Hæstiréttur íslands

Nr. 2025-67

Fjara ehf. (Lúðvík Bergvinsson lögmaður)
gegn
Rapyd Europe hf. (Arnar Þór Stefánsson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Samningur
  • Efndir
  • Riftun
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Ása Ólafsdóttir, Björg Thorarensen og Skúli Magnússon.

2. Með beiðni 10. apríl 2025 leitar Fjara ehf. leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 13. mars sama ár í máli nr. 93/2024: Fjara ehf. gegn Rapyd Europe hf. og gagnsök. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.

3. Leyfisbeiðandi höfðaði mál þetta á hendur gagnaðila og krafði hann aðallega um greiðslu 66.600.900 króna en til vara 10.370.947 króna ásamt vöxtum. Ágreiningur aðila lýtur einkum að því hvort samningur hafi komist á um kaup gagnaðila á þjónustu leyfisbeiðanda í tengslum við rekstur tölvukerfis.

4. Með héraðsdómi var gagnaðili sýknaður af aðalkröfu leyfisbeiðanda en gert að greiða honum 7.470.947 krónur. Í niðurstöðu Landsréttar var rakið að gögn málsins og framburður vitna fyrir héraðsdómi renndu ekki stoðum undir þann málatilbúnað leyfisbeiðanda að komist hefði á samkomulag í samræmi við þau samningsdrög sem hann sendi gagnaðila 1. október 2018. Var því staðfest niðurstaða hins áfrýjaða dóms um sýknu gagnaðila af aðalkröfu leyfisbeiðanda. Var gagnaðili einnig sýknaður af varakröfu leyfisbeiðanda þar sem ekkert lægi fyrir sem styddi að gagnaðili hefði valdið honum fjártjóni með saknæmri og ólögmætri háttsemi. Ekki gæti komið til álita, eins og málatilbúnaði væri háttað að líta á varakröfu leyfisbeiðanda sem kröfu um ógreidda vinnu og gagnaðila yrði á grundvelli hennar mörgum árum eftir að samningssambandi aðila lauk gert að greiða fyrir vinnu samkvæmt tímagjaldi sem hann hefði aldrei samþykkt. Var gagnaðili því sýknaður af öllum kröfum leyfisbeiðanda.

5. Leyfisbeiðandi byggir á því að niðurstaða málsins geti haft fordæmisgildi um skilyrði þess að munnlegur samningur komist á. Þá telur leyfisbeiðandi rangt það mat Landsréttar að greiðsla gagnaðila á útgefnum reikningum leyfisbeiðanda fyrir umsamda þjónustu í átta mánuði styðji ekki nægilega við það að samkomulag milli aðila hafi komist á. Fyrir liggi tölvubréf þar sem framkvæmdastjóri gagnaðila vísi til þjónustunnar „Tölvudeildin þín“. Leyfisbeiðandi gerir athugasemdir við það að niðurstaða dómsins sé grundvölluð á innanhússamskiptum gagnaðila sem hafi að mestu leyti átt sér stað áður en samningurinn tók gildi. Þá liggi fyrir að umfangsmikil breyting hafi orðið á samstarfi aðila 1. október 2018 í samræmi við samningsdrögin og sé engin önnur skýring á þeirri breytingu en að samningurinn hafi tekið gildi. Að lokum byggir leyfisbeiðandi á því að niðurstaða Landsréttar um varakröfu hans sé efnislega röng og krafan og grundvöllur hennar sé skýr.

6. Að virtum gögnum málsins verður hvorki litið svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að formi eða efni, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því hafnað.