Hæstiréttur íslands

Mál nr. 284/2013


Lykilorð

  • Lánssamningur
  • Ábyrgð


                                              

Fimmtudaginn 14. nóvember 2013.

Nr. 284/2013.

Steingrímur Páll Kárason

(Jóhannes Bjarni Björnsson hrl.)

gegn

Arion banka hf.

(Stefán A. Svensson hrl.)

Lánssamningar. Ábyrgð.

Með yfirlýsingu forstjóra K hf. til S var tilkynnt að ákveðið hefði verið að fullnusta ekki persónulega ábyrgð S á lánum til kaupa á hlutabréfum í K hf. og að ábyrgð S takmarkaðist við hlutabréfin sem sett hefðu verið að veði. A hf. krafðist þess í málinu að S yrði gert að greiða fjárhæð sem svaraði til persónulegrar ábyrgðar S á tveimur lánum sem K hf. hafði upphaflega veitt S en A hf. hafði fengið framseld. Byggði A hf. á því að með áðurgreindri yfirlýsingu hefði ekki verið felld niður ábyrgð S á þeim hluta lánanna sem ekki var varið til kaupa á hlutabréfum í K hf. Talið var að hvorki sjónarmið um forsendubrest né ósanngirnisástæður samkvæmt 36. gr. samningalaga ættu við í málinu. Þá voru yfirlýsingar stjórnar og forstjóra K hf. um niðurfellingu persónulegrar ábyrgðar ekki taldar eiga við um lánssamningana. Loks var talið að lánssamningarnir hefðu falið í sér gilt lán í erlendum gjaldmiðlum og að A hf. hefði verið heimilt að umreikna lánin samkvæmt ákvæðum samningana í íslenskar krónur. Var S því gert að greiða A hf. umkrafða fjárhæð. 

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson og Greta Baldursdóttir og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 23. apríl 2013. Skilja verður málatilbúnað hans svo að hann krefjist aðallega sýknu af kröfu stefnda, en til vara lækkunar á henni. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Að frágenginni kröfu um sýknu krefst áfrýjandi lækkunar á kröfu stefnda í máli þessu. Ein þeirra málsástæðna, er áfrýjandi reisir lækkunarkröfu sína á, er að ekki hafi verið tekið tillit til kaupa hans á hlutabréfum á árunum 2007 og 2008. Málsástæða þessi er svo vanreifuð af hálfu áfrýjanda að hafna verður henni. Með þessari athugasemd en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Áfrýjandi greiði stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Steingrímur Páll Kárason, greiði stefnda, Arion banka hf.,

 500.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 25. janúar 2013.

Mál þetta, sem dómtekið var 13. desember 2012, er höfðað af  Arion banka hf., Borgartúni 19, Reykjavík, með stefnu birtri 2. ágúst 2011, á hendur Steingrími P. Kárasyni, 23 rue Auguste Liesch, L8063 Bertrange, Lúxemborg.

Stefnandi krefst þess aðallega að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda skuld að fjárhæð 897.807.064 krónur, auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá 16. september 2010 til greiðsludags.

Til vara er þess krafist að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda skuld að fjárhæð CHF (svissneskir frankar) 7.803.626 ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá 16. september 2010 til greiðsludags.

Í báðum tilvikum er krafist málskostnaðar að skaðlausu samkvæmt mati réttarins ásamt virðisaukaskatti af málflutningsþóknun.

Af hálfu stefnda er aðallega krafist frávísunar málsins frá dómi.

Til vara gerir stefndi þá kröfu að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda.

Til þrautarvara krefst stefndi þess að kröfur stefnanda verði stórlega lækkaðar.

Í öllum tilvikum krefst stefndi þess að sér verði dæmdur málskostnaður úr hendi stefnanda að mati dómsins eða samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi.

Úrskurður var kveðinn upp hinn 14. maí 2012 þar sem aðalkröfu stefnda um frávísun málsins var hafnað.

I.

Stefndi var starfsmaður Kaupþings þegar hann gerði tvo lánssamninga við stefnanda sem stefnandi krefst greiðslu á í máli þessu. Annars vegar er um að ræða lánssamning, dagsettan 25. mars 2008, nr. 0690-35-7334, þar sem stefnda var veitt lán að höfuðstólsfjárhæð 13.753.157,66 svissneskir frankar (CHF). Skyldi endurgreiða lánið ásamt ógreiddum áföllnum vöxtum með einni greiðslu hinn 1. desember 2010.

Í gr. 2.3. lánssamningsins kom fram að lánið væri veitt til uppgreiðslu láns nr. 0358-74-900006, sem veitt var stefnda til fjármögnunar hlutabréfakaupa, þ.e. á hlutum í Kaupþingi. Lánssamningur nr. 0358-74-900006 á uppruna sinn að rekja til lánssamnings nr. 900001, lánssamnings nr. 900002 og lánssamnings nr. 1814. Lánin voru veitt stefnda til fjármögnunar hlutabréfakaupa í Kaupþingi og voru upphaflega veitt vegna góðrar veðþekju skuldbindinga stefnda við Kaupþing, svokölluð þekjulán. Hluti lánsfjárhæðar lánssamnings nr. 900001, eða sem jafngildir rúmlega 13,88% af heildarlánsfjárhæð lánssamningsins, var ekki nýttur til kaupa á hlutabréfum í Kaupþingi en fjármunum var ráðstafað inn á innlánsreikning stefnda (318-26-601). Þá var andvirði lánssamninga nr. 900002 og nr. 1814 ekki nýtt til fjármögnunar hlutabréfakaupa í Kaupþingi, heldur var fjármunum ráðstafað inn á markaðsreikning (372-13-300310) og innlánsreikning stefnda. Hinn 21. apríl 2006 voru lánssamningar nr. 900001, 900002 og 1814 gerðir upp með lánssamningi nr. 3136, sem veitt var stefnda til greiðslu og uppgjörs hlutabréfakaupa hans. Þann lánssamning gerði stefndi upp hinn 22. janúar 2007 með lánssamningi nr. 0358-74-900006, sbr. að framan. Hlutfall þess lánshluta lánssamnings nr. 0690-35-7334, sem ekki var nýttur til hlutabréfakaupa í Kaupþingi samkvæmt fyrrnefndum lánssamningum, nemur að sögn stefnanda því sem jafngildir rúmlega 18,3% af heildarlánsfjárhæð lánssamningsins.

Hins vegar er um að ræða lánssamning, dagsettan 18. mars 2008, nr. 0690-35-7335, þar sem stefnda var veitt lán að höfuðstólsfjárhæð 7.020.254,37 svissneskir frankar (CHF). Skyldi endurgreiða lánið ásamt ógreiddum áföllnum vöxtum með einni greiðslu hinn 1. desember 2010. Í gr. 2.3. lánssamningsins kom fram að lánið væri veitt til uppgreiðslu lánssamninga stefnda nr. 0358-74-900007 og nr. 0358-74-900008 við Kaupþing. Lánin voru veitt stefnda til fjárfestinga og var andvirði lánanna ekki nýtt til kaupa á hlutabréfum í Kaupþingi, heldur var fjármunum ráðstafað inn á veltureikning í eigu stefnda (318-22-127). Voru lánin upphaflega veitt vegna góðrar veðþekju skuldbindinga stefnda við Kaupþing, svokölluð þekjulán.

Lán nr. 0690-35-7334 bar breytilega vexti, LIBOR-vexti, eins og þeir ákvarðast hverju sinni fyrir hvert vaxtatímabil, tveimur bankadögum fyrir upphaf hvers vaxtatímabils (vaxtagrunnur) að viðbættu 1,20% vaxtaálagi, sbr. nánar 3. gr. lánssamningsins. Lán nr. 0690-35-7335 bar breytilega vexti, LIBOR-vexti, eins og þeir ákvarðast hverju sinni fyrir hvert vaxtatímabil, tveimur bankadögum fyrir upphaf hvers vaxtatímabils (vaxtagrunnur) að viðbættu 1,75% vaxtaálagi, sbr. nánar 3. gr. lánssamningsins. 

Til tryggingar lánunum samkvæmt gr. 5.1. lánssamninganna setti stefndi Kaupþingi að handveði hluti sína í Kaupþingi, upphaflega að nafnvirði 2.362.133 krónur, sbr. handveðsyfirlýsingu, dagsetta 1. desember 2005, og viðauka, dagssettan 30. ágúst 2006. Í gr. 5.2. samninganna var kveðið á um að veðhlutfall („tryggingaþekja“) lánssamninganna, þ.e. markaðsverðmæti veðtrygginga samkvæmt gr. 5.1. deilt með eftirstöðvum lánsskuldarinnar, skyldi á hverjum tíma vera að lágmarki 150%. Færi veðhlutfallið niður fyrir 120%, og ekki væri bætt úr því innan 5 bankadaga, skyldi lántaki, þ.e. stefndi, að fenginni tilkynningu lánveitanda leggja fram frekari tryggingar þannig að veðhlutfallið næði aftur 150%.

Samkvæmt gr. 6.1. lánssamnings nr. 0690-35-7334 var persónuleg ábyrgð stefnda á skuldinni takmörkuð við 10%. Nánar tiltekið var kveðið á um í greininni að ábyrgð lántaka takmarkaðist við andvirði handveðsins samkvæmt gr. 5.1. og hvers kyns viðbótartryggingar í samræmi við ákvæði 5. gr. en auk þess skyldi lántaki bera ábyrgð á greiðslu 10% skuldarinnar eins og hún var á hverjum tíma með öðrum eignum sínum.

Í málinu liggur frammi greinargerð Starfskjaranefndar Kaupþings frá því í september 2008 þar sem segir m.a. í íslenskri þýðingu löggilts skjalaþýðanda: „Nefndinni er áhyggjuefni að sumir háttsettir stjórnunarstarfsmenn eiga í alvarlegum fjárhagserfiðleikum vegna nýlegs falls verðs hlutabréfa. Nefndin er þeirrar skoðunar að taka ætti skref til úrbóta í máli þessu. Megináhersla bankans ætti að vera á að lykilstarfsmönnum hans sé unnt að einbeita sér að sóknarfærum bankans á erfiðum tímum.“ Fjallað var um efni greinargerðarinnar á stjórnarfundi Kaupþings 25. og 26. september 2008. Samkvæmt fundargerðinni var á grundvelli tillagna Starfskjaranefndar ákveðið að veita forstjóra heimild til þess að fella niður og ljúka persónulegri ábyrgð starfsmanna í tengslum við öll hlutafjárkaupalán starfsmanna, sem keypt hefðu hluti í Kaupþingi með það að markmiði að stuðla að því að starfsmönnunum væri kleift að einbeita sér að störfum sínum í bankanum. Gaf forstjóri bankans í kjölfarið út yfirlýsingu til stefnda, dagsetta 25. september 2008, þar sem stefnda var tilkynnt að bankinn hefði ákveðið að fullnusta ekki persónulega ábyrgð hans vegna lána til kaupa á hlutabréfum í bankanum. Var jafnframt ákveðið að ábyrgð stefnda takmarkaðist við hlutabréf í stefnda sem sett hefðu verið sem veð.

 Með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins, dagsettri 21. október 2008, var öllum eignum Kaupþings, þar á meðal kröfuréttindum, ráðstafað til Nýja Kaupþings banka hf., nú stefnandi máls þessa Arion banki hf.

Með bréfum, dagsettum 17. maí 2010, tilkynnti stefnandi stefnda að stefnandi teldi að veðtryggingar lánssamninganna, þ.e. hlutabréf í Kaupþingi, væru ófullnægjandi miðað við verðmæti þeirra og raunar einskis virði. Því væri áskilnaður gr. 5.2. lánssamninganna um 150% veðhlutfall ekki uppfylltur. Var þess farið á leit að stefndi legði fram nýjar tryggingar að verðmæti a.m.k. 150% af útistandandi lánsfjárhæð hvors lánssamnings innan 5 bankadaga. Í bréfinu, sem fjallar um lánssamning nr. 0690-35-7334, kemur fram að hinn 16. sama mánaðar hafi lánsfjárhæð hans, sem ekki var ráðstafað til kaupa á hlutabréfum í Kaupþingi, numið að jafnvirði 302.066.350 króna og skyldi verðmæti hinna nýju trygginga því vera eigi lægra en jafnvirði 453.099.525 króna. Í bréfinu var jafnframt vísað til gr. 9.1. d) lánssamningsins en samkvæmt því ákvæði var lánveitanda heimilt að segja upp samningnum einhliða og fyrirvaralaust og án frekari aðvörunar eða sérstakrar uppsagnar (gjaldfella lánið) legði lántaki ekki fram viðbótartryggingar innan tilskilins frests samkvæmt 5. gr. lánssamningsins. Einnig var vísað í gr. 2.7. lánssamningsins um að lánið gjaldfélli 1. virka dag næsta mánaðar eftir að lántaki léti af störfum hjá Kaupþingi. Í niðurlagi bréfsins var tekið fram að yrði stefndi ekki við framangreindri áskorun mætti búast við að stefnandi gjaldfelldi alla lánsfjárhæðina án frekari fyrirvara og gerði ráðstafanir til innheimtu kröfunnar í samræmi við ábyrgð stefnda samkvæmt 6. gr. samningsins.

Í bréfinu frá 17. maí 2010, sem laut að lánssamningi nr. 0690-35-7335 segir að lánsfjárhæð þess hafi hinn 16. sama mánaðar numið að jafnvirði 876.290.988 króna og skyldi verðmæti hinna nýju trygginga því vera eigi lægra en að jafnvirði 1.314.436.482 króna. Í bréfinu var jafnframt vísað til gr. 8.1. d) lánssamningsins, en samkvæmt því ákvæði var lánveitanda heimilt að segja upp samningnum einhliða og fyrirvaralaust og án frekari aðvörunar eða sérstakrar uppsagnar (gjaldfella lánið) legði lántaki ekki fram viðbótartryggingar innan tilskilins frests samkvæmt 5. gr. lánssamningsins. Einnig var vísað í gr. 2.7. lánssamningsins um að lánið gjaldfélli 1. virka dag næsta mánaðar eftir að lántaki léti af störfum hjá Kaupþingi. Í niðurlagi bréfsins var tekið fram að yrði stefndi ekki við framangreindri áskorun mætti búast við að stefnandi gjaldfelldi alla lánsfjárhæðina án frekari fyrirvara og gerði ráðstafanir til innheimtu kröfunnar.

Þar sem engar frekari tryggingar voru lagðar fram af hálfu stefnda og stefndi brást að öðru leyti ekki við áskorun stefnanda, var stefnda með bréfum stefnanda, dagsettum 10. september s.á., tilkynnt að lánssamningur nr. 0690-35-7335 og sá hluti lánssamnings nr. 0690-35-7334, sem ekki var nýttur til hlutabréfakaupa í Kaupþingi, væru gjaldfelldir. Ábyrgðarbréfin voru afhent stefnda þann 16. sama mánaðar og er gjaldfelling lánssamninganna miðuð við þann dag. Þar sem stefndi varð ekki við greiðslukröfum stefnanda höfðaði stefnandi mál þetta.

II.

Stefnandi vísar um aðild sína til þess að með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins, dagsettri 21. október 2008, um ráðstöfun eigna og skulda Kaupþings til Nýja Kaupþings banka hf., nú stefnanda máls þessa Arion banka hf., hafi réttindi og skyldur samkvæmt lánssamningum Kaupþings og stefnda, þ.m.t. veðréttindi sem þeim tengdust og síðari viðaukar, verið framseld til stefnanda. Stefnandi teljist því kröfuhafi samkvæmt þeim lánssamningum sem mál þetta varði. Samkvæmt gr. 15.1. og gr. 16.1. lánssamninganna lúti samningarnir íslenskum lögum og skuli mál vegna þeirra rekin fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur. Sé stefnda því réttilega stefnt fyrir þann dómstól, sbr. 3. mgr. 42. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

Krafa stefnanda byggir á tveimur lánssamningum. Annars vegar er um að ræða lánssamning, sem Kaupþing gerði við stefnda hinn 25. mars 2008 (nr. 0690-35-7334), þar sem stefnda var veitt lán að höfuðstólsfjárhæð 13.753.157,66 svissneskra franka (CHF). Í gr. 2.3. lánssamningsins kemur fram að lánið sé veitt til uppgreiðslu lánssamnings nr. 0358-74-900006. Lánssamningur nr. 0358-74-900006 tengist uppgreiðslu eldri lána Kaupþings til stefnda vegna fjármögnunar kaupa á hlutabréfum í Kaupþingi. Stefnandi kveður hluta andvirðis þeirra lánssamninga, eða sem jafngildir rúmlega 18,3% af heildarlánsfjárhæð lánssamningsins nr. 0690-35-7334, aldrei hafa verið nýttan til hlutabréfakaupa í Kaupþingi, heldur hafi fjármunum verið ráðstafað inn á innlánsreikning (318-26-601) og markaðsreikning stefnda (372-13-300310).

Hins vegar er um að ræða lánssamning, sem Kaupþing gerði við stefnda hinn 18. mars 2008 (nr. 0690-35-7335), þar sem stefnda var veitt lán að höfuðstólsfjárhæð 7.020.254,37 svissneskra franka (CHF). Í gr. 2.3. lánssamningsins kemur fram að lánið sé veitt til uppgreiðslu lánssamninga nr. 0358-74-900007 og nr. 0358-74-900008, en lánin voru veitt stefnda til fjárfestinga. Stefnandi kveður andvirði lánssamninganna aldrei hafa verið nýtt til kaupa á hlutabréfum í Kaupþingi, heldur hafi fjármunum verið ráðstafað inn á veltureikning í eigu stefnda (318-22-127).

Stefnandi vísar til þess að fyrir liggi að Kaupþing hafi fellt niður persónulegar ábyrgðir starfsmanna bankans vegna lána til kaupa á hlutabréfum í Kaupþingi en riftun vegna þeirrar ráðstöfunar sé nú til úrlausnar fyrir dómstólum. Þar sem hluta láns nr. 0690-35-7334 og láni nr. 0690-35-7335 í heild hafi ekki verið ráðstafað til kaupa á hlutabréfum í Kaupþingi, hafi niðurfelling Kaupþings á persónulegum ábyrgðum starfsmanna hvorki náð til þess hluta lánssamnings nr. 0690-35-7334 né lánssamnings nr. 0690-35-7335 sem stefnandi krefji stefnda nú um. Af því leiði jafnframt að þeim hluta lánssamnings nr. 0690-35-7334 og lánssamningi nr. 0690-35-7335 hafi verið ráðstafað til stefnanda með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins, dagsettri 21. október 2008, um ráðstöfun eigna og skulda Kaupþings til Nýja Kaupþings banka hf., nú stefnanda máls þessa Arion banka hf. Stefnandi teljist þannig kröfuhafi samkvæmt lánssamningunum.

Þá sé ljóst að persónuleg ábyrgð stefnda samkvæmt lánasamningi nr. 0690-35-7334 var bundin við 10%, sbr. gr. 6.1. lánssamningsins. Af því leiði jafnframt, að ábyrgð stefnda sé takmörkuð við 10% þeirrar skuldbindingar sem ráðstafað hafi verið stefnanda með umræddri ákvörðun Fjármálaeftirlitsins. Sé stefndi því krafinn um 10% af gjaldfallinni samningsfjárhæð vegna lánssamnings nr. 0690-35-7334, þ.e. af þeim hluta lánsfjárhæðarinnar sem ekki var ráðstafað til hlutabréfakaupa í Kaupþingi ásamt áföllnum samningsvöxtum, eða sem svari til persónulegrar ábyrgðar hans á skuldbindingunni samkvæmt gr. 6.1. lánssamningsins.

Stefnandi byggir á því að um gjaldfallnar skuldbindingar sé að ræða. Vísar hann til þess að þar sem stefndi hafi ekki orðið við kröfum stefnanda um framlagningu frekari trygginga, sbr. kröfur stefnanda þar að lútandi hinn 17. maí 2010 með vísan til gr. 5.2. lánssamninganna, hafi stefnanda verið heimilt að gjaldfella útistandandi lánsskuldbindingar, sbr. bréf stefnanda hér að lútandi til stefnda, dagsett 10. september 2010, sbr. og gr. 8.1. (d) og gr. 9.1. (d) í lánssamningunum. Skuldbindingar stefnda séu því að lögum fallnar í gjalddaga og miði gjaldfellingin við 16. september 2010, þ.e. þegar ábyrgðarbréf þess efnis hafi verið afhent stefnda.

Verði gjaldfelling lánssamninganna sem slík af einhverjum sökum vefengd, áskilur stefnandi sér rétt til að leggja fram nýja kröfugerð til lækkunar þar sem gjaldfallin samningsfjárhæð og upphafstími dráttarvaxta miðist við umsaminn gjalddaga lánssamninganna hinn 1. desember 2010. Byggir stefnandi enn fremur á því að skuldbindingarnar séu að lögum fallnar í gjalddaga, enda ljóst að stefnda hafi samkvæmt gr. 2.4. lánssamninganna borið að endurgreiða höfuðstól lánsfjárhæðanna að viðbættum samningsvöxtum með einni greiðslu hinn 1. desember 2010.

Stefnandi krefst þess aðallega að stefndi verði dæmdur til að endurgreiða stefnanda lánsfjárhæðirnar ásamt áföllnum samningsvöxtum færðum yfir/umreiknuðum í íslenskar krónur á gjaldfellingardegi hinn 16. september 2010, sbr. heimild í gr. 3.7. lánssamninganna, að virtri takmörkun á persónulegri ábyrgð hans á skuld samkvæmt lánssamningi nr. 0690-35-7334, sbr. gr. 6.1. lánssamningsins, auk dráttarvaxta frá gjaldfellingardegi til greiðsludags. Er á því byggt að skuldbindingar stefnda samkvæmt lánssamningum nr. 0690-35-7334 og nr. 0690-35-7335 hafi sem slíkar verið í erlendri mynt en ekki íslenskri og falli þar með ekki undir VI. kafla laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu.

Á gjaldfellingardegi hafi höfuðstóll heildarlánsfjárhæðar stefnda samkvæmt lánssamningi nr. 069-35-7334 ásamt áföllnum samningsvöxtum numið samtals CHF 14.562.692. Sölugengi stefnanda á CHF á gjaldfellingardegi hafi verið 115,05. Staða höfuðstóls heildarlánsfjárhæðarinnar ásamt áföllnum samningsvöxtum í íslenskum krónum á gjaldfellingardegi hinn 16. september 2010, þ.e. að teknu tilliti til umbreytingar hennar yfir í íslenskar krónur, sbr. heimild í gr. 3.7. samningsins, nemi því samtals 1.675.437.713 krónum.

Á gjaldfellingardegi hafi höfuðstóll heildarlánsfjárhæðar stefnda samkvæmt lánssamningi nr. 069-35-7335 ásamt áföllnum samningsvöxtum numið samtals CHF 7.537.111. Sölugengi stefnanda á CHF á gjaldfellingardegi hafi verið 115,05. Staða höfuðstóls heildarlánsfjárhæðarinnar ásamt áföllnum samningsvöxtum í íslenskum krónum á gjaldfellingardegi hinn 16. september 2010, þ.e. að teknu tilliti til umbreytingar hennar í íslenskar krónur, sbr. heimild í gr. 3.7. samningsins, nemi því samtals 867.144.576 krónum.

Lánshluti lánssamnings nr. 0690-35-7334 í erlendum myntum, öðrum en evrum, hafi borið breytilega vexti, LIBOR-vexti, sbr. nánar gr. 3.1. lánssamningsins, að viðbættu 1,2% vaxtaálagi, sbr. einnig gr. 3.4. lánssamningsins. Lánshluti lánssamnings nr. 0690-35-7335 í erlendum myntum, öðrum en evrum, hafi borið breytilega vexti, LIBOR-vexti, sbr. nánar gr. 3.1. lánssamningsins, að viðbættu 1,75% vaxtaálagi, sbr. nánar gr. 3.4. lánssamningsins. Vexti skyldi reikna á þriggja mánaða fresti, frá 18. mars 2008 vegna lánsamnings nr. 0690-35-7335 en frá 25. mars 2008 vegna lánssamnings nr. 069-35-7334, en vextir vaxtatímabilanna skyldu, auk álags, leggjast við höfuðstól á tólf mánaða fresti, sbr. nánar gr. 3.5. lánssamninganna. Síðasta vaxtatímabilið hafi endað á gjalddaga lánanna hinn 1. desember 2010 og skyldu vextir þá greiðast ásamt höfuðstól lánsins, sbr. nánar gr. 3.5. lánssamninganna.

Samkvæmt yfirlitum yfir útreikning lánanna og þróun, þ. á m., samningsvaxta, til gjaldfellingardags hinn 16. september 2010, sundurliðast aðalkrafa stefnanda svo:

a)                   Lán nr. 0690-35-7334

1.                                                                                                                     Höfuðstóll heildarlánsfjárhæðar  (kr. 1.664.257.692)

2.                                                                                                                     Áfallnir samningsvextir   (kr. 11.180.021)

              Samtals................................................................... (kr. 1.675.437.713)

3.                                                                                                                                                   Lánsfjárhæð sem ekki var nýtt til

           hlutabréfakaupa (jafngildir 18,3%

           af heildarlánsfjárhæð samnings)...........(kr. 306.624.884)

4.                                                                                                                                                   10% lánsskuldbindingar skv. lið 3.,

sbr. gr. 6.1. lánssamningsins                              kr. 30.662.488

            

b)                 Lán nr. 0690-35-7335

          Höfuðstóll lánsfjárhæðar ..................... (kr. 858.797.548)

           Áfallnir samningsvextir .........................................  (kr. 8.347.028)

                       Samtals                                       kr. 867.144.576

             Stefnufjárhæð                                        kr. 897.807.064

Stefnandi vísar enn fremur um útreikning á höfuðstól lánssamninganna ásamt áföllnum samningsvöxtum á hverjum tíma í samræmi við kröfu þessa, svo og þess hluta lánsfjárhæðarinnar lánssamnings nr. 0690-35-7334 sem ekki hafi verið nýttur til hlutabréfakaupa í Kaupþingi, til framlagðs yfirlits yfir lánin og þróun þeirra, þ.m.t. varðandi tilgreiningu samningsvaxta á tímabilinu, til gjaldfellingardags hinn 16. september 2010.

Stefnandi krefst þess til vara að stefndi verði dæmdur til að endurgreiða stefnanda lánsfjárhæðirnar að viðbættum samningsvöxtum, og að virtri takmörkun á persónulegri ábyrgð hans á skuld samkvæmt lánssamningi nr. 0690-35-7334, sbr. gr. 6.1. lánssamningsins, í svissneskum frönkum eða sem nemi samtals CHF 7.803.626, svo sem lánssamningarnir hafi mælt fyrir um, auk dráttarvaxta frá gjaldfellingardegi til greiðsludags. Byggist varakrafan á því að skuldbindingar stefnda samkvæmt lánssamningum nr. 0690-35-7334 og nr. 0690-35-7335 hafi sem slíkar verið í erlendri mynt en ekki íslenskri og falli þar með ekki undir VI. kafla laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu. Kveður stefnandi stefnufjárhæð varakröfu stefnanda í reynd svara til fjárhæðar aðalkröfu en fjárhæðinni hafi hins vegar ekki verið umbreytt yfir í íslenskar krónur. Um útreikning á lánunum á hverjum tíma í samræmi við kröfu þessa, þ.m.t. varðandi tilgreiningu samningsvaxta á tímabilinu, og útreikning á þeim hluta fjárhæðar lánssamnings nr. 0690-35-7334, sem ekki hafi verið nýttur til hlutabréfakaupa í Kaupþingi, vísar stefnandi til framlagðs yfirlits yfir lánin og þróun þeirra til gjaldfellingardags hinn 16. september 2010.

Stefnandi vísar um dráttarvaxtakröfu sína til ákvæða 1. mgr. 6. gr., sbr. 1. mgr. 5. gr., laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, og til ákvæða gr. 3.7. lánssamninganna. Síðarnefnt ákvæði kveði á um að við vanskil beri lántaka að greiða dráttarvexti af gjaldfallinni fjárhæð frá gjalddaga til greiðsludags og geti stefnandi valið hvort hann krefjist dráttarvaxta af fjárhæðinni í erlendri mynt eða af skuldinni breyttri í íslenskar krónur.

Um varnarþing vísar stefnandi einkum til 3. mgr. 42. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Varðandi efndir á lánsskuldbindingu aðila vísar stefnandi einkum til meginreglu samninga- og kröfuréttar um skuldbindingargildi samninga. Kröfu um málskostnað styður stefnandi við 129. gr. og 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Stefnandi sé ekki virðisaukaskattskyldur aðili og beri honum því nauðsyn til að fá dóm fyrir skatti þessum úr hendi stefnda.

III.

Stefndi byggir sýknukröfu sína fyrst og fremst á því að stjórn Kaupþings banka hf. hafi á stjórnarfundi hinn 25. september 2008 samþykkt að fella niður persónulega ábyrgð hans af lánum þeim, sem mál þetta varðar, og tekið ákvörðun um að ábyrgð hans og annarra starfsmanna í sömu stöðu takmarkist við hlutabréfin sem voru sett að veði. Hafi stefnda verið tilkynnt um þessa niðurstöðu sama dag með tilkynningu forstjóra bankans. Stefnandi hafi viðurkennt að hann sé bundinn af umræddri ákvörðun stjórnarinnar og byggi málatilbúnaður hans á þeim grunni. Aðila greini hins vegar á um það, hvað hafi falist í ákvörðun stjórnarinnar og hvort hún hafi fellt niður persónulega ábyrgð stefnda að fullu eða aðeins að hluta.

Stefndi telji að hefðbundin orðskýring og lýsing stjórnarinnar á tilgangi og markmiði ákvörðunarinnar leiði til þess að um sé að ræða niðurfellingu á persónulegri ábyrgð stefnda að fullu á umræddum lánum en ekki aðeins lækkun eins og stefnandi haldi fram. Um orðskýringu vísar stefndi sértaklega til þess sem fram komi í samþykkt stjórnarinnar um að „fella niður og ljúka persónulegri ábyrgð starfsmanna í tengslum við öll hlutafjárkaupalán starfsmanna“. Stefndi byggir á því að lán þau, sem hér séu til úrlausnar, tengist hlutafjárkaupalánum, enda hafi því verið mörkuð sú staða strax í upphafi, sbr. ákvæði 2.3. og 6. gr. lánssamningsins. Að auki sé óumdeilt og viðurkennt í málatilbúnaði stefnanda að yfirlýsing stjórnarinnar og yfirlýsing forstjóra taki til þessara lána, enda sé um þau rekið eitt mál.

Miðað við skýringar stefnanda sé persónuleg ábyrgð stefnda hvorki fallin niður né sé henni lokið. Stefndi bendir einnig á að sérstaklega hafi verið tiltekið að niðurfall persónulegrar ábyrgðar næði til allra hlutafjárkaupalána en ekki aðeins til hluta lánanna eins og stefnandi haldi fram. Einnig sé sérstaklega tiltekið að með umræddri ákvörðun stjórnarinnar takmarkist ábyrgð starfsmanna við hlutabréfin, sem hafi verið sett að veði, en það fari ekki saman við málsástæður stefnanda. Ekkert í yfirlýsingu stjórnar Kaupþings gefi tilefni til að túlka hana þannig að niðurfall persónulegrar ábyrgðar nái aðeins til hluta lána starfsmanna eða þess hluta sem svari til uppreiknaðs kostnaðarverðs hlutabréfa. Slík túlkun á samþykkt stjórnarinnar feli enda ekki í sér sérstaka ívilnun fyrir stefnda eða aðra í sömu stöðu sem væru þá betur komir ef uppgjör ætti sér stað í samræmi við samninga aðila.

Túlkun stefnanda fari einnig berlega gegn markmiðum með niðurfellingunni sem stjórnin lýsir sem „með það að markmiði að stuðla að því að starfsmönnum sé kleift að einbeita sér að störfum sínum í bankanum“. Ef starfsmenn sitji eftir með persónulega ábyrgð á hluta lána sinna, náist þetta markmið ekki, enda skipti engu fyrir áhyggjur og einbeitingu starfsmanna hvort skuldin sem hann ráði ekki við sé meiri eða minni. Vandamál starfsmanna væru því enn óleyst.

Í lok samþykktar stjórnarinnar segi: „Ábyrgð starfsmanna takmarkast við hlutabréfin sem hafa verið sett að veði.“ Þetta ákvæði í samþykkt stjórnarinnar sé ósamrýmanlegt túlkun stefnanda á inntaki fyrri hluta samþykktarinnar, enda kjósi hann í málatilbúnaði sínum að upplýsa ekki dóminn um þennan hluta samþykktarinnar. Þessi hluti samþykktar stjórnarinnar leiði jafnframt til þess að þótt fallist verði á skilning stefnanda á inntaki fyrri hluta hennar, leiði þessi hluti til þess að hver sá hluti persónulegrar ábyrgðar, sem eftir standi, takmarkist við hlutabréfin sem hafi verið sett að veði. Í frumtexta tilkynningar Kaupþings til stefnda sé þetta svo á ensku: „Your liability is limited to the Kaupthing shares which have been pledged“. Textinn sé ótvíræður um það að persónuleg ábyrgð stefnda takmarkist við þau hlutabréf sem hann hafi sett að veði. Í þessu felist að persónulegri ábyrgð stefnda verði aðeins fullnægt með því að ganga að hinum veðsettu bréfum og verði ekki hægt að hafa uppi kröfur á hendur honum um annað.

Stefndi vísar einnig til framlagðra álitsgerða Viðars Más Matthíassonar, þáverandi lagaprófessors, og Harðar Felix Harðarsonar hrl. Álitsgerðir þessar séu unnar fyrir stefnanda og í þeim birtist sú forsenda, sem stefnandi hafi markað, að persónuleg ábyrgð hafi fallið að fullu niður og sé engin. Einnig vísar stefndi til þeirrar staðreyndar að lánin hafi verið metin á 0 krónur við framsal til stefnanda og skýringar Kaupþings banka hf. á þeirri niðurstöðu. Allt framangreint styðji skilning hans á inntaki samþykktar stjórnarinnar. Sérstaklega sé vísað til álitsgerðar Viðars Más Matthíassonar þar sem skýrsluhöfundur hafi eftir stefnanda sjálfum að þegar í upphafi árs 2008 hafi yfirstjórn Kaupþings látið þau boð út ganga að starfsmenn þyrftu ekki að hafa áhyggjur af þeirri áhættu, sem ákvörðun um að gera samninga ekki strax upp hefði fyrir þá, þar sem ekki yrði gengið að þeim persónulega.

Stefndi byggir einnig á því að sama niðurstaða leiði af þeirri ákvörðun Kaupþings í janúar 2008 að gjaldfella ekki lánssamninga vegna hlutabréfakaupa, þrátt fyrir að veðþekja þeirra væri komin undir 120%, eins og heimild hafi verið til í lánssamningunum. Telur stefndi að þegar í janúar 2008 hafi Kaupþing með þeirri ákvörðun tekið yfir áhættuna af því að lánin innheimtust að fullu, enda hafi verið um að ræða einhliða ákvörðun Kaupþings sem byggst hafi á þeirri forsendu að sú ráðstöfun væri bankanum hagfelld og hagfelldari en að gjaldfella og leysa til sín veðsetta hluti og gera upp viðkomandi skuldir.

Þær skýringar, sem séu komnar til Viðars Más Matthíassonar frá stefanda sjálfum, og séu þannig orðréttar hafðar eftir af honum hljóði svo:

„Ákvörðunin er reist á mati á því, að það þjónaði bezt hagsmunum bankans að nýta ekki rétt til veðkalla þegar starfsmenn ættu í hlut. Það verður að hafa hugfast hér, að starfsmönnum var ekki heimilt að selja hlutafé sitt, nema með samþykki yfirstjórnar KB. Þeim var því ekki mögulegt að koma sér útúr skuldsetningu sinni með því að selja, eins og aðrir lántakendur gátu.“

Verði talið að í samþykkt stjórnar Kaupþings hafi ekki falist ákvörðun um niðurfellingu að fullu á persónulegri ábyrgð stefnda samkvæmt þeim lánssamningi, sem hér sé deilt um, heldur hafi í raun aðeins átt að lækka hana með tilliti til hlutafjárkaupa stefnda, byggir stefndi á því að sú lækkun hafi átt að taka mið af verðmæti hlutanna hinn 25. september 2005. Samkvæmt ákvæðum í 6. grein lánssamningsins hafi persónuleg ábyrgð stefnda verið bundin við það að eftirstöðvar væru af skuldinni eftir uppgjör vegna innlausnar og slíkt uppgjör miðist við verðmæti hlutanna þegar það fari fram. Telji stefndi útilokað að túlka ákvörðun stjórnar Kaupþings þannig að hún hafi verið íþyngjandi fyrir hann og aukið persónulega ábyrgð hans með því að miða niðurfellinguna á hinni persónulegu ábyrgð aðeins við framreiknað kaupverð hlutabréfanna en ekki markaðsvirði þeirra, enda sé sá réttur þegar til staðar í lánssamningnum. Væri stefndi þá verr settur heldur en að uppgjör hefði átt sér stað hinn 25. september 2008. Hinn 25. september 2008 hafi verðmæti veðsettra hlutabréfa stefnda verið yfir þeim skuldum sem veðin tryggðu en veðsettir hlutir hafi verið 2.382.133 og dagslokagengi hinn 25. september 2008 hafi verið 755 krónur á hlut. Verðmæti hlutabréfanna hafi þannig verið 1.789.510.415 krónur eða yfir samanlagðri fjárhæð þeirra skulda, sem bréfunum hafi verið ætlað að tryggja, óháð því hvort sú skuld teldist vera í svissneskum frönkum eða íslenskum krónum. Persónulegir hagsmunir stefnda hafi því augljóslega staðið til þess að fram færi uppgjör og að hann yrði leystur undan áhættu vegna hlutabréfakaupanna í samræmi við ákvæði lánssamninganna og handveðsins.

Verði talið að rétt túlkun á samþykkt stjórnar Kaupþings banka sé sú að aðeins hafi átt að fella niður persónulega ábyrgð að því leyti sem veðsett hlutabréf stæðu að baki henni, hafi í tilviki stefnda engin persónuleg ábyrgð verið til staðar eftir slíka lækkun og því beri að sýkna hann.

Verði talið að fyrir hendi sé persónuleg ábyrgð hjá stefnda krefst stefndi sýknu með vísan til 36. gr. samningalaga nr. 7/1936, enda sé ósanngjarnt að stefnandi geti nú fært ábyrgð og áhættu af því að veðsett hlutabréf dugi ekki til uppgjörs á skuldinni yfir á stefnda í ljósi atvika málsins.

Þau atvik sem stefndi vísar hér sérstaklega til eru:

·                    Að það hafi verið forsenda að baki hlutabréfalánum Kaupþings að þau lán yrðu aldrei til þess að stofna fjárhag starfsmanna í hættu. Um þessa forsendu vísist til ítarlegrar umfjöllunar í málavöxtum og umfjöllunar Viðars Más Matthíassonar.

·                    Er hlutabréf Kaupþings hafi tekið að lækka á seinni hluta árs 2007 og á árinu 2008 hafi yfirstjórn Kaupþings ákveðið að láta ekki fara fram uppgjör þótt komið væri niður fyrir lágmarks veðþekju, heldur hafi hún tilkynnt starfsmönnum að ekki yrði krafist frekari trygginga sem hafi leitt til þess að ekkert uppgjör ætti sér stað. Að við sama tilefni hafi stjórnendur Kaupþings jafnframt látið þau boð út ganga að starfsmenn þyrftu ekki að hafa áhyggjur af þeirri áhættu sem ákvörðun um að gera samninga ekki strax upp hefði fyrir þá, þar sem ekki yrði gengið að þeim persónulega. Um þetta vísist til álitsgerðar Viðar Más Matthíassonar þar sem hann hafi eftir það sem stefnandi hafi sjálfur upplýst hann um við gerð álitins:

„Upplýst hefur verið að yfirstjórn KB hafi upplýst starfsmenn bankans um það að þeir þyrftu ekki að hafa áhyggjur af því að gengið yrði að skuldinni á þá persónulega, þótt hún væri þegar takmörkuð. Rétt er að taka fram að fullyrt hefur verið, að á þessum tíma höfðu nánast allir starfsmenn bankans getað selt bréfin og greitt upp skuld sína og margir átt auk þess verulega fjárhæð til ráðstöfunar.“

Aðstaða stefnda hafi verið þannig á þessum tíma að ef uppgjör á lánssamningum hans hefði farið fram, hefði hann átt verulegar fjárhæðir afgangs. Sú umfram eign hafi nær öll tapast frá janúar 2008 til 25. september sama ár þegar stjórnin hafi að lokum tekið formlega ákvörðun um að fella niður persónulega ábyrgð starfsmanna. Vísar stefndi einnig til álits Harðar Felix Harðarsonar hrl. þar sem hann fjalli um það hvað stefnandi hafi upplýst hann um við gerð álitsins en í álitinu segi orðrétt:

„Í fyrsta lagi er upplýst að þegar hlutabréf tóku að falla i verði síðari hluta árs 2007 og fram á árið 2008 þurftu stjórnendur Kaupþings að taka afstöðu til þess hvort bankinn nýtti heimild í lánssamningum til að kalla eftir frekari tryggingum frá starfsmönnum. Ákveðið var að nýta ekki þessar heimildir. Fyrir liggja gögn um að starfsmönnum hafi verið gerð grein fyrir því að ekki yrði óskað eftir frekari tryggingum og að yfirstjórn bankans hafi komið því á framfæri við starfsmenn að þeir þyrftu ekki að hafa áhyggjur af því að gengið yrði að þeim persónulega vegna skulda þeirra við bankann sem tengdust hlutabréfakaupum af þessu tagi.“

Framangreint sé staðfest í fundargerð stjórnar Kaupþings en þar segi orðrétt: „[S]tarfsmenn hafa verið fullvissaðir um að lausnir yrðu fundnar“.

·                    Að stefndi og aðrir starfsmenn hafi verið í þeirri stöðu að þeir hafi ekki sjálfir getað tekið ákvörðun um að selja hluti sína til að takmarka áhættuna. Annars vegar hafi hlutabréfin verið að handveði og því hafi sala þeirra verið óheimil án samþykkis veðhafa samkvæmt ákvæði handveðssamnings. Að auki hafi stefndi verið bundinn af stefnu bankans um langtímaeignarhald lykilstjórnenda bankans á hlutum, sem viðurkennt hafi verið af stjórn bankans að takmarkaði í raun möguleika hans til sölu og þar með möguleika hans til að takmarka áhættu sína.

·                    Að það hafi verið alfarið á valdi og í höndum Kaupþings, hvort tveggja sem veðhafa og sem vinnuveitanda, að ráða því hvernig yrði farið með þessa lánssamninga. Það hafi verið einhliða ákvörðun bankans, tekin vegna hans eigin hagsmuna en ekki persónulegra hagsmuna starfsmannanna, að fresta uppgjöri á lánssamningunum. Með því hafi skapast áhætta fyrir starfsmennina sem bankanum hafi verið ljós, enda hafi hann lýst því samhliða yfir að starfsmenn yrðu ekki látnir bera þá áhættu, sem skapaðist vegna eigin ákvarðana bankans.

Stefndi byggir á því að ósanngjarnt sé og óeðlilegt að hann og aðrir starfsmenn bankans verði nú látnir bera áhættu af því að verðmæti veðsins dugi ekki til uppgjörs skuldarinnar, enda hafi það verið áhætta sem Kaupþing tók vitandi vits vegna eigin hagsmuna bankans. Um þá staðreynd að til grundvallar ákvörðun bankans hafi legið eigin hagsmunir hans, bendir stefndi á, fyrir utan hið augljósa, upplýsingar í þá veru sem birtist í álitum beggja þeirra lögfræðinga sem stjórn stefnanda leitaði til. Áréttar stefndi að það skipti engu máli varðandi þessar skuldir að hvaða leyti þær væru til komnar vegna beinna fjárfestinga í hlutabréfum. Svo lengi sem skuldin hafi verið tryggð með hlutabréfum í Kaupþingi, hafi hún verið seld undir þessar aðstæður og ákvörðun Kaupþings.

Stefndi telji því að verði talið að fyrir hendi sé persónuleg ábyrgð hans, verði að víkja henni til hliðar og fella niður, enda hafi hún orðið til vegna ákvarðana og framgöngu kröfuhafans sjálfs. Einnig verði að hafa í huga að stefnandi þessa máls hafi áður nýtt sér þá aðstöðu að persónuleg ábyrgð hafi fallið niður til að þurfa ekki að greiða fyrir lánssamning stefnda og sannað sé að hann hafi verið framseldur til stefnanda fyrir 0 krónur.

Krafa stefnda um lækkun byggist á því að tenging þeirra lána, sem voru veitt í upphafi við erlendar myntir síðar, hafi verið ólögmæt. Því sé útreikningur þeirra í stefnu rangur og skuli sæta lækkun af þessari ástæðu. Í umfjöllun sinni í greinargerð um þessa málsástæðu til lækkunar vísar stefndi til þess sem rakið er í kafla um frávísunarkröfu. Þar koma fram sjónarmið um að ákvæði lánssamninganna um gengistryggingu séu ólögmæt og að umræddir lánssamningar séu um að breyta lánum, sem veitt hafi verið í íslenskum krónum, yfir í skuld í svissneskum frönkum, án þess að nokkrir frankar hafi verið afhentir. Umbreyting lánanna eigi sér stað á miðjum gildistíma þeirra og feli í sér skuldbreytingu en ekki ný lán og hafi stefnandi í raun viðurkennt þetta, enda byggi hann á því að hluta af andvirði láns nr. 0690-35-7334 hafi verið varið til hlutabréfakaupa og geri þannig engan greinarmun á því láni og þeim lánum, sem það komi í stað. Þrátt fyrir það hafi stefnandi kosið að gera ekki grein fyrir málinu eða kröfunni á öðrum grundvelli en þeim að um sé að ræða gengistryggt lán. Einnig verði höfuðstóll kröfu stefnanda að sæta lækkun vegna þess að ekki sé tekið tillit kaupa stefnda á hlutabréfum á árinu 2007 og 2008 á samtals 23.803 hlutum að kaupverði 14.782.037 krónur.

Einnig telji stefndi að fjármagnskostnað vegna lánanna verði að draga frá þeim hluta þeirra, sem hann hafi fengið útgreiddan, enda líti stefndi svo á að þeir fjármunir hefðu síðar farið að stærstum hluta til þess að greiða fjármagnskostnað af lánunum.

Að auki krefst stefndi þess, með vísan til 36. gr. laga nr. 7/1936, að hann verði aðeins látinn bera ábyrgð á 10% af skuld vegna láns nr. 690-35-7335 í samræmi við almenna skilmála sem giltu um hlutabréfakaupalán til starfsmanna Kaupþings. Vísar stefndi til þess að innan Kaupþings hafi það verið margstaðfest stefna að lykilstjórnendur skyldu eiga kost á því að kaupa hlutabréf í bankanum til þess að eiga í lengri tíma, án þess að taka eða bera óásættanlega áhættu af lækkun þeirra. Í því fyrirkomulagi hafi falist viðurkenning á því að vegna kröfu um langtímaeign væru möguleikar lykilstjórnenda til að takmarka áhættu sína með því að selja hlutabréf sín í raun takmarkaðir, sbr. samþykkt stjórnar hinn 25. september 2008. Um þróun reglna og samþykktir hluthafafunda, stjórnar og starfskjaranefndar vísar stefndi til þess sem rakið er í málavöxtum og ítarlegum álitum Viðars Más Matthíassonar og Harðar Felix Harðarsonar.

Eftir að fallið hafi verið frá því að tryggja áhættu starfsmanna með sölurétti, hafi það orðið niðurstaðan að þeirra hlutur í áhættu vegna kaupa á hlutabréfum skyldi að hámarki vera 10% af skuldinni eftir innlausn á veðsettum hlutum. Hafi samningar með þessum skilmálum verið notaðir á árinu 2005 og 2006 vegna hlutabréfakaupa. Á árinu 2007 hafi hins vegar í einhverju tilvikum ekki verið notast við þau form með takmarkaðri ábyrgð þegar starfsmenn keyptu hlutabréf, án þess að nokkur stefnubreyting hefði orðið af hálfu félagsins að því er varðaði áhættu starfsmanna og eigi það við í tilviki stefnda. Að auki hafi á árinu 2007 legið fyrir að stjórn Kaupþings hefði samþykkt að starfsmenn mættu losna algerlega undan persónulegri áhættu með því að hafa hlutabréfakaup og lán í einkahlutafélögum, sbr. samþykkt stjórnar hinn 24. maí 2006.

Um þessa aðstöðu sé sérstaklega fjallað í áliti Harðar Felix Harðarsonar, sem unnið hafi verið fyrir stjórn stefnanda, en þar segi:

„Þetta misræmi eitt og sér vekur upp spurningar um það hvort bankanum sé stætt á því að innheimta lánssamninga þeirra starfsmanna sem ekki höfðu óskað eftir heimildum til að færa hlutafjáreign sína inn í einkahlutafélag eða höfðu einhverra hluta vegna undirritað annað form að lánssamningi þar sem engin takmörkun var á persónulegri ábyrgð. Engin sjáanleg rök eru fyrir mismunun bankans gagnvart starfsmönnum enda virðist líklegast að um hreina handvömm hafi verið að ræða eða að út frá því hafi verið gengið að lánssamningar yrðu ekki innheimtir umfram andvirði hlutabréfanna.“

Í ljósi þeirra forsendna, sem hafi legið að baki lánveitingunni og kaupum stefnda á hlutabréfum í ágúst 2007 og höfðu verið samþykktar af þar til bærum aðilum innan Kaupþings, telji stefndi að víkja verði til hliðar ákvæðum lánssamningsins að því er varði skuldbindingu stefnda umfram 10% af eftirstöðvum hennar, efnda fæli annað í sér afar ósanngjarna og óeðlilega niðurstöðu sem leiddi til mismununar milli starfsmanna í sömu stöðu. Stefndi telji einnig að hann hafi vegna samþykkta hluthafafundar, stjórna og afstöðu starfskjaranefndar mátt treysta því að hann yrði aldrei látinn sitja uppi með áhættuna af umræddum hlutabréfakaupum. Sé stefnandi sem framsalshafi bundinn af þeim loforðum og samþykktum sem framseljandi hafi veitt stefnda og öðrum starfsmönnum í tengslum við umrædd hlutabréfalán.

Stefndi telur að krafa stefnanda geti ekki borið dráttarvexti frá 16. september 2010, enda hafi stefnanda verið óheimilt að gjaldfella skuldina á þeim degi með vísan til ónógrar tryggingarþekju, enda hafi Kaupþing í janúar 2008 fallið frá rétti til gjaldfellingar af þeirri ástæðu. Stefnandi sem framsalshafi sé bundinn af eftirgjöf á rétti til gjaldfellingar og sé upplýst að stefnanda hafi verið og sé kunnugt um að hún hafi átt sér stað. Fyrsti mögulegi dráttarvaxtadagur sé 2. desember 2010.

Málskostnaðarkrafa stefnda er byggð á 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

IV.

Eins og áður er rakið var lán samkvæmt lánssamningi nr. 0690-35-7334 veitt til uppgreiðslu láns nr. 0358-74-900006, sem hafði verið veitt stefnda til kaupa á hlutum í Kaupþingi. Byggir stefnandi á því að lánssamningur nr. 0358-74-900006 eigi uppruna sinn að rekja til lánssamninga nr. 900001, nr. 900002 og nr. 1814, sem veitt hafi verið stefnda til fjármögnunar hlutabréfakaupa í sama banka. Hafi lánin upphaflega verið veitt vegna góðrar veðþekju skuldbindinga stefnda við Kaupþing, svonefnd þekjulán. Er þetta óumdeilt. 

Lán samkvæmt lánssamningi nr. 0690-35-7335 var veitt til uppgreiðslu lána nr. 0358-74-900007 og 0358-74-900008, sem eftir efni sínu voru veitt stefnda til fjárfestinga.

Stefnandi byggir á því að 13,88% af heildarlánsfjárhæð lánssamnings nr. 900001, þ.e. 120.000.000 króna, hafi ekki verið nýttur til kaupa á hlutabréfum, heldur hafi verið lagður inn á innlánsreikning stefnda nr. 318-26-601, sem fær stoð í framlögðu yfirliti innlánsreiknings hans í Kaupþingi banka hf. sem fylgir greinargerð PricewaterhouseCoopers, dagsettri 23. apríl 2010, um lán til lykilstarfsmanna bankans. Í þeirri greinargerð segir jafnframt að lán nr. 900002 hafi ekki verið nýtt til hlutabréfakaupa, heldur hafi fjárhæð þess verið ráðstafað inn á markaðsreikning stefnda. Um lánssamninga nr. 900007 og 900008 segir að samkvæmt ákvæði 2.3. í samningunum sé tilgangur þeirra sagður fjárfestingar, auk þess sem lántaki skuldbindi sig til þess að ráðstafa láninu til þess verkefnis, sem það sé veitt til. Hins vegar hafi ekki verið upplýst til hvaða verkefna vísað hafi verið til. Ekki hafi verið keypt hlutabréf í Kaupþingi banka hf. í tengslum við lánveitingarnar, heldur hafi fjárhæðum þeirra ráðstafað inn á veltureikning stefnda. Með greinargerð þessari fylgja fylgigögn sem sýna umræddar ráðstafanir. Verður við þessa niðurstöðu miðað og breytir hér engu þótt stefndi hafi keypt hlutabréf með fjármunum af sömu reikningum og lánsfjárhæðir samkvæmt umræddum lánssamningum voru greiddar inn á. Þá fær útreikningur stefnanda á því að hlutfall þess lánshluta lánssamnings nr. 0690-35-7334, sem ekki var nýttur til hlutabréfakaupa í Kaupþingi samkvæmt lánssamningunum, nemi því sem jafngildi rúmlega 18,3% af heildarlánsfjárhæð lánssamningsins stoð í framlögðum útreikningum á dómskjali nr. 10 og verður við hann miðað, enda leiða gögn málsins að öðru leyti ekki til annarrar niðurstöðu.

Áður er rakið að í báðum lánssamningunum, sem mál þetta lýtur að, nr. 0690-35-7334 og 0690-35-7335, er að finna ákvæði í gr. 2.3. þar sem fram kemur að lánin séu veitt til uppgreiðslu tiltekinna lána. Segir síðan að lántaki heimili bankanum að ráðstafa andvirði lánanna til uppgreiðslu samkvæmt framansögðu. Hvergi er hins vegar að finna tilvísanir til þess í lánssamningunum að þeir séu skuldbreytingar á eldri lánum. Að þessu virtu verður ekki fallist á það með stefnda að um hafi verið að ræða skuldbreytingu á eldri lánum.

Stefndi byggir sýknukröfu sína í greinargerð fyrst og fremst á því að stjórn Kaupþings hafi á stjórnarfundi 25. september 2008 samþykkt að fella niður persónulega ábyrgð hans af lánum þeim, sem mál þetta varðar, og tekið ákvörðun um að ábyrgð hans takmarkaðist við hlutabréfin sem sett voru að veði. Hafi stefnda verið tilkynnt um þessa niðurstöðu sama dag með yfirlýsingu forstjóra bankans og hafi stefnandi viðurkennt að hann sé bundinn af umræddri ákvörðun. Þessu mótmælir stefnandi og byggir á því að með umræddri ákvörðun stjórnar hafi ekki verið felld niður persónuleg ábyrgð á þeim lánsfjárhæðum, sem stefnt sé vegna í þessu máli, þar sem þau lán hafi ekki tengst hlutafjárkaupum.

Með yfirlýsingu stjórnar Kaupþings banka hf. á stjórnarfundi í bankanum 25. og 26. september 2008 var persónuleg ábyrgð á lánum starfsmanna til hlutabréfakaupa í bankanum felld niður. Segir í fundargerð í þýðingu löggilts skjalaþýðanda um þetta atriði: „Á grundvelli tillagna Starfskjaranefndar hefur stjórnin ákveðið að veita Hreiðari Má Sigurðssyni heimild til þess að fella niður og ljúka persónulegri ábyrgð starfsmanna í tengslum við öll hlutfjárkaupalán starfsmanna, sem keypt hafa hluti í Kaupþingi, með það að markmiði að stuðla að því að starfsmönnum sé kleift að einbeita sér að störfum sínum í bankanum. Ábyrgð starfsmanna takmarkast við hlutabréfin sem hafa verið sett að veði.“ Í yfirlýsingu Hreiðars Más, forstjóra Kaupþings banka hf., sem undirrituð er af forstjóranum og stefnda 25. september 2008, kemur fram að bankinn hafi ákveðið að stefndi yrði ekki krafinn persónulega um efndir á lánum til hlutabréfakaupa, sem veitt hefðu verið til kaupa á hlutum í bankanum. Segir þar jafnframt að ábyrgð stefnda sé takmörkuð við veðsetta hluti hans í bankanum. Yfirlýsingin liggur frammi í málinu á ensku og er hún svohljóðandi: „Kaupthing Bank, kt. 560882-0419 has decided not to enforce your personal guarantee with regards to your equity loans to purchase shares in Kaupthing. Your liability is limited to the Kaupthing shares which have been pledged.“ Með yfirlýsingunni var þeim samningum um lán, sem stefnda voru veitt til hlutafjárkaupa í bankanum, breytt að þessu leyti, enda er þar ekki vísað til einstakra lánssamninga. Verður að líta svo á að breytingin hafi verið gerð með þessari yfirlýsingu en ekki með almennri samþykkt stjórnar bankans. Eftir orðalagi yfirlýsingar forstjóra bankans verður að skilja hana þannig að hún taki aðeins til lána, sem notuð voru til að kaupa hluti í Kaupþingi banka hf. í samræmi við tilgang lánveitingarinnar. Við túlkun yfirlýsingarinnar verður að líta til efnis hennar í heild og túlka merkingu síðari hluti hennar, um að ábyrgð stefnda verði takmörkuð við hina veðsettu hluti, í tengslum við fyrri hluta hennar. Fær sú niðurstaða jafnframt stoð í því að samþykkt stjórnarinnar, sem var tilefni yfirlýsingar forstjórans, átti rót sína að rekja til tillagna starfskjaranefndar bankans. Gögn málsins bera með sér að hlutverk nefndarinnar var að ákveða laun og starfskjör yfirmanna, m.a. kauprétt þeirra, en fjallaði ekki um peningalán bankans að öðru leyti. Þá er til þess að líta, að þótt fyrir liggi í ýmsum gögnum, sem lögð hafa verið fram í málinu, að því hafi verið lýst yfir af Kaupþingi banka hf. og ýmsum stjórnendum hans að æskilegt væri að starfsmenn bankans yrðu ekki fyrir fjárhagslegu tjóni vegna kaupa á hlutum í honum, kemur þar hvergi fram að stefnda í máli þessu hafi verið lofað skaðleysi af þeim kaupum svo að skuldbindandi sé fyrir bankann og þar með stefnanda máls þessa .

Að þessu virtu og með hliðsjón af þeirri niðurstöðu dómsins að sá hluti láns samkvæmt lánssamningi nr. 0690-35-7334, sem hér er krafist greiðslu á, og lán samkvæmt lánssamningi nr. 0690-35-7335 hafi ekki verið ráðstafað til hlutafjárkaupa í Kaupþingi banka hf., er ekki unnt að fallast á það með stefnda að framangreindar yfirlýsingar stjórnar bankans og forstjóra hans hafi breytt efni lánssamninganna að því er dómkröfur stefnanda varðar.

Þá verður ekki séð að aðgerðir eða aðgerðaleysi bankans varðandi heimildir samkvæmt samningunum til gjaldfellingar lánanna eða til að kalla eftir auknum tryggingum hafi leitt til þess að ekki sé lengur fyrir hendi réttur samkvæmt 12. gr. lánssamnings nr. 0690-35-7334 og 11. gr. lánssamnings nr. 0690-35-7335 þar sem segir að þótt bankinn kjósi að hagnýta sér ekki strax, að fullu eða að hluta, þann rétt sem hann hefur samkvæmt lánssamningnum, takmarki það ekki heimild hans eða möguleika til að hagnýta sér þann rétt síðar. Er ekkert komið fram í gögnum málsins né í samningunum sjálfum sem styður þessa röksemd stefnda. Krafa stefnda um að lækkun á persónulegri ábyrgð hans samkvæmt lánssamningunum eigi að miða við verðmæti hlutanna 25. september 2008 er ekki studd haldbærum rökum og er henni því hafnað, enda er ekkert í samningunum sjálfum eða gögnum málsins sem styður þá niðurstöðu.     

Stefndi byggir sýknukröfu sína jafnframt á ákvæðum 36. gr. laga nr. 7/1936, um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, enda sé ósanngjarnt að stefnandi geti fært ábyrgð og áhættu af því að veðsett hlutabréf dugi ekki til uppgjörs á skuldinni yfir á stefnda í ljósi atvika málsins, svo sem segir í stefnu.

Samkvæmt 1. mgr. 36. gr. samningalaga má víkja samningi til hliðar í heild eða að hluta, eða breyta, ef það yrði talið ósanngjarnt eða andstætt góðri viðskiptavenju að bera hann fyrir sig. Við mat samkvæmt ákvæðinu ber að líta til efnis samnings, stöðu samningsaðila, atvika við samningsgerðina og atvika sem síðar komu til. Ljóst er að stefndi var starfsmaður Kaupþings banka hf. við samningagerðina og mun hann hafa gegnt þar stjórnunarstöðu og verið einn af svo kölluðum lykilstjórnendum bankans. Stefndi hafði gengið til samninga við bankann með undirritun umræddra lánssamninga og handveðsyfirlýsingar, dagsettrar 1. desember 2005, auk viðauka við hana, og verður, með hliðsjón af stöðu hans hjá bankanum, að ganga út frá því að hann hafi haft fullan skilning á ákvæðum þessara skjala og jafnframt á þeirri áhættu sem er almennt tengd viðskiptum með hlutabréf.

Eins og hér að framan er vikið að er í lánssamningunum að finna ákvæði um að bankinn geti áfram hagnýtt sér rétt sinn samkvæmt þeim, þótt hann geri það ekki um leið og tilefni er til. Ekkert liggur fyrir í málinu um að stefndi hafi óskað eftir því að hlutabréf hans í bankanum yrðu seld eða að bankinn leysti þau til sín þegar verðmæti þeirra fór niður fyrir umsamin mörk, svo hægt væri að gera skuldina upp samkvæmt lánssamningunum. Með vísan til orðalags framangreindra ákvæða samninganna standa því engin rök til þess að fallast á það með stefnda að bankinn hafi, með því að grípa ekki til gjaldfellingar samninganna um leið og veðþekja þeirra fór undir 120%, tekið yfir áhættuna á því að lánin innheimtust að fullu. Þá liggur fyrir að samkvæmt samningunum var bankanum heimilt að segja þeim upp einhliða ef tryggingar eða ábyrgðir að baki lánunum reyndust ekki lengur fullnægjandi, sbr. ákvæði 8.1. d) og 9.1. d). Var stefnanda því heimilt að gjaldfella lán samkvæmt lánssamningunum svo sem hann gerði.

Að öllu þessu virtu og jafnframt þegar litið er til þess að ábyrgð stefnanda samkvæmt samningunum var að hluta til takmörkuð, verður ekki fallist á það með stefnda að víkja beri umræddum lánssamningum til hliðar með vísan til ákvæða 36. gr. laga nr. 7/1936, um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Með sömu rökum og jafnframt með vísan til þeirrar niðurstöðu dómsins, sem áður er gerð grein fyrir, um að áðurgreindar yfirlýsingar stjórnar bankans og forstjóra hans um niðurfellingu persónulegrar ábyrgðar eða um tilgang með lánum til hlutafjárkaupa í bankanum hafi ekki breytt efni lánssamninganna að því er dómkröfur stefnanda varðar, verður að hafna því að sjónarmið um brostnar forsendur eigi hér við. Þá leiða sömu rök til þess að ekki verður fallist á með stefnda að persónulegri ábyrgð hans verði vikið til hliðar og hún felld niður þar sem hún hafi orðið til vegna ákvarðana og framgöngu kröfuhafans sjálfs.

Varakröfu sína um að kröfur stefnanda verði stórlega lækkaðar byggir stefndi í fyrsta lagi á því að tenging þeirra lána, sem veitt voru í upphafi, við erlendar myndir hafi verið ólögmæt. Vísar stefndi til þess að lánssamningar þeir, sem hér er deilt um, hafi verið um að breyta láni, sem veitt hafi verið í íslenskum krónum, yfir í skuld í svissneskum frönkum, án þess að nokkrir frankar hafi verið afhentir. Umbreyting lánanna hafi orðið á miðjum gildistíma þeirra og feli í sér skuldbreytingu en ekki nýtt lán. Eins og áður er rakið er það niðurstaða dómsins að lánssamningarnir feli ekki í sér skuldbreytingu á eldri lánum, heldur sé um að ræða nýja lánssamninga sem eftir efni sínu eru sjálfstæðar lánveitingar til uppgreiðslu á öðrum lánum. Í samningunum er tilgreining lánsfjárhæða í svissneskum frönkum en hvergi er í ákvæðum þeirra vikið að fjárhæð skuldarinnar í íslenskum krónum. Þá segir á forsíðu beggja samninga að þeir séu lánssamningar í erlendum myntum. Ekki verður séð að önnur ákvæði lánssamninganna séu í ósamræmi við að lánin hafi verið veitt í erlendri mynt og ættu að bera vexti samkvæmt því, svo sem lög gera ráð fyrir. Að öllu framangreindu virtu verður ekki fallist á það með stefnda að lán samkvæmt umræddum lánssamningum hafi verið ólögmæt.  

Stefndi vísar lækkunarkröfu sinni til stuðnings jafnframt til þess að lækka beri höfuðstól kröfu stefnanda vegna þess að ekki sé tekið tillit til kaupa stefnda á hlutabréfum á árunum 2007 og 2008, samtals 23.803 hlutir að kaupverði 14.782.037 krónur. Stefndi hefur ekki stutt frekari rökum hvers vegna draga beri þessi hlutafjárkaup frá skuld stefnda samkvæmt umræddum lánssamningum en af gögnum málsins virðist ljóst að við þau kaup var ekki um lánveitingar að ræða. Verður því ekki á þeirri  málsástæðu byggt. Þá er krafa stefnda um lækkun vegna frádráttar á fjármagnskostnaði vegna lánanna vanreifuð og er henni því hafnað.

Stefndi krefst þess með vísan til ákvæða 36. gr. laga nr. 7/1936 að hann verði aðeins látinn bera ábyrgð á 10% af skuld vegna láns nr. 0690-35-7335 í samræmi við almenna skilmála, sem gilt hafi um hlutabréfakaupalán til starfsmanna Kaupþings. Engin ákvæði er að finna í umræddum lánssamningi um slíka takmörkun ábyrgðar stefnda og þá verður hér að líta til þess að lánssamningurinn var ekki samkvæmt efni sínu til hlutafjárkaupa. Verður því ekki fallist á það með stefnda að lækkun á dómkröfu stefnanda verði byggð á almennum skilmálum hlutabréfakaupalána með vísan til framangreinds lagaákvæðis. Í ljósi framangreinds þykir sú niðurstaða ekki fela í sér mismunun milli starfsmanna bankans, svo sem stefndi heldur fram í greinargerð. Er þessari málsástæðu því hafnað.

Eins og áður er rakið er það niðurstaða dómsins að hvorki sjónarmið um forsendubrest né ósanngirnisástæður samkvæmt 36. gr. samningalaga eigi hér við, auk þess sem yfirlýsingar stjórnar og forstjóra Kaupþings banka hf. um niðurfellingu persónulegrar ábyrgðar eru ekki taldar eiga við um lánssamning nr. 0690-35-7335 og þann hluta lánssamnings nr. 0690-35-7334 sem telst sannað að hafi ekki verið ráðstafað til hlutafjárkaupa. Að öllu framangreindu virtu eru því engin rök til að lækka kröfu stefnanda á þessum grunni og er varakröfu stefnda því hafnað.

Í málinu liggur frammi ábyrgðarbréf stefnanda til stefnda, dagsett 10. september 2010, þar sem tilkynnt var um að sá hluti lánssamnings nr. 0690-35-7334, sem ekki var nýttur til hlutabréfakaupa í Kaupþingi banka hf., og lánssamningur nr. 0690-35-7335 væru gjaldfelldir. Hafði stefnda hinn 17. maí sama ár verið send bréf þar sem skorað var á stefnda að leggja fram nýjar tryggingar vegna lánanna innan 5 bankadaga frá móttöku tilkynninganna og upplýst um að yrði ekki orðið við áskoruninni, mætti búast við að stefnandi gjaldfelldi lánsfjárhæðina, án frekari fyrirvara, og gerði ráðstafanir til innheimtu krafnanna. Í stefnu kemur fram að ábyrgðarbréfin frá 10. september 2010 hafi verið afhent stefnda 16. sama mánaðar og er fallist á það með stefnanda að miða beri gjaldfellingu samninganna við það tímamark, enda verður ekki séð að sú tilhögun fari gegn efni þeirra. Af hálfu stefnda hefur því ekki verið haldið fram að hann hafi þá lagt fram frekari tryggingar. Er jafnframt vísað til þess sem að framan er rakið um heimild bankans samkvæmt ákvæðum lánssamninganna til að nýta sér rétt sinn samkvæmt þeim þótt hann kjósi að nýta ekki þann rétt strax og tilefni gefst til.  

Samkvæmt gr. 3.7. í báðum lánssamningunum var lánveitanda heimilt, kæmi til vanefnda af hálfu lántaka, að umreikna lán samkvæmt þeim í íslenskar krónur miðað við sölugengi bankans í þeim myntum sem lánið samanstendur af og krefja lántaka um greiðslu lánsins í samræmi við ákvæði lánssamninganna. Þá segir jafnframt í ákvæðinu að bankinn hafi um það val hvort krafist sé dráttarvaxta af fjárhæðinni í erlendri mynt eða af allri skuldinni breyttri í íslenskar krónur. Verður fallist á það með stefnanda að honum hafi verið heimilt að umreikna lánsfjárhæðirnar í íslenskar krónur svo sem hann gerir í aðalkröfu sinni og jafnframt að hann hafi mátt miða þann útreikning við gjaldfellingu lánanna. Í stefnu er að finna útreikninga stefnanda á yfirfærslu hinna gjaldfelldu lánsfjárhæða úr svissneskum frönkum í íslenskar krónur og hefur stefndi ekki gert athugasemdir við þann útreikning, þótt hann mótmæli fjárhæðum stefnukrafna á öðrum forsendum eins og áður er rakið. Fær útreikningur stefnanda að þessu leyti stoð í gögnum málsins. Að öllu framangreindu virtu er það niðurstaða dómsins að taka beri aðalkröfu stefnanda til greina og dæma stefnda til að greiða stefnanda 897.807.064 krónur.   

Stefndi hefur mótmælt dráttarvaxtakröfu stefnanda. Samkvæmt gr. 3.7. í báðum lánssamningum ber lántaka að greiða dráttarvexti af gjaldfallinni fjárhæð frá gjalddaga til greiðsludags, vanefni hann skuldbindingar sínar samkvæmt samningunum. Að þessu virtu og með vísan til ákvæða 1. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, verður fallist á það með stefnanda að krafa hans beri dráttarvexti frá gjaldfellingardegi, sem samkvæmt framansögðu er 16. september 2010. Verður aðalkrafa stefnanda því tekin til greina eins og hún er fram sett.

Með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, verður stefnda gert að greiða stefnanda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 750.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.

Arnfríður Einarsdóttir héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

Uppkvaðning dómsins hefur dregist vegna embættisanna dómarans.

D Ó M S O R Ð :

Stefndi, Steingrímur P. Kárason, greiði stefnanda, Arion banka hf., 897.807.064 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá 16. september 2010 til greiðsludags.

Stefndi greiði stefnanda 750.000 krónur í málskostnað að meðtöldum virðisaukaskatti.