Hæstiréttur íslands

Mál nr. 26/2001


Lykilorð

  • Kærumál
  • Málskostnaður
  • Kæruheimild
  • Frávísun frá Hæstarétti


Föstudaginn 9

 

Föstudaginn 9. febrúar 2001.

Nr. 26/2001.

Tracee Lea Róbertsdóttir

(Róbert Árni Hreiðarsson hdl.)          

gegn                                                

Jakobi F. Ásgeirssyni

(Helgi Birgisson hrl.)

                                                   

Kærumál. Málskostnaður. Kæruheimild. Frávísun máls frá Hæstarétti.

T kærði úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur, þar sem máli J á hendur henni og fleirum var vísað frá dómi og málskostnaður felldur niður. Um kæruheimild vísaði T til g. liðar 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Samkvæmt tilvitnuðu ákvæði má kæra til Hæstaréttar úrskurð héraðsdómara um ómaksþóknun, málskostnað eða gjafsóknarlaun, enda sé ekki kveðið á um annað í úrskurðinum. Í hinum kærða úrskurði var hins vegar kveðið á um fleiri en málskostnað og var skilyrðum ákvæðisins því ekki fullnægt. Þá var T ekki heldur unnt að byggja kæru á j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991. Brast J því með öllu heimild til að kæra úrskurðinn. Var málinu því vísað frá Hæstarétti.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson og Gunnlaugur Claessen og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 12. janúar 2001, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 19. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 29. desember 2000, þar sem máli varnaraðila á hendur sóknaraðila og fleirum var vísað frá dómi og málskostnaður felldur niður. Um kæruheimild vísar sóknaraðili til g. liðar 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Hún krefst þess að varnaraðili verði dæmdur til að greiða sér málskostnað í héraði ásamt kærumálskostnaði.

Varnaraðili krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá Hæstarétti, en til vara að ákvæði hins kærða úrskurðar um málskostnað verði staðfest. Í báðum tilvikum krefst hann kærumálskostnaðar úr hendi sóknaraðila.

Samkvæmt g. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 má kæra til Hæstaréttar úrskurð héraðsdómara um ómaksþóknun, málskostnað eða gjafsóknarlaun, enda sé ekki kveðið á um annað í úrskurðinum. Með hinum kærða úrskurði var máli varnaraðila vísað frá héraðsdómi, auk þess sem leyst var úr kröfum aðilanna um málskostnað. Var því kveðið á um fleira en málskostnað í úrskurðinum. Af þeim sökum verður umræddu lagaákvæði ekki beitt til að kæra hann. Sóknaraðili naut heldur ekki heimildar á grundvelli j. liðar 1. mgr. 143. gr. áðurnefndra laga nema með gagnkæru til að skjóta til Hæstaréttar úrskurði héraðsdómara í heild sinni til staðfestingar niðurstöðu um frávísun málsins en breytingar á ákvæði úrskurðarins um málskostnað, sbr. meðal annars dóm Hæstaréttar í dómasafni 1998, bls. 1793. Samkvæmt þessu brestur heimild til að kæra úrskurðinn. Verður málinu því vísað frá Hæstarétti.

Rétt er að hvor aðili beri kostnað sinn af kærumáli þessu.

Dómsorð:

Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.

Kærumálskostnaður fellur niður.

 

´

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 29. desember 2000.

Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar um frávísunarkröfu stefndu 7. desember s.l., er höfðað með stefnu þingfestri 29. júní s.l.

Stefnandi er Jakob F. Ásgeirsson, kt. 310161-5359, Ljósheimum 16, Reykjavík.

Stefndu eru Tracee Lea Róbertsdóttir, kt. 070562-7589, Kleppsvegi 142, Reykjavík, Ingólfur Geir Gissurarson, kt. 041262-5329, Vesturhúsum 18, Reykjavík, Kristinn Kolbeinsson, kt. 030457-2189, Baughúsum 50, Reykjavík og fasteignasalan Valhöll ehf., kt. 681294-3179, Síðumúla 27, Reykjavík, en fyrir hennar hönd er stefnt stjórnarmanni, Bárði Hreini Tryggvasyni,kt. 250660-2199, Skógarhæð 4, Garðabæ.

Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndu verði in solidum dæmd til að greiða honum kr. 1.410.893,96 ásamt dráttarvöxtum skv. III. kafla vaxtalaga frá 1. maí 1999 til greiðsludags.  Þá er krafist málskostnaðar auk virðisaukaskatts.

Stefnandi lýsir málavöxtum svo í stefnu í kafla sem ber nafnið málsástæður og önnur atvik, að stefnandi og stefnda Tracee Lea hafi gert með sér kaupsamning 16. apríl 1999 um íbúð í húsinu nr. 16 við Ljósheima hér í borg.  Umsamið kaupverð var kr. 7.600.000 og var afsal gefið út 7. júní 1999.  Húsfélagið Ljósheimum 14-18 mun á árinu 1997 hafa ráðist í framkvæmdir við sameign hússins og voru þær fjármagnaðar með útgáfu skuldabréfa til 15 ára, en íbúðareigendur hafi borið ábyrgð á greiðslu þess í samræmi við eignarhlutdeild sína í húsinu.  Mun framkvæmdum hafa lokið á árinu 1998, en á því ári mun einnig hafa fallið kostnaður á húsfélagið f.h. íbúðareigenda sem einnig var fjármagnaður með lántökum.

Stefnandi segir stefndu Tracee Leu ekkert hafa getið um það við gerð kauptilboðs og síðar kaupsamnings að á íbúðinni hafi hvílt skuld vegna viðgerða sem búið hafi verið að framkvæma.  Hún hafi hins vegar gefið út yfirlýsingu um að enginn kostnaður væri ógreiddur vegna framkvæmda sem sé lokið.  Stefnandi taldi sig geta treyst stefndu fyllilega, fasteignasölunni Valhöll, er hafi annast viðskipti stefnanda og stefndu Tracee Leu og hafi séð um alla skjalgerð, svo og stefndu Ingólfi og Kristni, löggiltum fasteignasölum.  Hafi þeir ekki aflað sjálfstætt upplýsinga um skuldastöðu íbúðarinnar, þrátt fyrir að þeim hafi verið það skylt skv. lögum.  Þá sé skýrt tekið fram í 13. tölulið kaupsamnings að yfirlýsing húsfélags skuli liggja frammi og kynnt aðilum við kaupsamningsgerð.  Fasteignasalan og starfsmenn hennar hafi hins vegar látið við það sitja að stefnda Tracee Lea gæfi yfirlýsingu um skuldastöðu íbúðarinnar.

Sumarið 1999 hafi stefnandi farið að kanna hvers vegna greiðslur í hússjóð voru svo háar og hafi þá komið í ljós að um helmingur fjárhæðarinnar var vegna framkvæmda sem þegar hafði verið ráðist í og hafi átt að vera inni í íbúðarverðinu.  Í stefnu er lýst bréfasendingum stefnanda til stefndu og húsfélagsins vegna málsins og þá segir að samkvæmt yfirliti frá löggiltum endurskoðanda húsfélagsins hafi fjárhæð skuldar vegna viðgerða á sameign, sem stefnandi vegna eignahlutdeildar sinnar hafi verið nauðbeygður til að greiða verið kr. 1.410.893,96 miðað við 31. mars 1999.  Þá segist stefnandi krefjast dráttarvaxta frá 1. maí 1999, þ.e. frá þeim tíma er hann hóf greiðslur.

Í stefnu er vísað til 43. gr., 45. gr. og 46. gr. laga nr. 26/1994 og sagt að þessi ákvæði fjalli um sameiginlegan kostnað og skiptingu hans.  Þá vísar stefnandi til 25. gr. sömu laga og segir þar setta reglu, sem beinlínis sé ætlað að koma í veg fyrir þá aðstöðu sem hér sé uppi.  Þá vísar stefnandi til laga um fasteignasala nr. 54/1997, einkum 10. gr.  Stefnandi vísar til reglna almenna hluta kröfuréttarins um skyldur aðila í fasteignakaupum svo og til ákvæða laga nr. 39/1922, einkum 2. mgr. 42. gr.  Stefnandi segir kröfurnar sóttar í einu máli á hendur stefndu með vísan til 19. gr. laga nr. 91/1991 og þá segir hann vaxtakröfu byggða á III. kafla vaxtalaga.  Málskostnaðarkrafa stefnanda er reist á 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 og krafa um virðisaukaskatt á málskostnað er byggð á lögum nr. 50/1988.

Stefndu byggja aðalkröfu sína um frávísun á því að málið sé svo vanreifað af hálfu stefnanda að ekki sé hægt að leggja dóm á það.  Ekki komi fram í stefnu á hvaða grundvelli stefnandi byggi kröfu sína.  Ekki sé ljóst hvort um skaðabótakröfu sé að ræða og þá á hvaða grunni hún sé reist, eða hvort um sé að ræða kröfu um afslátt eða lækkun á kaupverði fasteignarinnar.  Tilvísun stefnanda til 2. mgr. 42. gr. laga nr. 39/1922 bendi til þess að um skaðabótakröfu sé að ræða, en rökstuðning fyrir því hvernig sú lagagrein eigi við sé ekki að finna í stefnunni.

Þá byggja stefndu á því að í málatilbúnað stefnanda vanti allan útreikning og sundurliðun á stefnukröfunni.  Kröfufjárhæðin byggi á ódagsettu yfirliti sem sagt sé komið frá endurskoðanda húsfélagsins.  Segi í stefnu að skjalið sýni fjárhæð skuldar vegna viðgerðar á sameign sem stefnandi vegna eignahlutdeildar sinnar sé nauðbeygður til að greiða 31. mars 1999.  Upplýsingar um þetta komi hins vegar ekki fram í skjalinu sjálfu.  Þá sé ekki útskýrt hvers vegna miðað sé við þessa dagsetningu.  Þá veki athygli að fjárhæðin sé ekki sú sama og í innheimtubréfi sem sent hafi verið 3. apríl 2000.  Telja stefndu að stefnandi geti ekki byggt kröfugerð sína á þessu skjali.  Þar sem stefnandi hafi ekki lagt fram þau skjöl sem standa að baki ætlaðri skuld húsfélagsins sé þeim í raun ómögulegt að fjalla um eða taka afstöðu til kröfugerðarinnar.

Samkvæmt e-lið 80. gr. laga nr. 91/1991 skal greina í stefnu svo glöggt sem verða má málsástæður sem stefnandi byggir málsókn sína á, svo og önnur atvik sem þarf að greina til  þess að samhengi málsástæðna verði ljóst, en þessi lýsing skal vera gagnorð og svo skýr að ekki fari milli mála hvert sakarefnið er.  Stefna í máli þessu er þannig úr garði gerð að í kafla sem heitir málsástæður og önnur atvik er að finna ítarlega málavaxtalýsingu.  Þar kemur hins vegar ekki fram á hvaða grundvelli málsókn stefnanda á hendur stefndu Tracee Leu er reist.  Ekki kemur fram hvort krafist er skaðabóta eða afsláttar, en í kaflanum lagatilvísanir er vísað til 2. mgr. 42. gr. laga nr. 39/1922 án nánari rökstuðnings.  Þar er einnig vísað til laga nr. 54/1997 um fasteignasala, einkum 10. gr. en engin grein gerð fyrir því á hvaða grundvelli málið er höfðað á hendur hinum löggiltu fasteignasölum og fasteignasölunni.  Þá er engin grein gerð fyrir því í stefnu hvernig stefnufjárhæð er fundin. 

Samkvæmt framansögðu verður að fallast á það með stefndu að málið sé það vanreifað að ekki verði lagður á það dómur í þeim búningi sem það nú er.

Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður falli niður.

Hjörtur O. Aðalsteinsson, héraðsdómari, kvað upp úrskurðinn.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

 

Máli þessu er vísað frá dómi.  Málskostnaður fellur niður.