Hæstiréttur íslands
Mál nr. 136/2001
Lykilorð
- Kærumál
- Fjárnám
- Gagnaöflun
- Aðilaskýrsla
- Vitni
|
|
Mánudaginn 7. maí 2001. |
|
Nr. 136/2001. |
Allrahanda-Ísferðir ehf. (Sveinn Skúlason hdl.) gegn Hermanni Ómarssyni (Kristinn Bjarnason hrl.) |
Kærumál. Fjárnám. Gagnaöflun. Aðilaskýrsla. Vitni.
Að kröfu H gerði sýslumaður fjárnám hjá A ehf. og í framhaldi af því höfðaði A ehf. mál á hendur H til ógildingar fjárnámsins. Staðfest var niðurstaða héraðsdóms um höfnun ógildingarkröfunnar enda þóttu engir þeir annmarkar hafa verið á meðferð málsins fyrir héraðsdómi, er valdið gætu því að úrskurður héraðsdóms yrði felldur úr gildi. Hafði A efh. og enga kröfu gert um endurskoðun úrskurðarins að efni til.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 3. apríl 2001, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 11. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 21. mars 2001, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að ógilt yrði fjárnám, sem sýslumaðurinn í Reykjavík gerði hjá honum 6. desember 2000 að kröfu varnaraðila. Kæruheimild er í 3. mgr. 95. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, sbr. 102. gr. laga nr. 92/1991. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og varnaraðila gert að greiða málskostnað í héraði ásamt kærumálskostnaði.
Varnaraðili krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá Hæstarétti, en til vara að hinn kærði úrskurður verði staðfestur. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
I.
Málið á rætur að rekja til þess að Hveradekk ehf. gaf út verðtryggt skuldabréf 21. júní 1998 fyrir 2.000.000 krónum, sem greiða átti ásamt nánar tilteknum vöxtum með 36 jöfnum mánaðarlegum afborgunum, í fyrsta sinn 21. júlí sama árs. Af hálfu útgefandans ritaði undir skuldabréfið Kristján Jóhannesson, sem einnig gekkst í sjálfskuldarábyrgð fyrir skuldinni. Samkvæmt meginmáli skuldabréfsins tók sóknaraðili jafnframt að sér sjálfskuldarábyrgð, en fyrir hans hönd skrifaði Þórir Garðarsson undir það „pr.pr. Allrahanda hf.“
Engar greiðslur munu hafa fengist á kröfu samkvæmt skuldabréfi þessu. Að kröfu varnaraðila gerði sýslumaðurinn í Reykjavík sem áður segir fjárnám 6. desember 2000 hjá sóknaraðila fyrir skuldinni, sem þá nam alls 3.253.185 krónum að meðtöldum áföllnum vöxtum og kostnaði. Við gerðina mætti fyrirsvarsmaður sóknaraðila, Sigurdór Sigurðsson, ásamt lögmanni hans og óskaði eftir að henni yrði frestað. Þeirri ósk var hafnað. Var þá fært í gerðabók sýslumanns að fyrirsvarsmanninum hafi verið leiðbeint um réttarstöðu sína og kröfu varnaraðila, en hann „segist ekkert hafa við kröfu gerðarbeiðanda að athuga en verður ekki við áskorun um að greiða hana.“ Að þessu loknu var fjárnám gert eftir ábendingu fyrirsvarsmannsins í þremur nánar tilteknum bifreiðum og gerðinni lokið.
Með bréfi, sem barst Héraðsdómi Reykjavíkur 18. janúar 2001, krafðist sóknaraðili þess að fjárnámsgerðin yrði felld úr gildi. Sú krafa var þar á því einu reist að samkvæmt samþykktum sóknaraðila þyrftu tveir stjórnarmenn að rita firma hans saman, en undir skuldabréfið, sem fjárnámið var gert fyrir, hafi aðeins einn stjórnarmaður ritað. Með bréfinu fylgdi endurrit úr gerðabók sýslumanns, ljósrit skuldabréfsins og vottorð úr hlutafélagaskrá varðandi sóknaraðila. Þegar krafa sóknaraðila var tekin fyrir á dómþingi 2. febrúar 2001 lýsti hann yfir að hann óskaði ekki eftir að skýra mál sitt frekar skriflega. Í þinghaldi 16. sama mánaðar lagði varnaraðili fram greinargerð í málinu ásamt fjórum öðrum skjölum og var þá ákveðinn munnlegur flutningur þess 5. mars 2001. Á dómþingi þann dag óskaði sóknaraðili eftir að fá að leggja fram sex ný skjöl, en að fram komnum andmælum varnaraðila hafnaði héraðsdómari því með úrskurði. Að þessu gerðu óskaði sóknaraðili eftir að fá að leiða fyrir dóm til skýrslugjafar tvo menn úr stjórn sinni, varnaraðila og föður hans. Því mótmælti varnaraðili og hafnaði héraðsdómari ósk sóknaraðila með úrskurði. Var málið síðan munnlega flutt. Með hinum kærða úrskurði, sem eins og áður greinir var upp kveðinn 21. mars 2001, var kröfu sóknaraðila um ógildingu fjárnámsins hafnað.
II.
Ekki standa rök til að verða við aðalkröfu varnaraðila um að málinu verði vísað frá Hæstarétti.
Í kæru sóknaraðila til Hæstaréttar kveðst hann telja héraðsdómara ekki hafa haft „tök á að taka tillit til málsástæðna kæranda eins og þær liggja fyrir. Skýringa sé að leita til þess að héraðsdómurinn hafi hvorki tekið tillit til né heimilað framlagningu frekari gagna né látið fara fram yfirheyrslur fyrir dómnum, en sóknaraðili telur að það hefði verið afar brýnt til þess að sóknaraðili fengi komið að réttmætum málsástæðum sínum.“ Í kærunni er vísað til lýsingar á málsatvikum og málsástæðum í áðurnefndu bréfi sóknaraðila, þar sem krafist var ógildingar fjárnámsins. Auk þeirra málsástæðna bendir sóknaraðili á að í gögnum, sem fylgdu kærunni, komi fram aðdragandinn að því að stjórnarmaður sóknaraðila hafi áritað fyrrnefnt skuldabréf um sjálfskuldarábyrgð hans, en það hafi verið gert á röngum forsendum og án nokkurra tengsla við útgefanda þess. Með því að héraðsdómari hafi neitað sóknaraðila um að leggja þessi gögn fram og leiða menn fyrir dóm til skýrslugjafar verði að ómerkja hinn kærða úrskurð.
Eins og ráðið verður af framansögðu leitaði sóknaraðili þegar komið var að munnlegum flutningi málsins í héraði eftir því að fá að leggja fram ný gögn, sem styðja áttu málsástæðu, sem hafði hvorki komið fram í skriflegum málatilbúnaði hans né á annan hátt á fyrri stigum. Þegar af þeirri ástæðu og með vísan til ákvæða 5. mgr. 101. gr., sbr. 3. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sem hér eiga við samkvæmt 94. gr. laga nr. 90/1989, var héraðsdómara rétt að verða við andmælum varnaraðila gegn því að umrædd gögn yrðu lögð fram. Er og til þess að líta að gögn þessi voru ljósrit fjölmargra skjala til hlutafélagaskrár varðandi sóknaraðila annars vegar og Hveradekk ehf. hins vegar, skriflegar yfirlýsingar tveggja stjórnarmanna sóknaraðila um atvik málsins og yfirlýsingar þriggja annarra manna, sem virðast hafa átt að styðja staðhæfingar hinna tveggja. Áttu sum þessara gagna ekki svo séð verði neitt erindi í málinu, en öðrum varð ekki komið þar að til skýringa eða sönnunar um atriði, sem til úrlausnar gátu þar komið.
Svo sem ályktað verður af lokaorðum 1. mgr. og 2. mgr. 90. gr. laga nr. 90/1989, sbr. 94. gr. sömu laga, er aðila máls, sem rekið er samkvæmt 15. kafla laganna, almennt heimilt að gefa þar sjálfur munnlega skýrslu fyrir dómi eða leiða í því skyni fyrirsvarsmann sinn, einn eða fleiri. Ósk sóknaraðila um þetta hafnaði héraðsdómari hins vegar réttilega samkvæmt lokaorðum 1. mgr. 48. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 94. gr. laga nr. 90/1989, enda verður ekki séð að vakað hafi fyrir sóknaraðila að láta fyrirsvarsmenn sína greina frá atvikum varðandi einu málsástæðuna, sem hann hafði borið tímanlega fyrir sig í málinu og fékk þannig komið að. Ekki var á færi sóknaraðila að kveðja gagnaðila sinn fyrir dóm til að gefa munnlega skýrslu. Þá var honum heldur ekki heimilt að leiða vitni samkvæmt meginreglu 1. mgr. 90. gr. laga nr. 90/1989, sbr. 94. gr. sömu laga, enda ekkert fram komið, sem réttlætt gæti að vikið yrði frá þeirri reglu við rekstur þessa máls.
Samkvæmt framangreindu voru engir þeir annmarkar á meðferð málsins fyrir héraðsdómi, sem valdið geta því að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi eftir kröfu sóknaraðila. Hann hefur enga kröfu gert um endurskoðun úrskurðarins að efni til. Þegar af þeirri ástæðu verður úrskurðurinn staðfestur.
Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, Allrahanda-Ísferðir ehf., greiði varnaraðila, Hermanni Ómarssyni, 75.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 21. mars 2001.
Málsaðilar eru:
Sóknaraðili er Allrahanda-Ísferðir ehf., kt. 500489-1119, Hyrjarhöfða 2, Reykjavík.
Varnaraðili er Hermann Ómarsson, kt. 101080-4639, Kambahrauni 40, Hveragerði.
Málið barst Héraðsdómi Reykjavíkur 18. janúar sl. með bréfi lögmanns sóknaraðila, sem dagsett er sama dag. Það var tekið til úrskurðar 5. mars sl. að afloknum munnlegum málflutningi.
Dómkröfur sóknaraðila eru þær, að fjárnámsgerð sýslumannsins í Reykjavík nr. 011-2000-15070, sem fram fór hjá sóknaraðila 6. desember á síðastliðnu ári að kröfu varnaraðila, verði ógilt með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur.
Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar úr hendi varnaraðila að mati dómsins.
Varnaraðili gerir þær dómkröfur, að hafnað verði kröfu sóknaraðila um dómsúrskurð um ógildingu aðfarargerðar frá 6. desember sl. Auk þess krefst varnaraðili málskostnaðar úr hendi sóknaraðila að mati dómsins.
Þá mótmælti varnaraðili sérstaklega málskostnaðarkröfu sóknaraðila sem of seint fram kominni, þar sem hún hafi fyrst verði sett fram við munnlegan flutning málsins.
Við aðalmeðferð málsins krafðist sóknaraðili þess að fá að leggja fram fjölmörg skrifleg gögn til stuðnings kröfum sínum og til skýringar á forsögu málsins og aðdraganda þess. Lögmaður varnaraðila mótmælti því, að gögn yrðu lögð fram á þessu stigi málsins, m.a. á þeirri forsendu að grundvelli þess yrði verulega raskað. Dómari féllst á kröfu lögmanns varnaraðila og hafnaði kröfu sóknaraðila um framlagningu gagna á lokastigi málsins. Í sama þinghaldi hafnaði dómari einnig kröfu lögmanns sóknaraðila um að nokkrir einstaklingar gæfu skýrslu fyrir dóminum, enda mótmælti lögmaður varnaraðila því, að það yrði látið viðgangast í máli sem þessu.
Málavextir, málsástæður og lagarök:
Mál þetta varðar fjárnámsgerð, sem varnaraðili krafðist að fram færi hjá sóknaraðili á grundvelli skuldabréfs, útgefnu af Hveradekki ehf. hinn 21. júní 1998. Skuldabréfið er sjálfskuldarábyrgð sóknaraðila og Kristjáns Jóhannessonar, kt. 300551-4919. Kristján Jóhannesson mun vera stofnandi Hveradekks ehf. skv. framlögðum gögnum. Firmanafn varnaraðila er stimplað á skuldabréfið, svo og tilvísun til þess að um prókúruumboð sé að ræða (pr.pr.), hvort tveggja í reit, sem ætlaður er til undirritunar fyrir sjálfskuldarábyrgðarmenn. Þórir Garðarsson áritar sjálfskuldaryfirlýsinguna sem prókúruhafi f.h. varnaraðila. Samkvæmt framlögðu vottorði frá hlutafélagaskrá er Þórir stjórnarformaður sóknaraðila og prókúruhafi félagsins, ásamt tveimur öðrum.
Aðfarargerð sú, sem sóknaraðili gerir kröfu til að dómurinn ógildi, átti sér stað 6. desember sl. Hún er nr. 011-2000-15070.
Í gerðarbók sýslumannsins í Reykjavík er m.a. bókað um aðfarargerðina: ,,Fyrir gerðarbeiðanda mætir Leifur Árnason hdl. Fyrirsvarsmaður gerðarþola Sigurdór Sigurðsson, stjórnarmaður er sjálfur mættur ásamt lögmanni Sveini Skúlasyni. Þeir óska eftir fresti í málinu en umboðsmaður gerðarbeiðanda verður ekki við því. Fyrirsvarsmanni gerðarþola er leiðbeint um réttarstöðu sína og kröfu gerðarbeiðanda. Hann segist ekkert hafa við kröfu gerðarbeiðanda að athuga en verður ekki við áskorun um að greiða hana. Að ábendingu fyrirsvarsmanns gerðarþola sem gerðarbeiðandi gerir ekki athugasemdir við, er hér með gert fjárnám fyrir kröfum gerðarbeiðanda í: Bifr. SA-954 Mercedes, UA-116, Mercedes, JR-093 Mercedes. Fyrirsvarsmanni gerðarþola er leiðbeint um þýðingu fjárnámsins. Mættum er kynnt efni þessarar bókunar, sem engar athugasemdir eru gerðar við. Lögmaður fyrirsvarsmanns gerðarþola tilkynnir ftr. sýslumanns að hann hyggist skjóta ákvörðun sýslumanns að halda gerðinni áfram til Héraðsdóms Reykjavíkur.”
Sjónarmið og lagarök sóknaraðila:
Sóknaraðili byggir á því, að félagið verði ekki bundið af nafnritun Þóris Garðarssonar einni og sér á umrætt skuldabréf. Í samþykktum félagsins komi fram, að tveir stjórnarmenn skuli rita firma þess. Því hafi fulltrúi sýslumanns, sem framkvæmdi aðfarargerð þá, sem hér sé til umfjöllunar, a.m.k. átt að verða við beiðni sóknaraðila um frest, þar sem ljóst hafi verið með vísan til 1. tl. 118. gr. einkamálalaga nr. 91/1991 að nafnritun Þóris Garðarssonar ein og sér á skuldabréfið hafði ekkert skuldbindingargildi gagnvart sóknaraðila. Þó svo, að í skuldbréfinu segi að gera megi aðför til fullnustu skuldarinnar án undangengins dóms eða réttarsáttar, sbr. 7. tl. 1. gr. aðfararlaga nr. 90/1989 (afl.), þá sé allt að einu ekki hægt að krefjast aðfarar fyrir skuld, sem sóknaraðili hafi ekki tekið ábyrgð á, eins og haldið sé fram af hálfu varnaraðila, þar sem lögmæt skilyrði hafi skort, sbr. 2. mgr. 49. gr. og 52. gr. laga um einkahlutafélög nr. 138/1994, en um þetta hafi móttakanda skuldabréfsins, Ómari Jóhannssyni, verið kunnugt, er hann tók við skuldabréfinu.
Við munnlegan flutning málsins byggði sóknaraðili einnig á því, að sjálfskuldarábyrgð sóknaraðila hafi verið til málamynda og gerð í greiðaskyni við Ómar Jóhannsson, föður varnaraðila. Skuldabréfið hafi verið afhent sem trygging fyrir skuld Ómars og til að bjarga húseign hans frá uppboði. Sú skuld sé að fullu greidd og hafi skuldabréfið átt að afhendast sóknaraðila.
Sjónarmið og lagarök varnaraðila:
Varnaraðili byggir á því, að krafa hans styðjist við skuldabréf. Fjárnám hafi verið gert hjá sóknaraðila með stoð í 7. tl. 1. gr. aðfararlaga. Fyrirsvarsmaður sóknaraðila hafi mætt við gerðina, ásamt lögmanni sínum. Þeir hafi óskað eftir fresti á framgangi gerðarinnar, en þeirri beiðni hafi verið hafnað af fulltrúa sýslumanns. Í tilefni þess hafi þeir lýst yfir, að sú ákvörðun yrði borin undir héraðsdóm. Þeir hafi aftur á móti enga athugasemd gert við kröfu varnaraðila við sjálfa aðfarargerðina. Fjárnám hafi verið gert í tilgreindum bifreiðum sóknaraðila að ábendingu talsmanna hans, þar sem þeir hafi ekki orðið við áskorun um að greiða skuldina. Varnaraðili mótmælir kröfum sóknaraðila og þeirri einu málsástæðu hans, að prókúruhafi félagsins (sóknaraðili) hafi ekki haft heimild til að skuldbinda það. Þórir Garðarsson sé formaður stjórnar félagsins og jafnframt sé hann einn af prókúruhöfum þess. Í prókúruumboði felist heimild til að skuldabinda einkahlutafélag, sbr. 25., 27. og 31. gr. laga nr. 42/1903 um verslunarskrár o.fl. sbr. og 49. til 52. gr. laga um einkahlutafélaög nr. 138/1994. Þá vísar varnaraðili í þessu sambandi til dóms Hæstaréttar frá 16. júní 1994 (Hrd. 1994:1411og til dóms Hæstaréttar í dómabindi frá 1996, bls. 4228.
Varnaraðili byggir einnig á þeirri málsástæðu, að þeir sem skipti við einkahlutafélög eigi almennt að geta treyst því, að sá eða þeir, sem komi fram fyrir félagsins hönd hafi heimild til að skuldabinda það. Annað færi í bága við þarfir og öryggi viðskiptalífsins. Réttara sé, að félagið sjálft sæki rétt sinn á hendur þeim, sem kunni að hafa farið út fyrir umboð sitt en að þriðji maður, viðskiptamaður félagsins, verði fyrir tjóni. Varnaraðili vísar til þess, að stjórnarformaður sóknaraðila hafi margoft skuldbundið félagið sem prókúruhafi í líkum tilvikum og því, sem hér sé til umfjöllunar, eins og framlögð gögn sýni gleggst. Hafi varnaraðili því verið í góðri trú um heimild stjórnarformanns félagsins til að skuldabinda það í umræddu tilviki. Varnaraðili bendir enn fremur á þá staðreynd, að sóknaraðili hafi viðurkennt kröfuna, eins og fram komi í bókun sýslumanns og boðið fram greiðslu hennar að hluta.
Varnaraðili telur einnig að hafna eigi öllum kröfum sóknaraðila vegna viðskiptabréfareglnanna og ákvæða XVII. kafla laga um meðferð einkamála í héraði nr. 91/1991. Samkvæmt ákvæðum XVII. kafla komist málsástæða og lagarök sóknaraðila ekki að í málinu.
Þá mótmælir varnaraðili þeirri staðhæfingu sóknaraðila, að sjálfskuldarábyrgð félagsins hafi verið til málamynda.
Varnaraðili vísar til ákvæða skuldabréfsins, ákvæða ísl. réttar um umboð, aðfararlaga nr. 90/1989, laga um einkahlutafélög og laga um verslanaskrár, firmu og prókúruumboð svo og til dómafordæma Hæstaréttar Íslands til stuðnings kröfum sínum. Loks vísar varnaraðili til XXI. kafla laga nr. 91/1991 til stuðnings málskostnaðarkröfu sinni.
Niðurstaða:
Sóknaraðili krafðist þess við framkvæmd aðfarargerðar þeirrar, sem hér er til umfjöllunar, að henni yrði frestað. Sýslumaður hafnaði þeirri kröfu, enda er mælt svo fyrir í 1. mgr. 26. gr. aðfararlaga, að aðfarargerð skuli að jafnaði ekki frestað, nema báðir málaðilar samþykki. Í 4. mgr. sömu lagagreinar segir, að aðfarargerð skuli fram haldið að kröfu gerðarbeiðanda, hafni sýslumaður kröfu gerðarþola um frestun hennar. Yfirlýsing sóknaraðila um að krefjast úrlausnar héraðsdómara á ákvörðun sýslumanns um framhald gerðarinnar, gat því ekki stöðvað framgang hennar.
Samkvæmt 92. gr. aðfararlaga getur gerðarþoli krafist úrlausnar héraðsdóms um gildi aðfarargerðar. Svo virðist sem engar hömlur séu við því, hvaða málsástæðum kærandi byggir á, hvorki hvað form né efni varðar. Af bókun sýslumanns í gerðarbók um framgang aðfarargerðarinnar verður ekkert ráðið, hvort eða með hvaða hætti sóknaraðili hafi rökstutt beiðni sína um frestun aðfarargerðarinnar.
Sóknaraðili byggir kröfu sína um ógildingu umræddrar aðfarargerðar hér fyrir dómi á þeirri einu málsástæðu, að Þórir Garðarsson, stjórnarformaður í stjórn félagsins, hafi einn staðið að undirritun sjálfskuldaryfirlýsingar þeirrar, sem aðfarargerðin styðst við. Samkvæmt samþykktum félagsins skuli tveir stjórnarmenn rita firmað. Undirritun Þóris Garðarssonar sem prókúruhafa sé því marklaus og hafi engar skyldur í för með sér fyrir sóknaraðila.
Ómótmælt er að Þórir Garðarsson hafði prókúruumboð fyrir sóknaraðila, sbr. framlagt vottorð frá hlutafélagaskrá.
Í þriðja kafla laga nr. 42/1903 er fjallað um prókúruumboð. Samkvæmt 25. gr. laganna hefur sá, sem fengið hefur prókúruumboð, heimild til að rita firma og annast allt það f.h. umbjóðandans, er snertir rekstur atvinnu hans. Sú takmörkun er þó sett að prókúruhafi má ekki selja eða veðsetja fasteign umbjóðanda síns, nema hann hafi til þess beint umboð.
Í 27. gr. laganna er mælt svo fyrir að prókúruumboð megi ekki ,,binda við ákveðinn tíma eða takmarka á annan hátt, ef það skal gilt vera gagnvart öðrum mönnum, þeim er eigi eru vitandi um það.”
Dómurinn lítur svo á, með vísan til framangreindra lagaákvæða, að falist hafi í prókúruumboði Þóris Garðarssonar, stjórnarformanns, heimild til að skuldbinda sóknaraðila með sjálfskuldaryfirlýsingu þeirri, sem hér er um að tefla. Ekkert liggur fyrir um það, að undirritun stjórnarformannsins hafi ekki verið í þágu félagsins, eða ekki tengst daglegum rekstri þess, svo sem sóknaraðili byggir nú á öðrum þræði. Vísað er til þess í þessu sambandi, að fært er til gerðarbókar sýslumanns við framkvæmd umræddrar aðfarargerðar, að fyrirsvarsmaður sóknaraðila hafi ekkert við kröfu gerðarbeiðanda að athuga.
Þegar allt það er virt, sem að framan er lýst, þykir verða að hafna kröfu sóknaraðila um ógildingu umræddrar aðfarargerðar, eins og nánar segir í úrskurðarorði.
Rétt þykir að sóknaraðili greiði varnaraðila málskostnað, sem þykir hæfilegur 49.800 krónur að teknu tilliti til skyldu varnaraðila til að greiða virðisaukaskatt af málflutningsþóknun.
Skúli J. Pálmason kvað upp þennan úrskurð.
Úrskurðarorð:
Hafnað er kröfu sóknaraðila, AllrahandaÍsferða ehf., um að ógilt verði fjárnámsgerð sýslumannsins í Reykjavík nr. 011-2000-15070, sem fram fór hjá sóknaraðila 6. desember 2000 að kröfu varnaraðila, Hermanns Ómarssonar.
Sóknaraðili greiði varnaraðila 49.800 krónur í málskostnað.