Hæstiréttur íslands

Mál nr. 192/2000


Lykilorð

  • Kærumál
  • Fjárslit milli hjóna
  • Fjármál hjóna


Föstudaginn 19

 

Föstudaginn 19. maí 2000.

Nr. 192/2000.

Ingifríður Ragna Skúladóttir

(Brynjólfur Kjartansson hrl.)

gegn

Guðmundi Gunnarssyni

(Jóhannes Rúnar Jóhannesson hdl.)

 

Kærumál. Fjárslit milli hjóna. Fjármál hjóna.

Við opinber skipti til fjárslita milli I og G  krafðist I þess að vikið yrði frá helmingaskiptareglu 103. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993 með vísan til 2. mgr. 104. gr. sömu laga. Reisti I  kröfu sína á því að frá arfi eftir K, sem hún hlaut samkvæmt erfðaskrá, þar sem mælt hafði verið fyrir um að arfurinn skyldi vera séreign hennar, hefði verið dregin skuld hennar við K að fjárhæð 8.000.000 krónur, en fyrir eignir, sem kæmu til skipta I og G, hefði verið greitt af fénu. Talið var að þótt gögn málsins styrktu staðhæfingu I um að lánsfénu frá K hefði verið varið til kaupa á fasteign á samvistartíma I og G, skorti mjög á að viðhlítandi upplýsingar lægju að öðru leyti fyrir um fjármál aðilanna meðan þau voru samvistum og núverandi efnahag þeirra, en án slíkra upplýsinga væri ófært að leggja mat á hvort skilyrði væru til að beita ákvæði 2. mgr. 104. gr. laga nr. 31/1993. Var staðfestur úrskurður héraðsdóms um að hafna kröfu I.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 4. maí 2000, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 15. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 25. apríl 2000, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að vikið yrði á þann hátt frá helmingaskiptareglu 103. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993 við opinber skipti til fjárslita milli málsaðilanna að hún fengi greiddar 4.000.000 krónur af skýrri hjúskapareign varnaraðila. Kæruheimild er í 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Fyrir Hæstarétti gerir sóknaraðili sömu kröfu og áður er getið, auk þess að krefjast málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur um annað en málskostnað, sem sóknaraðila verði gert að greiða sér ásamt kærumálskostnaði.

Málið dómtekið í héraði 17. mars 2000. Við uppkvaðningu hins kærða úrskurðar 25. apríl sama árs var gætt ákvæða síðari málsliðar 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Eins og nánar greinir í úrskurði héraðsdómara reisir sóknaraðili dómkröfu sína á því að hún hafi staðið í skuld að fjárhæð 8.000.000 krónur við ömmu sína, Kristjönu Þorkelsdóttur, sem hafi látist 2. júlí 1998. Sóknaraðili hafi verið annar tveggja erfingja samkvæmt erfðaskrá Kristjönu, þar sem mælt hafi verið fyrir um að arfur sóknaraðila yrði séreign hennar. Við lok skipta á dánarbúi Kristjönu 30. desember 1998 hafi skuld sóknaraðila verið dregin frá arfshluta hennar. Málsaðilar hafi þá verið í hjúskap, en komið fyrir sýslumanninn í Reykjavík 5. júlí 1999 og leitað skilnaðar að borði og sæng. Opinber skipti fari nú fram til fjárslita milli aðilanna, en fyrrgreinda kröfu um að vikið verði þar frá helmingaskiptareglu reisir sóknaraðili á ákvæði 2. mgr. 104. gr. hjúskaparlaga.

Í málinu liggur fyrir skattframtal sóknaraðila 1991, auk sameiginlegra framtala aðilanna á árunum frá 1992 til 1995. Í málatilbúnaði þeirra er greint frá fasteignaviðskiptum, sem þau stóðu að á samvistartíma sínum. Hafa að auki verið lögð fram nokkur gögn um þau viðskipti, en til þeirra telur sóknaraðili að rekja megi áðurnefnda skuld við Kristjönu Þorkelsdóttur. Þótt gögn málsins styrki þá staðhæfingu sóknaraðila skortir mjög á að viðhlítandi upplýsingar liggi að öðru leyti fyrir um fjármál aðilanna meðan þau voru samvistum og núverandi efnahag þeirra, en án slíkra upplýsinga er ófært að leggja mat á hvort skilyrði séu til að beita fyrrnefndu lagaákvæði, sem sóknaraðili skírskotar til. Með þessari athugasemd verður hinn kærði úrskurður staðfestur með vísan til forsendna hans, að öðru leyti en um málskostnað.

Rétt er að aðilarnir beri hvor sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur um annað en málskostnað.

Málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður fellur niður.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 25. apríl 2000.

 

Mál þetta var þingfest fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur 4. febrúar sl.

Sóknaraðili er Ingifríður Skúladóttir, kt. 041067-3659, Suðurmýri 30, Seltjarnarnesi.

Varnaraðili er Guðmundur Gunnarsson, kt. 240767-4819, Garðsenda 19, Reykjavík.

Félagsbú málsaðila var tekið til opinberra skipta með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur uppkveðnum 1. október 1999.

Mál þetta barst Héraðsdómi Reykjavíkur hinn 29. desember 1999 með bréfi Steinunnar Guðbjartsdóttur hdl., skipaðs skiptastjóra í búi málsaðila, sem dagsett er sama dag.

Málið var tekið til úrskurðar hinn 17. mars sl. að loknum munnlegum málflutningi.

 

Dómkröfur:

 

Dómkröfur sóknaraðila eru þær að vikið verði frá helmingaskiptareglu 103. gr. laga nr. 31/1993 og sóknaraðilinn Ingifríður Ragna Skúladóttir fái greiddar 4.000.000 kr. af skírri hjúskapareign Guðmundar Gunnarssonar. Þá er þess krafist að varnaraðila verði gert að greiða sóknaraðila málskostnað að mati réttarins.

Dómkröfur varnaraðila eru þær að hann verði sýknaður af öllum kröfum sóknaraðila í málinu. Til vara er þess krafist að dómkröfur sóknaraðila verði stórlega lækkaðar. Í báðum tilvikum er þess krafist að sóknaraðila verði gert að greiða varnaraðila málskostnað að skaðlausu samkvæmt mati réttarins.

Málavextir:

 

Aðilar málsins gengu í hjónaband 18. júlí 1992 og eiga saman synina Guðmund Dór og Einar Kristján, fædda 16.09.1991 og Hrafnkel Skúla fæddan 09.09.1995. Þau slitu samvistum 16. maí 1999 og var beiðni um skilnað að borði og sæng lögð fram hjá sýslumanninum í Reykjavík þann 5. júlí 1999. Hinn 1. október 1999 var kveðinn upp úrskurður í Héraðsdómi Reykjavíkur um opinber skipti til fjárslita milli aðila og var Steinunn Guðbjartsdóttir hdl. skipuð skiptastjóri.

Á skattskýrslu sóknaraðila frá árinu 1991 er getið skuldar við dánarbú afa sóknaraðila, Einars J. Skúlasonar að fjárhæð 1.500.000 krónur. Á sameiginlegu skatt­framtali málsaðila frá árinu 1993 er skuld við dánarbú Einars J. Skúlasonar talin 1.000.000 krónur, en við ömmu sóknaraðila, Kristjönu Þorkelsdóttur, 2.000.000 krónur. Á skattframtali ársins 1994 er getið skuldar gagnvart sömu aðilum að fjárhæð 4.500.000 krónur. Á skattframtali ársins 1995 hækkar skuldin í 8.000.000 krónur og er óbreytt eftir það, eða allt þar til að Kristjana Þorkelsdóttir fellur frá 2. júlí 1998.

Sóknaraðili erfði til jafns við föður sinn allar eignir ömmu sinnar, er sat í óskiptu búi eftir eiginmann sinn. Sóknaraðili tók arf samkvæmt erfðaskrá og var arfurinn bundinn þeirri kvöð  að hann væri séreign í hjónabandi hennar. Skiptum á dánarbúi Kristjönu lauk hinn 30. desember 1998. Í erfðafjárskýrslu er getið framangreindrar skuldar sóknaraðila við dánarbúið, þar talin nema 11.000.000 krónum. Við skiptin var skuld þessi dregin frá arfshluta sóknaraðila.

Við skipti á félagsbúi málsaðila reis ágreiningur um það, hvort taka bæri tillit til greiðslu þessarar skuldar við skiptin. Með bréfi dagsettu 29. desember 1999, sendi skiptastjóri félagsbúsins Héraðsdómi Reykjavíkur ágreiningsefnið til úrlausnar í sam­ræmi við 122. gr. laga nr. 20/1991.

 

Málsástæður og lagarök:

 

Málsástæður og lagarök sóknaraðila:

Sóknaraðili kveður skuld þá sem tilgreind er í skattframtali aðila og í erfðafjárskýrslu dánarbús Kristjönu Þorkelsdóttur vera þannig tilkomna að þau hjónin Guðmundur og Ingifríður hafi fengið lán hjá Einari J. Skúlasyni og síðar Kristjönu, ekkju hans, til kaupa á íbúðarhúsnæði. Hækkun skuldarinnar tengist fasteignakaupum þeirra og framkvæmdum við innréttingar íbúðarhúsnæðis.

Sóknaraðili kveðst byggja kröfu sína aðallega á 2. mgr. 104. gr. laga nr. 31/1993, en þar segi, að frávik frá helmingaskiptareglu 103. gr. laganna geti átt sér stað, þegar annað hjóna hafi með vinnu, framlögum til framfærslu fjölskyldunnar eða á annan hátt stuðlað verulega að aukningu á þeirri fjáreign, sem falla ætti hinu hjóna í skaut eða hafi átt hlut að því að bæta fjáreign hins að öðru leyti. Sóknaraðili kveður það augljóst, að hún hafi átt hlut að því að bæta fjáreign varnaraðila með því að skuld þeirra við Kristjönu Þorkelsdóttur hafi verið gerð upp við skiptin á dánarbúi hennar. Ef skuldin hefði verið enn við lýði við skilnað aðilanna, hefði varnaraðili orðið að greiða helming skuldarinnar eða 4.000.000 krónur. Staða varnaraðila hafi þannig styrkst um fjórar milljónir króna við uppgjör á dánarbúi Kristjönu. Til þessa hafi sóknaraðili varið fjármunum sem voru hennar séreign, samkvæmt erfðaskrá ömmu hennar.

Raðhúsið að Suðurmýri 30 sé u.þ.b. 20 milljóna króna virði. Áhvílandi veðskuld við Íbúðarlánasjóð sé u.þ.b. 3.800.000 krónur og sé því nettó verðmæti eignarinnar u.þ.b. 16.200.000 krónur. Ljóst sé, að tekjur málsaðila á hjúskaparárum þeirra hafi vart nægt til framfærslu fjölskyldunnar. Því hafi eignarmyndunin stafað af fé, sem komi frá sóknaraðila.

Til vara byggir sóknaraðili á þeirri meginreglu að erfingi öðlist við dánarbússkipti sama rétt og arfláti átti. Óumdeilt sé að skuldin við dánarbú Kristjönu Þorkelsdóttur hafi verið gerð upp við skiptin á búi hennar. Sóknaraðili hafi við það fengið stöðu kröfuhafa gagnvart Guðmundi Gunnarssyni til greiðslu helmings skuldarinnar.

Málsástæður og lagarök varnaraðila:

Varnaraðili byggir á því, að ósannað sé og rangt, að allt það fé, sem sóknar­aðili hafi fengið að láni hjá ömmu sinni, Kristjönu Þorkelsdóttur, hafi runnið til íbúðar- eða húsakaupa hjónanna, heldur hafi hluti fjármunanna runnið jöfnum höndum til að greiða nauðþurftir fyrir fjölskylduna alla og til kaupa á lausa­fjármunum. Þá sé einnig mótmælt þeirri fullyrðingu sóknaraðila að allt það fé, sem bundið sé í sameiginlegri fasteign hjónanna að Suðurmýri 30, hafi komið frá sóknaraðila. Rétt sé að fram komi, að framlag varnaraðila til sameiginlegs húsnæðis aðila hafi ekki aðeins verið í formi beinna fjárframlaga, heldur ekki síður í formi vinnuframlags. Eignarhlutföll aðila í fasteigninni Suðurmýri 30 séu enda jöfn, þ.e. hvort um sig eigi helming eignarinnar, sem hljóti að segja sína sögu. Þá sé einnig rétt að fram komi, að tekjur fjölskyldunnar hafi ekki aðeins verið launatekjur, heldur verði einnig að taka tillit til framfærslulána Lánasjóðs íslenskra námsmann, barnabóta, vaxtabóta o.s.frv.

Varnaraðili kveðst mótmæla kröfu sóknaraðila í máli þessu og öllum máls­ástæðum fyrir þeirri kröfu. Dregið sé í efa að um hafi verið að ræða raunverulega skuld við Kristjönu Þorkelsdóttur, heldur hafi verið litið svo á, að framlög Kristjönu til heimilis aðila væri öðrum þræði hugsuð sem fjárhagsaðstoð hennar við heimilið, sem ekki væri gert ráð fyrir að endurgoldin yrði síðar. Varnaraðili telji, að allt eins megi líta á framlög Kristjönu til heimilisins sem gjöf hennar til aðila, en ekki sem raunverulega skuld.

Varnaraðili byggir mál sitt í öðru lagi á því, verði ekki fallist á framangreind rök hans, að umrædd skuld hafi verið greidd fyrir það tímamark sem greinir í 1. mgr. 104. gr. skiptalaga nr. 20/1991.  Skuldin við dánarbú Kristjönu hafi verið greidd upp af arfshluta Ingifríðar við skipti dánarbúsins, en skiptum hafi lokið þann 30. desember 1998.  Samkvæmt 1. mgr i.f. 104. gr. laga nr. 20/1991 skuli við uppgjör milli hjóna aðeins tekið tillit til skulda þeirra, sem stofnast hafi en ekki hafi verið greiddar við það tímamark.  M.ö.o kröfur, sem efndar hafi verið fyrir það tímamark, sem nefnt sé í 1. mgr. 104. gr. skiptalaga, komi ekki til skoðunar við fjárhagslegt uppgjör milli hjóna. Þegar af þeim sökum telji varnaraðili þessa skuld ekki eiga undir hin opinberu skipti.

Í þriðja lagi byggir varnaraðili á því, að óumdeilt sé, að skuldin við dánarbú Kristjönu Þorkelsdóttur hafi tilheyrt sóknaraðila, enda hafi verið um að ræða fé, sem sóknaraðili hafi fengið lánað hjá ömmu sinni, enda hafi skuldin verið greidd upp af sóknaraðila, þ.e. af arfshluta hennar í dánarbúi ömmu hennar. Með vísan til þessa taki varnaraðili undir þá skoðun, sem skiptastjóri hafi þegar látið í ljós, að um samruna réttar og skyldu hafi verið að ræða, er sóknaraðila féll arfur eftir ömmu hennar og að ekki sé hægt að fallast á það með sóknaraðila, að hún hafi erft stöðu arfláta sem kröfuhafi gegn hjónunum sameiginlega.

Í fjórða lagi byggir varnaraðili mál sitt á því, að hvort hjóna beri ábyrgð á þeim skuldbindingum sem á því hvíli, samkvæmt 67. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993, hvort sem þær hafi stofnast fyrir hjúskapinn eða síðar. Hjón beri hins vegar ekki ábyrgð á skuldum hvors annars samkvæmt íslenskum rétti. Varnaraðili beri því ekki ábyrgð á skuldum sóknaraðila, óháð því, hvort þær hafi orðið til fyrir hjúskapinn eða síðar. Samkvæmt þessu sé það beinlínis rangt, sem fram hafi komið í greinargerð sóknaraðila, þ.e. að “ef skuldin hefði enn verið við lýði við skilnað aðilanna hefði varnaraðili orðið að greiða helming skuldarinnar eða kr. 4.000.000,00.”

Í fimmta lagi sé á því byggt, að sóknaraðila hafi verið í sjálfs vald sett, hvernig hún ráðstafaði séreignafé sínu. Henni hafi þannig verið það frjálst að nýta hluta fjármuna sinna til að greiða skuldir sínar, þ.m.t. skuld sína við dánarbú ömmu sinnar. Ákvörðun sóknaraðila þar að lútandi skapi henni hins vegar engan rétt til að ganga að varnaraðila í tengslum við skilnað aðilanna. Sóknaraðila hefði einnig verið það í sjálfsvald sett að gefa hluta fjármuna sinna, maka sínum eða öðrum.

Í sjötta lagi styðjist afstaða varnaraðila við þau rök, að ákvæði 2. mgr. 104. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993 eigi alls ekki við í máli þessu eins og atvikum þess sé háttað. Engin efnisleg rök séu til þess að víkja frá almennum reglum um fjárskipti hjóna, með þeim hætti sem sóknaraðili krefjist í máli þessu, með hliðsjón af atvikum öllum.

Það sé meginregla við fjárskipti milli hjóna, að hvor maki um sig eigi tilkall til helmings úr skírri hjúskapareign hins, nema annað leiði af ákvæðum laga, sbr. 103. gr. laga nr. 31/1993.  Undantekningar frá þessari meginreglu beri að skýra þröngt, sam­kvæmt viðurkenndum lögskýringarreglum, sbr. einnig orðalag í 1. mgr. 104. gr. sl., þar sem heimilað sé að víkja frá almennum reglum um helmingaskipti og skipti á séreign, ef skipti yrðu að öðrum kosti “bersýnilega ósanngjörn” fyrir annað hjóna. Þannig þurfi mikið til að koma, svo að heimilt sé að víkja frá almennum reglum um helmingaskipti. Því fari víðs fjarri, að skiptin milli málsaðila yrðu “bersýnilega ósanngjörn”, ef meginreglu 103. gr. laga nr. 31/1993 yrði fylgt.  Rétt sé að taka fram að aðilar hafi gengið í hjúskap hinn 18. júlí 1992. Hjónin hafi því verið í hjúskap í um sex og hálft ár, er skuld sóknaraðila við ömmu hennar hafi fallið niður við lok skipta á dánarbúi hennar. Upplýst sé, að hluti þeirrar skuldar, sem sóknaraðili krefjist að varnaraðila verði gert að greiða að hálfu, hafi verið til kominn fyrir hjúskap aðila. Samkvæmt skattframtali sóknaraðila 1991 vegna ársins 1990 hafi skuld hennar við dánarbú Einars J. Skúlasonar numið 1.500.000 krónum í árslok 1990. Ekkert liggi fyrir um þróun skuldarinnar á árinu 1991, en í árslok 1992 nemi skuldin 3.000.000 krónum, samkvæmt skattframtali hjónanna árið 1993. Þá sé ennfremur upplýst, að tilurð allrar skuldarinnar virðist mega rekja til atvika, sem urðu fyrir árslok 1995.

Varnaraðili byggir ennfremur á því,  að ekki sé rétt að líta einungis á greiðslu skuldar sóknaraðila við dánarbú ömmu hennar, ef leggja eigi efnislegt mat á það, hvort undantekningarákvæði 104. gr. laga nr. 31/1993 kunni að eiga við í máli þessu, með hliðsjón af atvikum þess, heldur verði að meta aðstæður aðila heildstætt, þ.e. líta einnig til annarra atriða sem þýðingu kunni að hafa, svo sem tímalengd hjúskapar, skuldir aðila í upphafi hjúskapar, t.a.m. skuldir sóknaraðila við ömmu sína og LÍN, hverju nafni sem þær nefnast, annars konar framlaga aðila til sameiginlegrar eignarmyndunar o.s.frv.

Varnaraðili byggir mál sitt í sjöunda lagi á því, að virða beri sóknaraðila í óhag skort á upplýsingum og óskýrleika í kröfugerð, enda hafi sóknaraðili séð um öll fjármál heimilisins og séu þau varnaraðila að miklu leyti ókunn. Það standi því sóknaraðila nær að upplýsa um ráðstöfun umræddra fjármuna og um önnur atriði sem varði fjármál heimilisins. Taki þetta til allra atriða, sem þýðingu kunni að hafa við mat á því, hvort aðstæður séu með þeim hætti í máli þessu, að réttlætanlegt væri að víkja frá almennum reglum um fjárskipti milli hjóna.

Varnaraðili byggir varakröfu sína á því, auk þess sem að framan er rakið, að hvað sem öðru líði þá séu engin rök til þess, að hann verði látinn bera helming þeirrar skuldar, sem til var orðin, er hann stofnaði til hjúskapar með sóknaraðila. Þá sé einnig á því byggt, að aðrar skuldir sóknaraðila, svo sem skuld við LÍN, eigi að koma til lækkunar á dómkröfum hennar í máli þessu.

 

 

Forsendur og niðurstaða:

 

Við opinber skipti til fjárslita milli hjóna skal miða við þær eignir og skuldbindingar sem eru fyrir hendi, þegar yfirvald tekur fyrst fyrir umsókn um leyfi til skilnaðar, samkvæmt 104. gr. skiptalaga nr. 20/1991.   Skuld sú, sem sóknaraðili gerir kröfu til, að varnaraðili greiði að hálfu var fullgreidd við skipti á dánarbúi Kristjönu Þorkelsdóttur, sem lauk þann 30. desember 1998, eins og áður segir.  Skuldin var því ekki fyrir hendi þegar hjónaskilnaðarmál málsaðila var fyrst tekið fyrir hjá Sýslumanninum í Reykjavík hinn 5. júlí 1999. Því verður að líta svo á, að umrædd skuld falli ekki undir skipti til fjárslita með málsaðilum.

Sóknaraðili hefur krafist þess að vikið verði frá helmingaskiptareglu hjúskaparlaga við opinber skipti á félagsbúi hennar og varnaraðila. Byggt er á því m.a. að sóknaraðili hafi átt hlut að því að bæta fjáreign maka síns með því að greiða upp skuld þeirra hjóna við dánarbú ömmu hennar. 

Af erfðafjárskýrslu má ráða að aðeins sóknaraðili og faðir hennar Skúli Einarsson voru erfingjar dánarbús Kristjönu Þorkelsdóttur.  Útistandandi skuldir dánarbúsins eru taldar samtals 19.000.000 krónur, þar af skuldaði Skúli Einarsson 8.000.000 krónur, en sóknaraðili 11.000.000 krónur. Þar sem skuldararnir eru jafnframt einkaerfingjar þessa sama dánarbús má ljóst vera að arfshluti sóknaraðila hefur í engu skerts við samruna þann á réttindum og skyldum, sem átti sér stað við skiptin, enda er ljóst, að greiðsla sóknaraðila á skuld sinni við búið hvorki jók eða skerti eignir þess.

Sú meginregla er lögfest í 103. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993, að “hvor maki um sig eigi tilkall til helmings úr skírri hjúskapareign hins nema annað leiði af ákvæðum laga.” Í 104. gr. sömu laga er mælt fyrir um frávik frá helmingaskiptareglunni. Segir þar í upphafsorðum 1. mgr., að víkja megi frá reglum um helmingaskipti, ef skipti yrðu að öðrum kosti bersýnilega ósanngjörn fyrir annað hjóna.  Sóknaraðili vísar til 2. mgr. 104. gr. og færir fyrir því rök, að hún hafi átt hlut að því að bæta fjáreign varnaraðila með því að greiða skuld þeirra við dánarbú Kristjönu Þorkelsdóttur.  Þá er því ennfremur haldið fram af hálfu sóknaraðila, að eignarmyndun á hjúskapartímanum hafi stafað af fé, sem hún hafi lagt til. 

Að mati dómsins ber að skýra þröngt heimildir 104. gr. hjúskaparlaga um frávik frá meginreglu 103. gr. s.l.   Því aðeins verður vikið frá 103. gr., ef ljóst er að skipti samkvæmt henni yrðu bersýnilega ósanngjörn. Við könnun á eignamyndun málsaðila á hjúskapartíma þeirra, verður að líta til fleiri atriða en hreinna fjárframlaga hvors um sig,  svo sem til vinnuframlags í beggja þágu, tekna hvors um sig  og margra annarra þátta.  Þegar það er virt að hjónaband málsaðila stóð í sjö ár, þeim fæddust þrjú börn á þeim tíma, og að teknu tilliti til fjárhagsstöðu aðila að svo miklu leyti sem upplýst hefur verið um hana fyrir dómi, þykir ekki ástæða til að víkja frá helmingaskiptareglu hjúskaparlaga.

Kröfu sóknaraðila um frávík frá helmingaskiptareglu hjúskaparlaga er því hafnað.

Einnig er hafnað þeirri málsástæðu sóknaraðila, að hún hafi öðlast sama rétt og arfláti átti við greiðslu skuldar hennar við dánarbú Kristjönu Þorkelsdóttur. Yrði fallist á þessa málsástæðu hennar, myndi það opna leið framhjá ákvæði 104 gr. skiptalaga. Ákvæðið yrði því næsta haldlítið, ef sá makinn, sem greitt hefði kröfu hinum makanum tilheyrandi eða báðum, gæti á grundvelli kröfuréttar krafið hinn um greiðslu skuldar, sem hann hefði greitt fyrir tímamark það, sem tilvitnað ákvæði skiptalaga tilgreinir að miða skuli fjárskiptin við.

Rétt þykir, eins og mál þetta er vaxið, að sóknaraðili greiði varnaraðila málskostnað, sem ákveðst 74.700 krónur, að teknu tilliti til lögmælts virðisaukaskatts af málflutningsþóknun.

Skúli J. Pálmason héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.

 

Úrskurðarorð:

 

Hafnað er kröfu sóknaraðila, Ingifríðar R. Skúladóttur, um að vikið verði frá helmingaskiptareglu 103. gr. laga nr. 31/1993 og hún fái greiddar 4.000.000 krónur af skírri hjúskapareign Guðmundar Gunnarssonar.

Sóknaraðili greiði varnaraðila 74.700 krónur í málskostnað.