Hæstiréttur íslands

Mál nr. 5/2009


Lykilorð

  • Kærumál
  • Hæfi dómara


Þriðjudaginn 20

 

Þriðjudaginn 20. janúar 2009.

Nr. 5/2009.

A og

B

(Guðjón Ólafur Jónsson hrl.)

gegn

D

(enginn)

 

Kærumál. Dómarar. Hæfi.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu A og B um að dómari málsins viki sæti. 

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Hjördís Hákonardóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 22. desember 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 7. janúar 2009. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 9. desember 2008, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að dómari málsins viki sæti. Kæruheimild er í 1. mgr. 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Sóknaraðilar krefjast þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að víkja sæti í málinu. Þá krefjast þeir kærumálskostnaðar.

Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.

Sóknaraðilar hafa ekki sýnt fram á að fyrir hendi séu þau atvik eða aðstæður, sem valdið geta því að héraðsdómari verði talinn vanhæfur til að fara með málið vegna ákvæðis g. liðar 5. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 131. gr. laga nr. 20/1991. Verður hinn kærði úrskurður því staðfestur.

Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 9. desember 2008.

Með kröfu móttekinni í Héraðsdómi Reykjavíkur 16. maí sl. hafa A, […], Bandaríkjum Norður-Ameríku, og B, […] Bandaríkjum Norður-Ameríku, með vísan til 38. gr. laga nr. 20, 1991 um skipti á dánarbúum o.fl., krafist opinberra skipta á dánarbúi móðurbróður þeirra, C, kt. [...], Reykjavík, sem lést 17. janúar 2008.

Með úrskurði dómsins uppkveðnum 26. maí 2008 var kröfunni um opinber skipti hafnað. Úrskurðurinn var kærður til Hæstaréttar Íslands sem með dómi uppkveðnum 25. júní s.á. í málinu nr. 339/2008 ómerkti hinn kærða úrskurð og vísaði málinu heim til löglegrar meðferðar.

Í þinghaldi sem háð var til fyrir töku málsins þann 14. nóvember sl. var þess  krafist af hálfu skiptabeiðenda að dómari málsins viki sæti þar sem hann hefði með úr­skurð­inum 26. maí 2008 tekið efnislega afstöðu til erfðaréttar og því þegar tekið efnis­lega afstöðu í málinu. Um lagarök fyrir kröfunni var vísað til g. liðar 5. mgr. 5. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Var krafan þegar tekin til úrskurðar.

Dómari verður ekki vanhæfur til að fara með og dæma mál öðru sinni eftir ómerk­ingu dóms sem hann hefur kveðið upp. Samkvæmt því verður kröfu skipta­beiðanda um að dómari málsins, Þorgerður Erlendsdóttir héraðsdómari, víki sæti hafnað.

Þorgerður Erlendsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.

Ú r s k u r ð a r o r ð:

Kröfu skiptabeiðenda um að dómari málsins víki sæti er hafnað.