Hæstiréttur íslands
Mál nr. 208/2013
Lykilorð
- Kærumál
- Nálgunarbann
- Verjandi
|
|
Miðvikudaginn 27. mars 2013. |
|
Nr. 208/2013. |
Sýslumaðurinn á Akureyri (Eyþór Þorbergsson fulltrúi) gegn X (Júlí Ósk Antonsdóttir hdl.) |
Kærumál. Nálgunarbann. Verjandi.
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að X sætti nálgunarbanni, þannig að lagt yrði bann við því, í sex mánuði frá 6. mars 2013 að telja, að hann kæmi nær heimili A en í 50 m takmark, mælt frá miðju íbúðar, setti sig í samband við hana, nálgaðist hana eða hefði samskipti við hana í síma, tölvu eða á annan hátt gegn vilja hennar.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson og Benedikt Bogason og Ingveldur Einarsdóttur settur hæstaréttardómari.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með ódagsettri kæru sem barst héraðsdómi 21. mars 2013 og réttinum ásamt kærumálsgögnum 26. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 18. mars 2013 þar sem staðfest var ákvörðun sýslumannsins á Akureyri um að banna varnaraðila, í sex mánuði frá 6. mars 2013 að telja, að koma nær heimili brotaþola, A, að [...] á [...], en í 50 m takmark, mælt frá miðju íbúðar, setja sig í samband við hana, nálgast hana eða hafa samskipti við hana eins og nánar greinir í úrskurðarorði. Kæruheimild er í 3. mgr. 15. gr. laga nr. 85/2011 um nálgunarbann og brottvísun af heimili, sbr. 1. gr. laga nr. 39/2012. Varnaraðili krefst þess aðallega að ákvörðun sýslumanns verði felld úr gildi, en til vara að nálgunarbanni verði markaður skemmri tími. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar. Þá krefst hann þess jafnframt að staðfest verði sú ákvörðun sín „að setja [varnaraðila] í nálgunarbann við heimili brotaþola á nálgunarbannstímabilinu, án tillits til þess hvar það verður.“
Þar sem sóknaraðili hefur ekki kært úrskurð héraðsdóms fyrir sitt leyti verður síðari krafa hans ekki tekin til úrlausnar hér fyrir dómi.
Í 1. mgr. 8. gr. laga nr. 85/2011 segir að lögreglustjóra sé skylt að tilnefna sakborningi verjanda vegna meðferðar máls samkvæmt lögunum og fari um slíka tilnefningu samkvæmt IV. kafla laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Þrátt fyrir orðalag þessa ákvæðis verður að skýra það með hliðsjón af meginreglu 29. gr. laga nr. 88/2008, þar sem kveðið er á um að sakborningi sé heimilt að halda sjálfur uppi vörnum í máli kjósi hann það og sé hann til þess hæfur að mati dómara eða lögreglu, sbr. og c. lið 3. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994.
Samkvæmt gögnum málsins mætti varnaraðili sjálfur hjá lögreglustjóra þegar krafa brotaþola var tekin fyrir. Í samræmi við 1. mgr. 33. gr. laga nr. 88/2008 var varnaraðila kynntur réttur sinn samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 85/2011 til að fá tilnefndan verjanda, en hann óskaði ekki eftir því. Hvorki er því haldið fram af hálfu varnaraðila né verður það ráðið af gögnum málsins að hann hafi ekki verið bær til að gæta hagsmuna sinna sem skyldi við meðferð málsins hjá lögreglustjóra, sbr. síðari málslið 2. mgr. 30. gr. laga nr. 88/2008. Að þessu virtu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur, þar á meðal ákvæði hans um að þóknun skipaðs verjanda varnaraðila að tiltekinni fjárhæð skuli greidd úr ríkissjóði.
Þóknun skipaðs verjanda varnaraðila, sem ákveðin verður að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði segir, greiðist úr ríkissjóði samkvæmt 3. mgr. 38. gr. laga nr. 88/2008, sbr. 14. gr. laga nr. 85/2011.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Þóknun skipaðs verjanda varnaraðila, Júlíar Óskar Antonsdóttur, héraðsdómslögmanns, fyrir Hæstarétti, 125.500 krónur, greiðist úr ríkissjóði.
Úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 18. mars 2013.
Mál þetta barst dómnum 8. mars sl. og var tekið til úrskurðar 14. mars sl.
Rannsóknari, sýslumaðurinn á Akureyri, krefst þess að staðfest verði ákvörðun hans frá 6. mars sl. um að banna sakborningi, X, kt. [...], [...],[...], að koma á eða í námunda við heimili brotaþola, A, kt. [...],[...],[...], eða á eða í námunda við heimili hennar á þeim tíma sem nálgunarbannið gildi, hvert svo sem hún ákveði að flytjast. Bannið var afmarkað við 50 m radíus umhverfis heimili brotaþola, mælt frá miðju húss. Jafnframt var sakborningi bannað að setja sig í samband við brotaþola, nálgast hana á almannafæri, vinnustað hennar eða hafa samskipti við hana í síma, um tölvu eða á annan hátt gegn vilja hennar.
Sakborningur mótmælir því að krafan nái fram að ganga og vísar til þess samskipti aðila séu nú engin og hann hyggist ekki eiga samskipti við brotaþola.
Rannsóknari segir að rökstuddur grunur sé um að sakborningur hafi beitt brotaþola líkamlegu ofbeldi og veruleg hætta sé á að hann muni brjóta á ný gegn henni verði hann ekki látinn sæta nálgunarbanni. Telur hann að vægari úrræði en nálgunarbann muni ekki vernda friðhelgi brotaþola og tryggja öryggi hennar, sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 85/2011 um nálgunarbann og brottvísun af heimili.
Rannsóknari vísar til máls lögreglu nr. 024-2013-595, þar sem brotaþoli sakar sakborning um að hafa aðfaranótt 10. febrúar sl. ruðst inn á heimili hennar, barið hana ítrekað og sparkað ítrekað í hana, m.a. í höfuð hennar. Samkvæmt frásögn brotaþola sem fái stuðning í framburði sakbornings hafi þau verið í nánu sambandi síðan á árinu 2005. Telur rannsóknari gögn sem lögregla hafi aflað skjóta stoðum undir framburð brotaþola um atburðarásina.
Þá er vísað til skýrslu í máli lögreglu nr. 024-2007-[...] um að lögregla hafi verið kvödd til vegna átaka milli brotaþola og sakbornings. Hafi verið lítils háttar sár á kviði sakbornings sem brotaþoli hafi valdið með hnífi. Rannsókn þessa máls var hætt 2. júní 2008.
Einnig er vísað til dagbókarfærslu lögreglu í máli nr. 024-2009-[...]. Samkvæmt henni hafi sakborningur brotið rúðu og farið inn í íbúð brotaþola. Hafi lögregla fjarlægt sakborning.
Enn fremur er vísað til að brotaþoli segi sakborning hafa ráðist að sér á heimili sakbornings 22. ágúst 2010 og sparkað ítrekað í hana. Hafi hún leitað á sjúkrahús vegna þessa. Einnig segi hún ósætti hafa orðið milli þeirra á heimili sakbornings í byrjun apríl 2011 og hafi sakborningur kastað steini í framrúðu bifreiðar hennar, með þeim afleiðingum að hún hafi fengið glerbrot í sig, m.a. í augun. Hafi hún leitað læknishjálpar á sjúkrahúsi.
Rannsóknari segir ákvörðun sína byggða á þeim gögnum sem lögregla hafi aflað í þessum tilvikum. Rannsókn sé ekki lokið. Vegna fjölda tilvika sem fyrir liggi þyki friðhelgi brotaþola ekki verða tryggð með öðrum vægari hætti en að setja sakborning í nálgunarbann.
Ákvörðun rannsóknara var tekin 6. mars sl. og birt sakborningi sama dag.
Við fyrirtöku málsins kvaðst sakborningur hafa þurft að verjast brotaþola, sem sé ofbeldishneigð. Telur hann einnig að efnislegur grundvöllur nálgunarbanns sé ekki til staðar. Hann hafi nú hætt öllum samskiptum við brotaþola fyrir utan nokkur símtöl sem hafi einungis verið til að fá brotaþola til að leysa þetta mál utan dómastóla.
Samkvæmt 4. gr. laga nr. 85/2011 um nálgunarbann og brottvísun af heimili er heimilt að beita nálgunarbanni ef rökstuddur grunur er um að sakborningur hafi framið refsivert brot eða raskað á annan hátt friði brotaþola eða hætta sé á að viðkomandi muni fremja slíka háttsemi.
Fyrir liggur að sakborningur og brotaþoli hafa verið í sambandi og að komið hefur til átaka milli þeirra, síðast aðfaranótt 10. febrúar sl. á heimili brotaþola sem kveður sakborning hafa ruðst þar inn í heimildarleysi. Voru áverkar á báðum aðilum eftir þau átök. Er grunur rannsóknara um að sakborningur hafi framið refsivert brot gegn brotaþola nægilega rökstuddur.
Sakborningur óskaði ekki eftir tilnefningu verjanda við meðferð málsins hjá rannsóknara, en fyrir liggur að honum var kynntur réttur hans til þess. Verður ákvörðunin ekki ómerkt vegna þessa.
Samkvæmt framansögðu verður fallist á það með rannsóknara að skilyrði til að beita nálgunarbanni séu uppfyllt, sbr. 4. og 6. gr. laga nr. 85/2011. Verður ákvörðun hans því staðfest, þó þannig að bannið verður ekki látið taka til óákveðins heimilis.
Þóknun skipaðs verjanda og skipaðs réttargæslumanns, sem ákveðast að meðtöldum virðisaukaskatti eins og greinir í úrskurðarorði, greiðist úr ríkissjóði samkvæmt 3. mgr. 38. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, sbr. 14. gr. laga nr. 85/2011.
Úrskurð þennan kveður upp Erlingur Sigtryggsson héraðsdómari.
Ú r s k u r ð a r o r ð :
Ákvörðun rannsóknara, sýslumannsins á Akureyri um að banna sakborningi, X, í sex mánuði frá 6. mars 2013 að telja, að koma nær heimili brotaþola, A, kt. [...], að [...],[...], en í 50 metra takmark, mælt frá miðju íbúðar, setja sig í samband við hana, nálgast hana á almannafæri, vinnustað hennar eða hafa samskipti við hana í síma, tölvu eða á annan hátt gegn vilja hennar, er staðfest.
Þóknun skipaðs verjanda, Júlíar Óskar Antonsdóttur héraðsdómslögmanns, 100.400 krónur, og skipaðs réttargæslumanns, Arnbjargar Sigurðardóttur héraðsdómslögmanns, 62.750 krónur, greiðist úr ríkissjóði.