Hæstiréttur íslands
Mál nr. 322/2005
Lykilorð
- Skilorðsrof
- Þjófnaður
- Ítrekun
|
|
Fimmtudaginn 1. desember 2005. |
|
Nr. 322/2005. |
Ákæruvaldið(Bogi Nilsson ríkissaksóknari) gegn Margréti Helenu Másdóttur (Hilmar Ingimundarson hrl.) |
Þjófnaður. Ítrekun. Skilorðsrof.
M var sakfelld
fyrir þjófnað með því að hafa stolið borði, DVD-spilara, grilli og leikföngum
úr verslun í Reykjavík. M hafði samkvæmt sakarvottorði þrívegis áður hlotið
dóma fyrir þjófnaðarbrot, og hafði með broti sínu rofið skilorð 60 daga
fangelsisdóms. Bar því með vísan til 60. gr. almennra hegningarlaga að taka upp
skilorðsdóminn og ákveða refsingu í einu lagi fyrir bæði brotin, sbr. 77. gr.
almennra hegningarlaga. Var við ákvörðun refsingar litið til þessa, sem og
skýlausrar játningar M og þess að þýfið komst allt til skila. Var M ákveðin
óskilorðsbundin fangelsisrefsing í 90 daga.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson og Pétur Kr. Hafstein fyrrverandi hæstaréttardómari.
Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 5. júlí 2005 í samræmi við yfirlýsingu ákærðu áfrýjun, en einnig af hálfu ákæruvalds, sem krefst nú staðfestingar héraðsdóms.
Ákærða krefst þess að refsing hennar verði milduð á þann veg að hún verði skilorðsbundin.
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.
Ákærða verður dæmd til að greiða allan sakarkostnað málsins í héraði og fyrir Hæstarétti samkvæmt yfirliti ríkissaksóknara um sakarkostnað og ákvörðun Hæstaréttar um málsvarnarlaun, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður um annað en sakarkostnað.
Ákærða, Margrét Helena Másdóttir, greiði allan sakarkostnað málsins í héraði og fyrir Hæstarétti, samtals 242.775 krónur, sem er málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærðu, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, á báðum dómstigum.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 7. júní 2005.
Mál þetta var höfðað með ákæru lögreglustjórans í Reykjavík, dagsettri
19. apríl sl., á hendur Margréti Helenu Másdóttur, kt. 220357-3689, Kleppsvegi
22, Reykjavík, „fyrir þjófnað með því
að hafa mánudaginn 21. mars 2005 í versluninni Hagkaup, Kringlunni 4-12,
Reykjavík, stolið borði á hjólum, United DVD spilara, Philips mínútugrilli og
leikföngum, samtals að verðmæti kr. 43.978.
Telst þetta varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Þess er krafist að ákærða verði dæmd til refsingar.“
Ákærða hefur játað brot sitt fyrir dóminum. Er játning hennar í samræmi
við önnur gögn málsins og verður hún sakfelld fyrir brot sitt, en það er í
ákæru réttilega heimfært til refsiákvæða.
Ákærða hefur samkvæmt sakavottorði þrívegis hlotið dóma
fyrir þjófnaðarbrot, fyrst í mars 2004, en þá hlaut hún 35.000 króna sekt,
síðan í júní 2004, en þá var ákærða dæmd í 30 daga fangelsi, skilorðsbundið í 2
ár og síðast hlaut ákærða 60 daga fangelsisdóm, 16. mars 2005, skilorðsbundinn
í 3 ár. Ákærða hefur með broti sínu nú rofið skilorð síðastgreinds dóms, en
brotið er framið aðeins nokkrum dögum eftir að hún hlaut dóminn. Ber því með
vísan til 60. gr. almennra hegningarlaga að taka upp skilorðsdóminn og ákveða
refsingu ákærðu í einu lagi fyrir bæði brotin, sbr. 77. gr. almennra
hegningarlaga nr. 19/1940. Verður við ákvörðun refsingar litið til þess að
ákærða er nú í fjórða sinn sakfelld fyrir þjófnað, sbr. 255. gr. almennra hegningarlaga,
en jafnframt litið til skýlausrar játningar hennar og þess að þýfið komst allt
til skila.
Að þessu virtu verður
refsing ákærðu ákveðin fangelsi í 90 daga, en þegar litið er til þess að ákærða
hefur tvívegis rofið skilorð með stuttu millibili, verður refsing hennar ekki
skilorðsbundin.
Ákærða skal greiða allan
sakarkostnað, þar með talda málsvarnarþóknun skipaðs verjanda síns, Hilmars
Ingimundarsonar hrl., 45.000 krónur.
Ingveldur Einarsdóttir
héraðsdómari, kveður upp dóm þennan.
D ó m s o r ð :
Ákærða, Margrét Helena Másdóttir sæti fangelsi í 90 daga.
Ákærða greiði allan sakarkostnað málsins, þar með talda
málsvarnarþóknun skipaðs verjanda ákærðu, Hilmars Ingimundarsonar,
hæstaréttarlögmanns, 45.000 krónur.