Hæstiréttur íslands
Mál nr. 273/2011
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
|
Föstudaginn 6. maí 2011. |
|
|
Nr. 273/2011. |
Lögreglustjórinn á Suðurnesjum (Óli Ásgeir Hermannsson fulltrúi) gegn X (Jóhannes Árnason hdl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi, á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Viðar Már Matthíasson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 4. maí 2011 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 5. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 4. maí 2011, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 20. maí 2011 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími.
Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 4. maí 2011.
Lögreglustjórinn á Suðurnesjum hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjaness úrskurði að X, kt. [...], verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 20. maí 2011, kl. 16.00.
Í greinargerð lögreglustjóra segir að hinn 22. mars 2011 hafi honum borist tilkynning frá tollgæslunni í Flugstöð Leifs Eiríkssonar um að kærði hefði ásamt ferðafélaga sínum, A, kt. [...], verið stöðvuð á tollhliði með ferðatösku sem grunur var um að í væru falin fíkniefni. Við nánari skoðun á ferðatöskunni hafi fundist falskur botn.
Við skoðun tæknideildar lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu hafi komið í ljós umtalsvert magn af meintum fíkniefnum, falin í fölskum botni töskunnar. Hafi fundist nokkurt magn meintra e-taflna og LSD skammta. Við prófun tæknideildar lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu hafi töflurnar reynst innihalda MDMA. Samtals hafi verið um að ræða 36.604 stk. af e-töflum og 4.471 stk. af LSD skömmtum.
Kærði hafi verið yfirheyrður í nokkur skipti og framburður hans verið á reiki alla rannsókn málsins.
Rannsókn málsins sé á lokastigum. Málið sé stórfellt og ljóst að um mikið magn meintra fíkniefna sé að ræða. Enn sé beðið eftir mikilvægum gögnum frá Spáni sem lögregla telji að geti haft mikil áhrif á gang rannsóknarinnar, en von sé á gögnunum á næstu dögum. Það sé markmið lögreglu að málið verði sent til ríkissaksóknara innan tímamarka kröfunnar um gæsluvarðhald. Einangrun hafi verið aflétt af kærða.
Lögreglan telji að þau fíkniefni sem kærði hafi komið með til landsins bendi eindregið til þess að efnin hafi verið ætluð til sölu og dreifingar og háttsemi hans kunni að varða við ákvæði 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940, auk ákvæða laga nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni. Lögreglan telji jafnframt að ætla megi að kærði kunni að torvelda rannsókn málsins og hafa áhrif á samseka gangi hann laus.
Kærði þyki vera undir sterkum rökstuddum grun um stórfellt fíkniefnalagabrot, en um sé að ræða mikið magn hættulegra fíkniefna. Nær öruggt þyki að fíkniefnin hafi átt að fara í sölu og dreifingu til ótiltekins fjölda manna hér á landi. Hið meinta brot kærða þyki mjög alvarlegt. Með tilliti til hagsmuna almennings þyki þannig einnig nauðsynlegt að kærði sæti áfram gæsluvarðhaldi á meðan mál hans er til meðferðar en telja verði að ef sakborningur, sem orðið hefur uppvís að jafn alvarlegu broti og kærði hafi játað, gangi laus áður en máli ljúki með dómi þá valdi það hneykslun í samfélaginu og særi réttarvitund almennings. Staða kærða í málinu þyki sambærileg stöðu sakborninga í öðrum svipuðum málum, sbr. dóma Hæstaréttar í máli nr. 164/2010, 136/2008, 635/2007, 376/2006, 377/2006, 378/2006, 154/2006, 368/2005, 93/2005, 488/2004, 269/2004, 417/2000 og 471/1999, þar sem sakborningum hafi verið gert að sæta gæsluvarðhaldi fram að dómi þegar legið hafi fyrir rökstuddur grunur um beina aðild að innflutningi að miklu magni fíkniefna í ágóðaskyni. Ekki sé talin ástæða til að ætla að refsimat og réttarvitund almennings í slíkum málum hafi breyst frá því téðir dómar voru uppkveðnir, og sé talið að skilyrðum 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála sé einnig fullnægt í því máli sem hér um ræðir.
Með vísan til alls framangreinds, rannsóknarhagsmuna, a-liðar 1. mgr. 95. gr., en til vara 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og laga nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni telur lögreglustjóri brýna rannsóknarhagsmuni, en til vara almannahagsmuni, standa til þess að kærða verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 20. maí 2011 kl. 16.00.
Samkvæmt rannsóknargögnum málsins er kærði undir rökstuddum grun um að hafa framið brot sem fangelsisrefsing liggur við og hefur hann sætt gæsluvarðhaldi frá 23. mars sl. á grundvelli rannsóknarhagsmuna. Rannsókn málsins er á lokastigi en beðið er eftir gögnum erlendis frá. Verður að fallast á með lögreglustjóra að enn séu fyrir hendi skilyrði a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála og er því fallist á kröfu hans um að kærði sæti áfram gæsluvarðhaldi, eins og nánar greinir í úrskurðarorði.
Úrskurð þennan kveður upp Sandra Baldvinsdóttir héraðsdómari.
Úrskurðarorð:
Kærði, X, skal sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 20. maí 2011, kl. 16.00.