Hæstiréttur íslands
Mál nr. 560/2011
Lykilorð
- Kærumál
- Vitni
- Sératkvæði
|
|
Föstudaginn 4. nóvember 2011. |
|
Nr. 560/2011. |
Ákæruvaldið (Arnfríður Gígja Arngrímsdóttir saksóknarafulltrúi) gegn X og Y (Erlendur Gíslason hrl.) |
Kærumál. Vitni. Sératkvæði.
X og Y voru ákærðir fyrir skilasvik í rekstri hlutafélagsins A, með því að hafa skömmu áður en félagið var úrskurðað gjaldþrota selt einkahlutafélaginu B hluta af veðsettum vörubirgðum félagsins fyrir óhæfilega lágt verð. Undir rekstri málsins í héraði óskaði ákæruvaldið eftir heimild til að leiða fyrir dóminn sem vitni matsmanninn C, en X og Y kröfðust þess að beiðninni yrði hafnað með vísan til þess að C uppfyllti ekki skilyrði laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála til að gefa skýrslu í málinu. Héraðsdómur tók kröfu ákæruvaldsins til greina og var úrskurður hans þar um kærður til Hæstaréttar. Hæstiréttur vísaði til nýmælis 2. málsliðar 1. mgr. 116. gr. laga nr. 88/2008 og samskipta ríkislögreglustjóra og skiptastjóra þb. A hf. í því lögbundna ferli sem hófst og fram fór í tengslum við rannsókn á ætluðum brotum X og Y. Þá segir meðal annars í dómi réttarins að matsgerð C hefði í því ferli verið samin að beiðni skiptastjóra og hún ásamt öðru verið grundvöllur ákæru ríkislögreglustjóra á hendur X og Y í málinu. Þá aðstöðu yrði að skýra svo, að með matsgerðinni hefði ríkislögreglustjóra verið veitt sérfræðileg aðstoð við rannsókn málsins og ákvörðun um saksókn í skilningi 2. málsliðar 1. mgr. 116. gr. laga nr. 88/2008. Var hinn kærði úrskurður því staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Jón Steinar Gunnlaugsson, Greta Baldursdóttir og Þorgeir Örlygsson.
Varnaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 13. október 2011 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 14. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 13. október 2011, þar sem sóknaraðila var heimilað að leiða fyrir dóminn sem vitni matsmanninn C. Kæruheimild er í n. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðilar krefjast þess að hafnað verði kröfu sóknaraðila um að leiða fyrir dóminn áðurgreint vitni. Þá er krafist kærumálskostnaðar.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
I
Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 7. september 2004 var bú A hf. tekið til gjaldþrotaskipta og skiptastjóri skipaður. Hann sendi ríkislögreglustjóra með bréfi 18. janúar 2005 tilkynningu á grundvelli 84. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Segir þar að skiptastjóri telji sig hafa fengið vitneskju um atvik í starfi sínu sem hann telji gefa tilefni til rökstudds gruns um að fyrirsvarsmenn hins gjaldþrota félags eða aðrir kunni að hafa gerst sekir um refsivert athæfi í rekstri félagsins. Síðan segir: „Með vísan til þessa er hér með lögð fram kæra/tilkynning á grundvelli 84. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. á hendur viðkomandi aðilum. Er þess óskað að ríkislögreglustjóri taki málið þegar til rannsóknar og viðeigandi meðferðar eftir því sem niðurstöður rannsóknar gefa tilefni til. Áhersla skal lögð á að miklir hagsmunir þrotabúsins og kröfuhafa þess eru bundnir við að rannsókn á málinu hefjist sem allra fyrst.“ Í bréfinu eru síðan tilgreind þau atvik sem skiptastjóri taldi gefa tilefni til hins rökstudda gruns og meðal þeirra er sala til þriðja aðila á vörubirgðum A hf. sem veðsettar voru D hf., en skiptastjóri taldi grun leika á að salan samrýmdist ekki hagsmunum veðhafans.
Við rannsókn málsins hjá ríkislögreglustjóra var frekari upplýsinga aflað hjá skiptastjóra. Í bréfi ríkislögreglustjóra til skiptastjóra 24. apríl 2006 var vísað til kærunnar 18. janúar 2005 og sagt, að ekki væri unnt að taka ákvörðun um hvort hefja ætti lögreglurannsókn fyrr en upplýst hefði verið um nánar tiltekin atriði. Þá segir meðal annars að í ljósi þess að D hf. hafi að stærstum hluta verið afhent söluandvirði hinna veðsettu birgða, eða 30.440.000 krónur, sé spurt með hvaða hætti salan fái ekki samrýmst hagsmunum veðhafans, eins og haldið sé fram í kærubréfinu. Samkvæmt gögnum málsins dómkvaddi Héraðsdómur Reykjavíkur 1. apríl 2005 þá C löggiltan endurskoðanda og E vélvirkjameistara og sjávarútvegsfræðing til að verðmeta eignir þrotabús A hf. Var það gert samkvæmt matsbeiðni skiptastjóra 21. febrúar 2005 og skiluðu þeir matsgerð 26. október sama ár. Segir í matsgerðinni að matsmenn hafi verið beðnir um að skoða raunvirði og verðmeta tilteknar vörubirgðir sem A hf. seldu B ehf. fyrir 31.186.999 krónur að virðisaukaskatti meðtöldum. Fram kemur að þrotabúið hafi til skoðunar hvort umræddar vörubirgðir hafi verið seldar undir raunvirði, en þær muni hafa verið seldar á bókfærðu virði. Hafi matsbeiðnin verið lögð fram í því skyni að fá mat dómkvaddra matsmanna á raunvirði eignanna. Niðurstaða matsmanna um þennan þátt matsins var sú að sanngjarnt verð umræddra vörubirgða að virðisaukaskatti meðtöldum væri 71.252.728 krónur.
Fyrirspurn ríkislögreglustjóra frá 24. apríl 2006 svaraði skiptastjóri í bréfi 19. maí sama ár. Þar er til þess vitnað að ríkislögreglustjóri hafi óskað eftir frekari upplýsingum um með hvaða hætti sala hinna veðsettu vörubirgða samræmdist ekki réttindum og hagsmunum D hf. eins og haldið væri fram í kærubréfi. Síðan segir að samkvæmt matsgerð dómkvaddra matsmanna 26. október 2005 hafi markaðsverðmæti umræddra vörubirgða, sem seldar hafi verið skömmu fyrir gjaldþrotið, verið rúmlega 40 milljón krónum hærra en það verð sem lagt var til grundvallar við söluna. Afrit matsgerðarinnar fylgdi bréfi skiptastjóra. Í bréfi ríkislögreglustjóra til skiptastjóra 23. janúar 2007 er vísað til kæru skiptastjóra 18. janúar 2005 og framangreindrar matsgerðar og óskað frekari gagna og upplýsinga, meðal annars um einkaréttarleg úrræði sem skiptastjóri kunni að hafa gripið til. Þessu bréfi svaraði skiptastjóri með bréfi 2. mars 2007 og veitti þar umbeðnar upplýsingar. Ákæra var gefin út á hendur varnaraðilum 3. desember 2010, þar sem þeim var gefið að sök brot gegn 2. og 4. tölulið 1. mgr. 250. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 svo sem nánar greinir í hinum kærða úrskurði, en í ákærunni er vísað til áðurgreindrar matsgerðar um verðmæti þeirra vörubirgða sem seldar höfðu verið.
II
Það er meginregla samkvæmt lögum nr. 88/2008 að manni er því aðeins skylt að koma fyrir dóm sem vitni og svara spurningum sem beint er til hans um málsatvik, að hann hafi skynjað slíkt af eigin raun, sbr. 1. málslið 1. mgr. 116. gr. laganna, en ákvæðið svarar til 1. mgr. 51. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Með 2. málslið 1. mgr. 116. gr. laga nr. 88/2008 var leitt í lög nýmæli sem felur í sér undantekningu frá framangreindri meginreglu, en þar segir að þeim sem veitt hefur ákæruvaldi eða lögreglu sérfræðilega aðstoð eða ráðgjöf áður en mál er höfðað sé skylt að koma fyrir dóm sem vitni til að svara munnlega spurningum sem beint er til hans um sérfræðileg atriði. Í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 88/2008 segir um nefndan 2. málslið, að í samræmi við dómaframkvæmd sé lagt til að frá meginreglunni verði gerð undantekning þegar um er að ræða þann sem veitt hefur lögreglu sérfræðilega aðstoð eða ráðgjöf, annað hvort við rannsókn máls eða ákvörðun um saksókn áður en mál er höfðað.
Að framan eru rakin samskipti ríkislögreglustjóra og skiptastjóra þrotabús A hf. í því lögbundna ferli sem hófst og fram fór í tengslum við rannsókn á ætluðum brotum varnaraðila í rekstri A hf. Matsgerð sú er áður greinir var í því ferli samin að beiðni skiptastjóra þrotabús A hf. og hún var ásamt öðru grundvöllur ákæru ríkislögreglustjóra á hendur varnaraðilum máls þessa. Þá aðstöðu þykir verða að skýra svo, að með matsgerðinni hafi ríkislögreglustjóra verið veitt sérfræðileg aðstoð við rannsókn málsins og ákvörðun um saksókn í skilningi 2. málsliðar 1. mgr. 116. gr. laga nr. 88/2008. Með þessum athugasemdum en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar er sóknaraðila heimilt að leiða fyrir héraðsdóm sem vitni matsmanninn C svo sem í hinum kærða úrskurði greinir. Verður hann því staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sératkvæði
Jóns Steinars Gunnlaugssonar
Samkvæmt fyrri málslið 1. mgr. 116. gr laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála er manni skylt að koma fyrir dóm og svara munnlega spurningum sem til hans er beint um málsatvik. Í reglunni felst að vitnaskyldan er bundin við að viðkomandi maður hafi sjálfur orðið vitni að málsatvikum sem til stendur að spyrja hann um. Í síðari málslið 1. mgr. er svo kveðið á um skyldu þess „sem veitt hefur ákæruvaldi eða lögreglu sérfræðilega aðstoð eða ráðgjöf áður en mál er höfðað“ til að koma fyrir dóm sem vitni til að svara munnlega þeim spurningum sem beint er til hans um sérfræðileg atriði. Undir þetta geta fallið þeir sem lögregla hefur leitað til með heimild í 1. mgr. 86. gr. laganna og matsmenn sem dómkvaddir hafa verið að ósk lögreglu samkvæmt XIX. kafla laganna, sjá einkum 128. gr.
C endurskoðandi var 1. apríl 2005 ásamt öðrum manni dómkvaddur, að beiðni skiptastjóra þrotabús A hf., til að verðmeta vörubirgðir sem sóknaraðilar eru ákærðir fyrir að hafa selt fyrir óhæfilega lágt verð. Mun matsgerðarinnar hafa verið aflað til sönnunar á kröfu þrotabúsins til endurheimtu verðmæta þeirra sem í málinu greinir úr hendi kaupanda þeirra B ehf. Matsmenn skiluðu matsgerð 26. október 2005. Af gögnum málsins verður ráðið að lögreglurannsókn hafi þá ekki verið hafin. Matsgerðin fór fram af öðru tilefni. Hvorki lögregla né ákærðu áttu aðild að matsmálinu. Af þessu er ljóst að C hefur ekki veitt ákæruvaldi eða lögreglu sérfræðilega aðstoð eða ráðgjöf áður en málið var höfðað gegn varnaraðilum svo sem þetta er orðað í síðari málslið 1. mgr. 116. gr. laga nr. 88/2008. Honum er því ekki skylt að koma fyrir dóm til vitnisburðar og var héraðsdómara því rétt að verða við kröfu ákærðu um að meina sóknaraðila að leiða matsmanninn fyrir dóm, sbr. 3. mgr. 110. gr. laga nr. 88/2008.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 13. október 2011.
Með ákæru ríkislögreglustjóra 3. desember 2010 var ákærðu, X og Y, gefið að sök skilasvik framin í rekstri hlutafélagsins A hf. Ákæruefni varðar sölu á hluta af vörubirgðum A hf., sem veðsettar voru D hf. samkvæmt tryggingarbréfi, fyrir óhæfilega lágt verð. Í ákæru kemur fram að samkvæmt mati dómkvaddra matsmanna hafi verðmæti vörubirgða sem seldar hafi verið numið 71.252.728 krónum. Matið liggur fyrir í rannsóknargögnum málsins á bls. 175, auk þess sem það er merkt II/2.1.
Aðalmeðferð málsins fór fram 7. apríl sl. Varð henni ekki lokið vegna fjarveru vitnisins C matsmanns. Ákveðið var að aðalmeðferð málsins yrði frestað og fram haldið í dag. Í upphafi þinghalds mótmælti verjandi ákærðu því að vitnið C yrði leitt fyrir dóminn. Sækjandi krafðist þess að vitnið yrði leitt fyrir dóminn. Var málið flutt um þann ágreining.
Verjandi ákærðu vísar til þess að ekki séu skilyrði til þess að leiða ofangreint vitni fyrir dóminn. Til að vitni verði leitt fyrir dóm í sakamáli þurfi vitni að geta borið um atvik máls af eigin raun, að hafa framkvæmt sérfræðilega rannsókn í máli að beiðni ákæruvalds á rannsóknarstigi eða að hafa verið dómkvatt til að vera mats- eða skoðunarmaður í máli. Matsgerðar sem fyrir liggi á bls. 175 í rannsóknargögnum málsins hafi ekki verið aflað í þágu rannsóknar þess sakamáls sem hér sé til meðferðar, heldur hafi þess verið aflað vegna hugsanlegra málaferla tengdu þrotabúi hlutafélagsins Véla og þjónustu. Matsmaðurinn C geti því ekki borið um atvik þessa máls af eigin raun, sem sé skilyrði þess að vitnið verði leitt fyrir dóminn. Bresti þar með skilyrði fyrir því að matsmaðurinn verði leiddur hér fyrir dóm, sbr. 1. mgr. 116. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008. Þá verði ekki af umræddri matsgerð ráðið að mætt hafi verið af hálfu matsþola. Sé matið því ófullkomið.
Sækjandi krefst þess að vitnið verði leitt fyrir dóminn. Rannsókn málsins hjá lögreglu hafi farið af stað með kæru skiptastjóra þrotabús A. Á meðal þeirra gagna málsins sem fylgt hafi kæru sé mat hinna dómkvöddu matsmanna. Þegar hafi annar þeirra matsmanna verið leiddur fyrir dóminn og sé þörf á því að leiða síðari matsmanninn til að staðfesta matið og svara spurningum það varðandi. Umrætt vitni sé því lykilvitni í sakamálinu. Samkvæmt reglum sakamálalaga sé mat dómara á sönnun frjálst.
Niðurstaða:
Samkvæmt ákæru ríkislögreglustjóra er ákærðu gefið að sök skilasvik framin í rekstri hlutafélagsins A hf. Ákæruefni varðar sölu á hluta af veðsettum vörubirgðum A hf. fyrir óhæfilega lágt verð. Í ákæru kemur fram að samkvæmt mati dómkvaddra matsmanna hafi verðmæti vörubirgða sem seldar hafi verið numið 71.252.728 krónum. Sú matsgerð sem ágreiningur stendur um í máli þessu er því það sönnunargagn er ákæruvald miðar sakarefnið við. Í flutningi um efni málsins verður fyrir dóminum að leysa úr því hvert sönnunargildi matsgerðarinnar er, en verjandi ákærðu hefur meðal annars teflt fram henni til andsvara nýrri matsgerð á dskj. nr. 10, auk þess sem verjandi vísar til skýrslu F frá 15. desember 2004 á bls. 128 í rannsóknargögnum málsins um rannsókn á bókhaldi A hf. Framburður hins dómkvadda matsmanns um matið og einstaka þætti tengda því kann þar af leiðandi að skipta máli við úrlausn um gildi matsgerðarinnar sem sönnunargagns. Er því óhjákvæmilegt að matsmaðurinn gefi skýrslu fyrir dóminum, svo sem sækjandi hefur krafist. Verður vitni þetta því leitt fyrir dóminn. Er kröfu verjanda ákærðu því hafnað.
Símon Sigvaldason héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Ú r s k u r ð a r o r ð:
Ákæruvaldi er heimilt að leiða fyrir dóminn sem vitni C matsmann.