Hæstiréttur íslands

Nr. 2019-127

Valdarás ehf. (Ingi Tryggvason lögmaður)
gegn
Landsbankanum hf. (Stefán Ólafsson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Veðskuldabréf
  • Aðild
  • Fölsun
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar.

Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Markús Sigurbjörnsson og Viðar Már Matthíasson.

Með beiðni 4. apríl 2019 leitar Valdarás ehf. leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 8. mars sama ár í málinu nr. 486/2018: Landsbankinn hf. gegn Valdarási ehf., á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Landsbankinn hf. leggst gegn beiðninni.

Ágreiningur í málinu lýtur að greiðsluskyldu leyfisbeiðanda samkvæmt tveimur veðskuldabréfum sem gefin voru út árið 2006 annars vegar af Guðmundi Axelssyni og hins vegar Axel Rúnari Guðmundssyni en bréfin voru tryggð með veði í tveimur jörðum í eigu þess fyrrnefnda. Á árinu 2007 stofnaði Guðmundur leyfisbeiðanda og var hann eini hluthafinn í félaginu. Lagði hann búrekstur sinn ásamt eignum og skuldum til félagsins og voru skuldbindingar samkvæmt veðskuldabréfunum tilgreindar meðal skulda þess í stofnefnahagsreikningi og síðar ársreikningum. Með yfirlýsingu Guðmundar á árinu 2008 voru jarðirnar tvær jafnframt framseldar leyfisbeiðanda. Greiðslufall varð á veðskuldabréfunum á árunum 2013 og 2015. Í máli þessu sem gagnaðili höfðaði til heimtu skuldar samkvæmt bréfunum hefur leyfisbeiðandi krafist sýknu meðal annars á þeim grunni að hann sé ekki réttur skuldari að lánunum. Þá hafi Axel Rúnar falsað undirskriftir Guðmundar á veðskuldabréfin og því geti gagnaðili ekki neytt þeirra réttinda sem þau kveði á um. Héraðsdómur sýknaði leyfisbeiðanda af kröfum gagnaðila. Með fyrrnefndum dómi Landsréttar var leyfisbeiðanda á hinn bóginn gert að greiða gagnaðila umkrafða fjárhæð auk þess sem veðréttur gagnaðila samkvæmt skuldabréfunum var viðurkenndur.

Leyfisbeiðandi byggir á því að málið geti haft verulegt almennt gildi en í því reyni á atriði varðandi viðskiptabréf og starfsemi lánastofnana. Þá sé dómur Landsréttar bersýnilega rangur að efni til því þar séu dregnar rangar ályktanir af gögnum málsins. Loks vísar leyfisbeiðandi til þess að málið varði mikilvæga fjárhagslega hagsmuni sína.

Að virtum gögnum málsins er hvorki unnt að líta svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til, sbr. 3. málslið sömu málsgreinar. Er beiðninni því hafnað.