Hæstiréttur íslands

Mál nr. 246/2010


Lykilorð

  • Sératkvæði
  • Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
  • Kærumál


 

Þriðjudaginn 20. apríl 2010.

Nr. 246/2010.

 

Lögreglustjórinn á Suðurnesjum

(Óli Ásgeir Hermannsson fulltrúi)

gegn

X

(Garðar K. Vilhjálmsson hdl.)

 

Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008. Sératkvæði.

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi gert að sæta gæsluvarðhaldi, á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Jón Steinar Gunnlaugsson og Hjördís Hákonardóttir og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 16. apríl 2010, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 19. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 16. apríl 2010, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 30. apríl 2010 klukkan 16 og sæta einangrun meðan á gæsluvarðhaldi stendur. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími, en að því frágengnu að honum verði ekki gert að sæta einangrun. 

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

Sératkvæði

Jóns Steinars Gunnlaugssonar

Ég er sammála meirihluta dómara um að staðfesta þann hluta hins kærða úrskurðar sem kveður á um að varnaraðili skuli sæta gæsluvarðhaldi þann tíma sem í úrskurðarorðum greinir.

Samkvæmt 2. mgr. 98. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála á það undir dómara að ákveða hvort sakborningur skuli sæta einangrun í gæsluvarðhaldi. Má ekki úrskurða sakborning til að sæta einangrun nema hún sé nauðsynleg af þeim ástæðum sem greindar eru í a- eða d- liðum 1. mgr. 95. gr. laganna. Sóknaraðili hefur ekki fært fram haldbær rök í málinu fyrir kröfu sinni um að varnaraðili verði látinn sæta einangrun í gæsluvarðhaldinu. Tel ég því ekki unnt að fallast á þá kröfu.

                                                            

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 16. apríl 2010.

Lögreglustjórinn á Suðurnesjum hefur í dag krafist þess að X, kt. [...], verði með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness áfram gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 30. apríl 2010, kl. 16.00.

Í greinargerð lögreglustjóra segir að lögregla hafi hinn 9. apríl sl. stöðvað bifreiðina [...], en í henni hafi verið kærði, X, ásamt Y og A. Hafi þeir þrír verið grunaðir um þjófnað á verkfæratösku fyrir framan leikskólann [...] í Reykjanesbæ, en lögreglan hafi fundið töskuna við frumrannsókn málsins. Áðurnefndur A hafi í umrætt sinn viðurkennt fyrir lögreglu hafa tekið töskuna ófrjálsri hendi og hann því verið handtekinn. Á lögreglustöð hafi verið tekin framburðarskýrsla af A og þar hafi hann borið um það að hafa verið sviptur frelsi sínu aðfararnótt 9. apríl 2010 meðal annars af kærða. A hafi skýrst svo frá að hann hafi verið færður á brott af heimili unnustu sinnar þar sem hann hafi verið sofandi og að ítrekað hafi verið ráðist á hann. Þá hafi hann verið neyddur til að taka umrædda verkfæratösku ófrjálsri hendi.

Í framhaldi af þessu hafi kærði verið handtekinn og síðan skömmu síðar meðkærði Y. Við handtöku Y hafi fundist í fórum hans myndavél með myndum af ætluðum árásum á A á heimili kærða. Við rannsókn lögreglu hafi komið í ljós að fleiri aðilar hafi átt þátt í frelsissviptingu A og árásum á hann.

Þá segir í greinargerðinni að í þágu rannsóknar málsins hafi lögregla farið að heimili kærða hinn 9. apríl í því skyni að leggja hald á þá muni sem grunur leiki á um að hafi verið notaðir til að veita A áverka. Við þá rannsókn hafi lögregla fundið ýmsa muni ætlaða til neyslu fíkniefna.

Þá hafi lögregla gert húsleit á heimili föður kærða og í fyrirtæki kærða. Við leit á þeim stöðum hafi lögregla fundið og lagt hald á fjölda muna, sem lögregla telji vera þýfi úr innbrotum á Suðurnesjum, en að undanförnu hafi mikil innbrotahrina gengið yfir umdæmið. Verðmæti þeirra muna sem teknir hafi verið ófrjálsri hendi sé talið mikið.

Í greinargerðinni segir að rannsókn á hinum ætluðu þjófnaðarbrotum sé skammt á veg komin en um verulegt magn ætlaðs þýfis sé að ræða. Eftir sé að kanna hvort kærði kunni að hafa meira magn af ætluðu þýfi í sínum vörslum. Þá þurfi að kanna aðdraganda að hinni ætluðu frelsissviptingu og tengsl kærða við aðra hugsanlega vitorðsmenn auk annarra atriða. Hætta sé talin á því, fari kærði frjáls ferða sinna, að hann komi munum undan eða hafi áhrif á framburði annarra hugsanlegra vitorðsmanna. Lögregla telji að hin ætlaða háttsemi kærða kunni að varða við ákvæði 2. mgr. 218. gr., 226. gr., 244. gr., 248. gr., 251. gr. og 254. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, auk ákvæði laga nr. 65, 1974 um ávana- og fíkniefni. Ætla megi að kærði kunni að torvelda rannsókn málsins, koma undan munum og hafa áhrif á samseka gangi hann laus. Þá hafi kærði haft í hótunum við ætlaðan þolanda frelsissviptingar og líkamsárásar og borið um það við lögreglu að hann ætli að drepa hann.

Þess sé krafist að kærða verði gert að sæta einangrun í gæsluvarðhaldi skv. b-lið 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008. Þá sé þess jafnframt krafist að kærða verði gert að sæta takmörkunum sbr. a- til f-liða 1. mgr. sömu greinar.

Með vísan til alls framangreinds, rannsóknarhagsmuna, a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, 2. mgr. 218., 226., 244., 248., 251. og 254. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og laga nr. 65, 1974 um ávana og fíkniefni telji lögreglustjóri brýna rannsóknarhagsmuni standa til þess að kærða verði gert að sæta gæsluvarðhaldi áfram eða allt til föstudagsins 30. apríl 2010 kl. 16.00.

Samkvæmt rannsóknargögnum málsins er kærði undir rökstuddum grun um að hafa framið brot sem fangelsisrefsing liggur við. Rannsókn málsins stendur enn yfir. Haldi kærði óskertu frelsi sínu gæti hann torveldað rannsókn málsins með því að koma sönnunargögnum undan eða hafa áhrif á samseka og vitni. Með vísan til a-liðar 1. mgr. 95. gr. og b-liðar 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála, er því fallist á kröfu lögreglustjóra eins og hún er fram sett.

Úrskurð þennan kveður upp Ragnheiður Bragadóttir héraðsdómari.

Úrskurðarorð:

Kærði, X, sæti gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 30. apríl nk. kl. 16.00.

Kærði sæti einangrun meðan á gæslu stendur.