Hæstiréttur íslands
Mál nr. 210/2000
Lykilorð
- Umferðarlagabrot
- Fíkniefnalagabrot
- Þjófnaður
- Hylming
- Ítrekun
- Hegningarauki
- Vanaafbrotamaður
|
|
Fimmtudaginn 28. september 2000. |
|
Nr. 210/2000. |
Ákæruvaldið (Bragi Steinarsson vararíkissaksóknari) gegn Hauki Guðmundssyni (Kristján Stefánsson hrl.) |
Umferðarlagabrot. Fíkniefnalagabrot. Þjófnaður. Hylming. Ítrekun. Hegningarauki. Vanaafbrotamaður.
H var ákærður fyrir umferðarlagabrot, þjófnað, fíkniefnalagabrot og hylmingu. Var niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu og refsingu staðfest og H dæmdur til fangelsisrefsingar, en hann átti langan brotaferil að baki.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson og Gunnlaugur Claessen og Arnljótur Björnsson fyrrverandi hæstaréttardómari.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 23. maí 2000 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun og jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst nú staðfestingar héraðsdóms.
Ákærði krefst þess aðallega að sér verði ekki gerð refsing, en til vara að hún verði milduð frá því, sem dæmt var í héraði.
Málið var höfðað með ákæru lögreglustjórans í Reykjavík 27. desember 1999, þar sem ákærða var gefið að sök umferðarlagabrot 14. janúar sama árs, eins og nánar greinir í héraðsdómi. Lögreglustjóri gaf út aðra ákæru 7. mars 2000 á hendur ákærða og nafngreindri konu, þar sem þau voru borin sökum um að hafa í sameiningu brotið 24. júlí 1999 gegn 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Í þeirri ákæru var ákærða einum jafnframt gefið að sök fíkniefnalagabrot 24. júlí 1999, svo og brot gegn 254. gr. almennra hegningarlaga 27. október sama árs. Mál þessi voru sameinuð fyrir héraðsdómi. Gengust ákærðu þar við sökum og var hinn áfrýjaði dómur felldur á málið við svo búið. Unir meðákærða héraðsdómi.
Áður en málið var höfðað hafði ákærði frá árinu 1981 hlotið dóm 16 sinnum fyrir skjalafals, þjófnað, gripdeild, ólögmæta meðferð fundins fjár, rán, hilmingu, fíkniefnalagabrot og umferðarlagabrot, þar af sex skipti fyrir auðgunarbrot frá árinu 1996, síðast með dómum Héraðsdóms Reykjavíkur 8. júní og 25. júní 1999, sem voru staðfestir með dómi Hæstaréttar 25. nóvember sama árs. Þá hafði ákærði tvívegis á árinu 1995 gengist undir viðurlög fyrir fíkniefnalagabrot, en 17 sinnum á árunum frá 1984 til 1992 hafði lokið með sátt málum á hendur honum fyrir líkamsárásir, fíkniefnalagabrot og umferðarlagabrot. Brot ákærða samkvæmt ákæru 27. desember 1999 var framið áður en fyrrnefndir tveir héraðsdómar gengu á hendur honum í júní á því ári og verður honum því nú gerður hegningarauki fyrir það brot, sbr. 78. gr. almennra hegningarlaga. Brot samkvæmt ákæru 7. mars 2000 voru hins vegar framin að gengnum þeim dómum, sem hafa nú ítrekunaráhrif við ákvörðun refsingar að því er varðar þjófnaðarbrot ákærða 24. júlí 1999 og hylmingarbrot 27. október sama árs, sbr. 71. gr. og 255. gr. almennra hegningarlaga. Í sakavottorði, sem lá fyrir héraðsdómi við meðferð þessa máls, var ekki getið dóms, sem gekk á hendur ákærða og tveimur öðrum mönnum í Héraðsdómi Reykjaness 17. mars 2000 fyrir fimm þjófnaðarbrot og eina tilraun til slíks brots, en þau brot voru öll drýgð 25. janúar 1999. Með þeim dómi var ákærða gert að sæta fangelsi í sjö mánuði. Verður af þessum sökum að ákveða refsingu ákærða fyrir öll brotin, sem um ræðir í þessu máli, sem hegningarauka við þann dóm, sbr. 78. gr. almennra hegningarlaga. Ákærði hefur lagt í vana sinn að fremja auðgunarbrot. Verður því að gæta ákvæða 72. gr. almennra hegningarlaga við ákvörðun refsingar. Að öllu þessu athuguðu eru engin efni til að milda þá refsingu, sem ákærða var gerð með hinum áfrýjaða dómi. Skal héraðsdómur því standa óraskaður.
Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Ákærði, Haukur Guðmundsson, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Kristjáns Stefánssonar hæstaréttarlögmanns, 35.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 14. apríl 2000.
Málið er höfðað með ákæruskjali dagsettu 27. desember 1999 á hendur Hauki Guðmundssyni, kt. 190664-4499, Hverfisgötu 99, Reykjavík,
,, fyrir umferðarlagabrot, með því að hafa fimmtudaginn 14. janúar 1999 ekki gert viðeigandi ráðstafanir vegna áreksturs, sem hann átti hlut að á bifreiðastæði við Vítastíg 13, Reykjavík, milli bifreiðarinnar G-4677, sem ákærði ók, og bifreiðarinnar MM-887, heldur ekið brott af vettvangi.
Telst þetta varða við 1. og 2. mgr. 10. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr., umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 3. gr. laga nr. 57/1997.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.”
Með ákæru, dags. 7. mars 2000, á hendur: K, [...] og Hauki Guðmundssyni, kt. 190664-4499, báðum til heimilis að Hverfisgötu 991, Reykjavík,
“fyrir eftirtalin brot framin í Reykjavík á árinu 1999:
Ákærða Hauki:
1.
Fíkniefnalagabrot, með því að hafa laugardaginn 24. júlí á veitingastaðnum Keisarinn, Laugavegi 116, haft í vörslum sínum 4,88 g af amfetamíni, sem lögregla lagði hald á.
Telst þetta varða við 2. gr., sbr. 5. gr., laga um ávana- og fíkniefni nr. 65, 1974, sbr. lög nr. 60, 1980, sbr. 9. gr. laga nr. 75, 1982, sbr. lög nr. 13, 1985 og 2. gr., sbr. 10. gr., reglugerðar um sölu og meðferð ávana- og fíkniefna nr. 16, 1986, sbr. reglugerð nr. 177, 1986, sbr. auglýsingu nr. 84, 1986.
2.
Hylmingu, með því að hafa miðvikudaginn 27. október tekið við úr höndum tilgreinds manns sjónvarpi að verðmæti um kr. 40.000, falið það á heimili sínu og stuttu síðar selt það Guðmundi Sigursteinssyni, kt. 291245-3239, fyrir kr. 20.000, þrátt fyrir að ákærða væri ljóst að sjónvarpsins hafði verið aflað með auðgunarbroti.
Telst þetta varða við 254. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.
II
Ákærðu báðum fyrir þjófnað, með því að hafa í félagi aðfaranótt laugardagsins 24. júlí farið inn í tískuverslunina Straumar við Laugaveg 55 og stolið 3 töskum og ýmsum fatnaði m.a. 6 skyrtum, 7 klútum, 7 slæðum, 11 bolum, 12 pilsum, 20 peysum, 21 yfirhöfn, 26 kjólum og 48 buxum, samtals að verðmæti um kr. 200.000, og úr kjallara hússins stolið slípirokki og 2 borvélum.
Telst þetta varða við 244. gr. almennra hegningarlaga.
Þess er krafist að ákærðu verði dæmd til refsingar og að framangreint fíkniefni verði gert upptækt sbr. 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65, 1974 og 2. mgr. 10. gr. reglugerðar nr. 16, 1986.”
Í þinghaldi 10. apríl sl. var sakamálið nr. 42/2000: Ákæruvaldið gegn Hauki Guðmundssyni sameinað þessu máli. Ákærðu hafa bæði komið fyrir dóminn og viðurkennt brot sín og borið að háttsemi þeirra sé rétt lýst í ákærunum.
Sannað þykir með skýlausri játningu beggja ákærðu, sem studd er öðrum gögnum málsins, að ákærðu hafi gerst sek um brot þau sem þeim er gefið að sök í ákærum og þar eru rétt heimfærð til refsiákvæða.
Refsingar:
[...]
Ákærði Haukur hefur frá árinu 1981 hlotið 15 refsidóma fyrir ýmis afbrot, skjalafals, þjófnaði, gripdeild, ólöglega meðferð á fundnu fé, rán, hilmingu, brot á lögum og reglum um ávana- og fíkniefni og ölvunarakstur. Þá hefur hann frá árinu 1984 gengist með sáttum undir að greiða sektir 16 sinnum fyrir ýmis brot, þar af 10 sinnum fyrir fíkniefnabrot. Auk þess hefur hann gengist undir tvær viðurlagaákvarðanir fyrir samskonar brot og lögreglustjórasekt fyrir líkamsárás.
Ákærði hlaut refsivistardóm 8. september 1997, 6 mánaða fangelsi fyrir þjófnað, en í maí sama ár dæmdi Hæstiréttur hann í 12 mánaða fangelsi fyrir fíkniefna- og þjófnaðarbrot, en með þeim dóminum voru einnig teknar upp eftirstöðvar eldri refsingar. Honum var veitt reynslulausn í 2 ár 8. október sl. á eftirstöðvum refsingar, samtals 260 dögum. Hann rauf þá reynslulausn og með dómi 8. júní sl. var sú reynslulausn dæmd með refsingu sem honum var gerð fyrir brot gegn 252. gr., sbr. 1. mgr. 22. gr. almennra hegningarlaga og 254. gr. sömu laga og refsing dæmd 18. mánaða fangelsi. Ákærði var enn dæmdur 25. júní sl., í 2 mánaða fangelsi, fyrir brot gegn 254. gr. almennra hegningarlaga hegningarauki. Þessir tveir síðastnefndu dómar voru staðfestir í Hæstarétti í nóvember sl.
Brot ákærða, sem hér skal lagður dómur á, eru framin áður en hann hlaut dóm Hæstaréttar 25. nóvember 1999. Ber því að dæma honum hegningarauka samkvæmt 78. gr. almennra hegningarlaga. Það ber að virða ákærða til hagsbóta að hann hefur án undanbragða viðurkennt brot sín. Ákærði er hins vegar vanaafbrotamaður og verður refsing hans því einnig ákveðin með hliðsjón af 71. gr., sbr. 255. gr., 72. gr. svo og 77. gr. almennra hegningarlaga. Þegar allt framangreint er virt þykir refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í 4 mánuði.
Upptæk skal gera, eftir þeim lagaákvæðum sem greinir í ákæru, 4,88 g af amfetamíni sem lögregla lagði hald á.
Þá er ákærði, Haukur, dæmdur til að greiða þóknun skipaðs verjanda síns, Kristjáns Stefánssonar hæstaréttarlögmanns, 45.000 krónur og ákærða, K, til að greiða þóknun skipaðs verjanda síns, Arnar Clausen hrl, 35. 000 krónur.
Annan sakarkostnað greiða ákærðu þannig að ákærði Haukur greiði ¾ hluta en ákærða, K ¼ hluta.
Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Hjalti Pálmason fulltrúi lögreglustjórans í Reykjavík.
Valtýr Sigurðsson héraðsdómari kvað upp dóminn.
Dómsorð:
[...]
Ákærði, Haukur Guðmundsson, sæti fangelsi í 4 mánuði.
Ákærði, Haukur, greiði þóknun skipaðs verjanda síns, Kristjáns Stefánssonar, hæstaréttarlögmanns, 45.000 krónur.
[...]
Annan sakarkostnað greiða ákærðu þannig að ákærði Haukur greiði ¾ hluta en ákærða, K ¼ hluta.
Upptæk eru gerð í ríkissjóð 4,88 g. af amfetamíni sem lögregla lagði hald á 24. júlí 1999, sbr. 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65, 1974 og 2. mgr. 10. gr. reglugerðar nr. 16, 1986.