Hæstiréttur íslands

Mál nr. 326/2004


Lykilorð

  • Brenna
  • Skaðabætur
  • Réttargæslumaður


Fimmtudaginn 9

 

Fimmtudaginn 9. desember 2004.

Nr. 326/2004.

Ákæruvaldið

(Ragnheiður Harðardóttir saksóknari)

gegn

Guðjóni Þór Jónssyni

(Sveinn Andri Sveinsson hrl.)

Ívari Birni Ívarssyni og

(Kjartan Reynir Ólafsson hrl.)

Sigurði Ragnari Kristinssyni

(Brynjar Níelsson hrl.)

 

Brenna. Skaðabætur. Réttargæslumaður.

Ákærðu voru sakfelldir fyrir brennu með því að hafa, eftir að ákærði S hafði sparkað gat á útidyrahurð, hellt um 10 lítrum af bensíni í anddyri húss í Reykjavík og á tröppur og veggi utan dyra og kveikt síðan í svo að eldur hafi blossað upp. Var talið, að ákærðu hafi hlotið að sjá fram á að mönnum væri búinn bersýnilegur lífsháski af verknaðinum, svo og að almannahættu hafi leitt af íkveikjunni. Var þeim gert að sæta fangelsi í tvö ár. Kostnaður vegna þóknunar skipaðs réttargæslumanns í héraði var felldur á ríkissjóð, en ekki hafði verið lagaheimild til skipunar hans.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Guðrún Erlendsdóttir.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 14. júlí 2004 í samræmi við yfirlýsingar ákærðu um áfrýjun og jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst þess að refsing ákærðu verði þyngd.

Ákærðu krefjast þess að refsing, sem þeim var gerð með héraðsdómi, verði milduð.

Í málinu er ákærðu bornir sökum um brennu með því að hafa að morgni þriðjudagsins 1. júlí 2003, eftir að ákærði Sigurður Ragnar Kristinsson hafi sparkað gat á útidyrahurð, hellt úr tveimur brúsum samtals 10 lítrum af bensíni í anddyri hússins A við [...] í Reykjavík og á tröppur og veggi utan dyra og kveikt síðan í svo að eldur hafi blossað upp. Hafi þeir með því stofnað lífi þriggja íbúa hússins í hættu, valdið eignatjóni og hættu á yfirgripsmikilli eyðingu eigna ef eldurinn hefði breiðst út, en hans hafi fljótt orðið vart og lögreglu ásamt slökkviliði tekist að ráða niðurlögum hans. Í ákæru er þessi háttsemi talin varða við 1. mgr., sbr. 2. mgr. 164. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Við aðalmeðferð málsins fyrir héraðsdómi neituðu ákærðu að hafa hellt bensíni inn um dyr áðurnefnds húss, en gengust að öðru leyti við þeim verknaði, sem í ákæru greinir. Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður staðfest sú niðurstaða hans að sannað sé að ákærðu hafi gerst sekir um þá háttsemi, sem þeir eru bornir sökum um, þar með talið að hafa hellt bensíni inn um dyr hússins.

Í gögnum málsins er húsinu A lýst þannig að um sé að ræða steinsteypt einbýlishús, sem sé einlyft á niðurgröfnum kjallara. Uppdrættir að húsinu séu frá 1933 og stærð þess alls 226,2 m2. Milligólf sé steinsteypt, en á aðalhæð hússins séu innveggir og klæðning á innanverðum útveggjum úr timbri. Anddyri, sem um ræðir í málinu, sé að norðanverðu á aðalhæð, en þaðan sé gengið inn í eldhús og síðan áfram inn í íbúð. Anddyrið sé allt klætt timbri að innan, en þunn og óþétt hurð úr krossviði í fururamma sé í dyrum þaðan inn í eldhús. Sérstakur inngangur sé að kjallara hússins, sem ekki er lýst nánar í fyrirliggjandi gögnum. Samkvæmt álitsgerð, sem lögregla aflaði frá brunamálastofnun, hefði hurð milli anddyris og eldhúss ekki getað haldið eldi í skefjum lengur en um 5 mínútur, en eftir það hefði hann borist um allt húsið á skömmum tíma og valdið algerri eyðileggingu þess. Húsið standi á hinn bóginn langt frá öðrum húsum og hafi því verið lítil hætta á að eldurinn breiddist frekar út.

Eins og greinir í héraðsdómi hefur ákærði Guðjón Þór Jónsson viðurkennt að hafa séð „einhverja bíla“ utan við húsið áður en hann og aðrir ákærðu lögð eld að því. Þótt atvik þessi gerðust um klukkan 9 að morgni á virkum degi máttu ákærðu álykta af þessu að íbúar hússins væru þar innan dyra og því allt eins líklegt að farið væri að þeim sofandi. Verður því að líta svo á að ákærðu hafi hlotið að sjá fram á að mönnum væri búinn bersýnilegur lífsháski af verknaði þeirra. Verður einnig fallist á með héraðsdómi að almannahættu hafi leitt af íkveikju ákærðu og þeir hlotið að sjá fram á að eldsvoðinn mundi hafa í för með sér augljósa hættu á yfirgripsmikilli eyðingu á eignum annarra. Verður því staðfest sú niðurstaða hins áfrýjaða dóms að verknaður ákærðu varði við 1. mgr., sbr. 2. mgr. 164. gr. almennra hegningarlaga.

Samkvæmt gögnum, sem lögð hafa verið fyrir Hæstarétt, hafa bætur, sem dæmdar voru Z og Y í hinum áfrýjaða dómi, verið greiddar að fullu, auk þess sem ákærði Ívar Björn Ívarsson hefur greitt Tryggingamiðstöðinni hf. þriðjung þeirrar fjárhæðar, sem henni var dæmd í bætur. Ákærðu hafa ekki áður gerst sekir um brot, sem áhrif geta haft hér við ákvörðun refsingar, en í þeim efnum verður á hinn bóginn að líta til ákvæða 1., 3., 6. og 7. töluliðar 1. mgr. og 2. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga. Að því virtu er refsing ákærðu hæfilega ákveðin í héraðsdómi, en til frádráttar henni kemur gæsluvarðhald, sem þeir sættu allir, eins og nánar greinir í dómsorði.

Ákvæði hins áfrýjaða dóms um skaðabætur eru ekki til endurskoðunar fyrir Hæstarétti.

Fyrir héraðsdómi var nafngreindur hæstaréttarlögmaður skipaður réttargæslumaður fyrir Z og Y, sem bjuggu í húsinu A þegar fyrrgreind atvik gerðust og höfðu uppi í málinu kröfur um bætur fyrir fjártjón og miska úr hendi ákærðu. Samkvæmt ákæru voru brot ákærðu sem áður segir talin varða við ákvæði 164. gr. almennra hegningarlaga. Var af þessum sökum ekki fullnægt skilyrðum 1. mgr. 44. gr. c., sbr. 44. gr. b. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, svo sem þeim var breytt með 14. gr. laga nr. 36/1999, til að skipa réttargæslumann og því heldur ekki til að dæma ákærðu til greiðslu þóknunar hans með öðrum sakarkostnaði, svo sem gert var í hinum áfrýjaða dómi. Verður því ekki komist hjá að fella þennan hluta sakarkostnaðar á ríkissjóð, en að öðru leyti verða ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað staðfest.

Ákærðu verða dæmdir til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður um refsingu ákærðu, Guðjóns Þórs Jónssonar, Ívars Björns Ívarssonar og Sigurðar Ragnars Kristinssonar, en til frádráttar komi gæsluvarðhaldsvist hvers þeirra frá 2. til 9. júlí 2003.

Ákvæði héraðsdóms um skaðabætur og sakarkostnað skulu vera óröskuð að öðru leyti en því að þóknun réttargæslumanns brotaþola, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, að fjárhæð 80.000 krónur greiðist úr ríkissjóði.

Ákærði Guðjón Þór greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Sveins Andra Sveinssonar hæstaréttarlögmanns, 150.000 krónur. Ákærði Ívar Björn greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Kjartans Reynis Ólafssonar hæstaréttarlögmanns, 150.000 krónur. Ákærði Sigurður Ragnar greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Brynjars Níelssonar hæstaréttarlögmanns, 150.000 krónur. Ákærðu greiði óskipt annan áfrýjunarkostnað málsins.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 3. júní 2004.

Mál þetta sem dómtekið var 19. maí sl. er höfðað samkvæmt ákæru útgefinni af ríkissaksóknara 26. janúar 2004 á hendur Guðjóni Þór Jónssyni, kennitala 101072-4959, Gljúfraseli 11, Reykjavík, Ívari Birni Ívarssyni, kennitala 231081-4849, Kristnibraut 41, Reykjavík og Sigurði Ragnari Kristinssyni, kennitala 041281-4489, Lækjarási 3, Reykjavík, fyrir brennu, laust fyrir klukkan 9 þriðjudagsmorguninn 1. júlí 2003, að A við [...] í Reykjavík, með því að hafa, eftir að ákærði Sigurður Ragnar hafði sparkað gat á útidyrahurðina, hellt bensíni úr tveimur 5 lítra brúsum inn í anddyri hússins og á tröppur og veggi og kveikt í svo að eldur blossaði upp. Með þessu stofnuðu ákærðu lífi þriggja íbúa í húsinu í bersýnilegan háska, ollu eignatjóni og hættu á yfirgripsmikilli eyðingu á eignum annarra manna, hefði eldurinn breiðst út, en hann uppgötvaðist fljótlega og var slökktur af lögreglu og slökkviliði.

Þetta er talið varða við 1. mgr., sbr. 2. mgr., 164. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar.

Af hálfu Tryggingamiðstöðvarinnar hf. er krafist skaðabóta að fjárhæð 1.317.855 krónur auk vaxta og dráttarvaxta samkvæmt  vaxtalögum nr. 38/2001.

Af hálfu Y, kennitala [...], er krafist skaðabóta að fjárhæð 3.559.730 krónur auk vaxta og dráttarvaxta samkvæmt vaxtalögum.

Af hálfu Z, kennitala [...], er krafist skaðabóta að fjárhæð 2.381.220 krónur auk vaxta og dráttarvaxta samkvæmt vaxtalögum.

Verjandi ákærða, Guðjóns, krefst vægustu refsingar sem lög leyfa og hæfilegra málsvarnarlauna er greiðist úr ríkissjóði.

Verjandi ákærða, Ívars, krefst vægustu refsingar sem lög leyfa og hæfilegra málsvarnarlauna er greiðist úr ríkissjóði, auk þóknunar fyrir verjandastörf á rann­sóknarstigi.

Verjandi ákærða, Sigurðar, krefst vægustu refsingar sem lög leyfa og hæfilegra málsvarnarlauna er greiðist úr ríkissjóði.

Réttargæslumaður brotaþola gerir þær kröfur sem fram koma í bótakröfu auk réttargæsluþóknunar.

 

Málsatvik

I

Samkvæmt skýrslu lögreglunnar í Reykjavík frá 1. júlí 2003 barst tilkynning frá fjarskiptamiðstöð lögreglunnar um að lagður hefði verið eldur að húsinu A við [...]. Einnig fengust þær upplýsingar að ætlaðir brotamenn hefðu yfirgefið vettvang á grænni bifreið á skráningarnúmerinu [...].

Í lögregluskýrslu kemur fram að við aðkomu á vettvang kl. 8.56 hafi blasað við lögreglumönnum eldur á stigapalli hússins og einnig hafði eldur læst sig um aðal­inngangsdyr hússins. Annar lögreglumannanna sem á vettvang kom hafi tekið slökkvi­tæki úr lögreglubifreiðinni og náð að slökkva eldinn sem einnig hafði borist inn í forstofu. Slökkvilið hafi komið á staðinn kl. 9.00 og tekið við slökkvistarfinu. Þá kom Kristján Friðþjófsson frá tæknideild lögreglu á vettvang kl. 9.15 og rannsóknar­lögreglumaður kom á vettvang kl. 9.36.  Í skýrslu hans segir að slökkvistarfi hafi verið lokið er hann kom á vettvang. Mikið hafi verið brunnið við aðalinngang hússins og greinileg merki um bruna á útidyratröppum. Útidyr hússins hafi verið mikið brunnar og gler í glugga í anddyri við hlið dyranna hafi sprungið. Nokkuð af fötum og að minnsta kosti ein ryksuga hafi verið í skáp í anddyrinu og virtust hafa orðið skemmdir á þeim munum. Við skoðun á vettvangi hafi húsráðandi, Y, bent á föt í anddyri og sagt þar um að ræða mjög verðmæt föt, fjallaföt og mótorhjólaföt, en einnig hefðu verið í skápnum dýrar ryksugur af Rainbow gerð. Þá hafi Y bent á spegil í anddyrinu, sem verið hafi svartur af sóti, og sagt að þar væri um að ræða 150 ára gamlan ættargrip.

Lögregla ræddi við Y á staðnum. Hann kvaðst hafa vaknað við barsmíðar á útidyrahurð, en síðan hafi sér virst sem verið væri að brjóta upp hurðina. Hann hafi farið fram og inn í eldhús og séð logandi og fljótandi lög sem síðan hafi sprungið með miklum hvelli þannig að húsið hafi nötrað. Hann kvaðst hafa séð þrjá menn hlaupa frá húsinu og taldi sig kannast við tvo þeirra, ákærðu Guðjón og Sigurð.

Lögreglu barst tilkynning kl. 10.11 sama morgun um að bifreiðin [...] væri fundin. Lögregla handtók ákærðu sama morgun sem og tvær stúlkur, en þau voru samkvæmt skýrslu lögreglu öll í annarlegu ástandi og handtók lögregla þau. Við leit í bifreiðinni [...] fannst ekkert markvert, en megn lykt var í bifreiðinni af olíu eða bensíni. Ákærðu, Guðjón og Sigurður, sem og báðar stúlkurnar neituðu fyrir lögreglu að hafa lagt eld að húsinu við A, en sá þriðji, ákærði Ívar, viðurkenndi að hafa lagt eld að húsinu ásamt meðákærðu.

Með bréfi lögreglustjórans í Reykjavík frá 4. júlí 2003 fór lögreglustjóri þess á leit við brunamálastjóra að fram færi rannsókn á framangreindum atburði til þess að meta sérfræðilega þá hættu sem verið hafi á eigna- og manntjóni í umrætt sinn og til hvers eldurinn hefði getað leitt ef hann hefði ekki verið slökktur svo sem gert var. Guð­mundur Gunnarsson yfirverkfræðingur gerði athugun á almannahættu við íkveikjuna. Málið væri unnið út frá þeirri viðmiðun hvort íkveikjan hefði getað haft í för með sér almannahættu, sbr. 164. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Í rann­sókn hans kemur fram að við athugun og ákvörðun á almannahættu sé einkum litið til

a)                   hættu á að hagsmunir, þ.e. fjárhagsmunir eða líf manna og limir sem bundnir eru við eignina sem kviknaði í færu forgörðum

b)                  hættu á að hagsmunir færust eða spilltust utan þeirrar eignar sem kviknaði í, svo sem nálæg hús eða önnur mannvirki og lausa­fjármunir, og einnig hættu fyrir þá sem höfðust að í nágrenni við brunavettvang.

Í athugun Guðmundar segir meðal annars að hefði ekki verið gripið til slökkvistarfs megi ætla að eldurinn á tröppum hússins og utandyra hefði kulnað af sjálfu sér þegar bensínið væri uppbrunnið þar sem tröppurnar séu úr steinsteypu. Brunaálag í anddyrinu hafi fyrst og fremst verið fólgið í fötum sem þar hafi verið og í brennanlegum klæðningum í húsinu. Á ummerkjum hafi mátt sjá að fötin hafi verið allmikið brunnin og sviðnuð og sama hafi gilt um veggklæðningar. Bruni í bensíni hafi verið nægjanlegur til að koma af stað eldi í fötunum og veggklæðningunum. Sá bruni hafi síðan magnast upp í anddyrinu, þar sem nægjanlegt aðstreymi súrefnis hafi verið að eldinum í gegnum brotna útidyrahurðina. Hurðin inn í eldhúsið hefði ekki haldið eldinum í skefjum lengur en um 5 mínútur, en eftir það hefði eldurinn borist inn í húsið og valdið algerri eyðileggingu á því. Samhliða þessu hafi mátt ætla að eldurinn hefði borist upp í þakið í gegnum loftklæðningar með sömu afleiðingum. Hefði hurðin inn í eldhúsið verið opin hefði sama gerst, en eldurinn hefði farið fyrr inn í húsið. Þrátt fyrir að húsið yrði alelda hefðu ekki verið líkur á því að eldurinn breiddist út til annarra mannvirkja þar sem húsið væri langt frá öðrum húsum.

             Um almannahættu fyrir íbúa hússins segir í athugun Guðmundar að samkvæmt lögregluskýrslum hafi íbúarnir verið sofandi í suðurenda hússins, en vaknað við hávaðann sem orðið hafði þegar hurðinni var sparkað upp. Íbúarnir hafi verið komnir á stjá áður en íkviknun hafi átt sér stað, þar sem þau hafi lýst henni í skýrslum. Þegar íkviknun hafi átt sér stað hafi maðurinn verið staddur við glugga á vesturgafli en konan þá líklegast ennþá verið í svefnherbergi. Þau hafi farið inn í skála inn af eldhúsi og lokað dyrum milli skála og eldhúss, þar sem þau hafi beðið þar til slökkvilið kom á vettvang. Þau hafi ekki hætt sér út, þar sem þau hafi talið líklegt að beðið væri eftir þeim fyrir utan húsið. Þessar aðstæður hafi gert það að verkum að líkur á því að íbúarnir yrðu fyrir reykeitrun ykjust verulega. Önnur útidyrahurð sé á suðurhlið hússins úr nefndum skála. Um hana hefðu íbúarnir getað forðað sér þegar reykur/hiti hefði verið orðinn óbærilegur. Það að hurðin milli eldhúss og anddyris hafi verið lokuð, hafi hindrað að sprengingin sem varð við íkveikjuna færi lengra inn í húsið. Hefði hurðin verið opin og sprengingin farið inn í húsið hefðu verið líkur á því að útbreiðsla elds og reyks yrði það hröð að íbúarnir hefðu lokast inni í þeim herbergjum sem þeir hafi verið í og hefðu orðið að brjóta sér leið í gegnum glugga með tilheyrandi hættu á skurðsárum af brotnu gleri.

Í niðurstöðu athugunarinnar segir að telja megi miklar líkur á því að íkveikjan leiddi til almannahættu í húsinu A við [...] bæði varðandi eignir og líf og limi íbúanna. Vegna allmikils brunaálags í anddyrinu hafi eldur náð að magnast þar og berast inn í íbúðina um eldhúshurðina, sem hafi óverulega bruna­mótstöðu auk þess sem hún sé mjög óþétt. Eldurinn myndi ná að skemma og eyða innbúi á nokkrum mínútum og stórskemma fasteignina sjálfa á lítið lengri tíma. Þar sem íkveikjan hafi hafist með miklum hávaða, sem stafað hafi af því að útidyra­hurðinni var sparkað upp, hafi íbúarnir vaknað í tæka tíð. Það að hurðin milli eldhúss og anddyris hafi verið lokuð hafi dregið mjög úr áhrifum eldsins á íbúana, en hefði hún verið opin hefði hætta þeirra orðið mun meiri. Vegna aðstæðna utandyra, ætlaða hættu á árás á íbúana ef þeir kæmu út, hafi íbúarnir verið mun lengur inni í húsinu en eðlilegt hafi verið og samfara því orðið aukin hætta á reykeitrun. Vegna aðstæðna umhverfis húsið, það standi eitt og sér langt frá öðrum húsum, hafi ekki verið hætta á að eldur breiddist út til annarra eigna. Ekki hafi því verið um almannahættu að ræða hvað varði líf manna eða limi eða eignir utan hússins.

Í málinu hafa verið lögð fram gögn varðandi kæru sem ákærðu, Guðjón og Sigurður lögðu fram á hendur Y fyrir ætlað vopnalagabrot, en lögregla lét málið niður falla, þar sem það þótti ekki nægjanlegt til sakfellingar. Kæra ákærðu byggðist á því að Y hefði skotið á þá úr haglabyssu, úr húsi sínu A.

 

II

Við aðalmeðferð máls þessa gáfu ákærðu skýrslu fyrir dómi og vitnin Kristján Friðþjófsson og Ásmundur Örn Guðmundsson lögreglumenn, Y, Z, Á, L, H, F, B, Guðmundur Gunnarsson, R og Kristján K. Norðmann.

Verður nú rakinn framburður þeirra fyrir dómi.

Ákærð, Guðjón Þór Jónsson kvaðst hafa setið að drykkju ásamt meðákærðu á Karlagötunni heima hjá meðákærða, Sigurði, aðfaranótt 1. júlí. Ákærðu hafi einnig verið að neyta amfetamíns. Þeir hafi rætt um Y, sem hafi nokkru fyrir þennan atburð skotið að ákærðu úr haglabyssu og ofsótt Z. Það hafi verið komin einhver reiði í þá og þeir því viljað hræða Y hressilega, en ,,ekki drepa neinn”. Ákærðu hafi því farið á bensínstöð, keypt tvo bensínbrúsa og eldspýtur. Þeir hafi ekið í kringum heimili Y að A til að athuga aðstæður. Klukkan hafi verið um níu að morgni og hafi þeir talið að allir væru komnir í vinnu. Þeir hafi gengið að útidyrahurðinni og hafi meðákærði, Sigurður, barið hressilega á hurðina, en enginn hafi svarað. Þeir hafi haldið að enginn væri heima og ákærði, Guðjón, og meðákærði, Sigurður, hellt bensíni á veggi og tröppur hússins og ákærði, Ívar, hafi svo borið eld að. Ákærði kvaðst ekki hafa vitað til þess að meðákærði, Sigurður, hafi sparkað í útidyrahurðina og kvaðst ekki hafa vitað að bensíni hefði verið hellt inn í húsið. Ákærði kvaðst  ekki hafa heyrt í hundum þegar ákærði, Sigurður, barði að dyrum. Ákærði kvaðst ekki hafa vitað að maður byggi í kjallara hússins. Hann kvað þá ákærðu hafa séð bíla fyrir utan húsið, en hann hafi vitað að Y væri skráður fyrir um þrettán bílum. Þeir hafi svo ekið í burtu og farið aftur heim til meðákærða, Sigurðar.

             Ákærð, Ívar Björn Ívarsson kvað þá ákærðu hafa verið á Karlagötunni hjá Sigurði aðfaranótt 1. júlí 2003. Þar hafi ákærði verið að drekka og hafi hann einnig neytt lítillega amfetamíns. Ákærðu hafi farið út að keyra þennan morgun og verið eitthvað pirraðir. Þeir hafi farið að ræða um Y og það atvik er Y hafi skotið á meðákærða, Sigurð, og dottið þá í hug að kveikja í húsi Y. Þeir hafi því farið á bensínstöð Esso og keypt tvo 5 lítra bensínbrúsa og eldspýtustokk. Þeir hafi lagt bifreiðinni fyrir neðan húsið og gengið upp að húsinu. Þar hafi þeir kíkt á glugga til að athuga hvort einhver væri heima. Ákærði og meðákærði, Guðjón, hafi tekið hvor sinn bensínbrúsann, en ákærði Sigurður hafi gengið á undan og barið á útidyrahurðina. Þá hafi ákærði, Ívar, heyrt dynki og kvaðst muna að ákærði, Sigurður, hafi sparkað í hurðina. Enginn hafi komið til dyra og hafi þá ákærði, Guðjón, hellt bensíni á steinvegg fyrir neðan tröppurnar, en ákærði, Sigurður, sem staðið hafi efst á tröppunum, hafi hellt bensíni á tröppurnar og skvett bensíni á húsið, en ákærði, Ívar, hafi kveikt í. Ákærði kvaðst ekki hafa tekið eftir því að hellt hefði verið bensíni inn í húsið. Ákærði kvaðst ekki hafa heyrt hundgá meðan þessu fór fram. Síðan hafi ákærðu farið út í bíl og ekið aftur heim til  ákærða, Sigurðar.

Borinn var undir ákærða framburður hans í lögregluskýrslu um að ákærði, Sigurður, hafi sparkað útidyrahurðinni upp, tekið bensínbrúsa af ákærða, Ívari, og  hellt úr brúsanum inn í anddyri hússins. Kvað þá ákærði að meðákærði, Sigurður, hefði ekki sparkað hurðinni upp, en kvaðst muna að ákærði, Sigurður, hefði sparkað í hurðina, en kvaðst ekki geta sagt til um hvort gat hefði komið á hurðina.  Ákærði, Ívar, kvaðst muna að ákærði, Sigurður, hefði tekið af sér bensínbrúsann, en ákærði, Sigurður, hefði skvett bensíni þarna í kring, en hann hefði aldrei hellt bensíni inn í anddyrið. Er ákærða var bent á að hann hefði staðfest lögregluskýrsluna fyrir dómi, er hann var úrskurðaður í gæsluvarðhald, kvaðst hann ekki hafa vitað hvað hann hefði verið að segja.

Ákærði Sigurður Ragnar Kristinsson kvað þá ákærðu hafa farið að A til þess að hræða og skaða Y. Þeir hafi verið staddir að Karlagötu á heimili ákærða þegar þetta var ákveðið, en þeir hafi verið búnir að neyta áfengis og amfetamíns um nóttina. Þeir hafi byrjað að ræða það þegar Y skaut úr haglabyssu að ákærða, Sigurði, og hafi þeir æst hver annan upp í þessari vitleysu. Þeir hafi því viljað hræða Y og ákveðið að kveikja í fyrir utan hús hans, en ekki í húsinu sjálfu. Þeir hafi keypt bensín á bensínstöð og ekið að húsinu, en þeir hafi ekki átt von á því að neinn væri heima. Þeir hafi allir þrír komið að húsinu og mikil læti hafi verið í þeim. Þeir hafi bankað og svo hafi ákærði, Sigurður, sparkað í hurðina, þannig að gat hafi myndast á henni. Ákærði kvaðst ekki hafa heyrt neina hundgá er þeir ákærðu komu að húsinu, en þeir hafi verið alveg vissir um að enginn væri heima, þar sem svo mikil læti hefðu verið í þeim, að það hlyti að hafa heyrst í þeim.

Ákærði kvaðst vera alveg viss um að ekki hafi verið hellt bensíni inn um dyrnar, aldrei hafi staðið til að kveikja í öllu húsinu. Ákærði, Guðjón, hafi skvett bensíni á útidyratröppurnar ásamt ákærða, Sigurði, en ákærði, Ívar, hafi borið eldinn að. Ákærði, Sigurður, hafi staðið efst í tröppunum og við hafi legið að kviknaði í ákærða sjálfum. Þeir hafi svo flýtt sér á brott og farið aftur á Karlagötuna.

Vitnið Y, kvaðst hafa vaknað rétt fyrir klukkan níu umræddan morgun við það að hundar hans hafi farið að gelta og í kjölfarið hafi hann heyrt eitt þungt högg á útidyrahurð húss síns, sem fært hafi hurðarhúninn inn um eina tommu. Hann kvað engan hafa barið að dyrum. Hefði svo verið, hefðu hundarnir farið að gelta um leið. Hann hafi þá farið fram og út í glugga og séð þá ákærðu Ívar og Guðjón ásamt Sigurði hlaupa í burtu frá húsinu. Hann kvaðst hafa orðið var við að búið væri að bera eld að húsinu. Vitnið hafi þó tekið þá ákvörðun að bíða í húsinu, þar sem vitnið kvaðst ekki hafa vitað hversu margir menn væru úti og hafi hann óttast þá.  Síðan hafi húsið fyllst af reyk, en vitnið kvaðst hafa beðið ásamt Z, sambýliskonu sinni, í vesturenda hússins. Þau hafi að lokum farið út úr húsinu um svaladyr á suðurhlið. Vitnið kvað föt þau sem brunnu og skemmdust í eldi og reyk hafa verið geymd í anddyri hússins á snögum og í skáp í anddyrinu. Hann kvaðst hafa verið nýbúinn að raða í anddyrið útivistarfötum sem voru í notkun.

Vitnið kvað þrjá bíla hafa staðið á hlaðinu. Vitnið var spurt um hvort það vissi ástæður þessa verknaðar og kvaðst vitnið þá hafa hitt Guðjón fyrir þetta atvik, en hann hafi hótað að drepa vitnið 13. apríl 2003.

              Vitnið kvað Z hafa orðið fyrir töluverðu heilustjóni vegna þessa atviks og hafi hún þurft að fara inn á geðdeild 2-3 vikum síðar og átt við geðrænar raskarnir að stríða og sýnt einkenni áfallastreitu. Heilsu hennar hafi verulega hrakað eftir þetta mál og hafi endað með því að slitnað hafi upp úr þeirra sambandi. Vitnið kvaðst líta á þetta atvik sem skipulagða morðtilraun.

Vitnið kvaðst hafa fengið Frumkönnun hf. til að meta þá muni sem skemmst hefðu.

Vitnið Z þáverandi sambýliskona Y, kvaðst hafa rumskað umræddan morgun við það að hundarnir á heimilinu fóru að gelta. Þá hafi hún heyrt tvö högg á hurð, eins og sparkað hafi verið tvisvar í hana. Hún kvaðst þess fullviss að ekki hafi verið bankað á hurðina. Hún hafi skömmu síðar heyrt sprengingu og gengið fram á gang og séð að anddyrið stóð í björtu báli. Hún hafi reynt að nota handslökkvitæki á eldinn, en það hafi ekkert haft að segja og þá hafi hún hringt í Neyðarlínuna. Hún kvað þau Y ekki hafa þorað út af ótta við ákærðu. Hún hafi litið út um glugga og séð þrjá menn á hlaupum frá húsinu, þar af hafi einn þeirra verið ákærði, Guðjón, en hún hafi einungis þekkt hann úr hópi ákærðu.

Vitnið kvað að sér hefði liðið mjög illa eftir þetta atvik. Hún hefði sofið illa og verið hrædd um að atvikið endurtæki sig og verið um 10 daga á geðdeild eftir þetta. Hún hafi byrjað að drekka á ný, eftir að hafa haldið sig frá áfengi í nokkurn tíma, og kvaðst vilja kenna þessu atviki um. Hún sagði að slitnað hefði upp úr sambandinu við Y eftir atvikið.

Vitnið Á kvaðst hafa búið í kjallara hússins að A þegar atvikið átti sér stað. Hann kvaðst ekki hafa orðið var mannaferða um morguninn og fyrst tekið eftir því að eldur hefði logað á efri hæðinni, þegar hann fór að gera innkaup seinna um morguninn, en þá hafi verið búið að slökkva eldinn.

Vitnið Kristján Friðþjófsson rannsóknarlögreglumaður sem kom að húsinu A umræddan morgun og rannsakaði vettvang, kvað norðurvegg hússins hafa verið sótsvartan og útidyrahurð mikið brunna. Þá hafi gólf í anddyri verið brunnið og aðeins inn í eldhús. Vitnið kvað líklegt að bensíni hefði verið hellt á gólfið í anddyri, þar sem það hafi verið mikið brunnið.  Vitnið kvað brunann hafa byrjað við gólfið, miklar brunaskemmdir hafi verið við gólfið í anddyri og því megi draga þá ályktun að eldhvetjandi efni hefðu verið notuð í anddyrinu. Þá hefðu verksummerki verið með þeim hætti að líklegt væri að eldhvetjandi efni hefðu runnið inn í eldhúsið, en þau gætu ekki hafa borist utan af útidyratröppum. Vitnið kvað útidyrahurð hafa verið skemmda eftir þung högg.

Vitnið Ásmundur Örn Guðmundsson lögreglumaður kvaðst hafa fengið til­kynn­ingu rétt fyrir kl. 9 þennan morgun og hafi hann verið beðinn að fara á vettvang í forgangi, en hann hafi verið fyrstur á staðinn ásamt lögreglumanni sem með honum var í bíl. Er vitnið kom að, hafi logað eldur á stigapalli hússins og á útidyrahurð. Vitnið kvað félaga sinn hafa stokkið út úr bílnum, gripið slökkvitæki og náð að slökkva eldinn á hurðinni og á pallinum. Þeir hafi þá orðið varir við að einnig logaði eldur inni í forstofunni á gólfinu, en kvaðst ekki muna hversu mikill eldurinn var þar.  Slökkviliðið hafi komið þarna rétt á eftir, um 2-4 mínútum á eftir þeim, og hafi þeir þá tekið við slökkvistarfinu. Hann kvað Y og Z hafa verið inni í húsinu, en taldi þau hafa átt greiða leið út úr húsinu um suðurinngang hússins. Vitnið kvað annan lögreglumann hafa haft tal af íbúa í kjallara hússins, en hann hafi ekki orðið var við neitt.

Vitnið Guðmundur Gunnarsson byggingaverkfræðingur, sem gerði athugun þá á almannahættu er liggur frammi í málinu, kvaðst hafa unnið hjá Brunamálastofnun og gert matsskýrslur í sambandi við bruna til að meta almannahættu. Hann sagði að ef ekki hefði verið gripið til slökkviaðgerða hefði eldurinn mjög fljótlega læst sig úr anddyrinu inn í húsið. Svona hús yrði alelda á mjög skömmum tíma eftir að eldur kviknaði. Vitnið kvað að á gólfi í anddyri hafi verið mikið af fötum og lausum búnaði og að verulegur eldsmatur hafi verið í því.

Hann kvað íbúa hússins hafa átt kost á því að fara út um dyr á suðurhlið hússins, að því gefnu að þeir væru vakandi og brygðust rétt við. Hann sagði að reikna hefði mátt með að eldurinn breiddist mjög hratt út vegna þess hvernig húsið væri byggt og ef forstofudyr hefðu verið opnar hefðu aðstæðurnar fljótt orðið mun verri.

Hann kvaðst ekki hafa skoðað vettvang með hliðsjón af eldsupptökum. Hann kvað nokkurt magn af bensíni nauðsynlegt til þess að eldurinn næði að festa sig í gólfi og að smáskvetta af bensíni dygði ekki, þar sem bensínið sé fljótt að brenna upp. Hann kvað aðliggjandi eignir ekki hafa verið í hættu. Aðspurður um hvort íbúi í kjallara hefði verið í hættu kvað hann steypta plötu vera milli hæða og því liði langur tími, áður en hætta færi að stafa af eldinum þar.  

Vitnið L kvaðst hafa verið að aka með móður sinni í Laugardalnum umræddan morgun. Hún hafi séð þrjá stráka hlaupa í átt að Laugar­dalshöllinni og fara inn í bíl og aka á brott. Síðan hafi hún og mamma hennar séð reyk og eld og hafi hún þá tekið niður skráningarnúmer á bifreiðinni og hringt í Neyðar­línuna.

Vitnið H, kvaðst hafa verið að aka með dóttur sinni rétt hjá húsinu A um kl. 9.00 umræddan morgun. Henni hafi virst sem eldur kæmi upp úr skóginum og síðan hafi hún séð að eldur logaði í útidyrahurð hússins. Hún hafi því næst séð mann hlaupa frá húsinu að bílastæði rétt hjá. Hann hafi farið inn í bíl sem þar var, ekið aðeins áfram og síðan tekið einhvern annan upp í bílinn. Henni hafi fundist þetta vera eins og íkveikja og hafi hún og dóttir hennar því beðið eftir slökkviliði og gert grein fyrir því sem þær sáu.

Vitnið F kvaðst hafa verið að vinna á bensínstöð Shell umræddan morgun. Hann kvað ákærðu hafa komið á bensínstöðina, en einn þeirra hafi komið inn og keypt tvo bensínbrúsa og fyllt þá af bensíni. Einnig hafi hann keypt eldspýtustokk. 

Vitnið B kvaðst hafa verið með ákærðu á Karlagötunni aðfaranótt 1. júlí 2003 og um morguninn, en hún kvað ákærðu vera vini sína. Þau hafi verið búin að skemmta sér um helgina og hún hafi sofnað á mánudagskvöldinu og vaknað um morguninn við það að lögreglan var komin.  Hún kvaðst ekki hafa haft hugmynd um hvað gerst hefði og kvaðst ekki hafa orðið vör við áfengis- eða fíkni­efnaneyslu um nóttina.

Vitnið R kvaðst hafa búið með ákærða, Sigurði að Karla­götu og hafa dvalið með honum, ásamt ákærðu, Guðjóni og Ívari, sem og L, aðfaranótt 1. júlí 2003. Hún kvaðst vera kærasta ákærða, Sigurðar. Hún kvaðst ekki hafa orðið vör við að ákærðu neyttu áfengis- eða vímuefna um kvöldið eða nóttina. Þau hafi verið að horfa á vídeó um kvöldið og hafi hún sofnað. 

Vitnið Kristján K. Norðmann staðfesti skýrslur Frumkönnunar hf. um muni þá sem skemmdust í eldinum. Hann kvaðst hafa farið fyrir hönd Trygginga­miðstöðvarinnar til þess að meta tjón á húseigninni og hafi einnig aðstoðað tjónþola, Y, við að varpa ljósi á verðmæti fatnaðar og muna þeirra sem urðu eldinum að bráð. Fatnaðurinn og munirnir hafi allir verið brunnir, sviðnir eða sótugir. Hann kvaðst hafa séð alla þá hluti sem fram koma í verðmati hans, nema spegil sem verið hafi í anddyri hússins, en hann hafi einungis séð ljósmynd af honum. Hann kvað matið hafa farið þannig fram að hann hafi skráð niður gerð munarins og fengið uppgefið úr verslunum verð á nýjum sams konar eða sambærilegum hlut. Hann kvaðst hafa byggt á frásögn tjónþola um það hvort munirnir væru nýir eða notaðir og mat það sem fyrir liggi í málinu um verðmæti hlutanna sé enduröflunarverð þeirra og ekki hafi verið tekið tillit til hvort hlutirnir væru notaðir eða skemmdir.

 

III

Skaðabótakröfur

1. Tryggingamiðstöðin gerir bótakröfu í málinu að fjárhæð 1.317.855 krónur, auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 frá tjónsdegi til þess dags er mál var höfðað, en frá þeim degi með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laganna til greiðsludags.

2. Y krefst skaðabóta að fjárhæð 3.559.730 krónur vegna miska, fata-, skó- og munatjóns og lögmannsþóknunar. Krafan sundurliðast svo:

Miskabótakrafa                     2.000.000 krónur

Fata-, skó- og munatjón        1.312.395 krónur

Lögmannsþóknun                              247.335 krónur

Auk þess er krafist vaxta samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðbætur frá 1. júlí 2003 til 28. september 2003, en frá þeim degi með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr. laga nr. 38/2001, sbr. 1. mgr. 6. gr. laganna og 12. gr. þeirra.

3. Z krefst skaðabóta að fjárhæð 2.381.220 krónur vegna miska, fata-, skó- og munatjóns og lögmannsþóknunar. Krafan sundurliðast svo

Miskabótakrafa                    2.000.000  krónur

Fata-, skó- og munatjón          308.900  krónur

Lögmannsþóknun                               78.320  krónur

Auk þess er krafist vaxta samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðbætur frá 1. júlí 2003 til 28. september 2003, en frá þeim degi með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr. laga nr. 38/2001, sbr. 1. mgr. 6. gr. laganna og 12. gr. þeirra.

Miskabótakröfur sínar reisa Y og Z á 26. gr. laga nr. 50/1993 og líta þau svo á að hér hafi verið um að ræða tilraun til manndráps. Hafi þau mátt þola mikla andlega vanlíðan, þar sem þau hafi óttast mjög um líf sitt.

Kröfur sínar um fata-, skó- og munatjón byggja þau á mati Frumkönnunar hf. og um lögmannsþóknun vísa þau til 4. mgr. 172. gr. laga nr. 19/1991.

 

IV

Niðurstaða.

Ákærðu hafa játað að hafa keypt tvo 5 lítra bensínbrúsa og hellt úr þeim á útidyratröppur og veggi húss Y að A og borið eld að. Með því hafi þeir ætlað að hræða Y, sem ákærðu, Guðjón og Sigurður, höfðu átt í illdeilum við, en talið engan vera heima. Þá hafa þeir neitað að hafa hellt bensíni inn í anddyri hússins.

Ákærði, Sigurður, kvaðst hafa sparkað í útidyrahurðina og við það hafi komið gat á hana, en hann hafi ekki hellt bensíni inn í anddyri hússins. Ákærðu, Guðjón og Ívar, báru báðir fyrir dómi við aðalmeðferð málsins að þeir hafi ekki vitað að bensíni hafi verið hellt inn í húsið. Ákærði, Ívar, bar hins vegar fyrir lögreglu 1. júlí 2003 að ákærði, Sigurður, hefði sparkað útidyrahurðinni upp, tekið af ákærða, Ívari, bensín­brúsann, og hellt úr honum í anddyri hússins. Skýrslu þessa staðfesti ákærði, Ívar, fyrir dómi 2. júlí 2003, er krafa um gæsluvarðhald yfir honum var tekin fyrir. Sama dag staðfesti ákærði, Guðjón, fyrir dómi skýrslu sem hann gaf hjá lögreglu 1. júlí 2003, en þar var eftir honum haft að ofangreind atvikalýsing ákærða, Ívars, væri rétt. Við aðal­meðferð málsins gat ákærði, Ívar, ekki gefið neina skýringu á breyttum framburði sínum.

Samkvæmt framburði vitnisins, Kristjáns Friðþjófssonar rannsóknar­lögreglu­manns, var útidyrahurð hússins mjög skemmd eftir þung högg. Vitnið kvað gólf í anddyri hússins hafa verið brunnið og aðeins inn í eldhús og kvað vitnið líklegt að bensíni hefði verið hellt á gólfið í anddyri, en það hefði ekki getað borist utan af útidyratröppum.  

Í skýrslu Guðmundar Gunnarssonar verkfræðings, sem hann staðfesti fyrir dómi, kemur fram að ætla megi að eldurinn á tröppum hússins og utandyra hefði kulnað af sjálfu sér, þegar bensínið hefði verið uppbrunnið, þar sem tröppurnar séu úr steinsteypu. Brunaálag í anddyri hafi fyrst og fremst verið fólgið í fötum sem þar hafi verið og í brennanlegum klæðningum í húsinu. Bruni í bensíni hafi verið nægjanlegur til þess að koma af stað eldi í fötunum og veggklæðningunum. Sá bruni hafi síðan magnast upp í anddyrinu, þar sem nægjanlegt aðstreymi súrefnis hafi verið að eldinum í gegnum brotna útidyrahurðina. Fyrir dómi kvað vitnið nokkurt magn af bensíni nauðsynlegt til þess að eldurinn næði að festa sig í gólfi og að smáskvetta af bensíni dygði ekki til þess.

Af ljósmyndum þeim sem liggja frammi í málinu verður séð að anddyri hússins er mikið brunnið og plast fyrir einangrun í lofti í anddyri bráðnað. Þá er einnig ljóst af ljósmyndunum að þröskuldur við útidyrahurð og gólf í anddyri liggur nokkru ofar en pallur fyrir framan útidyr.

Þegar framangreint er virt og höfð hliðsjón af atvikum málsins að öðru leyti, er sannað að ákærðu hafi einnig hellt bensíni inn í anddyri hússins.

Húsið A er einbýlishús, steinsteypt, byggt árið 1933. Milligólf er stein­steypt en innveggir og klæðning innan á útveggjum úr timbri. Í kjallara hússins er sjálfstæð íbúð eða herbergi sem leigt er út. Samkvæmt matsgerð Guðmundar Gunnars­sonar verkfræðings hefur það skipt sköpum fyrir útbreiðslu eldsins að dyr milli eldhúss og anddyris voru lokaðar og réð því hending ein að ekki fór verr en raun varð.

Ákærðu hafa haldið því fram í málinu að þeir hafi margsinnis barið að dyrum að A og dregið þá ályktun, er enginn kom til dyra, að enginn væri heima. Íbúar hússins, þau Y og Z, báru hins vegar fyrir dómi, að þau hefðu einungis heyrt eitt til tvö þung högg á útidyrahurðina, eins og sparkað væri í hana. Íbúi í kjallara kvaðst ekki hafa orðið var mannaferða. Fram er komið í málinu að ákærðu komu að húsi Y fyrir klukkan níu að morgni, er íbúar hússins voru sofandi. Þá er einnig sannað með framburði ákærða, Guðjóns, að þeir sáu bifreiðar standa fyrir utan húsið. Því máttu ákærðu ætla að íbúar væru heima og í svefni, en ósannað er að þeir hafi knúið dyra svo oft sem þeir hafa borið fyrir dóminum. Ákærðu hlutu því að sjá fyrir að með því að hella tíu lítrum af bensíni yfir tröppur, veggi og í anddyri hússins að A og bera eld að, stofnuðu þeir mannslífum í háska og ollu hættu á yfirgrips­mikilli eyðingu á eignum.

Þegar framangreint er virt er sannað að ákærðu hafi gerst sekir um þá háttsemi sem greinir í ákæru og er þar réttilega heimfærð til 1. mgr., sbr. 2. mgr. 164. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

 

Refsiákvörðun.

Ákærði, Guðjón Þór er fæddur árið 1972. Hann hlaut á árinu 1996 dóm, 90.000 króna sekt, fyrir brot gegn ávana- og fíkniefnalögum. Þá hlaut hann dóm á árinu 1997, 6 dagsektir, í Köbenhavns byret fyrir brot gegn 119. gr. dönsku hegningarlaganna. Á árinu 1999 gekkst hann undir greiðslu 50.000 króna sektar fyrir brot gegn ávana- og fíkniefnalögum. Síðast gekkst hann undir greiðslu 31.000 króna sektar, 29. janúar 2003, fyrir brot gegn ávana- og fíkniefnalögum. Brot þessi hafa ekki áhrif á ákvörðun refsingar.

Brot það sem ákærði hefur verið sakfelldur fyrir er alvarlegt og réð því hending ein að tjón varð ekki meira en raun varð á. Til refsiþyngingar horfir að ákærði vann brot sitt í félagi við tvo aðra, en til refsimildunar horfir að ákærði játaði brot sitt í meginatriðum og féllst á greiðslu bótakröfu Tryggingamiðstöðvarinnar hf. Þegar allt framangreint er virt er refsing ákærða ákveðin fangelsi í tvö ár en til frádráttar kemur gæsluvarðhald ákærða að fullri dagatölu. Vegna alvarleika brotsins þykir ekki fært að skilorðsbinda refsingu ákærða.            

Ákærði Ívar Björn er fæddur árið 1981. Hann hefur ekki gerst sekur um brot sem áhrif geta haft á ákvörðun refsingar í máli þessu. Brot það sem hann hefur verið sakfelldur fyrir í máli þessu er alvarlegt og réð því hending ein að tjón varð ekki meira en raun varð á. Til refsiþyngingar horfir að ákærði vann brot sitt í félagi við tvo aðra, en til refsimildunar horfir að ákærði játaði brot sitt og skýrði fyrstur ákærðra frá atvikum hjá lögreglu. Þegar framangreint er virt er refsing ákærða ákveðin fangelsi í tvö ár, en til frádráttar kemur gæsluvarðhald ákærða að fullri dagatölu. Vegna alvarleika brotsins þykir ekki fært að skilorðsbinda refsingu ákærða.

Ákærði Sigurður Ragnar er fæddur árið 1981. Hann hlaut skilorðsbundna ákærufrestun í 1 ár,  fyrir brot gegn 248. gr. almennra hegningarlaga, 15. febrúar 2001. Þá gekkst hann undir greiðslu 14.000 króna sektar fyrir brot gegn 1., sbr. 3. mgr. 37. gr. umferðarlaga, 24. ágúst 2001. Með dómi frá 17. desember 2001 var honum ekki gerð sérstök refsing fyrir brot gegn 1. mgr. 257. gr. almennra hegningarlaga. Síðast gekkst hann undir greiðslu 65.000 króna sektar, 3. desember 2003, fyrir brot gegn umferðarlögum og var þá sviptur ökurétti í 5 mánuði. Brot þessi hafa ekki áhrif á ákvörðun refsingar í máli þessu. Brot það sem hann hefur verið sakfelldur fyrir í máli þessu er alvarlegt og réð því hending ein að tjón varð ekki meira en raun varð á. Til refsiþyngingar horfir að ákærði vann brot sitt í félagi við tvo aðra, en til refsimildunar horfir að ákærði játaði brot sitt í meginatriðum. Þá hefur ákærði samþykkt greiðslu bótakröfu Tryggingamiðstöðvarinnar hf. Þegar framangreint er virt er refsing ákærða ákveðin fangelsi í tvö ár, en til frádráttar kemur gæsluvarðhald ákærða að fullri dagatölu. Vegna alvarleika brotsins þykir ekki fært að skilorðsbinda refsingu ákærða.

Bótakröfur.

Ákærðu, Siguður og Guðjón, hafa samþykkt greiðslu bótakröfu Trygginga­miðstöðvarinnar hf. að fjárhæð 1.317.855 krónur, auk vaxta og dráttarvaxta, en ákærði, Ívar, hefur hafnað greiðslu bótakröfu. Krafa Tryggingamiðstöðvarinnar hf. er studd fullnægjandi gögnum og ber að dæma ákærðu óskipt til greiðslu skaðabóta að fjárhæð 1.317.855 krónur, auk vaxta frá 1. júlí 2003, samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 til 26. janúar 2004, eins og krafist er, en frá þeim degi með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr. laga nr. 38/2001 til greiðsludags.

Ákærðu hafa hafnað greiðslu skaðabóta til handa Y og Z, en kröfur þeirra eru vegna miska og eignatjóns.

Brotaþolar hafa krafist bóta vegna fata-, skó- og munatjóns samkvæmt mati Frum­könnunar hf. Samkvæmt framburði Kristjáns K. Norðmann fyrir dómi byggði hann á frásögn brotaþola um það hvort munirnir væru nýir eða notaðir og kvað verðmat hlutanna vera enduröflunarverð þeirra, en ekki hafi verið tekið tillit til hvort hlutirnir væru notaðir eða skemmdir. Í málinu liggur því ekkert fyrir um raunverulegt tjón á fötum, skóm og munum þeim er urðu eldinum að bráð. Kröfuliður brotaþola vegna eignatjóns er samkvæmt framangreindu ekki studdur fullnægjandi gögnum og ber að vísa þeim hluta kröfunnar frá dómi.

Brotaþolar hafa lýst því fyrir dómi að þau hafi verið sofandi umræddan morgun og vaknað við högg á útidyrahurð. Er þau hafi gengið fram hafi eldur verið kviknaður í anddyri hússins. Af ótta við ákærðu hafi þau ekki hætt sér úr húsi og haldið sig því innandyra þar til slökkviaðgerðir hófust. Sú háttsemi sem ákærðu hafa verið sakfelldir fyrir var til þess fallin að valda miklum ótta og kvíðaviðbrögðum hjá brotaþolum auk annarra andlegra þjáninga. Ber því samkvæmt b-lið 26. gr. laga nr. 50/1993 að dæma ákærðu óskipt til að greiða brotaþolum hvoru um sig 250.000 krónur í miskabætur auk vaxta og dráttarvaxta eins og krafist er.

Þá verða ákærðu dæmdir óskipt til að greiða hvorum brotaþola um sig 50.000 krónur vegna kostnaðar lögmanns við að halda skaðabótakröfu fram.

 Ákærði, Guðjón greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Sveins Andra Sveins­sonar hæstaréttarlögmanns, 200.000 krónur.

Ákærði, Ívar, greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Kjartans Reynis Ólafssonar hæstaréttarlögmanns, vegna verjandastarfa hans á rannsóknarstigi og við meðferð málsins fyrir dómi, samtals 250.000 krónur.

Ákærði, Sigurður, greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Brynjars Níels­sonar hæstaréttarlögmanns, 200.000 krónur.

Að öðru leyti greiði ákærðu sakarkostnað óskipt, þar með talda þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, sem þykir hæfilega ákveðin 80.000 krónur vegna beggja brotaþola.

Af hálfu ákæruvaldsins var málið flutt af Ragnheiði Harðardóttur saksóknara.

Ingveldur Einarsdóttir héraðsdómari kvað upp dóminn.

 

D ó m s o r ð

Ákærði, Guðjón Þór Jónsson, sæti fangelsi í 2 ár, en til frádráttar refsivist ákærða dragist gæsluvarðhaldsvist hans að fullri dagatölu.

Ákærði, Ívar Björn Ívarsson, sæti fangelsi í 2 ár, en til frádráttar refsivist ákærða dragist gæsluvarðhaldsvist hans að fullri dagatölu.

Ákærði, Sigurður Ragnar Kristinsson, sæti fangelsi í 2 ár, en til frádráttar refsivist ákærða dragist gæsluvarðhaldsvist hans að fullri dagatölu.

Ákærðu greiði óskipt Tryggingamiðstöðinni hf. 1.317.855 krónur, auk vaxta frá 1. júlí 2003, samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 til 26. janúar 2004, en frá þeim degi með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr. laga nr. 38/2001 til greiðsludags.

Ákærðu greiði óskipt Z 300.000 krónur auk vaxta sam­kvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðbætur frá 1. júlí 2003 til 28. september 2003, en frá þeim degi með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr. laga nr. 38/2001 til greiðsludags.

Ákærðu greiði óskipt Y 300.000 krónur auk vaxta sam­kvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðbætur frá 1. júlí 2003 til 28. september 2003, en frá þeim degi með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr. laga nr. 38/2001 til greiðsludags.

Vísað er frá dómi þeim hluta kröfuliðar beggja brotaþola er lýtur að fata-, skó- og munatjóni.

Ákærði, Guðjón, greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Sveins Andra Sveinssonar hæstaréttarlögmanns, 200.000 krónur.

Ákærði, Ívar, greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Kjartans Reynis Ólafssonar hæstaréttarlögmanns, 250.000 krónur.

Ákærði, Sigurður, greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Brynjars Níelssonar hæstaréttarlögmanns, 200.000 krónur.

Annan sakarkostnað greiði ákærðu óskipt, þar með talda þóknun réttar­gæslumanns beggja brotaþola, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, 80.000 krónur.