Hæstiréttur íslands

Mál nr. 165/2016

Alþjóðlegar bifreiðatryggingar á Íslandi sf. (Ingvar Sveinbjörnsson hrl.)
gegn
A (Steingrímur Þormóðsson hrl.)

Lykilorð

  • Ökutæki
  • Skaðabætur
  • Líkamstjón
  • Gjafsókn

Reifun

A krafðist viðurkenningar á því að hann ætti rétt til skaðabóta úr hendi ABÍ vegna líkamstjóns sem hann varð fyrir er ekið hafði verið á hann af óþekktu vélknúnu ökutæki með vísan til 94. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 3. mgr. 18. gr. og 20. gr. reglugerðar nr. 424/2008. Var horft til þess samræmis sem hefði verið í frásögn A af slysinu og að ekkert hefði komið fram sem veikt gæti trúverðugleika hans. Talið var að hann hefði leitt nægar líkur að því að hann hefði slasast af völdum skráningarskylds ökutækis og var því bótaskylda ABÍ viðurkennd.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Greta Baldursdóttir og Benedikt Bogason og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 2. mars 2016. Hann krefst sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar sem honum hefur verið veitt.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Eftir þessum úrslitum verður áfrýjandi dæmdur til að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti sem renni í ríkissjóð. Fer um þann málskostnað og gjafsóknarkostnað stefnda samkvæmt því sem nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Alþjóðlegar bifreiðatryggingar á Íslandi sf., greiði 500.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti sem renni í ríkissjóð.

Allur gjafsóknarkostnaður stefnda, A, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, 500.000 krónur.

                                                           

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 8. desember 2015.

                Mál þetta höfðaði A, […], með stefnu birtri 23. janúar 2015 á hendur Alþjóðlegum bifreiðatryggingum á Íslandi sf., Borgar­túni 35, Reykjavík.  Málið var dómtekið að lokinni aðalmeðferð 10. nóvember sl. 

                Stefnandi krefst þess að viðurkennd verði skaðabótaskylda stefnda vegna líkamstjóns er hann varð fyrir hinn 9. september 2012, er ekið var á hann af óþekktu vélknúnu ökutæki, þannig að stefnandi hlaut varanlega tognun í háls- og lendhrygg.  Þá krefst stefnandi málskostnaðar að mati dómsins.

                Stefndi krefst sýknu af kröfum stefnanda og málskostnaðar að mati dómsins. 

                Í 94. gr. umferðarlaga nr. 50/1988 er mælt fyrir um að ráðherra skuli setja reglur um skyldu tryggingafélaga til að taka þátt í gagnkvæmu ábyrgðarkerfi vegna tjóna af völdum óvátryggðra og óþekktra ökutækja.  Um þetta efni eru nánari reglur í VI. og VII. kafla reglugerðar nr. 424/2008.  Þar er stefnda falið að starfa sem tjóns­uppgjörsmiðstöð og á hann m.a. að gera upp líkamstjón sem hlotist hefur af notkun óþekktra vélknúinna ökutækja hér á landi, sbr. 2. mgr. 20. gr. 

                Í stefnu segir að stefnandi hafi þann 9. september 2012 verið á reiðhjóli neðst við hringtorg við mót Sævarhöfða og Bíldshöfða.  Þá hafi ökutæki verið ekið á miklum hraða utan í vinstri hlið hans þannig að hann hafi fallið af hjólinu og meiðst.  Bifreiðin hafi verið af gerðinni Mitsubishi Lancer.  Henni hafi þegar verið ekið á brott af vettvangi og hafi stefnandi ekki náð að sjá númerið á henni. 

                Stefnandi leitaði ekki á slysadeild, en fór á Heilsugæsluna […] þremur þann 12. september.  Í skráningu heilsugæslunnar segir orðrétt:  „Var að hjóla þann 9. september neðst í Bíldshöfða, við Elliðaárósa um kl. 15-16.  Bíll fer í hlið hans og hann kastast til hliðar og lendir á grasi...  Hann er allur aumur í vi hliðinni.  Verkur, mar og bóla á vi handarbaki.  Er indir og dir aumur yfir MCP lið 4.  Smá skráma og örlar á mari ofan við hnéskeljar.  Gengur allur haltur og skakkur.  Er aumur para­vertebralt beggja megin í hálsi, aumur niður paravertebralt vi megin, alveg niður á os ileum.  Eymsli efst í trapezius bilat.  Er helaumur á vi herðablaði ofanverðu, fær nálar­dofa og verk niður utanverðan vi handlegginn.  Nálardofi niður utanvert vi ganglim einnig.  Dir og indirekt aumur yfir neðstu rifjum vinstra megin...“ 

                Tekin var röntgenmynd af vinstri hendi stefnanda, en hún sýndi ekki bein­áverka. 

                Stefnandi gerði ekki reka að því að hafa uppi kröfur vegna þessa slyss fyrr en lögmaður sem vann fyrir hann vegna annars slyss komst á snoðir um atvikið.  Leitaði stefnandi þá til lögreglu og var tekin af honum skýrsla þann 23. október 2013.  Þar er haft eftir stefnanda að hann hafi hjólað eftir Malarhöfða til vesturs.  Er hann hafi verið kominn út úr hringtorgi neðst í Malarhöfða hafi Mitsubishi Lancer bifreið verið ekið utan í vinstri hlið hans og hafi hann fallið af hjólinu og út í móa.  Ökumaðurinn hafi ekið rakleitt eftir aðreininni inn á Sæbraut. 

                Stefnandi sagði í aðilaskýrslu sinni að hann hefði verið að hjóla niður Bílds­höfða.  Þegar hann hafi nálgast hjólastíg nálægt gömlu brúnum hafi bíll rekist utan í hann vinstra megin.  Hann hafi séð að þetta var hvítur Mitsubishi Lancer.  Það hafi verið fólk úti á Geirsnefi og einhverjir hafi komið til að stumra yfir honum.  Hann hafi sagt þeim að þetta væri allt í lagi; hann hafi ekki haldið að þetta væri neitt alvarlegt.  Hann hafi ekki farið í vinnuna daginn eftir vegna meiðslanna, en loks farið á heilsu­gæslu þremur dögum síðar.  Hann hafi verið frá vinnu í hálfan mánuð.  Hann hafi verið að vinna í […], en gefist upp þar sem vinnan hafi verið of erfið. 

                Hann hafi ekki tilkynnt þetta lögreglu þar sem hann hafi talið að það þýddi ekki að reyna að sækja bætur.  Hann hafi farið af stað með þetta mál þegar lögmaður vann í öðru slysamáli fyrir hann. 

                Í málinu liggja frammi læknisvottorð B og C, sem bæði varða slys það sem stefnandi varð fyrir 2. apríl 2013. 

                Í matsgerð sem unnin var af D lækni og E lögfræðingi, dags. 20. júní 2014, eru metnar afleiðingar síðara slyssins, auk þess sem D mat afleiðingar slyss þess sem hér er deilt um.  Taldi hann að varanleg örorka næmi 6%.  Veldur þessi niðurstaða ekki ágreiningi. 

                Stefndi hafnaði kröfum stefnanda þegar er hann hafði þær uppi.  Var málinu skotið til úrskurðarnefndar í vátryggingamálum, sem komst að þeirri niðurstöðu þann 12. ágúst 2014 að stefnandi ætti ekki rétt á bótum frá stefnda.  Var mál þetta höfðað í kjölfar þess eins og áður greinir. 

                Málsástæður og lagarök stefnanda

                Stefnandi byggir á því að hann hafi orðið fyrir líkamstjóni af völdum óþekkts vélknúins ökutækis í skilningi 18. gr. og 2. mgr. 20. gr. reglugerðar nr. 424/2008, sbr. 94. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.  Því eigi hann rétt á bótum úr hendi stefnda. 

                Stefnandi segir að honum hafi verið ómögulegt að hafa uppi á umræddri bifreið, en hann hafi ekki áttað sig á því strax að hann hefði orðið fyrir varanlegu líkamstjóni.  Því hafi hann ekki kært málið til lögreglu.  Ekki sé áskilið í áðurnefndri reglugerð að mál sé kært til lögreglu. 

                Stefnandi bendir á að hann hafi leitað til læknis þremur dögum eftir slysið.  Hafi hann talið að hann myndi ná sér strax, en sú hafi ekki orðið raunin.  Skráning í sjúkraskrá heilsugæslunnar […] veiti nægar upplýsingar um slysið. 

                Stefnandi telur að orðalag 2. mgr. 20. gr. feli í sér að gerðar séu vægari kröfur til sönnunar en venjulegt sé í einkamálaréttarfari.  Hér dugi að sýna fram á að meiri líkur en minni séu á því að fullyrðingar hans séu réttar.  Styður hann þetta einnig við forsögu ákvæðis 94. gr. umferðarlaga og ökutækjatilskipun Evrópusambandsins, 2000/26/EB, og þriggja tilskipana um ökutækjatryggingar, 72/430/EBE, 84/5/EBE og 90/232/EBE.  Segir stefnandi að slakað hafi verið á sönnunarkröfum með því að til­skipanir þessar hafi verið innleiddar í íslenskan rétt.

                Stefnandi telur að áverkar sínir sem lýst er í vottorðum séu í samræmi við lýsingar hans á slysinu. 

                Stefnandi byggir á því að hann hafi ekki vitað um rétt sinn til bóta vegna óþekkts ökutækis fyrr en hann leitaði til lögmanns vegna slyss sem hann varð fyrir í apríl 2013. 

                Stefnandi vitnar til markmiðsákvæðis 1. gr. laga nr. 56/2010.  Hann kveðst hafa lögvarða hagsmuni af viðurkenningarkröfu sinni en staðfest hafi verið í matsgerð læknis að hann hafi hlotið varanlega örorku í slysinu.  Hann hafi leitt nægar líkur að því að hann hafi slasast af völdum óþekkts ökutækis. 

                Málsástæður og lagarök stefnda

                Stefndi bendir á að málsatvik séu óljós og að einungis njóti við einhliða frásagnar stefnanda.  Mikill munur sé á lýsingu slyssins í lögregluskýrslu, í skráningu í sjúkraskrá og í stefnu.  Þannig komi t.d. fram á einum stað að stefnandi hafi af­þakkað flutning með sjúkrabíl.  Þá sé ekki samræmi í því hvar slysið hafi átt að hafa orðið. 

                Stefndi mótmælir því að sérregla um sönnun gildi samkvæmt reglugerð nr. 42/2008.  Allt frá því að byrjað var að greiða bætur vegna óþekktra ökutækja hafi tjón­þoli þurft að sanna að hann hafi orðið fyrir tjóni af völdum ökutækis.  Þá sé ekki mælt fyrir um að slaka skuli á sönnunarkröfum.  Það verði heldur ekki leitt af ökutækja­tilskipunum Evrópusambandsins. 

                Stefndi byggir á því að ósannað sé að ökutæki hafi ekið á stefnanda.  Hann bendir á að stefnandi sé margsaga um atvik og hann hafi ekki gert neitt til að tryggja sér sönnun um atvik.  Hann geti t.d. ekki bent á neinn af þeim sem komu að honum á vettvangi.  Þá hafi hann ekki tilkynnt slysið til lögreglu fyrr en löngu síðar.  Stefnandi verði að bera hallann af þessari vanrækslu sinni. 

                Stefndi segir að stefnandi verði að sýna fram á að það sé hafið yfir skyn­samlegan vafa að skráningarskylt ökutæki hafi valdið slysinu.  Hann víkur að dómi Hæstaréttar í máli nr. 228/2013 og segir að þessi dómur skeri sig úr fyrri dómum og geti ekki talist fordæmi. 

                Niðurstaða

                Aðilar deila einungis um það hvort stefnandi hafi orðið fyrir slysi þann 9. september 2012 af völdum óþekktrar skráningarskyldrar bifreiðar.  Því er ekki mót­mælt að stefnandi hafi slasast eða niðurstaða matsmanns um varanlega örorku af völdum slyssins dregin í efa. 

                Samkvæmt 88. gr., sbr. 90. gr., umferðarlaga nr. 50/1987 hvílir hlutlæg bóta­ábyrgð á skráðum eiganda eða umráðamanni skráningarskylds, vélknúins ökutækis vegna tjóns sem hlýst af notkun þess.  Greiðsla bótakröfu skal tryggð með ábyrgðar­tryggingu samkvæmt 91. gr. laganna.  Í 94. gr. laganna kemur fram að ráðherra setji reglur um framkvæmd vátryggingarskyldunnar, þar á meðal um skyldu vátrygginga­félaga til að taka þátt í gagnkvæmu ábyrgðarkerfi vegna tjóns af völdum óvátryggðra og óþekktra ökutækja.  Samkvæmt þessari heimild hefur reglugerð nr. 424/2008 um lögmæltar ökutækjatryggingar verið sett.  Í VI. kafla reglugerðarinnar er fjallað um tjónsuppgjörsmiðstöð sem nefnd er Alþjóðlegar bifreiðatryggingar sf.  Í 3. mgr. 18. gr. reglugerðarinnar segir að þessari miðstöð sé „sem ábyrgðaraðila skylt að greiða bætur fyrir tjón sem hlýst af notkun óþekkts eða óvátryggðs skráningarskylds vélknúins öku­tækis eða óvátryggðs skráningarskylds vélknúins ökutækis eins og nánar er kveðið á um í 20. gr.“  Alþjóðlegar bifreiðatryggingar eru stefndi í þessu máli. 

                Stefnandi ber sönnunarbyrðina fyrir því að stefndi sé greiðsluskyldur.  Honum ber að sanna að hann hafi hlotið meiðsl af völdum óþekkts ökutækis.  Hér er ekki öðrum sönnunargögnum teflt fram en aðilaskýrslu stefnanda og skriflegum frásögnum lækna og hjúkrunarfræðinga af meiðslum hans. 

                Meginatriði í frásögn stefnanda af slysinu er það að hann hafi verið á hjóli og að bifreið hafi rekist utan í hann þannig að hann féll til jarðar.  Þessu lýsti stefnandi strax við komuna á heilsugæslustöð þremur dögum eftir óhappið og frásögnin hefur ekki breyst síðan. 

                Frásagnir af því hvar slysið átti sér stað eru ekki samhljóða.  Við komu á heilsugæslustöð nefndi stefnandi Bíldshöfða.  Við skýrslugjöf hjá lögreglu var haft eftir honum að slysið hefði orðið á Malarhöfða.  Í stefnu og aðilaskýrslu er vettvangur aftur orðinn Bíldshöfði.  Þetta misræmi skiptir ekki máli, en af lögregluskýrslunni er ljóst að stefnandi er þar að lýsa aðstæðum eins og þær eru á mótum Bíldshöfða og Sævarhöfða. 

                Stefnandi leitaði ekki læknis fyrr en þremur dögum eftir slysið.  Hann segist hafa talið að hann myndi jafna sig fljótt, en sú hafi ekki orðið raunin.  Eftir atvikum dregur þetta ekki úr trúverðugleika hans. 

                Stefnandi reyndi ekki að afla sönnunargagna um atvikið, t.d. með kæru til lög­reglu, fyrr en löngu síðar.  Þá virðist lítið hafa verið gert til að upplýsa málið frekar.  Sú fullyrðing stefnanda að hann hafi talið að hann gæti ekki sótt neinar bætur, þar eð hann vissi ekki hvaða bifreið átti í hlut, er í sjálfu sér trúverðug.  Flestir lögfræðingar vita af reglum um bætur vegna slysa af völdum óþekktra ökutækja, en sennilega eru þær ekki á hvers manns vitorði.  Verður stefnandi ekki látinn bera sérstaklega hallann af því að ekki var haft uppi á þeim aðilum sem komu að honum á vettvangi. 

                Meiðslum stefnanda er lýst í gögnum málsins.  Stefndi dregur ekki efa að þau geti hafa hlotist við óhapp það sem stefnandi lýsir. 

                Þegar þessi atriði eru virt verður einkum að horfa til þess samræmis sem er í meginatriðum atvikalýsingar stefnanda og þess að ekkert er fram komið sem veikir trúverðugleika hans.  Þótt ekki verði fallist á það með honum að hér skuli gerðar vægari kröfur til sönnunar en tíðkast almennt í skaðabóta- eða einkamálarétti, hefur hann leitt nægar líkur að því að hann hafi slasast af völdum skráningarskylds öku­tækis.  Verður að telja að þessar líkur séu nægilega miklu meiri en líkurnar fyrir hinu gagnstæða til þess að fallist verði á kröfur hans. 

                Bótaskylda stefnda verður því viðurkennd eins og krafist er, en krafan er eins og hér stendur á nægilega skýr. 

                Stefnandi hefur gjafsókn.  Málflutningsþóknun lögmanns hans er ákveðin með virðisaukaskatti 825.000 krónur og greiðist hún úr ríkissjóði auk útlagðs kostnaðar.  Stefnda verður gert að greiða 900.000 krónur í málskostnað til ríkissjóðs. 

                Jón Finnbjörnsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan. 

D ó m s o r ð

                Viðurkennd er skaðabótaskylda stefnda, Alþjóðlegra bifreiðatrygginga á Íslandi sf., vegna líkamstjóns sem stefnandi, A, varð fyrir þann 9. september 2012, er hann hlaut varanlega tognun í háls- og lendhrygg. 

                Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun, 825.000 krónur. 

                Stefndi greiði 900.000 krónur í málskostnað til ríkissjóðs.