Hæstiréttur íslands

Mál nr. 335/2017

Ákæruvaldið (Finnur Þór Vilhjálmsson saksóknari)
gegn
X (Hörður Felix Harðarson hrl.)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Kæruheimild
  • Afhending gagna
  • Stjórnarskrá
  • Mannréttindasáttmáli Evrópu
  • Frávísun frá Hæstarétti að hluta

Reifun

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að hafna kröfum X um að honum eða verjanda hans yrði afhent afrit af nánar greindum gögnum. Þá var kröfum X um að honum yrði veitt aðstaða til að kynna sér nánar tiltekin gögn vísað frá Hæstarétti þar sem heimild brast til að kæra úrskurð þess efnis.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Eiríkur Tómasson og Ingibjörg Benediktsdóttir settur hæstaréttardómari.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 29. maí 2017 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum sama dag. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 26. maí 2017 þar sem hafnað var kröfum varnaraðila um að sér yrði veitt aðstaða til að kynna sér gögn eða fá afrit af nánar greindum gögnum. Um kæruheimild er vísað til 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, einkum c. liðar þeirrar málsgreinar. Hér fyrir dómi krefst varnaraðili þess aðallega að sér „verði veitt aðstaða til að kynna sér öll gögn sem aflað var af lögreglu við rannsókn málsins og ekki hafa verið lögð fram í málinu“ en til vara að sér eða verjanda sínum verði afhent afrit af eftirfarandi gögnum: 1. Tölvupóstum „sem aflað var við rannsókn málsins hjá lögreglu þar sem orðasambandið „X ehf.“ kemur fyrir og ekki voru lagðir fram með ákæru.“ 2. Tölvupóstum „sem aflað var við rannsókn málsins hjá lögreglu þar sem orðin „X“ koma fyrir og ekki voru lagðir fram með ákæru.“ 3. Tölvupóstsamskiptum „starfsmanna A við ytri endurskoðendur bankans, B, sem varða lánveitingar til starfsmanna og stjórnenda A frá árunum 2005, 2006, 2007 og 2008.“ Að þessu frágengnu er þess krafist að sóknaraðila verði gert að afhenda afrit af þeim gögnum, sem að framan greinir, þó þannig að gögn samkvæmt 1. og 2. lið „verði bundin við tímabilið 1. júní til 31. október 2008.“ Verði ekki fallist á áðurgreindar kröfur krefst varnaraðili þess að sér verði veitt aðstaða til að kynna sér þau gögn, sem talin eru upp í 1. til 3. liðar að framan, en að því frágengnu að sér verði veitt aðstaða til að kynna sér haldlögð gögn, sem þar eru talin upp, þó þannig að gögn samkvæmt 1. og 2. lið verði bundin við tímabilið 1. júní til 31. október 2008.

Sóknaraðili krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá Hæstarétti, en til vara að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.

I

Í 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 eru tæmandi taldir þeir úrskurðir héraðsdómara sem sæta kæru til Hæstaréttar áður en aðalmeðferð máls er hafin. Í c. lið er kveðið á um að úrskurðir héraðsdómara, sem varða synjun um að láta af hendi afrit af gögnum, verði kærðir til Hæstaréttar, en hvorki þar né í öðrum stafliðum málsgreinarinnar er veitt heimild til að kæra úrskurði um að synja ákærða eða verjanda hans um aðstöðu til að kynna sér gögn. Samkvæmt því brestur heimild til að kæra úrskurð þess efnis og verður kröfum varnaraðila um að honum verði veitt aðstaða til að kynna sér öll gögn málsins, sem aflað hefur verið af lögreglu við rannsókn þess og ekki hafa verið lögð fram í því, eða önnur nánar greind gögn af þeim sökum vísað frá Hæstarétti, sbr. dóm réttarins 2. desember 2015 í máli nr. 804/2015.

II

Stendur þá eftir að taka afstöðu til krafna varnaraðila um að honum eða verjanda hans verði afhent afrit af þeim gögnum sem áður er vísað til.

Samkvæmt 1. mgr. 37. gr. laga nr. 88/2008 skal verjandi jafnskjótt og unnt er fá afrit af öllum skjölum máls, sem varða skjólstæðing hans, og er verjandanum eftir 4. mgr. greinarinnar heimilt að láta skjólstæðingnum í té eintak af þeim eða kynna honum þau með öðrum hætti. Í ákvæði 1. mgr. 37. gr. um að afhenda skuli verjanda afrit af öllum skjölum máls, sem varða skjólstæðing hans, felst eðli máls samkvæmt að verjandinn á því aðeins rétt til skjala að þau varði þær sakargiftir, sem beinast gegn skjólstæðingnum, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 27. nóvember 2002 í máli nr. 500/2002 þar sem samsvarandi ákvæði í eldri lögum um meðferð opinberra mála, nr. 19/1991, var skýrt með þeim hætti. Ef lögregla eða ákæruvald hefur undir höndum slík skjöl ber að leggja þau fram við meðferð máls fyrir dómi, hvort sem efni þeirra horfir til sýknu eða sektar ákærða, sbr. 3. mgr. 18. gr. og 2. mgr. 134. gr. laga nr. 88/2008. Þó kunna einstök ákvæði XX. kafla laganna að standa því í vegi að það verði gert og verður ákæruvaldið ef svo ber undir að gera grein fyrir ástæðum þess að því er hvert skjal varðar.

Í 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar og 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, er mælt fyrir um réttláta málsmeðferð fyrir dómi. Þá er kveðið á um í b. lið 3. mgr. síðarnefndu greinarinnar að hver sá, sem sökum er borinn um refsiverða háttsemi, skuli fá nægan tíma og aðstöðu til að undirbúa vörn sína. Mannréttindadómstóll Evrópu hefur skýrt umrædd ákvæði mannréttindasáttmálans á þann hátt að ákæruvaldinu sé skylt að veita verjanda ákærða aðgang að þeim sönnunargögnum í vörslum sínum, sem þýðingu geta haft við úrlausn málsins, en öðrum ekki, sbr. ákvörðun dómstólsins 28. febrúar 2002 í máli nr. 46119/99.

Sóknaraðili hefur lýst því yfir að umfram þau gögn, sem séu meðal málsgagna eða hafi þegar verið afhent varnaraðila, liggi ekki fyrir hjá sóknaraðila nein gögn sem varnaraðili krefjist samkvæmt framansögðu að fá afrit af og hafi tengsl við sakargiftir á hendur honum. Hefur varnaraðili ekki heldur bent á að eitthvert þeirra gagna, sem þessar kröfur hans taka til, geti haft þýðingu við úrlausn málsins. Með vísan til þess, sem að framan greinir, verður þegar af þessum ástæðum staðfest sú niðurstaða héraðsdóms að hafna umræddum kröfum varnaraðila eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Vísað er frá Hæstarétti aðalkröfu varnaraðila, X, svo og öðrum kröfum um að honum verði veitt aðstaða til að kynna sér nánar greind gögn málsins.

Hafnað er kröfum varnaraðila um að honum eða verjanda hans verði afhent afrit af þeim gögnum sem vísað er til í kröfugerð hans.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 26. maí 2017.

Með ákæru héraðssaksóknara 19. september 2016 voru ákærða, X, gefin að sök umboðssvik og innherjasvik og ákærðu, Y, tilraun til umboðssvika í tengslum við lánveitingar í ágúst 2008 til einkahlutafélagsins, X, og sölu á hlutum í A hf. til einkahlutafélagsins. Eru brot ákærðu talin varða við 249. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en 249. gr., sbr. 1. mgr. 22. gr. laganna að því er varðar ákærðu Y. Loks varðar háttsemin við 1. mgr. 123. gr. laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti að því er varðar ákærða X.

Í þinghaldi 27. apríl 2017 lagði ákærði, X, fram bókun með kröfu um aðgang að gögnum málsins. Krafðist hann þess aðallega að ákærða yrði veitt aðstaða til að kynna sér öll gögn sem hefði verið aflað af lögreglu við rannsókn málsins og ekki hefðu verið lögð fram í málinu. Til vara krafðist ákærði þess að fá afrit af gögnum samkvæmt stafliðum A til G.

A.      Tölvupósta sem aflað hefði verið við rannsókn málsins hjá lögreglu þar sem orðasambandið "X ehf." kæmi fyrir og ekki hefðu verið lagðir fram með ákæru.

B.      Tölvupósta sem aflað hefði verið við rannsókn málsins hjá lögreglu þar sem orðin "X kæmu" fyrir og ekki hefðu verið lagðir fram hjá lögreglu.

C.      Fundargerðir starfskjaranefndar A hf. á árunum 2005 til og með 2008.

D.      Kynningar innri endurskoðanda A, ásamt fylgigögnum, sem haldnar voru fyrir stjórn bankans, á lánum til starfsmanna, og stjórnendur hans á árunum 2005 til og með 2008.

E.       Fundargerðir endurskoðunarnefndar A frá árunum 2005 til og með 2008.

F.       Tölvupóstssamskipti starfsmanna A við ytri endurskoðendur bankans, B, sem vörðuðu lánveitingar til starfsmanna og stjórnendur A frá árunum 2005 til og með 2008.

G.      Endurskoðunarskýrslur B sem unnar hafi verið í tengslum við gerð ársreikninga og árshlutauppgjör og kynntar hafi verið fyrir stjórn á árunum 2005 til og með 2008.

Til þrautavara krafðist ákærði úrskurðar um að ákæruvaldi bæri að verða við kröfu ákærða um að hann fengi afhent afrit af þeim gögnum sem talin væru upp í stafliðum A til G í varakröfu, þó þannig að gögn samkvæmt stafliðum A og B verði bundin við tímabilið 1. júní til 31. október 2008.  

Til þrautaþrautavara er þess krafist að ákærða verði veitt aðstaða til að kynna sér haldlögð gögn sem fram komi í stafliðum A til G í varakröfu. Að auki er þess krafist að ákærða verði veitt aðstaða til að kynna sér tölvupósta innri endurskoðanda A, C, sem aflað hafi verið við rannsókn málsins hjá lögreglu og ekki voru lagðir fram með ákæru.

Til þrautaþrautaþrautavara er þess krafist að ákærða verði veitt aðstaða til að kynna sér haldlögð gögn sem fram komi í stafliðum A til G í þrautaþrautavarakröfu. Að auki er þess krafist að ákærða verði veitt aðstaða til að kynna sér tölvupósta innri endurskoðanda A, C sem aflað hafi verið við rannsókn málsins hjá lögreglu og sendir hafi verið á tímabilinu 1. júní til 31. október 2008 og ekki voru lagðir fram með ákæru.

Ákæruvald hefur hafnað aðalkröfu ákærða, sem taki bæði til rafrænna gagna sem aflað var við rannsókn málsins, sem annarra. Þá hefur ákæruvald hafnað öllum varakröfum varðandi stafliði A, B og D. Varðandi stafliði C, E og G samþykkir og afhendir ákæruvald gögn með þeim hætti að gögn samkvæmt E lið eru afhent. Þá eru gögn samkvæmt staflið G afhent, að undanskildu árinu 2008, sem ekki fannst. Að því er varðar staflið C fundust ekki heildstæðar fundargerðir starfskjaranefndar fyrir tímabilið, en ýmis gögn varðandi störf nefndarinnar, þ. á m. fundargerðir, sem hafa verið afhent.

Ákærði rökstyður kröfu sína um afhendingu og aðgang að gögnum málsins með þeim hætti að frá því í fyrstu ákæru, embættis sérstaks saksóknara gegn ákærða, hafi verið uppi ágreiningur á milli ákærða og ákæruvalds um aðgang að rannsóknargögnum máls. Niðurstaða ákæruvalds hafi ávallt verið á þann veg að synja ákærða um aðgang að rannsóknargögnum málsins. Á sínum tíma hafi embætti sérstaks saksóknara haldlagt gríðarlega mikið magn gagna hjá fjármálastofnunum og öðrum í tengslum við efnahagshrunið. Ákæruvald hafi síðan jafnan valið úr þessu gagnasafni gögn til að leggja fram með ákærum í einstökum málum. Þannig hafi ákærðu þurft að treysta á það að ákæruvald legði fram, ekki einungis gögn til stuðnings sakfellingu samkvæmt ákæru, heldur einnig gögn til stuðnings sýknukröfu ákærðu. Út frá sjónarhóli ákærða sé sú aðstaða óviðunandi með öllu og stríði gegn ákvæðum stjórnarskrár, mannréttindasáttmála og lögum um meðferð sakamála, um réttláta málsmeðferð. Þannig verði aðgangur að gögnum máls ekki takmarkaður við ákvörðun ákæruvalds þar um. Hafi Mannréttindadómstóll Evrópu komist að þeirri niðurstöðu að þó svo hlutlægnisskyldu ákæruvalds sé fyrir að fara, þurfi ákærðu ekki að sæta því að ákæruvald taki eitt ákvörðun um þetta atriði. Til Mannréttindadómstóls Evrópu hafi svokölluðu [...] máli verið skotið. Dómstóllinn hafi beint fyrirspurn til íslenska ríkisins varðandi aðgang verjenda að gögnum þess máls. Veiti það skýra vísbendingu um að íslenskir dómstólar hafi takmarkað um of aðgang ákærðu að gögnum máls. Gera verði þá kröfu að íslenskir dómstólar horfi meira til niðurstaðna Mannréttindadómstóls Evrópu en gert hafi verið. Í samskiptareglum sem dómstólar hér á landi, ákæruvald og lögmannafélagið hafi unnið að hafi verið gert ráð fyrir að ákæruvald myndi taka saman yfirlit yfir öll gögn sakamáls. Gætu verjendur í framhaldi kynnt sér þessi gögn og farið fram á að einhver þeirra yrðu gerð að framlögðum gögnum í sakamáli. Með því hafi ákveðnu jafnræði átt að vera komið á. Þessi tilhögun hafi hins vegar ekki gengið eftir þar sem ákæruvald hafi ekki hagað framlagningu með þessum hætti.

Aðalkrafa ákærða lúti að aðgangi að öllum gögnum málsins. Sú krafa sé reist á þeim rökum sem hér að framan greini. Varakröfur taki síðan við sem séu stigþrengri. Eftir framlagningu ákæruvalds í samræmi við kröfugerð ákærða standi eftir krafa um afhendingu eða aðgang að tilgreindum gögnum. Stafliðir A og B lúti að tölvupóstum. Í þeim gögnum ættu ekki að vera gögn sem háð séu réttindum annarra en ákærða. Þá sé réttur ákærða sem ákærðs manns það ríkur að hann eigi að rýma út réttindum annarra varðandi þessi tilteknu gögn. Gögn samkvæmt staflið D séu ekki tiltæk. Ákærði þurfi að reyna að afla þeirra gagna sjálfur. Sama eigi við um gögn samkvæmt F lið.

Af hálfu ákæruvalds er byggt á því að aðalkrafa ákærða sé sú sama og áður hafi reynt á í sambærilegum málum. Hafi slíkum kröfum ávallt verið hafnað út frá þeim sjónarmiðum að ekki sé gerð krafa um sérgreind gögn. Grundvallarregla sakamálalaga sé sú að rannsóknir sakamála séu í höndum lögreglu. Í framhaldi af rannsókn afmarki ákæruvald málið við útgáfu ákæru. Ákæruvald leggi gögn fram til stuðnings ákæruefni og verði að bera hallann af því ef gögnin leiði ekki til þess að sök sé sönnuð. Í þessum efnum megi vísa til 134. gr. og 108. gr. laga nr. 88/2008. Ákærðu eigi síðan leiðir til að afla sönnunargagna, sbr. 135. gr. laganna. Verður krafa að lúta að rannsóknargögnum sem eru til, auk þess sem þau þurfa að hafa sönnunargildi í máli.

Að því er aðalkröfu ákærða varði hafi lögregla lagt hald á gríðarlegt magn gagna, rafrænna og annarra. Mikið sé af gögnum sem ekki hafi tengsl við ákæru í málinu. Þar séu líka gögn tengd öðrum, gögn sem séu háð þagnarskyldu. Að auki séu gögn með viðkvæmum persónuupplýsingum. Ekki sé hægt að hafa kröfu af þessum toga þetta rúma, heldur verði að benda á tilgreind gögn.

Að því er varakröfur varði séu þær að mestu sama marki brenndar. Aðrar kröfur samkvæmt stafliðum A og B séu of rúmar, en gríðarlegt magn tölvupósta sem þar geti fallið undir séu í rannsóknargögnum. Tölvupóstssafn ákærða eða félags hans sé ekki sérgreint í rannsóknargögnum. Óljóst og óskýrt sé hvað slík leit myndi leiða í ljós. Krafan sé úr hófi almenn. Að því er varði kröfu samkvæmt staflið D verði ekki séð að nein slík gögn séu á meðal gagna málsins. Ómögulegt sé að finna þau. Ef vera kynni að slík gögn fyndust mætti beita úrræðum 135. gr. laga nr. 88/2008 til að komast yfir gögnin. Það sama sé uppi er varði kröfu samkvæmt staflið F. Þessi gögn séu ekki samandregin. Þá sé krafan of almenn. Ekki sé hægt að afhenda eitthvað sem ekki sé til.

Niðurstaða:

Eins og fyrr greinir lýtur aðalkrafa ákærða að því að honum verði veitt aðstaða til að kynna sér öll gögn sem lögregla hafi aflað við rannsókn málsins og ekki hafi verið lögð fram í málinu. Þessi krafa ákærða beinist ekki að tilgreindum skjölum og öðrum sönnunargögnum, heldur öllum skjölum og samskiptum. Ákæruvaldi verður ekki gert að veita aðgang að þessum gögnum, þar sem þau eru ótilgreind og kunna í einhverjum tilvikum að varða aðra en ákærða. Á meðal þessara gagna eru, eðli máls samkvæmt, í ríkum mæli orðsendingar varðandi fjárhagsmálefni fjölmargra viðskiptamanna A, sem leynd verður að ríkja um og að auki persónulegar orðsendingar, sem starfsmenn félagsins fengu eða sendu og vörðuðu einkalíf þeirra.     

Að því er varakröfur ákærða varðar lítur dómurinn svo á að ákæruvald hafi orðið við kröfum samkvæmt stafliðum E og G, utan það að endurskoðunarskýrsla fyrir árið 2008 fannst ekki. Verður ákæruvaldi ekki gert að leggja fram gagn eða veita aðgang að því, sem það hefur ekki í sínum fórum. Þá hefur ákæruvald lagt fram fundargerðir samkvæmt staflið C, að því marki sem þær fundust í gögnum. Þá eru gögn samkvæmt staflið D ekki til staðar. Verður ákæruvaldi ekki gert að leggja fram eða veita aðgang að gögnum sem ekki eru til.

Eftir standa þá varakröfur samkvæmt stafliðum A og F, en um er að ræða afhendingu eða aðgang að tölvupóstum sem aflað var við rannsókn málsins þar sem orðasamböndin "X ehf." eða orðin "X" koma fyrir. Að auki er um að ræða tölvupósta ytri endurskoðanda bankans fyrir tiltekin ár, eða í varakröfum fyrir tiltekna mánuði. Að því er þessar kröfur ákærða varðar er til þess að líta að ákærði hefur fengið afhent eða hefur aðgang að öllum tölvupóstssamskiptum sínum, sem marka grundvöll rannsóknar málsins. Er ákærði með þessu að leita eftir aðgangi að tölvupóstsamskiptum annarra þar sem nöfn ákærða, félags hans eða ytri endurskoðanda koma fyrir. Sem fyrr verður slík krafa að takmarkast af því að hún er ekki nægjanlega sérgreind og að á meðal þessara gagna eru, eðli máls samkvæmt, í ríkum mæli orðsendingar varðandi fjárhagsmálefni fjölmargra viðskiptamanna A, sem leynd verður að ríkja um og að auki persónulegar orðsendingar, sem starfsmenn félagsins fengu eða sendu og vörðuðu einkalíf þeirra. Er því ekki unnt að verða kröfunum, eins og þær eru fram settar.

Í ljósi alls framangreinds verður aðal- og varakröfum ákærða, X, um afhendingu eða aðgang að rannsóknargögnum máls í samræmi við bókun á dskj. nr. 6 hafnað, að því marki sem ákæruvald hefur ekki orðið við kröfum ákærða.

Úrskurð þennan kveður upp Símon Sigvaldason héraðsdómari.

Ú r s k u r ð a r o r ð:

Aðal- og varakröfum ákærða, X, um afhendingu eða aðgang að gögnum máls í samræmi við bókun á dskj. nr. 6, er hafnað að því marki sem ákæruvald hefur ekki orðið við kröfum ákærða.