Hæstiréttur íslands
Mál nr. 409/2014
Lykilorð
- Gengistrygging
- Lánssamningur
|
|
Fimmtudaginn 15. janúar 2015. |
|
Nr. 409/2014.
|
Jakob Valgeir ehf. (Sigurður G. Guðjónsson hrl.) gegn Íslandsbanka hf. (Stefán A. Svensson hrl.) |
Gengistrygging. Lánssamningur.
J ehf. höfðaði mál á hendur Í hf. og krafðist viðurkenningar á því að skuldbindingar hans samkvæmt tveimur lánssamningum við G hf. væru í íslenskum krónum en gengistryggðar miðað við gengi erlendra gjaldmiðla. Fram kom að þegar textaskýring lánssamnings tæki ekki af skarið um hvers efnis hann væri hefði í dómaframkvæmd Hæstaréttar verið litið til atriða á borð við efndir samnings og hvernig hann hefði að öðru leyti verið framkvæmdur. Að því virtu að umrædd lán Í hf. til J ehf. höfðu verið greidd inn á gjaldeyrisreikning hins síðarnefnda og að efndir þeirra að stærstum hluta farið fram með greiðslu í erlendum myntum var talið að um skuldbindingu í erlendum myntum hefði verið að ræða. Var Í hf. því sýknaður af kröfu J ehf.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma Benedikt Bogason hæstaréttardómari og Ingveldur Einarsdóttir og Karl Axelsson settir hæstaréttardómarar.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 11. júní 2014. Endanleg dómkrafa hans fyrir Hæstarétti er að viðurkennt verði að skuldbindingar hans samkvæmt tveimur lánssamningum við Glitni banka hf. 9. október 2007 og 23. sama mánaðar séu í íslenskum krónum en gengistryggðar. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Málavextir eru raktir í hinum áfrýjaða dómi en svo sem þar kemur fram varðar ágreiningur málsins túlkun tveggja lánssamninga 9. og 23. október 2007 á milli stefnda og áfrýjanda, sem þá hét Guðbjartur ehf. Við fyrirtöku málsins 29. október 2013 féllst héraðsdómur á að skipta sakarefni málsins, samkvæmt heimild 31. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, þannig að fyrst yrði skorið úr um hvort lánssamningarnir væru í íslenskum krónum en gengistryggðir en látinn bíða sá ágreiningur málsaðila hvort lokamálsliður 2. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu gæti náð til skuldbindinga samkvæmt samningunum.
Í fyrri dómum Hæstaréttar, þar sem fjallað hefur verið um hvort samningur sé um lán í erlendri mynt eða íslenskum krónum bundið gengi erlendrar myntar, hefur fyrst og fremst verið byggt á skýringu á texta viðkomandi lánssamnings þar sem lýst er skuldbindingu þeirri sem lántaki gengst undir. Í þeim tilvikum þegar textaskýring tekur ekki af skarið um hvers efnis lánssamningurinn er, eins og á við um þá samninga sem hér reynir á, hefur verið litið til atriða sem lúta að því hvernig hann hefur verið efndur og framkvæmdur að öðru leyti. Þau atriði eru rakin í hinum áfrýjaða dómi og að því gættu að óumdeilt er að lán þau sem stefndi veitti áfrýjanda voru greidd inn á gjaldeyrisreikning hans í svissneskum frönkum verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur með vísan til forsendna hans að því leyti.
Áfrýjanda verður gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, Jakob Valgeir ehf., greiði stefnda, Íslandsbanka hf., 800.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 23. maí 2014.
Mál þetta, sem dómtekið var hinn 15. maí sl., að lokinni aðalmeðferð, var höfðað fyrir dómþinginu af Jakobi Valgeiri ehf., Grundarstíg 5, Bolungarvík, á hendur Íslandsbanka hf., Kirkjusandi 2, Reykjavík, með stefnu áritaðri um birtingu 6. júní 2013.
Dómkröfur stefnanda eru þær, að viðurkennt verði með dómi að tengingar skuldbindinga stefnanda samkvæmt tveimur lánssamningum við Glitni banka hf., 9. október 2007 og 23. október 2007 við gengi erlendra gjaldmiðla séu ógildar í lögskiptum málsaðila. Þá krefst stefnandi málskostnaðar að skaðlausu úr hendi stefnda.
Dómkröfur stefnda eru þær, að hann verði sýknaður af kröfum stefnanda. Þá krefst stefndi málskostnaðar úr hendi stefnanda.
II
Málavextir eru þeir að stefnandi gerði tvo lánssamninga við Glitni banka hf., hinn 9. október 2007 og 23. október 2007. Heiti beggja lánssamninganna er: „Lánssamningur. Lán í erlendum gjaldmiðlum og íslenskum krónum óverðtryggt.
Lánssamningur, dagsettur 9. október 2007, ber númerið 314236 og var gerður til 5 ára „að fjárhæð jafnvirði ISK 3.000.000.000 þrír milljarðar 00/100 íslenskar krónur- í íslenskum krónum og erlendum myntum með þeim skilmálum sem greinir í samningi þessum“.
Samkvæmt 1. gr. samningsins var lánið laust til útborgunar frá undirritun samningsins til 15. nóvember 2007. Samið var um að lántaki skyldi senda lánveitanda beiðni um útborgun lánsins eða hluta þess. Í beiðni sinni skyldi lántaki „tilkynna lánveitanda í hvaða myntum hann hygðist taka lánið og í hvaða hlutföllum, þó að lágmarki 5% fyrir einstaka gjaldmiðil. Síðan sagði í samningnum að fjárhæð hvers erlends gjaldmiðils fyrir sig skyldi þó ekki ákvarðast fyrr en tveimur virkum bankadögum fyrir útborgun lánsins. Á því tímamarki yrði fjárhæðirnar endanlegar og myndu ekki breytast innbyrðis þaðan í frá þótt upphafleg hlutföll þeirra kynnu að breytast á lánstímanum. Lánið yrði eftirleiðis tilgreint með fjárhæð þeirra erlendu mynta eða jafngildi þeirra í öðrum erlendum myntum og íslenskum krónum samkvæmt heimildum samningsins. Í samningnum er og kveðið á um að hefði lántaki ekki sent lánveitanda skriflega beiðni um útborgun fyrir 18. október 2007 félli lánsloforð lánveitanda niður fyrirvaralaust. Þá er í samningnum kveðið á að ráðstafa skyldi láninu til að greiða upp öll erlend lán Guðbjarts ehf., Rekavíkur ehf., Útgerðarfélagsins Ós ehf., FJV ehf. og Hrannar ehf., en þau fyrirtæki hefðu verið sameinuð undir nafni Guðbjarts ehf.
Lánið skyldi endurgreiða með 20 afborgunum á þriggja mánaða fresti í fyrsta sinn hinn 20. janúar 2008. Tilgreint er hversu stórt hlutfall lánsins skyldi endurgreiðast á hverjum gjalddaga. Þá segir í samningnum að lánið beri að endurgreiða í þeim gjaldmiðlum sem það samanstandi af.
Í 3. gr. samningsins er kveðið á um að lánshlutar í erlendum myntum örðum en evrum skuli bera LIBOR-vexti en lánshluti í evrum EURIBOR-vexti og lánshluti í í íslenskum krónum skuli bera REIBOR-vexti, samkvæmt ákvörðun Seðlabanka Íslands. Einnig er þar kveðið á um að ef lántaki vanefni skuld samkvæmt lánssamningnum í þessum erlendu myntum beri honum að greiða dráttarvexti, sem skuli vera vaxtagrunnur að viðbættu álagi og að lánveitanda sé þá heimilt að umreikna lánið í íslenskar krónur miðað við skráð sölugengi lánveitanda í lok gjaldfellingardags, á þeim myntum sem lánið samanstandi af. Beri þá að greiða dráttarvexti í samræmi við ákvörðun Seðlabanka Íslands á hverjum tíma, samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001.
Í viðauka við samninginn, dagsettum sama dag, óskar lántaki, Guðbjartur ehf., eftir að láninu verði ráðstafað til að greiða upp lán fyrrgreindra 5 einkahlutafélaga og eru lánin talin upp í beiðninni. Kemur þar fram að lánin sem greiða á hafi öll verið í erlendum myntum. Tilgreint er hvaða gjaldmiðill hafi verið á hverju einstaka láni, hvenær einstök skuldabréf hafi verið gefin út, hver hafi verið umsaminn lánstími og hverjar eftirstöðvar einstakra lána eru bæði í íslenskum krónum og viðkomandi erlendri mynt. Í lokin er tilgreind samtala lánanna í íslenskum krónum, 2.790.911.193 krónur.
Við útborgun lánsins stofnaði stefndi gjaldeyrisreikning í svissneskum frönkum á nafni stefnanda, að sögn stefnanda án samráðs við hann, og lagði fjárhæðina inn á þann reikning. Reikningurinn var síðan skuldfærður til að jafna út þær skuldir sem átti að greiða samkvæmt útborgunarfyrirmælum, 16. október 2007.
Í 4. gr. samningsins er að finna myntbreytingarheimild, en þar er kveðið á um að lántaki geti óskað eftir myntbreytingu lánshluta í erlendum myntum með ákveðnum hætti. Kemur þar m.a. fram að lánveitanda sé heimilt að nota Bandaríkjadal í stað þess gjaldmiðils sem lántaki óski eftir, m.a. ef lánveitandi geti ekki „útvegað þann gjaldmiðil, sem lántaki kann að vilja nota til myntbreytingar.“
Með skilmálabreytingu, dagsettri 12. ágúst 2009, þar sem frestað var greiðslu höfuðstóls, var staða lánsins sögð vera hinn 17 júlí 2009, 47.790.000 svissneskir frankar, án áfallinna vaxta frá 20. apríl 2009.
Samkvæmt umsókn lántaka, dagsettri 19. nóvember 2009, óskaði lántaki eftir að lánsfjárhæðinni yrði umbreytt í evrur úr svissneskum frönkum.
Lánssamningur, dagsettur 23. október 2007, ber númerið 314237, var gerður til 5 ára „að fjárhæð jafnvirði ISK 105.000.000 eitthundraðogfimmmilljónir 00/100 íslenskar krónur- í íslenskum krónum og erlendum myntum með þeim skilmálum sem greinir í samningnum. Samkvæmt 1. gr. samningsins var lánið laust til útborgunar frá undirritun samningsins til 15. nóvember 2007. Samið var um að lántaki skyldi senda lánveitanda beiðni um útborgun lánsins eða hluta þess. Í beiðni sinni skyldi lántaki „tilkynna lánveitanda í hvaða myntum hann hygðist taka lánið og í hvaða hlutföllum, þó að lágmarki 5% fyrir einstakan gjaldmiðil. Síðan sagði í samningnum að fjárhæð hvers erlends gjaldmiðils fyrir sig skyldi þó ekki ákvarðast fyrr en tveimur virkum bankadögum fyrir útborgun lánsins. Á því tímamarki yrði fjárhæðirnar endanlegar og myndu ekki breytast innbyrðis þaðan í frá þótt upphafleg hlutföll þeirra kynnu að breytast á lánstímanum. Lánið yrði eftirleiðis tilgreint með fjárhæð þeirra erlendu mynta eða jafngildi þeirra í öðrum erlendum myntum og íslenskum krónum samkvæmt heimildum samningsins. Í samningnum er og kveðið á um að hefði lántaki ekki sent lánveitanda skriflega beiðni um útborgun fyrir 13. nóvember 2007 félli lánsloforð lánveitanda niður fyrirvaralaust. Þá er í samningnum kveðið á að greiða ætti lánið inn á reikning Guðbjarts nr. 0556-26-46, sem er reikningur í íslenskum krónum. Samkvæmt gögnum málsins var lánsfjárhæðin lögð inn á gjaldeyrisreikning lántaka í svissneskum frönkum.
Lánið skyldi endurgreiða með 20 afborgunum á þriggja mánaða fresti í fyrsta sinn hinn 20. janúar 2008. Tilgreint er hversu stórt hlutfall lánsins skyldi endurgreiðast á hverjum gjalddaga. Þá segir í samningnum að lánið beri að endurgreiða í þeim gjaldmiðlum sem það samanstandi af.
Í 3. gr. samningsins er kveðið á um að lánshlutar í erlendum myntum örðum en evrum skuli bera LIBOR-vexti en lánshluti í evrum EURIBOR-vexti og lánshluti í í íslenskum krónum skuli bera REIBOR-vexti, samkvæmt ákvörðun Seðlabanka Íslands. Einnig er þar kveðið á um að ef lántaki vanefni skuld samkvæmt lánssamningnum í þessum erlendu myntum beri honum að greiða dráttarvexti, sem skuli vera vaxtagrunnur að viðbættu álagi og að lánveitanda sé þá heimilt að umreikna lánið í íslenskar krónur miðað við skráð sölugengi lánveitanda í lok gjaldfellingardags, á þeim myntum sem lánið samanstandi af. Beri þá að greiða dráttarvexti í samræmi við ákvörðun Seðlabanka Íslands á hverjum tíma, samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001.
Í 4. gr. samningsins er að finna myntbreytingarheimild, en þar er kveðið á um að lántaki geti óskað eftir myntbreytingu lánshluta í erlendum myntum með ákveðnum hætti. Valréttur lántaka takmarkist hverju sinni við gjaldmiðlana íslenskar krónur, Bandaríkjadali, evrur, japönsk jen, svissneska franka og kanadískan dali. Kemur þar m.a. fram að lánveitanda sé heimilt að nota Bandaríkjadal í stað þess gjaldmiðils sem lántaki óski eftir, m.a. ef lánveitandi geti ekki „útvegað þann gjaldmiðil, sem lántaki kann að vilja nota til myntbreytingar.“
Í viðauka við samninginn, dagsettum 12. ágúst 2009, kemur fram að staða lánsins hinn 17. júlí 2009 hafi verið 1.755.003,86 svissneskir frankar, án áfallinna vaxta frá 20. apríl 2009. Með viðaukanum var síðan samið um breytingu á ákvæðum hins upphaflega samnings um skilmála endurgreiðslu, meðal annars gjalddaga.
Hinn 19. nóvember 2009 óskaði lántaki eftir því að lánsfjárhæðinni yrði breytt í evrur í stað svissneskra franka.
Lántaki efndi aðalskyldur sínar fram til þess að láninu var myntbreytt 19. nóvember 2009, með greiðslu í íslenskum krónum, en eftir það yfirleitt með greiðslum af gjaldeyrisreikningi í evrum.
Lán samkvæmt báðum samningunum hefur verið greitt upp.
Með bréfi til stefnda, dagsettu 8. febrúar 2013, krafðist stefnandi þess að lánin samkvæmt lánssamningunum tveimur yrðu endurreiknuð og stefnanda endurgreitt það sem honum hefði verið gert að greiða umfram skyldu.
Með bréfi, dagsettu 15. apríl 2013, hafnaði stefndi því erindi stefnanda.
III
Stefnandi byggir dómkröfur sínar á því, að óheimilt hafi verið vegna ákvæða í lögum nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, að binda skuldbindingar stefnanda samkvæmt þessum tveimur lánasamningum, við gengi erlendra gjaldmiðla. Vísar stefnandi m.a. til dóma Hæstaréttar Íslands frá 16. júní 2010, í málunum nr. 92/2010 og 153/2010, þar sem komist hafi verið að þeirri niðurstöðu að í nefndum lögum hafi falist bann við því að lán í íslenskum krónum væru verðtryggð með því að binda þau við gengi erlendra gjaldmiðla. Reglur laganna um þetta væru ófrávíkjanlegar og yrði því ekki samið um grundvöll verðtryggingar sem ekki væri stoð fyrir í lögum. Í dómunum komi einnig fram með skýrum hætti, að lán í erlendri mynt falli ekki undir reglur um heimildir til verðtryggingar lánsfjár í íslenskum krónum í VI. kafla laga nr. 38/2001. Í þessu felist að skuldbindingar í lánasamningum um greiðslu í erlendri mynt teldust gildar að lögum. Hæstiréttur hafi, eftir að þessir dómar gengu, leyst úr því í allmörgum öðrum dómsmálum hvort skuldbindingar í lánasamningum teldust vera í erlendum myntum eða íslenskum krónum miðað við gengi erlendra gjaldmiðla, sbr. t.d. dóma Hæstaréttar Íslands í málunum nr. 155/2011 og 386/2012. Í báðum umdeildum lánssamningunum hafi eina lánsfjárhæðin, sem beinlínis sé nefnd hljóðað á um íslenskar krónur. Vegna þess verði að líta svo á að skuldbindingar stefnanda samkvæmt samningunum hafi verið í íslenskum krónum og að ekki hafi verið heimilt að miða þær við gengi erlendra gjaldmiðla.
Um lagarök vísar stefnandi til laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, og laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.
IV
Stefndi byggir sýknukröfu sína aðallega á því, að umdeild lán hafi að sönnu verið gild lán í erlendum gjaldmiðlum, en ekki lán í íslenskum krónum bundin ólögmætri gengistryggingu. Ákvæði lánasamninganna og önnur gögn tengd lánveitingunni, myntbreytingar lánanna, sem og gögn tengd uppgreiðslu þeirra, sýni að lánin hafi verið í erlendum gjaldmiðlum. Samkvæmt efni beggja lánssamninganna hafi verið ráðgert að óskir lántaka, þ.e. stefnanda, skyldu ráða því í hvaða myntum lánin væru tekin, þ.á m. hvort þau væru í íslenskum krónum og/eða erlendum gjaldmiðlum, nýtti hann sér lánsloforð lánveitanda á annað borð. Samningarnir sem slíkir, eins og þeir hafi verið uppbyggðir, hafi því ekki stofnað sérstaklega til skuldbindingar, hvorki í íslenskum krónum né erlendum gjaldmiðlum, heldur skyldi það ráðast af vali lántaka, nýtti hann sér lánsloforðin, sbr. einnig heiti beggja lánssamninganna sem endurspegli fyrrgreint svo og vaxtaákvæði þeirra. Í þessu ljósi og eins og málavöxtum sé háttað geti það eitt út af fyrir sig ekki skipt máli að heildarumfang lánsloforðs lánveitanda hafi verið afmarkað í samningnum með tilgreiningu á jafngildi fjárhæðar í íslenskum krónum, sbr. dóm Hæstaréttar Íslands frá 25. október 2012 í málinu nr. 19/2012.
Gögn málsins beri það ótvírætt með sér að samkvæmt túlkunarreglum samningaréttar hafi lántaki farið þess á leit að bæði lánin yrðu í erlendum gjaldmiðlum, nánar tiltekið í svissneskum frönkum. Vísar stefndi til kaupnótu lánssamnings að því er fyrra lánið varði, þar sem heildarlánsfjárhæð sé tilgreind „CHF 53.100.000,00“, sbr. einnig svokallað lánveitingarskjal. Í samræmi við það hafi lánsfjárhæðin verið lögð inn á gjaldeyrisreikning lántaka í svissneskum frönkum 17. október 2007, í þremur greiðslum, hver að fjárhæð 17.700.000 svissneskra franka. Stefndi vísar og til kvittana vegna uppgreiðslu hinna eldri lána, sem beri sýnilega með sér að umþrætt lán, sem hafi verið til uppgreiðslu þeirra, hafi að sönnu verið í svissneskum frönkum, sbr. einnig skuldfærslur af gjaldeyrisreikning. Stefndi vísar einnig til kaupnótu lánssamnings að því er seinna lánið varði, þar sem heildarfjárhæð sé tilgreind „CHF 1.950.000,00“ ofangreindu til samræmis, sbr. og að lánsfjárhæðin hafi verið lögð inn á gjaldeyrisreikning lántaka í svissneskum frönkum. Gögn tengd afgreiðslu lánsins á sínum tíma, sbr. einnig svonefnda gjaldeyrispöntun, beri með sér að lántaki hafi nýtt sér samningsákvæði um að lánið skyldi vera í erlendum gjaldmiðlum, nánar tiltekið í svissneskum frönkum.
Stefndi telur það vera haldlaust fyrir stefnanda að bera því við að framangreint hafi ekki verið að ósk lántaka. Þegar óskað hafi verið eftir myntbreytingu beggja lána hinn 19. nóvember 2009, hafi bæði lánin verið tilgreind í svissneskum frönkum. Fari því ekki á milli mála að vilji aðila hafi staðið til þess. Skilmálabreytingar sem gerðar hafi verið vegna beggja samninga endurspegli og þetta. Stefndi bendir og á að í ársreikningi lántaka fyrir árið 2007 virðist umræddar skuldbindingar vera sérstaklega tilgreindar í svissneskum frönkum. Sama sé að segja um síðari ársreikninga þar sem þær séu tilgreindar í svissneskum frönkum og síðar evrum.
Stefndi telur umþrætta lánasamninga á margan hátt líkjast lánssamningu sem til umfjöllunar hafi verið í dómi Hæstaréttar Íslands 11. júní 2012 í máli nr. 332/2012. Hins vegar séu málavextir ekki sambærilegir og í dómi Hæstaréttar Íslands frá 17. janúar 2013 í máli nr. 386/2012.
Stefndi telur það einu gilda þótt lántaki hafi ekki að öllu leyti efnt aðalskyldu sína í hinum erlendu gjaldmiðlum sem lánin hafi verið í, enda hafi lántaki skuldbundið sig, samkvæmt hljóðan samninganna, að endurgreiða lánin „í þeim gjaldmiðlum sem það samanstendur af“, sbr. 2. mgr. 2. gr. beggja samninganna, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar Íslands frá 1. nóvember 2012 í máli nr. 66/2012. Vísar stefndi í þessu sambandi til uppgreiðslu beggja lánssamninga, sem hafi farið fram til samræmis við mynttilgreiningu.
Aðilar hafi haft samningsfrelsi, samkvæmt meginreglum íslensks réttar, svo fremi að samningarnir fari ekki í bága við ófrávíkjanlegar reglur í settum lögum. Byggir stefndi jafnframt á því að stefnandi hafi, hvað sem öðru líði, með athafnaleysi sínu samþykkt að líta svo á að téðar skuldbindingar væru í svissneskum frönkum fram að myntbreytingu.
Einnig beri að líta til þess að lántaki, sem sé eitt stærsta útgerðarfyrirtæki lánsins, hafi tekjur í erlendum gjaldmiðlum og hafi hann því haft hagsmuni af því að lánið væri í erlendum gjaldmiðlum. Byggir stefndi á því, verði talið að lánin hafi verið í íslenskum krónum bundin ólögmætri gengistryggingu, að samkvæmt lokamálslið 2. gr. laga nr. 38/2001 hafi verið heimilt að binda lán í íslenskum krónum við gengi erlendra gjaldmiðla, enda hafi það verið til hagsbóta fyrir skuldara, en svo hafi verið ástatt um stefnanda.
Stefndi byggir og á því, verði talið að umdeild lán hafi í upphafi verið í íslenskum krónum, hafi þau með áðurnefndum skilmálabreytingum, talist vera í svissneskum frönkum, enda staða þeirra í báðum skilmálabreytingunum tilgreind í þeim gjaldmiðli og enn frekar eftir myntbreytingar, sbr. dóm Hæstaréttar Íslands 28. maí 2013 í málinu nr. 332/2013. Vísar stefndi og til efnda lántaka á aðalskyldum sínum þessu til samræmis, þótt þær einar og sér ráði ekki úrslitum.
Um lagarök vísar stefndi til laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, meginreglna fjármunaréttar um réttar efndir fjárskuldbindinga og frelsi manna til að bindast skuldbindingum með samningum.
Kröfu um málskostnað byggir stefndi á XXI. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.
V
Lög nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, heimila ekki að lán í íslenskum krónum séu verðtryggð með því að binda þau við gengi erlendra gjaldmiðla, en lán í erlendri mynt fara ekki gegn ákvæðum laganna, sbr. og dóma Hæstaréttar Íslands frá 16. júní 2010 í málum nr. 92/2010 og 153/2010.
Í máli þessu deila aðilar um hvort lánssamningar sem stefnandi gerði við Glitni banka hf. hinn 9. október 2007 og 23. október 2007 varði lánsfé í íslenskum krónum eða erlendum gjaldmiðlum.
Ákvæðum umdeildra samninga er lýst hér að framan. Í samræmi við dóma Hæstaréttar Íslands, meðal annars í málum nr. 602/2013 og nr. 750/2013, gefa ákvæði sambærilegra samninga ekki skýrt til kynna hvort skuldbinding aðila sé í íslenskum krónum eða erlendum gjaldmiðlum og þarf þá að meta heildstætt, m.a. eftir efndum aðila, hvort samið hafi verið um lán í erlendum gjaldmiðlum eða íslenskum krónum, bundið við gengi erlendra gjaldmiðla.
Samkvæmt því ber fyrst að líta til þess að umdeildir samningar eru á forsíðu sinni sagðir vera um lán í erlendum gjaldmiðlum og íslenskum krónum. Í samningunum sjálfum eru þeir sagðir vera í erlendum myntum og íslenskum krónum, en ekki tekið fram í hvaða gjaldmiðlum lánin eigi að vera en skírskotað til óska lántaka við útborgun lánanna. Í samningunum er gert ráð fyrir því að stefnandi leggi fram sérstakar útborgunarbeiðnir þar sem hann tilgreini þá mynt eða hlutföll myntar sem hann óski eftir að lánin verði greidd út í. Fyrir liggur og óumdeilt er að lánin voru greidd inn á gjaldeyrisreikning í svissneskum frönkum, sem stefndi stofnaði á nafni stefnanda. Þá er og óumdeilt að útborgunarfjárhæð lánsins, samkvæmt lánssamningi 9. október 2007 var, að ósk stefnanda, að stærstum hluta ráðstafað til greiðslu á eldri lánum hans, sem voru í erlendum gjaldmiðlum. Að framangreindu virtu verður að leggja til grundvallar að útborgun lánanna hafi verið í erlendum gjaldmiðlum.
Samkvæmt ákvæðum samninganna skuldbatt stefnandi sig til þess að endurgreiða lánin í þeim gjaldmiðlum sem þau samanstæðu af. Stefndi greiddi af lánunum ýmist í íslenskum krónum eða erlendum gjaldmiðlum. Af dómum Hæstaréttar Íslands, m.a. í máli nr. 66/2012, má ráða að rétturinn gerir ekki fortakslausa kröfu til þess að skuldbindingar aðila á grundvelli samninga, eins og þeirra sem deilt er um í þessu máli, séu að öllu leyti efndar með greiðslu í erlendum gjaldmiðlum til þess að lán verði talin í þeim gjaldmiðlum. Þegar efndir á hinum umdeildu samningum eru virtar í heild sinni verður að telja að þær hafi að svo verulegu marki falist í því að erlendir gjaldmiðlar skiptu um hendur, að leggja verði til grundvallar að samið hafi verið um lán í erlendum gjaldmiðlum. Þá samræmast ákvæði samninganna um vexti, sem og heimild lánveitanda til að umreikna lánið í íslenskar krónur við gjaldfellingu þeirra og reikna á þá dráttarvexti, samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, því að um hafi verið að ræða lán í erlendum myntum. Það styður framangreinda niðurstöðu að í viðaukum beggja lánssamninga, sem um er deilt, voru eftirstöðvar lánanna tilgreindar í hinum erlendu gjaldmiðlum. Þá liggur fyrir að myntbreytingarheimild í lánssamningunum var beitt og benda þau skjöl, sem lögð eru fram um þá breytingu, enn frekar til þess að lán samkvæmt samningunum hafi verið í erlendum gjaldmiðlum. Loks verður, með hliðsjón af niðurstöðu Hæstaréttar Íslands í máli nr. 602/2013, ekki litið fram hjá því að stefnandi hafði tekjur í erlendum gjaldmiðlum, hann átti gjaldeyrisreikning og hafði þegar skuldbindingar við bankann í erlendum gjaldmiðlum og færði hin umdeildu lán sem skuldir í erlendum gjaldmiðlum í ársreikningi sínum, sem allt gefur vísbendingu um að samningsvilji stefnanda hafi staðið til þess að umdeild lán væru í erlendum gjaldmiðlum. Samkvæmt framansögðu þykir hvorki orðalag umdeilds lánssamnings, athafnir samningsaðila við gerð og efndir á aðalskyldum þeirra, né önnur atvik málsins benda til þess að lánssamningarnir hafi í reynd falið í sér lán í íslenskum krónum. Þegar framangreint er virt í heild sinni verður að leggja til grundvallar að samið hafi verið um lán í erlendum gjaldmiðlum og ber því þegar af þeirri ástæðu að sýkna stefnda af kröfum stefnanda.
Eftir þessari niðurstöðu þykir rétt, samkvæmt 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, að dæma stefnanda til að greiða stefnda málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn 800.000 krónur.
Hervör Þorvaldsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.
D Ó M S O R Ð:
Stefndi, Íslandsbanki hf., er sýkn af kröfum stefnanda, Jakobs og Valgeirs ehf.
Stefnandi greiði stefnda 800.000 krónur í málskostnað.