Hæstiréttur íslands

Mál nr. 66/2002


Lykilorð

  • Ávana- og fíkniefni


Miðvikudaginn 8

 

Miðvikudaginn 8. maí 2002.

Nr. 66/2002.

Ákæruvaldið

(Ragnheiður Harðardóttir saksóknari)

gegn

Emil Karli Bjarnasyni

(Sveinn Andri Sveinsson hrl.)

 

Ávana- og fíkniefni.

E var ákærður fyrir fíkniefnalagabrot, með því að hafa átt aðild að innflutningi á 1974,34 g af hassi. Staðfest var niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu og refsingu E, sem gert var að sæta fangelsi í 4 mánuði, skilorðsbundið.   

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 10. janúar 2002 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en einnig af hálfu ákæruvalds, sem krefst þess að refsing ákærða verði þyngd.

Ákærði krefst aðallega sýknu af kröfum ákæruvaldsins, en til vara að málinu verði vísað frá héraðsdómi.

 Ekkert er fram komið í málinu sem gefur tilefni til að vísa því frá dómi. Að þessu virtu og með vísan til forsendna héraðsdóms verður hann staðfestur.

Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Ákærði, Emil Karl Bjarnason, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Sveins Andra Sveinssonar hæstaréttarlögmanns, 70.000 krónur.           

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 21. desember 2001

                Ár 2001, föstudaginn 21. desember, er á dómþingi Héraðsdóms Reykjavíkur, sem háð er í Dómhúsinu við Lækjartorg af Pétri Guðgeirssyni, héraðsdómara,  kveðinn upp dómur í sakamálinu nr. 2296/2001:  Ákæruvaldið (Svavar Pálsson) gegn Birni Árnasyni (Örn Clausen hrl.) og Emil Karli Bjarnasyni (Sveinn Andri Sveinsson hrl.) sem tekið var til dóms hinn 13. desember sl. að lokinni aðalmeðferð.

                Málið er höfðað með ákæru Lögreglustjórans í Reykjavík, dagsettri 13. nóvember sl. á hendur ákærðu, Birni Árnasyni, kt. 270446-4779, Kaplahrauni 39, Hafnarfirði, og Emil Karli Bjarnasyni, kt. 260859-2699, Kirkjubraut 7, Seltjarnarnesi,

“fyrir fikniefnalagabrot með að hafa staðið saman að innflutningi á 1974,34 g af hassi svo sem hér greinir:

I.              Ákærða Birni fyrir að hafa 27. febrúar 2001 flutt efnið hingað til lands í ágóðaskyni, en ákærði kom því fyrir í loftklæðningu í flugstjórnarklefa flugvélarinnar FI-783 í Liege í Belgíu og fékk meðákærða Emil Karl til að taka efnið þaðan eftir komu flugvélarinnar til Keflavíkurflugvallar, sbr. lið II.          Ákærða Emil Karli fyrir að hafa á Keflavíkurflugvelli sama dag sótt ofangreint efni um borð í flugvélina, sbr. I. lið, með því að opna hólf í loftklæðningu í flugstjórnarklefa flugvélarinnar FI-783 og fjarlægja efnið þaðan í því skyni að afhenda það meðákærða Birni, en tollverðir komu að ákærða um borð í vélinni með efnið í vörslum sínum.

Telst háttsemi ákærðu varða við 2. gr., sbr. 5. gr. og 6. gr., laga um ávana- og fikniefni nr. 65, 1974, sbr. lög nr. 60, 1980, sbr. 9.gr. laga nr. 75, 1982, sbr. lög nr. 13, 1985, sbr. lög nr. 68, 2001, og 2. gr., sbr. 14. gr. reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233, 2001, sbr. reglugerð nr. 490, 2001, sbr. áður 2. gr., sbr. 10. gr. reglugerðar um sölu og meðferð ávana- og fikniefna nr. 16, 1986.

Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar og jafnframt að ofangreind 1974,34 g af hassi, sem lögregla lagði hald á við rannsókn málsins, verði gerð upptæk samkvæmt 6. mgr. 5.gr. laga nr. 65, 1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233, 2001, sbr. áður 2. mgr. 10. gr. reglugerðar nr. 16, 1986.

Í málinu gera Flugleiðir - Frakt ehf., kt. 471299-2359, kröfu um skaðabætur að fjárhæð kr. 4.701.174, auk vaxta og dráttarvaxta. Þá er af hálfu bótakrefjanda gerður fyrirvari við umkrafða bótafjárhæð hljótist aukinn kostnaður af meðferð málsins.”

Málavextir

                Ákærðu voru báðir flugvirkjar hjá Flugleiðum hf. þegar atvik málsins urðu.  Höfðu þeir unnið saman um árabil og voru kunningjar.  Hafði ákærði Björn flogið með farþegavél félagsins til Amsterdam nokkrum dögum fyrr og keypt þar hassið sem ákært er út af og komið því fyrir í tveimur leirbrúsum undan áfengi.  Tók hann sér svo far með flutningavél félagsins til baka og hafði komið leirbrúsunum fyrir í hólfi sem er fyrir ofan loftklæðningu rétt fyrir aftan flugstjórnarklefann.  Eftir að vélin var lent á Keflavíkurflugvelli fór meðákærði, Emil Karl, um borð í hana en hann hafði stillt svo til að það kæmi í hans hlut að framkvæma reglubundna skoðun í henni.  Höfðu ákærðu komið sér saman um það að hann tæki brúsana úr felustaðnum og afhenti ákærða, Birni, þá síðar fyrir utan flugstöðvarhúsið.  Hafði ákærði tekið brúsana úr hólfinu þegar tollvörður kom að honum og málið komst upp.  Verður nú gerð grein fyrir því sem fram hefur komið í aðalmeðferð málsins. 

                Ákærði, Björn, hefur sagt að hann hafi verið mikill hassneytandi og hafi hann ákveðið að fara til Amsterdam og kaupa hass þar við hagstæðu verði.  Kveðst hann hafa sett sig í símsamband við vinnufélaga sinn, meðákærða, þegar hann sá að hann yrði á vakt þegar hann kæmi til landsins, um viku áður.  Hafi þeir sammælst um að ákærði hitti hann heima hjá honum.  Minnir hann að hann hafi sagt við meðákærða að hann vildi hitta hann út af ákveðnu máli en ekki sagt meira um tilefnið.  Hafi hann svo sagt meðákærða þegar þeir hittust að hann ætlaði að flytja inn flöskur en ekki hafi hann talað um hvað væri í flöskunum, annað en að það væri eitthvað gott.  Hafi meðákærði tekið vel í það að koma flöskunum “í gegn” fyrir hann.  Hann kveðst hafa útskýrt þetta umstang sitt fyrir meðákærða með því að hann væri ókunnugur því hvernig staðið væri að slíku, sem hafi verið satt.  Aðspurður segir ákærði að verið geti að hann hafi sagt við meðákærða að hann myndi launa honum vel þetta viðvik en ekki kannast hann við að hann hafi beinlínis talað um greiðslu fyrir þetta.  Um klukkan rúmlega sex um morguninn þegar ákærði kom til landsins hafi þeir meðákærði hist fyrir utan vélina og kveðst ákærði þá hafa sagt honum hvar hann hefði falið flöskurnar.  Ekki muni hann hvort þeim hafi farið annað á milli en þetta, nema þá að hann hafi sagt meðákærða að allt væri í lagi.  Hann hafi svo farið inn í fríhöfnina með áhöfninni. Meðákærði hafi gefið í skyn að hann myndi athuga þetta, “hvernig landið lægi”.  Ákærði vill taka það fram að á þessum tíma hafi hann verið langt leiddur í vímuefnaneyslu og muni hann ekki gjörla hvernig þetta atvikaðist allt.  Ákærði kveðst hafa átt efnið einn og segir hann meðákærða ekki hafa vitað hvað væri í flöskunum.  Kveðst hann ekki hafa gefið honum til kynna á nokkurn hátt að annað en áfengi væri í flöskunum.  Hann kveðst hafa ætlað efnið til eigin neyslu.  Aftur á móti hafi lögreglumaður sem tók af honum skýrslu spurt hvort hann hefði ætlað að selja af efninu og hafi hann þá sagt að hugsanlega hefði hann selt eitthvað af því til þess að hafa upp í kostnað af þessu tiltæki en fyrir fram hafi það ekki verið tilgangurinn. 

                Ákærði, Emil Karl, hefur skýrt frá því að þeir meðákærði hefðu þekkst og verið vinnufélagar.  Hefðu þeir ekki átt nein samskipti utan vinnutíma.  Björn hefði hringt í sig einn daginn og spurt hvort þeir gætu hist og talað saman.  Hafi orðið úr að Björn kom heim til ákærða og ákærði fór út í bíl til hans.  Hafi Björn ekið um og spurt sig hvort hann væri til í það að kippa með sér tveimur flöskum.  Kveðst ákærði hafa samþykkt það og ekki spurt út í það hvaða áfengi þetta væri.  Segir ákærði að honum hafi fundist það einkennilegt að meðákærði hefði gert sér ferð til þess að tala við hann um tvær áfengisflöskur og hafi hann haft orð á því við eiginkonu sína og Rafnar, vin sinn.  Hann man hins vegar ekki til þess að hafa haft orð á þessu við meðákærða en þó geti hann hafa gert það eins og fram komi í lögregluskýrslu hans.  Meðákærði hafi boðið honum 30 - 40 “kúlur” sem greiðslu fyrir viðvikið.  Hann kveðst ekki hafa vitað um hvað meðákærði átti við með þessu og ekkert hugsað út í það, enda hafi hann litið á þetta sem vinargreiða.  Hann kveðst hafa tekið inn flöskur áður fyrir félaga sína og aldrei tekið neitt fyrir það.  Ákærði segir að þeir hefðu hist í landganginum og Björn þá sagt hvar flöskurnar væru.  Hann kveðst hafa spurt meðákærða hvers vegna hann hefði falið flöskurnar með þessum hætti en Björn engu svarað til um það.  Hann segist hafa álitið að Björn væri svona stressaður út af þessu smygli, en þannig væru sumir gerðir.  Að vísu sé þess að gæta að menn geti misst vinnuna ef upp um þá kemst.  Hann hafi þó aldrei grunað að um neitt annað væri að ræða en áfengi í flöskunum. Ákærði segist hafa sagt Birni að hann hefði ekki tíma til þess að hitta hann við flugstöðina til þess að láta hann fá flöskurnar því mikið væri að gera.  Myndi hann aka þeim heim til hans.   

                Eiginkona ákærða, Emils Karls, Birna Dís Traustadóttir, hefur skýrt frá því að ákærði, Björn, hafi hringt í mann hennar eitt kvöld og mælt sér mót við hann.  Hafi maður hennar jafnvel talið að Björn væri að bjóða honum vinnu í útlöndum.  Hann hafi þó haft orð á því að það væri skrítið að Björn hefði ekki viljað tala um það í síma heldur viljað hitta hann.  Björn hafi svo komið að hitta hann.  Hafi þeir farið saman í bíl Björns.  Eftir á hafi maður hennar sagt að Björn hefði beðið sig um að taka fyrir sig tvær flöskur úr flugvélinni þegar hann kæmi frá útlöndum.  Ekki hafi verið talað um hvað yrði í flöskunum og hafi maður hennar haft á orði að allt þetta umstang hjá Birni út af smáræði væri undarlegt.

                Rafnar Þór Guðbjartsson sem er vinur ákærða, Emils Karls, hefur skýrt frá því að Emil Karl hafi sagt honum frá því í símtali að ákærði, Björn, hefði hringt í hann og beðið hann um að hitta sig en ekki sagt út af hverju.  Seinna hafi Emil Karl hringt aftur í sig og þá sagt að Björn hefði komið að hitta hann og beðið hann um að taka fyrir sig 2 eða 3 flöskur þegar hann kæmi aftur frá útlöndum.  Hafi Emil Karl haft á orði að sér fyndist þetta undarlega mikið umstang út af slíku lítilræði.  Þeir hafi ekki rætt um hvað gæti búið að baki þessu og sjálfur hafi hann ekki velt því fyrir sér.

Niðurstaða

                Ákærði, Björn, hefur viðurkennt það athæfi sem hann er saksóttur fyrir.  Vegna magns efnanna verður að telja að hann hafi ætlað þau að verulegu leyti til sölu.  Er hann orðinn sekur um brot gegn þeim lagaákvæðum sem tilfærð eru í ákærunni.

                Ákærði, Emil Karl, hefur neitað því frá upphafi að hann hafi vitað að fíkniefni væri í flöskunum tveimur.  Hafa tvö vitni borið með honum um það, en þau geta ekki talist vera óvilhöll.  Ákærði hefur sagt að honum hafi fundist tilstandið hjá meðákærða einkennilegt miðað við að um tvær áfengisflöskur var að ræða.  Undir það hlýtur dómurinn að taka.  Þá verður að líta til þess að ákærði hefur sagt að Björn hafi boðið honum greiðslu fyrir viðvikið og eins hins að ákærða hlaut að vera ljóst að Björn gat tekið flöskurnar með sér í tollafgreiðslu og greitt af þeim innflutningsgjald.  Enda þótt ósannað sé að Björn hafi beinlínis sagt ákærða að eitthvað annað væri í flöskunum en áfengi verður vegna málsatvikanna að telja að ákærði hafi sýnt af sér stórkostlegt gáleysi um það að fíkniefni gætu verið í þeim, þegar hann tók að sér að hjálpa meðákærða að flytja þær inn.  Hefur hann því brotið þau refsiákvæði sem tilfærð eru í ákærunni.  

Refsing, viðurlög, skaðabætur og sakarkostnaður

                Ákærði, Björn, á nokkurn sakferil sem nær til ársins 1963.  Meðal annars var honum refsað 1977 og 1987 fyrir fíknilagabrot.  Refsing ákærða þykir hæfilega ákveðin fangelsi í 6 mánuði. 

Ákærði, Emil Karl, hefur ekki áður gerst sekur um refsilagabrot.  Þykir refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í 4 mánuði.  Rétt þykir að fresta framkvæmd refsingarinnar og ákveða að hún falli niður að liðnum 3 árum, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga.

Dæma ber ákærðu til þess að sæta upptöku á 1974,34 g af hassi samkvæmt tilfærði lagaheimild.

                Flugleiðir - Frakt ehf. gera kröfu til þess að ákærðu verði dæmdir til þess að greiða skaðabætur eins og nánar er rakið í ákærunni.  Byggir félagið kröfu sína meðal annars á því að yfirvöld hafi kyrrsett vél félagsins sem fíkniefnin voru flutt með og að félagið hafi vegna samnings við flutningafyrirtækið TNT verið nauðbeygt til þess út­vega flugvél til vöruflutninga í hennar stað.  Engin gögn eru í málinu um kyrrsetningu þessa og ekki er að finna í því eintak af samningi þeim sem félagið skírskotar til.  Verður að telja að bótakrafan sé vanreifuð af félagsins hálfu og ber að vísa henni frá dómi.

Dæma ber ákærða, Björn, til þess að greiða verjanda sínum, Erni Clausen hrl., 110.000 krónur í réttargæslu- og málsvarnarlaun og ákærða, Emil Karl, til þess að greiða verjanda sínum, Sveini Andra Sveinssyni hrl., 180.000 krónur í réttargæslu- og málsvarnarlaun.  Allan annan sakarkostnað ber að dæma ákærðu til þess að greiða óskipt.

DÓMSORÐ:

Ákærði, Björn Árnason, sæti fangelsi í 6 mánuði. 

Ákærði, Emil Karl Bjarnason, sæti fangelsi í 4 mánuði.  Frestað er framkvæmd refsingar hans og fellur hún niður að liðnum 3 árum, haldi ákærði almennt skilorð.

Ákærðu sæti upptöku á 1974,34 g af hassi.

                Ákærði, Björn, greiði verjanda sínum, Erni Clausen hrl., 110.000 krónur í réttargæslu- og málsvarnarlaun og ákærði, Emil Karl, greiði verjanda sínum, Sveini Andra Sveinssyni hrl., 180.000 krónur í réttargæslu- og málsvarnarlaun.  Annan sakarkostnað greiði ákærðu óskipt.