Hæstiréttur íslands
Mál nr. 183/2007
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
|
|
Þriðjudaginn 3. apríl 2007. |
|
Nr. 183/2007. |
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu(Karl Vilbergsson fulltrúi) gegn X (Hilmar Ingimundarson hrl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli c. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Garðar Gíslason og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 30. mars 2007, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 2. apríl sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 30. mars 2007, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi uns dómur gengur í máli hans, þó ekki lengur en til mánudagsins 23. apríl 2007 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 30. mars 2007.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur í dag krafist þess fyrir Héraðsdómi Reykjaness að X [kennitala] [heimilisfang] verði með úrskurði gert að sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi uns dómur gengur í málum hans, þó eigi lengur en til 23. apríl nk. kl. 16:00.
Krafan er reist á ákvæðum c-liðar 1. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991.
Kærði krefst þess að kröfunni verði hafnað.
Í kröfu lögreglustjórans kemur fram að kærði hafi hinn 30. janúar sl. verið úrskurðaður til að sæta gæsluvarðhaldi til 2. febrúar á grundvelli rannsóknarhagsmuna, sbr. úrskurð héraðsdóms Norðurlands eystra nr. R-6/2007. Með dómi Hæstaréttar nr. 73/2007 hafi kærða verið gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi með vísan til c.-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19, 1991 til 2. mars og með úrskurði héraðsdóms Reykjavíkur nr. R-153/2007, var gæsluvarðhaldið framlengt til dagsins í dag.
Með ákæru lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, dags. 22. mars 2007, hafi verið höfðað opinbert mál á hendur kærða, þar sem honum er gefið að sök að hafa á tveggja mánaða tímabili, frá 30. nóvember 2006 til 30. janúar 2007, framið fjölmörg auðgunar- og fjármunabrot, auk fíkniefna- og umferðarlagabrota.
Við rannsókn mála kærða hafi komið í ljós að hann er í mikilli óreglu og án atvinnu. Brotaferill hans hafi verið samfelldur og sé það mat lögreglustjóra að hann muni halda áfram afbrotum verði hann látinn laus. Nauðsynlegt sé því að kærði sæti áfram gæsluvarðhaldi uns dómur gengur í málum hans.
Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og c.-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19, 1991 um meðferð opinberra máls er þess krafist að krafan nái fram að ganga.
Mál á hendur ákærða og fleiri ákærðum var þingfest í Héraðsdómi Reykjaness í dag.
Þegar virt er hve tíð brot þau eru, sem kærði X hefur verið ákærður fyrir með ákæru dags. 22. þ.m. má fallast á að veruleg hætta sé á því að hann haldi áfram brotastarfsemi verði hann frjáls ferða sinna og því er nauðsynlegt að hann sæti gæsluvarðhaldi meðan mál hans eru til lykta leidd. Þykir mega fallast á að umkrafinn gæsluvarðhaldstími sé nauðsynlegur til að leiða mál kærða til lykta. Er því kærði X með vísan til c-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991, úrskurðaður til að sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi uns dómur gengur í málum hans, þó eigi lengur en til 23. apríl nk. kl. 16:00.
Finnbogi H. Alexandersson, héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Úrskurðarorð:
Kærði, X, sæti gæsluvarðhaldi uns dómur gengur í málum hans, þó eigi lengur en til 23. apríl nk. kl. 16:00.