Hæstiréttur íslands

Mál nr. 529/2008


Lykilorð

  • Skaðabætur
  • Líkamstjón
  • Vinnuslys
  • Tilkynning


Fimmtudaginn 2

 

Fimmtudaginn 2. apríl 2009.

Nr. 529/2008.

Vigfús Hreiðarsson

(Jónas Haraldsson hrl.)

gegn

Orkuveitu Reykjavíkur

 (Kristín Edwald hrl.)

 

Skaðabætur. Líkamstjón. Vinnuslys. Tilkynning.

V krafðist viðurkenningar á skaðabótaskyldu O vegna líkamstjóns sem hann kvaðst hafa orðið fyrir við vinnu sína í dælustöð O. Taldi hann að slysið yrði rakið til óforsvaranlegra vinnuaðstæðna. O vefengdi að slysið hefði átt sér stað og hafnaði því einnig að aðstæður hefðu verið aðfinnsluverðar. V kvaðst hafa harkað af sér eftir slysið en orðið að fara í léttari verkefni. Slysið var ekki tilkynnt til Vinnueftirlits ríkisins. Sannað þótti að V hefði orðið fyrir slysi í vinnu hjá O í september árið 2003. Með sama hætti var talið nægilega leitt í ljós að O hefði haft vitneskju um slysið. V var hins vegar ekki talinn hafa fært fram fullnægjandi sönnun fyrir því að slys hans hefði verið tilkynningarskylt. Þá var talið að honum hefði ekki tekist að sanna að aðstæður á staðnum hefðu verið þannig að saknæmt gæti talist af hálfu stefnda. Í þessu sambandi varð að hafa í huga að vart var unnt að koma í veg fyrir að sandur og möl bærist inn í dælustöðina sem var í byggingu. V taldi líklegt að hann hefði sjálfur kannað aðstæður deginum áður, en ekki varð séð að hann hefði gert athugasemdir við aðstæður. Var því talið ósannað að líkamstjón V hefði borið að með þeim hætti að O bæri á því skaðabótaábyrgð. Var O sýknuð af kröfu V.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Hjördís Hákonardóttir og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 26. september 2008. Hann krefst þess að viðurkennd verði með dómi skaðabótaskylda stefnda vegna líkamstjóns sem hann hafi orðið fyrir 18. september 2003 við störf hjá stefnda. Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti, en til vara að hann verði aðeins talinn skaðabótaskyldur að hluta og að málskostnaður falli niður.

Áfrýjandi hefur stefnt Sjóvá-Almennum tryggingum hf. til réttargæslu.

Áfrýjandi kveðst hafa orðið fyrir slysi við vinnu sína í þágu stefnda 18. september 2003 í dælustöð hans við Stóragerði. Telur hann að slysið verði rakið til óforsvaranlegra vinnuaðstæðna. Stefndi vefengir að slysið hafi átt sér stað, og hafnar því einnig að aðstæður hafi verið aðfinnsluverðar.

Áfrýjandi kveðst hafa harkað af sér eftir slysið meðal annars vegna bónuskerfis við launagreiðslur, en orðið að fara í léttari verkefni vegna bakverkja. Kveðst hann hafa farið í sjúkranudd í átta skipti í vinnutímanum á kostnað stefnda. Vitnið Sigurþór Friðbertsson var verkstjóri hjá stefnda í september 2003. Hann var næsti yfirmaður áfrýjanda. Hann bar fyrir dómi að áfrýjandi hefði tilkynnt honum um slysið og kvaðst hann hafa látið yfirmenn sína vita. Hann lýsti því einnig að hann hefði farið daginn eftir í dælustöðina þar sem slysið varð og kannað aðstæður. Kvaðst hann hafa látið áfrýjanda í léttari störf eftir þetta. Þá staðfesti hann að eftir samráð við yfirmann sinn hefði hann skrifað beiðni um sjúkranudd fyrir áfrýjanda. Þar segir að beiðnin sé vegna vinnuslyss. Mætingalisti og reikningur staðfesta meðferð áfrýjanda hjá Sjúkraþjálfun Íslands frá 30. september til og með 14. nóvember 2003. Stefndi greiddi áfrýjanda reikninginn. Þörf fyrir sjúkraþjálfun er staðfest af lækni 10. október 2003. Þar segir að áfrýjandi hafi tognað í baki í vinnunni. Vitnið Snorri Gíslason, sem gaf skýrslu fyrir dómi á milli dómstiga, vann hjá stefnda á árinu 2003. Hann kvaðst muna eftir að áfrýjandi hefði farið á vinnutímanum í sjúkranudd. Þá hefði áfrýjandi ekki verið sendur með honum í verk í eitt skipti vegna þess að hann var slæmur í baki. Vitnið kvað stefnda greiða kostnað við sjúkranudd verði menn fyrir slysi í vinnu. Lýsti hann verklagi stefnda við slíkar aðstæður og var sá framburður í samræmi við frásögn áfrýjanda. Í vottorði læknisins Stefáns Björnssonar 29. ágúst 2007 er sjúkrasaga áfrýjanda rakin og talsverðar heilsufarslegar afleiðingar raktar til þessa slyss.

Með framangreindu vætti Sigurþórs og Snorra og tilgreindum gögnum hefur áfrýjandi sannað að hann hafi orðið fyrir slysi í vinnu hjá stefnda í september árið 2003. Engu þykir skipta þar um þó að læknisvottorð sé skrifað eftir að sjúkranudd var hafið. Með sama hætti er nægilega leitt í ljós að stefndi hafi haft vitneskju um slysið.

Upplýst telst að slysið varð þegar áfrýjandi var að bera með öðrum manni 60 til 80 kg dæluhluta inn í dælustöð stefnda, sem var þá í byggingu. Áfrýjandi og vitnið Sigurþór hafa lýst aðstæðum á slysstað. Um var að ræða byggingarsvæði sem margir gengu um og barst inn á gólfið sandur og önnur óhreinindi, einnig fauk inn þar sem rýmið var opið. Áfrýjandi kveðst hafa runnið til vegna sands á gólfinu þegar hann var að koma byrðinni á réttan stað. Var dæluhlutinn fluttur á staðinn á bifreið með áföstum krana. Bifreiðin komst ekki að húsinu vegna þess að bifreiðastæðið var sundur grafið. Báru þeir því dæluhlutann nokkra metra að húsinu og inn með því að nota sérstök burðarbönd.

Á viðveruskrá starfsmanna stefnda sést að 18. september 2003 hefur borið upp á fimmtudag. Hefur áfrýjandi unnið til loka þess dags og allan næsta dag og síðan allan mánudaginn, en þriðjudaginn 23. september og miðvikudaginn 24. september var hann fjarverandi vegna veikinda. Engar staðfestar upplýsingar liggja fyrir um ástæðu veikindanna. Slysið var ekki tilkynnt til Vinnueftirlits ríkisins. Samkvæmt framangreindu stenst ekki sú málsástæða stefnda að slysið hafi ekki verið tilkynnt vegna þess að hann hafi ekki um það vitað. Samkvæmt 79. gr. laga nr. 46/1980 um aðbúnað hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum skal atvinnurekandi tilkynna til vinnueftirlitsins öll slys sem leiða til þess að starfsmaður „verður óvinnufær í einn eða fleiri daga, auk þess dags sem slysið varð.“ Áfrýjandi segist hafa harkað af sér, en hann hefur ekki fært fram fullnægjandi sönnun fyrir því að slys hans hafi verið tilkynningarskylt. Þá hefur honum ekki tekist að sanna að aðstæður á staðnum hafi verið þannig að saknæmt geti talist af hálfu stefnda. Í þessu sambandi verður að hafa í huga að vart var unnt að koma í veg fyrir að sandur og möl bærist inn í dælustöðina við umgang. Áfrýjandi taldi líklegt að hann hefði sjálfur kannað aðstæður deginum áður, en ekki verður séð að hann hafi gert athugasemdir við aðstæður. Er því ósannað að líkamstjón áfrýjanda hafi borið að með þeim hætti að stefndi beri á því skaðabótaábyrgð. Með framangreindum athugasemdum verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur.

Eins og atvikum er hátt að þykir með vísan til 3. mgr. 130. gr., sbr. 166. gr., laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála rétt að hvor aðili greiði sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

 

Dómur  Héraðsdóms Reykjavíkur 26. júní 2008.

Mál þetta var upphaflega dómtekið, að loknum munnlegum málflutningi 6. júní sl.,  en endurupptekið á grundvelli 104. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, og dómtekið á ný 19. júní sl. Málið er höfðað með stefnu, áritaðri um birtingu 2. nóvember 2007. 

Stefnandi er Vigfús Hreiðarsson, Álfkonuhvarfi 49, Kópavogi, en stefndi er Orkuveita Reykjavíkur Bæjarhálsi 1, Reykjavík. Til réttargæslu er stefnt Sjóvá-Almennum tryggingum hf., Kringlunni 5, Reykjavík.

Stefnandi krefst þess að viðurkennd verði með dómi skaðabótaskylda stefnda vegna líkamstjóns er hann varð fyrir 18. september 2003 í dælustöð stefnda við Stóragerði í Reykjavík. Þá krefst hann málskostnaðar að skaðlausu, að mati dómsins, og að teknu tilliti til virðisaukaskatts á málflutningsþóknun.

Ekki eru gerðar sjálfstæðar kröfur á hendur réttargæslustefnda.

Stefndi krefst aðallega sýknu af öllum kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til að greiða honum málskostnað, að mati dómsins. Til vara krefst hann þess að stefndi verði aðeins talinn skaðabótaskyldur að hluta vegna umrædds slyss og að málskostnaður verði þá felldur niður.

Af hálfu réttargæslustefnda eru engar kröfur gerðar í málinu.

Málsatvik og ágreiningsefni

Málsatvik eru umdeild og byggja alfarið á frásögn stefnanda. Í stefnu er þeim lýst svo í meginatriðum:

Stefnandi er járnsmiður að mennt og atvinnu og hóf störf hjá Orkuveitu Reykjavíkur í ágúst 2002. Þann 18. september 2003 kveðst hann hafa orðið fyrir líkamstjóni við vinnu sína í dælustöð stefnda við Stóragerði. Hafi slysið borið að með þeim hætti að honum, ásamt Birgi Ögmundssyni, samstarfsmanni hans, hafði verið falið að flytja 60 – 80 kg dælur inn í dælustöðina af palli verkstæðisbíls stefnda. Hafði bílnum verið ekið að dælustöðinni, en þar sem jarðvegur fyrir framan hana var sundur grafinn og erfiður yfirferðar, mun bíllinn ekki hafa komist alveg að stöðinni. Af þeim sökum náði krani á palli bifreiðarinnar ekki nægilega langt, og ekki inn í dælustöðina. Hafi stefnandi og samstarfsmaður hans því orðið að bera dælurnar þangað með stroffum, nokkurra metra leið. Vegna ástands og frágangs á planinu fyrir framan dælustöðina hafði nokkur sandur og jarðvegur borist þar inn. Þegar stefnandi og samstarfsmaður hans voru að bera dælurnar inn í stöðina hafi stefnandi runnið til í sandinum, með þeim afleiðingum að hann fékk slæman hnykk á bakið og hlutust meiðsli af. Vegna þessa hafi hann verið óvinnufær um nokkurt skeið, og m.a. þurft að leita sér sjúkraþjálfunar, sem stefndi hafi greitt fyrir, auk slysakaups. Frá slysdegi kveðst stefnandi hafa glímt við ýmis óþægindi, sem hann reki til slyssins, og telji hann ljóst að líkamstjón sitt sé varanlegt, eins og fram komi í læknisvottorði Stefáns Björnssonar læknis frá 29. ágúst 2007.

Með bréfi stefnanda 23. apríl 2007 var óskað eftir upplýsingum og gögnum frá stefnda vegna umrædds slyss. Bréfinu mun ekki hafa verið svarað. Af hálfu stefnanda var stefnda þá ritað annað bréf, 5. september 2007, og þess þá óskað að stefndi viðurkenndi skaðabótaskyldu vegna umrædds vinnuslyss. Að sögn stefnanda hefur því bréfi heldur ekki verið svarað og sé honum því nauðsynlegt að höfða mál þetta.

Í greinargerð stefnda er fullyrt að stefnandi hafi ekki tilkynnt um óhappið til stefnda og því hafi stefndi engar upplýsingar haft um meint óhapp stefnanda fyrr en með bréfi lögmanns hans 23. apríl 2007. Af þeirri ástæðu hafi engin rannsókn farið fram á slysinu né það tilkynnt til Vinnueftirlits ríkisins. Þá kveðst stefndi engin gögn hafa fundið hjá sér um að greiddur hafi verið læknis- eða sjúkraþjálfunarkostnaður fyrir stefnanda eða laun í veikindaleyfi, eins og stefnandi haldi fram.

Málsástæður stefnanda og lagarök

Stefnandi kveðst byggja kröfu sína í málinu á því að umrætt slys sé skaðabótaskylt samkvæmt almennu skaðabótareglunni. Megi rekja það til vanbúnaðar og/eða óforsvaranlegra aðstæðna í og við dælustöð stefnda, en þar hafi stefnanda í umrætt sinn verið gert að vinna vandasamt verk við hættulegar aðstæður. Hafi stefndi engar ráðstafanir gert til að draga úr slysahættu eða tryggja öryggi stefnanda. Því verði stefndi að bera ábyrgð á líkamstjóni stefnanda sem af slysinu hafi hlotist.

Máli sínu til stuðnings vísar stefnandi til ákvæða laga nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, einkum 13., 37., 42. og 46. gr. þeirra laga, en í þeim ákvæðum sé mælt fyrir um hvernig atvinnurekandi skuli tryggja að gætt sé öryggis og góðs aðbúnaðar við vinnu starfsmanna á vinnustað og við meðhöndlun véla og áhalda. Telur stefnandi að stefndi hafi í umrætt sinn brugðist skyldum sínum samkvæmt tilvitnuðum ákvæðum, og megi rekja slys stefnanda til þess.

Stefnandi vísar einnig til 6. gr. reglna nr. 499/1994, um öryggi og hollustu þegar byrðar eru handleiknar, en þar komi fram að vinnuaðstæður þar sem byrðar séu handleiknar skuli vera eins góðar og kostur sé og að umferðarleiðir skuli vera greiðfærar. Í því felist m.a. að vinnuveitendur skuli gera nauðsynlegar ráðstafanir til að draga úr hættu á því að starfsmenn renni til þegar þungar byrðar eru handleiknar. Telur stefnandi að stefndi hafi vanrækt þær skyldur sem lagðar séu á vinnuveitanda samkvæmt reglum þessum, enda hafi engar ráðstafanir verið gerðar í þá veru umrætt sinn.

Stefnandi vísar enn fremur til 2. mgr. 3. gr. reglna nr. 581/1995, um húsnæði vinnustaða, en þar komi fram að vinnurými skuli skipulagt með hliðsjón af því starfi sem þar eigi að framkvæma og að allar umferðarleiðir skuli vera greiðfærar og afmarkaðar. Í 2. mgr. 6. gr. sömu reglna segi einnig að gólf og gólfefni í vinnurými skuli vera þannig að það hæfi því starfi sem þar sé unnið, með tilliti til burðarþols og hreinsunar. Samkvæmt þessu er það álit stefnanda að vinnusvæði dælustöðvarinnar hafi ekki verið í því horfi sem áskilið sé.

Stefnandi byggir einnig á því að stefndi hafi á slysdegi brugðist eftirlits- og verkstjórnarskyldum sínum. Geti vart talist forsvaranlegt að stefnandi hafi við annan mann þurft að flytja þungar dælur með handafli á stroffum nokkurra metra leið inn í dælustöðina, þegar ætla megi að unnt hefði verið að vinna verkið með öruggari og einfaldari hætti. Beri stefndi jafnframt ábyrgð á því að gólf húsnæðisins hafi ekki verið í því horfi að slysahætta hlytist ekki af. Með hliðsjón af framansögðu telur stefnandi einsýnt að aðbúnaður og aðstaða í dælustöð stefnda hafi í umrætt sinn verið óforsvaranleg og ekki í samræmi við ákvæði tilvitnaðra laga og reglna. Á grundvelli sakarreglu og/eða húsbóndaábyrgðarreglu skaðabótaréttarins beri stefndi ábyrgð á líkamstjóni stefnanda.

Stefnandi heldur því fram að stefndi hafi látið undir höfðuð leggjast að tilkynna Vinnueftirlitinu um umrætt slys, en samkvæmt 79. gr. laga nr. 46/1980 og reglum nr. 612/1989, um tilkynningu vinnuslysa, hafi stefnda verið skylt að tilkynna um slysið. Hafi slíkt verið nauðsynlegt svo varpa mætti skýru ljósi á slysið, aðstæður á vinnustað og orsakir þess að öðru leyti. Þessi vanræksla stefnda eigi að leiða til þess að allur vafi í málinu verði túlkaður stefnanda í hag og að stefndi beri sönnunarbyrði fyrir því að aðdragandi og atvik slyssins hafi orðið með öðrum hætti en lýst hafi verið. Því til áréttingar vísar stefnandi til fjölda dóma Hæstaréttar, þar sem atvinnurekendur hafa verið látnir bera halla af sönnunarskorti, hafi þeir vanrækt að tilkynna vinnuslys án tafar til Vinnueftirlits ríkisins.

Að lokum hafnar stefnandi því að slys hans verði rakið til óhappatilviks og/eða eigin gáleysis. Í máli þessu liggi ekkert fyrir um að stefnandi hafi hagað sér gáleysislega eða með óforsvaranlegum hætti. Þvert á móti telur stefnandi einsýnt að slysið verði að öllu leyti rakið til óforsvaranlegra aðstæðna og aðbúnaðar á vinnustað stefnda, sem stefndi beri einn ábyrgð á.

Um lagarök vísar stefnandi til almennra reglna skaðabótaréttarins um skaðabætur utan samninga, sakarreglunnar og reglunnar um ábyrgð vinnuveitenda á saknæmum verkum/aðgæsluleysi starfsmanna sinna. Einnig er byggt á reglum skaðabótalaga nr. 50/1993, lögum nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, einkum 13., 23., 43., 46. og 79. gr. þeirra laga, svo og reglum nr. 499/1994, um öryggi og hollustu þegar byrðar eru handleiknar, einkum 6. gr. þeirra, reglum nr. 581/1995, um húsnæði vinnustaða, einkum 3. og 6. gr., og reglum nr. 612/1989, um tilkynningu vinnuslysa.

Til stuðnings málskostnaðarkröfu er vísað til 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, en krafa um virðisaukaskatt er reist á lögum nr. 50/1988. Um heimild til höfðunar viðurkenningarmáls vísar stefnandi til 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

Málsástæður stefnda og lagarök

Sýknukrafa stefnda er í fyrsta lagi á því byggð að ósannað sé að hið meinta bótaskylda atvik hafi átt sér stað og að ósannað sé að tjón stefnanda verði rakið til saknæmrar háttsemi stefnda eða annarra atvika sem hann beri skaðabótaábyrgð á að lögum. Bendir stefndi á að um ábyrgð hans fari samkvæmt sakarreglunni og mótmælir því um leið að beita skuli ströngu sakarmati gagnvart stefnda, eins og stefnandi byggi á. Stefnandi beri sönnunarbyrðina fyrir orsök tjónsins og engin skilyrði séu til að víkja frá þeirri meginreglu skaðabótaréttar og leggja sönnunarbyrðina á stefnda.

Til frekari stuðnings málsástæðu sinni bendir stefndi á að engin samtímagögn liggi fyrir um slys stefnanda. Stefnandi hafi ekki tilkynnt stefnda um meint óhapp á slysdegi eða á næstu dögum eftir það. Þannig hafi stefndi í raun engar upplýsingar fengið um hið meinta óhapp fyrr en með bréfi lögmanns stefnanda 23. apríl 2007, þremur og hálfi ári eftir óhappið. Ekki liggi heldur fyrir nein læknisfræðileg gögn, sem bendi til þess að stefnandi hafi slasast umræddan dag eða við vinnu hjá stefnda, enda hafi stefnandi ekki leitað til læknis strax eftir meint óhapp. Þá bendir stefndi á að stefnandi hafi ekki verið fjarverandi úr vinnu vegna veikinda eftir hið meinta óhapp og að stefndi hafi ekki greitt stefnanda slysakaup, eins og stefnandi haldi fram, enda engu læknisvottorði til að dreifa. Að dómi stefnda séu atvik þessa máls með öllu ósönnuð af hálfu stefnanda, þ.m.t. að stefnandi hafi í raun orðið fyrir umræddu óhappi. Því beri að sýkna stefnda af kröfum stefnanda.

Krafa stefnda er einnig á því byggð, að þótt talið verði sannað að meint tjón stefnanda megi rekja til þeirra atvika sem lýst sé í stefnu, þá hafi stefnandi ekki fært sönnur á að tjónið verði rakið til atvika eða aðstæðna sem stefndi beri ábyrgð á. Því til stuðnings vísi stefndi til þess að atvik liggi ekki fyrir með skýrum hætti, þar sem stefnandi hafi vanrækt að tilkynna stefnda um óhappið þegar það varð. Engin rannsókn hafi því farið fram á tildrögum þess, og verði stefnandi vegna þeirrar vanrækslu að bera hallann af því að atvik séu óljós og ósannað sé að meiðsl hans megi rekja til aðstæðna á vinnustað stefnda. Hvorki vitnaskýrslur né önnur gögn hafi verið lögð fram til stuðnings þeirri fullyrðingu að stefnandi hafi dottið við vinnu sína, eða að slysið hafi borið að með þeim hætti sem stefnandi lýsi.

Stefndi mótmælir því að aðbúnaður á vinnustað stefnanda hafi verið ófullnægjandi og stefndi hafi brotið gegn lögum nr. 46/1980 og reglum nr. 499/1994 og nr. 581/1995, enda séu þær fullyrðingar með öllu ósannaðar. Hvorki liggi fyrir ljósmyndir af meintum slysstað né lýsingar sjónarvotta á staðháttum. Þar sem stefnandi hafi ekki tilkynnt um hið meinta óhapp hafi engin rannsókn farið fram á tildrögum slyssins eða aðbúnaði á slysstað.  Stefndi hafi átt erfitt með að taka til varna í máli þessu þar sem ekki liggi ljóst fyrir hvar slysið hafi nákvæmlega borið að. Þótt stefnandi beri sönnunarbyrðina fyrir því að hann hafi slasast með þeim hætti sem hann fullyrði, bendir stefndi á að engin gögn renni stoðum undir atvikalýsinguna, sem öll sé reyndar komin frá stefnanda sjálfum. Því sé útilokað að leggja hana til grundvallar í málinu. Þá sé ósannað að aðbúnaður á vinnustaðnum hafi verið með þeim hætti sem fullyrt sé í stefnu, eða að brotið hafi verið í bága við ákvæði laga og reglna um aðbúnað og öryggi á vinnustöðum. Mótmælir stefndi tilvísunum stefnanda til þeirra laga og reglna. Einnig mótmælir stefndi því harðlega að hann hafi vanrækt tilkynningarskyldu sína samkvæmt reglum nr. 612/1989, og bendir á að stefndi hafi eðli málsins samkvæmt ekki tilkynnt um slys sem honum hafi ekki verið kunnugt um. Að því virtu telur stefndi að engin efni séu til að láta hann bera hallann af því að Vinnueftirlit ríkisins rannsakaði ekki aðdraganda og orsök hins meinta óhapps. Þvert á móti verði stefnandi sjálfur að bera hallann af þessum sönnunarskorti, enda hafi hann ekki gert stefnda grein fyrir óhappinu.

Stefni mótmælir því einnig að hann hafi í umrætt sinn brugðist eftirlits- og verkstjórnarskyldum sínum.  Ósannað sé að stefnanda hafi verið falið að flytja umræddar dælur með þeim hætti sem stefnandi lýsi. Stefnandi hafi fengið bifreið með krana til verksins, en hann hafi tekið það upp hjá sjálfum sér að flytja dælurnar með eigin handafli. Geti stefndi ekki borið ábyrgð á því.

Með framanritað í huga telur stefndi að ekki liggi annað fyrir en að aðbúnaður á vinnustaðnum hafi verið fullnægjandi og að ekki hafi þar verið fyrir hendi sérstök slysahætta. Óhapp stefnanda hafi verið óhappatilviljun sem stefndi beri ekki ábyrgð á.

Í öðru lagi er sýknukrafa stefnda á því reist að stefnandi verði að bera meint tjón sitt að fullu vegna eigin sakar og að orsök slyssins verði aðeins rakin til gáleysis stefnanda. Í ljósi aldurs stefnanda, þekkingar hans og reynslu, hafi honum mátt vera fullkunnugt um aðstæður, svo og að hann þyrfti að sýna aðgát við vinnuna. Stefnandi hafi sjálfur ákveðið að flytja í höndunum mjög þunga hluti yfir svæði sem var sundurgrafið og erfitt yfirferðar, meðvitaður um að sandur gæti hafa borist inn fyrir útidyr þannig að yfirborð gólfsins yrði hált. Hafi þetta átt að gefa stefnanda tilefni til að gæta sérstakrar varúðar og ganga úr skugga um það fyrir fram hvort leiðin væri greið.

Varakrafa stefnda um bótaskyldu að hluta er byggð á þeirri málsástæðu að stefnandi verði sjálfur að bera tjón sitt að hluta vegna eigin sakar. Til frekari stuðnings þeirri kröfu vísar stefndi til fyrri málsástæðna um eigin sök stefnanda.

Um lagarök kveðst stefndi einkum vísa til reglna skaðabótaréttar um óhappatilvik, gáleysi og eigin sök tjónþola, reglna um sönnun og sönnunarbyrði, auk skaðabótalaga nr. 50/1993, sbr. lög nr. 37/1999. Málskostnaðarkrafa hans byggist á XXI. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

Munnlegar skýrslur fyrir dómi 

Við aðalmeðferð gaf stefnandi skýrslu fyrir dóminum, svo og vitnin Sigurþór Friðbertsson og Birgir Ögmundsson.

Stefnandi sagði að í umrætt sinn hefði hann fengið það verkefni að flytja „dæluunit“ í nýja dælustöð við Stóragerði. Umhverfis stöðina hafi verið skurðir, grófur jarðvegur og sandur og því ekki unnt að aka bifreið alveg að inngöngudyrum. Fyrir vikið hafi jarðvegur og sandur borist inn á gólfið með þeim sem þangað komu. Bjart hafi verið í dælustöðinni og ljós logað. Þegar hann, ásamt starfsfélaga sínum, Birgi Ögmundssyni, hafi verið að bera „dæluunitið“ inn í stöðina í stroffum, hafi hann runnið til á öðrum fæti og fengið hnykk á bakið. Aðeins Birgir hafi orðið vitni að þessu. Hann sagðist ekki hafa farið strax til læknis, ákvað frekar að harka þetta af sér og taldi að hann hefði aðeins tognað. Eftir atvikið kvaðst stefnandi aðeins hafa talað við öryggisfulltrúa hjá stefnda, Harald Haraldsson að nafni. Þegar stefnandi var frekar spurður um samtal sitt við Harald, sagði hann að það hefði átt sér stað um þetta leyti fyrir ári síðan, og hefði tilgangurinn verið sá að afla upplýsinga um hvort slysið hefði verið tilkynnt Vinnueftirlitinu og ef ekki, að sjá til þess að svo yrði gert. Sagðist hann margoft hafa talað við Harald í þessu skyni, en að lokum hefði Haraldur sagt honum að slík tilkynning yrði ekki send Vinnueftirlitinu. Hafi Haraldur þá verið búinn að ræða við Birgi Ögmundsson, sem kvaðst ekkert muna eftir umræddu slysi.

Stefnandi sagðist hafa verið slæmur í bakinu eftir slysið, en hafi þó ekki mikið verið frá vinnu. Hafi læknir sagt honum að hann hefði tognað í mjóbaki og ávísaði verkjalyfjum, en gaf einnig tilvísun á sjúkraþjálfun. Stefndi hafi greitt kostnað við sjúkraþjálfun, eftir beiðni frá flokkstjóra, og hafi hann stundað sjúkraþjálfunina í vinnutíma með fullri vitneskju yfirmanna sinna. Stefnandi kvaðst hafa gengist undir læknisaðgerð í fyrra, og fólst hún í því að spengdir voru saman hryggjarliðir. Aðspurður sagði stefnandi að ekki hefði verið unnt að vinna umrætt verk með öðrum hætti en gert var eða sýna meiri aðgát en gert hafi verið. Hefði hann þó mikla reynslu á þessu sviði.

Við endurupptöku málsins 19. júní sl. var stefnandi frekar spurður út í sjúkraþjálfun þá sem hann gekkst undir eftir slysið. Hann sagði að flokkstjóri stefnda, Sigurþór Friðbertsson, hefði gefið út beiðni um sjúkranudd 30. september 2003, og hefði hann sama dag farið í fyrsta þjálfunartímann. Hann hafi hins vegar ákveðið að harka af sér og því ekki farið til læknis fyrr en 10. október sama ár, og þá hafi læknir hans, Stefán Björnsson, einnig gefið honum tilvísun á sjúkraþjálfun. Kvaðst hann alls hafa farið átta sinnum til sjúkraþjálfara og hafi heilsa hans nokkuð lagast, en síðan farið aftur í sama farið nokkru eftir að hann hætti þjálfuninni í nóvember 2003. Fram kom í máli stefnanda að hann hafi flutt til Danmerkur 28. janúar 2004 og hafi starfað þar við járnsuðu. Seinni part árs 2004 hafi hann á ný þurft að leita sér læknisaðstoðar í Danmörku vegna verkja frá bakinu. Sérstaklega aðspurður kvaðst stefnandi ekki hafa hlotið neina áverka í Danmörku, sem gætu hafa vakið upp fyrri meiðsl og verki í mjóbaki.  

Vitnið Sigurþór Friðbertsson, flokkstjóri hjá stefnda á þeim tíma er stefnandi kveðst hafa slasast, sagðist muna eftir slysinu. Hann hefði þó ekki verið vitni að því, en honum hafi verið sagt frá því samdægurs að stefnandi hafi tognað í baki í umrætt sinn og væri slæmur. Eftir það hefði hann séð til þess að stefnandi ynni létt störf á verkstæði. Vitnið sagði að stefnandi hefði í kjölfar slyssins leitað til læknis, sem ráðlagt hefði sjúkranudd, og því hefði hann gefið út beiðni um sjúkranudd fyrir stefnanda, eftir að hafa fengið til þess leyfi frá næsta yfirmanni sínum. Sérstaklega að því spurður, hvenær stefnandi hafi leitað til læknis, sagði vitnið að hann væri ekki viss um tímasetninguna, hins vegar hafi hann gefið út beiðni um sjúkranudd eftir að stefnandi hafi sagt sér að læknir hefði ráðlagt honum slíka meðferð. Vitnið kvaðst hafa skoðað aðstæður á slysstað degi eða tveimur dögum eftir að það átti sér stað, og sagði að óhreinindi og ryk hefði þá verið á gólfi dælustöðvarinnar, enda hafi dælustöðin verið ný og aðstæður eins og almennt í nýbyggingum. Þegar vitnið var að því spurt hvort hann hefði látið yfirmenn sína vita af umræddu slysi sagðist hann halda að hann hafi gert það, líklega hafi hann annað hvort sagt Benjamín Hanssyni eða Guðmundi Lárussyni, yfirmönnum sínum, frá því, en bætti því jafnframt við að allir á verkstæðinu hefðu vitað af því, þ.e. þeir 5 -7 starfsmenn sem þar hefðu unnið. Ekki kvaðst hann muna hvort stefnandi hafi sjálfur óskað eftir því að slysið yrði tilkynnt. Aðspurður sagði Sigurþór að vinnuveitandinn, stefndi í máli þessu, sæi um að útvega starfsmönnum sérstaka skó og annan öryggis- og hlífðarbúnað. 

Vitnið Birgir Ögmundssonar, fyrrum samstarfsmaður stefnanda, kvaðst hvorki muna eftir umræddu atviki né að stefnandi hafi orðið fyrir óhappi. Sagðist hann þó muna eftir því að hafa unnið með stefnanda í ýmsum verkum. Ekki kvaðst hann heldur muna sérstaklega eftir því að stefnandi hafi verið slæmur í bakinu á þeim tíma sem þeir hafi unnið saman.

Niðurstaða

Eins og rakið hefur verið lýtur ágreiningur aðila að því hvort stefnandi hafi orðið fyrir slysi 18. september 2003 í dælustöð stefnda við Stóragerði í Reykjavík, og ef svo er, hvort tjón stefnanda megi rekja til saknæmrar háttsemi stefnda eða annarra atvika sem stefndi beri ábyrgð á að lögum, að öllu leyti eða að hluta.

Stefnandi er einn til frásagnar um að hann hafi orðið fyrir umræddu slysi, aðstæður á slysstað, aðdraganda slyssins og orsakir þess. Eina vitnið að slysinu, Birgir Ögmundsson, sem ásamt stefnanda mun hafa borið dælubúnaðinn í stroffum inn í dælustöðina þegar stefnanda á að hafa skrikað fótur, sagði fyrir dómi að hann myndi hvorki eftir atvikinu, né að stefnandi hafi orðið fyrir óhappi. Engin gögn, hvorki ljósmyndir né aðrar upplýsingar, liggja fyrir um aðstæður á slysstað. Þá er óumdeilt að Vinnueftirliti ríkisins var ekki tilkynnt um slysið og fór því engin rannsókn fram á aðstæðum á slysstað og orsökum slyssins. Við munnlegan flutning málsins bar stefndi fram þá málsástæðu að slys stefnanda hafi ekki verið þess eðlis að nauðsynlegt hafi verið að tilkynna það samkvæmt 79. gr. laga nr. 46/1980. Stefnandi mótmælti þeirri málsástæðu sem of seint fram kominni, og verður því ekki á henni byggt.

Stefnandi kveðst í umrætt sinn hafa runnið til á öðrum fæti, þar sem sandur eða önnur óhreinindi höfðu borist inn á gólf dælustöðvarinnar, og við það fengið hnykk á bakið. Þótt stefnandi hafi borið fyrir dómi að hann hafi strax orðið slæmur í bakinu, bera gögn málsins ekki með sér að hann hafi sjálfur talið meiðsl sín alvarlegs eðlis, og fremur ákveðið að harka af sér. Þannig liggur fyrir að hann leitaði fyrst til læknis 10. október 2003. Á samskiptaseðli læknis er skráð að tilefnið sé bakverkur. Jafnframt segir þar: „Kemur vegna þess að hann tognaði í vinnunni. Var að lyfta einhverju þungu.“ Ekkert segir þar um hvenær atvikið átti sér stað eða að stefnanda hafi skrikað fótur. Skrifaði læknirinn tilvísun á sjúkraþjálfun fyrir stefnanda. Af viðveruskrá stefnanda verður heldur ekki séð að hann hafi verið fjarverandi frá vinnu eftir umrætt slys, ef frá eru taldir dagarnir 23. og 24. september og 21. – 23. október 2003, án þess þó að sýnt hafi verið fram á að sú fjarvera tengdist því óhappi sem stefnandi kveðst hafa orðið fyrir 18. september 2003. Þá liggja engin gögn fyrir um að stefndi hafi greitt stefnanda slysakaup, eins og haldið er fram í stefnu.

Meðal gagna málsins er bréf stefnanda með lýsingu á atvikum málsins og því slysi sem hann kveðst hafa orðið fyrir í september 2003. Bréfið er dagsett 25. apríl 2007 og undir það rita stefnandi og Sigurþór Friðbertsson, þáverandi flokkstjóri hjá stefnda, sem kveðst þar staðfesta frásögn stefnanda. Fyrir dómi kom fram að nefndur Sigurþór var ekki vitni að óhappinu, en sagðist hafa frétt af því samdægurs að stefnandi hefði tognað í baki og væri slæmur. Hefði hann skoðað aðstæður í dælustöðinni einum til tveimur dögum síðar og staðfesti að óhreinindi og ryk hefði þá verið á gólfi dæluhússins. Tók hann fram að allir starfsmenn á verkstæðinu hefðu vitað af því að stefnandi hefði tognað í bakinu og taldi jafnframt líklegt að hann hafi sagt yfirmönnum sínum frá því. Að frátöldum flokkstjóranum hafa þó engir aðrir starfsmenn staðfest frásögn stefnanda. Þá þykir það veikja nokkuð framburð flokkstjórans að misræmis gætir í frásögn hans og stefnanda um hvenær stefnandi hafi leitað til læknis í kjölfar óhappsins. Fyrir dómi kvaðst flokkstjórinn hafa gefið út beiðni til stefnanda um sjúkranudd eftir að stefnandi hafði leitað til læknis og hann ráðlagt slíka meðferð. Beiðni þessi er meðal gagna málsins, dagsett 30. september, gefin út til Sjúkraþjálfunar Íslands og felur í sér beiðni um nudd vegna vinnuslyss. Hins vegar er þegar fram komið að stefnandi leitaði fyrst til læknis 10. október 2003 vegna þeirra meiðsla sem hann rakti til óhappsins 18. september sama ár.

Eins og þegar er getið var Vinnueftirliti ríkisins ekki tilkynnt um slysið og því fór engin rannsókn fram á orsökum þess. Verður að fallast á það með stefnda að sú vanræksla verði ekki metin stefnda til sakar, enda hefur ekkert komið fram um að stefnda hafi yfirleitt verið tilkynnt um að stefnandi hafi orðið fyrir óhappi í umrætt sinn. Því gafst stefnda ekkert tækifæri til að tilkynna Vinnueftirlitinu um óhappið, eins og mælt er fyrir um í 1. mgr. 79. gr. laga nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum.

Samkvæmt því sem að framan er rakið þykir verulega skorta á að stefnandi hafi fært sönnur á að hann hafi orðið fyrir slysi 18. september 2003 í dælustöð stefnda við Stóragerði og að líkamstjón hans verði rakið til saknæmrar háttsemi stefnda, eða annarra atvika sem hann beri ábyrgð á. Jafnframt er þá til þess er horft að rúm þrjú og hálft ár liðu, án þess að stefnandi gerði reka að því að kynna stefnda kröfu sína og málsatvik. Verður af þeim sökum ekki hjá því komist að sýkna stefnda af kröfum stefnanda.

Rétt þykir að hvor aðila beri sinn kostnað af málinu.

Ingimundur Einarsson héraðsdómari kvað upp dóm þennan.

D Ó M S O R Ð:

Stefndi, Orkuveita Reykjavíkur, skal vera sýkn af kröfum stefnanda, Vigfúsar Hreiðarssonar, í máli þessu

álskostnaður fellur niður.