Hæstiréttur íslands

Mál nr. 512/2016

Þorvaldur Helgi Auðunsson (Hulda Rós Rúriksdóttir hrl.)
gegn
Akureyrarkaupstað (Arnbjörg Sigurðardóttir hrl.)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Lögsaga
  • Vanreifun
  • Frávísunarúrskurður felldur úr gildi

Reifun

Þ krafðist þess að A yrði dæmdur til að greiða honum vangreidd laun vegna starfa sinna sem slökkviliðsstjóri. Málinu var vísað frá héraðsdómi með vísan til þess að samkvæmt kjarasamningi aðilanna skyldi ágreiningi skotið til sérstakrar samstarfsnefndar og því væri sakarefni málsins undanskilið lögsögu dómstóla. Í dómi Hæstaréttar kom hins vegar fram að í umræddum samningi væri annars vegar rætt um skyldu til að vísa ágreiningi til samstarfsnefndarinnar og hins vegar um heimild aðila þar að lútandi. Ákvæðin væru misvísandi og því ekki afdráttarlaus um að samið hefði verið með skýrum og ótvíræðum hætti um að sakarefni málsins yrði skilið undan lögsögu dómstóla. Var því hafnað að vísa málinu frá héraðsdómi á þeim forsendum. Þá var því hafnað að samningur aðila við starfslok Þ, þar sem fram hefði komið að hann gerði ekki frekari kröfu um launaleiðréttingar, leiddu til þess að vísa bæri málinu frá og í því sambandi tekið fram að teldist samkomulagið fela í sér skuldbindingu af þeim toga myndi það varða niðurstöðu um efni máls en ekki valda frávísun þess. Loks var ekki talið að vísa bæri málinu frá vegna vanreifunar. Var hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Benedikt Bogason og Greta Baldursdóttir.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 7. júlí 2016, en kærumálsgögn bárust réttinum 19. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 28. júní 2016, þar sem máli sóknaraðila gegn varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

I

Samkvæmt hinum kærða úrskurði var máli þessu vísað frá héraðsdómi sökum þess að aðilar hafi með kjarasamningi samið með skýrum og ótvíræðum hætti um að sakarefni málsins væri undanskilið lögsögu dómstóla, sbr. 1. mgr. 24. gr. laga nr. 91/1991.

Ekki er um það deilt í málinu að aðilar þess séu bundnir af kjarasamningi Sambands íslenskra sveitarfélaga og Kjarafélags tæknifræðingafélags Íslands og Stéttarfélags verkfræðinga frá 29. júní 2011. Samkvæmt grein 11.2.1 í samningnum skulu samningsaðilar hvor um sig skipa samstarfsnefnd sem er formlegur vettvangur samskipta þeirra á samningstímanum og hefur sú nefnd það hlutverk að fjalla um framkvæmd og túlkun kjarasamningsins og lausn ágreiningsefna. Komi upp ágreiningur milli þeirra sem annast framkvæmd samningsins og þeirra sem undir hann heyra, svo sem vegna skilgreiningar starfa og röðun í launaflokka, „skal þeim ágreiningi vísað til samstarfsnefndar.“  Þá segir í grein 11.2.2: „Hvor aðili fyrir sig getur skotið ágreiningsefnum til samstarfsnefndanna og kallað þær til starfa.“

II

Í 1. mgr. 24. gr. laga nr. 91/1991 er mælt fyrir um að dómstólar hafi vald til að dæma um hvert það sakarefni sem lög og landsréttur ná til, nema það sé skilið undan lögsögu þeirra eftir lögum, samningi, venju eða eðli máls. Samkvæmt 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar ber öllum réttur til að fá úrlausn um réttindi sín og skyldur með réttlátri málsmeðferð innan hæfilegs tíma fyrir óháðum og óhlutdrægum dómstóli. Þessar reglur um rétt manna til aðgangs að dómstólum útiloka þó ekki að þeir geti gert samning um að tiltekinn ágreiningur verði ekki borinn undir dómstól en gera verður þá kröfu að slíkur samningur um afsal á réttinum sé skýr og ótvíræður.

Eins og að framan er rakið er í grein 11.2.1 í kjarasamningnum mælt fyrir um að ágreiningi milli þeirra sem annast framkvæmd samningsins og þeirra sem undir hann heyra skuli vísað til samstarfsnefndar og í grein 11.2.2 er kveðið á um að hvor aðili fyrir sig geti skotið ágreiningnum til nefndarinnar. Þannig er annars vegar rætt um skyldu til að vísa ágreiningi til samstarfsnefndarinnar og hins vegar að hvor aðili geti skotið ágreiningi til hennar. Eru ákvæði þessi misvísandi og því ekki afdráttarlaus um að samið hafi verið með skýrum og ótvíræðum hætti um að sakarefni málsins verði skilið undan lögsögu dómstóla. Samkvæmt því verður málinu ekki vísað frá héraðsdómi á þeim forsendum.

Varnaraðili byggir frávísunarkröfu sína jafnframt á því að með samkomulagi um starfslok sóknaraðila 1. júní 2015 hafi meðal annars verið kveðið á um að hann gerði ekki frekari eða aðrar kröfur um launaleiðréttingar en þar hefði verið kveðið á um og því eigi sakarefni málsins ekki undir dómstóla. Um þetta er þess að gæta að hafi samkomulagið falið í sér skuldbindingu af þessum toga myndi það varða niðurstöðu um efni málsins en ekki geta valdið því að málinu verði vísað frá dómi.

Þá telur varnaraðili að málatilbúnaður sóknaraðila sé í andstöðu við e. lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991. Í stefnu er greint frá atvikum máls svo og þeim málsástæðum sem sóknaraðili byggir málsókn sína á og fer ekki milli mála hvert sakarefnið er. Verður málinu því ekki vísað frá vegna vanreifunar.

Samkvæmt því sem nú hefur verið rakið verður hinn kærði úrskurður felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar.

Varnaraðila verður gert að greiða sóknaraðila málskostnað í héraði og kærumálskostnað sem ákveðinn verður í einu lagi eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar.

Varnaraðili, Akureyrarkaupstaður, greiði sóknaraðila, Þorvaldi Helga Auðunssyni, samtals 500.000 krónur í málskostnað í héraði og kærumálskostnað.

                                                                           

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 28. júní 2016.

Mál þetta, sem þingfest var 10. desember 2015, var tekið til úrskurðar um frávísunarkröfu stefnda hinn 24. maí sl.

Stefnandi er Þorvaldur Helgi Auðunsson, kt. 060273-3839, Leirdal 38, Reykjanesbæ.  Stefndi er Akureyrarbær, kt. 410169-5229, Geislagötu 9, Akureyri.

Stefnandi gerir þær efniskröfur í málinu að stefndi verði dæmdur til að greiða honum vangreidd laun að fjárhæð 1.603.701 króna ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38, 2001 um vexti og verðbætur frá 11. október 2015 til greiðsludags.  Þá krefst stefnandi þess að stefndi verði dæmdur til að greiða honum málskostnað að skaðlausu.

Stefndi gerir þá kröfu að dómkröfum stefnanda verði vísað frá dómi, en til vara krefst hann sýknu.  Einnig krefst stefndi málskostnaðar.

Stefnandi krefst þess að frávísunarkröfu stefnda verði hrundið.  Er sá þáttur málsins hér til umfjöllunar.

I.

Samkvæmt málavaxtalýsingum í stefnu og greinargerð málsaðila eru helstu málsatvik þau, að stefnandi var í kjölfar auglýsingar ráðinn til starfa sem slökkviliðsstjóri Slökkviliðs Akureyrar með ráðningarsamningi, dagsettum 20. desember 2013.  Nokkur aðdragandi var að ráðningunni, en í ráðningarsamningi var stefnanda raðað í launaflokk 45 samkvæmt kjarasamningi samninganefndar Sambands íslenskra sveitarfélaga og Kjarafélags Tæknifræðingafélags Íslands og Verkfræðingafélag Íslands.  Stefnandi hóf störf sem slökkviliðsstjóri þann 1. desember nefnt ár.  Samhliða ráðningu við stefnanda undirrituðu málsaðilar „samkomulag um greiðslu stjórnendaálags“, en þar var m.a. álag stefnda skilgreint nánar.

Fyrir liggur í máli þessu að fyrir undirritun stefnanda á nefnda gerninga hafði hann lýst óánægju sinni með þann launaflokk, sem honum var boðinn af hálfu stefnda.  Liggur fyrir bréf hans til stefnda, dagsett 30. ágúst 2013, þar sem hann tilkynnti að hann ætlaði að þiggja stöðu slökkviliðsstjóra, en jafnframt að hann ætlaði að leita til svokallaðrar samráðsnefndar varðandi þau launakjör, sem aðilar hefðu ekki náð saman um.  Þar um vísaði stefnandi til rafbréfs sem hann hafði sent stefnda þann 1. júlí 2014, þar sem hann hefði lýst því að hann teldi laun sín ekki vera rétt miðað við forsendur fyrrnefnds kjarasamnings og þá sérstaklega að því er varðaði atriði sem kvæði á um „sérstakar hæfniskröfur“, stjórnandaálag og enn fremur sökum þess að ekki væri starfandi aðstoðarslökkviliðsstjóri hjá slökkviliðinu.  Óumdeilt er með aðilum að stefndi móttók umrætt rafbréf, en ágreiningur er með aðilum um hver hafi verið viðbrögð hans.

Þann 3. mars 2015 óskaði stefnandi eftir starfslokum hjá stefnda.  Að loknum starfslokaviðræðum rituðu málsaðilar undir starfslokasamning stefnanda, en hann er dagsettur 1. júní 2015.

Í máli þessu byggir stefnandi m.a. á því að umræddur starfslokasamningur fjalli aðeins um starfslok hans og uppgjör launa á tímabilinu frá 1. júní – 21. nóvember 2015, auk uppgjörs orlofs.  Því séu óuppgerð laun hans í ljósi þeirra krafna sem hann hefði haft uppi fyrir ráðningu, sbr. áðurnefnt bréf frá 30. ágúst 2013.

Af hálfu stefnda er greindum málsástæðum hafnað.  Vísar hann m.a. til ákvæða starfslokasamnings aðila og staðhæfir að þar hafi verið kveðið á um að hvorugur aðili ætti frekari kröfur á hinn, aðrar en þær sem þar hafi verið sérstaklega tilteknar.

II.

Stefndi reisir frávísunarkröfu sína á því að í kjarasamningum samninganefndar Sambands íslenskra sveitarfélaga við viðsemjendur séu ákvæði um samstarfsnefndir.  Nefndir þessar séu skipaðar jafnmörgum fulltrúum sambandsins og frá hverju stéttarfélagi, en þær hafi það hlutverk að útfæra ýmsa kjaraþætti á samningstímanum, auk þess að leiða til lykta ágreiningsatriði sem upp komi við framkvæmd kjarasamninga.

Stefndi vísar til þess að í grein 11.2 í kjarasamningi Sambands íslenskra sveitarfélaga og Kjarafélags tæknifræðingafélags Íslands og Stéttarfélags verkfræðinga sé slíkt ákvæði.  Þar sé þannig kveðið á um að aðilar eigi að vísa slíkum ágreiningi til samstarfsnefndar.  Enn fremur segi þar að hvor aðili um sig geti skotið ágreiningsefnum til nefndarinnar og kallað hana til starfa.  Séu samningsaðilar bundnir af niðurstöðu nefndarinnar sé hún einhuga um að gera breytingar.  Byggir stefndi á því að samkvæmt þessu ákvæði í gildandi samningi aðila hafi stefnanda verið skylt að vísa fyrrnefndum ágreiningsatriðum til samstarfsnefndar áður en hann fór með mál sitt fyrir dómstóla.  Það hafi stefnandi ekki gert og þar sem sakarefnið eigi ekki undir dómstóla beri að vísa máli hans frá dómi með vísan til 1. mgr. 24. gr. laga nr. 91, 1991 um meðferð einkamála í héraði.

Þá byggir stefndi frávísunarkröfu sína á því að með fyrrnefndum starfslokasamningi aðila frá 1. júní 2015 hafi m.a. verið kveðið á um að stefnandi gerði ekki frekari eða aðrar kröfur um launaleiðréttingar en þar hefði verið kveðið á um.  Byggir stefndi á því að nefnt ákvæði hafi í reynd verið í samræmi við bréf stefnanda til bæjarstjóra stefnda, dagsett 3. mars sama ár, en þar hafi hann sagt í niðurlagi: „... ef samkomulag næst, þá mun ég ekki hefja nein mál gegn bænum, hvorki núna né síðar.“  Stefndi byggir á því að stefnandi sé bundinn af þessu, enda hafi hann engan fyrirvara gert við undirritun starfslokasamningsins.  Þá hafi stefndi efnt samninginn að fullu.  Vegna þessa eigi sakarefni máls þessa ekki undir dómstóla, sbr. ákvæði fyrrnefndrar lagagreinar einkamálalaganna, og beri því að vísa því frá dómi.

Loks byggir stefndi frávísunarkröfu sína á því að sundurliðun kröfugerðar, en einnig málsástæðum, lagatilvísunum og reifun stefnanda, sé svo áfátt af hans hálfu að dómur verði ekki lagður á málið.  Því beri að vísa málinu frá dómi með vísan til e-liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91, 1991.

Stefnandi mótmælir öllum málsástæðum og lagarökum stefnda varðandi frávísun málsins og krefst þess að þeim verði öllum hafnað.  Í málflutningi fyrir dómi um frávísunarkröfu stefnda gerði stefnandi grein fyrir málsástæðum og lagarökum fyrir kröfu sinni.

Stefnandi byggi á því að hinn efnislegi ágreiningur málsins eigi undir almenna dómstóla eða félagsdóm, en hann hafi haft val þar um.

Stefnandi byggir á því að ákvæði í kjarasamningi aðila, grein 11.2, sé ekki skýr, og þ. á m. um að aðilum beri að beina ágreiningi sínum til sérstakrar samstarfsnefndar.  Þar sé um að ræða valkvæða leið og varði því ekki frávísun málsins að hann hafi ekki borið ágreining sinn við stefnda undir nefndina.

Þá byggir stefnandi á og áréttar að ágreiningur aðila um ákvæði starfslokasamnings varði efnishlið málsins.  Hann byggir á því að í stefnu sé rækilega lýst á hverju kröfur hans séu reistar og hafi stefndi tekið til efnislegra varna þar um.  Því séu kröfur hans nægilega skýrar, dómtækar og málatilbúnaður hans að öðru leyti nægjanlega í samræmi við áskilnað réttarfarslaga.

III.

Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. laga nr. 91, 1991 um meðferð einkamála hafa dómstólar vald til að dæma um hvert það sakarefni sem lög og landsréttur ná til nema það sé skilið undan lögsögu þeirra samkvæmt lögum, samningi, venju eða eðli sínu.  Eigi mál samkvæmt þessu ekki undir dómstóla, vísar dómari máli frá dómi.

Í 1. mgr. 3. gr. laga nr. 80, 1938 um stéttarfélög og vinnudeilur segir að stéttarfélag ráði málefnum sínum sjálft með þeim takmörkunum, sem sett eru í lögum.  Þá segir að meðlimir stéttarfélaga séu bundnir við löglega gerðar samþykktir og samninga þess félags og stéttarsambands þess sem launamaður er í.

Að mati dómsins eru málsaðilar bundnir af kjarasamningi Sambands íslenskra sveitarfélaga og Kjarafélags tæknifræðingafélags Íslands og Stéttarfélags verkfræðinga um kaup og kjör, og þar með grein 11.2.1, þess samnings sem hér á við, en í greininni segir:

Samningsaðilar skipa hvor um sig samstarfsnefnd sem er formlegur vettvangur samskipta aðila á samningstímanum.  Samstarfsnefndin hefur það hlutverk að fjalla um framkvæmd og túlkun kjarasamnings þessa og lausn ágreiningsefna.  Komi upp ágreiningur milli þeirra sem annast framkvæmd samningsins og þeirra sem undir hann heyra, s.s. vegna skilgreiningar starfa og röðun í launaflokka, skal þeim ágreiningi vísað til samstarfsnefndar.

Þá segir í grein 11.2.2 kjarasamningsins: „Hvor aðili fyrir sig getur skotið ágreiningsefnum til samstarfsnefndanna og kallað þær til starfa.

Að mati dómsins fela ofangreind ákvæði í sér skyldu en ekki einungis heimild til að leita úrlausnar varðandi framkvæmd og túlkun kjarasamningsins og þar á meðal um skilgreiningu starfa og röðun í launaflokka, enda fer það ekki gegn ákvæðum 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar.

Vegna þessa lítur dómurinn svo á að aðilar kjarasamningsins, sem stefnandi er bundinn af, hafi samið með skýrum og ótvíræðum hætti um að sakarefni þessa máls sé undanskilið lögsögu dómstóla og því eigi dómurinn ekki úrlausnarvald um kröfu hans.  Samkvæmt því og með vísan til 1. mgr. 24. gr. laga nr. 19, 1991 ber því þegar af þeirri ástæðu að fallast á kröfu stefnda og vísa málinu frá dómi.

Eftir atvikum og með vísan til 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91, 1991 þykir rétt að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu.

Fyrir uppsögu dómsins var gætt ákvæða 115. gr. laga nr. 91, 1991.

Ólafur Ólafsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Máli þessu er vísað frá dómi.

Málskostnaður fellur niður.