Hæstiréttur íslands
Mál nr. 407/2013
Lykilorð
- Kynferðisbrot
- Börn
|
|
Fimmtudaginn 15. maí 2014. |
|
Nr. 407/2013. |
Ákæruvaldið (Stefanía G. Sæmundsdóttir settur saksóknari) gegn X (Oddgeir Einarsson hrl. Agnar Þór Guðmundsson hdl.) |
Kynferðisbrot. Börn.
X var ákærður
fyrir kynferðisbrot gegn A með því annars vegar að hafa á tilteknu veitingahúsi
haft kynferðismök við A sem þá var 14 ára og greitt A fyrir með fíkniefnum og
hins vegar að hafa áreitt A kynferðislega, er A var 14 og 15 ára, með því að
hafa ítrekað sent honum kynferðisleg og ósiðleg smáskilaboð og leitast við að
hitta hann í kynferðislegum tilgangi. Í dómi héraðsdóms, sem staðfestur var í
Hæstarétti með vísan til forsendna hans, var vísað til þess að vitnisburður A
fengi ekki þann stuðning af öðrum gögnum málsins sem þyrfti til að unnt væri að
leggja hann til grundvallar gegn eindreginni neitun X, enda væru einungis þeir
tveir til frásagnar um atvik umrætt sinn. Var X því sýknaður af ákæru um að
hafa haft kynferðismök við A og greitt honum fyrir með fíkniefnum. Þá var X
einnig sýknaður af ákæruliðum um kynferðislega áreitni þar sem ekki var talið
sannað að X hefði vitað, á þeim tíma sem símasamskipti hans við A fóru fram, að
A væri 14 og 15 ára gamall.
Dómur
Hæstaréttar
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Eiríkur Tómasson, Ólafur Börkur Þorvaldsson, Viðar Már Matthíasson og Þorgeir Örlygsson.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 29. maí 2013 af hálfu ákæruvaldsins og krefst þess aðallega að ákærði verði sakfelldur samkvæmt ákæru og dæmdur til refsingar. Til vara er þess krafist að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað til nýrrar aðalmeðferðar.
Ákærði krefst aðallega staðfestingar hins áfrýjaða dóms, en til vara að hann verði dæmdur til vægustu refsingar sem lög leyfa.
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.
Allur áfrýjunarkostnaður málsins verður felldur á ríkissjóð, þar með talin málsvarnarlaun verjanda ákærða, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Allur áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Oddgeirs Einarssonar hæstaréttarlögmanns, 439.250 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 3. maí
2013.
Málið
er höfðað með ákæru ríkissaksóknara, dagsettri 15. október 2012, á hendur:
,,X,
kennitala [...],
[...],
[...],
fyrir
kynferðisbrot framin gegn A, kennitala [...]:
I.
Laugardagskvöldið
11. mars 2011 á veitingastaðnum B ehf., að [...], Reykjavík,
1. Með því að hafa haft kynferðismök
við A, sem þá var fjórtán ára, með því að láta hann sjúga á sér kynfærin.
2. Með því að hafa í fyrrgreint skipti
greitt A fyrir vændi barns með fíkniefnum.
Telst
háttsemi samkvæmt ákærulið I/1 varða við 1. mgr. 202. gr. almennra
hegningarlaga nr. 19/1940. Háttsemi
samkvæmt ákærulið I/2 telst varða við 2. mgr. 206. gr. almennra hengingarlaga.
II.
Á
tímabilinu 9. 23. mars 2011 með því að hafa áreitt A, sem þá var fjórtán ára,
kynferðislega með því að hafa ítrekað sent honum kynferðisleg og ósiðleg
smáskilaboð með gsm-síma, þar sem hann lýsti með mjög
grófu orðbragði kynferðismökum og kynferðislegum löngunum sínum og leitaðist
jafnframt við að hitta drenginn í kynferðislegum tilgangi.
Telst
þetta aðallega varða við 2. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 en
til vara við 209. gr. sömu laga og 3. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga nr.
80/2002.
III.
Á
tímabilinu 16. apríl 31. maí 2011 með því að hafa áreitt A, sem þá var
fimmtán ára, kynferðislega með því að hafa ítrekað sent honum kynferðisleg og
ósiðleg smáskilaboð með gsm-síma, þar sem hann lýsti
með mjög grófu orðbragði kynferðismökum og kynferðislegum löngunum sínum og
leitaðist jafnframt við að hitta drenginn í kynferðislegum tilgangi.
Telst
þetta aðallega varða við 199. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 3. mgr.
99. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 en til vara við 209. gr. almennra
hegningarlaga nr. 19/1940 og 3. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.
Þess
er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls
sakarkostnaðar.
Einkaréttarkrafa:
Af
hálfu C, kt. [...], vegna ólögráða sonar hennar, A, kt. [...], er krafist miskabóta að fjárhæð kr. 800.000 auk
vaxta samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 1. mars
2011 þar til mánuður er liðinn frá birtingu skaðabótakröfu þessarar en með
dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 9. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til
greiðsludags.“
Verjandi
ákærða krefst aðallega sýknu og að bótakröfu verði vísað frá dómi. Til vara er
krafist vægustu refsingar sem lög leyfa og sýknu af bótakröfu en til vara lækkunar.
Þess er krafist að allur sakarkostnaður, þar með talin málsvarnarlaun, verði
greidd úr ríkissjóði. Einnig var krafist málsvarnarlauna fyrir Grím Sigurðarson
héraðsdómslögmanns vegna vinnu hans fyrir ákærða undir rannsókn málsins.
Rannsókn
máls þessa hófst er C, móðir A, gaf skýrslu hjá lögreglu 3. júní 2011 þar sem
hún greindi frá því að hún hefði við skoðun farsíma A séð ,,ógeðsleg skilaboð“
frá manni sem merktur var sem X kúnni í símanum. Fram kemur í gögnum málsins að
lögreglu barst farsími A til skoðunar 31. maí 2011, og við skýrslutökuna af C
3. júní 2011, kannaðist hún við skilaboðin sem rituð höfðu verið upp úr
símanum. Símaskilaboðin sem hér um ræðir eru úr síma þar sem skráður rétthafi
er B veitingastaður að [...]. Smáskilaboðin sem hér um ræðir eru þau sem ákært
er vegna í ákæruliðum II og III.
Undir
rannsókn málsins voru teknar tvær vitnaskýrslur af A fyrir dómi og verður vikið
að þeim síðar.
Við
skýrslutöku af ákærða hjá lögreglunni lýsti hann samskiptum við á þeim tíma sem í ákæru greinir, en neitaði
kynferðismökum eins og lýst er í ákærulið I.1.
Nú verður rakinn framburður ákærða fyrir
dómi og vitnisburður.
Ákæruliðir I. 1 og 2.
Ákærði
neitar sök. Hann kvað samskipti þeirra A hafa byrjað á internetinu fyrir meira
en tveimur árum. A hafi kynnt sig sem 17 ára gamlan pilt og kvaðst ákærði hafa
talið fullvíst að hann væri 17 ára en þeir hafi haft samskipti á netinu af og
til og hafi ákærði gefið A upp símanúmer farsíma sem ákærði hafði til umráða. Símanúmerið
er hið sama og fram kemur í gögnum málsins og móðir brotaþola færði lögreglu
eins og rakið var að ofan, og ákærði kvað þetta símann sem hann notaði í
samskiptum við A. Ákærði lýsti því er A hringdi í hann hinn 11. mars 2011, og
bað ákærða um greiða. A sagðist hafa misst af strætó upp á [...] þangað sem
hann þurfti að komast. Eftir skamma stund hefði ákærði áttað sig á því að A
væri piltur sem hann hafði áður verið í sambandi við á netinu. Hann hefði
greint A frá því að hann væri að vinna og gæti ekki gert honum greiðann. Hann
skyldi láta hann vita nánar eftir hálfa til eina klukkustund. Um klukkustund
síðar hringdi A aftur sömu erinda. Úr varð að ákærði lofaði að keyra hann upp á
[...], en hann hefði sagt A að það yrði ekki fyrr en eftir klukkan hálf ellefu
um kvöldið. Ákærði lýsti því að þeir A hefðu verið í símsambandi þetta kvöld og
einnig sent á milli sín smáskilaboð en endurrit skilaboðanna sem ákærði sendi
liggja frammi. Ákærði lýsti því er þeir A mæltu sér mót við [...] í Kópavogi en
þangað kvaðst ákærði hafa sótt A og þeir hist þar í fyrsta sinn. Spurður hvort
ákærði hefði ekki gert sér grein fyrir aldri A þarna, kvað ákærði svo ekki
vera. Ákærði lýsti útliti A, meðal annars því að hann hefði verið álíka hár og ákærði
og að A hefði hæglega getað verið 19 ára gamall af útlitinu að dæma. Þeir hefðu
rætt saman og ákærði sagst ætla að keyra hann upp á [...]. Ákærði lýsti
samskiptum þeirra uns ákærði lagði bíl sínum fyrir utan B að [...], en ákærði
kvaðst hafa ætlað að sækja þangað peninga. Hann kvað A hafa farið þess á leit
við sig að hann lánaði honum peninga fyrir kannabis en hann kvaðst hafa hafnað
þeirri málaleitan. Ákærði kvaðst hafa boðið A inn á veitingastaðinn til að fá
sér að drekka. Ákærði sótti peningana og er hann kom fram hafi A verið í símanum
en ákærði beðið í nokkrar mínútur meðan A lauk símtalinu. Eftir það var A eina
til tvær mínútur á snyrtingunni en eftir það lagði ákærði af stað upp á [...].
Meðal
gagna málsins er lögregluskýrsla, dagsett 8. júní 2011, sem er sögð skýrslutaka
af ákærða á heimili hans þann dag. Þar er haft eftir ákærða að hann hafi kynnst
A á internetinu og að A hafi átt frumkvæðið og greint ákærða frá því að hann
væri 17 ára gamall. Samskipt þeirra hafi verið af kynferðislegum toga, en þeir
hafi aldrei hist og aldrei átt kynferðismök. Fyrir dómi kvaðst ákærði hafa
verið spurður við skýrslutökuna hvort hann þekkti A 14 ára, en hann hafi sagt
svo ekki vera. Hann þekkti A sem væri 17 ára gamall.
Ákærði
staðfesti fyrir dóminum að endurrit smáskilaboða úr síma hans þennan dag sýndu
málavexti eins og ákærði lýsti fyrir dóminum. Ákærði var spurður út í nokkur
skilaboðanna og skýrði hann sum þeirra, meðal annars það að A hafi sóst eftir
fíkniefnum gegn kynlífi. Ekkert liggur fyrir um smáskilaboðin sem A sendi
ákærða á móti.
Vitnið
A kvað kynni þeirra ákærða hafa hafist á netinu. Hann mundi ekki hvor þeirra
ákærða átti frumkvæðið að þeim. Hann kvað hins vegar marga hafa haft samband
við sig á þessum tíma en rekja megi það til þess að hann hafi haldið úti
einkamálasíðu á netinu þar sem fram kom að hann væri 18 ára gamall.
Meðal
gagna málsins eru útprentuð gögn af netinu, annars vegar skjal af facebook síðu A og hins vegar my space síða hans. A staðfesti fyrir dóminum að þessar síður
væru hans.
A
kvað þá ákærða síðar hafa haft samband með MSN. Samskiptin hafi að mestu snúist
um kynferðisathafnir. Síðar hafi samskiptin verið símasamskipti og þeir sent
hvor öðrum SMS-skilaboð. Hann kvaðst hafa hitt ákærða einu sinni, en þeir hafi
komið fundinum á með samskiptum á MSN. A lýsti samskiptunum og að hann hefði
sagt ákærða að sækja sig við bensínstöð við [...] þangað sem ákærði sótti hann.
Hann kvaðst lítið muna hvað gerðist þar. Af gögnum málsins má ráða að þessi
samskipti áttu sér stað 11. mars 2011, á þeim tíma sem í I. kafla greinir. A
kvað þá ákærða hafa hitt fíkniefnasala þar sem ákærði keypti tvö grömm af
kannabis fyrir A, en fíkniefnin kvað hann greiðslu fyrir kynlíf. Eftir þetta
var farið upp á [...] á B þar sem A kvaðst hafa reykt fíkniefnin, auk þess sem
ákærði hefði gefið sér amfetamín sem hann neytti á staðnum. Hann kvaðst þarna hafa
veitt ákærða munnmök, en hann kvaðst ekki muna hvort þeir stóðu eða lágu er
þetta gerðist. Hann mundi ekki vel hvað gerðist næst, en eftir þetta skutlaði
ákærði honum upp á [...]. Hann lýsti aðstæðum á vettvangi og hvar á staðnum
hann veitti ákærða munnmökin. Hann kvaðst hafa verið undir miklum áhrifum og
ekki geta lýst staðháttum nákvæmlega. Hann kvaðst hafa sagt ákærða rétt frá
aldri sínum og að hann væri 14 ára gamall. Nánar spurður mundi hann ekki hvenær
hann greindi ákærða frá þessu, en það hafi verið áður en þeir hittust. Hann
taldi líklegast að hann hafi greint ákærða frá aldri sínum á MSN. Hann kvað
hafa komið fram í samskiptum þeirra ákærða að ákærði væri fyrir unga stráka og
kvaðst A hafa nýtt sér það í því skyni að selja ákærða kynlífsþjónustu og sagt
honum rétt frá aldri sínum. A kvaðst hafa verið í sambandi við fleiri aðila en
ákærða í sama skyni og lýst var. Misjafnt var hvað hann sagði til um aldur
sinn, en oft greindi hann rétt frá.
Við
skýrslutöku af A fyrir dómi 4. apríl 2011, var hann spurður um ákærða og kvaðst
hann þá aldrei hafa hitt hann. Önnur skýrsla var tekin af A fyrir dómi 9. júní
2011. Þá lýsti hann samskiptunum við ákærða efnislega á sama veg og fyrir dómi undir
aðalmeðferð málsins. Spurður um skýringar á þessu misræmi kvaðst hann ekki hafa
viljað ræða þennan atburð er fyrri skýrslan var tekin. Afstaða hans breyttist
síðar til þessa en við fyrri skýrsluna kvaðst hann hafa verið í mikilli neyslu.
Vitnið
C, móðir A, lýsti aðdraganda þess að hún lagði fram kæru á hendur ákærða, en
það var eftir að vitnið fann SMS skilaboð í farsíma A eins og lýst var að
framan. C gat ekki borið um samskipti ákærða og A.
Meðal
gagna málsins er greinargerð sem D geðlæknir vann fyrir lögregluna á [...] og
um sjúkrasögu A. D kom fyrir dóminn, skýrði og staðfesti greinargerð sína. Hann
lýsti samskiptunum við A og tilvikum er hann hefur verið til meðferðar á BUGL.
Staða A nú sé slæm og lýsti D því nánar. A hafi greint frá samskiptum sínum við
aðra menn en ákærða, sem hann hafi ekki nefnt við sig. D lýsti ýmsum
eiginleikum í fari A, meðal annars áhættuhegðun hans, og skýrði D þetta nánar. D
kvað ekkert í frásögn A hafa verið þannig að hann hafi fengið á tilfinninguna
að A væri að búa til sögur. D skýrði þetta nánar. D skýrði áhrif þess á líðan A
í dag að gengið hafi verið gróflega yfir mörk hans frá barnsaldri og hann
misnotaður kynferðislega.
Meðal
gagna málsins eru greinargerðir sem E, sálfræðingur í Barnahúsi, ritar og varða
A. Fyrri greinargerðin er dagsett 30. ágúst 2011, og er rituð að beiðni
lögreglunnar, en hin síðari er dagsett 20. mars 2013, og er rituð að beiðni
ríkissaksóknara. E kom fyrir dóminn, skýrði og staðfesti greinargerðirnar. Hún
lýsti vanda A og fjölda viðtala sem hann hefur sótt hjá vitninu. Hún lýsti
mörgum málum og áhrifum þeirra á líðan hans. Hún lýsti því að
áfallastreituröskun, sem hún kvaðst hafa greint í fari hans, tengdist öðru en
málinu sem hér um ræðir og skýrði hún þetta nánar. Hún kvað A hafa greint frá
því í viðtölum að hann hefði hitt ákærða einu sinni og veitt honum munnmök gegn
greiðslu með fíkniefnum.
Vitnið
F lögreglufulltrúi lýsti upphafi rannsóknar málsins sem var er móðir A kom til
lögreglu með farsíma A sem innihélt SMS skilaboð frá nafngreindum aðila sem
komið hefur í ljós að var ákærði. Vitnisburður hans varpar ekki frekara ljósi á
málavexti og verður ekki rakinn frekar.
Vitnið
G lögreglufulltrúi kvaðst hvað ritað niður SMS skilaboð sem fundust í síma A á
tímabilinu sem í ákæru greinir. Hann lýsti rannsókninni og skýrslutökum af A í
framhaldinu. G kvaðst hafa kynnt ákærða kæruna er gerð var húsleit á heimili
hans 8. júní 2011. Ákærða hafi verið greint frá því hver A væri og kæran væri
vegna samskipta ákærða við hann. Ákærði hafi ekki kannast við hann. G kvað þá
skýrslu hafa mistekist að hluta vegna þess að upptaka hafi brugðist. G kvað
aldur A ekki hafa verið ræddan þarna, utan að ákærði hefði greint frá því að A
hefði kynnt sig fyrir honum á netinu sem 17 til 18 ára gamlan pilt. G mundi
ekki hvaða símar voru rannasakaðir undir rannsókn málsins, fyrir utan síma A.
Send SMS skilaboð úr síma A hafi ekki verið vistuð og því hafi þau ekki
fundist.
Vitnið
H lögreglumaður var viðstaddur húsleit á vinnustað ákærða og eftir það var
farið og leitað á heimili hans og hafi ákærði verið viðstaddur leitina. Hann
mundi ekki hvernig kæruefnið var kynnt ákærða.
Undir
dómsmeðferð málsins og að kröfu verjanda ákærða var I verkfræðingur dómkvaddur
á grundvelli 2. mgr. 130. gr. laga nr. 88/2008, til að gefa rökstutt álit á
tilteknum atriðum. I kom fyrir dóminn og gerði grein fyrir tilteknum álitaefnum
er varða símanotkun og SMS skilaboð. Eins og á stendur er ekki ástæða til þess
að reifa vitnisburð hans.
Vitnið
J rannsóknarlögreglumaður lýsti rannsókn sinni á síma og tveimur tölvum ákærða.
Hann skýrði að ekki hafi fundist skilaboð sem send voru úr síma A. Það sé
skýring þess að þau liggi ekki fyrir heldur aðeins skilaboð sem ákærði sendi A.
Vitnið
K, kvaðst hafa þekkt A í mars 2011 og hafa kynnst honum í gegnum systur hans.
Hann hafi umgengist A á þessum tíma og hitt hann af og til. A hafi aldrei nefnt
við sig að hann hafi selt sig karlmönnum. Vitnið kvaðst hafa komist að þessu
síðar. Samskipti A og ákærða hafi aldrei borið á góma.
Niðurstaða ákæruliðar I, 1 og 2.
Ákærði
neitar sök. Ákærði og A báru báðir um fund sinn 11. mars 2011. Frásögn hvors um
sig fær að hluta stoð í SMS skilaboðum sem ákærði sendi A og ákærði hefur skýrt
að hluta. Ekkert liggur fyrir af SMS skilaboðum sem A sendi ákærða á móti.
Veður því ekki ráðið af smáskilaboðunum hvað þeim fór á milli um atburðinn sem
í þessum ákærulið greinir, hafi það verið nokkuð. Hins vegar hafa báðir borið
að nánast öll þeirra samskipti hafi verið af kynferðislegum toga eins og rakið
var. Vitnisburður A um samskiptin við ákærða er trúverðugur um flest þótt hann
hafi við skýrslutöku fyrir dómi 4. apríl 2011 borið á annan veg en hann gerði
síðar. Þá hefur hann borið að hann muni sumt í samskiptum þeirra illa sökum
fíkniefnaneyslu. Meðal þess er hluti þess sem gerðist á veitingastaðnum B á þeim
tíma sem í ákæru greinir. Vísast um þetta til þess sem rakið var að framan.
Framburður ákærða er einnig trúverðugur um flest og fær að hluta stoð í SMS
skilaborðum eins og rakið var. Ákærði hefur frá upphafi borið á sama veg um
flest í samskiptunum við A, m.a. um aldur hans, og neitað sök samkvæmt þessum
ákærulið. Ákærði og A eru tveir til frásagnar um það sem gerðist á veitingastaðnum
B á þeim tíma sem í ákæru greinir. Það er mat dómsins að vitnisburður A fái ekki
þann stuðning sem þarf til að unnt sé að leggja hann til grundvallar
niðurstöðunni gegn eindreginni neitun ákærða frá upphafi. Samkvæmt þessu er
ósannað, gegn eindreginni neitun ákærða, að hann hafi framið háttsemina sem í
þessum ákæruliðum greinir og ber að sýkna hann.
Ákæruliðir II og III.
Ákærði
neitar sök. Hann kvað skilaboðin, sem liggja fyrir í endurriti meðal gagna
málsins, vera þau sem hann sendi A. Hins vegar hafi ákærði fengið skilaboð frá A
á móti. Hann kvaðst hafa gengið út frá því að skilaboðin væru samskipti tveggja
einstaklinga þar sem hann fékk alltaf skilaboð á móti, ella hefði hann ekki
sent skilaboðin eins og þau sem hér um ræðir. Þá kvaðst ákærði hafa talið
skilaboðin í lagi þar sem A svaraði og ákærði taldi hann 17 ára gamlan eins og
rakið var að framan er málavextir í ákærulið I voru raktir.
Vitnið
A kvað sig ráma í SMS skilaboð frá ákærða. Þau hafi verið í samræmi við SMS
skilaboð sem hann sendi ákærða. Skilaboðin hafi verið gróf og af kynferðislegum
toga. Hann kvaðst ekki hafa kippt sér upp við þau. Skilaboðin markist af því að
hann hafi á þessum tíma selt líkama sinn og SMS skilaboðin taki mið af því.
Niðurstaða ákæruliða II og III.
Ákærði
neitar sök og kvaðst telja samskiptin við A sem hér er lýst samskipti tveggja
einstaklinga sem séu ekki saknæm. Ákærði hefur frá upphafi borið að hann hafi
talið A 17 eða 18 ára gamlan á þessum tíma. Kom þetta fram hjá ákærða við
upphaf lögregluafskipta af honum er gerð var húsleit á heimili hans 8. júní
2011. Vísast um þetta til vitnisburðar G lögreglufulltrúa sem vann að
húsleitinni en vitnisburður hans var rakinn að framan. A mundi ekki hvenær hann
greindi ákærða frá aldri sínum en önnur gögn eru ekki fyrir hendi um þetta.
Eins og rakið var að framan liggja frammi gögn af netinu frá þessum tíma þar
sem A kynnir sig sem 18 ára gamlan einstakling. Þá bar A fyrir dóminum að hann
hefði ekki kippt sér upp við samskiptin sem mörkuðust af því að hann seldi
líkama sinn á þessum tíma.
Að
öllu ofanrituðu virtu er það mat dómsins að ósannað sé, gegn eindreginni neitun
ákærða, að hann hafi vitað að A hafi verið 14 og 15 ára gamall er samskiptin
sem í þessum liðum ákæru greinir áttu sér stað. Framburður ákærða um aldur A er
lagður til grundvallar og fær hann stoð í mörgu sem rakið var, svo sem í gögnum
af netinu þar sem A segist vera 18 ára gamall. Að þessu virtu og öðru því sem
nú hefur verið rakið, m.a. af því að A segist ekki hafa kippt sér upp við
smáskilaboðin og að ekki er unnt að meta samskiptin í heild þar sem sendingar A
til ákærða liggja ekki fyrir, er það mat dómsins að ekki sé unnt að meta
smáskilaboðin svo að þau hafi verið refsiverð eins og á stóð og lýst er í
ákæru. Ber samkvæmt þessu að sýkna ákærða af þessum ákæruliðum.
Eftir
þessum úrslitum ber að vísa bótakröfu C, f.h. A, frá dómi.
Allur
sakarkostnaður greiðist úr ríkissjóði þ.m. 288.650 króna réttargæsluþóknun
Gunnhildar Pétursdóttur héraðsdómslögmanns, skipaðs réttargæslumanns A, 627.500
króna málsvarnarlaun Gríms Sigurðarsonar héraðsdómslögmanns, vegna vinnu
lögmannsins undir rannsókn málsins, og 753.000 króna málsvarnarlaun Oddgeirs
Einarssonar hæstaréttarlögmanns. Tekið hefur verið tillit til virðisaukaskatts
við ákvörðun þóknunar lögmanna.
Stefanía
Guðrún Sæmundsdóttir, settur saksóknari, flutti málið fyrir ákæruvaldið.
Dóminn
kveða upp héraðsdómararnir Guðjón St. Marteinsson, sem dómsformaður, Ragnheiður
Snorradóttir og Þórður S. Gunnarsson.
Dómsorð:
Ákærði,
X, er sýknaður af kröfum ákæruvaldsins.
Bótakröfu
C, f.h. A, er vísað frá dómi.
Allur
sakarkostnaður greiðist úr ríkissjóði, þ.m.t 288.650 króna réttargæsluþóknun
Gunnhildar Pétursdóttur héraðsdómslögmanns, skipaðs réttargæslumanns A, 627.500
króna málsvarnarlaun Gríms Sigurðarsonar héraðsdómslögmanns, vegna vinnu
lögmannsins undir rannsókn málsins, og 753.000 króna málsvarnarlaun Oddgeirs
Einarssonar hæstaréttarlögmanns. Tekið hefur verið tillit til virðisaukaskatts
við ákvörðun þóknunar lögmanna.