Hæstiréttur íslands

Nr. 2021-32

Ákæruvaldið (Sigríður J. Friðjónsdóttir ríkissaksóknari)
gegn
X (Oddgeir Einarsson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Kynferðisbrot
  • Nauðgun
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ingveldur Einarsdóttir og Sigurður Tómas Magnússon.

Með beiðni 4. janúar 2021 leitar X leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 13. nóvember 2020 í málinu nr. 330/2019: Ákæruvaldið gegn X á grundvelli 1. mgr., sbr. 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Ákæruvaldið leggst gegn beiðninni.

Með dómi Landsréttar var staðfest niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu leyfisbeiðanda fyrir brot gegn 2. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa haft samræði við A án hennar samþykkis með því að notfæra sér að hún gat ekki spornað við verknaði hans vegna ölvunar og svefndrunga. Refsing leyfisbeiðanda var ákveðin fangelsi í 21 mánuð auk þess sem honum var gert að greiða brotaþola skaðabætur.

Leyfisbeiðandi telur að skilyrði 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 séu uppfyllt. Hann byggir á því að málið hafi almenna þýðingu þar sem í því reyni á hvort ákærði og brotaþoli sitji við sama borð er viðkemur þýðingu frásagnar þeirra af atburðum skömmu eftir atvik. Þá hafi málsmeðferð fyrir héraðsdómi og Landsrétti verið stórlega ábótavant þar sem ekki hafi verið rætt við lykilvitni við mat á ástandi brotaþola. Af sömu ástæðum sé dómur Landsréttar bersýnilega rangur. Í dóminum sé enn fremur að finna rangfærslu þess efnis að hann hafi borið að þar sem brotaþoli hafi ekki vísað atlotum hans á bug hefði hann mátt líta svo á að hún væri þeim samþykk. Hið rétta sé að hann hafi á öllum stigum lýst atvikum svo að brotaþoli hafi einnig gefið í skyn samþykki sitt með hreyfingum sínum og látbragði.

Að virtum gögnum málsins verður ekki séð að það lúti að atriðum sem hafi verulega almenna þýðingu eða að mjög mikilvægt sé af öðrum ástæðum að fá úrlausn Hæstaréttar um þau þannig að fullnægt sé skilyrðum 2. málsliðar 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Þá eru ekki efni til að beita heimild 3. málsliðar 4. mgr. sömu lagagreinar í málinu. Niðurstaða Landsréttar um sakfellingu byggir að verulegu leyti á mati á sönnunargildi munnlegs framburðar leyfisbeiðanda, brotaþola og vitna en það mat verður ekki endurskoðað fyrir Hæstarétti, sbr. 5. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því hafnað.