Hæstiréttur íslands
Mál nr. 404/2004
Lykilorð
- Fæðingarorlof
- Skaðabætur
- Gjafsókn
|
|
Fimmtudaginn 10. mars 2005. |
|
Nr. 404/2004. |
Stefán Már Pétursson(Björn L. Bergsson hrl.) gegn Tryggingastofnun ríkisins (Þorbjörg I. Jónsdóttir hrl.) |
Fæðingarorlof. Skaðabætur. Gjafsókn.
Ekki var fallist á kröfu S um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði þar sem hann uppfyllti ekki skilyrði 1. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof og 4. gr. þágildandi reglugerðar nr. 909/2000 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks um að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs en greiðslur slysadagpeninga til S höfðu fallið niður tæpum tveimur mánuðum fyrir þann dag. Þá var talið að ekki hefði verið leitt í ljós að T hefði gefið S rangar upplýsingar, vanrækt upplýsingaskyldu sína eða að dráttur hefði orðið á afgreiðslu á umsókn hans um þessar greiðslu er leiða ættu til skaðabótaskyldu T. Var T því sýknað af kröfum S.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 4. október 2004. Endanlegar dómkröfur hans eru að stefnda verði gert að greiða sér 1.782.996 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af nánar tilgreindum fjárhæðum frá 1. mars 2003 til greiðsludags. Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar, sem honum hefur verið veitt á báðum dómstigum.
Stefndi krefst sýknu af kröfu áfrýjanda og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Málavöxtum er réttilega lýst í hinum áfrýjaða dómi að öðru leyti en því að samkvæmt gögnum málsins verður ekki annað séð en að greiðslur slysadagpeninga til áfrýjanda hafi fallið niður 11. desember 2002, en ekki í lok nóvember þess árs eins og kemur fram í héraðsdómi. Fallist er á forsendur og niðurstöðu hins áfrýjaða dóms um að áfrýjandi hafi ekki uppfyllt skilyrði 1. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof og 4. gr. þágildandi reglugerðar nr. 909/2000 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks. Þá hefur ekki verið leitt í ljós að stefndi hafi gefið áfrýjanda rangar upplýsingar, vanrækt upplýsingaskyldu sína eða að dráttur hafi orðið á afgreiðslu stefnda á umsókn áfrýjanda um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði er leiða eigi til skaðabótaskyldu stefnda. Að þessu virtu verður stefndi sýknaður af kröfu áfrýjanda.
Ákvæði héraðsdóms um málskostnað og gjafsóknarkostnað verða staðfest. Rétt er að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti. Um gjafsóknarkostnað áfrýjanda fyrir Hæstarétti fer samkvæmt því, sem í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Stefndi, Tryggingastofnun ríkisins, er sýkn af kröfu áfrýjanda, Stefáns Más Péturssonar.
Ákvæði héraðsdóms um málskostnað og gjafsóknarkostnað eru staðfest.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Gjafsóknarkostnaður áfrýjanda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hans, 250.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 21. september 2004.
Stefnandi málsins er Stefán Már Pétursson, kt.[...], Skúlaskeiði 8, Hafnarfirði, en stefndi er Tryggingastofnun ríkisins, kt. 660269-2669, Laugavegi 114, Reykjavík. Málið er höfðað með stefnu, dagsettri 4. desember 2003, sem birt var á heimili forstjóra stefnda 7. janúar sl. Málið var þingfest hér í dómi 20. sama mánaðar.
Málið var dómtekið 10. september sl. að afloknum munnlegum málflutningi. Stefnandi gaf skýrslu við aðalmeðferð málsins.
Stefnanda var veitt gjafsókn með leyfi dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, sem dagsett er 14. nóvember 2003.
Dómkröfur:
Dómkröfur stefnanda eru þær, að ógilt verði ákvörðun stofnunarinnar (stefnda, eftirleiðis TR) frá 5. febrúar 2003, um synjun á greiðslum í fæðingarorlofi til stefnanda, sem staðfest var af úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála þann 19. júní 2003.
Þá krefst stefnandi þess að stefnda verði gert að greiða honum 1.782.996 kr., ásamt dráttarvöxtum, skv. III. kafla laga nr. 38/2001 af 297.166 kr.frá 1. mars 2003 til 1. apríl 2003, þá af 594.332 kr. frá þeim degi til 1. maí 2003, þá af 891.498 kr. frá þeim degi til 1. júní 2003, þá af 1.188.664 kr. frá þeim degi til 1. júlí 2003, þá af 1.485.830 kr. frá þeim degi til 1 ágúst 2003 og loks af 1.782.996 kr.frá þeim degi til greiðsludags.
Að auki krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda, samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi, eins og málið væri ekki gjafsóknarmál.
Stefndi krefst þess, að kröfu stefnanda um ógildingu verði hafnað og að stefndi verði jafnframt sýknaður af öllum öðrum kröfum stefnanda. Stefndi krefst málskostnaðar að skaðlausu úr hendi stefnanda.
Málavextir.
Stefnandi slasaðist á baki við vinnu á sjó hinn 14. nóvember 2001 og varð óvinnufær af völdum slyssins. Tryggingamiðstöðin hf. greiddi honum bætur m.a. vegna tímabundins atvinnutjóns frá slysdegi til 21. nóvember 2002, alls 2.796.048 kr. Stefnandi fékk einnig slysadagpeninga hjá TR fyrir tímabilið frá nóvember 2001 til 30. nóvember 2002 og naut enn fremur greiðslna frá Lífeyrissjóði sjómanna, a.m.k. til og með febrúar 2003, samkvæmt framlögðum gögnum. Í vottorði, sem skráð er á eyðublað frá TR og útgefið er 27. nóvember 2002 af Gísla Baldurssyni lækni kemur fram, að stefnandi var óvinnufær að hluta „amk. 2 mán.“. Hann sótti um greiðslu úr fæðingarorlofssjóði. Umsóknin var móttekin af TR hinn 21. nóvember 2002. Þar óskaði stefnandi eftir greiðslu fæðingarorlofs í 6 mánuði frá 7. febrúar 2003 að telja.
TR hafnaði umsókn stefnanda með bréfi, dags. 5. febrúar 2003, með eftirfarandi rökstuðningi: „Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof, nr. 95/2000 er það skilyrði fyrir rétti til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði að foreldi hafi verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs (fæðingardag barns). Starfshlutfall hvers mánaðar þarf að vera a.m.k. 25%, samkvæmt 4. mgr. 13. gr. og 4. gr. reglugerðar nr. 909/2000. Af gögnum málsins sem þú hefur lagt fram og upplýsingum úr staðgreiðsluskrá RSK sést að þú varst ekki á vinnumarkaði í desember 2002 og janúar 2003. Stefnanda var jafnframt bent á, að hann ætti sjálfstæðan rétt til fæðingarstyrks í 3 mánuði frá 1. febrúar að telja og næmi mánaðargreiðsla 39.232 kr.
Stefnandi skaut málinu til sérstakrar úrskurðarnefndar, sbr. 5. gr. laga nr. 95/2000, (eftirleiðis fol.) með bréfi, dags. 17. febrúar s.á. Byggði stefnandi á því, að hann hefði verið á tímamótum, þegar hann sótti um greiðslu fæðingarorlof, þar sem uppgjöri bótamáls hjá Tryggingamiðstöðinni hf. hafi verið nýlokið og Lífeyrissjóður sjómanna hafi metið hann hæfan til léttra starfa í landi en ófæran til sjómannsstarfa. Hann hafi gert þjónustufulltrúa TR grein fyrir þessari staðreynd og innt hann eftir því, hvort eitthvað væri rétti hans til fæðingarorlofs til fyrirstöðu og fengið þau svör að svo væri ekki. Í janúarmánuði 2003 hafi viðhorf TR breyst, en formlegt svar við erindi hans hafi ekki borist fyrr en 5. febrúar s.á. Stefnandi vísaði til þess, að leiðbeiningarskyldu 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 hafi ekki verið gætt af hálfu stefnda, þegar hann útfyllti umsókn sína um greiðslufæðingarorlofs í viðurvist starfsmanns stefnda, og einnig hafi ákvæði 9. gr. sömu laga verið sniðgengið. Vísað var til þess af hálfu stefnanda, að vandalaust hafi verið fyrir hann að fá sig skráðan atvinnulausan og þá hefðu honum opnast allar dyr varðandi greiðslu fæðingarorlofs. Taldi hann sig fullnægja öllum skilyrðum fyrir því að njóta fæðingarorlofs. TR gerði úrskurðarnefndinni einnig grein fyrir ákvörðun sinni með bréfi, dags. 10. apríl s.á. Byggt var á sömu sjónarmiðum og áður er getið og rakin verða nánar við umfjöllun um málsástæðu stefnda. Stefnanda var gefinn kostur á að tjá sig um málsástæður stefnda, sem hann nýtti sér.
Úrskurðarnefnd kvað upp úrskurð í máli stefnanda 19. júní s.á. og staðfesti ákvörðun TR. Á því var byggt af hálfu nefndarinnar, að stefnandi hafi ekki uppfyllt það skilyrði að hafa verið samfellt á innlendum vinnumarkaði í sex mánuði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs, þar sem hann hafi ekki starfað á vinnumarkaði í desember 2002 og í janúar 2003, né heldur hafi hann unnið sér rétt á annan hátt.
Málsástæður og lagarök stefnanda.
Stefnandi byggir kröfu sína um greiðslu á lögum um fæðingar- og foreldraorlof laga nr. 95/2000 Í 2. mgr. 13. gr sé kveðið á um, að greiðslur úr sjóðnum skuli nema 80% af meðaltali heildarlauna, m.v. 12 mánaða tímabil sem lýkur tveimur mánuðum fyrir upphaf fæðingarorlofs. Meðalmánaðartekjur stefnanda hafi á tímabilinu frá nóvember 2001 til nóvember 2002 numið 371.457 kr., eins og framlögð skattframtöl hans sýni. Því nemi 80% þeirrar fjárhæðar 297.166 kr. á mánuði á þeim tíma, sem hann tók fæðingarorlof.
Stefnukrafan sundurliðist því þannig:
Fæðingarorlof í febrúar 2003 297.166,00
Fæðingarorlof í mars 2003 297.166,00
Fæðingarorlof í apríl 2003 297.166,00
Fæðingarorlof í maí 2003 297.166,00
Fæðingarorlof í júní 2003 297.166,00
Fæðingarorlof í júlí 2003 297.166,00
Samtals dómkrafa: 1.782.996,00
Stefnandi telur, að hann hafi fullnægt skilyrðum 1. mgr. 13. gr. fol. um þátttöku á vinnumarkaði til þess að fá greiðslur úr fæðingarorlofssjóði og því beri að ógilda ákvörðun stefnda. Stefnandi vísar til þess, að c liður 1. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 909/2000 geymi nánari skilgreiningu þess, hvað teljist samfellt starf í skilningi laganna. Samkvæmt því sé heimilt að telja þann tíma, sem foreldri fái greidda sjúkra- eða slysadagpeninga eða sé á biðtíma eftir dagpeningum til starfstíma, enda hafi foreldri látið af launuðum störfum af heilsufarsástæðum, en fram hjá þessari heimild hafi verið litið í hans tilviki.
Stefnandi hafi með umsókn sinni til stefnda lagt fram gögn og upplýsingar, sem sýnt hafi á ótvíræðan hátt, að hann hafi verið ófær um að vinna það starf, sem hann hafði áður sinnt, þ.e. sjómennsku í þá tvo mánuði, sem ráði úrslitum um réttindi hans til greiðslna og að hann hafi sannanlega látið af launuðum störfum af heilsufarsástæðum og falli því undir ofangreinda skilgreiningu áðurnefndrar reglugerðar um þátttöku á vinnumarkaði.
Einnig byggir stefnandi á því, að stefndi hafi brotið gegn skyldum sínum sem stjórnvald við afgreiðslu erindis hans, þar sem honum hafi ekki verið veittar nauðsynlegar upplýsingar og leiðbeiningar, svo að hann gæti gætt hagsmuna sinna. Starfsmaður stefnda hafi beinlínis gefið rangar upplýsingar, þegar hann lagði inn umsókn sína til afgreiðslu og því hafi hann ekki skráð sig atvinnulausan. Sú skráning hefði getað breytt stöðu hans. Stofnunin hafi auk þess tekið rúma tvo mánuði til að afgreiða erindi hans og hafi stefnandi því ekki haft svigrúm til að laga aðstöðu sína en það hefði hann getað, hefði athugasemd, fyrirspurn eða ábending borist frá stofnuninni um það tveggja mánaða tímabil, sem synjun hans hafi byggst á. Fari þetta vinnulag stofnunarinnar í bága við skýr ákvæði 7. og 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og hafi það valdið stefnanda réttarspjöllum.
Í skýrslu sinni fyrir dóminum, kvaðst stefnandi hafa fyllt út umsókn um fæðingarorlof undir leiðsögn starfsmanns stefnda að viðstaddri eiginkonu sinni. Hann hafi komið á starfsstöð stefnda í þessu skyni og haft með sér öll gögn um greiðslur, sem hann hafi fengið frá Tryggingamiðstöðinni hf. vegna slyssins og eins frá öðrum, m.a. frá Lífeyrissjóði sjómanna og stefnda. Því hafi þeim starfsmanni stefnda, sem aðstoðaði hann við að fylla út umsóknina verið fullljóst um aðstæður hans og borið að gæta leiðbeiningarskyldu á þann veg sem honum var hagstæðast, þannig að hann yrði ekki fyrir réttarspjöllum. Honum hafi síðar verið boðinn fæðingarstyrkur, sem hann hefði hafnað, enda hefði hann ekki haft geð í sér til að þiggja það vegna þess sem á undan var gengið.
Stefnandi hafi verið í fæðingarorlofi í sex mánuði frá fæðingu barnsins í byrjun febrúar 2003 og ekki notið tekna á því tímabili. Þar sem úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála hafi staðfest ákvörðun stefnda um að synja stefnanda um fæðingarorlofsgreiðslur sé honum nauðugur einn kostur að leita réttar síns fyrir dómstólum.
Til frekari stuðnings kröfum sínum vísar stefnandi til ákvæða laga nr. 95/2000 um fæðingarorlof, sérstaklega 8. og 13. gr. sem og til c. liðar 1. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 909/2000 um greiðslur úr fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks. Enn fremur byggir stefndandi málssókn sína á reglum stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sérstaklega 7. og 9. gr. Kröfu sína um málskostnað byggir stefnandi á 130. gr. laga nr. 91/1991, en vísar til laga nr.. 50/1988 til stuðnings kröfu sinni um greiðslu virðisaukaskatts á tildæmda lögmannsþóknun, enda stundi hann ekki virðisaukaskattsskylda starfsemi og beri því nauðsyn til að fá dóm fyrir skatti þessum úr hendi stefnda.
Málsástæður og lagarök stefnda.
Stefndi mótmælir þeirri fullyrðingu stefnanda, að honum hafi verið veittar rangar upplýsingar hjá ótilgreindum starfsmanni hans, þegar hann sótti um greiðslu fæðingarorlof, m.a. að greiðslur úr lífeyrissjóði jafngiltu launagreiðslum. Stefndi bendir á, að bæklingar liggi frammi í móttöku, sem geri grein fyrir reglum um greiðslu fæðingarorlofs, en auk þess megi nálgast allar upplýsingar um reglur, er lúti að skilyrðum fyrir greiðslu á heimasíðu stofnunarinnar á internetinu. Þessu til viðbótar séu þeir starfsmenn stefnda, sem annist málefni er lúti að fæðingarorlofi og skilyrðum fyrir greiðslu þess, sérstaklega upplýstir um reglur þar að lútandi. Þá bendir stefndi á þá staðreynd, að stefnandi hafi verið metinn 20% öryrki frá 1. desember 2002 og því með skerta vinnuhæfni. Örorkumat stefnanda og bætur, sem honum voru greiddar á grundvelli örorku hans, hafi byggst á þeirri staðreynd, að hann hafi ekki haft getu til að sinna því starfi, sem hann starfaði við, þegar hann slasaðist og því hafi hann ekki látið af starfinu við töku fæðingarorlofs, heldur af öðrum ástæðum. Hann hafi fengið greiddar skaðabætur frá vátryggingafélagi vegna varanlegrar örorku í árslok 2002 og frá stefnda vegna slysamats frá 1. desember 2002.
Stefndi byggir í fyrsta lagi á því, að umsókn stefnanda um greiðslu fæðingarorlofs hafi verið réttilega hafnað og hafi sú ákvörðun stuðst við gildandi lög. Því séu engin skilyrði fyrir því að ógilda þá ákvörðun, eins og krafa stefnanda lúti að.
Ljóst sé, að stefnandi hafi ekki uppfyllt það skilyrði 1. mgr. 13. gr. fol. að hafa verið samfellt í sex mánuði á vinnumarkaði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs og þar af leiðandi hafi ekki verið lagagrundvöllur til að verða við umsókn hans. Við ákvörðun sína um að synja umsókn stefnanda hafi stefndi haft hliðsjón af c-lið 1. mgr. 4. gr. rgl. nr. 909/2000, en ekki hafi verið talið fært að fella tilvik stefnanda undir þar tilgreind skilyrði. Greiðslur til stefnanda á slysadagpeningum hafi lokið í lok nóvembermánaðar 2002 og því hafi stefnandi ekki þegið slíkar greiðslur síðustu tvo viðmiðunarmánuðina fyrir fæðingu barnsins, sem gátu veitt honum 80% rétt til launa úr fæðingarorlofssjóði.
Þá mótmælir stefndi þeirri málsástæðu stefnanda, að óhæfilegur dráttur hafi orðið á afgreiðslu á umsókn hans, enda verði ekki séð að styttri afgreiðslufrestur hefði leitt til betri réttar hans. Afgreiðsla umsóknar um greiðslu fæðingarorlofs þurfi ávallt að byggjast á þeim staðreyndum, sem fram komi í umsókn, en ekki á því, hvernig umsækjandi geti hugsanlega breytt þeim eftir að umsókn sé afhent.
Stefndi bendir enn fremur á þá staðreynd, að stefnandi hefði ekki átt rétt á atvinnuleysisbótum síðustu tvo mánuðina fyrir fæðingu barns hans, þar sem læknisvottorð hafi legið fyrir um að hann væri óvinnufær að hluta í a.m.k.tvo mánuði frá 26. nóvember 2002. Það skilyrði sé sett í 1. gr. laga um atvinnuleysistryggingar nr. 12/1997, að greiðsluþegi sé fullfær til vinnu.
Stefndi byggir einnig á því, að stefnandi geti ekki unnið rétt gagnvart honum þótt hann hafi fengið rangar upplýsingar, sem reyndar sé mótmælt sem ósönnuðum, ef lagaskilyrði séu ekki fyrir hendi.
Af framangreindum forsendum leiði, að hafna beri kröfu stefnanda um ógildingu á þeirri ákvörðun stefnda að synja honum um greiðslu fæðingarorlofs.
Stefndi byggir enn fremur kröfu sína um sýknu á því, að hann hafi ekki uppfyllt skilyrði laga nr. 95/2000 og rgl. nr. 909/2000 til greiðslu á 80% af launum. Stefnandi hafi ekki stundað launaða vinnu eða jafngildi þess síðustu 6 mánuði fyrir fæðingu barns hans, samkvæmt gildandi reglum. Tilgangur laganna um fæðingarorlof sé sá, að gera foreldrum á vinnumarkaði kleift að fara úr launuðum störfum til að sinna barnauppeldi á fyrstu æviárum barns. Því sé það forsenda fyrir greiðslurétti, að foreldri hafi haft launatekjur eða jafngildi þeirra. Hvorugt eigi við um stefnanda, sem hafi verið óvinnufær með öllu allt að tveimur mánuðum fyrir fæðingu barnsins og síðan óvinnufær að hluta nánast fram að fæðingu þess. Auk þess hafi stefnandi þegið bætur frá tryggingafélagi og lífeyrissjóði á þeim grundvelli, enda hafi hann ekki endurheimt að fullu vinnugetu sína. Þeir sem ekki hafi launatekjur eða starfsgetu eigi rétt á greiðslu fæðingarstyrks í stað fæðingarorlofs og það hafi gilt gagnvart stefnanda.
Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. fol. eigi foreldrar rétt til greiðslna úr fæðingarorlofssjóði, eftir að hafa verið sex mánuði í samfelldu starfi og í 2. mgr. 4. gr. áðurnefndrar reglugerðar segi, að sá tími, sem foreldri fái greidda sjúkra- eða slysadagpeninga eða sé á biðtíma eftir þeim, teljist til samfellds starfs. Stefnandi hafi ekki fullnægt þessum skilyrðum. Greiðslur úr lífeyrissjóðum séu ekki ígildi þátttöku á vinnumarkaði og teljist því ekki til samfellds starfs.
Stefndi byggir kröfur sínar á framangreindum lögum og lagaákvæðum, en vísar til 130. gr. laga nr. 91/1991 til stuðnings málskostnaðarkröfu sinni, svo og til laga nr. 50/1988 varðandi kröfu sína um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun.
Niðurstaða:
Ekki er ágreiningur með málsaðilum um málsatvik að öðru leyti en því, að stefndi viðurkennir ekki þá staðhæfingu stefnanda, að honum hafi verið veittar rangar upplýsingar, þegar hann sótti um greiðslu fæðingarorlofs.
Verður nú vikið að þeim lagaákvæðum, sem fjalla um greiðslu fæðingarorlofs og skilyrðum, sem þar eru sett.
Í 1. mgr. 13. gr. fol. segir, að sá sem sækir um greiðslu fæðingarorlofs þurfi að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs. Samhljóða reglu er að finna í 1. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 909/2000.
Í 4. gr. reglugerðarinnar er nánar skilgreint, hvað teljast skuli jafngildi þátttöku á vinnumarkaði. Ákvæðið er svohljóðandi: Með samfelldu starfi er átt við að foreldri hafi verið í a.m.k. 25% starfi í hverjum mánuði á innlendum vinnumarkaði í sex mánuði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs. Til samfellds starfs telst enn fremur: a. orlof eða leyfi samkvæmt lögum, kjarasamningi eða ráðningarsamningi þótt ólaunað sé að hluta eða öllu leyti, b. sá tími sem foreldri fær greiddar atvinnuleysisbætur eða er á biðtíma eftir atvinnuleysisbótum samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar, c. sá tími sem foreldri fær greidda sjúkra eða slysadagpeninga eða er á biðtíma eftir dagpeningum, enda hafi foreldri látið af launuðum störfum af heilsufarsástæðum, d. sá tími sem foreldri nýtur bóta frá tryggingafélagi sem koma í stað launa vegna tímabundins atvinnutjóns af völdum slysa.
Ljóst er, að stefnandi var ekki í a.m.k. 25% samfelldu starfi sex mánuði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs. Slysadagpeningagreiðslur til stefnanda féllu niður í nóvemberlok, þannig að hann uppfyllti aðeins ákvæði c. liðar 4. gr. rgl. hluta þess tíma, sem áskilinn er. Þá var stefnandi ekki í orlofi eða leyfi á þessum tíma, sbr. a. lið 4. gr. en virðist hafa notið bóta frá tryggingafélagi vegna tímabundins atvinnutjóns fyrir tímabilið frá 14. nóvember 2001 til jafnlengdar ársins 2002, sbr. d-lið 4. gr. Greiðsla þeirra bóta uppfyllir því ekki skilyrðið um sex mánaða samfellt starf fyrir töku fæðingarorlofs, sem átti að hefjast í febrúar 2003, en barn stefnanda fæddist 7. þess mánaðar.
Stefnandi byggir á því, að rangar upplýsingar ótilgreinds starfsmanns stefnda hafi valdið því, að hann skráði sig ekki atvinnulausan, en með því hefði hann tryggt réttarstöðu sína til greiðslu fæðingarorlofs. Gegn mótmælum stefnda verður að telja þessa staðhæfingu stefnanda ósannaða. Í þessu sambandi verður einnig að líta til þess, að stefnandi var 20% öryrki a.m.k. í tvo mánuði frá 26. nóvember 2002 að telja, samkvæmt framlögðu læknisvottorði, og því ekki sjálfgefið, að hann uppfyllti skilyrði 6. tl. 2. gr. laga um atvinnuleysisbætur nr. 12 frá 1997, eins og stefndi bendir á. Síðast greint lagaákvæði setur það skilyrði fyrir greiðslu atvinnuleysisbóta, að umsækjandi sé reiðubúinn til að ráða sig til allra almennra starfa. Í því fellst það einnig, að hann sé fær til þess.
Stefndi byggði ákvörðun sína gagnvart stefnanda á þeim upplýsingum, sem fram komu í umsókn hans. Niðurstaða stefnda var í samræmi við þær reglur og lagaheimildir, sem gilda um rétt til greiðslu fæðingarorlofs.
Því þykir rétt með vísan til framangreindra röksemda að hafna kröfu stefnanda um ógildingu ákvörðunar stefnda frá 5. febrúar 2003, um að synja stefnanda um greiðslur í fæðingarorlofi, sem staðfest var af úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála þann 19. júní 2003.
Stefndi á því ekki rétt til greiðslu þeirrar fjárhæðar, sem hann gerir kröfu til úr hendi stefnanda.
Rétt þykir, að hvor málsaðili beri sinn kostnað af málinu.
Stefnandi fékk veitta gjafsókn, eins og áður er getið. Lögmaður stefnanda hefur lagt fram málskostnaðarreikning að fjárhæð 341.752 kr., sem byggður var á tímaskráningu lögmannsins. Gjafsóknarkostnaður stefnanda, sem greiðist úr ríkissjóði, er ákveðinn 310.000 krónur .
Skúli J. Pálmason héraðsdómari kveður upp þennan dóm.
Dómsorð:
Hafnað er kröfu stefnanda, Stefáns Más Péturssonar, um að ógilt verði ákvörðun stefnda, Tryggingastofnunar ríkisins, frá 5. febrúar 2003, sem staðfest var af úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála þann 19. júní 2003, þar sem stefnanda var synjað um greiðslur í fæðingarorlofi.
Málskostnaður fellur niður.
Gjafsóknarkostnaður stefnanda, 310.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.