Hæstiréttur íslands

Nr. 2020-110

LEI Packaging LLC (Þórir Júlíusson lögmaður)
gegn
S640189 ehf. (Jón Ögmundsson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Skaðabætur
  • Samningur
  • Lagaskil
  • Erlendur dómur
  • Erlend réttarregla
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Karl Axelsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Með beiðni 3. apríl 2020 leitar LEI Packaging LLC eftir leyfi Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 6. mars 2020 í málinu nr. 333/2019: LEI Packaging LLC gegn S640189 ehf., á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. S640189 ehf. leggst gegn beiðninni.

Mál þetta lýtur að kröfu leyfisbeiðanda um greiðslu skaðabóta vegna tjóns sem leiddi af tilteknum göllum á pökkunarvél sem hann taldi gagnaðila bera ábyrgð á samkvæmt bandarískum réttarreglum um svokölluð þriðjamannsáhrif og ábyrgð undirverktaka. Leyfisbeiðandi hafði gert samning við kanadískt fyrirtæki um hönnun, smíði og uppsetningu á pökkunarvél en það fyrirtæki gerði svo verksamning við gagnaðila um nánar tiltekna verkþætti sem hann skyldi annast við smíði vélarinnar sem undirverktaki. Taldi leyfisbeiðandi að gagnaðili hefði valdið honum tjóni með aðgerðum sínum og aðgerðarleysi í tengslum við vinnu hans við pökkunarvélina og uppsetningu hennar. Byggði hann meðal annars á því að skaðabótakrafan hefði þegar verið staðfest með dómi alríkisdómstóls í Minnesota-ríka í Bandaríkjunum.

Dómur gekk í málinu í héraði 12. apríl 2019. Með honum var gagnaðili sýknaður af kröfu leyfisbeiðanda þar sem ekki þótti sannað að gagnaðili hefði tekið að sér og borið ábyrgð á  hönnun, framleiðslu, uppsetningu eða umsjón með pökkunarvélinni. Landsréttur staðfesti niðurstöðu héraðsdóms með fyrrgreindum dómi en á þeim grundvelli að leyfisbeiðandi hefði ekki fært fram rök fyrir því að verksamningur gagnaðila við kanadíska fyrirtækið hefði haft sterkust tengsl við Bandaríkin í skilningi 4. gr. laga nr. 43/2000 um lagaskil á sviði samningaréttar. Af þessum sökum hafi um grundvöll skaðabótakröfunnar farið eftir íslenskum lögum en leyfisbeiðandi hafi ekki fært fram neinar skýringar á þeim ákvæðum íslenskra laga sem gætu orðið grundvöllur skaðabótaábyrgðar hans sem undirverktaka við gerð vélarinnar.

Leyfisbeiðandi byggir á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi um sönnunargildi bandarískra dóma hér á landi, sem og sönnunargagna sem aflað er fyrir erlendum dómstólum eftir þarlendum réttarreglum. Þá vísar leyfisbeiðandi til þess að málið varði mikilvæga fjárhagslega hagsmuni sína auk þess sem dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til. Landsréttur hafi meðal annars gert mistök við beitingu 4. gr. laga nr. 43/2000 og ranglega komist að þeirri niðurstöðu að fyrrgreindur verksamningur hafi ekki haft sterkust tengsl við Bandaríkin heldur Ísland. Þá sé mat Landsréttar á sönnunargildi dóms alríkisdómstóls í Minnesota-ríki bersýnilega rangt og í ósamræmi við fordæmi Hæstaréttar.

Að virtum gögnum málsins er hvorki unnt að líta svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi umfram dómsúrlausnir sem þegar hafa gengið né að það varði mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Er beiðninni því hafnað.