Hæstiréttur íslands
Mál nr. 276/2016
Lykilorð
- Kærumál
- Kæra
- Barnavernd
- Vistun barns
- Frávísun frá Hæstarétti
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Eiríkur Tómasson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 1. apríl 2016, en kærumálsgögn bárust réttinum 15. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Vestfjarða 30. mars 2016, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að fella úr gildi úrskurð varnaraðila 29. febrúar sama ár þess efnis að sonur þeirra yrði vistaður á vegum varnaraðila í allt að tvo mánuði. Kæruheimild er í 1. mgr. 64. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Sóknaraðilar krefjast þess að hinn kærði úrskurður „verði felldur úr gildi.“ Þá er krafist kærumálskostnaðar eins og málið væri eigi gjafsóknarmál.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Í 1. mgr. 64. gr. barnaverndarlaga er að finna ákvæði um málskot úrskurða héraðsdóms sem kveðnir eru upp samkvæmt XI. kafla laganna og taka meðal annars til úrskurða um vistun barns utan heimilis, sbr. 3. mgr. 27. gr. þeirra. Í 1. mgr. 64. gr. er tekið fram að um kærufrest, kæruna sjálfa og meðferð hennar í héraði og fyrir Hæstarétti gildi sömu reglur og um kæru í almennu einkamáli. Í 1. mgr. 145. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála segir að greina skuli í kæru til Hæstaréttar þá dómsathöfn sem kærð sé, kröfu um breytingu á henni og þær ástæður, sem kæra sé reist á. Svo sem fram er komið gerðu sóknaraðilar í kæru til Hæstaréttar aðeins kröfu um ógildingu hins kærða úrskurðar og var sama krafa höfð uppi í greinargerð þeirra hér fyrir dómi. Sóknaraðilar byggja aftur á móti ekki á því að annmarkar hafi verið á meðferð málsins í héraði og úrskurði héraðsdóms sem leiða eigi til þess að hann skuli ómerktur, heldur leita þau eftir efnislegri niðurstöðu um hvort réttmætt hafi verið af hálfu varnaraðila að vista son þeirra tímabundið utan heimilis. Kröfugerð sóknaraðila hér fyrir dómi getur því ekki leitt til þeirra efnislegu lykta sem þau stefndu að með málsókn sinni. Er kæra sóknaraðila að þessu leyti í ósamræmi við b. lið 1. mgr. 145. gr. laga nr. 91/1991, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 14. desember 2015 í máli nr. 785/2015. Samkvæmt þessu verður málinu vísað frá Hæstarétti.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti dæmist ekki, en um gjafsóknarkostnað sóknaraðila fyrir Hæstarétti fer samkvæmt því sem greinir í dómsorði
Dómsorð:
Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Allur gjafsóknarkostnaður sóknaraðila, A og B, greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns þeirra 400.000 krónur.
Úrskurður Héraðsdóms Vestfjarða 30. mars 2016.
I
Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar 23. mars sl., barst dóminum 4. mars 2016, með kæru sóknaraðila, dagsettri 3. sama mánaðar.
Sóknaraðilar eru A, kennitala [...], [...], [...], Reykjavík, og B, kennitala [...], [...], [...].
Varnaraðili er barnaverndarnefndin á C.
Sóknaraðilar krefjast þess að úrskurður varnaraðila, sem kveðinn var upp 29. febrúar sl., í máli sonar þeirra, D, kennitala [...], verði felldur úr gildi. Þá gera þau kröfu um greiðslu málskostnaðar samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi, að viðbættum virðisaukaskatti, á grundvelli 1. mgr. 60. gr. laga nr. 80/2002, eins og eigi væri um gjafsóknarmál að ræða.
Varnaraðili krefst þess að öllum kröfum sóknaraðila verði hafnað. Af hálfu varnaraðila er ekki krafist málskostnaðar.
II
Í kæru sinni krefst sóknaraðili þess að úrskurður varnaraðila frá 29. febrúar 2016 verði felldur úr gildi, en í úrskurðarorði segir:
Barnaverndarnefnd á [C] úrskurðar samkvæmt a-lið 27. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 að barnið [D] kt. […], skuli vera kyrrt á þeim stað sem það dvelst, í allt að tvo mánuði, frá deginum í dag að telja, 29. febrúar 2016. Á meðan úrskurðurinn er í gildi mun frekari könnun á aðstæðum foreldra fara fram.
Mál þetta varðar drenginn D sem nú er tæplega tveggja ára gamall, fæddur [...]. Sóknaraðilar, foreldrar D, voru í sambúð og eiga einnig saman drenginn E, fæddan [...]. Þau slitu sambúð sinni um tíma veturinn 2014 til 2015 en hafa nú hafið sambúð á ný og fara sameiginlega með forsjá drengjanna. Þau búa nú ásamt eldri drengnum í sumarbústað í [...], [...], í nágrenni [...]. D dvelst nú á heimili á vegum varnaraðila.
Sóknaraðilar lýsa málsatvikum svo í kæru að þau hafi verið sökuð um vanrækslu barnanna og fíkniefnaneyslu. Faðir hafi orðið að nota verkjalyf samkvæmt ávísun læknis vegna verkja í kjölfar slyss. Móðir hafi um tíma flust til [...] og hafi búið þar með eldri drenginn en sá yngri hafi á meðan verið hjá föður sínum í [...]þar sem þeir bjuggu hjá föðurömmu drengsins. Drengurinn var tekinn af föður og vistaður utan heimilis á vegum varnaraðila 7. ágúst 2015 með neyðarráðstöfun sem staðfest var 17. ágúst 2015 og úrskurðað að drengurinn yrði vistaður utan heimilis á vegum nefndarinnar í tvo mánuði. Var sá úrskurður kærður en síðar náðist sátt í málinu þar sem sóknaraðilar féllu frá kærunni og gerð var áætlun um meðferð máls sem þau undirrituðu. Sóknaraðilar voru ósáttir við framkvæmd og fyrirkomulag umgengni og töldu sig geta boðið drengnum viðunandi uppeldisaðstæður, enda væru þau ekki í fíkniefnaneyslu og riftu þau samkomulaginu 10. desember 2015. Var drengurinn þá kyrrsettur á vistunarheimilinu og kveðinn upp úrskurður á fundi varnaraðila 15. desember 2015 um að drengurinn yrði kyrrsettur á þeim stað sem hann dvaldi í allt að tvo mánuði. Sóknaraðilar kærðu úrskurðinn til Héraðsdóms Vestfjarða sem hafnaði kröfu um að fella úrskurðinn úr gildi. Hefur drengurinn verið vistaður óslitið á vegum varnaraðila síðan þrátt fyrir að varnaraðili hafi samþykkt á fundi sínum 11. febrúar 2016 að falla frá fyrirhugaðri kröfu um að drengurinn yrði vistaður utan heimils í sex mánuði. Í bókun nefndarinnar segir: „Framlögð gögn sem bárust þann 10. og 11. febrúar 2016 gefa til kynna að aðstæður hafi batnað á heimili barnsins, að foreldrar séu vímuefnalausir, að aðstæður á heimili séu viðunandi og að umönnun eldri bróður sé vel sinnt af foreldrum.“ Þá lá fyrir umsögn F, félagsmálastjóra í [...], í tölvubréfi dagsettu 5. febrúar 2016, þar sem segir um eldri son sóknaraðila sem er í þeirra umsjón: „Er alltaf snyrtilegur til fara og klæddur eftir veðri. Kemur yfirleitt á réttum tíma í skólann. Les heima á hverjum degi og skilar heimanámi.“ Þá lá einnig fyrir niðurstaða rannsóknar á fíkniefnaprufu móður 29. janúar 2016 þar sem móðir reyndist neikvæð, en samkvæmt fyrstu skoðun jákvæð. Telja sóknaraðilar að þessi niðurstaða sýni enn frekar hvað fyrsta skoðun á þeim fíkniefnaprufum sem varnaraðili hefur byggt á í málinu sé ónákvæm. Einnig lágu fyrir á fundinum upplýsingar G, félagsráðgjafa, dagsettar 8. febrúar 2016.
Þá lýsa sóknaraðilar því að starfsmaður varnaraðila, H, félagsráðgjafi, hafi skrifað greinargerð sem lögð var fram á fundinum og rökstutt þar tillögu um að gerð yrði krafa fyrir dómi um vistun drengsins utan heimilis í sex mánuði. Hún lét lögmann sóknaraðila vita af niðurstöðu fundarins en sagði jafnframt að að hún væri ósátt við niðurstöðuna og teldi að kerfið hefði brugðist barninu en samkvæmt niðurstöðu nefndarinnar gætu foreldrar sótt drenginn í samráði við sig þá strax. Sóknaraðilar reyndu í framhaldi af þessu að sækja drenginn á flugvöllinn en þar átti að afhenda móður drenginn. Þegar að því kom var það ekki unnt því drengurinn hafði aftur verið kyrrsettur og sagt að fjórar tilkynningar hafi borist um óviðunandi aðstæður og fíkniefnaneyslu sóknaraðila. Í kjölfar þess var málið lagt fyrir nefndina 29. febrúar, án þess að fíkniefnapróf væri gert eða húsnæði sóknaraðila kannað frekar og þrátt fyrir að fyrir lægi jákvæð umsögn umsjónarkennara eldri sonar sóknaraðila sem er í þeirra umsjón. Að sögn föðurömmu drengsins hafi H hafa hringt í hana og spurt út í aðstæður hjá sóknaraðilum og virðist það hafa verið skráð sem tilkynning um vanrækslu og segir amma drengsins að rangt sé haft eftir sér í gögnum barnaverndarnefndar.
Í greinargerð varnaraðila er hvað málsatvik varðar vísað til hins kærða úrskurðar og málsgagna og er málsatvikum að öðru leyti lýst til samræmis við það sem fram kemur í málsgögnum. Þá er atvikalýsingu sóknaraðila mótmælt að því leyti sem hún er ósamrýmanleg málavaxtalýsingu varnaraðila. Þá kemur fram í greinargerð að auk þess sem segir í úrskurðarorði, og þegar hefur verið rakið, þá komi fram í bókun varnaraðila af fundinum 29. febrúar sl. að jafnframt hafi verið samþykkt að gert yrði foreldrahæfnismat á sóknaraðilum. Þá kemur fram í greinargerð að mál drengsins hafi verið í stöðugri vinnslu hjá varnaraðila frá því síðari hluta árs 2014 þegar tilkynningar fóru að berast varnaraðila um vanrækslu á umsjón og eftirliti drengsins og bróður hans, vímuefnaneyslu sóknaraðila og óvissu um hæfni þeirra til að annast drenginn. Í kjölfar tilkynningar frá starfsmanni varnaraðila 16. september 2014 þar sem tilkynnt var að bræðurnir væru mikið í pössun hjá móðurömmu sinni sem væri að eigin sögn ekki fær um það, var móðir boðuð í viðtal hjá varnaraðila. Niðurstaða viðtalsins var sú að hún myndi ekki skilja þá eftir í umsjá móður sinnar.
Þann 14. nóvember 2014 barst tilkynning undir nafnleynd um að faðir drengjanna væri í daglegri neyslu fíkniefna og æki bifreið undir áhrifum vímuefna með þá í bifreiðinni. Þann 18. s.m. barst varnaraðila tilkynning undir nafnleynd, um að hreinlæti væri ábótavant í íbúð fjölskyldunnar. Tveimur dögum síðar, eða 20. nóvember 2014, barst varnaraðila þriðja tilkynningin um vímuefnaneyslu sóknaraðila, einnig undir nafnleynd. Þar var tekið fram að báðir sóknaraðilar væru í daglegri fíkniefnaneyslu og að fíkniefni væru á heimilinu þar sem drengirnir byggju. Þann 26. s.m. barst varnaraðila enn tilkynning um daglega vímuefnaneyslu sóknaraðila. Starfsmenn varnaraðila hafi strax frá upphafi reynt að fylgjast náið með aðstæðum drengjanna og liðsinna sóknaraðilum en mjög erfiðlega hafi gengið að fá þau í viðtal.
Varnaraðila hafi áfram borist tilkynningar vegna aðstæðna drengjanna og ástands sóknaraðila. Þann 30. nóvember 2014 barst tilkynning frá lögreglu um heimilisofbeldi á heimili sóknaraðila. Að nýju voru sóknaraðilar boðuð í viðtal vegna tilkynninga, bæði með bréfi og símtali, en mættu ekki. Þann 17. desember s.á. barst síðan tilkynning frá Grunnskólanum á [...] þar sem kom fram að bróðir drengsins hefði greint starfsmanni skólans frá greindu heimilisofbeldi. Þegar loks náðist í sóknaraðila viðurkenndi móðir fíkniefnaneyslu en sagðist vera hætt neyslu. Faðir viðurkenndi einnig neyslu kannabis sem hann sagði hjálpa sér að glíma við þunglyndi. Samþykktu sóknaraðilar að vera í samstarfi við varnaraðila til að bæta hag barnanna og undirrituðu hvort fyrir sig áætlun um meðferð málsins samkvæmt 23. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Markmið áætlananna var að tryggja öryggi drengjanna á tímabilinu, styðja sóknaraðila við að búa sonum þeirra tryggar uppeldisaðstæður í framtíðinni, ganga úr skugga um að sóknaraðilar væru edrú og styðja þá við að viðhalda „edrúmennsku“ auk þess að ganga úr skugga um að börnin væru ekki skilin eftir í umsjá óhæfs einstaklings. Í áætlun móður drengjanna voru jafnframt rakin hlutverk barnaverndaryfirvalda og hennar við að framfylgja áætluninni, s.s. möguleiki á sálfræðiþjónustu fyrir sóknaraðila og stuðningsfjölskyldu fyrir drengina, greiðsla fyrir mötuneyti og dægradvöl fyrir eldri drenginn, regluleg viðtöl hjá ráðgjafa barnaverndarnefndar, fyrirvaralaus fíkniefnapróf og að tilsjónarmaður kæmi á heimilið einu sinni í viku en einu sinni til tvisvar sinnum á tímabilinu yrðu óvæntar heimsóknir. Jafnframt skuldbatt móðir sig til að halda sig frá allri neyslu vímuefna, vinna að markmiðum áætlunarinnar í samstarfi við varnaraðila, mæta í tíma hjá sálfræðingi og í viðtöl hjá ráðgjafa, taka á móti heimsóknum tilsjónaraðila með jákvæðum hætti og nýta þjónustu stuðningsfjölskyldu. Faðir drengjanna samþykkti sambærileg stuðningsúrræði auk skipunar persónulegs ráðgjafa en samþykkti ekki að hafa tilsjónaraðila.
Varnaraðili hélt áfram að boða sóknaraðila í viðtöl til að fylgjast með gangi mála. Í viðtali við móður 27. janúar 2015 tók hún fram að hún fengi enga hjálp frá föður og að hún væri búin að glíma við mikla vanlíðan. Hún sagðist þó vera að taka sig á og væri staðráðin í að hugsa vel um drengina og sig sjálfa. Þá hafi faðir drengjanna einnig komið í viðtal.
Í tengslum við könnun málsins óskaði varnaraðili eftir upplýsingum m.a. frá Lögreglustjóranum á Vestfjörðum og Heilsugæslunni á [...]. Bárust upplýsingar frá lögreglu 19. febrúar 2015 þar sem lýst var afskiptum lögreglu af drengjunum og sóknaraðilum frá árinu 2008. Þar er meðal annars rakið að faðir drengjanna hafi þrisvar frá 10. nóvember 2014 til 20. janúar 2015 verið handtekinn grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna. Þá hafi hann verið handtekinn í lok september 2014 fyrir að áreita ferðamann. Í október s.á. hafi faðir lent í bílveltu ásamt bróður sínum og hafi fundist sprautunálar, kannabis og töfluspjald merkt Sobril, í og við bifreiðina. Í nóvember 2014 var gerð húsleit á heimili móðurömmu drengjanna, sem þá voru í heimsókn hjá henni, og kannabisefni í eigu móðurbróður drengjanna haldlagt. Einnig er greint frá heimilisofbeldi sem var tilkynnt til varnaraðila í nóvember 2014. Loks er greint frá því að móðir hafi 19. desember 2014 verið stöðvuð við akstur bifreiðar og þá viðurkennt neyslu á kannabisefnum. Loks bárust þær upplýsingar frá Lögreglustjóranum á Vestfjörðum 15. september 2015 að sóknaraðilar hafi verið ákærð fyrir akstur undir áhrifum ólöglegra ávana- og fíkniefna í þeim tilvikum sem rakin voru í erindi lögreglunnar 19. febrúar til varnaraðila auk annarra tilvika, s.s. 9. apríl sl. í tilviki föður drengjanna, ásamt því að vera ákærð fyrir framleiðslu og ræktun á kannabisplöntum. Með dómi Héraðsdóms Vestfjarða frá [...] 2016 voru sóknaraðilar sakfelld fyrir umrædd brot.
Varnaraðila bárust á þessu tímabili jafnframt ítrekaðar tilkynningar frá Grunnskólanum á [...] um dræma mætingu eldri drengsins í skóla og áhyggjur skólayfirvalda af almennri umönnun hans. Samhliða tilkynningunum voru sóknaraðilar ítrekað boðuð í viðtal hjá varnaraðila vegna skólamála, en mættu yfirleitt ekki.
Þann 13. mars 2015 náðist í móður drengjanna símleiðis og var hún beðin um að koma í viðtal sem hún gerði ásamt föður drengjanna þann sama dag. Sóknaraðilar neituðu bæði því bæði að hafa neytt fíkniefna. Á fundinum 13. mars 2015 var móðir drengjanna beðin um að gefa þvagsýni svo hægt yrði að kanna hvort einhver fíkniefni mældust í því. Móðir gaf þvagsýni í ToxCup fíkniefnapróf og mældist það jákvætt fyrir kannabis. Viðurkenndi hún þá að hafa nýlega notað kannabisefni þrátt fyrir fullyrðingar um annað stuttu áður. Faðir neitaði að gefa þvagsýni. Í viðtalinu 13. mars 2015 var undirrituð ný áætlun um meðferð máls samkvæmt 23. gr. barnaverndarlaga þar sem sóknaraðilum voru boðin ýmis stuðningsúrræði. Þann 20. mars 2015 bárust varnaraðila að nýju upplýsingar um að sóknaraðilar væru bæði í neyslu kannabisefna. Upplýsti tilkynnandi m.a. að faðir drengjanna væri í daglegri neyslu kannabisefna. Þá hafði tilkynnandi jafnframt áhyggjur af því að móðir væri í neyslu. Einnig greindi tilsjónaraðili frá því að móðir hefði síðustu vikuna í mars viðurkennt að hún hefði notað kannabisefni helgina áður. Í ljósi þessara upplýsinga reyndi varnaraðili að fá sóknaraðila aftur í viðtal. Móðir drengjanna kom í viðtal 30. mars og 10. apríl 2015 og samþykkti hún nýja áætlun um meðferð málsins, þar sem hún samþykkti meðal annars að fara í meðferð. Þann 31. mars óskaði faðir drengjanna eftir viðtali við ráðgjafa og sagðist vilja vera í fullri samvinnu við varnaraðila. Viðurkenndi hann neyslu fíkniefna en sagðist vera búinn að vera edrú í nokkrar vikur. Faðir gaf þvagsýni og mældust engin fíkniefni í því. Móðir fór í tíu daga áfengis- og fíkniefnameðferð á Vogi 17. apríl 2015. Faðir fór með umsjón drengjanna á meðan. Þann 20. apríl 2015 var gerð sérstök áætlun um meðferð máls fyrir föður. Lögð var áhersla á „edrúmennsku“ og viðeigandi umönnun drengjanna. Þá greiddi varnaraðili fyrir sálfræðiaðstoð og HAM-námskeið fyrir hann ásamt því að útvega honum persónulegan ráðgjafa. Varnaraðila bárust upplýsingar um það nokkrum vikum síðar að hann mætti illa á námskeiðið og væri að missa íbúðina sem hann bjó í með drengina.
Næstu mánuði gekk erfiðlega að ná sambandi við sóknaraðila og fá upplýsingar um búsetu og aðbúnað drengjanna. Í tilkynningu 8. júní 2015 fékk varnaraðili þær upplýsingar að faðir væri búsettur í [...] hjá móður sinni, ásamt drengjunum. Í tilkynningunni var tekið fram að faðir drengjanna væri í neyslu og líklegt að hann beitti móður líkamlegu ofbeldi. Í tilkynningunni var jafnframt upplýst að fjölskyldan ætlaði flytja til [...] 19. júní 2015, en varnaraðili hafði engar upplýsingar fengið um slíkar fyrirætlanir frá sóknaraðilum. Þegar loks náðist í föður drengjanna 10. júní var hann upplýstur um þær tilkynningar sem höfðu borist. Neitaði hann því að vera í neyslu og sagði jafnframt að þau ætluðu að búa í Reykjavík um veturinn og væru að leita sér að íbúð þar.
Þann 19. júní 2015 bárust tvær tilkynningar til varnaraðila undir nafnleynd um harða neyslu beggja sóknaraðila og vanrækslu þeirra á drengjunum. Samkvæmt tilkynningunum voru báðir sóknaraðilar í mjög óstöðugu ástandi. Annar tilkynnandinn efaðist um geðheilsu föður drengjanna og sagði hann farinn að sýna einkenni geðveilu. Hinn tilkynnandinn tók fram að móðir drengjanna væri búin að vera í harðri neyslu síðustu vikur. Hún hefði viðurkennt neyslu sína fyrir ættingjum sínum og sagt að hún ætlaði að flytja með drengina til [...] og búa þar í tjaldi. Tilkynnandi tók fram að fjölskyldan byggi hjá ömmu drengjanna í [...] og að hún þyrði ekki að fara neitt þar sem hún hefði áhyggjur af drengjunum. Móðir drengjanna fluttist til [...] 19. júní 2015. Næstu daga var ítrekað reynt að ná í sóknaraðila til að ræða um vinnslu barnaverndarmáls drengjanna en ekki náðist í þau. Þann 6. júlí 2015 fékk varnaraðili þær upplýsingar að faðir drengjanna væri farinn með þá báða til [...] en myndi koma með þá til baka. Tilkynnandi óttaðist að ekki yrði af því.
Þann 14. júlí 2015 barst varnaraðila tilkynning frá lögreglustjóranum á Vesturlandi um að faðir drengjanna hefði 3. júlí 2015 verið stöðvaður grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna með eldri drenginn í framsætinu. Hann neitaði að láta í té þvagsýni til fíkniefnaprófunar og var vakthafandi læknir fenginn til að taka úr honum blóð til fíkniefnaskimunar. Við rannsókn sýnis mældust 3,2 ng/ml af tetrahýdrókannabínól (kannabis).
Í ljósi framkominna upplýsinga óskaði varnaraðili eftir aðstoð barnaverndar í [...] með bréfi, dagsettu 16. júlí 2015, til að afla upplýsinga um aðsetur og aðstæður drengjanna. Samhliða því var ítrekað reynt að ná sambandi við sóknaraðila, án árangurs. Þann 6. ágúst 2015 fengust þær upplýsingar í símtali við móður drengjanna að eldri drengurinn væri hjá henni í [...] og sá yngri hefði farið til Íslands með föður sínum. Í símtalinu tók hún fram að faðir ætlaði að fara með yngri drenginn aftur út til [...] á næstu dögum. Þegar ljóst var að drengurinn var kominn til landsins í stuttan tíma og í umsjá föður síns ákvað varnaraðili, í ljósi forsögu málsins, að halda teymisfund 6. ágúst 2015 um mál hans. Var þar ákveðið að taka drenginn úr umsjá föður síns og vista hann á heimili á vegum varnaraðila á meðan frekari könnun færi fram. Ekki fékkst samþykki föður fyrir aðgerðinni. Í samræmi við 2. mgr. 31. gr. barnaverndarlaga var málið tekið til meðferðar og úrskurðar á grundvelli b-liðar 1. mgr. 27. gr. barnaverndarlaga á fundi varnaraðila 17. ágúst 2015. Lögmaður sóknaraðila var viðstaddur fundinn í gegnum síma og liggur bókun lögmannsins fyrir í málinu. Var það mat varnaraðila, í ljósi fyrirliggjandi gagna og að teknu tilliti til athugasemda og krafna lögmanns sóknaraðila, að nauðsynlegt væri að úrskurða um vistun drengsins utan heimilis á meðan frekari könnun málsins færi fram.
Af hálfu sóknaraðila var úrskurður um vistun kærður til héraðsdóms. Meðan á meðferð málsins stóð náðist samkomulag um tímabundna vistun drengsins utan heimilis til 4. janúar 2016 meðan frekari athugun á aðstæðum sóknaraðila færi fram. Var kæran dregin til baka. Í áætlun um meðferð máls sem þá var gerð kemur meðal annars fram að markmið áætlunarinnar sé að skapa drengnum tryggar og stöðugar aðstæður þar sem hann fengi tækifæri til að dafna og þroskast á eðlilegan hátt. Þar segir jafnframt að hlutverk barnaverndaryfirvalda sé að sjá drengnum fyrir tímabundnu fósturheimili og kanna aðstæður sóknaraðila með tilliti til þess hvort þau geti fengið drenginn í sína umsjá á ný að vistunartímanum liðnum. Við mat á aðstæðum yrðu húsnæðis- og fjárhagsmál sóknaraðila skoðuð og gengið úr skugga um að sóknaraðilar væru edrú. Í samkomulaginu var jafnframt tekið fram að faðir ætti rétt á umgengni við drenginn eina helgi í mánuði og myndi varnaraðili greiða flugfargjald fyrir hann einu sinni í mánuði. Áður en umgengni hæfist myndi faðir gefa þvagsýni til fíkniefnamælingar. Ef engin fíkniefni mældust í þvagi fengi faðir umgengni við drenginn frá föstudegi til sunnudags, ef það mældust hins vegar fíkniefni í þvagi myndi umgengin fara fram undir eftirliti. Samkvæmt samkomulaginu var hlutverk foreldra meðal annars að vinna að markmiði áætlunarinnar og halda sig frá allri neyslu fíkniefna. Ekki var mælt sérstaklega fyrir um umgengni móður í áætluninni þar sem gert var ráð fyrir að hún yrði í [...] fram að jólum. Hún óskaði hins vegar eftir áframhaldandi Skype-viðtölum við drenginn tvisvar sinnum í viku sem fallist var á. Ennfremur var tekið fram að ef samningurinn yrði rofinn yrði áætlunin þegar tekin til endurskoðunar. Umgengni sóknaraðila og annarra nákominna var að öðru leyti eftir samkomulagi hverju sinni. Þá var rætt um að sóknaraðilar gætu fengið drenginn til sín yfir jólin ef þau héldu sig frá allri neyslu fíkniefna. Stuttu eftir að samningurinn var gerður ákvað móðir drengsins að flytja aftur til Íslands með eldri bróður hans. Sóknaraðilar tóku aftur saman og bjuggu þá í [...] heima hjá ömmu drengsins. Umgengni beggja sóknaraðila við drenginn fór fram í október og gekk hún vel samkvæmt upplýsingum frá vistforeldrum. Þann 29. október 2015 barst varnaraðila tilkynning undir nafnleynd um að sóknaraðilar væru í fíkniefnaneyslu og hefðu verið að reykja kannabis á meðan þau voru með syni sína á [...]. Í framhaldi af móttöku tilkynningarinnar var haldinn teymisfundur hjá starfsmönnum varnaraðila og ákveðið að hefja könnun málsins.
Varnaraðila telur að hann hafi ávallt reynt að koma til móts við óskir sóknaraðila og nákominna um umgengni og hafi starfsmenn hans fyrst varir við óánægju sóknaraðila þegar tilkynning um riftun á samkomulagi um tímabundna vistun drengsins barst 10. desember 2015. Starfsmenn varnaraðila reyndu þá að fá sóknaraðila til að endurskoða riftunina og ljúka vistunartímanum. Var þeim meðal annars boðið að tekið yrði þátt í bensínkostnaði þeirra til að þau gætu nýtt umgengisréttinn betur. Reyndust þær viðræður árangurslausar og var málið tekið fyrir á fundi varnaraðila 15. desember 2015. Lögmaður sóknaraðila var viðstaddur fundinn í gegnum síma og liggur fyrir bókun hans. Varnaraðili mat það svo, í ljósi fyrirliggjandi aðstæðna og gagna, svo og að teknu tilliti til athugasemda og krafna lögmanns sóknaraðila, að nauðsynlegt væri að kyrrsetja drenginn á þeim stað sem hann dvaldist í allt að tvo mánuði, á meðan frekari könnun á aðstæðum sóknaraðila færi fram. Þar sem samþykki þeirra skorti var málið tekið til úrskurðar með vísan til a-liðar 1. mgr. 27. gr. barnaverndarlaga. Var sóknarnaraðilum tilkynnt um úrskurðinn og afhent endurrit hans ásamt bókunum.
Í kjölfar úrskurðarins fóru sóknaraðilar í þrjár fíkniefnaprufur á tímabilinu 17.-21. desember 2015. Fyrst 17. desember 2015 og mældist móðir þá jákvæð fyrir kannabis, en hjá föður var „línan fyrir kannabis dauf“. Sóknaraðilum var tilkynnt niðurstaðan og vildi faðir láta endurtaka mælinguna og fá blóðprufu. Samþykkt var að þau gæfu aftur þvagsýni 18. desember og mældust þau þá bæði neikvæð. Á grundvelli mælingarinnar var sóknaraðilum heimiluð umgengi. Þann 21. desember sl. krafðist lögmaður sóknaraðila þess að nýju að þau fengju drenginn til sín því engin efni hefðu mælst í þeim. Þá var haft samband við föður um þriðju fíkniefnamælinguna og honum gerð grein fyrir því að ef þau mældust bæði neikvæð, þ.e. engin fíkniefni mældust, yrði þeim afhent drengurinn á ný og málið flutt til barnaverndar í [...]. Ef þau mældust hins vegar jákvæð, þ.e. fíkniefni í líkama þeirra, stæði úrskurður varnaraðila frá 15. desember 2015. Faðir samþykkti þessa skilmála og fóru báðir sóknaraðilar í fíkniefnamælingu. Niðurstöður mælingarinnar voru þær að þau mældust bæði jákvæð fyrir kannabis. Þá mældist faðir jákvæður fyrir OPI (morfínskyld lyf). Niðurstöður frekari rannsókna á sýnunum bárust 6. janúar sl., og mældust með 80 ng/ml tetrahýdrókannabínól í þvagi frá móður, en engin efni voru mælanleg í þvagi föður.
Í framhaldi niðurstöðu þriðju fíkniefnamælingarinnar var haldinn teymisfundur hjá starfsmönnum varnaraðila og tekin ákvörðun um að úrskurðurinn frá 15. desember stæði og málið yrði aftur tekið fyrir á fundi varnaraðila í byrjun janúar 2016. Sóknaraðilum og lögmanni þeirra var jafnframt tilkynntar niðurstöður rannsókna á sýnunum og framhald málsins. Viðurkenndi faðir í samtali við stafsmann varnaraðila, að þau hefðu reykt kannabis, um mánuði fyrr. Var honum jafnframt bent á að þau gæti ekki fengið drenginn til sín í [...] um jólin vegna niðurstöðunnar. Krafðist lögmaður þeirra að þau fengju að fara í aðra mælingu en þeirri kröfu var hafnað.
Sóknaraðilar kærðu úrskurð varnaraðila frá 15. desember 2015 um kyrrsetningu drengsins til Héraðsdóms Vestfjarða 23. s.m. Við skýrslutökur fyrir dómi 18. janúar 2016 viðurkenndu báðir sóknaraðilar að hafa síðast neytt fíkniefna þremur mánuðum áður. Úrskurður var kveðinn upp í málinu [...]. janúar 2016, þar sem kröfu þeirra um að hinn kærði úrskurður yrði felldur úr gildi, var hafnað.
Sóknaraðilum voru send ný drög að áætlun um meðferð málsins 22. desember 2015. Markmið hennar var að skapa drengnum tryggar og stöðugar aðstæður þar sem hann fengi tækifæri til að dafna og þroskast á eðlilegan hátt og að drengurinn fengi að fara aftur heim til sóknaraðila að vistunartímanum liðnum ef þau uppfylltu skilyrði áætlunarinnar. Í drögunum var ráðgert að sóknaraðilar fengu umgengni við drenginn aðra hverja helgi út vistunartímann, og að bensínkostnaður yrði greiddur vegna ferða þeirra á milli [...] og [...] vegna umgengninnar. Láðist að setja inn dagsetningar fyrir umgengni í umræddum drögum og voru þær sendar sóknaraðilum 28. s.m. Í framhaldinu óskaði starfsmaður varnaraðila ítrekað eftir athugasemdum frá sóknaraðilum við áætlunina og voru sóknaraðilar jafnframt upplýst um að málið yrði tekið fyrir á fundi nefndarinnar 7. janúar 2016.
Sóknaraðilar hafa þrisvar sinnum komið vestur og rækt umgengni við drenginn frá því hann var vistaður í ágúst 2015. Fyrst í október 2015 og annað skiptið í janúar 2016. Í drögum að áætlun um meðferð máls frá 22. desember 2015 voru dagsetningar tilgreindar fyrir umgengni á vistunartíma. Umgengni var fyrirhuguð í desember 2015, en einhvers misskilnings virðist hafa gætt í samskiptum starfsmanns varnaraðila og lögmanns sóknaraðila um það hvort frekari staðfesting yrði send um tímasetningu umgengni sem átti að fara fram á [...] 28. desember 2015 og bárust upplýsingar um umgengnina því ekki til sóknaraðila fyrr en að morgni 28. desember 2015. Bauð starfsmaður varnaraðila sóknaraðilum að hitta drenginn þennan sama dag, eða 29. eða 30. desember ef það hentaði betur. Ekkert svar barst frá sóknaraðilum þrátt fyrir ítrekun. Föðuramma drengsins óskaði eftir umgengni 29. desember og fékk hún að hitta hann 30. desember 2015 og 1. janúar 2016. Umgengni var fyrirhuguð næst helgina 9.-10. janúar 2016. Þann 31. desember 2015 sendi starfsmaður varnaraðila tölvubréf til sóknaraðila varðandi umgengnina. Móðir tilkynnti 2. janúar 2016 að þau kæmust ekki umrædda daga. Var hún spurð samdægurs hvaða tími myndi henta þeim en engin svör bárust. Þann 15. janúar 2016 sendi starfsmaður varnaraðila tölvubréf til sóknaraðila og spurði hvort þau myndu sinna umgengni við drenginn helgina 15.-17. janúar, líkt og gert var ráð fyrir í áætluninni. Móðir svaraði því svo að þau kæmust ekki fyrr en á sunnudag og að þau færu aftur suður á mánudag. Umgengni fór því fram sunnudaginn 17. janúar. Umgengni var næst áætluð helgina 29.-31. janúar 2016. Þann 28. janúar var haft samband símleiðis við föður og spurt hvort þau myndi rækja umgengni þá um helgina. Svaraði hann að þau kæmust ekki fyrr en á sunnudeginum vegna vinnu og óskaði jafnframt eftir umgengni í kringum afmælisdag drengsins sem var 2. febrúar. Var fallist á það og ætlaði faðir að skoða hvaða tímasetning hentaði þeim best og hafa samband við starfsmann varnaraðila. Ekkert svar barst frá sóknaraðilum og varð því ekkert úr umgengninni. Höfðu sóknaraðilar ekki rækt umgengni við drenginn frá því í janúar þegar óskað var eftir umgengni með dags fyrirvara 14. mars 2016. Var strax komið til móts við þá beiðni. Umgengnin fór fram þessa daga og gekk vel.
Þann 7. janúar sl. var málið tekið fyrir á fundi varnaraðila. Lögmaður sóknaraðila var viðstaddur fundinn í gegnum síma og liggur bókun lögmannsins fyrir í málinu og athugasemdir sóknaraðila vegna áætlunarinnar. Þar kom meðal annars fram að sóknaraðilar væru ekki tilbúnir að samþykkja áætlun þar sem kveðið væri á um að þau færu í fíkniefnameðferð eða sæktu AA-fundi. Þá liggur fyrir bókun varnaraðila þar sem lagt var fyrir starfsmenn varnaraðila að ganga frá áætlun um meðferð máls. Voru sóknaraðilar upplýstir um þetta með tölvubréfi 7. janúar sl.
Þann 11. janúar 2016 voru sóknaraðilum send ný drög að áætlun um meðferð máls og óskað eftir athugasemdum þeirra en engin svör bárust. Drögin voru að nýju send sóknaraðilum 19. janúar og tekið fram að ef engin svör kæmu fyrir 21. s.m. yrði litið svo á að sóknaraðilar höfnuðu samvinnu við varnaraðila. Í framhaldinu bárust athugasemdir frá lögmanni sóknaraðila, og þess krafist að tekin yrði blóðprufa í stað þvagprufa, sem starfsmenn varnaraðila töldu sér ekkert fært að verða við. Þar sem ekki náðist samkomulag um áætlunina var varnaraðila nauðsynlegt að gera einhliða áætlun um meðferð málsins. Lá hún endanlega fyrir 28. janúar 2016 og hún tilkynnt sóknaraðilum með tölvubréfi sama dag. Markmið áætlunarinnar var það sama og í fyrri áætlunum, að skapa drengnum tryggar og stöðugar aðstæður þar sem hann fengi tækifæri til að dafna og þroskast á eðlilegan hátt og að drengurinn myndi snúa aftur á heimili sóknaraðila fullnægðu þau þeim kröfum sem gerðar væru til þeirra í áætluninni. Var þar gert ráð fyrir að varnaraðili myndi sjá drengnum fyrir tímabundnu fósturheimili á meðan úrskurður barnaverndarnefndar dagsettur 15. desember 2015 væri í gildi. Áður en vistunartímanum lyki yrðu aðstæður sóknaraðila skoðaðar vel og lagt mat á hvort þau teldust hæf til að sinna foreldraskyldum sínum. Þá þyrftu sóknaraðilar að sýna fram á að þau væru ekki í neyslu fíkniefna. Varnaraðili myndi jafnframt sjá til þess að sóknaraðilar fengju umgengni við drenginn aðra hverja helgi á tilgreindum dögum og tæki þátt í eldsneytiskostnaði þeirra við að komast á milli [...] og [...]. Einnig myndi varnaraðili tryggja að sóknaraðilar gætu farið í fíkniefnamælingu fyrirvaralaust. Í áætluninni kom fram hvers varnaraðili krefðist af sóknaraðilum, nánar tiltekið að þau sýndu fram á að þau væru ekki í fíkniefnaneyslu, að þau mættu í boðaðar fíkniefnamælingar, að þau tryggðu afkomu sína, að þau tryggðu að uppeldisaðstæður á heimili fjölskyldunnar fullnægðu þörfum barnsins og að þau ræktu umgengni við drenginn á þeim dögum sem taldir voru upp í áætluninni og legðu sig fram við að hún gengi vel og væri ánægjuleg fyrir drenginn. Gert var ráð fyrir að áætlunin myndi gilda til 15. febrúar 2016 og hún og árangur hennar endurskoðuð fyrir þann tíma.
Með bréfi, dagsettu 18. janúar 2016, óskuðu starfsmenn varnaraðila eftir liðsinni barnaverndar í [...] við að kanna aðstæður á heimili varnaraðila. Treglega gekk að fá upplýsingar frá barnavernd í [...] um meðferð máls eldri drengsins og aðstæður fjölskyldunnar. Samkvæmt munnlegum upplýsingum frá starfsmönnum barnaverndar í [...] hafði mál eldri drengsins verið til meðferðar hjá þeim. Sóknaraðilar hefðu verið boðaðir í viðtöl, en erfiðlega gengið að fá þau til að mæta. Í þau skipti sem þau hafa mætt hafi komið fram að móðir væri með ýmsar hugmyndir varðandi búsetu, hún hygðist ýmist fara í nám til Reykjavíkur eða flytja aftur til [...].
Þann 29. janúar 2016 voru sóknaraðilar boðaðir í fyrirvaralausa fíkniefnamælingu á heilsugæslunni í [...]. Gáfu sóknaraðilar bæði þvagsýni í ToxCup og mældist móðir jákvæð fyrir kannabisefni, en ekkert mældist hjá föður.
Með tölvubréfi 5. febrúar 2016 var sóknaraðilum tilkynnt að mál drengsins yrði tekið fyrir á fundi varnaraðila 11. s.m. og starfsmenn varnaraðila myndu leggja það til að drengurinn yrði vistaður áfram á vegum varnaraðila í sex mánuði meðan framkvæmt yrði foreldrahæfnismat á sóknaraðilum. Var þeim boðið að nýta andmælarétt sinn á fundinum og tilkynnt að þau ættu rétt á aðstoð lögmanns. Í framhaldinu var þeim afhent greinargerð starfsmanns varnaraðila um vinnslu málsins frá og með 15. desember sl. til þessa dags og þau gögn málsins sem þau höfðu ekki þegar fengið aðgang að.
Þann 8. febrúar 2016 voru sóknaraðilar boðaðir í óundirbúna fíkniefnamælingu. Móðir neitaði að fara í mælingu. Faðir mætti hins vegar og mældust engin efni í þvagi hans. Þennan sama dag bárust niðurstöður úr magngreiningu á sýni móður frá 29. janúar 2016 og var niðurstaða hennar sú að fíkniefni í þvagi móður hefðu mælst undir viðmiðunarmörkum. Í framhaldi af því reyndi starfsmaður varnaraðila ítrekað að ná í móður til að láta hana vita af niðurstöðunum og hvetja hana til að sýna samstarfsvilja og fara í prufu. Hún svaraði hins vegar ekki.
Starfsmaður varnaraðila ræddi við föður í síma 8. febrúar sl., og kom þá fram að hann væri ósáttur við að vera látinn líða fyrir mistök móður og að þau væru ekki lengur par. Þá kom fram að þau byggju ekki lengur hjá föðurömmu drengsins og virtist búseta þeirra og áform nokkuð óljós. Þau væru búin að leigja sumarbústað en ekki væri víst hver ætlaði að búa hvar. Kvaðst hann hafa að mestu séð um eldri drenginn í vetur. Móðir sinnti honum ekki mikið, hún tæki að sér nokkur verkefni sem hún sinnti þó vel, s.s. að leika við drenginn. Hún væri að glíma við ýmis vandamál sem gerðu henni erfitt fyrir í uppeldishlutverkinu.
Þann 11. febrúar 2016, sama dag og málið var tekið fyrir á fundi varnaraðila, fékk varnaraðili loks svar frá barnavernd í [...]. Þar kom fram að ekki hefði farið fram ítarleg könnun á aðstæðum fjölskyldunnar þar sem erfiðlega hefði gengið að ná samstarfi við sóknaraðila. Þau hafi þó mætt í viðtöl, einu sinni bæði, og móðir einu sinni mætt ein. Í viðtölunum kom fram að fjölskyldan hefði búið hjá föðurömmu en væri nú flutt í sumarbústað í [...]. Sóknaraðilar sögðust báðir vera í vinnu. Móðir hefði nýlega sýnt meiri samstarfsvilja og til stæði að starfsmenn barnaverndar færu á heimili fjölskyldunnar 10. febrúar. Samkvæmt umsögn frá skóla, dagsett 16. desember 2015, væri ekki ástæða til að ætla að aðbúnaði eldri drengsins væri ábótavant það sem af væri vetri.
Málið var tekið fyrir á fundi varnaraðila 11. febrúar sl. Á fundinum lágu fyrir greinargerð starfsmanns varnaraðila, þar sem lagt var til að gerð yrði krafa um úrskurð héraðsdóms um áframhaldandi vistun drengsins utan heimilis í sex mánuði, öll gögn málsins og svarbréf barnaverndar í [...], sem barst sama dag. Þá höfðu borist munnlegar upplýsingar frá barnavernd í [...] rétt fyrir fundinn um að bústaðurinn liti vel út. Á fundinum lagði lögmaður sóknaraðila jafnframt fram greinargerð og umsögn félagsmálastjóra [...], dagsett 5. febrúar 2016, sem innihélt umsögn Gunnskólans í [...] um eldri dreng sóknaraðila. Var það niðurstaða varnaraðila á fundinum að ný gögn, sem bárust varnaraðila 10. og 11. febrúar, bentu til þess að aðstæður hefði batnað á heimili barnsins, sóknaraðilar væru vímuefnalausir, aðstæður á heimilinu væru viðunandi og að umönnun eldri drengsins væri vel sinnt af sóknaraðilum. Væru því ekki forsendur til að gera kröfu um frekari vistun drengsins utan heimilis.
Í framhaldi fundarins hafði H samband við lögmann sóknaraðila og upplýsti hann um niðurstöðuna og tjáði honum að sóknaraðilar gætu sótt drenginn, en þeir yrðu þó að hafa samband við varnaraðila til að ákveða tíma og skipuleggja afhendinguna.
Sóknaraðilar höfðu fyrst samband með tölvubréfi 12. febrúar 2016, og spurðist móðir þá fyrir um þátttöku varnaraðila í ferðakostnaði við að sækja drenginn og tók fram að best væri ef hún myndi fljúga samdægurs og komið yrði með drenginn á flugvöllinn. Svaraði starfsmaður varnaraðila tölvubréfinu rúmlega klukkutíma síðar. Í næsta tölvubréfi, sem barst frá móður um klukkan 14.00 á föstudeginum, kom fram að hún væri að leggja af stað vestur til að ná í drenginn, án þess að hafa rætt það frekar við varnaraðila. Í framhaldinu reyndi H að koma til móts við sóknaraðila og fá einhvern starfsmann barnaverndar til að vinna aukavinnu, sækja drenginn til vistforeldranna og afhenda hann sóknaraðilum, líkt og vinnureglur barnverndar gerðu ráð fyrir. Það reyndist ekki hægt með svo stuttum fyrirvara. Hringdi H þá í móður og sagði að þau gætu ekki sótt drenginn fyrr en næsta mánudag. Var það sameiginleg niðurstaða móður og H að faðir kæmi til [...] mánudaginn 15. febrúar til að sækja drenginn og var ákveðið að annað þeirra myndi hringja klukkan 10.00 á mánudeginum til að staðfesta að þau myndu koma vestur þá um daginn. Þá myndi starfsmaður varnaraðila fara af stað og sækja drenginn. Þann 15. febrúar hafði hvorugt þeirra haft samband og ekki náðst í þau í síma fyrr en eftir hádegið. Kom þá í ljós að móðir ætlaði ekki að koma vestur fyrri seinni partinn daginn eftir, þriðjudaginn 16. febrúar, og óskaði eftir því að komið yrði með drenginn út á flugvöll. Var það samþykkt af hálfu starfsmanns varnaraðila. Þann 16. febrúar var umrætt flug svo fellt niður vegna ófærðar.
Þann 15. febrúar 2016 kom fram í viðtali hjá H, starfsmanni varnaraðila vegna annars barnaverndarmáls að sóknaraðilar væru ekki aðeins í kannabisneyslu heldur einnig í neyslu amfetamíns. Þann 16. febrúar 2016 bárust varnaraðila svo fjórar tilkynningar varðandi drenginn, þar af tvær tilkynningar sem áframsendar frá barnaverndarnefnd [...] og [...]. Voru tilkynningarnar fyrst sendar inn undir nafnleynd og hafa tilkynnendur nú ákveðið að tilkynningar þeirra skuli vera undir nafni. Fyrsta tilkynningin barst frá I, föðursystur drengsins. Þar kom fram að heimili sóknaraðila væri óviðunandi fyrir börn. Þar væri ekki heitt vatn og engin þvottavél. Tilkynnandi sagði að sóknaraðilar væru með þriggja vikna leigusamning og gætu misst húsnæðið hvenær sem er. Í annarri tilkynningunni sem barst frá J, föðurömmu drengsins, komu einnig fram athugasemdir varðandi húsnæði sóknaraðila þar sem ekki væri heitt vatn í bústaðnum og ekki þvottavél. Tilkynnandinn sagðist efast stórlega um foreldrahæfni sóknaraðila þar sem þau þurfi mikla aðstoð við barnauppeldið. Sagði hún að hún hefði að mestu leyti séð um eldri bróður drengsins á meðan fjölskyldan hefði búið á heimili hennar og borið ábyrgð á honum, s.s. vekja hann á morgnana, gefa honum að borða, baða hann og láta hann lesa heima. Móðir entist aldrei lengur en í tvo til þrjá mánuði á nýjum stað eða í nýrri vinnu. Tilkynnandi tók fram að sóknaraðilar væru góðir við drenginn en að ábyrgðin yxi þeim yfir höfuð. Eftir að sóknaraðilar fluttu í sumarbústaðinn færi drengurinn seint að sofa á kvöldin og mæti seint í skólann. Hann hangi í tölvunni alla daga eftir skóla og sóknaraðilar sinna honum ekki vel. Sóknaraðilar séu sjálfhverf og hafi aldrei látið börnin ganga fyrir. Þá óttist hún að sóknaraðilar muni fara með drengina úr landi fljótlega. Hún sé eini fasti punkturinn í lífi þeirra. Tvær tilkynningar voru framsendar frá barnavernd í [...]. Önnur þeirra var frá I, föðursystur drengsins. Þar kom fram að sóknaraðilar væru ekki fær um að annast drenginn. Þau hafi ekki skilning á þörfum hans og faðir sé vanvirkur gagnvart honum. Þá teldi hún að um ítrekað ofbeldi hafi verið að ræða milli sóknaraðila sem eldri drengurinn hafi orðið vitni að og að báðir synir þeirra hafi orðið fyrir ofbeldi af hálfu móður. Hin tilkynningin barst frá K, fjölskylduvini. Þar kom fram að umönnun eldri drengsins hefði verið í höndum föðurömmunnar en ekki sóknaraðila þann tíma sem hann bjó á heimili hennar. Tillkynnandi telur föður jafnframt ófæran um að sinna þörfum sona sinna.
Í greinargerð varnaraðila segir að í kæru sé því haldið fram að starfsmaður varnaraðila hafi haft samband við föðurömmu drengsins að fyrra bragði og skráð umrædda tilkynningu um vanrækslu, án beiðni hennar, sem jafnframt væri efnislega röng. Því mótmælir varnaraðili alfarið sem röngu og ósönnuðu. Þann 16. febrúar sl. hafi H borist skilaboð um að hringja í tilkynnanda, sem í símtalinu hafi greint frá þeim upplýsingum sem fram komu í tilkynningunni og óskaði eftir að gerð yrði tilkynning um upplýsingarnar. Í minnisblaði vegna símtalsins við J er rakið að sóknaraðilar hafi haft í hótunum við föðurömmu til að reyna að fá hana til að draga tilkynninguna til baka. Samkvæmt upplýsingum sem föðuramma gaf H í símtali sama dag kom fram að hún hyggðist ekki draga tilkynninguna til baka þar sem efni hennar væri rétt. Hins vegar óttaðist hún hvað sóknaraðilar myndu gera næst til að reyna að fá hana til að draga tilkynninguna til baka. Þá hafi L jafnframt greint varnaraðila frá því að sóknaraðilar hafi tvívegis haft samband við hana til að fá hana til að draga tilkynningu sína til baka.
Þann 16. febrúar 2016 var haldinn fundur hjá barnaverndarteymi fjölskyldusviðs vegna framkominna tilkynninga. Niðurstaða fundarins var sú að óska eftir samstarfi við sóknaraðila um vistun utan heimilis í allt að tvo mánuði á meðan frekari könnun á tilkynningunum færi fram. Ef slíkt samþykki fengist ekki yrði nauðsynlegt að kyrrsetja drenginn með neyðarráðstöfun hjá fósturforeldrunum, sbr. 31. gr. barnaverndarlaga, sbr. 27. gr. sömu laga. Sóknaraðilum var tilkynnt um þetta með tölvubréfi sama dag. Svar barst frá móður drengsins rétt eftir miðnætt 17. febrúar þar sem kom fram að hún samþykkti ekki vistunina. Var því neyðarráðstöfun beitt samkvæmt 31. gr. barnaverndarlaga, með vísan til a-liðar 1. mgr. 27. gr. sömu laga. Sóknaraðilum var tilkynnt um hana og þau upplýst um að málið yrði tekið fyrir á fundi varnaraðila 29. febrúar og jafnframt að þau hefðu andmælarétt á fundinum og ættu rétt á aðstoð lögmanns.
Málið var tekið fyrir á fundi varnaraðila 29. febrúar 2016. Þar var meðal annars lögð fram greinargerð starfsmanns varnaraðila sem sóknaraðilar höfðu þegar fengið senda, gögn málsins og gögn lögð fram af lögmanni sóknaraðila. Var það niðurstaða varnaraðila, að virtum fyrirliggjandi gögnum og að teknu tilliti til athugasemda og krafna lögmanns sóknaraðila, að nauðsynlegt væri að kyrrsetja drenginn á þeim stað sem hann dvelur, í allt að tvo mánuði frá 29. febrúar að telja, á meðan frekari könnun á aðstæðum sóknaraðila fer fram. Þá samþykkti nefndin einnig að gert yrði foreldrahæfnismat á sóknaraðilum og sóknaraðilar samþykktu að M sálfræðingur framkvæmdi matið. Þá hafa þeim verið send drög að að áætlun um meðferð málsins á vistunartímanum.
Þann 17. mars 2016, voru sóknaraðilar boðuð í óundirbúna fíkniefnamælingu á Heilsugæslunni í [...]. Móðir mældist neikvæð fyrir fíkniefnum í þvagi. Faðir mætti ekki þar sem hann var í vinnu, að sögn móður.
Sóknaraðilar gáfu skýrslu við aðalmeðferð málsins. Þá gáfu einnig skýrslu H og I starfsmenn varnaraðila.
III
Sóknaraðilar lýsa því í kæru sinni að þeir telji að málavextir og málsástæður fléttist mjög saman í málinu og vísi því um málsástæður einnig til framangreindrar lýsingar þeirra á málsatvikum. Þá mótmæla þau málavaxtalýsingu í gögnum varnaraðila sem röngum í mörgum og veigamiklum atriðum og er forsendum úrskurðar einnig mótmælt.
Sóknaraðila krefjast þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi þar sem varnaraðili geti ekki kveðið á um vistun utan heimilis í lengri tíma en tvo mánuði og ef talin er þörf á lengri vistun utan heimilis verði að gera kröfu um þá vistun fyrir dómi. Það hafi ekki verið gert og sé ekki unnt að fallast á að unnt sé að halda barninu í vistun á vegum varnaraðila og neita að afhenda það þrátt fyrir að varnaraðili hafi fallist á að ekki væri ástæða til að gera kröfu um vistun utan heimilis fyrir dómi, kyrrsetja síðan drenginn og ákvarða síðan með úrskurði barnaverndarnefndar í beinu framhaldi að drengurinn skuli vistað í tvo mánuði til viðbótar. Þarna sé farið á svig við skýr fyrirmæli í 28. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002, þar sem skýrt er kveðið á um að ef talið er að vistun utan heimilis þurfi að standa lengur en tvo mánuði þurfi að leggja fram beiðni um það fyrir dómi. Ekki sé unnt að komast hjá þeirri leið með því að kyrrsetja barn í framhaldi af vistun og staðfesta þá kyrrsetningu og ákveða með úrskurði áframhaldandi vistun utan heimilis í tvo mánuði. Verður því að telja að með úrskurðinum sé brotið gegn 28. gr. barnaverndarlaga og því beri að fella hann úr gildi.
Verði ekki fallist á það sjónarmið krefjast sóknaraðilar þess að úrskurðurinn verði felldur úr gildi þar sem ekki hafi verið ástæða til að beita svo íþyngjandi aðgerðum sem vistun utan heimilis er og að engar staðfestar nýjar upplýsingar hafi borist frá fundinum 11. febrúar sem unnt væri að telja ástæðu til kyrrsetningar og vistunar utan heimilis. Þó að sögusagnir hafi borist um fíkniefnaneyslu sóknaraðila sé ekki unnt að byggja á þeim án þess að boða foreldra í fíkniefnapróf, en það hafi ekki verið gert og var niðurstaða síðasta fíkniefnaprófs á báðum foreldrum neikvæð, sem sanni að þau hafa ekki verið í fíkniefnaneyslu. Þá hafi legið fyrir ný staðfesting frá umsjónarkennara eldri bróður drengsins um að honum gangi vel í skóla. Þá verði að telja mjög alvarlegt ef starfsmaður varnaraðila hefur hringt í föðurömmu og tekið inn sem tilkynningu og sérstaklega sé ekki rétt haft eftir viðkomandi. Sóknaraðilar benda á að þau hafi nú flutt í heilsársbústað við [...] og sé þar heitt og kalt vatn en vegna bilunar var ekki rennandi heitt vatn um tíma en gert hefur verið við það og ekki ástæða til að vista drenginn utan heimilis vegna þess. Þá hafi því verið haldið fram að þau hefðu aðeins húsnæði til leigu í þrjár vikur en fyrir liggur ótímabundinn leigusamningur. Drengurinn hafi fengið pláss á leikskóla í [...] frá 15. febrúar sl. Þá séu sóknaraðilar í fullri samvinnu við starfsmenn barnaverndar í [...] varðandi umönnun eldri drengsins sem er í þeirra umsjá.
Í ljós alls framangreinds sé þess krafist að úrskurðurinn verði fellur úr gildi.
Kröfu sinni til stuðnings vísa sóknaraðilar til 28. gr. barnaverndarlaga en samkvæmt ákvæðinu hefur varnaraðili ekki heimild til að kveða á um vistun utan heimilis í tvo mánuði til viðbótar. Einnig er á því byggt að með úrskurðinum sé brotið gegn 7. mgr. 4. gr. laganna en þar segir að ávallt skuli miða við að beitt sé vægustu ráðstöfunum til að ná þeim markmiðum sem að er stefnt og því aðeins grípa til íþyngjandi ráðstafana ef lögmætum markmiðum verði ekki náð með öðru og vægara móti.
Þá verði sóknaraðili einnig að telja að úrskurð beri að fella úr gildi því hann skorti lagaskilyrði þar sem ekki hafi verið fullreynd vægari úrræði eins og gert er ráð fyrir í 24. gr., sbr. 23. gr. barnaverndarlaga, og eru skýr skilyrði fyrir vistun utan heimilis samkvæmt 27. gr. laganna. Einnig gangi úrskurðurinn þvert á meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar, sbr. 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
Af öllu framangreindu telja sóknaraðilar að ljóst að lagaskilyrði voru ekki fyrir hendi þegar hinn kærði úrskurður var kveðinn upp og er þess því krafist að hann verði felldur úr gildi.
Krafa sóknaraðila um málskostnað samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi, eins og eigi væri um gjafsóknarmál að ræða, byggir á 1. mgr. 60. gr. barnaverndarlaga. Krafa um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun byggir á lögum nr. 50/1988 um virðisaukaskatt.
IV
Varnaraðili mótmælir öllum kröfum og málsástæðum sóknaraðila sem röngum og ósönnuðum. Úrskurðurinn hafi fengið lögformlega málsmeðferð og sé gildur að lögum. Málefnalegar ástæður hafi legið að baki honum og rannsóknar-, andmæla- og meðalhófsreglna hafi verið gætt í hvívetna við meðferð málsins. Hinn kærði úrskurður hafi verið kveðinn upp með sjónarmið um heilsu, velferð og vellíðan drengsins að leiðarljósi og að drengurinn byggi við stöðugleika og fengi tækifæri til að þroskast og dafna eins og jafnaldrar hans við öruggar og viðunandi uppeldisaðstæður á meðan frekari könnun máls færi fram og gert yrði foreldrahæfnismat á sóknaraðilum. Með vísan til þessa ber, að mati varnaraðila, að hafna kröfu sóknaraðila um að úrskurðurinn verði felldur úr gildi.
Varnaraðili bendir á að lagaskilyrði hafi verið fyrir hendi fyrir uppkvaðningu úrskurðar. Hann sé byggður á a-lið 1. mgr. 27. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 og sé, að mati varnaraðila, á því byggt að úrskurðurinn hafi fengið lögformlega málsmeðferð og sé gildur að lögum.
Varnaraðili vísar til þess að hann hafi metið það svo á fundi sínum 11. febrúar 2016, í ljósi gagna og upplýsinga sem bárust 10. og 11. febrúar 2016, að ekki væru forsendur til að krefjast úrskurðar héraðsdóms um framlengingu á vistun drengsins til sex mánaða, líkt og starfsmenn varnaraðila höfðu lagt til, þar sem hin nýju gögn hafi bent til þess að uppeldisaðstæður drengsins hefðu batnað og væru viðunandi, sóknaraðilar væru vímuefnalausir og umönnun eldri bróðurins væri vel sinnt. Líkt og rakið sé í hinum kærða úrskurði bárust varnaraðila hins vegar nýjar upplýsingar, eftir að ákvörðun um afhendingu drengsins hafði verið tekin og sóknaraðilum tilkynnt um hana, sem bentu til þess að sóknaraðilar væru ekki hæf til að sinna uppeldisskyldum sínum gagnvart drengnum og að uppeldisaðstæður drengsins væru óviðunandi, óöruggar og óstöðugar. Um var að ræða fjórar tilkynningar frá þremur aðilum tengdum fjölskyldunni, þar sem fram kom að sóknaraðilar byggju í óviðunandi og ótryggu húsnæði fyrir tveggja ára barn, föðuramma drengsins hefði nánast alfarið séð um eldri drenginn þegar hann bjó hjá henni, auk þess sem tilkynnt var um vanrækslu og vanvirkni sóknaraðila gagnvart sonum sínum og ofbeldi á heimilinu bæði milli sóknaraðila sjálfra svo og gagnvart drengjunum. Þá bárust varnaraðila upplýsingar með öðrum hætti sem bentu til þess að sóknaraðilar væru enn í vímuefnaneyslu og jafnvel farin að neyta harðari efna.
Varnaraðili byggir á því að starfsmönnum hans hafi verið nauðsynlegt að bregðast þegar við þeim aðstæðum sem uppi voru, og taka afstöðu til málsins með hagsmuni barnsins að leiðarljósi miðað við þær upplýsingar og gögn sem lágu fyrir á þeim tíma. Umræddar tilkynningar varð varnaraðili jafnframt að meta í ljósi forsögu og gagna málsins, meðal annars með hliðsjón af fjölda tilkynninga sem borist höfðu um vímuefnaneyslu sóknaraðila, óviðunandi uppeldisaðstæður, ofbeldi og óstöðugleika á heimilinu, svo og skort á umgengni við drenginn. Á grundvelli fyrirliggjandi gagna og forsögu málsins var það mat varnaraðila að afar brýnir hagsmunir drengsins mæltu með því að hann yrði kyrrsettur tímabundið í allt að tvo mánuði á þeim stað sem hann dvaldist á grundvelli a-liðar 1. mgr. 27. gr. barnaverndarlaga. Tilgangurinn með kyrrsetningunni var að kanna hvort framkomnar tilkynningar væru á rökum reistar og láta fara fram foreldrahæfnismat á sóknaraðilum þar sem metið yrði af hlutlausum aðila hvort sóknaraðilar væru færir til að standa við uppeldisskyldur sínar gagnvart drengnum, veita honum viðunandi umönnun og aðbúnað miðað við aldur hans og þroska, og tryggt væri að þau væru ekki í neyslu fíkniefna.
Þá vísar varnaraðili til þess að það hafi verið með hagsmuni barnsins að leiðarljósi, svo og til að tryggja öryggi þess og viðunandi uppeldisaðstæður, að niðurstaða fundar barnaverndarteymis varnaraðila 16. febrúar 2016 hafi orðið sú að nauðsynlegt væri að kyrrsetja drenginn á þeim stað sem hann dvaldist á grundvelli a-liðar 1. mgr. 27. gr. barnaverndarlaga. Þar sem samþykki sóknaraðila skorti fór kyrrsetningin fram með neyðarvistun samkvæmt 31. gr. barnaverndarlaga 17. febrúar sl. Málið var svo borið undir úrskurð varnaraðila 29. s.m. sem staðfesti neyðarvistunina og mat það svo, að teknu tilliti til athugasemda og krafna lögmanns sóknaraðila, að honum væri nauðugur einn sá kostur að kyrrsetja drenginn á þeim stað sem hann dvaldist í allt að tvo mánuði, frá 29. febrúar að telja, með vísan til a-liðar 27. gr. barnaverndarlaga, á meðan frekari könnun á aðstæðum sóknaraðila færi fram og gert yrði foreldrahæfnismat á sóknaraðilum. Af hálfu varnaraðila er á því byggt að málsmeðferðin fyrir nefndinni hafi að öllu leyti verið í samræmi við málsmeðferðarreglur barnaverndarlaga og stjórnsýslulaga.
Varnaraðili mótmælir því alfarið að með þessu hafi hann brotið gegn 28. gr. barnaverndarlaga. Ljóst er að 11. febrúar mat varnaraðili það svo að ekki væru forsendur til að krefjast framlengingar á tímabundinni vistun drengsins í ljósi nýrra gagna og upplýsinga sem bárust rétt fyrir fundinn. Var sóknaraðilum og lögmanni þeirra tilkynnt um þá ákvörðun samdægurs og þeim boðið að sækja drenginn. Varnaraðili lítur svo á að umræddur úrskurður frá 15. desember 2015, um kyrrsetningu drengsins í allt að tvo mánuði hafi fallið niður við ákvörðun varnaraðila 11. febrúar 2016, eða í öllu falli í seinasta lagi 15. s.m., þegar kyrrsetningin leið undir lok. Ákvörðun um neyðarvistun drengsins á grundvelli ný framkominna gagna var framkvæmd 17. febrúar 2016 og úrskurður varnaraðila um kyrrsetningu drengsins var kveðinn upp 29. s.m. Sé því ekki svo að um áframhaldandi vistun hafi verið að ræða í skilningi 28. gr. barnaverndarlaga, þ.e. að varnaraðili hafi talið að vistun utan heimilis hafi þurft að standa lengur en tvo mánuði og því hafi varnaraðila borið að gera kröfu um það fyrir dómi, enda var hinn kærði úrskurður kveðinn upp eftir að fyrri úrskurðurinn féll niður. Rof varð á vistunartímanum og varnaraðila því heimilt við þær aðstæður sem uppi voru að kyrrsetja drenginn á þeim stað sem það dvaldist með neyðarvistun samkvæmt 31. gr. barnaverndarlaga, sem síðan var staðfest með úrskurði um kyrrsetningu í allt að tvo mánuði samkvæmt a-lið 1. mgr. 27. gr. barnaverndarlaga. Með vísan til þessa telur varnaraðili að málsmeðferðin og úrskurðurinn samrýmist 28. gr. barnaverndarlaga. Verður að mati varnaraðila ekki gagnályktað frá 28. gr. barnaverndarlaga með þeim hætti að í því felist að barnaverndarnefndum sé óheimilt við síðara tímamark að grípa til kyrrsetningar að nýju, með neyðarvistun eftir atvikum, sem síðan er staðfest með úrskurði um kyrrsetningu á grundvelli a-liðar 1. mgr. 27. gr. barnaverndarlaga, þegar hagsmunir barnsins krefjist þess og fyrri aðgerð á grundvelli 27. gr. hefur þegar liðið undir lok og drengurinn ekki lengur vistaður á grundvelli sérstaks úrræðis á vegum barnaverndarnefndar. Að mati varnaraðila breytir það engu í því sambandi þó ekki hafi liðið lengra á milli þess að úrskurðurinn féll niður og þar til aðstæður breyttust með þeim hætti að varnaraðila var nauðsynlegt að grípa til neyðarvistunar og úrskurðar um kyrrsetningu. Að sama skapi hafi það að mati varnaraðila ekki áhrif á heimild til beitingar úrræðisins þó drengurinn hafi ekki verið kominn í umsjá sóknaraðila á þessum tímapunkti. Þá sé því sérstaklega mótmælt sem röngu og ósönnuðu að varnaraðili eða starfsmenn hans hafi á einhvern hátt reynt að torvelda afhendingu drengsins eftir að ákvörðunin gekk 11. febrúar sl.
Þá byggir varnaraðili á því að úrskurðurinn samrýmist meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga og 7. mgr. 4. gr. barnaverndarlaga. Með vísan til alls framangreinds sé því jafnframt mótmælt sem röngu og ósönnuð að ekki hafi verið ástæða til að kyrrsetja drenginn á grundvelli a-liðar 1. mgr. 27. gr. barnaverndarlaga á grundvelli þeirra upplýsinga sem bárust eftir fundinn 11. febrúar. Varnaraðila beri að hafa hagsmuni barnsins að leiðarljósi og ganga úr skugga um að sóknaraðilar geti tryggt barninu viðunandi og öruggar uppeldisaðstæður og veitt því þá vernd og þá umönnun sem það þarf í samræmi við aldur sinn og þroska. Þá varð varnaraðili að taka umræddar upplýsingar alvarlega í ljósi forsögu og gagna málsins, meðal annars fjölda tilkynninga sem borist höfðu um vímuefnaneyslu sóknaraðila, óviðunandi uppeldisaðstæður, ofbeldi og óstöðugleika á heimilinu. Á grundvelli alls þessa mat varnaraðili það svo að nauðsynlegt væri að vista drenginn utan heimilis á meðan frekari könnun færi fram á þessum nýju upplýsingum sem bárust varnaraðila, sem bentu til þess að sóknaraðilar gætu ekki veitt drengnum viðunandi uppeldisaðstæður og væru ekki fær til að fullnægja foreldraskyldum sínum gagnvart honum, og meðan fram færi foreldrahæfnismat á sóknaraðilum. Hagsmunir drengsins hafi eindregið mælt með því að hann yrði kyrrsettur tímabundið hjá vistforeldrum sínum á meðan, þar sem hlúð yrði að honum og réttur hans til uppeldis og umönnunar tryggður. Þá hafi önnur og vægari úrræði að mati varnaraðila ekki tryggt með fullnægjandi hætti brýna hagsmuni drengsins og viðunandi uppeldisaðstæður hans.
Af hálfu varnaraðila er því mótmælt að þau atriði sem rakin eru í kæru varðandi upplýsingar sem varnaraðila bárust eftir 11. febrúar geti leitt til þess að úrskurðurinn skuli felldur niður. Líkt og áður hefur verið rakið var ákveðið að kyrrsetja drenginn á meðan frekari könnun á þessum nýju upplýsingum færi fram og gert yrði foreldrahæfnismat á sóknaraðilum. Gat fullnægjandi könnun málsins svo og foreldrahæfnismatið ljóslega ekki farið fram á þeim stutta tíma sem leið á milli þess sem neyðarvistunin fór fram og þar til úrskurðurinn var kveðinn upp.
Í ljósi forsögu og gagna málsins um vímuefnaneyslu sóknaraðila, svo og þess að móðir mældist jákvæð í fíkniefnaprufu 21. desember 2015 og 29. janúar 2016, en reyndist þó vera undir viðmiðunarmörkum í magnrannsókn vegna síðastnefndu mælingarinnar, og neitaði að fara í óundirbúna fíkniefnaprufu 8. febrúar, þá mat varnaraðili það svo, að virtum hagsmunum barnsins, að ekki væri hægt að ganga út frá því að umræddar upplýsingar um vímuefnaneyslu sóknaraðila væru ekki á rökum reistar, án frekari könnunar málsins, meðal annars óundirbúnum fíkniefnaprufum á vistunartímanum, líkt og gert er ráð fyrir í drögum að áætlun um meðferð málsins að slíkar prufur eru fyrirhugaðar. Sóknaraðilar voru beðnir um að fara í óundirbúna fíkniefnaprufu 17. mars 2016 á heilsugæslunni í [...]. Móðir mældist neikvæð, en faðir mætti ekki.
Þá mat varnaraðili það svo í ljósi framkominna tilkynninga um að föðuramma eldri drengsins hafi alfarið séð um hann þegar sóknaraðilar bjuggu hjá henni, og að virtri forsögu og gögnum málsins um vanrækslu sóknaraðila á umönnun drengjanna þegar þau voru með þá ein, að umönnun hennar væri hugsanlega ástæða góðrar umsagnar grunnskólans. Í því sambandi athugast að umsögn umsjónarkennara hans, dagsett 23. febrúar 2016, var veitt stuttu eftir að þau fluttu út frá föðurömmunni og því lítil sem engin reynsla komin á umönnun og umsjá sóknaraðila með eldri drengnum. Að sama skapi er þeim ásökunum í garð H, starfsmanns varnaraðila, um að hún hafi hringt í föðurömmu drengsins og skráð efnislega ranga tilkynningu frá henni án heimildar, sérstaklega mótmælt sem röngum og ósönnuðum. Ekki hafi verið sýnt fram á neitt sem bendir til þess að nokkuð hald sé í þessum ásökunum.
Varnaraðili telur að ekki væri hægt að fallast á að búseta sóknaraðila í sumarbústað með leigusamningi sem sé uppsegjanlegur með eins mánaðar fyrirvara geti talist stöðugar, viðunandi og öruggar uppeldisaðstæður fyrir tveggja ára gamalt barn. Varnaraðila var ekki fært, án frekari könnunar á aðstæðum, t.d. að treysta því að heitt vatn væri komið í húsið og sumarbústaðurinn uppfyllti að öðru leyti kröfur sem gera verði til uppeldisaðstæðna tveggja ára gamals barns.
Að því er varðar vinnu barnaverndar í [...] varðandi mál eldri drengsins þá liggja ekki fyrir frekari upplýsingar um vinnslu málsins aðrar en þær upplýsingar sem bárust varnaraðila 8. febrúar sl. Getur varnaraðili ekki borið ábyrgð því hvernig barnavernd í [...] vinnur mál sem eru til meðferðar hjá þeim. Þá verður að líta til þess að uppeldisaðstæður og kröfur til umönnunar barns eldra en 7 ára eru ekki að öllu leyti þær sömu og gera verður vegna tveggja ára gamals barns.
Var það mat varnaraðila að gögn og forsaga málsins, þ. á m. nýjar upplýsingar sem bárust eftir 11. febrúar sl., bentu til þess að sóknaraðilar væru ekki færir um að veita drengnum þær aðstæður og stöðugleika sem hann á rétt á lögum samkvæmt. Þær séu hins vegar fyrir hendi hjá vistforeldrum hans og sé því mikilvægt að drengurinn verði áfram vistaður á heimili á vegum varnaraðila í því skyni að tryggja honum þá tilhlýðilegu umönnun og það uppeldi sem hann á skilyrðislaust rétt á, á meðan sóknaraðilar gangast undir foreldrahæfnismat og frekari könnun fer fram á þeim upplýsingum sem varnaraðila hafa borist. Á meðan drengurinn sé í vistun gefist varnaraðilum jafnframt tækifæri til að skapa stöðugleika í umhverfi sínu og sýna fram á að þeir séu hættir allri fíkniefnaneyslu til frambúðar og geti veitt barninu öruggar, viðunandi og stöðugar uppeldisaðstæður og rækti umgengni við hann.
Ein af meginreglum barnaverndarlaga er sú að barn eigi rétt á viðeigandi umönnun og vernd í samræmi við aldur sinn og þroska samkvæmt 1. mgr. 1. gr. barnalaga laga nr. 76/2003 og 1. gr. barnaverndarlaga. Í 1. mgr. 4. gr. barnaverndarlaga segir að í barnaverndarstarfi skuli beita þeim ráðstöfunum sem ætla má að barni séu fyrir bestu og að hagsmunir barna skuli ávallt hafðir í fyrirrúmi. Þessi regla kemur einnig fram í 1. mgr. 3. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 19/2013. Samkvæmt ákvæðinu skal það sem barni er fyrir bestu hafa forgang þegar m.a. félagsmálastofnanir og dómstólar gera ráðstafanir sem varða börn. Þótt mikilvægt sé að varðveita tengsl barns við foreldra og nánustu vandamenn, eins og ráðið verður af ákvæðum barnaverndarlaga og samningsins, verða þeir hagsmunir að víkja fyrir brýnum hagsmunum barnsins sjálfs ef þetta tvennt fer ekki saman. Með vísan til þessa telur varnaraðili það ekki andstætt meginreglum barna- og barnaverndarlaga að kyrrsetja drenginn þó bræðurnir séu aðskildir.
Með vísan til alls þessa telur varnaraðili að meðalhófs hafi verið gætt í hvívetna við málsmeðferðina og að ekki hafi verið gripið til viðarhlutameira úrræðis en nauðsynlegt var miðað við þær aðstæður sem uppi voru. Kyrrsetning á grundvelli a-liðar 1. mgr. 27. gr. barnaverndarlaga hafi verið vægasta og raunar eina úrræðið sem stóð til boða til að tryggja brýna hagsmuna drengsins með fullnægjandi hætti á þessu stigi og samrýmist úrskurðurinn því að mati varnaraðila að öllu leyti meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga og 7. mgr. 4. gr. barnaverndarlaga.
Með vísan til alls þessa telur varnaraðili að hafna beri kröfu sóknaraðila.
Um lagarök til stuðnings kröfu sinni vísar varnaraðili til stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, barnaverndarlaga nr. 80/2002, einkum 1., 2., 4., 23., 24., 25., 26., 27. og 31. gr., svo og samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 19/2003 og barnalaga nr. 76/2003.
V
Í máli þessu krefjast sóknaraðilar þess að úrskurður varnaraðila frá 29. febrúar sl., um vistun drengsins D utan heimilis í tvo mánuði, verði felldur úr gildi. Sóknaraðilar eru nú búsettir í [...] en drengurinn dvelst á heimili í umdæmi varnaraðila sem fer enn með mál drengsins á grundvelli heimildar í 3. mgr. 15. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.
Í forsendum hins kærða úrskurðar kemur fram að frá því að mál drengsins kom til skoðunar hjá varnaraðila hafi ítrekað borist tilkynningar til varnaraðila um fíkniefnaneyslu sóknaraðila og um aðstæður drengsins. Það sé mat varnaraðila í ljósi fyrirliggjandi gagna og að teknu tilliti til athugasemda og krafna sóknaraðila að nauðsynlegt sé að kyrrsetja drenginn á þeim stað sem hann dvelst í allt að tvo mánuði á meðan frekari könnun á aðstæðum sóknaraðila fer fram. Þar sem samþykki sóknaraðila skorti fyrir vistun drengsins utan heimilis sé málið tekið til úrskurðar.
Í framburði sóknaraðila fyrir dómi kom fram að þau væru hætt neyslu fíkniefna, móðir hafi síðast neytt fíkniefna í október 2015 og faðir taldi að líklega hafi hann síðast neytt fíkniefna um svipað leyti. Þau vinni bæði á veitingastað í [...]. Þá gangi sambúð þeirra vel og búi þau, ásamt eldri syni sínum, í sumarbústað í [...], skammt frá [...].
Varnaraðili hefur haft málefni drengsins til skoðunar frá því í september 2014. Síðan þá hafi varnaraðila borist fjöldi tilkynninga um að sóknaraðilar vanræktu drenginn og vegna fíkniefnaneyslu þeirra. Meðal framlagðra gagna eru framangreindar tilkynningar og upplýsingar um samskipti málsaðila.
Í ágúst 2015 var drengurinn tekinn úr umsjá föður með ráðstöfun á grundvelli 31. gr. barnaverndarlaga, sbr. b-liður 1. mgr. 27. gr. laganna, og vistaður á vegum varnaraðila í tvo mánuði á grundvelli úrskurðar varnaraðila frá 17. ágúst 2015. Ástæða þess að gripið var til ráðstöfunarinnar þá var fíkniefnaneysla föður. Þann 16. október 2015 undirrituðu sóknaraðilar áætlun um meðferð máls, sbr. 23. gr. barnaverndarlaga, þar sem kveðið var á um vistun drengsins utan heimilis til 4. janúar 2016. Þann 10. desember 2015 riftu sóknaraðilar þeim samningi. Með úrskurði varnaraðila 15. desember sl. var kveðið á um áframhaldandi vistun drengsins utan heimilis í tvo mánuði, eða til 15. febrúar 2016, og var sá úrskurður staðfestur með úrskurði héraðsdóms 22. janúar 2016. Þá ákvað varnaraðili á fundi sínum 11. febrúar sl. að drengurinn yrði afhentur sóknaraðilum á ný. Áður en drengurinn var afhentur bárust varnaraðila nýjar upplýsingar. Á grundvelli þeirra var ákvörðun um neyðarvistun drengsins tekin og framkvæmd 17. febrúar 2016 og úrskurður varnaraðila um kyrrsetningu drengsins var kveðinn upp 29. febrúar 2016.
Í máli þessu krefjast sóknaraðilar þess að úrskurður varnaraðila frá 29. febrúar sl., verði felldur úr gildi þar sem varnaraðili geti ekki kveðið á um vistun utan heimilis í lengri tíma en tvo mánuði og verði, ef talin er þörf á lengri vistun, að gera kröfu um þá vistun fyrir dómi.
Í 27. gr. barnaverndarlaga kemur fram að með sömu skilyrðum og fram koma í 26. gr. laganna, þ.e. hafi úrræði samkvæmt 24. og 25. gr. ekki skilað árangri að mati barnaverndarnefndar, eða eftir atvikum barnaverndarnefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að þau séu ófullnægjandi og ef brýnir hagsmunir barns mæla með því getur barnaverndarnefnd með úrskurði gegn vilja foreldris og/eða barns sem náð hefur 15 ára aldri m.a. kveðið á um að barn skuli vera kyrrt á þeim stað þar sem það dvelst í allt að tvo mánuði eða heimilað töku barns af heimili í allt að tvo mánuði. Í 28. gr. laganna segir að ef barnaverndarnefnd telur nauðsynlegt að ráðstöfun samkvæmt m.a. a-lið 1. mgr. 27. gr. standi lengur en þar er kveðið á um skuli nefndin gera kröfu um það fyrir héraðsdómi. Heimilt sé með úrskurði dómara að vista barn í allt að tólf mánuði í senn frá og með þeim degi þegar úrskurður dómara er kveðinn upp. Í máli þessu hefur varnaraðili ekki gert kröfu fyrir héraðsdómi um lengri vistun drengsins utan heimilis en í tvo mánuði.
Í athugasemdum í greinargerð með frumvarpi sem varð að barnaverndarlögum segir um 28. gr. að ákvæðið sé á því reist að barnaverndarnefndir hafi eingöngu heimild til að taka ákvarðanir um vistun barna utan heimilis í tiltekinn tíma en verði að bera kröfu um lengri vistun undir dómstóla. Samkvæmt a-lið geti barnaverndarnefnd ákveðið að barn skuli vera kyrrt á þeim stað þar sem það dvelst í allt að tvo mánuði. Hér sé fyrst og fremst átt við þær aðstæður ef foreldrar hafa samþykkt ráðstafanir samkvæmt 1. mgr. 25. gr. Vera má að foreldrum snúist hugur en barnaverndarnefnd meti það svo að hagsmunum barns sé best borgið með áframhaldandi vistun og getur þá kveðið á um slíka vistun í allt að tvo mánuði. Ef vistun barns þarf að standa lengur verður nefndin að afla sér dómsúrskurðar. Tveir mánuðir þykja hæfilegur tími til að meta stöðu og þarfir barns, taka ákvörðun um hvort barn skuli snúa heim eða nauðsyn þess að grípa til annarra ráðstafana, svo sem vistunar til frekari meðferðar.
Af hálfu varnaraðila var lögmanni sóknaraðila tilkynnt, að loknum fundi varnaraðila 11. febrúar sl., að þau gætu sótt drenginn í samvinnu við varnaraðila. Hafði drengurinn ekki verið sóttur þegar ákvörðun um neyðarvistun var tekin 17. febrúar sl. Af hálfu sóknaraðila er því haldið fram að starfsmenn varnaraðila hafi hamlað því að drengurinn yrði afhentur þeim þar sem ekki var fallist á að afhenda móður drenginn þegar hún kæmi til [...] síðdegis föstudaginn 12. febrúar en starfsmenn varnaraðila bera því við að sú beiðni hafi verið of seint fram kominn. Fyrir dómi lýsti H starfsmaður varnaraðila samskiptum hennar við sóknaraðila 11. til 17. febrúar sl. og styðja framlögð gögn framburð hennar. Þar kom fram að lögmanni sóknaraðila hafi verið tilkynnt um það 11. febrúar að sóknaraðilum yrði afhentur drengurinn í samráði við varnaraðila þar sem undirbúa þyrfti afhendingu hans. Sóknaraðilar hafi fyrst haft samband við varnaraðila daginn eftir, 12. febrúar, og klukkan 14.00 þann dag hafi móðir tilkynnt varnaraðila að hún væri að leggja af stað til [...] frá [...]. Þrátt fyrir tilraunir til að finna starfsmann sem væri laus til að afhenda drenginn að loknum vinnutíma þann dag tókst það ekki. Þá hafi verið ákveðið að drengurinn yrði afhentur föður að morgni mánudagsins 15. febrúar og hafi verið ákveðið að sóknaraðilar hefðu þá samband við varnaraðila. Það hafi þau ekki gert og tilraunir varnaraðila til að ná símasambandi við þau þá báru seint árangur. Þá hafi verið ákveðið að móðir fengi drenginn afhentan daginn eftir, 16. febrúar, en ekkert varð af því þar sem flug móður til [...] féll niður vegna ófærðar. Með vísan til framangreinds er ekki hægt að fallast á það með sóknaraðilum að varnaraðilar hafi hamlað því að drengurinn yrði afhentur sóknaraðilum.
Samkvæmt orðalagi 28. gr. þarf að gera körfu fyrir héraðsdómi telji barnaverndarnefnd nauðsynlegt vistun að „standa lengur“ en kveðið er á um í 27. gr. Samkvæmt orðanna hljóðan á það því einungis við sé vistun framlengd. Samkvæmt fyrri úrskurði var varnaraðila heimilt að vista drenginn til 15. febrúar. Þegar ákvörðun um var tekinn 11. febrúar sl. um að afhenda drenginn féll fyrri ákvörðun úr gildi. Þegar ákvörðun um neyðarvistun drengsins var tekin 17. febrúar sl. var ekki í gildi ákvörðun um vistun hans utan heimilis samkvæmt 27. gr. laganna. Ákvörðun um neyðarvistun byggði á nýjum upplýsingum, og verður því ekki á það fallist að sú staðreynd að drengurinn dvaldi enn á heimili á vegum varnaraðila og fór ekki til sóknaraðila áður en ný ákvörðun var tekin verði talið leiða til þess að um áframhaldandi vistun af hálfu varnaraðila hafi verið að ræða, sem ekki hafi verið á færi varnaraðila að ákveða samkvæmt 28. gr. laganna. Það dróst að sóknaraðilar sæktu drenginn verður því að líta svo á að vistun hans á vegum varnaraðila hafi frá 11. febrúar verið með þeirra samþykki. Er það því mat dómsins að eins og atvikum er háttað standi ákvæði 28. gr. barnaverndarlaga því ekki í vegi að varnaraðili kveði upp nýjan úrskurð um vistun drengsins í tvo mánuði, að öðrum skilyrðum uppfylltum. Er því þessari málsástæðu sóknaraðila hafnað og verður úrskurðurinn því ekki felldur úr gildi með framangreindum rökum.
Þá krefjast sóknaraðilar þess að úrskurðurinn verði felldur úr gildi þar sem ekki hafi verið ástæða til að beita svo íþyngjandi aðgerðum sem vistun utan heimilis og að engar staðfestar nýjar upplýsingar hafi borist frá fundinum 11. febrúar sl. sem unnt væri að telja ástæðu til kyrrsetningar utan heimilis og vistunar til lengri tíma.
Við meðferð barnaverndarmála ber að fylgja meginreglum stjórnsýslulaga og sérreglum barnaverndarlaga um málsmeðferð, m.a. meðalhófsreglunni sem lögfest er í 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Hún kemur einnig fram í 7. mgr. 4. gr. barnaverndarlaga þar sem segir að barnaverndaryfirvöld skuli eftir föngum gæta þess að almenn úrræði til stuðnings fjölskyldu séu reynd áður en gripið er til annarra úrræða. Jafnframt skuli þau ávallt miða við að beitt sé vægustu ráðstöfunum til að ná þeim markmiðum sem að sé stefnt. Því aðeins skuli gert ráð fyrir íþyngjandi ráðstöfunum að lögmæltum markmiðum verði ekki náð með öðru og vægara móti. Eins og rakið hefur verið hefur mál drengsins verið meðferðar hjá varnaraðila um skeið og á þeim tíma hafa ítrekað verið gerðar áætlanir um meðferð máls samkvæmt 23. gr. barnaverndarlaga en sóknaraðilar hafa ýmist samþykkt þær eða um hefur verið að ræða einhliða áætlun varnaraðila.
Þegar ákvörðun var tekin um afhendingu drengsins 11. febrúar sl. var í gildi einhliða áætlun um meðferð máls, dagsett 28. janúar 2016, sem hafði það að markmiði að skapa drengnum tryggar og stöðugar aðstæður þar sem hann fái tækifæri til að dafna og þroskast á eðlilegan hátt og að drengurinn snúi aftur á heimili sóknaraðila. Þar kom fram að til þess var ætlast af foreldrum að þeir haldi sig frá neyslu fíkniefna, fari fyrirvaralaust í fíkniefnamælingu, tryggi afkomu sína og séu þar með hæfir til að ala önn fyrir barni, tryggi að uppeldisaðstæður á heimili fjölskyldunnar fullnægi þörfum drengsins og sinni umgengni í samræmi við áætlun, það er aðra hverja helgi. Fyrir dómi báru sóknaraðilar um að ástæða þess að þau hafi ekki undirritað áætlanir sé sú að þrátt fyrir að þau séu tilbúin til gera það sem að þeim snýr þá sé þar gert ráð fyrir að drengurinn verði í vistun á meðan og það geti þau ekki sætt sig við. Þá telja þau sig hafa gert allt það sem varnaraðili krefst af þeim samkvæmt seinustu meðferðaráætlun. Þann 11. febrúar sl. mat varnaraðili aðstæður sóknaraðila svo að þær hefðu batnað og forsendur væru til þess að afhenda þeim drenginn á ný. Frá því sú ákvörðun var tekin og þar til ákvörðun um neyðarvistun var tekin bárust varnaraðila nýjar upplýsingar 15. og 16. febrúar um neyslu sóknaraðila, getu þeirra til að sinna foreldrahlutverkinu og upplýsingar sem bentu til þess að aðstæður sóknaraðila væru þá ekki viðunandi. Í fyrstu tilkynningunni, sem barst í gegnum annað barnaverndarmál, kom fram að sóknaraðilar neyttu ekki einungis kannabis heldur einnig amfetamíns. Þá barst tilkynning frá föðursystur drengsins sem taldi að heimili sóknaraðila væri óviðunandi fyrir börn en þar væri hvorki heitt vatn né þvottavél. Þau væru með þriggja mánaða leigusamningu um húsnæðið sem þau byggju í og gætu misst það hvenær sem er. Tilkynning barst frá föðurömmu drengsins sem kom einnig með fyrrgreindar athugasemdir um heitt vatn og þvottavél. Þá kvaðst hún efast stórlega um foreldrahæfni sóknaraðila þar sem þau þurfi mikla aðstoð við barnauppeldið og kvaðst hún að mestu hafa séð um eldri bróður drengsins á meðan fjölskyldan bjó hjá henni. Sagði hún að móðir entist ekki lengur en tvo til þrjá mánuði á nýjum stað eða í nýrri vinnu. Þau væru góð við drenginn en ábyrgðin yxi þeim yfir höfuð. Eftir að þau fluttu í sumarbústaðinn fari eldri drengurinn seint að sofa, mæti seint í skóla, hangi í tölvunni alla daga eftir skóla og sóknaraðilar sinni honum ekki vel. Þau séu sjálfhverf og hafi aldrei látið börnin ganga fyrir. Þá kom önnur tilkynningin frá framangreindri föðursystur og kom þar fram að sóknaraðilar væru ekki fær um að annast drenginn. Þau hefðu ekki skilning á þörfum hans og væri faðir vanvirkur gagnvart honum. Þá teldi hún að eldri drengurinn hafi ítrekað orðið vitni að ofbeldi milli sóknaraðila og báðir drengirnir hafi orðið fyrir ofbeldi af hálfu móður. Loks barst tilkynning frá nafngreindum fjölskylduvin sem sagði að föðuramma hafi annast eldri drenginn þann tíma sem þau bjuggu hjá henni en ekki sóknaraðilar. Þá taldi hún föður ófæran um að sinna þörfum sona sinna. Telur dómurinn það ekki rýra gildi þessara tilkynninga hverjir voru tilkynnendur.
Málsgögn benda til þess að líf sóknaraðila hafi undanfarið einkennst af ákveðnu rótleysi, þ. á m. tíðum flutningum, skorti á samvinnu við varnaraðila og neyslu fíkniefna auk þess sem ráða megi af málsgögnum að þau hafi ráðið illa við foreldrahlutverkið. Þá hafi þau ekki sinnt umgengni við drenginn í samræmi við meðferðaráætlun og brugðist seint við flestum fyrirspurnum frá varnaraðila m.a. um tillögur að tíma fyrir umgengni sem hentaði þeim. Þá voru viðbrögð sóknaraðila þegar þeim var tilkynnt um 11. febrúar sl. um að þeim yrði afhentur drengurinn mjög sein. Sóknaraðilar búa nú í sumarbústað sem þau hafa, samkvæmt framlögðum leigusamningi, á leigu ótímabundið með eins mánaðar uppsagnarfresti og verður því að telja að framtíðarbúseta þeirra sé ótrygg. Þá hafa aðstæður á heimilinu ekki verið teknar út með fullnægjandi hætti. Sóknaraðilar hafa nú samþykkt að fram fari mat á foreldrahæfni þeirra. Þá verður ekki talið að umsögn frá grunnskóla vegna eldri bróður drengsins skipti máli en ætla má að aðstoð ömmu drengsins kunni að hafa skipt miklu um aðstæður og aðbúnað hans á þeim tíma er sóknaraðilar bjuggu á heimili hennar. Þá eru þarfir drengsins að sumu leyti aðrar en eldri bróður hans.
Með hliðsjón af því sem hér hefur verið rakið er ekki fallist á það með sóknaraðila að ekki hafi komið fram nýjar upplýsingar 11.-17. febrúar sl. Þær upplýsingar sem fram komu bentu til þess að aðstæður væru ekki orðnar eins góðar og ákvörðun varnaraðila um afhendingu drengsins byggði á. Það er hlutverk varnaraðila að tryggja aðstæður og aðbúnað barna og ber honum að beita þeim ráðstöfunum sem ætla má að séu börnum fyrir bestu, sbr. 1. mgr. 4. gr. laganna, sbr. einnig 1. mgr. 3. gr. samnings sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 19/2013, og verða hagsmunir foreldra og nánustu vandamanna að víkja fyrir brýnum hagsmunum barns ef þetta tvennt fer ekki saman. Ekki liggur enn fyrir staðfesting á því hvort framkomnar upplýsingar séu réttar en ætlun varnaraðila er að taka þær til skoðunar og láta framkvæma foreldrahæfnimat vegna sóknaraðila. Þá er enn beðið frekari upplýsinga frá barnaverndarnefnd í […]. Loks verður að telja að alvarleiki þeirra athugasemda sem varnaraðila bárust sé slíkur að nauðsynlegt sé að bregðast við þeim. Með vísan til alls framangreinds er hafnað þeirri málsástæðu sóknaraðila að ekki hafi verið fram komin ný gögn frá 11. febrúar sl.
Sóknaraðilar byggja á því að með úrskurðinum hafi verið brotið gegn 7. mgr. 4. gr. barnaverndarlaga en þar kemur fram að ekki skuli beita íþyngjandi úrræði sem vistun barns utan heimilis verði lögmæltum markmiðum náð með öðru og vægara móti, og að úrskurðurinn gangi þvert á meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar, sbr. 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þá telja þau að úrskurð skorti lagaskilyrði þar sem ekki hafi verið fullreynd vægari úrræði eins og gert er ráð fyrir í 24., sbr. 23. gr. barnaverndarlaga, sbr. og skilyrði 27. gr. laganna.
Frá því drengurinn var vistaður utan heimilis í ágúst 2015 hefur markmiðið verið að hann færi á ný til sóknaraðila. Eins og atvikum var háttað þegar gripið var til neyðarvistunarinnar, og með hliðsjón af forsögu málsins, verður ekki talið að önnur úrræði barnaverndarlaga, þ. á m. öflugt eftirlit varnaraðila eða annarra barnaverndarnefndar, hefði verið nægilegt til að tryggja hagsmuni drengsins. Ekki fæst séð að atvik hafi nú breyst svo máli skipti frá þeim tíma er ákvörðun um neyðarvistun var tekin. Með vísan til þess sem hér að ofan hefur verið rakið verður ekki talið vægari úrræði hafi verið tæk til að tryggja hagsmuni drengsins, vegna þeirra tilkynninga sem nú eru fram komnar, né heldur að gengið hafi verið lengra en þörf var á með hliðsjón af aðstæðum. Verður því ekki talið að varnaraðili hafi með úrskurði sínum brotið gegn framangreindum lagaákvæðum. Er það mat dómara að brýnir hagsmunir drengsins hafi mælt með því að sú leið væri farin að kyrrsetja hann á ný á þeim stað þar sem hann dvaldist. Samkvæmt öllu framangreindu þykja skilyrði a-liðar 1. mgr. 27. gr. barnaverndarlaga hafa verið uppfyllt er varnaraðili kvað upp hinn kærða úrskurð. Er því framangreindum málástæðum sóknaraðila hafnað.
Með vísan til alls framangreinds er kröfu sóknaraðila um að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi hafnað.
Sóknaraðilum var veitt gjafsókn til reksturs máls þessa með bréfi innanríkisráðuneytisins dagsettu 18. mars 2016, sbr. 1. mgr. 60. gr. barnaverndarlaga. Allur gjafsóknarkostnaður sóknaraðila greiðist því úr ríkissjóði, þ. m. t. málflutningsþóknun lögmanns þeirra, Þuríðar K. Halldórsdóttur hdl., sem þykir hæfilega ákveðin 894.184 krónur og er virðisaukaskattur innifalinn í þeirri fjárhæð, og útlagður kostnaður lögmannsins, 53.358 krónur.
Úrskurð þennan kveður upp Sigríður Elsa Kjartansdóttir dómstjóri.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
Hafnað er kröfu sóknaraðila, A og B, um að felldur verði úr gildi úrskurður varnaraðila, barnaverndarnefndar á C, uppkveðinn 29. febrúar 2016, þess efnis að drengurinn D, kennitala [...], skuli vera vistaður á heimili á vegum varnaraðila í allt að tvo mánuði frá 29. febrúar 2016 að telja.
Allur gjafsóknarkostnaður sóknaraðila greiðist úr ríkissjóði, þ.m.t. málflutningsþóknun lögmanns þeirra, Þuríðar K. Halldórsdóttur hdl., 894.184 krónur, sem og útlagður kostnaður lögmannsins, 53.358 krónur.