Hæstiréttur íslands
Mál nr. 311/2003
Lykilorð
- Kærumál
- Nauðungarsala
- Úthlutun söluverðs
- Skuldabréf
- Málamyndagerningur
|
|
Mánudaginn 1. september 2003. |
|
Nr. 311/2003. |
Jóhannes Tryggvason og(Jón Ármann Guðjónsson hdl.) Kristín Tryggvadóttir(Björn L. Bergsson hrl.) gegn þrotabúi Þorsteins V. Þórðarsonar (Helgi Birgisson hrl.) |
Kærumál. Nauðungarsala. Úthlutun söluverðs. Skuldabréf. Málamyndagerningur.
J og K kærðu úrskurð héraðsdóms þar sem fallist var á kröfu þrotabús Þ um að hnekkja ákvörðun sýslumanns og honum gert að breyta frumvarpi sínu um úthlutun söluverðs tiltekinnar fasteignar við nauðungarsölu á þann veg að engu yrði úthlutað til J af andvirði eignarhluta þrotabúsins í fasteigninni. Hafði J lýst kröfu samkvæmt veðskuldabréfi útgefnu af Þ til handhafa sem K hafði áritað um samþykki sitt, sem hann kvaðst hafa fengið afhent vegna skulda Þ og K við sig. Talið var að málatilbúnaður J og K væri í heild mjög ótrúverðugur. Hefði þrotabúinu tekist að gera líklegt að útgáfa umrædds veðskuldabréfs væri málamyndagerningur og skyldi því ekki úthlutað upp í þá kröfu sem J hefði uppi.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Gunnlaugur Claessen og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar hvort með sinni kæru 6. ágúst 2003, sem bárust réttinum ásamt kærumálsgögnum 14. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 23. júlí 2003, þar sem fallist var á kröfu varnaraðila um að hnekkt yrði ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík 17. desember 2002 og honum gert að breyta frumvarpi sínu 12. nóvember sama árs um úthlutun söluverðs fasteignarinnar Fannafoldar 21 í Reykjavík við nauðungarsölu á þann veg að engu af því yrði úthlutað til sóknaraðilans Jóhannesar Tryggvasonar af andvirði eignarhluta varnaraðila í fasteigninni. Kæruheimild er í 79. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu. Sóknaraðilinn Jóhannes krefst þess að áðurnefnt frumvarp sýslumanns verði lagt óbreytt til grundvallar við úthlutun söluverðs fasteignarinnar. Sóknaraðilinn Kristín Tryggvadóttir krefst aðallega þess sama, en til vara að úrskurður héraðsdómara verði ómerktur og lagt fyrir hann að leysa efnislega úr varakröfu, sem hún gerði fyrir héraðsdómi. Báðir sóknaraðilar krefjast jafnframt kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur og sóknaraðilum gert óskipt að greiða sér kærumálskostnað.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Sóknaraðilar verða dæmd til að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðilar, Jóhannes Tryggvason og Kristín Tryggvadóttir, greiði í sameiningu varnaraðila, þrotabúi Þorsteins V. Þórðarsonar, 150.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður héraðsdóms Reykjavíkur 23. júlí 2003.
Máli þessu var skotið til héraðsdóms með bréfi 2. janúar 2003. Það var tekið til úrskurðar að lokinni aðalmeðferð 27. júní sl. Áður hafði verið synjað beiðni sóknaraðila um frekari frestun málsins með úrskurði 3. júní sl.
Sóknaraðili er þrotabú Þorsteins V. Þórðarsonar, kt. 060843-4819, Klapparstíg 29, Reykjavík. Hann krefst þess að hnekkt verði þeirri ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík frá 17. desember 2002 að hafna mótmælum hans við úthlutun á söluverði fasteignarinnar Fannafold 21 og að frumvarpinu verði breytt þannig að ekkert komi í hlut varnaraðila Jóhannesar Tryggvasonar vegna skuldabréfs á 6. veðrétti, útgefins 11. júlí 1997. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar úr hendi beggja varnaraðila.
Varnaraðilar eru Jóhannes Tryggvason, [...], Aðallandi 2, Reykjavík, og Kristín Tryggvadóttir, [...], Fannafold 21, Reykjavík.
Varnaraðili Jóhannes Tryggvason krefst þess að ákvörðun sýslumanns um að leggja frumvarp að úthlutun óbreytt til grundvallar verði staðfest og að sér verði þannig úthlutað 7.200.890 krónum. Þá krefst hann málskostnaðar að fjárhæð 519.000 krónur.
Varnaraðili Kristín Tryggvadóttir krefst þess að frumvarp að úthlutun söluverðs verði staðfest. Til vara hún þess að verði fallist á kröfu sóknaraðila og hafnað úthlutun til Jóhannesar Tryggvasonar, þá verði þeim fjármunum, 7.200.890 krónum, ráðstafað óskipt til hennar. Þá krefst hún málskostnaðar.
Málið varðar úthlutun söluverðs fasteignarinnar Fannafold 21, er seld var nauðungarsölu 30. september 2002. Þinglýstir eigendur hússins voru varnaraðili Kristín Tryggvadóttir og eiginmaður hennar, Þorsteinn Þórðarson, en þrotabú hans er sóknaraðili. Búið var tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði 25. maí 1999.
Sóknaraðili mótmælir úthlutun upp í kröfu varnaraðilans Jóhannesar Tryggvasonar, sem lýsti kröfu samkvæmt veðskuldabréfi útgefnu af Þorsteini Þórðarsyni til handhafa 11. júlí 1997. Varnaraðili Kristín Tryggvadóttir áritar bréfið um samþykki sitt. Bréfið er að höfuðstól 5 milljónir króna. Bréfið bar hæstu útlánavexti Landsbanka Íslands á óverðtryggðum bréfum, sem voru 14,15% við útgáfu bréfsins. Í kröfulýsingu lögmanns sóknaraðila er bréfið sagt hafa verið í vanskilum frá fyrsta gjalddaga þann 10. júlí 1998 og krafan reiknuð vera að fjárhæð 13.038.986 krónur.
Sóknaraðili kveðst hafa óskað lögreglurannsóknar vegna umrædds skuldabréfs. Rekur hann í greinargerð sinni hvernig skuldabréfið kom skiptastjóra fyrst fyrir sjónir. Í fyrstu skýrslu sinni nefndi þrotamaður ekki umrætt bréf er hann taldi upp skuldir sínar. Við skýrslugjöf 22. september 1999 sagði þrotamaður bréfið hafa verið gefið út til að fjármagna rekstur tveggja fyrirtækja, sem hann hafi rekið, en fyrirtækin hafi verið í eigu eiginkonu hans og barna þeirra. Hann gat þá ekki upplýst hver hefði keypt bréfið eða hver hefði annast sölu þess. Í mars 2001 hafi þrotamaður sent skiptasjóra útreikning lögmanns á kröfu samkvæmt bréfinu. Í þeim útreikningi er miðað við að 700.000 krónur hafi verið greiddar af bréfinu. Umræddur lögmaður hafi í samtali við skiptasjórann sagt að hann hefði ekki upplýsingar um bréfið. Hann hefði einungis verið beðinn af þrotamanni að reikna út kröfu samkvæmt því. Eftir þetta hafi þrotamaður gefið skiptastjóra upp nafn kröfuhafa, en tiltekinn lögmaður hafi svarað bréfi til þessa aðila og sagt að sá hefði ekki neina vitneskju um skuldabréfið. Loks við nauðungarsölu fasteignarinnar þann 30. september 2002 hafi frumrit skuldabréfsins komið fram og þá hafi það verið lagt fram í nafni varnaraðila Jóhannesar Tryggvasonar og krafist greiðslu á 13.038.986 krónum. Samkvæmt frumvarpi að úthlutun skal úthlutun upp í kröfuna nema 7.200.890 krónum.
Sóknaraðili byggir á því að skuldabréfið hafi verið gefið út til málamynda og í þeim tilgangi einum að skjóta undan eignum þrotamanns og eiginkonu hans, varnaraðila Kristínar. Bendir hann á að þrotamaður hafi ekki getið um skuld þessa í skattframtölum sínum 1998 og 1999. Þá hafi kröfunni ekki verið lýst í þrotabúið. Þrotamaður hafi sagt að Tölvu-pósturinn ehf. greiddi afborganir af bréfinu, en samkvæmt kröfulýsingu hafi ekki verið greitt af því. Loks bendir sóknaraðili á að varnaraðilar séu systkin og Kristín sé eiginkona þrotamanns, Þorsteins Þórðarsonar.
Varnaraðili Jóhannes Tryggvason kveðst hafa fengið afhent umrætt skuldabréf vegna skulda Þorsteins Þórðarsonar og Kristínar Tryggvadóttur við sig. Skuldabréfið sé rétt að formi og efni. Bréfið sé viðskiptabréf og hvíli sönnunarbyrði á sóknaraðila vilji hann sýna fram á að bréfið feli ekki í sér fjárkröfu. Vísar varnaraðili hér einnig til XVII. kafla laga nr. 91/1991, en frekari varnir en þar greinir komist ekki að og mótmælir hann þeim málsástæðum sem byggi á viðskiptunum að baki bréfinu.
Verði sóknaraðila talið heimilt að byggja mál sitt á viðskiptunum að baki bréfinu segir varnaraðili að hann hafi fengið bréfið afhent til tryggingar ýmsum skuldum Kristínar og Þorsteins við sig. Hafi skuldir þessar safnast upp um talsvert langan tíma. Hann hafi kosið að ganga ekki fram af hörku við innheimtu skuldarinnar. Honum hafi verið sagt að veðið væri í raun í eignarhluta Kristínar, systur hans, en hluti Þorsteins væri veðsettur Lífeyrissjóði starfsmanna Áburðarverksmiðjunnar sérstaklega.
Varnaraðili byggir rétt sinn samkvæmt bréfinu á handhöfn sinni á því.
Varnaraðili mótmælir því sérstaklega að skuldar þessarar hafi ekki verið getið á framtölum þrotamanns. Þess hafi verið getið í framtali 1999, en öftustu síðuna vanti í framtal það sem þrotabúið lagði fram í málinu. Þar sé skuldarinnar getið. Þá segir hann að kröfunni hafi ekki verið lýst í þrotabúið, en það sé ekki skylt. Hann hafi ekki viljað lýsa kröfu sinni fyrr en reyndi á nauðungarsölu eignarinnar.
Fyrir aðalkröfu sinni um staðfestingu frumvarps að úthlutun vísar varnaraðilinn Kristín Tryggvadóttur til greinargerðar varnaraðilans Jóhannesar Tryggvasonar.
Til stuðnings varakröfu sinni rekur varnaraðili Kristín málavexti ítarlega í greinargerð. Lýsir hún tryggingabréfi er Þorsteinn, eiginmaður hennar, hafi gefið út til Lífeyrissjóðs starfsmanna Áburðarverksmiðjunnar á árinu 1995. Hafi það verið gefið út til að forða löghaldsaðgerðum er sjóðurinn hugðist grípa til vegna bótakrafna er hann hugðist hafa uppi á hendur Þorsteini. Segir í greinargerðinni að Kristín hafi áritað tryggingabréfið um samþykki sitt sem maki Þorsteins í samræmi við 60. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993.
Bendir varnaraðili á að í skuldabréfi því sem deilt er um í þessu máli hafi fasteignin verið veðsett með 5. veðrétti í hennar eignarhluta, en 6. veðrétti í eignarhluta Þorsteins. Hafi þess verið getið sérstaklega við tilgreiningu áhvílandi veðskulda að áðurnefnt tryggingabréf hvíldi eingöngu á eignarhluta Þorsteins.
Í máli er Lífeyrissjóðurinn höfðaði til staðfestingar veðréttar samkvæmt tryggingabréfinu kveðst Kristín hafa tekið til varna, en ekki hafi verið fallist á kröfur hennar og var viðurkennt að veðréttur samkvæmt tryggingabréfinu næði til allrar eignarinnar. Við aðalmeðferð málsins í héraði hafi þrír lögmenn gefið vitnaskýrslur. Hafi þeir greint frá tilurð bréfsins og hugmyndum aðila um efni þess. Hafi fjárhæð þess verið ákveðin með það í huga að rýra ekki eignarhluta hennar í eigninni.
Varnaraðili mótmælir því sérstaklega að hún hafi ætlað að skjóta undan eignum. Hún standi ekki í neinni skuld við Lífeyrissjóðinn eða þrotabúið. Þá mótmælir hún því að ekki sé gerð grein fyrir skuld samkvæmt skuldabréfinu á skattframtölum þeirra hjóna.
Varnaraðili segir að fasteignin hafi verið hjúskapareign hennar og Þorsteins Þórðarsonar. Þrotabúið hafi tekið við réttindum Þorsteins, en réttur þrotabúsins geti ekki orðið annar og meiri heldur en Þorsteins sjálfs. Lífeyrissjóðurinn hafi átt kröfu á hendur Þorsteini sem naut veðréttar í fasteigninni. Skuld Þorsteins við sjóðinn hafi verið fjárfélagi þeirra hjóna óviðkomandi, hún beri enga ábyrgð á þeim. Þegar af þeirri ástæðu geti þrotabú Þorsteins ekki áskilið sér frekari rétt til úthlutunar af andvirði eignarinnar heldur en þegar hefur verið ráðstafað upp í skuld Þorsteins sem sé henni óviðkomandi. Þegar reiknað hafi verið hverju úthlutað skuli upp í skuldir sem hún beri ábyrgð á séu 14.660.121 króna eftir til ráðstöfunar, en af þeirri fjárhæð geri frumvarp sýslumanns ráð fyrir að 7.459.231 krónur gangi upp í kröfu Lífeyrissjóðsins, sem hún eins og áður segir beri enga ábyrgð á. Þar sem þegar hafi verið ráðstafað til kröfuhafa Þorsteins meira en helmingi þess sem eftir er þegar sameiginlegar skuldir hafa verið greiddar, eigi þrotabúið ekki kröfu til frekari úthlutunar. Yrði fallist á kröfur þrotabúsins yrði jafnræði milli Þorsteins og Kristínar raskað verulega. Kæmu þá samtals til kröfuhafa Þorsteins ríflega 11 milljónir króna, en liðlega 3,6 milljónir til Kristínar. Slík niðurstaða styðjist hvorki við rök né lög.
Í annan stað bendir varnaraðili Kristín á það að í þrotabú Þorsteins hafi tveir aðilar lýst kröfum. Annars vegar Lífeyrissjóðurinn, hins vegar Sveinn Sæmundsson. Hún hafi sjálf greitt kröfu Sveins og fengið framselda. Hafi hún sem kröfuhafi í búinu krafist þess að látið yrði af mótmælum við frumvarpinu.
Í þessu sambandi bendir hún á að lögmenn Lífeyrissjóðsins, hæstaréttarlögmennirnir Gestur og Gunnar Jónssynir, hafi fyrir dómi lýst því yfir að markmiðið með útgáfu tryggingabréfsins hafi verið það að tryggja að eignin yrði til ráðstöfunar ef bótakrafa yrði viðurkennd. Jafnframt hafi fjárhæð tryggingabréfsins tekið mið af ætluðum eignarhlut Þorsteins í eigninni. Því hafi verið lýst yfir tæpitungulaust að hugsunin hafi verið sú að Kristín slyppi skaðlaus. Telur varnaraðili að Lífeyrissjóðnum sé ekki stætt á að víkjast undan þessum afdráttarlausu yfirlýsingum lögmanna sjóðsins, sem hafi verið gefnar fyrir hans hönd. Þá sé þrotabúið bundið af yfirlýsingum Lífeyrissjóðsins þar sem áskilnaður sjóðsins um frekari greiðslur geti ekki orðið lögmætari fyrir það eitt að þrotabúið sé notað sem milliliður.
Forsendur og niðurstaða.
Ekki er um það deilt að umrætt skuldabréf sé formlega gilt og að það kveði á um veðsetningu fasteignarinnar. Þá er ekki deilt um fjárhæðir. Kæra skiptastjóra til lögreglu hefur ekki leitt til þess að lögreglurannsókn hæfist, enn sem komið er.
Skuldabréf það sem varnaraðili Jóhannes lagði fram er í því formi að við meðferð máls þar sem krafist yrði greiðslu skuldar samkvæmt bréfinu giltu ákvæði XVII. kafla laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 og þannig væri takmarkað hvaða vörnum yrði haldið uppi. Mál þetta er ekki rekið samkvæmt lögum nr. 91/1991 og tilvísun 2. mgr. 77. gr. laga nr. 90/1991 til almennra reglna laga nr. 91/1991 á ekki við um sérreglur XVII. kafla laganna.
Ágreiningur snýst fyrst og fremst um það hvort varnaraðili Jóhannes eigi fjárkröfu á hendur þrotamanni, Þorsteini V. Þórðarsyni. Jóhannes hefur lagt fram veðskuldabréf, sem að formi og efni er gallalaust. Þrotabúið, sóknaraðili málsins, heldur því fram að á milli Þorsteins og Jóhannesar hafi ekki verið neitt skuldarasamband og skuldabréfinu sé ætlað það eitt að skjóta eignum undan gjalþroti.
Fullyrðingar þessa efnis komu fram af hálfu þrotabúsins þegar áður en varnaraðili Jóhannes kom fram með umrætt veðskuldabréf. Hafði verið leitað upplýsinga hjá þrotamanni, sem er mágur Jóhannesar, en upplýsingar sem hann gaf skiptastjóra eru í litlu samræmi við það sem ráðið verður af málatilbúnaði varnaraðila Jóhannesar. Er í raun verulegt ósamræmi á milli þeirra upplýsinga sem þrotamaður gaf og þeirra fullyrðinga sem fram koma í greinargerð lögmanns varnaraðila.
Afrit skattframtala þrotamanns fyrir árin 1998 og 1999 hafa verið lögð fram. Ekki er sérstaklega tilgreind skuld samkvæmt umræddu skuldabréfi fyrr en á framtali 1999, ekki er gert annað í hinu fyrra framtali en að telja fram heildarfjárhæð skulda, en ekki eru tilgreindir skuldareigendur. Á síðari framtölum er kröfuhafi þessa bréfs heldur ekki nafngreindur.
Skömmu áður en aðalmeðferð fór fram skoraði lögmaður sóknaraðila á lögmann varnaraðila, Jóhannesar Tryggvasonar, að leggja fram skattframtöl umbjóðanda hans. Þessari áskorun var ekki sinnt.
Bein áskorun til varnaraðila Jóhannesar um framlagningu gagna kom seint fram. Hins vegar kom strax fram sú fullyrðing þrotabúsins að ekki væri nein raunveruleg krafa á bak við skuldabréfið. Þrátt fyrir þetta hefur varnaraðili ekki séð ástæðu til að styrkja sinn málstað með framlagningu gagna eða skýrslugjöf fyrir dómi. Frásögn í greinargerð varnaraðila er mjög óskýr. Er þar talað um skuldasöfnun, en engar fjárhæðir nefndar. Er raunar ekki beinlínis fullyrt að raunveruleg krafa að hinni tilgreindu fjárhæð sé á bak við skuldabréfið. Þá kemur Jóhannes hvergi fram sjálfur með fullyrðingar um skuld þrotamanns við sig, hvorki munnlega né skriflega.
Þrotamaður gaf skiptastjóra rangar upplýsingar um skuldabréf þetta tvívegis. Hefðu fullyrðingar lögmanns varnaraðila komið fram við upphaf gjaldþrotameðferðarinnar hefði skiptastjóra verið unnt að kanna möguleika á riftun veðsetningarinnar. Er málatilbúnaður og málsútlistun varnaraðila í heild mjög ótrúverðug. Að öllu virtu verður talið að sóknaraðila hafi tekist að gera svo líklegt að útgáfa umrædds veðskuldabréfs sé málamyndagerningur að ákveða beri að ekki skuli úthlutað upp í þá kröfu sem varnaraðili, Jóhannes Tryggvason, hefur uppi.
Þessi niðurstaða nær aðeins til eignarhluta þrotabúsins. Varnaraðili Kristín mótmælir ekki úthlutun til Jóhannesar af sínum eignarhluta og verður því ekki um það fjallað í úrskurðarorði, en sóknaraðili hefur ekki aðild að kröfu um úthlutun af andvirði annars en eignarhluta þrotamanns.
Mál þetta er rekið fyrir dóminum samkvæmt reglum XIII. kafla laga nr. 90/1991, sbr. 1. mgr. 52. gr. laganna. Verður því ekki fjallað um annað en þá ákvörðun sýslumanns að úthluta upp í kröfu varnaraðila Jóhannesar. Ekki er unnt að fjalla um varakröfu varnaraðila Kristínar, en úr henni hefur ekki verið leyst hjá sýslumanni.
Í samræmi við þessa niðurstöðu verður varnaraðilum gert að greiða sóknaraðila 250.000 krónur í málskostnað. Er þá litið til virðisaukaskatts.
Jón Finnbjörnsson, héraðsdómari, kveður upp úrskurð þennan.
Ú r s k u r ð a r o r ð
Frumvarpi sýslumanns að úthlutunargerð söluandvirðis fasteignarinnar Fannafold 21 skal breytt á þann veg að ekki verði úthlutað til varnaraðila, Jóhannesar Tryggvasonar, af hluta sóknaraðila, þrotabús Þorsteins V. Þórðarsonar, í eigninni.
Varnaraðilar, Jóhannes Tryggvason og Kristín Tryggvadóttir, greiði sóknaraðila óskipt 250.000 krónur í málskostnað.