Hæstiréttur íslands
Nr. 2022-133
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Líkamstjón
- Vátrygging
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ingveldur Einarsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
2. Með beiðni 10. nóvember 2022 leitar A leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 14. október sama ár í máli nr. 438/2021: A gegn Sjóvá-Almennum tryggingum hf. á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.
3. Mál þetta lýtur að kröfu leyfisbeiðanda um viðurkenningu á bótaskyldu gagnaðila úr slysatryggingu ökumanns bifreiðar vegna líkamstjóns sem leyfisbeiðandi varð fyrir. Ágreiningur aðila snýr einvörðungu að því hvort slysið hafi orðið við stjórn bifreiðar í skilningi 2. mgr. 92. gr. þágildandi umferðarlaga nr. 50/1987 og verði rakið til notkunar ökutækisins í merkingu 88. gr. sömu laga.
4. Héraðsdómur sýknaði gagnaðila af kröfu leyfisbeiðanda og Landsréttur staðfesti þá niðurstöðu. Í dómi Landsréttar kom meðal annars fram að hugtakið notkun ökutækis væri hvorki skilgreint í umferðarlögum né lögskýringargögnum en ráða mætti af langri dómaframkvæmd Hæstaréttar að þegar ökutæki sé á hreyfingu væri skilyrði 88. gr. varðandi notkun að öllu jöfnu uppfyllt en einnig ef ökutækið sé notað þannig að sérstakir eiginleikar þess sem ökutækis leiði til tjóns. Af dómum Hæstaréttar mætti ráða að hættan sem stafi af ökutækjum væri fyrst og fremst tengd hraða, vélarafli og þyngd þeirra. Orsök slyssins hefði hvorki verið vegna aksturs bifreiðarinnar né sérstakra hættueiginleika hennar sem ökutækis og hinn áfrýjaði dómur staðfestur um sýknu gagnaðila.
5. Leyfisbeiðandi byggir á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi enda sé mikilvægt að fá úr því skorið hvort athafnir stjórnanda kyrrstæðra bifreiða, sem hafa bein tengsl við akstur hennar og sérstaka eiginleika, falli innan notkunarhugtaks umferðarlaga og laga um ökutækjatryggingar nr. 30/2019. Þá byggir leyfisbeiðandi á því að málið varði mikilvæga hagsmuni sína. Loks byggir hann á því að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur. Auk þess hafi ekki verið tekið mið af tengslum slyssins við sérstakan útbúnað ökutækisins.
6. Að virtum gögnum málsins er hvorki unnt að líta svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðninni er því hafnað.