störf sóknaraðila að gera, enda hafi hann hvorki getað tekið ákvörðun um þennan kostnað né sett sig á móti honum.

 

Sóknaraðili vísar til þess að leiðakerfi og fjöldi flugvéla ráði nánast allri starfsemi flugfélags og bindi um 90% af öllum rekstrarkostnaði. Ákvarðanir um þessa þætti hafi verið teknar af rekstrardeild og stjórn WOW air hf. Hlutverk sóknaraðila hafi verið að vinna úr þessum ákvörðunum.

 

Sóknaraðili vísar til þess að starfsemi Wow air hf. hafi verið skipt upp í tvö svið, rekstrarsvið og þjónustusvið, sem hafi stjórnað kostnaði og tekjum í daglegum rekstri. Fimm stoðsvið hafi síðan verið til stuðnings þessum tveimur sviðum. Rekstrarsvið hafi borið ábyrgð á flugrekstri gagnvart Samgöngustofu. Þessi hluti starfseminnar sé undir ströngu eftirliti og starfi eftir umfangsmiklum reglum Evrópusambandsins og alþjóðlegum skilmálum. Þeir sem beri ábyrgð á flugrekstrinum þurfi að standast próf og hljóta samþykki Samgöngustofu áður en þeir hefji störf, svo sem flugrekstrarstjóri, tæknistjóri og yfirmaður þjálfunarmála. Fjármálastjóri verði að virða ákvarðanir flugrekstrarstjóra enda lúti þær að flugöryggi. Undir rekstrarsviðið heyri síðan viðhaldsdeild, þjálfunardeild og öryggisdeild. Loks sé ákveðinn eftirlitsaðili eða endurskoðunaraðili (e compliance) sem geri reglulega úttektir á öllum þáttum flugrekstrarins og skili skýrslum til Samgöngustofu. Ákvarðanir um viðhald, þjálfun flugmanna, viðbrögð við bilunum og annað séu teknar á flugrekstrarsviði. Hitt meginsviðið hafi verið þjónustusvið sem hafi stjórnað sölukerfi og tekjustýringu félagsins. Þessu sviði stýrði forstjóri og hafi sóknaraðili ekkert með þær ákvarðanir haft að gera.

 

Sóknaraðili hafi veitt forstöðu einni af fimm stoðdeildum félagsins, sem tók ekki ákvarðanir um daglegan rekstur heldur tryggði uppbyggingu innviða, innheimtu, samskipti við lánardrottna, greiningar á fjárhagslegum upplýsingum, samskipti við yfirvöld þar sem félagið var með starfsemi og veitti öðrum sviðum aðhald þegar kom að kostnaði og hvernig mætti ná sem mestri hagræðingu úr þeim ákvörðunum sem teknar höfðu verið. Langstærsti hlutinn hafi snúist um bókhald, greiðslu á reikningum, mánaðarleg uppgjör og gerð ársreikninga. Í skipuriti hafi hagdeild einnig fallið undir fjármálastjóra, en hún hafi séð um kostnaðargreiningar og áætlanagerð, lögfræðisvið sem annaðist yfirlestur samninga, innkaupasvið sem afgreiddi samþykktar innkaupabeiðnir og sjóðstýring sem sá um greiningar á inn- og útflæði og fylgdi eftir ákvörðunum sem forstjóri hafði samþykkt. Stór hluti daglegs rekstrar, eins og t.d. markaðsdeild, söludeild, tölvudeild, og mannauðssvið, hafi hvorki verið undir né á ábyrgð fjármálastjóra. Hlutverk fjármálastjóra hafi verið að tryggja að rekstrarupplýsingar bærust tímanlega, leita tilboða og ná fram hagræðingu varðandi kostnað, vinna alls kyns greiningar til að bæta nýtingu og veita öðrum deildum aðhald, en hann hafi hvorki tekið ákvarðanir varðandi kostnað né tekjuöflun. Heimild fjármálastjóra til að skuldbinda félagið hafi einungis verið 500.000 bandaríkjadalir, sem sé lág fjárhæð í samhengi við heildarrekstur félagsins.

 

Sóknaraðili vísar til þess að í dómi Landsréttar nr. 78/2019 sé reynt að skýra hvað sé átt við með orðalaginu að koma að daglegum rekstri í skilningi 112. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991. Þar komi fram að horfa eigi til þess hvaða stjórnunarheimildir menn hafi og hvort í því hafi falist raunverulegt vald til að hafa áhrif á mikilsverðar ákvarðanir sem skuldbundu félagið. 90% af rekstrarkostnaði hafi verið ákvarðanir sem teknar voru af rekstrarsviði og stjórn án aðkomu sóknaraðila. Þá hafi hann lotið boðvaldi aðstoðarforstjóra og forstjóra og ekki getað skuldbundið félagið nema að mjög takmörkuðu leyti. Þá komi prókúra ekkert við heimild til ákvörðunartöku í rekstri, eins og hér um ræði. Það fái ekki staðist að þetta orðalag geti tekið til allra sem hafi með einhverja daglega stjórnun að gera við að halda daglegum rekstri gangandi og þeir falli þar með undir hugtakið nákominn. Með orðalaginu „dagleg stjórnun“ sé átt við þann sem stýri rekstri félagsins og það að ákvarðanir hans geti haft áhrif á afkomu fyrirtækis og hans eigin afkomu. Sóknaraðili stjórnaði ekki daglegum rekstri og bar ekki meiri ábyrgð á honum en aðrir yfirmenn. Því veki það furðu að hann einn sé tekinn út af öllum yfirmönnum og gerður ábyrgur fyrir rekstri félagsins. Það sé varnaraðila að sýna fram á að hlutverk sóknaraðila hafi verið annað og meira en annarra yfirmanna og að 3.mgr. 112. gr. eigi frekar við um hann en aðra millistjórnendur.

 

IV

Varnaraðili byggir á því að hafna beri því að viðurkenna kröfu sóknaraðila sem forgangskröfu þar sem sóknaraðili hafi gegnt starfi framkvæmdastjóra fjármálasviðs WOW air hf. og jafnframt setið í framkvæmdastjórn félagsins. Sóknaraðili hafi því verið nákominn WOW air hf. í skilningi 3. mgr. 112. gr. gþl., sbr. 3. gr. sömu laga, einkum 5. tölulið, og því beri að hafna kröfu hans.

 

Varnaraðili bendir á að skv. ráðningarsamningi hafi sóknaraðili verið ráðinn sem „Framkvæmdastjóri fjármálasviðs/Fjármálastjóri (CFO)“ og heyrt beint undir forstjóra. Sóknaraðili hafi sem einn af æðstu stjórnendum sinnt daglegum rekstri félagsins, fjármálum þess, áætlanagerð o.fl. og haft sem slíkur bestu yfirsýn yfir fjárhagsstöðu félagsins og jafnframt tekið ákvarðanir um fjárhagsmálefni. Þá hafi hann haft prókúruumboð og því heimild til að skuldbinda félagið og rita firma þess, sbr. 25. gr. laga um verslanaskrá, firmu og prókúruumboð nr. 42/1903, sem og sóknaraðili gerði. Starf hans hafi falist í að stýra fjármálum WOW air hf. og daglegum rekstri félagsins. Samkvæmt 3. mgr. 112. gr. gþl. njóti þeir sem nákomnir eru félagi sem er til gjaldþrotaskipta ekki réttar skv. 1.–3. tl. 1. mgr. 112. gr. fyrir kröfum sínum. Af þeim sökum beri að hafna forgangskröfu sóknaraðila.

 

Varnaraðili mótmælir því sem fram kemur í greinargerð sóknaraðila, að daglegur rekstur WOW air hf. hafi verið í höndum aðstoðarforstjóra fram í janúar 2019 og frá þeim tíma í höndum forstjóra félagsins. Í samþykktum WOW air hf., sbr. 18. gr.,. komi fram að stjórn félagsins ráði framkvæmdastjóra og ákveði starfskjör hans. Framkvæmdastjóri hafi með höndum stjórn á daglegum rekstri félagsins og komi fram fyrir þess hönd Það sé því ljóst að fullyrðing sóknaraðila um að forstjóri félagsins hafi séð um allan daglegan rekstur félagsins sé í ósamræmi við það sem fram komi í samþykktum félagsins. Samkvæmt skipuriti hafi ekki einn aðili verið framkvæmdastjóri félagsins, heldur verið til staðar framkvæmdastjórn, sem allir framkvæmdastjórar félagsins áttu sæti í, þ.á.m. sóknaraðili.

 

Samkvæmt samþykktum félagsins hafi staða fjármálastjóra falið í sér að sóknaraðili hafði með höndum stjórn á daglegum rekstri félagsins á fjármálasviði og kom fram fyrir þess hönd í öllum málum sem vörðuðu daglegan rekstur þess sviðs. Sóknaraðili hafi jafnframt haft ákvörðunarvald um allt það sem viðkom daglegum rekstri félagsins og varðaði fjármál þess. Sóknaraðili hafi skuldbundið félagið með ákvörðunum sínum og m.a. haft ákvörðunarvald um greiðslu reikninga á hendur félaginu, staðið að gerð fjármálaáætlana og gerð ársreikninga félagsins og fleira.

 

Samkvæmt 3. mgr. 112. gr. gþl. njóti þeir sem hafa með höndum framkvæmdastjórn félags ekki forgangsréttar fyrir kröfum um laun og annað endurgjald. Tilgangur ákvæðisins sé að fyrirbyggja að forráðamenn gjaldþrota félaga sem hafa farið með ákvörðunarvald um málefni félagsins, og þá aðallega ákvörðunarvald um fjárhagsleg málefni, njóti forgangsréttar fyrir kröfum sínum. Byggir varnaraðili á því að sóknaraðili falli ótvírætt undir þá skilgreiningu enda komi fram í ráðningarsamningi að hann hafi verið ráðinn sem framkvæmdastjóri og farið með daglegan rekstur félagsins á fjármálasviði þess.

 

Varnaraðili telur að gögn málsins sýni fram á að sóknaraðili hafi sem fjármálastjóri félagsins haft með höndum daglegan rekstur félagsins á fjármálasviði og af þeim sökum geti launakrafa hans ekki talist til forgangskrafna við skipti á þrotabúinu, sbr. 3. mgr. 112. gr. gþl. Telur varnaraðili að þær fullyrðingar sem fram koma í greinargerð sóknaraðila þess efnis að daglegur rekstur hafi verið í höndum annarra aðila geti engu breytt þar um, enda séu fullyrðingarnar ósannaðar og í ósamræmi við gögn málsins, þ.á.m. samþykktir WOW air hf. og ráðningarsamning sóknaraðila, auk tilheyrandi ákvæða hlutafélagalaga. Þá telur varnaraðili að þó sóknaraðili hafi ekki haft með höndum allan daglegan rekstur WOW air hf. hafi hann haft með höndum daglegan rekstur sem hafi varðað fjárhagsleg málefni fyrirtækisins, þ.á.m. greiðslu reikninga, gerð mánaðarlegra uppgjöra og ársreikninga, greiningu á inn- og útflæði sjóðsstýringar, afgreiðslu á samþykktum innkaupabeiðnum, bókhaldsmál, kostnaðaraðhald, kostnaðargreiningu o.fl. Daglegur rekstur hafi því sannarlega verið í höndum sóknaraðila í skilningi gjaldþrotalaga.

 

Þá telur varnaraðili að ekki sé hægt að leggja stöðugildi varnaraðila, sem framkvæmdastjóra fjármálasviðs, að jöfnu við t.d. stöðu framkvæmdastjóra leiðakerfis eða framkvæmdastjóra samskiptasviðs, eins og sóknaraðili byggi á í greinargerð sinni, enda leiði það af eðli máls að hlutverk framkvæmdastjóra fjármálasviðs með prókúruumboð og umboð til ritunar firma feli í sér víðtækar heimildir til að skuldbinda félagið og jafnframt hafi framkvæmdastjóri slíks sviðs að sjálfsögðu víðtækari upplýsingar um fjárhagsleg málefni félags. Telur varnaraðili því rétt að fullyrða að ákvarðanir aðila í slíkri stöðu séu líklegri til að eiga þátt í gjaldþroti félags en ákvarðanir framkvæmdastjóra annarra sviða.

 

Varnaraðili byggir á því að vegna stöðu sinnar hafi sóknaraðili haft upplýsingar um bága fjárhagsstöðu WOW air hf. í langan tíma fyrir gjaldþrot félagsins og að honum hafi m.a. átt að vera kunnugt um að félagið stefndi í gjaldþrot. Þá ákvörðun hans að fyrirskipa gjaldkera félagsins að greiða Títan fjárfestingarfélagi, félagi í eigu forstjóra félagsins, yfir 100 milljónir þann 6. febrúar 2019, löngu fyrir gjalddaga þeirrar kröfu, verði að telja ámælisverða, en hún staðfesti m.a. stöðu sóknaraðila hjá félaginu.

 

Fari svo að krafa sóknaraðila eigi að njóta forgangs skv. 112. gr. gþl. byggir varnaraðili á því að ekki skuli taka mið af viðauka við ráðningarsamning frá 20. desember 2018., þar sem uppsagnarfrestur var lengdur úr sex mánuðum í tólf og kveðið á um að laun í uppsagnarfresti drægjust ekki frá við uppgjör launa á þeim tíma. Viðaukinn hafi verið gerður einungis þremur mánuðum áður en WOW air hf. var úrskurðað gjaldþrota og ljóst hvert stefndi. Sóknaraðila sem framkvæmdastjóra fjármálasviðs/fjármálastjóra mátti vera það ljóst að um óforsvaranlegan örlætisgerning væri að ræða, sem hefði engan veginn haldið gagnvart riftunarreglum gjaldþrotaréttarins hefði komið til greiðslna samkvæmt honum. Slíkur uppsagnarfrestur sé auk þess úr öllum takti við það sem tíðkist á almennum vinnumarkaði. Varnaraðili vísar jafnframt il 96. gr. gþl. og Hrd. nr. 671/2012. Þá byggir varnaraðili á því að krafa sóknaraðila vegna uppsafnaðs orlofs sé vanreifuð, enda hvorki í kröfulýsingu né í greinargerð sóknaraðila útskýrt hvernig hún sé fundin. Þá byggir varnaraðili á því að lækka beri kröfur sóknaraðila sem nemi tekjum hans hjá öðrum í uppsagnarfresti. Skorað er á sóknaraðila að leggja fram í málinu staðgreiðsluyfirlit er staðfesti tekjur hans hjá öðrum í uppsagnarfresti og mótmæli varnaraðili fjárhæð kröfu sóknaraðila, m.a. um orlof, orlofsuppbót, desemberuppbót, bifreiðastyrk o.fl.

 

IV

Samkvæmt 3. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991 skulu þeir sem nákomnir eru félagi sem er tekið til gjaldþrotaskipta ekki njóta forgangsréttar skv. 1.–3. tölul. 1. mgr. fyrir kröfum sínum. Þessu ákvæði var breytt með lögum nr. 95/2010 í tengslum við breytingu á hugtakinu nákomnir í 3. gr. frumvarpsins. Hugtakið nákomnir er skilgreint í 3. gr. laganna en þar segir að átt sé við mann og félag sem hann eða maður honum nákominn á verulegan hlut í eða þar sem hann eða maður honum nákominn situr í stjórn eða stýrir daglegum rekstri.

 

Samkvæmt 3. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991, eins og hún hljóðaði fyrir breytingu laga nr. 95/2010, gat sá sem hafði með höndum framkvæmdastjórn félags sem var til gjaldþrotaskipta ekki notið forgangsréttar fyrir kröfum sínum, sem ella hefði verið skipað í réttindaröð samkvæmt 1., 2. eða 3. tölulið 1. mgr. fyrrnefndu lagagreinarinnar. Í 3. mgr. 112. gr. laganna var ekki rætt um starfsheiti þeirra sem ákvæðið tók til, heldur tók það samkvæmt orðanna hljóðan til þeirra sem fóru með framkvæmdastjórn félags eða stofnunar.

 

Í greinargerð með lögum nr. 95/2010 er vísað til þess að við stjórn félaga eða annarra lögaðila hafi þeir helst áhrif sem sitja í stjórn eða stýra daglegum rekstri. Yfirleitt séu stjórnendur lögaðila í þeirri aðstöðu í krafti eignaraðildar og teljist því nákomnir í skilningi 3. gr. laganna. Það sé þó ekki sjálfgefið að sá sem situr í stjórn eða stýrir daglegum rekstri sé eigandi og því þyki rétt að rýmka hugtakið nákomnir þannig að það taki einnig til stjórnenda. Hvorki nákomnir né þeir sem átt hafa sæti í stjórn eða hafa haft með höndum framkvæmdastjórn félags njóta forgangsréttar í þrotabú fyrir launum en með því að rýma hugtakið nákomnir taki það jafnframt til stjórnarmanna og þeirra sem stýra daglegum rekstri.

 

Af framangreindu verður ráðið að þegar horft er til þess hver sé nákominn í skilningi ákvæðisins sé ekki eingöngu átt við þann sem er titlaður framkvæmdastjóri í samræmi við 68. gr. hlutafélagalaga nr. 2/1995 heldur geti það einnig tekið til forráðamanns félags sem hefur raunverulega yfirmannsstöðu sem felur í sér stjórn á daglegum rekstri félagsins.

 

Við mat á því hvort sóknaraðili teljist nákominn í skilningi 3. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 3. gr. laganna, ræður ekki úrslitum að hann hafi borið titilinn fjármálastjóri og setið í framkvæmdastjórn félagsins, heldur ber að horfa til þess, meðal annars, hvaða stjórnunarheimildir hann hafði og hvort í stöðu hans hafi falist raunverulegt vald til að hafa áhrif á mikilsverðar ákvarðanir sem teknar voru innan félagsins og gátu skuldbundið það. Með mikilsverðum ákvörðunum verður að miða við að átt sé við ákvarðanir sem hafi afgerandi áhrif í rekstri félagsins.

 

Sóknaraðili í þessu máli var fjármálastjóri félagsins. Samkvæmt skipuriti felur verkefni fjármálastjóra í sér yfirstjórn á fjármálasviði fyrirtækisins þar sem fjármálastjóri ber ábyrgð á uppgjöri bókhalds, gerð fjárhagsáætlana, fjármögnun, lögfræðisviði, innkaupum og samræmingu fjármála hjá erlendum starfsstöðvum. Fjármálastjóri sækir umboð sitt til forstjóra, a.m.k. eftir að sérstakur aðstoðarforstjóri hætti störfum, og fylgir því skipulagi sem stjórn félagsins hefur samþykkt. Starfið felur ekki í sér að taka ákvarðanir heldur að sjá til þess að fyrir hendi séu verkferlar innan félagsins til að framfylgja þeim ákvörðunum sem hafa verið teknar þannig að þær skili sér m.a. inn í bókhald og rekstraruppgjör félagsins.

 

Sóknaraðili er endurskoðandi að mennt, sem er dæmigerð menntun fyrir fjármálastjóra, a.m.k. í stærri fyrirtækjum. Sem fjármálastjóri var hann mikilvægur ráðgjafi fyrir stjórnendur félagsins þar sem hann hafði yfirsýn yfir ýmsar rekstrarforsendur, eins og viðskiptakjör, fjármagnskostnað, lausafjárstýringu o.fl. Starfið var dæmigert ráðgjafarstarf þar sem fjármálastjórinn var mikilvægur álitsgjafi varðandi þær afleiðingar sem einstakar ákvarðanir kynnu að hafa, t.d. við stýringu á lausafé félagsins o.fl. Hann tók hins vegar sem fjármálastjóri engar ákvarðanir um að ráðstafa fjármunum og gat hvorki komið í veg fyrir né borið ábyrgð á því hvaða ákvarðanir væru teknar sem skiptu sköpum um rekstur félagsins. Almennt verður að telja að fjármálastjórar falli ekki undir hugtakið nákomna í skilningi 3. mgr. 112. gr. gjaldþrotalaga nr. 21/1991, nema eitthvað annað og meira komi til, sbr. t.d. Hrd. 440/2010, þar sem framkvæmdastjóri fjármálasviðs var jafnframt aðstoðarforstjóri félagsins.

 

Samkvæmt skipuriti félagsins skiptist rekstur þess í tvö meginsvið sem voru annars vegar flugrekstrarsvið, (e Flight operations safety and efficiency) og viðskiptavið (e Commercioal customer expericence). Forstjóri félagsins og aðaleigandi þess var jafnframt framkvæmdastjóri fyrir viðskiptasvið félagsins. Fyrir þessi tvö svið voru síðan fimm stoðsvið og var fjármálasvið eitt þeirra og sóknaraðili framkvæmdastjóri þess. Varnaraðili hefur vísað til þess að samkvæmt 18. gr. samþykkta félagsins hafi verið starfandi sérstök framkvæmdastjórn skipuð framkvæmdastjórum félagsins. Þessu hefur ekki verið mótmælt af hálfu sóknaraðila, en hvorki liggja fyrir í gögnum málsins samþykktir né starfsreglur um hlutverk framkvæmdastjórnar og hversu oft hún kom saman. Verður ekki fallist á að slík framkvæmdastjórn í félagi, sem heyrði undir forstjóra og einnig aðstoðarforstjóra, stærsta hluta þess tíma sem sóknaraðili gegndi störfum í félaginu, hafi farið með daglegan rekstur félagsins í skilningi 3. mgr. 112 gr. laga nr. 21/1991. Þá verður ekki séð af skipuriti að framkvæmdastjórn félagsins hafi verið skipuð öðrum en forstjóra og aðstoðarforstjóra, þó hugsanlegt sé að einstakar ákvarðanir sem lutu að rekstri félagsins hafi verið teknar á vettvangi framkvæmdastjórnar. Sóknaraðili var einungis einn af sjö framkvæmdastjórum og gat því haft takmörkuð áhrif á rekstur félagsins á þeim vettvangi, a.m.k. sem verði jafnað til þess að hafa séð um daglegan rekstur og tekið mikilsverðar ákvarðanir sem höfðu afgerandi áhrif á afkomu félagsins. Verður því ekki talið að seta hans í framkvæmdastjórn hafi falið í sér raunverulegt vald til að hafa áhrif á mikilsverðar ákvarðanir sem teknar voru innan félagsins, sbr. einnig Lrd. 61/2019 og Lrd. 78/2019. Þá hefur sóknaraðili vísað til þess að aðrir framkvæmdastjórar í félaginu hafi fengið kröfur sínar viðurkenndar sem forgangskröfur og hefur þeirri fullyrðingu ekki verið mótmælt af hálfu varnaraðila.

 

Sóknaraðili hafði prókúru fyrir félagið, sem getur skipt máli við mat á því hvort hann teljist nákominn í skilningi 3. gr. laga nr. 21/1991, enda hluti af stjórnunarheimildum. Þetta atriði getur þó ekki eitt og sér ráðið úrslitum um það hvort sóknaraðili teljist nákominn heldur þarf að meta hvers vegna sóknaraðili hafði slíkt umboð og þá um leið hvort það var veitt vegna þátttöku sóknaraðila í daglegum rekstri félagsins eða til að veita honum svigrúm til þess að taka ákvarðanir um að skuldbinda félagið. Í málinu eru hvorki lögð fram gögn um það að umrætt prókúruumboð hafi komið til vegna þátttöku sóknaraðila í daglegum rekstri félagsins né að sóknaraðili hafi tekið mikilsverðar ákvarðanir á grundvelli þessa umboðs. Hvort tveggja verður auk þess að teljast fremur ólíklegt miðað við stöðu sóknaraðila og stjórnskipulag félagsins. Í rekstri félags af þessum toga, þar sem gera má ráð fyrir töluverðri fjarveru daglegra stjórnenda vegna starfsemi félagsins, hlýtur það að vera óhjákvæmilegt að fela einhverjum öðrum starfsmanni slíkt umboð, og þá hugsanlega fjármálastjóra sem ætti að þekkja til stærstu samninga félagins þó hann taki ekki ákvörðun um þá. Ganga má út frá því að slík tilhögun komi fyrst og fremst til vegna hagnýtra sjónarmiða en endurspegli ekki aukna þátttöku í daglegum rekstri eða aukin völd sóknaraðila til að taka mikilsverðar ákvarðanir, enda hafa engin gögn verið lögð fram um það.   

 

Laun sóknaraðila voru 2.400.000 krónur á mánuði. Þó að slík laun séu vissulega há liggja engin gögn fyrir um það hvort fjármálastjóri hafi haft hærri laun en aðrir framkvæmdastjórar félagsins. Ekkert liggur fyrir um annað en að launin, þó há séu, endurspegli frekar laun millistjórnanda hjá stóru félagi en forstjóra eða stjórnanda í svipaðri stöðu.  

 

Með vísan til framangreinds verður fallist á kröfu sóknaraðila í málinu að öðru leyti en því að frá kröfunni dragast greiðslur frá Atvinnuleysistryggingasjóði í apríl, maí og júní, 1.248.981 kr., út frá þeirri meginreglu vinnu- og skaðabótaréttar að greiðslur frá þriðja aðila dragist frá kröfu um laun í uppsagnarfresti, sbr. einnig 2. tl. 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.

 

Með vísan til þess að fjárhæðarkrafa sóknaraðila, sem í upphafi var rúmlega tvöfalt hærri, var lækkuð verulega við munnlegan málflutning þykir rétt að málskostnaður falli niður. 

 

Af hálfu sóknaraðila flutti málið Guðmundur B. Ólafsson lögmaður. Af hálfu varnaraðila flutti málið Þorsteinn Einarsson,lögmaður.

 

Helgi Sigurðsson kveður upp úrskurð þennan. Málinu var úthlutað til dómara 28. febrúar sl.

 

Úrskurðarorð:

Samþykkt er að krafa sóknaraðila að fjárhæð 14.345.323 krónur, auk dráttarvaxta frá 1. apríl 2019, af 1.983.673 krónum til 1. maí 2019 og frá þeim degi af 3.967.346 krónum til 1. júní 2019 og frá þeim degi af 5.951.019 krónum til 1. júlí 2019 og frá þeim degi af 14.345.323 krónum njóti forgangs við gjaldþrotaskiptin samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991.

Málskostnaður fellur niður.