Hæstiréttur íslands

Mál nr. 417/2007


Lykilorð

  • Skaðabætur
  • Líkamstjón
  • Sönnunarfærsla
  • Gjafsókn


Fimmtudaginn 22

 

Fimmtudaginn 22. maí 2008.

Nr. 417/2007.

Gunnhildur Ásta Gunnarsdóttir

(Lilja Jónasdóttir hrl.)

gegn

Jóni Eiríki Jóhannssyni

(Anton B. Markússon hrl.)

og gagnsök

 

Skaðabætur. Líkamstjón. Sönnunarfærsla. Gjafsókn.

G krafði J um bætur vegna ætlaðrar líkamsárásar sem hún varð fyrir við vinnu sína sem veitingastjóri á hóteli í Reykjavík. Byggði G á því að J hefði með saknæmum hætti, er verið var að vísa honum út af hótelinu, rekið olnboga í andlit hennar með þeim afleiðingum að hún féll aftur fyrir sig á hart gólfið og hlaut við það mar og yfirborðsáverka á andliti, höfuðverk og tognun á lendarhrygg. Í dómi Hæstaréttar var litið til þess að langur tími hafi liðið frá því að atvik áttu sér stað þar til aflað var framburðarskýrslna um þau. Var fallist á þá niðurstöðu héraðsdóms að G hefði ekki tekist sönnun um að fyrir hendi væru skilyrði til að leggja bótaskyldu á J vegna þess tjóns sem G taldi sig hafa orðið fyrir í umrætt sinn. Var J því sýknaður af kröfu G.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Aðaláfrýjandi skaut máli þessu til Hæstaréttar 9. ágúst 2007. Hún krefst greiðslu úr hendi gagnáfrýjanda á 5.196.881 krónu með 4,5% ársvöxtum af 400.933 krónum frá 28. nóvember 1999 til 20. desember 2005, af 4.819.881 krónu frá þeim degi til 30. desember 2006, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 5.196.881 krónu frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hún sýknu af kröfu gagnáfrýjanda í gagnsök og greiðslu málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar sem hún nýtur á báðum dómstigum.

Gagnáfrýjandi áfrýjaði héraðsdómi fyrir sitt leyti 15. október 2007. Hann krefst staðfestingar héraðsdóms um annað en málskostnað. Hann krefst málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Aðaláfrýjandi ber sönnunarbyrði fyrir því að gagnáfrýjandi hafi 28. nóvember 1999 valdið henni með saknæmum hætti þeim áverkum sem hún krefst bóta fyrir þannig að til skaðabótaskyldu leiði. Aðaláfrýjandi byggir á því að gagnáfrýjandi hafi, meðan starfsmenn Hótels Loftleiða færðu hann út af staðnum, rekið olnboga aftur fyrir sig í andlit hennar. Gagnáfrýjandi mótmælir þessu.

Ekki fór fram lögreglurannsókn vegna atburðarins og eru samtímagögn um hann afar rýr. Í hinum áfrýjaða dómi er lagt mat á sönnunarfærslu aðaláfrýjanda. Þó að ekki verði fallist á að frásögn aðaláfrýjanda af atburðum hafi verið á reiki verður ekki litið framhjá þeim langa tíma sem leið frá því atvik urðu þar til aflað var framburðarskýrslna um þau. Héraðsdómur leggur með rökstuddum hætti mat á sönnunargildi vitnisburðar samstarfsmanns aðaláfrýjanda fyrir dómi um málsatvik, sbr. 59. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Er því hafnað að sönnun um atburðarrásina hafi tekist með þessum framburði. Ekki eru efni til þess að Hæstiréttur endurskoði þetta mat. Verður fallist á þá niðurstöðu dómsins að aðaláfrýjandi teljist ekki hafa tekist sönnun um að fyrir hendi séu skilyrði til að leggja bótaskyldu á gagnáfrýjanda vegna þess tjóns sem aðaláfrýjandi telur sig hafa orðið fyrir umrætt sinn. Héraðsdómur verður því staðfestur, og þá einnig um málskostnað, en niðurstaðan um hann á sér stoð í 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ákvæði dómsins um gjafsóknarkostnað einnig staðfest.

Samkvæmt þessum úrslitum og með vísan til 1. mgr. 130. gr., sbr. 166. gr., laga nr. 91/1991 verður aðaláfrýjandi dæmd til að greiða gagnáfrýjanda málskostnað fyrir Hæstarétti svo sem í dómsorði greinir.

Gjafsóknarkostnaður aðaláfrýjanda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar sem ákveðst eins og greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur er óraskaður.

Aðaláfrýjandi, Gunnhildur Ásta Gunnarsdóttir, greiði gagnáfrýjanda, Jóni Eiríki Jóhannssyni, 300.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

Gjafsóknarkostnaður aðaláfrýjanda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar 250.000 krónur.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 9. maí 2007.

Mál þetta, sem var dómtekið 23. apríl sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Gunnhildi Ástu Gunnarsdóttur, Kársnesbraut 103, Kópavogi á hendur Jóni Eiríki Jóhannssyni, Gvendargeisla 26, Reykjavík, með stefnu birtri  21. nóvember 2006.

Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi verður dæmdur til að greiða stefnanda skaðabætur að fjárhæð 5.169.889 kr. með 4,5% vöxtum samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, af 400.933 kr. frá 28. nóvember 1999 til 20. desember 2005, en af 4.819.881 kr. frá þeim degi til 30. desember 2006, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, af stefnufjárhæðinni frá þeim degi til greiðsludags.

Auk þessa krefst stefnandi málskostnaðar að skaðlausu að mati réttarins eins og málið væri eigi gjafsóknarmál, auk álags á málskostnað er nemi virðisaukaskatti.

             Dómkröfur stefnda eru aðallega þær að stefndi verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda. Til vara er farið fram á lækkun bóta að mati dómsins. Þá er þess krafist að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað samkvæmt mati dómsins.

 

 Málavextir.

Hinn 28. nóvember 1999 var lögreglan kölluð að Hótel Loftleiðum vegna slagsmála á milli starfsmanna og tveggja viðskiptavina, þegar verið var að vísa þeim út við lokun staðarins.  Stefnandi, sem var veitingastjóri, varð fyrir óhappi og mun hafa fengið skyndilegt olnbogaskot eða verið slegin í andlitið og við það dottið aftur fyrir sig á hart gólfið. Stefnandi leitaði strax á slysadeild þar sem hún var greind með mar og yfirborðsáverka á andliti, höfuðverk og tognun á lendarhrygg. Stefnandi telur stefnda eiga sök á þessu og krefur hann því bóta.

             Varðandi heilsufar stefnanda fram í nóvember 1999 kemur það fram í gögnum málsins að stefnandi hafi átt við bakveikindi að stríða. Hafi hún bæði leitað til Boga Jónssonar bæklunarlæknis og Bjarna Valtýssonar, svæfinga- og deyfingalæknis. Í apríl 1999 greindist afturbungun á brjóskþófa á lendhrygg stefnanda, en rannsóknin fór fram að beiðni Stefáns Dalberg bæklunarlæknis.  Árið 1999 var stefnandi greind með byrjandi brjósklos í baki. Hafi það greinst með sneiðmyndatöku og í framhaldi af því var hún send í sjúkraþjálfun. Hún tók svo hlé um sumarið en byrjaði aftur í sjúkraþjálfun í nóvember 1999 vegna endurkomu á svipuðum einkennum og hún hafði þegar brjósklosið var greint.

Hinn 23. nóvember 1999 lenti stefnandi í bifreiðaslysi, en ekið var á bíl hennar.  Fékk hún hnykk á bakið og var greind með tognun á lendarhrygg.

Hinn 28. nóvember 1999 átt atburður málsins sér stað. Var hún greind með mar og yfirborðsáverka á andliti, höfuðverk og tognun á lendarhrygg.

Í júlí 2000 varð stefnandi óvinnufær og lá á sjúkrahúsi frá 1.- 8. ágúst 2000 vegna gruns um sýkingu í brjóskþófum í baki. Segulómrannsókn sýndi enga sýkingu en óbreytt ástand með útbungun á hryggþófa. Stefnandi lá einnig á sjúkrahúsi 15. – 20. ágúst sama ár og var þar gerð fremri hryggstólpaaðgerð á neðsta brjóskþófa í mjóbaki. Stefnandi mun hafa orðið vinnufær í desember 2000.

             Hinn 1. júlí 2001 var stefnandi óvinnufær í eina viku þar sem járnstöng lenti í höfðinu á henni og mun hún hafa vankast.

Hinn 16. janúar 2003 skiluðu læknarnir Ragnar Jónsson og Jónas Hallgrímsson matsgerð sem unnin var að beiðni stefnanda og Tryggingamiðstöðvarinnar hf. og var niðurstaða þeirra að tímabundið atvinnutjón stefnanda vegna líkamsárásarinnar væri tvær vikur strax eftir slysið og frá 1. júlí 2001 til 7. nóvember 2001. Þá ætti stefnandi rétt á þjáningarbótum þar sem hún hafi verið veik í tvær vikur eftir slysið og jafnframt frá 1. júlí 2001 til 7. nóvember 2001. Tímabundið atvinnutjón og þjáningarbætur voru þó að hálfu leyti talin vera afleiðing umferðarslyss sem stefnandi lenti í þann 23. nóvember 1999. Varanlegur miski stefnanda var metinn 6% og varanleg örorka 6%.

Hinn 21. febrúar 2003 setti stefnandi fram bótakröfu byggða á matinu.  Henni var hafnað 2. júní 2003 á þeirri forsendu að stefndi hefði ekki veitt stefnanda þá áverka sem hún varð fyrir með saknæmum hætti. Var sérstaklega vísað til þess að stefndi teldi sig ekki hafa átt upptökin að þeirri atburðarrás sem átti sér stað 28. nóvember 1999.

             Stefnanda mun hafa versnað á árinu 2003 og um áramótin 2003/2004 var hún orðin óvinnufær og hefur verið það síðan. Á árinu 2004 dvaldi stefnandi um tíma á sjúkrahúsinu í Stykkishólmi og á Landspítalanum. Hinn 3. nóvember 2004 gekkst stefnandi undir aðra hryggstólpaaðgerð og lagðist síðan aftur inn á Háls- og bakdeild SFS til endurhæfingar eftir aðgerðina.

             Hinn 8. október 2004 voru Stefán Már Stefánsson prófessor og Júlíus Valsson  gigtarlæknir dómkvaddir til að meta m.a. hvert tímabundið atvinnutjón eftir líkamsárásina 28. nóvember 1999 hefði verið og hvort miski og/eða örorka stefnanda hefði aukist frá því að matsgerðin í janúar 2003 lá fyrir. Þá voru matsmenn enn fremur beðnir, ef í ljós kæmi að miski og/eða varanleg örorka hefði aukist, að meta hvort breyting á ástandi stefnanda hefði verið ófyrirsjáanleg er fyrrgreint mat fór fram og hvort hægt væri að rekja viðbótar miska og/eða varanlega örorku stefnanda til afleiðinga framangreindrar líkamsárásar.

             Hinn 13. maí 2005 mun stefnandi hafa lent í umferðarslysi er hún ók aftan á aðra bifreið.  Miklar skemmdir munu hafa orðið á bifreiðunum og var stefnandi flutt með sjúkrabifreið á sjúkrahús.  Hún kvartaði þá um eymsli í baki og bringu.

Niðurstöður mats Stefáns Más og Júlíusar lágu fyrir þann 20. desember 2005. Tímabundið atvinnutjón stefnanda var metið 100% í tvær vikur strax eftir líkamsárásina, varanlegur miski 5% og varanleg örorka 10%. Eins og að framan greinir hefur stefnandi verið óvinnufær frá áramótunum 2003 til 2004.

Með bréfi dómsmálaráðuneytisins frá 18. maí 2004 var stefnanda veitt gjafsókn í máli þessu.  Mál þetta var síðan höfðað með birtingu stefnu 21. nóvember 2006.

 

Málsástæður og lagarök stefnanda.

Stefnandi reisir skaðabótakröfu sína á almennu skaðabótareglunni (sakarreglunni) og byggir á því að stefndi hafi valdið sér tjóni með saknæmum og ólögmætum hætti. Háttsemi stefnda hafi verið saknæm og ólögmæt þar eð hann hafi hinn 28. nóvember 1999 gefið stefnanda af ásetningi/stórfelldu gáleysi olnbogaskot í andlitið og þannig valdið henni tjóni á líkama og heilbrigði.

Lögregluskýrsla, dags. 28. nóvember 1999, liggur fyrir í málinu þar sem fram kemur í atvikalýsingu tveggja samstarfsmanna stefnanda á Hótel Loftleiðum að stefndi hafi „slegið“ stefnanda er hún var að vísa honum út sem síðan hafi leitt til slagsmála milli þeirra og stefnda og félaga hans. Þá kemur einnig fram í lögregluskýrslunni að stefndi hafi verið undir áhrifum áfengis og að stefnandi hafi verið með áverka í andlitinu.              

Einnig liggur fyrir lögregluskýrsla, dags. 1. desember 1999, þar sem stefndi viðurkennir að hann hafi á þeim tíma er atvik málsins áttu sér stað verið orðinn ölvaður og að hann hafi verið með einhver leiðindi á staðnum. Í máli stefnda kemur síðan enn fremur fram að þegar honum hafi verið vísað út af staðnum hafi hann lent í átökum við starfsfólkið án þess þó að muna nákvæmlega hvað hafi gerst.

Stefnandi áréttar að hún var við vinnu sína á veitingastaðnum umrætt kvöld ásamt samstarfsmönnum sínum. Stefndi var þar staddur sem viðskiptavinur hafði drukkið áfengi og var orðinn það erfiður viðureignar að vísa þurfti honum út af staðnum. Stefnandi telur ljóst að þessu virtu, að fráleitt sé að reyna halda því fram að stefndi hafi ekki veitt stefnanda áverkann með saknæmum hætti og að hann hafi ekki átt upptökin að þeirri atburðarrás sem átti sér stað þetta kvöld. 

Stefndi gaf stefnanda olnbogaskot með það að markmiði að hitta hana og meiða enda vissi hann fullvel af henni beint fyrir aftan sig þar sem hún var að vísa honum og félaga hans út af staðnum. Afleiðingar höggsins urðu kannski afdrifaríkari en stefndi gerði ráð fyrir en þær urðu af framangreindum atvikum sem sanngjarnt og eðlilegt er að stefndi ábyrgist. Stefnandi bendir á að það nægi til skaðabótaskyldu að hættueiginleikar við hegðun tjónvalds eigi þátt í því að tjón varð. Ekki er skilyrði fyrir bótum, að tjónvaldur hafi mátt sjá fyrir einmitt það tjón er af hlaust.

Stefnandi heldur því fram að stefndi beri klárlega ábyrgð á gjörðum sínum og  ekki þýði að bera fyrir sig minnisleysi á atburðarrásinni eða að hann hafi ekki gert sér grein fyrir gerðum sínum sökum áhrifa áfengis. Vitni voru að líkamsárásinni og hvernig hún bar að og munu þau verða leidd fyrir dóminn.

Skaðabótakrafa stefnanda er annars vegar reist á matsgerð þeirra Ragnars Jónssonar og Jónasar Hallgrímssonar hvað varðar þjáningarbætur og hins vegar á matsgerð þeirra Júlíusar Valssonar og Stefáns Más Stefánssonar hvað varðar varanlegan miska og varanlega örorku. Ekki er krafist bóta vegna tímabundins atvinnutjóns þar eð stefnandi missti ekki launtekjur þann tíma sem það var metið. Tölulegar kröfur stefnanda styðjast við skaðabótalög nr. 50/1993, sbr. lög nr. 37/1999.

Krafa um þjáningarbætur byggir á 3. gr. skaðabótalaga. Þjáningartímabil stefnanda samkvæmt mati, dags. 16. janúar 2003, vegna afleiðinga líkamsárásarinnar voru 72 dagar.

Fyrir hvern dag sem stefnandi var veikur án þess að vera rúmliggjandi skal greiða 1.120 kr. eftir að fjárhæðir í 3. gr. skaðabótalaga hafa verið uppfærðar miðað við lánskjaravísitölu í nóvember 2006 (5256 stig), sbr. 15. gr. skaðabótalaga. Krafa um þjáningarbætur verða því samtals 80.640 kr. (72 x 1.120).

Krafa um varanlegan miska er reist á 4. gr. skaðabótalaga. Varanlegur miski stefnanda, samkvæmt mati, dags. 20. desember 2005, vegna afleiðinga líkamsárásarinnar er 5%. Eftir að viðmiðunarfjárhæð 4. gr. skaðabótalaga, 4.000.000 kr., hefur verið uppfærð miðað við lánskjaravísitölu í nóvember 2006 (5256 stig), sbr. 15. gr. skaðabótalaga, eru bætur fyrir 100% varanlegan miska 6.405.850 kr. Bætur vegna 5% miska verða því 320.293 kr.

Krafa vegna varanlegrar örorku tekur mið af 5.-7. gr. skaðabótalaga. Varanleg örorka stefnanda, samkvæmt mati, dags. 20. desember 2005, vegna afleiðinga líkamsárásarinnar er 10%. Tekjuviðmið byggist á 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaga. Tekjur stefnanda voru 2.033.457 kr. árið 1997. Miðað við uppfærslu launavísitölu til þess tíma sem upphaf varanlegrar örorku miðast við, þ.e. í desember 2005 (273,9/155,8), verður tekjuviðmiðið 3.574.864 kr. Tekjur hennar árið 1998 voru 2.068.526 kr. Miðað við uppfærslu launavísitölu (273,9/170,4) verður tekjuviðmiðið 3.324.937 kr. Tekjur hennar árið 1999 voru 3.144.985 kr. Miðað við uppfærslu launavísitölu (273,9/182) verður tekjuviðmiðið 4.733.029 kr.

Heildartekjur síðustu 3 ár fyrir árásina voru samkvæmt framansögðu 11.632.830 kr. Meðaltekjur áranna eru því 3.877.610 kr. en 4.110.267 kr. að viðbættu 6% mótframlagi vinnuveitanda í lífeyrissjóð.  Tölulegur stuðull samkvæmt 6. gr. skaðabótalaga er 10.751, þar sem stefnandi var 39 ára og 58 daga gömul þann 20. desember 2005, sem er sá dagur sem upphaf varanlegrar örorku miðast við. Bætur vegna 10% varanlegrar örorku á grundvelli 6. gr. skaðabótalaga verða samkvæmt framansögðu 4.418.948 kr. (10.751 x  4.110.267. x 10%).

Þar eð stefndi olli stefnanda líkamstjóni af ásetningi/stórfelldu gáleysi og afleiðingar þess voru mjög afdrifaríkar fyrir stefnanda er krafist 350.000 kr. bóta vegna miska.

Um lagarök vísa stefnandi einkum til almennu skaðabótareglunnar (sakarreglurnnar). Fjárhæð skaðabótakröfu stefnanda styðst við 1.-7. gr., 15. gr. og 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Vaxtakrafa stefnanda styðst við 16. gr. skaðabótalaga og dráttarvaxtakrafan við 6. og 9. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Krafan um málskostnað styðst við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

 

Málsástæður og lagarök stefnda.

Stefndi krefst þess að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda.  Stefndi hefur frá upphafi hafnað því að hafa veitt stefnanda olnbogaskot. Stefndi viðurkennir þó að hafa verið með leiðindi við starfsmenn staðarins sem leiddi til þess að átök urðu þeirra á milli. Stefndi telur að stefnandi hafi aftur á móti ekki verið samkvæm sjálfri sér varðandi frásögn af meintri árás stefnda þann 28. nóvember 1999.

Í lögregluskýrslu, dags. 28. nóvember 1999, kemur eftirfarandi fram: „Við höfðum svo tal af Gunnhildi og Guðjóni. Þau sögðu að Jón Eiríkur hefði slegið Gunnhildi þegar verið var að vísa honum út af staðnum...“   Í vottorði Halldórs Jónssonar læknis, dags. 18. febrúar 2002, segir:  „Þar var einhver kúnni sem var drukkinn og var vikið úr húsi en vildi það ekki og sló til hennar þannig að hún hlaut eitt högg hægra megin í andlitið og féll við og fékk hnykk á bakið og hnakkann að hún heldur..“  Í matsgerð Ragnar Jónssonar læknis og Jónasar Hallgrímssonar læknis dags. 16. janúar 2003, segir:  „Annar þeirra, aðallega sem var verið að vísa út, gaf henni skyndilega olnbogaskot í andlitið er hún gekk í humátt á eftir þeim sem verið var að vísa út ásamt starfsmönnum sem leiddu hann út. Hún segist hafa dottið í gólfið og hún hafi fengið högg á hægri kinn.“

Stefndi telur ljóst af framangreindu að lýsing stefnanda á atburðum kvöldsins hafi ekki verið á eina leið, allt frá því að slegið var til hennar skyndilegu olnbogaskoti ásamt því að hafa dottið á gólfið. Í millitíðinni var slegið til hennar og hún féll við, án þess þó að lenda á gólfinu.

             Stefndi telur mikinn mun á milli þess að einstaklingur slær til annars eða gefur olnbogaskot. Í fyrra tilfellinu hefði stefndi þurft að snúa sér við til að slá til stefnanda, en í seinna tilfellinu hefði hann þurft að snúa bakinu í hana. Ef miðað er við að um olnbogaskot hafi verið að ræða getur vel verið að það hafi verið olnbogi stefnda sem lenti í andliti stefnanda en fráleitt er að halda því fram að um viljaverk hafi verið að ræða og að hann hafi vitað af stefnanda fyrir aftan sig.  Á grundvelli framangreinds telur stefndi ekki  annað tækt en að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda í málinu.

Til vara krefst stefndi lækkunar bóta að mati dómsins, sbr. heimild í 24. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.

Stefndi telur ljóst af gögnum málsins, að stefnandi hafði lent í umferðarslysi einungis fimm dögum fyrir meinta líkamsárás stefnda. Hún hafi leitað á slysadeild LSH í Fossvogi og var greind með tognun í lendhrygg en skv. læknisvottorði þar um kemur einnig fram að stefnandi hafi átt við einkenni að stríða í mjóbaki.

Stefnandi leitaði einnig á slysadeild LSH í Fossvogi 28. nóvember 1999 og greindist þar með mar og yfirborðsáverka á andliti og höfuðverk. Einnig var hún greind með tognun á lendhrygg. Stefndi bendir á að hún var greind með sama áverka fimm dögum fyrr. Stefndi tekur fram að í matsgerð Ragnars Jónssonar læknis og Jónasar Hallgrímssonar læknis, dags. 16. janúar 2001, kemur fram að stefnandi hafi haft fyrri sögu um óþægindi í baki, sbr. eftirfarandi;  „Í heilsufarssögu kemur fram að hún á að hafa verið greind með byrjandi brjósklos í baki. Hafi þetta greinst með sneiðmyndatöku í vor eða vorið áður (innsk. stefnda vorið 1999 eða 1998) og var þá í framhaldi af því sem eðlilegt er send í sjúkraþjálfun sem henni fannst bæta sig mjög mikið. Hún tók svo hlé um sumarið byrjaði aftur í sjúkraþjálfun tveimur vikum fyrir þetta óhapp (innsk. stefnda umferðarslysið 23. nóvember 1999) vegna endurkomu á svipuðum einkennum eins og hún hafði þegar brjósklosið var greint.“  Varðandi óvinnufærni stefnanda eftir 28. nóvember 1999 kemur eftirfarandi fram í matsgerðinni:  „Gunnhildur segist hafa farið í vinnu eftir u.þ.b. eina viku. Hún vann síðan áfram í sama starfi sem veitingastjóri á Hótel Loftleiðum.“

Þá kemur fram á bls. 8 í matsgerðinni, að matsmenn greini ekki á milli slysanna 23. nóvember 1999 og 28. nóvember 1999 hvað varðar varanlegar afleiðingar, enda mjög stutt á milli slysanna. Stefnandi var því metin í heild með 12% varanlega örorku og varanlegan miska eftir atvikin, þannig að niðurstaða matsmanna var 6% varanleg örorka og varanlegur miski vegna afleiðinga meintrar líkamsárásar 28. nóvember 1999. Einnig var tímabundið atvinnutjón stefnanda metið ein vika vegna afleiðinga frá 28. nóvember 1999.

Stefndi bendir á að þar sem einkenni stefnanda hafi aukist eftir framangreint mat hafi verið framkvæmt endurmat hinn 20. desember 2005. Varðandi fyrra heilsufar kemur eftirfarandi fram; „Hún fór í sjúkraþjálfun árið 1999 vegna óþæginda frá baki, sem voru staðbundin og lagaðist hún við þjálfun. Hún kveðst vera hætt að reykja og hafa verið almennt heilsuhraust og reglusöm áður en hún slasaðist í nóvember 1999.“  Stefndi tekur fram að mikill munur sé á fyrra heilsufari stefnanda milli matsgerða, allt frá því að vera heilsuhraust fyrir nóvember 1999 til þess að hafa greinst með brjósklos og verið í sjúkraþjálfun vegna þessa tveimur vikum fyrir umferðarslysið 23. nóvember 1999.  Eftir fyrra mat stefnanda lenti hún í umferðarslysi 13. maí 2005 sem ýfði upp fyrri einkenni, þ.e. verki í baki með leiðni niður í vinstri fót skv. ummælum stefnanda í matsgerðin frá 2005.  Varðandi óvinnufærni eftir 28. nóvember 1999 kemur fram í matsgerðinni eftirfarandi; „Gunnhildur kveðst hafa verið frá vinnu um það bil í tvær vikur eftir þennan atburð og hélt síðan áfram í sama starfi sem veitingastjóri á Hótel Loftleiðum.“  Varðandi varanlegar afleiðingar er stefnandi metin til 5% varanlegs miska og 10% varanlegrar örorku vegna afleiðinga meintrar líkamsárása 28. nóvember 1999. Ásamt þessu rekja matsmenn tímabundið atvinnutjón stefnanda einungis til líkamsárásarinnar 28. nóvember 1999, en ekki til umferðarslyssins 23. nóvember 1999, en um var að ræða tvær vikur.

Stefndi telur að á grundvelli framangreinds beri að lækka bætur, enda ljóst að erfitt er að greina á milli afleiðinga umferðarslyss 23. nóvember 1999 og meintrar líkamsárásar fimm dögum seinna. Einnig verður að líta til þess að stefnandi var í sjúkraþjálfun vegna bakóþæginda þegar hún lenti í slysinu 23. nóvember 1999. Ekki sé hægt að fallast á niðurstöðu matsgerðar í dags. 20. desember 2005, enda 10% varanleg örorka mjög há miðað við áverka þá sem stefnandi var greind með á slysadeild LSH í Fossvogi og fyrri stoðkerfiseinkenni stefnanda. Einnig ber að líta til þess að stefnandi taldi áverka sína það litla að hún féll frá kæru í málinu.

Um lagarök er vísað til almennu skaðabótareglunnar og 1. mgr. 24. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Þá er vísað til XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála varðandi málskostnað.

 

Skýrslur fyrir dómi.

             Í skýrslu stefnanda fyrir dómi lýsir hún atburðinum svo að tveir starfsmenn hennar, þeir Guðjón Eiríksson og Símon Ægir Símonarson, hafi verið að karpa við stefnda og Sævar Jóhannesson, vin hans. Starfsmennirnir voru að reyna að koma þeim út af veitingastaðnum þar sem það átti að fara loka staðnum.  Hún kom þar að og kynnti sig og bað þá að yfirgefa staðinn.  Þeir hafi ekkert verið á því í byrjun en síðan létu þeir undan. Þeir hafi verið á leiðinni út þegar stefndi hafi snúið sér snögglega við og gefið henni olnbogaskot í andlitið. Þetta átti sér stað í anddyri Hótels Loftleiða. Hurðin fyrir aftan hana hafi verið opin. Hún kvað höggið hafa verið þungt. Hún hafi farið í gegnum hurðina og lent á bakinu á hörðu gólfinu og rekið höfuðið í gólfið og vankast. Hún kvaðst ekki hafa getað séð það fyrir að hann myndi gefa henni olnbogaskot er hann hafi skyndilega snúið sér við. Guðjón hafi verið til hliðar við hana.  Hún telur að stefndi hafi vitað af henni fyrir aftan hann. Stefndi hafi verið búinn að sætta sig við að fara út og þau hafi verið að spjalla saman. Hún hafi fengið olnbogann á hægri kinn.  Hún fékk við það áverka á kinnina, undir augað og tognaði á lendarhrygg. Stefnandi segir að hún hafi lent í umferðarslysi fimm dögum áður. Hún kvaðst sér hafa versnað til muna eftir þetta slys og verkir hafi aukist eftir þetta. Hún kveðst hafa farið á slysadeild. Hún kveðst hafa séð stefnda daginn eftir. Þá hafi hann komið til að sækja jakkann sinn, en hún telur að karpið hafi verið út af jakkanum sem hafi verið inni í salnum. Er verið var að vísa stefnda út hafi honum verið boðið að fara aðra leið og sækja jakkann en þau hafi ekki viljað fá hann inn í salinn aftur. Hún kvaðst ekki hafa kært strax þar sem afleiðingarnar hafi ekki komið strax fram og hún hafi hálfpartinn verið beðin um það af veitingamanninum að kæra ekki. Hún hafi ekki gefið skýrslu hjá lögreglu. Lögreglan hafi komið á staðinn og lýsing í lögregluskýrslu er þeirra og vel geti verið að talað hafi verið um að hún hafi verið slegin. Hún telur rétta lýsingu koma fram hjá matsmönnum í matsgerðunum. Stefnandi er í dag óvinnufær og búin að fara í tvær aðgerðir og vera 100% öryrki vegna þessara tveggja slysa. Hún kveðst fá bætur frá Tryggingastofnun og lífeyrissjóðnum. Varðandi heilsufarssögu sína segir hún að upp úr áramótunum 1999/2000 hafi hún byrjað í sjúkraþjálfun. Hún hafi farið í alls konar sprautur hjá Bjarna Valtýssyni og þetta hafi endað með því að Halldór Jónsson bæklunarlæknir hafi ákveðið að gera tvær aðgerðir. Önnur þeirra var gerð í ágúst 2000 og eftir hana hafi hún verið orðin þokkalega vinnufær.  Frá áramótum 2003/2004 var hún óvinnufær og fór í hina aðgerðina 2004. Uppfrá því hafi hún verið ómöguleg. Stefnandi kveðst ekki hafa verið óvinnufær eftir bílslysið 23. nóvember 1999. Hún sjálf kveðst ekki geta metið afleiðingarnar af hvoru óhappinu fyrir sig. Hún kvaðst hafa verið í sjúkraþjálfun nokkrum árum áður en ekkert síðustu mánuðina fyrir óhöppin í nóv. 1999. Nánar aðspurð kannast hún við að hafa verið í sjúkraþjálfun fyrir óhöppin í nóv. 1999 og hafi sjúkraþjálfunin verið vegna vöðvabólgu. Hún kannast ekki við að hafa verið greind með brjósklos fyrir umferðarslysið 1999. Hún kveður ástand sitt í dag vera verra en fyrir spengingaraðgerðirnar.

             Í skýrslu stefnda kom fram að hann muni lítið eftir kvöldinu sökum ölvunar. Hann og Sævar hafi skilið sig frá hópnum.  Hann man þó eftir því að verið var að fylgja honum út af hótelinu og það hafi komið til átaka í anddyrinu. Hann man að andlit hans var klesst niður í flísarnar í anddyrinu og hann horfir á Sævar í svipaðri stöðu. Sævar hafi verið að öskra á þjónana að slaka á, en þá hafi stefndi fengið spörkin í andlitið. Hann man ekki eftir stefnanda. Hann heyrði fyrst af afskiptum hennar einu eða tveimur árum seinna.  Hann man ekki eftir að hafa gefið henni olnbogaskot. Hann kveðst muna lítillega eftir sér á slysadeild. Hann var með mikil glóðaraugu á báðum augum, sjónhimnan var rifin og hann var með lepp yfir auganu. Hann kveðst hafa verið svo að segja óvinnufær næstu viku á eftir vegna útlits síns. Hann kveðst hafa kært atburðinn til lögreglu, en lögreglan ekki minnist á hlut stefnanda heldur var talað um að hann hafi bitið Guðjón. Hann kveðst hafa dregið kæruna til baka. Honum hafi verið sagt að Guðjón myndi kæra hann fyrir bitið ef hann kærði Símon fyrir árásina og yfirmenn beggja óskuðu eftir því að þetta yrði ekki lögreglumál.

             Í skýrslu Guðjóns Eiríkssonar þjóns kom fram að verið var að reyna að lempa stefnda og Sævar, vin hans, til að fara út og hafði Símon tekið það að sér.  Þeim dvaldist nokkuð og mætti fór til að kanna það. Þegar þeir voru komnir í anddyrið hafi stefnandi komið þar að og beðið þá að fara, en stefnandi var yfirmaður mætta.  Það var eins og stefndi og Sævar hafi áttað sig á því að það þýddi ekkert að malda meira í móinn og stefndi yppti öxlum eins og í uppgjöf. Síðan sneri hann sér við og kom með leiftursnöggt olnbogaskot aftur fyrir sig sem lenti framan í stefnanda og kastaðist hún tvo til þrjá metra og lenti á gólfinu. Þetta hafi verið mikið högg. Hann kvaðst hafa verið á ská fyrir aftan stefnanda og séð þetta. Hann hikaði augnablik en síðan stökk mætti á stefnda og sneri hann niður. Stefndi beit hann þá í framhandlegginn og átök urðu við að reyna að losa bitið og urðu átökin til þess að það sá svolítið á stefnda.  Þegar mætti var kominn með undirtökin lágu þeir rólegir og biðu eftir lögreglunni. Mætti telur að stefndi hafi vitað af stefnanda því hún var að fylgja honum út. Hann telur að olnbogaskotið hafi verið ætlað stefnanda. Hann kveðst hafa farið á slysavarðstofuna vegna bitsins og hafi haft hug á því að kæra en fallið frá því að beiðni yfirmanna.

             Í skýrslu Símonar Ægis Símonarsonar, fv. þjóns á Loftleiðum, kom fram að stefnandi hafi verið yfirmaður hans á Loftleiðum. Hann sagði að hann og Guðjón hafi verið að ganga frá og Sævar og stefndi hafi komið inn í salinn. Eftir stutta stund biðja þeir stefnda og Sævar að fara og hafi þeir gert það. Hann hafi verið að leiða Sævar út og þeir verið komnir fram í anddyri eða út fyrir þegar þeir heyrðu einhver læti inni. Þeir löbbuðu til baka og sáu stefnanda liggja í gólfinu og Guðjón og stefnda vera að slást á gólfinu. Guðjón hafi haldið þannig um stefnda að stefnda hafi tekist að bíta í handlegginn á honum og Guðjón hafi öskrað mjög mikið. Hann hafi ætlað að skilja þá og hafi í þeim tilgangi sett puttana inn augun á stefnda. Það hafi tekist og hafi Guðjón þá kallað að hann væri með hann. Sævar hafi verið kominn til þeirra. Hann kveðst aldrei hafa sparkað í stefnda. Hann kvað stefnda og Sævar hafa verið nokkuð ölvaða.  Hann man ekki hvar stefnandi lá nákvæmlega þar sem hann hafi strax farið í það að aðstoða Guðjón.  Hann kvaðst ekki hafa kært þar sem yfirmenn þeirra og stefnda hafi beðið þá að gera ekkert meira úr þessu. Hann kvað Guðjón hafa haft bitfar. Varðandi aðdragandann kvaðst hann ekki hafa séð stefnda veita Gunnhildi áverka, hann hafi ekki búist við því og enginn aðdragandi hafi verið.

             Í skýrslu Sævars Jóhannessonar kom fram að atvik eins og hann muni þau hafi verið með þeim hætti að þeir stefndi hafi verið ölvaðir og með almenn fylleríslæti. Þeir hafi m.a. brotið rauðvínsflösku og það var verið að vísa þeim út af staðnum. Hann kveður tvo þjóna hafi komið og ráðist á þá.  Þeim hafi verið haldið og stefndi hafi verið laminn til óbóta. Vitnið og unnusta hans hafi farið með stefnda uppá slysavarðstofu þar sem gert hafi verið að sárum hans.  Síðan hafi þau farið með hann heim til þeirra þar sem hann hafi sofið um nóttina. Stefndi hafði verið mjög blóðugur og þau lánuðu honum föt. Vitnið man ekki sérstaklega eftir að hafa séð stefnanda en finnst eins og hún hafi verið þarna er verið var að fylgja þeim út. Hann kvað þá stefnda hafa fylgst að á leið út úr húsinu. Þegar þeir hafi legið á gólfinu hafi hann horft á þjónana ganga í skrokk á stefnda.  Vitnið kveðst ekki átta sig á því af hverju þeir hafi gengið í skrokk á honum því þeir voru fyrir löngu búnir að yfirbuga stefnda. Hann sá stefnda aldrei gefa stefnanda högg. Hann kvaðst hafa heyrt um hið meinta högg nokkrum mánuðum síðar en mikið hafi verið rætt um þennan atburð á vinnustaðnum og þá hvort stefndi ætti að kæra þjónana fyrir líkamsárás. Vitnið kannast við að stefndi hafi bitið Guðjón en man það ekkert frekar.

 

Forsendur og niðurstaða

             Stefndi hefur frá upphafi neitað bótaábyrgð í málinu.  Hann ber að hann muni lítið eftir atburðum kvöldsins 28. nóvember 1999 sökum ölvunar. Áverki stefnanda hafi ekki komið til tals hjá lögreglu er hann kærði líkamsárás þá er hann varð fyrir. Honum hafi aldrei verið sagt frá áverka stefnanda og hafi fyrst fengið óljósar fréttir af honum frá óskyldum aðila einu eða tveimur árum síðar. Formlega hafi honum fyrst verið tilkynnt um áverkana er hann fékk kröfubréf frá stefnanda 21. febrúar 2003, eða rúmum þremur árum síðar. Samkvæmt gögnum málsins átti stefndi ekki aðild að matsbeiðninni 5. nóvember 2002, sbr. matsgerð Ragnars Jónssonar og Jónasar Hallgrímssonar. Í síðari matsbeiðninni frá 16. ágúst 2004 er stefndi matsþoli, sbr. matsgerð Stefáns Más Stefánssonar og Júlíusar Valssonar. Í kjölfar matsgerðarinnar 20. desember 2005 var ekki gerð krafa á stefnda heldur mál þetta höfðað tæpu ári síðar.

             Að mati dómsins liggur fyrir að stefnandi varð fyrir áverka á andliti og tognun á lendarhrygg að kvöldi 28. nóvember 1999. Stefnandi hefur sönnunarbyrði fyrir því að stefndi hafi veitt henni áverkann með saknæmum og ólögmætum hætti.

Stefnandi kærði ekki atburðinn til lögreglu og ekki liggur fyrir samtímalýsing hennar á atburðinum. Það sem haft er eftir stefnanda í málsgögnum varðandi atburðinn er allt frá því að stefndi hafi slegið hana, sbr. lögregluskýrslu frá 28. nóvember 1999, án þess að tekið sé fram að stefnandi hafi dottið við það, og til þess að stefnandi hafi fengið skyndilegt olnbogaskot í andlitið og dottið í gólfið.  Fyrir dómi ber stefnandi að stefndi hafi snögglega snúið sér við og gefið henni olnbogaskot í andlitið og við það hafi hún kastast aftur á bak í gegnum hurðina og á hart gólfið.

Að mati dómsins er lýsing stefnanda á hinum ætlaða bótaskylda atburði mjög á reiki og dregur það úr trúverðugleika hversu seint lýsing er gefin á honum.  Þá verður ekki hjá því litið, að framburður stefnanda fyrir dómi, varðandi heilsufarssögu sína fyrir atburðinn, er ekki í samræmi við gögn málsins. Vitnisburður eina sjónarvottsins breytir hér engu um það að ekki liggur fyrir með skýru móti hvernig atburðarrásin var. Vitnið var undirmaður stefnanda og er að skýra frá atburðinum nú fyrst eða rúmum sjö árum eftir hann. Þá dregur það einnig úr sönnunargildi framburðarins að hann lenti sjálfur í átökum við stefnda þannig að stórsá á stefnda eftir þau.

Þegar á allt þetta er litið telur dómurinn að stefnanda hafi ekki tekist að sýna fram á að stefndi hafi veitt henni áverkann með saknæmum og ólögmætum hætti.  Verður stefndi því sýknaður af öllum kröfum stefnanda í máli þessu.

Eftir atvikum þykir rétt að hvor aðili um sig beri sinn kostnað af málinu.  Allur gjafsóknarkostnaður stefnanda, þar með talin málflutningsþóknun lögmannsins, Lilju Jónasdóttur hrl., sem er hæfilega ákveðin 300.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði. Hefur þá ekki verið tekið tillit til virðisaukaskatts.

Af hálfu stefnanda flutti málið Lilja Jónasdóttir hrl.

             Af hálfu stefnda flutti málið Bergrún Elín Benediksdóttir hdl.

             Sigrún Guðmundsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan ásamt læknunum Stefáni Carlssyni og Sveinbirni Brandssyni.

 

DÓMSORÐ

Stefndi, Jón Eiríkur Jóhannsson, er sýknaður af kröfum stefnanda, Gunnhildar Ástu Gunnarsdóttur. 

Málskostnaður fellur niður.

  Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkis­sjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, Lilju Jónasdóttur hrl., 300.000 krónur.