Hæstiréttur íslands

Mál nr. 253/2004


Lykilorð

  • Fyrirsvar
  • Sjálfseignarstofnun
  • Frávísun frá héraðsdómi


Fimmtudaginn 27

 

Fimmtudaginn 27. janúar 2005.

Nr. 253/2004.

Steinn Steinsson og

Þorvaldur H. Þórðarson

(Steingrímur Þormóðsson hrl.)

gegn

Sjálfseignarfélagi

dýraspítala Watsons

(Einar Gautur Steingrímsson hrl.)

og gagnsök

 

Fyrirsvar. Sjálfseignarstofnun. Frávísun frá héraðsdómi.

SD höfðaði mál á hendur S og Þ til heimtu vangoldinnar leigu á húsnæði í eigu félagsins. Var málið höfðað í umboði SÁ formanns félagsins. Í dómi Hæstaréttar var tekið fram að SD væri skráð sjálfseignarstofnun en ljóst væri að starfsemi félagsins hefði á umliðnum árum hvorki verið í samræmi við stofnskrá þess né ákvæði laga nr. 33/1999 um sjálfseignarstofnanir sem stunda atvinnurekstur. Hvorki yrði í þessu skuldamáli fullyrt um lögmæti funda félagsins frá aðalfundi þess 12. janúar 1999 né fyrirsvar SÁ. Þá væri einnig til þess að líta að í gögnum málsins væru yfirlýsingar fulltrúa helmings stofnenda félagsins auk fulltrúa sem hefðu tekið við aðild að félaginu í stað upphaflegs stofnanda um að SÁ hefði hvorki umboð þeirra né stjórnar til að höfða málið í nafni félagsins. Með vísan til 4. mgr. 17. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og ákvæða laga nr. 33/1999 um fyrirsvar slíkra sjálfseignarstofnana var talið að svo óljóst væri um heimild SÁ að lögum til fyrirsvars fyrir SD að ekki yrði hjá því komist að vísa málinu frá héraðsdómi.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Hrafn Bragason, Árni Kolbeinsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Aðaláfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 15. júní 2004. Jafnframt var leitað endurskoðunar á úrskurði uppkveðnum 12. maí 2003 þar sem frávísunarkröfu aðaláfrýjenda var hafnað. Aðaláfrýjendur krefjast þess aðallega að málinu verði vísað frá héraðsdómi en til vara að meðferð þess í héraði verði ómerkt frá og með 2. apríl 2002 og málinu vísað heim til löglegrar meðferðar. Að því frágengnu krefjast þeir sýknu af kröfum gagnáfrýjanda. Þá krefjast aðaláfrýjendur málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Gagnáfrýjandi áfrýjaði fyrir sitt leyti 25. ágúst 2004. Hann krefst þess að aðaláfrýjendur verði óskipt dæmdir til að greiða honum 1.566.481 krónu með dráttarvöxtum samkvæmt 10. gr., sbr. 12. gr., vaxtalaga nr. 25/1987, af nánar tilgreindum fjárhæðum frá 1. janúar 1996 1. júlí 2001 en frá þeim degi samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu til greiðsludags. Þá krefst gagnáfrýjandi hækkunar málskostnaðar vegna meðferðar málsins fyrir héraðsdómi og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I.

Með leigusamningi 1. janúar 1990 tóku aðaláfrýjendur á leigu húsnæði Sjálfseignarfélagsins dýraspítali Watsons við Vatnsveituveg í Víðidal í Reykjavík, ásamt meðfylgjandi lausafé. Þá var gerður viðbótarleigusamningur 1. janúar 1996. Samkvæmt skipulagsskrá félagsins 3. maí 1977 er það sjálfseignarstofnun er hefur meðal annars þann tilgang að starfrækja dýraspítala. Stofnendur þess voru Reykjavíkurborg, Samtök sveitarfélaga í Reykjanesumdæmi, Dýraverndunarfélag Reykjavíkur, Hundavinafélag Íslands, Hestamannafélagið Fákur og Samband dýraverndunarfélaga Íslands. Samkvæmt skipulagsskránni skyldi hver stofnenda um sig skipa tvo menn í félagið til eins árs í senn, en aðalfund skyldi halda fyrir lok aprílmánaðar ár hvert þar sem meðal annars skyldi kjósa stjórn er annast skyldi „daglegan rekstur dýraspítalans”. Ágreiningur mun hafa verið innan stjórnar er kosin var 1998. Með bréfi Sigfríðar Þórisdóttur formanns félagsins 6. janúar 1999 var aðaláfrýjendum tilkynnt „um breyttan innheimtureikning fyrir húsaleigu og tækjaleigu til Sjálfseignarfélagsins Dýraspítala Watsons ... þar til annað verður ákveðið á næsta aðalfundi Sjálfseignarfélagsins.“ Aðaláfrýjendur greiddu inn á tilgreindan reikning 11. janúar það ár leigu fyrir þann mánuð og sendu 24. janúar 1999 bréf til félagsins þar sem tekið var fram að það væri skilningur þeirra að svo yrði áfram. Kæmi til breytinga á greiðslufyrirkomulagi var óskað eftir að þeim yrði tilkynnt það skriflega.

Á aðalfundi félagsins 12. janúar 1999 var kosin ný stjórn. Formaður var kjörin Júlía M. Sveinsdóttir frá Sambandi dýraverndunarfélaga Íslands en varaformaður Vilhjálmur Skúlason frá Hestamannafélaginu Fáki. Meðstjórnendur voru Gunnar Borg og Hlín Brynjólfsdóttir frá Hundavinafélagi Íslands, en varamenn þeirra Magnús H. Guðjónsson frá Sambandi sveitarfélaga á Suðurnesjum og Pétur Friðriksson frá Reykjavíkurborg. Sigríður Ásgeirsdóttir annar fulltrúa Dýraverndunarfélags Reykjavíkur og Hlín Brynjólfsdóttir annar fulltrúa Hundavinafélags Íslands lýstu þeirri skoðun á fundinum að hann væri ekki lögmætur. Fundarstjóri úrskurðaði þann fund lögmætan og þær sátu báðar fundinn, settu fram tillögur og tóku þátt í afgreiðslu mála meðal annars kosningum til trúnaðarstarfa í félaginu auk þess sem Hlín Brynjólfsdóttur tók samkvæmt framansögðu kosningu í hina nýju stjórn. Fyrir dómi lýsti lögmaður gagnáfrýjanda því yfir að ágreiningslaust væri að aðalfundur þessi hafi verið lögmætur. Af fundargerð verður ekki ráðið hvort ákveðið hafi verið að breyta tilhögun á greiðslu aðaláfrýjenda vegna leigu á fasteign félagsins svo sem lýst var í áðurnefndu bréfi til þeirra 6. janúar 1999, en samþykkt var samhljóða tillaga Hlínar Brynjólfsdóttur „um að vísa málinu varðandi viðræður við dýralækna til stjórnar“. Nýkjörinn formaður stjórnar félagsins tilkynnti dómsmálaráðuneytinu 1. febrúar 1999 að hún segði af sér formennsku og sendi hún ráðuneytinu ýmis gögn félagsins er hún hafði undir höndum. Þau gögn sendi ráðuneytið áfram til varaformannsins 9. sama mánaðar. Á stjórnarfundi 10. mars 1999 var samþykkt að afturkalla umboð Sigríðar Ásgeirsdóttur sem framkvæmdastjóra og prókúruumboð er hún hafði fyrir félagið og það veitt Vilhjálmi Skúlasyni. Þann sama dag mun firmaskrá hafa verið send tilkynning um breytingu á prókúruumboði og Sigríði jafnframt tilkynnt um ákvörðun þessa auk þess sem óskað var eftir að hún afhenti gögn félagsins er hún hefði með höndum til endurskoðanda er kjörinn hafði verið á aðalfundinum 12. janúar 1999. Með bréfi 16. mars 1999 til annarra fulltrúa stofnenda félagsins mótmæltu Gunnar Borg, Hlín Brynjólfsdóttir og Sigríður Ásgeirsdóttir lögmæti aðalfundarins 12. janúar 1999 og þá einnig stjórnarfundarins 10. mars það ár. Því væri Sigríður enn framkvæmdastjóri félagsins og færi með prókúru, en Vilhjálmur Skúlason ekki formaður þess og nýkjörinn endurskoðandi hefði heldur ekki verið réttilega kjörin. Voru þessi sjónarmið áréttuð í símskeyti Sigríðar Ásgeirsdóttur til Vilhjálms Skúlasonar 16. mars 1999. Hinn 18. mars 1999 var samþykkt á stjórnarfundi að fela Vilhjálmi Skúlasyni að sjá um innheimtu og móttöku á leigugreiðslum aðaláfrýjenda. Með bréfi 21. apríl 1999 var boðað til aðalfundar í félaginu 29. sama mánaðar af Hlín Brynjólfsdóttur sem „starfandi“ formanni og Sigríði Ásgeirsdóttur og Gunnari Borg sem meðstjórnendum. Á fundinn mættu ekki fulltrúar allra stofnenda félagsins en af gögnum málsins má ráða að sumir þeirra töldu fund þennan og síðari fundi í framhaldi af honum ógilda eða markleysu. Á þessum fundi var kosin stjórn og samþykkt að Sigríður Ásgeirsdóttir væri enn framkvæmdastjóri félagsins og hefði fullt umboð til að annast fjármuni þess. Var Hlín Brynjólfsdóttir kjörin formaður félagsins en Sigríður varaformaður. Sú stjórn hélt fund 18. nóvember 1999 þar sem bókað var að reynt yrði að koma í veg fyrir að stjórnin frá 12. janúar 1999 kæmist yfir sjóði félagsins. Hin síðarnefnda stjórn hélt svo fund 27. janúar 2000. Þá var haldinn aukafundur í félaginu 14. október 2000 þar sem mættur var einn fulltrúi frá fimm af stofnaðilum þess. Var bókað í fundargerðarbók að félagsmenn væru „skiptir í tvo hópa“ og fram komu ráðagerðir um að halda nýjan aðalfund. Í bréfi dómsmálaráðuneytisins 12. desember 2000 kom fram að það liti svo á að sveitarfélög þau sem væru innan Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum væru enn aðilar að sjálfseignarfélaginu og að fulltrúar sem samtökin hefðu nefnt væru rétt tilnefndir í félagið. Á aðalfundi er haldinn var 12. desember 2000 mættu fulltrúar allra stofnenda nema síðastnefndra samtaka sveitarfélaga sem ekki voru boðaðir til hans. Harkalegar deilur urðu um lögmæti fundarins og véku sex fundarmanna af tíu af honum. Kosningu stjórnar var frestað en ákveðið að Sigríður Ásgeirsdóttir skyldi verða formaður þar til ný stjórn hefði verið kosin. Hinn 10. mars 2001 var svo haldinn framhaldsaðalfundur og var bókað í fundargerðarbók að fulltrúar Hundavinafélagsins hefðu boðað forföll, jafnframt því sem það væri álit aðalfundar að fulltrúar Fáks og Reykjavíkurborgar hafi hætt þátttöku sinni í félaginu. Á þessum fundi var ný stjórn kosin, með Sigríði Ásgeirsdóttur sem formanni. Þá var bókað að ákveðið væri að innheimta „húsaleiguskuld dýralæknanna með aðstoð lögfræðings.“ Af gögnum málsins má ráða að deilur innan félagsins hafi enn magnast og er enn deilt um hver fari með fyrirsvar í því. Eru í málinu fjölmörg önnur gögn en að framan er getið um samskipti þeirra aðila sem telja sig hafa verið réttmæta fulltrúa stofnenda eða stjórnarmenn í félaginu. Ekki eru efni til að geta þeirra gagna frekar.

Samkvæmt gögnum málsins hafa mikil bréfaskipti átt sér stað milli aðaláfrýjenda og þeirra sem telja sig hafa verið fyrirsvarsmenn félagsins. Í bréfi Sigríðar Ásgeirsdóttur til þeirra 16. febrúar 1999, er hún ritaði sem framkvæmdastjóri félagsins, var því haldið fram að áðurnefnd Sigfríð Þórisdóttir hefði 5. desember 1998 misst umboð sitt sem formaður stjórnar. Engin breyting hefði því verið gerð á framkvæmd leigugreiðslna sem væru í vanskilum. Var það áréttað með bréfi til aðaláfrýjenda 26. febrúar 1999, undirrituðu af tveimur stjórnarmönnum félagsins og aftur með bréfi fjögurra manna er sóttu umboð sitt til aðalfundar 29. apríl 1999. Hinn 30. maí 1999 rituðu aðaláfrýjendur bréf til þeirra er að máli þessu höfðu komið fyrir hönd félagsins og vísuðu til þess að þeim hefðu borist afar misvísandi upplýsingar um hvernig inna skyldi af hendi leigugreiðslur. Létu þeir jafnframt í ljós þá ósk að málum yrði komið í eðlilegt horf, en til þess tíma myndu þeir geymslugreiða. Aðaláfrýjendum bárust tvenns konar bréfleg svör. Annars vegar 12. júní 1999 frá Sigríði Ásgeirsdóttur sem framkvæmdastjóra félagsins þar sem greiðslufyrirkomulagi var mótmælt og ítrekuð áskorun um greiðslu inn á tilgreindan reikning, en ella yrði leigusamningi rift. Hins vegar frá Láru V. Júlíusdóttur hæstaréttarlögmanni 22. júní það ár, fyrir hönd Reykjavíkurborgar, Sambands Sveitarfélaga á Suðurnesjum og Hestamannafélagsins Fáks þar sem því var lýst yfir að til stæði að leita til dómstóla til að fá úr því skorið hver væri réttkjörin stjórn félagsins, en þangað til skyldu aðaláfrýjendur halda áfram að geymslugreiða. Með bréfi 20. desember 1999 tilkynnti Sigríður Ásgeirsdóttir sem framkvæmdastjóri um riftun leigusamningsins og var þess krafist að aðaláfrýjendur myndu rýma húsnæðið fyrir 1. febrúar 2000. Sú yfirlýsing um riftun var ítrekuð með bréfi 21. janúar 2000. Með bréfi aðaláfrýjenda 27. janúar 2000 til þeirra aðila er málinu tengdust var ítrekuð ósk sem kom fram í framangreindu bréfi þeirra 30. maí 1999. Lára V. Júlíusdóttir hæstaréttarlögmaður ritaði aðaláfrýjendum bréf 31. janúar 2000 fyrir hönd sömu stofnenda og áður „til að fullvissa“ þá um að félagið hafi „ekki tekið neinar ákvarðanir um riftun“ leigusamningsins og að hann væri í fullu gildi, en að málefni þetta hefði „ekki verið tekið til umfjöllunar í félaginu allt frá aðalfundi þess 12. janúar 1999“. Þess var getið að stjórn félagsins hafi „afturkallað umboð fyrrum framkvæmdastjóra Sigríðar Ásgeirsdóttur.“ Með bréfi Sigríðar Ásgeirsdóttur til aðaláfrýjenda 4. febrúar 2000 var meðal annars áréttuð krafa um að þeir skyldu rýma fasteignina. Vilhjálmur Skúlasonar ritaði aðaláfrýjandanum Þorvaldi 22. febrúar 2000 bréf. Kvaðst hann vilja ítreka umboð það sem hann hefði sem formaður félagsins „gefið þér til að sjá svo um að húsaleigugreiðslur verði lagðar inn á reikning í nafni SDW, eða deponerað á þar til gerðan reikning.“ Með bréfi Láru V. Júlíusdóttur hæstaréttarlögmanns 2. júní 2000 til aðaláfrýjenda voru yfirlýsingar í fyrra bréfi hennar 31. janúar 2000 ítrekaðar og þess getið að stjórn félagsins muni „standa vörð“ um réttindi þeirra sem leigjenda. Í símskeyti 25. júní 2001 frá Einari Gauti Steingrímssyni hæstaréttalögmanni fyrir hönd gagnáfrýjanda var enn á ný tilkynnt að leigusamningnum væri rift og aðaáfrýjendum gert að skila lyklum að húsnæðinu eigi síðar en 30. júní það ár.

Hvorki hefur reynt á réttmæti framangreindra riftunaryfirlýsinga fyrir dómstólum né fengist úr því skorið hverjir sitji í stjórn félagsins. Aðaláfrýjendur skiluðu umræddu húsnæði í október 2001 og var gerð úttekt á því að viðstöddum fulltrúum nokkurra stofnenda. Að öðru leyti eru málavextir, málsástæður og lagarök málsaðila rakin í úrskurði héraðsdóms og hinum áfrýjaða dómi.

II.

Sjálfseignarfélagið dýraspítali Watsons er skráð sjálfseignarstofnun. Af því sem lýst er hér að framan er ljóst að starfsemi félagsins hefur á umliðnum árum hvorki verið í samræmi við stofnskrá þess né ákvæði laga nr. 33/1999 um sjálfseignarstofnanir sem stunda atvinnurekstur. Þá hafa þeir, sem talið hafa sig eiga skyldum að gegna gagnvart félaginu samkvæmt stofnskrá, ekki fengið úr því skorið með réttmætum hætti hvernig málum skuli skipað innan þess. Hafa ýmsir, sem talið hafa sig þess umkomna, gefið aðaláfrýjendum misvísandi og óljósar yfirlýsingar um fyrirkomulag leigugreiðslna. Eins og áður segir lýsti lögmaður gagnáfrýjanda því yfir við flutning málsins fyrir Hæstarétti að óumdeilt væri að aðalfundur félagsins 12. janúar 1999 hafi verið lögmætur. Gáfu stjórn félagsins er þá var kjörin og Lára V. Júlíusdóttir, hæstaréttarlögmaður og fundarstjóri á þeim fundi, yfirlýsingar til aðaláfrýjenda þess efnis að Sigríður Ásgeirsdóttir væri ekki lengur framkvæmdastjóri félagsins og hefði því ekki heimild til þess að koma fram fyrir þess hönd. Gögn um síðari fundi veita ekki ljósar upplýsingar um lögmæti þeirra eða fyrirsvar Sigríðar. Þá eru ekki fyrirliggjandi gögn um prókúru hennar.

Í héraðsdómsstefnu tilgreinir lögmaður gagnáfrýjanda að Sigríður Ásgeirsdóttir „formaður stefnanda skv. ákvörðun aðalfundar þ. 12.12.2000 og þ. 10.3.2001 fól undirrituðum innheimtuaðgerðir þessar.“ Liggur slíkt umboð fyrir í skjölum málsins þar sem vísað er til aðalfundar í félaginu 12. desember 2000. Samkvæmt framansögðu verður hins vegar ekki fullyrt í þessu skuldamáli um lögmæti þeirra funda. Er einnig til þess að líta að í gögnum málsins eru yfirlýsingar fulltrúa helmings stofnenda félagsins frá því í nóvember og desember 2001 um að Sigríður Ásgeirsdóttir hafi hvorki umboð þeirra né stjórnar til að fara í mál þetta í nafni félagsins. Þá rita undir aðra yfirlýsinguna tveir fulltrúar Sambands sveitarélaga á höfuðborgarsvæðinu og á Suðurnesjum, sem tóku við aðild Samtaka sveitarfélaga í Reykjanesumdæmi að félaginu samkvæmt bréfi dómsmálaráðuneytis 12. desember 2000.

Þegar allt framanritað er virt og litið til 4. mgr. 17. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála sem og ákvæða laga nr. 33/1999 varðandi fyrirsvar sjálfseignarstofnana, sem stunda atvinnurekstur, verður að telja að svo óljóst sé um heimild Sigríðar Ásgeirsdóttur að lögum til fyrirsvars fyrir Sjálfseignarfélagið dýraspítali Watsons að ekki verði ekki hjá því komist að vísa málinu frá héraðsdómi.

Eftir atvikum þykir rétt að hver aðili beri sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Máli þessu er vísað frá héraðsdómi.

Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.

 

                                                        

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 14. júní 2004.

Mál þetta sem dómtekið var 11. þessa mánaðar er höfðað með stefnu birtri 23. maí 2001.

Stefnandi er Sjálfseignarfélagið Dýraspítali Watsons, Fjölnisvegi 16, Reykjavík.

Stefndu eru Steinn Steinsson, Þverholti 24, Reykjavík, og Þorvaldur H. Þórarinsson, Þingási 44, Reykjavík.

Dómkröfur stefnanda eru þær, að stefndu verði in solidum gert að greiða stefnanda kr. 1.566.481,00 auk vanskilavaxta p.a., skv. 10. gr., sbr. 12. gr. vaxtalaga; af kr. 62.400,00 frá 1.1.1996 til 1.1.1997; af kr. 117.000,00 frá þeim degi til 1.1.1998; af kr. 171.600,00 frá þeim degi til 1.1.1998; af kr. 212.428,00 frá þeim degi til 1.11.1998; af kr. 253.256,00 frá þeim degi til 1.12.1998; af kr. 253.256,00 frá þeim degi til 1.1.1999; af kr. 348.935,00 frá þeim degi til 1.2.1999; af kr. 380.783,00 frá þeim degi til 1.3.1999; af kr. 421.862,00 frá þeim degi til 1.4.1999; af kr. 463.266,00 frá þeim degi til 1.5.1999; af kr. 504.670,00 frá þeim degi til 1.6.1999; af kr. 546.074,00 frá þeim degi til 1.7.1999; af kr. 588.133,00 frá þeim degi til 1.8.1999; af kr. 630.192,00 frá þeim degi til 1.9.1999; af kr. 672.251,00 frá þeim degi til 1.10.1999; af kr. 714.903,00 frá þeim degi til 1.11.1999; af kr. 757.555,00 frá þeim til 1.12.1999; af kr. 800.207,00 frá þeim degi til. 1.1.2000; af kr. 897.873,00 frá þeim degi til 1.2.2000; af kr. 940.939,00 frá þeim degi til 1.3.2000; af kr. 984.005,00 frá þeim degi til 1.4.2000; af kr. 1.027.528,00 frá þeim degi til 1.5.2000; af kr. 1.071.051,00 frá þeim degi til 1.6.2000; af kr. 1.114.574,00 frá þeim degi til 1.7.2000; af kr. 1.158.097,00 frá þeim degi til 1.8.2000; af kr. 1.201.620,00 frá þeim degi til 1.9.2000; af kr. 1.245.143,00 frá þeim degi til 1.10.2000; af kr. 1.288.666,00 frá þeim degi til 1.11.2000; af kr. 1.332.189,00 frá þeim degi til 1.12.2000; af kr. 1.375.712,00 frá þeim degi til 1.1.2001; af kr. 1.479.435,00 frá þeim degi til 1.2.2001; af kr. 1.522.958,00 frá þeim degi til 1.3.2001; af kr. 1.566.481,00 frá þeim degi til greiðsludags.

Krafist er málskostnaðar að skaðlausu.

 

Sótt var þing af hálfu stefndu og gerð krafa aðallega um það að málinu yrði vísað frá dómi en til vara er krafist sýknu af öllum kröfum stefnanda. Í báðum tilvikum er krafist málskostnaðar auk þess er gerð krafa um að stefnda verði dæmdur refsimálskostnaður úr hendi umboðsmanns stefnanda Sigríðar Ásgeirsdóttur hvort heldur málinu veðri vísað frá dómi eða stefndu sýknaðir.

Með úrskurði uppkveðnum 12. maí 2003 var frávísunarkröfu stefndu hafnað. Málið var tekið fyrir til aðalmeðferðar 16. júní 2003 en í því þinghaldi lýsti lögmaður stefnda því að hann teldi ekki þörf á málflutningi og vék af dómþinginu og var farið með málið sem útivistarmál að svo búnu. Málinu var þá frestað til framlagningar sóknar af hálfu stefnanda til 20. júní og dómtekið í framhaldi af því. Það var endurupptekið 9. desember sl. með vísan til 104. gr. laga nr. 91/1991 og í framhaldi af því kveðinn upp dómur í því. Með beiðni dagsettri 8. janúar sl. beiddist lögmaður stefndu endurupptöku málsins og eftir að trygging hafði verið sett fyrir greiðslu málskostnaðar þann 1. júní sl. var boðað til þinghalds í málinu og það flutt á nýjan leik og dómtekið.

Stefnandi krefur stefndu um húsaleigu samkvæmt leigusamningi dagsettum 1. janúar 1990 um húsnæði stefnanda í Víðidal við Vatnsveituveg í Reykjavík ásamt lausafé.

Krafist er 1.080.481 krónu fyrir húsaleigu mánuðina nóvember 1998 til og með mars 2001. Þá er krafið um 145.000 krónur fyrir tækjaleigu sama tímabil og loks er krafið um gámaleigu árin 1996 til 2001 samtals 341.000 krónur.

Málið er höfðað af stefnanda, sem er aðili húsaleigusamningsins og byggir lögmaður stefnanda á umboði stefnanda til málshöfðunarinnar sem hann hafi fengið frá Sigríði Ágeirsdóttur, formanni stefnanda.

Af hálfu stefndu er vísað til þess að samskipti fulltrúa eigenda í stefnanda sem er sjálfseignarstofnun hafi verið stormasöm og að ágreiningur hafi verið í félaginu um hverjir færu með stjórn í félaginu. Bera stefndu það fyrir sig að þeir hafi greitt þá húsaleigu sem þeim beri. Hins vegar séu aðstæður þannig að miklar deilur séu innan stefnanda og að þeir hafi átt á hættu, að ef þeir greiddu Sigríði Ágeirsdóttur, yrðu þeir krafðir um greiðslu af öðrum aðilum að stefnanda. Eftir að geinargerð var lögð fram af hálfu stefndu geymslugreiddu þeir 1.651.187,74 krónur í geymslureikning í Búnaðarbanka Íslands og settu tiltekin skilyrði fyrir greiðslu geymslufjárins sem nánar er gerð grein fyrir í niðurstöðukafla dóms þessa.

Stefndu bera fyrir sig að aðild sóknarmegin sé áfátt vegna þess að Sigríður Ásgeirsdóttir sé ekki réttkjörinn formaður stefnanda og hafi ekki heimild til að binda stefnanda við dómkröfu máls þessa. Þá bera þeir það fyrir sig í geinargerð að þeir hafi greitt leiguna inn á tiltekna reikninga sem þeim hafi verið vísað á og löglega kjörin stjórn hefði ákveðið með samþykki Dómsmálaráðuneytisins. Þannig sé ekki um vanskil að ræða. Þá geymslugreiddu þeir 11. desember 2001 eins og áður greinir. Af hálfu stefndu er fjárhæð stefnukröfu hvað húsaleiguskuld snertir mótmælt sem of hárri og alfarið mótmælt að stefndu beri að greiða gámaleigu enda væri hún innifalin í fasteignagjöldum.

Stefndu byggja á því að sönnunarbyrði hvíli á stefnanda fyrir því að Sigríður Ásgeirsdóttir hafi umboðsheimild til að vera í fyrirsvari fyrir stefnanda samkvæmt sönnunarreglum einkamálaréttarfars.

Stefndu vitna til 16. gr. laga nr. 91/1991 um sýknukröfu svo og til reglna kröfuréttar um greiðslu, efndatíma kröfu og greiðslustað hennar. Þá er vísað til laga um tekjustofna sveitarfélaga og reglugerðar um fasteignagjöld og sorphirðugjald. Loks er vitnað til 4. mgr. 131l gr. laga nr. 91/1991 sbr. 2. mgr. 135. gr. sömu laga.

NIÐURSTAÐA

Eins og að framan geinir vék lögmaður stefndu af dómþingi þann 16. júní sl. og varð þá útivist af hálfu stefndu. Af hálfu stefndu er byggt á tveim málsástæðum fyrir sýknu. Annars vegar, að sá sem tilgreindur er sem forsvarsmaður stefnanda, Sigríður Ásgeirsdóttir, hafi ekki heimild til þess að binda stefnanda við dómkröfur í máli þessu. Hvað þetta atriði snertir er til þess að líta, að eins og fram kemur í úrskurði dómsins frá 12. maí 2003., þar sem kröfu stefndu um frávísun málsins var hafnað, liggur fyrir að fundur var haldinn í stefnanda 12. desember 2000 þar sem mættir voru fulltrúar 5 félaga sem aðild eiga að stefnanda og var til fundarins boðað sem aðalfundar. Sækir Sigríður Ásgeirsdóttir umboð sitt til þess fundar. Í málinu liggur frammi bréf Sigríðar Ásgeirsdóttur, dagsett 2. apríl 2002 þar sem fram kemur að hún hafi falið lögmanni stefnanda að innheimta skuld stefndu við stefnanda og endurnýjað það umboð að loknum nefndum fundi. Sú ráðstöfun að fela lögmanni innheimtu skuldar vegna vangoldinnar húsaleigu var eðlilegur þáttur í rekstri stefnanda enda voru elstu vanskil frá 1. janúar 1996. Umboðið var ítrekað í kjölfar fundar sem sóttur var af 80% aðila að stefnanda og enda þótt menn hafi vikið af fundi vegna ágreinings um fundarboðun og fleira verður ekki fallist á það með stefndu að það leiði til þess að fundurinn sé ógildur og á ákvörðunum teknum á honum ekki byggt hvað snertir málefni það sem hér er til úrlausnar og samkvæmt famansögðu telst eðlilegur þáttur í rekstri stefnanda. Ekki verður fram hjá því litið hér að ekki verður séð að aðilar að stefnanda hafi hafist handa við að fá fundinn 12. desember úrskurðaðan ógildan eða hlutast til um að umboð lögmanns stefnanda verði afturkallað.

Þá er á því byggt af hálfu stefndu að stefndu hafi efnt skyldur sínar með því að greiða leiguna inn á tiltekna reikninga sem þeim hafi verið bent á. Þá kemur fram í málinu að þann 11. desember 2001 greiddu stefndu 1.651.187 krónur inn á geymslureikning í Búnaðarbanka Íslands. Segir í beiðni þeirra um geymslugreiðslu að greidd sé húsaleiga vegna leigu á Dýraspítala í Víðidal. Þá er sú ástæða tilgreind fyrir því að geymslugreiðsla sé nauðsynleg að deilur séu í sjálfseignarfélagi Dýraspítala Watsons og vísað til skilyrða greiðslu af geymslureikingi. Við beiðni um geymslugreiðslu er heft blað þar sem segir eftirfarandi:

"Kröfueigandi er Sjálfseignafélag Dýraspítala Watsons kt. 640177-0209.

Skilyrði móttöku geymslugreiddrar fjárhæðar er undirskrift (móttökukvittun) allra fulltrúa stofnenda félagsins: Reykjavíkurborgar, Samtaka sveitarfélaga í Reykjanesumdæmi, Dýraverndunarfélags Íslands, Hundavinafélags Íslands, Hestamannafélagsins Fáks og Sambands Dýraverndunarfélags Íslands á boðuðum auka- eða aðalfundi félagsins.

Samkvæmt skipulagsskrá félagsins skipa stefnendur þess tvo fulltrúa hver í félagið, alls 12 fulltrúar.

Átæða ofangreinds skilyrðis eru deilur í Sjálfseignarfélagi Dýraspítala Watsons, en meiri hluti ofangreindra fulltrúa telur Sigríði Ásgeirsdóttur, ekki hafa umboð til höfðunar dómsmáls á geymslugreiðendur: Stein Steinsson og Þorvald Þórðarson."

Vafalaust var hver vera skyldi viðtakandi greiðslu þeirrar er stefndu geymslugreiddu 11. desember 2001, þ.e.a.s. Dýraspítali Watsons, enda stefndu í samningsréttarsambandi við hann sem leigjendur húsnæðis hans. Allt að einu settu þeir sem skilyrði fyrir greiðslu geymslufjárins að tilteknir 6 aðilar kvittuðu fyrir móttöku fjárins enda þótt ljóst væri að með þeim væri ágreiningur sem varðaði málefni Dýraspítala Watsons sem var skyldum stefndu óviðkomandi. Skilyrði þetta er ólögmætt og veldur því að stefndu leystust ekki undan greiðsluskyldu sinni með umræddri greiðslu inn á geymslureikning.

Stefndu bera fyrir sig að auk þess að krefjast leigugjalds sé krafið um leigu á gámum sem þeir hafi talið innifalda í fasteignagjöldum. Þá voru athugasemdir gerðar við útreikning húsaleigukröfu stefnanda, sem leiddu til þess að stefnandi lækkaði kröfugerð sína frá 1.640.734 krónum sem krafist var í stefnu í 1.566.481 krónu sem krafist er nú.

Samkvæmt 5. gr. leigusamnings aðila greiðir leigusali fasteignar- og lóðargjöld, en allan annan rekstrarkostnað greiði leigutakar. Fram kemur í bréfi lögmanns stefndu til Hreinsunardeildar Reykjavíkurborgar dagsettu 20. apríl 2001 að í marsmánuði þess árs hafi sorpílát verið fjarlægð og stefndu af þeim ástæðum leitað til gámafyrirtækis um þjónustu vegna sorpíláta. Fyrir þann tíma virðist leiga vegna sorpíláta hafa verið innheimt með fasteignagjöldum sem stefnandi greiddi en um það liggja ekki fyrir skýr gögn og verður stefnandi að bera hallan af því. Er þessum lið kröfugerðar hans að fjárhæð 341.000 krónur því hafnað.

Samkvæmt framansögðu verða stefndu dæmdir til að greiða stefnanda 1.225.481 krónu ásamt dráttarvöxtum frá stefnubirtingardegi, 23. maí 2001, til greiðsludags og 300.000 krónur í málskostnað.

Allan V. Magnússon héraðsdómari kvað upp dóminn.

DÓMSORÐ

Stefndu, Steinn Steinsson og Þorvaldur Þórðarson greiði stefnanda, Dýraspítala Watsons, 1.225.481 krónu með dráttarvöxtum skv. III. kafla vaxtalaga frá 23. maí 2001 til greiðsludags.

Stefndu greiði stefnanda 300.000 krónur í málskostnað.