Hæstiréttur íslands

Mál nr. 491/2004


Lykilorð

  • Rán
  • Ávana- og fíkniefni
  • Akstur sviptur ökurétti
  • Ölvunarakstur
  • Ítrekun
  • Vanaafbrotamaður
  • Hegningarauki
  • Skaðabætur


Fimmtudaginn 17

 

Fimmtudaginn 17. mars 2005.

Nr. 491/2004.

Ákæruvaldið

(Bragi Steinarsson vararíkissaksóknari)

gegn

Einari Birni Ingvasyni

(Kristján Stefánsson hrl.)

 

Rán. Ávana- og fíkniefni. Akstur án ökuréttar. Ölvunarakstur. Ítrekun. Vanaafbrotamaður. Hegningarauki. Skaðabætur.

 

E var sakfelldur fyrir rán, akstur án ökuréttar, ölvunarakstur og að hafa haft fíkniefni í vörslum sínum. Með vísan til 72., 78. og 255. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 var E gert að sæta fangelsi í 2 ár og 6 mánuði.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 7. desember 2004 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst þess að refsing ákærða verði þyngd.

Ákærði krefst þess að refsing verði milduð.

Sakaferill ákærða er að nokkru rakinn í hinum áfrýjaða dómi. Hann er nú í þriðja sinn sakfelldur fyrir rán, en fyrri dómarnir gengu 1991 og 1992. Hann hefur að auki samfellda sögu um auðgunarbrot allt frá upphafi brotaferils síns og þar til hann var dæmdur í 5 mánaða fangelsi í Héraðsdómi Reykjavíkur 25. febrúar 2004, meðal annars fyrir þjófnaðarbrot. Verður við ákvörðun refsingar hans litið til ákvæða 255. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og einnig 72. gr. sömu laga. Vegna sakaferils ákærða á sviði umferðarlagabrota er ljóst að brot af þeim toga, sem hann er sakfelldur fyrir í þessu máli, myndu ein og sér varða þungri refsingu. Ákvæði 78. gr. almennra hegningarlaga um hegningarauka hafa þýðingu fyrir ákvörðun refsingar nú, að því er varðar ránsbrotið 1. febrúar 2004 og umferðarlagabrotin 12. mars 2004, en þessi brot voru framin, áður en dómur gekk á hendur ákærða í Héraðsdómi Reykjaness 15. júní 2004 og ránsbrotið einnig áður en hann var dæmdur í Héraðsdómi Reykjavíkur 25. febrúar 2004. Fíkniefnalagabrotin í október og desember 2003 myndu ekki hafa haft áhrif á refsinguna sem ákveðin var í þessum dómum. Þegar höfð er hliðsjón af því sem hér hefur verið rakið og að öðru leyti af því sem að auki greinir í forsendum hins áfrýjaða dóms, er refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 2 ár og 6 mánuði.

Ákvæði hins áfrýjaða dóms um sviptingu ökuréttar og sakarkostnað verða staðfest.

Ákvæði héraðsdóms um upptöku fíkniefna og skaðabótagreiðslu eru ekki til endurskoðunar fyrir Hæstarétti og standa því óröskuð.

Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Ákærði, Einar Björn Ingvason, sæti fangelsi í 2 ár og 6 mánuði.

Héraðsdómur skal að öðru leyti vera óraskaður.

Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Kristjáns Stefánssonar hæstaréttarlögmanns, 100.000 krónur.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 29. október 2004.

Málið er höfðað með þremur ákærum á hendur ákærða, Einari Birni Ingvars­syni, kt. […], Hraunbæ 80, Reykjavík.

Í fyrsta lagi er málið höfðað með ákæru Ríkissaksóknara, dagsettri 6. maí sl., “fyrir rán, með því að hafa, að kvöldi sunnudagsins 1. febrúar 2004 komið með andlit sitt hulið inn í verslunina 10/11 að Barónsstíg 2-4 í Reykjavík, ógnað A, sem þar var við afgreiðslu, með barefli og skipað henni að afhenda sér reiðufé úr sjóðsvélum verslunarinnar, samtals krónur 73.814, sem ákærði hafði á brott með sér.”

Í öðru lagi er málið höfðað með ákæru Lögreglustjóran í Reykjavík, dagsettri 25. maí sl., “fyrir eftirtalin brot framin í Reykjavík:

1.   Fíkniefnalagabrot:

1.1        Þriðjudaginn 21. október 2003 í bifreiðinni JM-137 sem lögregla hafði afskipti af í Austurstræti, haft í vörslum sínum 0,65 g af amfetamíni og 1,46 g af kannabisefni.   M. 010-2003-24394

1.2  Laugardaginn 13. desember 2003 að Yrsufelli 3 haft í vörslum sínum 5 töflur með fíkniefniefninu MDMA og 1,71 g af amfetamíni.  M. 010-2003-28427

Telst þetta varða við 2. gr., sbr. 5. og 6. gr., laga um ávana- og fíkniefni nr. 65, 1974, sbr. lög nr. 13,1985, sbr. lög nr. 68,2001, og 2. gr., sbr. 1. mgr. 14. gr., reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233,2001, sbr. reglugerð nr. 848,2002.

2.   Umferðarlagabrot með því að hafa aðfaranótt föstudagsins 12. mars 2004 ekið bifreiðinni OE-122 sviptur ökurétti um götur í borginni svo sem hér er rakið:

Kl. 01.29 um Hallsveg og Gullinbrú

Kl. 03.07 um Höfðabakka                                             M. 010-2004-6001og 6125

Telst þetta varða við 1. mgr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr., umferðarlaga nr. 50,1987.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og að upptæk verði gerð framangreind fíkniefni, sem lagt var hald á, samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65,1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233,2001.”

Loks er málið höfðað með ákæru Lögreglustjórans, dagsettri 6. september sl., “fyrir umferðarlagabrot með því að hafa ekið bifreiðinni SN-346, aðfaranótt miðviku­dagsins 7. júlí 2004, undir áhrifum áfengis (vínandamagn í blóði 1,03‰) og sviptur ökurétti frá Breiðholtshverfi í Reykjavík, uns lögregla stöðvaði aksturinn við Funahöfða 10.

Þetta telst varða við 1. mgr., sbr. 2. mgr., 45. gr. og 1. mgr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr., umferðarlaga nr. 50,1987, sbr. 1. gr. laga nr. 48,1997.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til sviptingar ökuréttar skv. 101. og 102. gr. nefndra umferðarlaga, sbr. 25. gr. laga nr. 44,1993 og 2. gr. laga nr. 23,1998.”

Málavextir.

Ákærði hefur játað allt það atferli sem honum er gefið að sök í ákærunum.  Um sakarefnið í fyrstu ákærunni hefur þó farið fram aðalmeðferð vegna refsimarka 252. gr. almennra hegningarlaga.  Ákærði kannaðist við að hafa ógnað afgreiðslukonunni með barefli og að hafa tekið reiðufé úr afgreiðslukössum búðarinnar.  Styðst þessi játning hans við sakargögn í málinu, þ. á m. ljósmyndir af atburðinum.  Ákærði kveðst ekki muna hvað hann sagði við konuna og heldur að hann hafi sagt við hana að opna kassann.  Afgreiðslukonan hefur ekki komið fyrir dóm og verður ekki alveg talið sannað að ákærði hafi skipað henni að afhenda sér peningana.  Allt að einu telst vera sannað að ákærði hafi rænt fé úr kössunum eftir að hafa hrætt afgreiðslukonuna með ógnandi athæfi sínu.  Með þessum athugasemdum er því slegið föstu að ákærði sé sekur orðinn um öll brotin sem hann er ákærður fyrir og að hafa brotið gegn þeim refsiákvæðum sem tilgreind eru við þau í ákærunum.

Viðurlög, skaðabætur og sakarkostnaður.            

Ákærði hefur að baki langan sakferil.  Frá árinu 1990  og fram á þetta ár hefur hann hlotið 24 refsidóma fyrir margvísleg brot, aðallega hegningar- og umferðarlagabrot.  Þar á meðal er dómur fyrir rán og fleira árið 1992.  Er samanlögð refisvist ákærða samkvæmt þessum dómum orðin rúm tíu ár.  Refsingu ákærða nú ber að ákveða að mestu leyti sem hegningarauka við tvo síðust dómana.  Þegar litið er til greiðrar játningar ákærða í öllum tilvikunum þykir refsingin hæfilega ákveðin fangelsi í 2 ár.

Dæma ber með vísan til 5. gr. laga um ávana- og fíkniefni að upptæk séu úr hendi ákærða 2,36 g af amfetamíni, 5 töflur af efninu MDMA og 1,46 g af kannabisefni.

Árétta ber ævilanga ökuréttarsviptingu ákærða.     

Dæma ber ákærða til þess að greiða versluninni 10/11, kt. 450199-3629, 73.814 krónur í skaðabætur ásamt almennum vöxtum samkvæmt 4. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38, 2001, frá 1. febrúar 2004 til dómsuppsögu en þaðan í frá með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laganna til greiðsludags.

Dæma ber ákærða til þess að greiða allan sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun til verjanda síns, Kristjáns Stefánssonar hrl., 90.000 krónur. 

Pétur Guðgeirsson héraðsdómari kvað upp dóminn.

DÓMSORÐ:

Ákærði, Einar Björn Ingvarsson, sæti fangelsi í 2 ár.

Upptæk eru 2,36 g af amfetamíni, 5 töflur af efninu MDMA og 1,46 g af kannabisefni.

Ákærði er sviptur ökurétti ævilangt.             

Ákærði greiði versluninni 10-11, kt. 450199-3629, 73.814 krónur í skaðabætur ásamt almennum vöxtum frá 1. febrúar 2004 til dómsuppsögu en þaðan í frá með dráttarvöxtum til greiðsludags.

Ákærði greiði allan sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun til verjanda síns, Kristjáns Stefánssonar hrl., 90.000 krónur.