Hæstiréttur íslands

Mál nr. 274/2006


Lykilorð

  • Kærumál
  • Ráðgefandi álit
  • EFTA-dómstóllinn


Miðvikudaginn 24

 

Miðvikudaginn 24. maí 2006.

Nr. 274/2006.

Ákæruvaldið

(enginn)

gegn

X

(Stefán Geir Þórisson hrl.)

 

Kærumál. Ráðgefandi álit. EFTA-dómstóllinn.

Talið var að í opinberu máli á hendur X reyndi á það álitaefni hvort 20. gr. áfengislaga nr. 75/1998 stæðist gagnvart ákvæðum stjórnarskrár. Þar sem EFTA-dómstóllinn fjallaði ekki um slíka lögskýringu voru ekki talin efni til að verða við kröfu X um öflun álits dómstólsins í nánar tilgreindum efnum.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Markús Sigurbjörnsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 18. maí 2006, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 22. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 17. maí 2006, þar sem hafnað var kröfu varnaraðila um að leitað yrði ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins um nánar tilgreind atriði í tengslum við mál sóknaraðila á hendur honum. Kæruheimild er í 3. mgr. 1. gr. laga nr. 21/1994 um öflun álits EFTA-dómstólsins um skýringu samnings um Evrópska efnahagssvæðið. Varnaraðili krefst þess að leitað verði ráðgefandi álits og þær spurningar lagðar fyrir EFTA-dómstólinn, sem greinir í hinum kærða úrskurði. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Sóknaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 17. maí 2006.

Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar 5. maí sl., er höfðað með ákæru útgefinni af lögreglustjóranum í Reykjavík 1. nóvember 2005 á hendur X, [heimilisfang] fyrir áfengislagabrot, með því að hafa sem starfandi stjórnarformaður A hf., látið birta auglýsingu á áfengu léttvíni af tegundinni B á bls. 46 og 47 í 11. tbl. tímaritsins C á árinu 2003 sem gefið var út í október það ár, en í texta auglýsingarinnar segir m.a.: ,,DRINK PINK [B] – meiriháttar!”.

Er þetta talið varða við 20. gr., sbr. 27. gr. áfengislaga, nr. 75/1998, sbr. 15. gr. laga um prentrétt nr. 57/1956.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.

Á dómþingi 15. desember sl. neitaði ákærði sök. Boðaði verjandi hans þá að hann hefði í huga að fara þess á leit að ráðgefandi álits EFTA dómstólsins yrði aflað varðandi tiltekin atriði tengd sakarefninu. Var málinu frestað til 23. janúar 2006 af þeim sökum. Á dómþingi þann dag gerði verjandi grein fyrir því að við yfirferð málsins um það efni hafi hann orðið þess áskynja að niðurstaða í máli nr. S-1772/2005, sem yrði til aðalmeðferðar 27. janúar 2006, hefði umtalsverða þýðingu fyrir álitaefni sem eftir atvikum yrðu borin undir EFTA dómstólinn. Verjandinn kvaðst því telja ráðlegt að fresta málinu þar til niðurstaða lægi fyrir í máli nr. S-1772/2005. Sækjandi gerði ekki athugasemdir við að málinu yrði frestað í þessu skyni og sætti það ekki athugasemdum af hálfu dómsins.  Á dómþingi 31. mars 2006 lagði verjandi fram þær spurningar er hann hefði hug á að lagðar yrðu fyrir EFTA dómstólinn. Var ákæruvaldi veittur frestur til 10. apríl sl. til að taka afstöðu til kröfu verjanda. Á dómþingi þann dag lagðist ákæruvald gegn því að ráðgefandi álits yrði aflað. Munnlegur málflutningur fór fram um ágreiningsefnið 5. maí sl.

Þær spurningar sem verjandi ákærða hefur óskað eftir að lagðar verði fyrir EFTA dómstólinn eru þessar:

1)  Er ákvæði 20. gr. áfengislaga, nr. 75/1998 um bann við auglýsingum á áfengi samrýmanlegt bókun 47 við EES samninginn, sem fjallar um að samningsaðilar EES samningsins skuli heimila innflutning og markaðssetningu á vínafurðum sem upprunnar eru á EES svæðinu.

2)  Sé svarið við spurningunni neitandi, hvaða áhrif hefur bókun 47 við EES samninginn á túlkun á ósamrýmanlegu lagaákvæði íslensks réttar.

3)  Á grundvelli allnokkurra dómafordæma EFTA dómstólsins er ljóst að það er mismunandi hvort einstakar áfengistegundir falla undir vörusvið EES samningsins eða ekki. Með vísan til þess er óskað eftir áliti á því hvort rétt sé að taka til skoðunar einhverjar óskráðar grundvallarreglur sem mögulega gilda í EES rétti við skoðun á auglýsingabanni íslenskra laga með hliðsjón af EES rétti, m.a. með vísan til þess að það, hvort tiltekin áfengistegund fellur undir vörusvið samningsins eða ekki kann hugsanlega að leiða af sér mismunun á samkeppnisstöðu aðila á markaðnum, eftir atvikum við markaðssetningu áfengis.

4)  Fer það á einhvern hátt í bága við EES samninginn að hafa í íslenskum lögum ákvæði eins og það sem er að finna í 1. tl. 4. mgr. 20. gr. áfengislaga nr. 75/1998 sem felur það í sér að auglýsingar á erlendum tungumálum í erlendum prentritum sem flutt eru til landsins eru heimilar, nema megintilgangur ritsins eða innflutningsins sé að auglýsa áfengi, á meðan slíkar auglýsingar hvort heldur eru á íslensku eða erlendum tungumálum í innlendum prentritum eru samkvæmt sömu lögum bönnuð.

Ákæruvalds krefst þess aðallega að hafnað verði kröfu verjanda ákærða um öflun ráðgefandi álits EFTA dómstólsins. Til vara er gerð krafa um að einungis verði lagðar spurningar nr. 1 og 2 fyrir dómstólinn, þó þannig að orðalagi spurningar nr. 1 verði breytt í þá veru að eftir orðunum ,,hvort 20. gr. áfengislaga nr. 75/1998 um bann við auglýsingum á áfengi” verði bætt inn textanum ,,með tilliti til heilsuverndar­sjónar­miða og almannaheilla”.

Verjandi ákærða rökstyður kröfu sína um öflun ráðgefandi álits út frá því að ákærði hafi verið ákærður fyrir að hafa látið birta auglýsingu á áfengu léttvíni af tegundinni B í 11. tbl. tímaritsins C. Fyrir liggi álit EFTA dómstólsins í máli nr. E-4/04 Pedicel AS og Sosial- og helsedirektoratet um að léttvín falli ekki undir vörusvið meginmáls EES samningsins. Hins vegar hafi engu verið svarað um áhrif bókunar 47 við EES samninginn á löggjöf EFTA ríkjanna um bann við áfengisauglýsingum. Með hliðsjón af því sé gerð krafa um öflun ráðgefandi álits varðandi spurningar nr. 1 og 2.

Þá hafi dómar gengið um það hjá Evrópudómstólnum og EFTA dómstólnum að takmarkanir við auglýsingum á áfengi, þ.á m. áfengum bjór, kunni að fara í bága við meginreglur EES samningsins um frjálsa vöru- og þjónustuflutninga. Á það hafi að vísu ekki reynt fyrir íslenskum dómstólum hvort auglýsingar eða kynningar á áfengum bjór séu refsilausar með vísan til ákvæða EES samningsins, en um það hafi ítarlega verið fjallað í dómi Evrópudómstólsins í máli nr. C-405/98: Konsumen­tombudsmannen og Gourmet International Products AB og dómi EFTA dómstólsins í máli nr. E-4/04. Í samræmi við það sé gerð krafa um öflun ráðgefandi álits varðandi spurningu nr. 3.

Alveg óháð framangreindum spurningum beri nauðsyn til að afla álits EFTA dómstólsins á því hvort ákvæði 20. gr. áfengislaga samræmist reglum þeim sem finna megi í EES samningnum. Samkvæmt 1. tl. 4. mgr. 20. gr. áfengislaga séu auglýsingar á erlendum tungumálum í erlendum prentritum sem flutt séu til landsins heimilar, nema megintilgangur ritsins eða innflutningsins sé að auglýsa áfengi. Nauðsyn beri til að afla álits á því hvort þessi undantekning fari á einhvern hátt gegn ákvæðum EES samningsins, m.a. með það í huga að í ákvæðinu felist mismunun milli stórra fram­leiðenda þekktra áfengistegunda og þeirra sem minni séu og hafi litla eða enga markaðsfestu á Evrópska efnahagssvæðinu. Það séu einkum hinir stærri framleiðendur sem hafi náð verulegri markaðsfestu sem hafi bolmagn til að auglýsa í stórum, útbreiddum erlendum prentmiðlum, en það séu einkum slík blöð og tímarit sem flutt séu hingað til lands. Þær áfengistegundir sem náð hafi mikilli markaðsfestu séu miklu frekar þekktar bjórtegundir og ýmsar þekktar tegundir sterks áfengis en léttvíns­tegundir sem séu til í gríðarlegum fjölda tegunda sem fæstar hafi náð sambærilegri markaðsfestu og stórar bjórtegundir t.a.m. Þá geti í þessu undantekningarákvæði falist mismunun sem brjóti í bága við þjónustufrelsisreglur 36. gr. EES samningsins.

Sækjandi hefur mótmælt því að ráðgefandi álits EFTA dómstólsins verði aflað. Hafi álit dómstólsins ekki þýðingu fyrir það sakarefni sem hér sé til meðferðar sem varði gildi ákvæða 20. gr. áfengislaga. Ágreiningurinn snúist um túlkun og skýringu íslenskra laga og hafi EFTA dómstóllinn ekkert um það að segja. Þá séu sumar þeirra spurninga sem leggja eigi fyrir dómstólinn of almennar og hafi óljósa tengingu við úrlausnarefni máls þessa. Álitaefnið eigi undir þann dómara sem dæmi þetta mál. Ef hins vegar verði fallist á að leita ráðgefandi álits EFTA dómstólsins þá séu spurningar nr. 1 og 2 ákveðnar grunnspurningar og sé mikilvægt að þeim fylgi grunnrök að baki 20. gr. áfengislaga. Taki varakrafa ákæruvalds mið af því. 

Niðurstaða:

Mál af samkynja toga og hér er til meðferðar hafa áður komið til kasta dómstóla. Hefur þar verið tekist á um hvort 20. gr. áfengislaga standist ákvæði stjórnar­skrár, m.a. um tjáningarfrelsi, eignarrétt og jafnræði. Úrlausnarefni í þessu máli snýst sem fyrr um gildi og skýringu á nefndri 20. gr. áfengislaga og hvort hún standist ákvæði stjórnarskrár, þar sem stjórnskipulega settum lögum verður ekki vikið til hliðar með öðrum hætti. EFTA dómstóllinn mun ekki fjalla um slíka lagaskýringu. Stoðar því ekki að leita ráðgefandi álits hans í þessu máli. Verður kröfum ákærða um það því hafnað.

Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Eyjólfur Eyjólfsson fulltrúi lögreglu­stjórans í Reykjavík.

Símon Sigvaldason héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Ú r s k u r ð a r o r ð:

Kröfu ákærða, X, um að leitað verði ráðgefandi álits EFTA dómstólsins í málinu, er hafnað.